Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 2. máls.
134. löggjafarþing 2007.
Þskj. 20  —  2. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á ýmsum lögum vegna samnings um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Berglindi Ásgeirsdóttur og Sesselju Sigurðardóttur frá utanríkisráðuneyti, Ragnhildi Arnljótsdóttur og Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur frá félagsmálaráðuneyti, Gissur Pétursson frá Vinnumálastofnun, Hauk Guðmundsson og Bryndísi Helgadóttur frá dómsmálaráðuneyti og Halldór Grönvold frá Alþýðusambandi Íslands. Einnig bárust nefndinni gögn frá utanríkisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti og umsögn frá Alþýðusambandi Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að samningur um þátttöku Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu verði fullgiltur auk þess sem lagt er til að þær breytingar sem gerðar eru á meginmáli EES-samningsins með aðildarsamningnum hafi lagagildi hér á landi. Þá eru lagðar til breytingar á lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks á Evrópska efnahagssvæðinu, lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga vegna þeirra aðlagana sem gerðar voru við ákvæði um frjálsa för launþega, en aðildarríkjum EES-samningsins er heimilt að beita eigin reglum á þessu sviði í tvö ár frá aðild nýju ríkjanna. Þannig er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að ákvæði 1.–6. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1612/68, um frelsi launþega til flutninga innan bandalagsins, ásamt síðari breytingum, taki ekki gildi um atvinnu- og búseturétt ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu fyrr en 1. janúar 2009. Því verður heimilt að fresta frjálsri för launafólks frá þessum ríkjum og fullum aðgangi þeirra að íslenskum vinnumarkaði til 1. janúar árið 2009.
    Meiri hluti nefndarinnar fagnar því starfi sem hefur verið unnið fram til þessa í því skyni að undirbúa komu erlendra ríkisborgara hingað til lands til vinnu. Í því sambandi horfir meiri hlutinn sérstaklega til skýrslu starfshóps um málefni útlendinga á íslenskum vinnumarkaði frá apríl sl. Meiri hlutinn leggur áherslu á að sá tveggja ára aðlögunartími sem frumvarpið gerir ráð fyrir verði vel nýttur til undirbúnings móttöku búlgarskra og rúmenskra ríkisborgara sem kunna að koma hingað til vinnu.
    Meiri hlutinn bendir jafnframt á að í vinnu starfshóps um málefni útlendinga á íslenskum vinnumarkaði kom til umræðu að heppilegt væri að sett verði á fót þjónustumiðstöð stjórnsýslu þar sem útlendingar sem hingað koma gætu fengið fyrirgreiðslu allra sinna mála, hvort sem þau tengdust vinnu eða fjölskyldu- og félagsmálum. Nefndin telur að slíkt fyrirkomulag gæti verið mjög jákvætt og hvetur hlutaðeigandi ráðuneyti og stofnanir til að skoða málið frekar á næstunni.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Alþingi, 6. júní 2007.




Bjarni Benediktsson,


form., frsm.


Árni Páll Árnason.


Ragnheiður E. Árnadóttir.


Ásta R. Jóhannesdóttir.


Siv Friðleifsdóttir.


Guðfinna S. Bjarnadóttir.



Lúðvík Bergvinsson.


Jón Magnússon.