Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 91. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 496  —  91. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um breyt. á l. nr. 116 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá Árna Johnsen.



     1.      Við 1. gr. Greinin orðist svo:
             V. kafli laganna fellur brott.
     2.      Við 2. gr. Greinin orðist svo:
             Ákvæði til bráðabirgða II og 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða IV falla brott.
     3.      Við bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
             Veiðigjald skal ekki lagt á frá og með fiskveiðiárinu 2007/2008 og skal Fiskistofa endurgreiða veiðigjald sem innheimt hefur verið.

Greinargerð.


    Veiðileyfagjald á sjávarútveginn, túlkað sem auðlindagjald, er gróft brot á jafnræðisreglu í innheimtu skatta á landinu, einstæð og einhliða skattheimta á fyrirtæki í sjávarútvegi umfram önnur fyrirtæki landsins. Veiðileyfagjaldið er sérstök skattheimta á landsbyggðina sem greiðir um 85% af skattinum á móti 15% sem höfuðborgarsvæðið greiðir. Á landsbyggðinni búa 35% íbúa landsins og það eru því 35% íbúa sem greiða 85% skattsins. Þegar veiðileyfagjaldið, auðlindaskatturinn, var sett á voru ríkjandi hugmyndir um sambærilega skattheimtu af öðrum auðlindum landsins, en ekkert hefur verið gert í þeim efnum og engin áform um það svo vitað sé. Ætlað er samkvæmt núgildandi lögum að auðlindaskattur sjávarútvegsins verði liðlega einn milljarður króna á árinu 2008. Ef samsvarandi auðlindaskattur væri á önnur fyrirtæki landsins, ætti Orkuveita Reykjavíkur, til að mynda, að borga 810 millj. kr. í auðlindaskatt og Landsvirkjun 1.417 millj. kr. Veiðileyfagjaldið mismunar byggðum landsins. Atvinnusvæði landsins og atvinnugreinar eiga í samkeppni um mannauð og fjármagn. Miðað við auðlindaskatt á árunum 1991–2007 hefði gjaldtakan numið 7 milljörðum kr. aðeins í Suðurkjördæmi, en Suðurkjördæmi greiðir um 30% veiðileyfagjaldsins, hæst hlutfall allra kjördæma. Sjávarbyggðum hefur blætt og blæðir meira með þorskskerðingu. Í atvinnuuppbyggingu hefur ríkið gripið til umdeildrar uppbyggingar í stóriðju og virkjunum og m.a. hefur skattaívilnunum verið beitt. Er eðlilegt að sjávarplássum landsins sé hegnt fyrir það að vinna fisk í stað þess að bræða ál, selja verðbréf eða virkja orku? Þá er það ljóst að aulindaskatturinn leggst þyngst á köldu svæði landsins.
    Áætluð hækkun veiðigjalds er úr 0,91 kr. /kg í 2,42 kr./kg eða 266% milli ára. Slíkt á ekki að gerast í eðlilegu rekstrarumhverfi. Þá veldur það furðu að aðeins eigi að fresta veiðileyfagjaldi af þorski, en ekki öðrum tegundum sem standa veikt, svo sem kolmunna, kolategundum, ufsa og karfa en auk þeirra er veruleg skerðingu á loðnu. Margir vankantar eru á framkvæmd veiðileyfagjaldsins auk þess sem það er valdbeiting gegn einni atvinnugrein umfram aðrar á Íslandi. Gjaldið leggst á aflaheimildir tegunda óháð afkomunni í þeim tegundum. Skattstofninn er aflaverðmæti skipaflotans í heild að frádregnum rekstrarkostnaði. Inn í rekstrarkostnað vantar afskriftir og heildarkostnað af fjármagni. Veiðar utan landhelgi Íslands eru skattlagðar og skattlagning er óháð aflabrögðum eða afkomu í einstökum tegundum.
    Innan greinarinnar er mikil mismunun. 30% af veiðiheimildum í þorski hafa flust til svokallaðra smábáta. Skerðing aflamarksskipa í ýsu frá fiskveiðiárinu 1991/1992 er 15,93% af leyfilegum heildarafla. Mismunun er haldið við með línuívilnun, röngum slægingarstuðlum og byggðakvóta. Á yfirstandandi fiskveiðiári leggja útgerðarfyrirtæki á Suðurlandi fram sem nemur rúmlega 1,1 milljarði kr. vegna svokallaðra potta og línumismununar. Til að mynda varðandi línuveiðar dagróðrabáta sem beita línu í landi og mega landa 16% umfram þann afla sem reiknast til aflamarks þeirra í þorski, ýsu og steinbít. Þá valda rangir slægingarstuðlar því að umframveiði smábáta á fiskveiðiárinu 2005/2006 var 2.300 tonn af þorski og 1.400 tonn af ýsu. Þá hefur byggðakvótinn svokallaði, sem frá upphafi var dæmdur til að mistakast, hækkað úr 0,5% af hlutfalli þorsks í liðlega 2% af þorskafla. Það er bæði réttlátt og sanngjarnt að veiðigjald verði fellt niður, því að það er engin sanngirni í því að sjávarútvegurinn sé skattlagður sérstaklega umfram aðrar greinar í landinu og það er forkastanlegt að ganga með þessum hætti að landsbyggðinni sem á mjög undir högg að sækja miðað við höfuðborgarsvæðið.
    Lagt er til að horfið verði frá þeirri stefnu að innheimta veiðigjald af útgerðum skv. V. kafla laganna og öll ákvæði um veiðigjald felld úr gildi og álagningu og innheimtu veiðigjalds verði hætt frá og með yfirstandandi fiskveiðiári. Þar sem veiðigjald hefur þegar verið lagt á er lagt til að Fiskistofa endurgreiði útgerðum það sem innheimt hefur verið fyrir fiskveiðiárið 2007/2008.