Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 614. máls.

Þskj. 956  —  614. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 3. málsl. b-liðar 2. mgr. 16. gr. laganna skal örorkulífeyrisþegi á tímabilinu 1. júlí 2008 til 1. janúar 2009 geta valið um að hafa 100.000 kr. frítekjumark á mánuði vegna atvinnutekna eða telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Alþingi samþykkti á yfirstandandi þingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum, sbr. lög nr. 17/2008. Þar var kveðið á um margvíslegar breytingar á greiðslum í þágu aldraðra og öryrkja í samræmi við tillögur verkefnisstjórnar félags- og tryggingamálaráðherra sem ríkisstjórnin gerði grein fyrir í yfirlýsingu 5. desember 2007. Í hinum nýsamþykktu lögum er m.a. kveðið á um að frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega á aldrinum 67–70 ára verði hækkað úr rúmlega 27.000 kr. í 100.000 kr. á mánuði frá og með 1. júlí 2008. Megintilgangur þess að hækka frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega er að stuðla að aukinni atvinnuþátttöku og gera ellilífeyrisþegum kleift að afla sér aukinna tekna af atvinnu án þess að bætur frá Tryggingastofnun ríkisins skerðist. Í greinargerð með frumvarpi því er Alþingi samþykkti og orðið er að lögum kom fram að framkvæmdanefnd forsætisráðherra um endurskoðun örorkumats og eflingu starfsendurhæfingar ynni að tillögum um framkvæmd sem ætlað væri að ná svipuðum markmiðum hvað varðar örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega og hvetja einstaklinga til vinnu. Fram kom að slíkar tillögur sem miði að því að tryggja örorkulífeyrisþegum 100.000 kr. frítekjumark vegna atvinnutekna eða ígildi þess yrðu síðar lagðar fyrir Alþingi.
    Þar sem fyrir liggur að framkvæmdanefnd forsætisráðherra vinnur nú að endurskoðun örorkumats og eflingu starfsendurhæfingar og niðurstöður þeirrar vinnu munu ekki liggja fyrir fyrr en síðla árs er með frumvarpi þessu lagt til að í ákvæði til bráðabirgða við lög um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum, verði frítekjumark örorkulífeyrisþega hækkað til samræmis við hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega á aldrinum 67–70 ára, eða í 100.000 kr. á mánuði. Ef miðað er við heilt ár er viðmiðunin því 1.200.000 kr. í stað 327.000 kr. frítekjumarks á ári samkvæmt gildandi lögum. Lagt er til að hækkunin öðlist gildi 1. júlí 2008 og gildi til bráðabirgða þangað til endurskoðað örorkumatskerfi hefur öðlast gildi en miðað er við að það verði 1. janúar 2009. Ætla má að hækkun frítekjumarksins muni leiða til aukinnar atvinnuþátttöku örorkulífeyrisþega og hafa þannig í för með sér hærri tekjur þeim til handa. Öryrkjabandalag Íslands hefur lagt áherslu á hækkun frítekjumarks í baráttunni fyrir bættum kjörum öryrkja og virkri þátttöku þeirra í samfélaginu og er þessi breyting í samræmi við þær áherslur. Breytingin er jafnframt í samræmi við þau markmið sem hugmyndir örorkumatsnefndar um starfshæfnismat og starfsendurhæfingu byggjast á. Í ljósi fyrirhugaðra breytinga á örorkulífeyriskerfinu með áherslu á starfshæfnismat og starfsendurhæfingu mun hækkun frítekjumarks örorkulífeyrisþega aðeins gilda til bráðabirgða þar til nýtt kerfi með nýjar viðmiðunarreglur hefur verið tekið upp. Mikilvægt er að svo sé til þess að nýjar aðgerðir hefti ekki starf og bindi ekki hendur þess starfshóps sem nú starfar að því að byggja upp nýtt örorkulífeyriskerfi. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins voru liðlega 30% örorkulífeyrisþega með launatekjur eða reiknað endurgjald í desember 2007 eða um 4.600 einstaklingar. Samkvæmt útreikningum stofnunarinnar má áætla að þar af muni um 2.650 einstaklingar hafa ávinning af hækkun frítekjumarks á atvinnutekjur í 100.000 kr. á mánuði. Ekki er unnt að áætla fyrir fram þann fjölda sem mun nýta sér nýjar viðmiðunarreglur varðandi frítekjumark á atvinnutekjur, en þess má vænta að talsvert fjölmennur hópur örorkulífeyrisþega nýti sér þetta tækifæri til þess að feta sig á ný út á vinnumarkaðinn. Breytingin mun því fela í sér aukin tækifæri til handa örorkulífeyrisþegum með þeim auknu lífsgæðum sem þátttaka á vinnumarkaði felur í sér fyrir lífeyrisþegana sjálfa og samfélagið í heild.
    Í samræmi við framangreint er lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið er á um að þrátt fyrir ákvæði 3. málsl. b-liðar 2. mgr. 16. gr. laganna skuli örorkulífeyrisþegi á tímabilinu 1. júlí 2008 til 1. janúar 2009 geta valið um að hafa 100.000 kr. frítekjumark á mánuði vegna atvinnutekna eða telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar. Felur ákvæðið í sér að á umræddu tímabili geti örorkulífeyrisþegi aflað atvinnutekna allt að 600.000 kr. án þess að þær skerði tekjutryggingu en samkvæmt núgildandi ákvæði skerða tekjur umfram 327.000 kr. á ársgrundvelli tekjutryggingu. Þann 1. janúar 2009 er síðan gert ráð fyrir að nýtt örorkumatskerfi hafi öðlast gildi og komi í stað þessa frítekjumarks.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar,
nr. 100/2007, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er frítekjumark vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega hækkað úr 25 þús. kr. á mánuði í 100 þús. kr. á mánuði. Ákvæðið er til bráðabirgða og tekur gildi 1. júlí 2008 og gildir út árið. Hækkun á frítekjumarki atvinnutekna mun leiða til þess að greiðslur úr almannatryggingum munu hækka hjá mörgum örorkulífeyrisþegum sem eru með atvinnutekjur. Óljóst er hvort aukið frítekjumark muni leiða til þess að örorkulífeyrisþegar auki atvinnuþátttöku sína.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum munu útgjöld ríkissjóðs aukast um 200 m.kr. á árinu 2008.