Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 618. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1216  —  618. mál.




Svar



félags- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Pauls Nikolovs um aðgerðir gegn kynbundnum launamun.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur ríkisstjórnin í hyggju að verja fé til þess að útrýma kynbundnum launamun eins og norska ríkisstjórnin hefur nú boðað og beita svipuðum aðgerðum til þess? Ef ekki, hvernig hyggst ríkisstjórnin tryggja að á næstu árum verði þessum launamun útrýmt hérlendis?

    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. maí 2007 er kveðið á um að gerð verði áætlun um að minnka óútskýrðan kynbundinn launamun hjá ríkinu og stefnt að því að hann minnki um helming fyrir lok kjörtímabilsins. Þá segir jafnframt að ríkisstjórnin vilji koma á samvinnu aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera um að leita leiða til að eyða þessum launamun á almennum vinnumarkaði.
    Í samræmi við framangreind markmið ríkisstjórnarinnar voru þegar á síðastliðnu ári skipaðir þrír vinnuhópar, tveir á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins og einn á vegum fjármálaráðuneytisins, til þess að fylgja eftir ákvæðum stefnuyfirlýsingarinnar um að vinna markvisst gegn kynbundnum launamun.
    Félags- og tryggingamálaráðherra skipaði Jón Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra og fyrrverandi forstjóra Norræna Fjárfestingabankans, formann starfshóps sem fékk það verkefni að leita leiða til að eyða óútskýrðum launamun kynjanna á almennum vinnumarkaði sem og að jafna stöðu kvenna og karla í nefndum og við stjórnun stofnana og fyrirtækja. Starfshópurinn skal vinna tillögur og hrinda í framkvæmd þeim aðgerðum sem líklegastar þykja til árangurs. Í starfshópnum eiga sæti:
          Jón Sigurðsson, skipaður af félags- og tryggingamálaráðherra, formaður,
          Margrét Kristmannsdóttir, skipuð af félags- og tryggingamálaráðherra,
          Gunnar Björnsson, tilnefndur af fjármálaráðuneyti,
          Guðlaugur Stefánsson, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins,
          Maríanna Traustadóttir, tilnefnd af Alþýðusambandi Íslands.
    Félags- og tryggingamálaráðherra skipaði jafnframt Láru V. Júlíusdóttur hæstaréttarlögmann formann sjö manna ráðgjafarhóps sem hefur það hlutverk að vera ráðherra til ráðgjafar um framvindu aðgerða gegn kynbundnum launamun og að vinna eða láta vinna mat á raunverulegum árangri aðgerða.
    Í ráðgjafarhópnum eiga sæti:
          Lára V. Júlíusdóttir, skipuð af félags- og tryggingamálaráðherra, formaður,
          Jón Gunnar Bernburg, tilnefndur af Háskóla Íslands,
          Lilja Mósesdóttir, tilnefnd af Háskólanum á Bifröst,
          Þorlákur Karlsson, tilnefndur af Háskólanum í Reykjavík,
          Kristín Ástgeirsdóttir, tilnefnd af Jafnréttisstofu,
          Hildur Jónsdóttir, tilnefnd af Jafnréttisráði,
          Þorbjörg I. Jónsdóttir, tilnefnd af Kvenréttindafélagi Íslands.
    Fjármálaráðherra skipaði jafnframt hóp sem vinnur að verkefnum tengdum opinberum vinnumarkaði. Meginverkefni þess hóps er að setja fram áætlun um að minnka óútskýrðan launamun kynjanna á opinberum vinnumarkaði með það að markmiði að hann minnki um helming á kjörtímabilinu sem og að endurmeta kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meirihluta. Formaður starfshópsins er Ólöf Nordal alþingismaður og aðrir sem í honum eiga sæti eru:
          Halldóra Friðjónsdóttir, formaður BHM, tilnefnd af Bandalagi háskólamanna,
          Helga Jónsdóttir, framkvæmdastjóri BSRB, tilnefnd af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja,
          Dóróthea Jóhannsdóttir hagfræðingur, tilnefnd af launanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga,
          Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður, tilnefnd af Félagi forstöðumanna ríkisstofnana,
          Steinunn Valdís Óskarsdóttir alþingismaður, tilnefnd af félags- og tryggingamálaráðuneytinu.
    Formenn hópanna þriggja mynda jafnframt samráðsvettvang hópanna þriggja sem fulltrúi félags- og tryggingamálaráðherra kallar saman að ósk ráðherra. Samráðsvettvangurinn skal samhæfa starf hópanna þriggja og fara yfir tillögur þeirra.
    Hóparnir þrír hafa unnið ötullega að verkefnum sínum undanfarna mánuði og forsætisráðherra, utanríkisráðherra, fjármálaráðherra og félags- og tryggingamálaráðherra hafa fundað með formönnum hópanna og metið með þeim stöðu mála. Fyrir liggur að hóparnir munu haustið 2008 skila ráðherrunum áfanganiðurstöðum og tillögum um verkáætlun sem unnið verður eftir út kjörtímabil ríkisstjórnarinnar. Þær niðurstöður og tillögur verða jafnframt kynntar á jafnréttisþingi sem haldið verður í haust skv. 10. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Hóparnir hafa þegar látið vinna ýmsa sérfræðivinnu en heildarkostnaður aðgerða liggur ekki fyrir á þessu stigi.
    Auk framangreinds ber að geta þess að í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, sem samþykkt voru á Alþingi 6. mars síðastliðinn eru ákvæði sem varða launajafnrétti styrkt með það að markmiði að draga úr kynbundnum launamun. Þá er kveðið á um að félags- og tryggingamálaráðherra skuli sjá til þess að þróað verði sérstakt vottunarkerfi á framkvæmd stefnu um launajafnrétti og framkvæmd stefnu um jafnrétti við ráðningar og uppsagnir í samvinnu við samtök aðila vinnumarkaðarins. Verkefninu skal lokið fyrir 1. janúar 2010. Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur þegar átt samráðsfundi með aðilum vinnumarkaðarins um framangreint verkefni og ákveðið hefur verið í hvaða farvegi málið verður unnið á næstu missirum.