Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 80. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 81  —  80. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.

Frá meiri hluta viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jónínu S. Lárusdóttur og Áslaugu Árnadóttur frá viðskiptaráðuneyti, Jónas Fr. Jónsson og Ragnar Hafliðason frá Fjármálaeftirlitinu, Tryggva Herbertsson frá forsætisráðuneyti, Davíð Oddsson og Sigríði Logadóttur frá Seðlabanka Íslands, Guðjón Rúnarsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Eirík Tómasson prófessor frá Háskóla Íslands, Þórð Friðjónsson frá Kauphöll Íslands, Harald Birgisson, Frosta Ólafsson og Finn Oddsson frá Viðskiptaráði Íslands, Hrafn Magnússon og Arnar Sigurmundsson frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Gylfa Arnbjörnsson frá ASÍ, Helgu Jónsdóttur og Sonju Ýr Þorbergsdóttur frá BSRB, Guðmund Bjarnason og Ívar Ragnarsson frá Íbúðalánasjóði, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins og Ernu Guðmundsdóttur frá BHM og Kennarasambandi Íslands.
    Með frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að við sérstakar aðstæður verði fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að leggja fram fjármagn til að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki eða þrotabú þess í heild eða hluta. Í öðru lagi er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að ríkissjóður geti við vissar aðstæður lagt sparisjóðum til fjárframlag sem nemur allt að 20% af bókfærðu eigin fé. Sama gildi um sparisjóði sem búið er að hlutafjárvæða.
    Lagt er til að Fjármálaeftirlitinu verði fengnar víðtækar heimildir til að grípa inn í starfsemi fjármálafyrirtækja og bregðast við vegna sérstakra aðstæðna eða atvika, í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði, að boða til hluthafafundar eða fundar stjórnar auk þess sem gerðar eru breytingar á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi. Loks er lagt til að Íbúðalánasjóði verði heimilað að yfirtaka húsnæðislán fjármálafyrirtækja.
    Eftir umræður nefndarinnar hefur meiri hlutinn komið sér saman um eftirfarandi breytingar við frumvarp þetta. Lagt er til að 1. mgr. verði breytt á þann hátt að skýrlega sé tekið fram að ekki verði gripið til ráðstafana skv. lögunum nema við sérstakar og mjög óvenjulegar aðstæður á fjármálamarkaði. Þá er einnig lagt til að tenging milli 1. og 2. mgr. 1. gr. verði skýrari með því að vísa í 2. mgr. til hugtaksins sérstakra og óvenjulegra aðstæðna á fjármálamarkaði sem fram kemur í 1. mgr.
    Nefndin ræddi um viðskipti með stofnfjárbréf í 2. gr. frumvarpsins og leggur til að Fjármálaeftirlitinu verði heimilt að setja nánari reglur um viðskipti með stofnbréf.
    Einnig er bætt við nýrri málsgrein í 5. gr. þannig að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að skipa fimm manna skilanefnd sem fari með allar heimildir stjórnar fjármálafyrirtækis sem vikið hefur verið frá.
    Þá eru lagðar til breytingar sem tryggja að allur lífeyrissparnaður á innstæðuformi falli undir ákvæði laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999.
    Einnig leggur meiri hlutinn til að Íbúðalánasjóði verði heimilt að kaupa eða endurfjármagna skuldabréf fjármálafyrirtækja sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði og að ráðherra verði heimilt að mæla nánar fyrir um slíka yfirfærslu lána í reglugerð. Nefndin ræddi einnig nokkuð um lagaheimildir Íbúðalánasjóðs til skuldbreytinga á lánum og telur nauðsynlegt að kveðið verði skýrt á um að yfirtekin eða keypt lán skv. V. kafla frumvarpsins falli undir heimild til skuldbreytingar sem kveðið er á um í 48. gr. laga um húsnæðismál. Með þessu telur nefndin tryggt að heimilt verði að skuldbreyta keyptum eða yfirteknum lánum einstaklinga sem lenda í greiðsluerfiðleikum.
    Að lokum ræddi nefndin um nauðsyn þess að lög þessi verði endurskoðuð og leggur til í ákvæði til bráðabirgða að þau skuli endurskoðuð fyrir 1. janúar 2010.
    Nefndin leggur áherslu á að ákvæði frumvarpsins eru hugsuð sem neyðarráðstöfun og því þurfi ráðherra að leita staðfestingar þingsins. Leggur nefndin áherslu á mikilvægi þess að verði heimildin notuð skuli fjárlaganefnd Alþingis upplýst jafnharðan um ráðstafanir.
    Nefndin telur að í ljósi þessara sérstöku aðstæðna sem skapast hafa á innlendum sem og alþjóðlegum mörkuðum sé heimilt að grípa til svo róttækra aðgerða sem hér eru lagðar til og koma með því í veg fyrir keðjuverkandi áhrif á fjármálamarkaðinn og íslenskt hagkerfi. Leggur nefndin áherslu á að hér er umfram allt verið að tryggja hagsmuni hins almenna borgara og skapa skilyrði fyrir stöðugleika í efnahagslífinu.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Alþingi, 6. okt. 2008.



Ágúst Ólafur Ágústsson,


form., frsm.


Guðfinna S. Bjarnadóttir.


Jón Gunnarsson.



Björk Guðjónsdóttir.


Birgir Ármannsson.


Lúðvík Bergvinsson.



Birkir J. Jónsson,


með fyrirvara.


Höskuldur Þórhallsson,


með fyrirvara.



Fylgiskjal I.


Umsögn félags- og tryggingamálanefndar.

    Félags- og tryggingamálanefnd hefur borist erindi frá viðskiptanefnd þar sem óskað er álits nefndarinnar á þeim þáttum sem snúa að málefnasviði félags- og tryggingamálanefndar í 80. máli, frumvarpi til laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.
    Nefndin tók til umfjöllunar V. kafla frumvarpsins þar sem lagðar eru til breytingar á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, þess efnis að Íbúðalánasjóði verði heimilt að yfirtaka húsnæðislán með kaupum á skuldabréfum sem teljast til hefðbundinna íbúðalána af fjármálafyrirtækjum. Nefndin fékk á sinn fund Guðmund Bjarnason og Ívar Ragnarsson frá Íbúðalánasjóði og Áslaugu Árnadóttur og Jónínu S. Lárusdóttur frá viðskiptaráðuneyti.
    Nefndin leggur áherslu á að heimildin sé hluti af nauðsynlegum aðgerðum til að tryggja stöðu lánþega íbúðalána. Nefndin leggur enn fremur áherslu á tryggt verði að Íbúðalánasjóður geti áfram sinnt hlutverki sínu samkvæmt lögum um húsnæðismál og að landsmenn geti áfram búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum. Jafnframt leggur nefndin áherslu á staða sjóðsins verði áfram tryggð og að ríkissjóður tryggi Íbúðalánasjóði nægilegt fjármagn til að sinna lögbundnu hlutverki sínu.
    Fram kom í nefndinni mikilvægi þess að í reglugerð séu útfærð ýmis atriði sem varða hámarksveðsetningu, vaxtakjör og mynt íbúðalána.
    Nefndin telur að gera þurfi breytingu þess efnis að 48. gr. laga um húsnæðismál eigi einnig um yfirtekin lán samkvæmt hinni nýju heimild.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins.
    Jón Bjarnason, sem sat fundinn fyrir Ögmund Jónasson, gerir fyrirvara við frumvarpið í heild sinni.
    Ólöf Nordal sat fundinn fyrir Pétur H. Blöndal, Karl V. Matthíasson sat fundinn fyrir Ástu R. Jóhannesdóttur og Bjarni Harðarson sat fundinn fyrir Birki J. Jónsson.

Alþingi 6. okt. 2008.

Guðbjartur Hannesson, form.,
Ármann Kr. Ólafsson,
Karl V. Matthíasson,
Árni Johnsen,
Ólöf Nordal,
Bjarni Harðarson,
Kristinn H. Gunnarsson,
Jón Bjarnason, með fyrirvara.




Fylgiskjal II.


Umsögn efnahags- og skattanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jónínu S. Lárusdóttur og Áslaugu Árnadóttur frá viðskiptaráðuneyti, Davíð Oddsson og Sigríði Logadóttur frá Seðlabanka Íslands, Jónas Jónsson, Ragnar Hafliðason og Tryggva Herbertsson f.h. Fjármálaeftirlitsins og Guðjón Rúnarsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Nefndin ræddi einstaka efnisþætti frumvarpsins ásamt þeim gestum sem á fund hennar komu.
    Nefndin leggur til að viðskiptanefnd afgreiði frumvarpið. Ögmundur Jónasson, Katrín Jakobsdóttir og Magnús Stefánsson hafa fyrirvara við málið í heild sinni.
    Grétar Mar Jónsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og gerir fyrirvara við málið í heild sinni.

Alþingi, 6. okt. 2008.



Pétur H. Blöndal, form.,
Ellert B. Schram,
Ögmundur Jónasson, með fyrirvara,
Bjarni Benediktsson,
Gunnar Svavarsson,
Magnús Stefánsson, með fyrirvara,
Katrín Jakobsdóttir, með fyrirvara,
Rósa Guðbjartsdóttir,
Árni Páll Árnason.