Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 185. máls.

Þskj. 228  —  185. mál.
Prentað upp.

    Texti felldur brott.





Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995,
og lögum um gatnagerðargjald, nr. 153/2006,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




I. KAFLI

Breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga,
nr. 4/1995, með síðari breytingum.

1. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðbirgða, er orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 7. gr. fylgir fasteignaskatti vegna áranna 2009 og 2010 lögveð í fasteign þeirri sem hann er lagður á og skal hann, ásamt dráttarvöxtum í fjögur ár frá gjalddaga, ganga fyrir öllum öðrum veðkröfum er á eigninni hvíla.

II. KAFLI

Breytingar á lögum um gatnagerðargjald,

nr. 153/2006, með síðari breytingum.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „30 daga“ í 1. og 2. málsl. kemur: 90 daga.
     b.      3. málsl. fellur brott.

3. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „31. desember 2009“ í 1. tölul. ákvæðis til bráðabirgða kemur: 31. desember 2012.

4. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðbirgða, er orðast svo:
    Endurgreiðsla gatnagerðargjalda vegna lóða sem úthlutað var eða byggingarleyfi var veitt á fyrir gildistöku laga þessara skal verðbætt miðað við vísitölu neysluverðs frá greiðsludegi til endurgreiðsludags.

III. KAFLI

Gildistaka.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Hinn 10. október sl. undirrituðu samgönguráðherra og formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga yfirlýsingu um aukið samstarf vegna stöðu efnahagsmála. Um það var fjallað á fundi sem stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga gekkst fyrir um efnahagsvandann hinn 17. október sl. Í framhaldi af fundinum hafa fulltrúar samgönguráðuneytisins annars vegar og fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga hins vegar fjallað um það hvernig hægt sé að koma til móts við sjónarmið sveitarfélaganna um sérstakar ráðstafanir til að mæta gerbreyttri stöðu í efnahagsmálum þjóðarinnar. Að mörgu er að huga, t.d. hefur reglugerð um eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga verið breytt á þann veg að fjárhagsáætlanir sem settar eru fram með halla á árinu 2009 kalla ekki sjálfkrafa á eftirlitsúrræði nefndarinnar. Skoða verður slíka framsetningu fjárhagsáætlunar með hliðsjón af öðrum þáttum í rekstri viðkomandi sveitarfélaga. Fleiri ráðstafanir hafa einnig verið til skoðunar til að tryggja að grunnþjónusta hins opinbera skerðist ekki þrátt fyrir tekjusamdrátt og kostnaðarhækkanir. Á grundvelli yfirlýsingarinnar hafa fulltrúar ráðuneytisins og sambandsins átt tíða samráðsfundi þar sem m.a. hefur verið fjallað um fjárhagsstöðu og rekstrarhorfur sveitarfélaga og ræddar leiðir til að aðstoða sveitarfélögin við gerð fjárhagsáætlana fyrir komandi ár.
    Frumvarp þetta er liður í því að skapa betri rekstrarlegar forsendur fyrir sveitarfélög til að mæta þeim tímabundnu erfiðleikum sem ríkja í efnahagsmálum þjóðarinnar. Með frumvarpinu fá sveitarfélögin aukið svigrúm til þess að mæta breyttum rekstrar- og fjármálaforsendum. Jafnframt er frumvarpi þessu ætlað að auðvelda sveitarfélögum að aðstoða þá íbúa sína sem eiga í greiðsluerfiðleikum, þannig að sveitarfélög geti sýnt aukinn sveigjanleika við innheimtu.
    Frumvarpið sem hér er lagt fram felur í sér að lagt er til að breytt verði tvennum lögum er varða sveitarfélögin, annars vegar lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, og hins vegar lögum um gatnagerðargjald, nr. 153/2006.
    Í fyrsta lagi er lagt til að lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, verði breytt á þann veg að lögveðsréttur fasteignaskatts vegna áranna 2009 og 2010 gildi í fjögur ár í stað tveggja. Breytingin skapar aukið svigrúm fyrir sveitarfélög til að semja við fasteignaeigendur sem eiga í greiðsluerfiðleikum um skil á fasteignaskatti þar sem tímafrestur varðandi lögveðið er rýmri heldur en almenna reglan segir til um. Sveitarfélög eiga þar af leiðandi síður á hættu að lögveðsréttur vegna slíkrar kröfu glatist þótt samið sé um rúman greiðslufrest.
    Í öðru lagi er lagt til að lögum um gatnagerðargjald, nr. 153/2006, verði breytt með þeim hætti, að frestur sveitarfélags til þess að endurgreiða gatnagerðargjald verði lengdur úr 30 dögum í 90 daga. Jafnframt er lagt til að ákvæði sem kveður á um að endurgreiðslufjárhæð gatnagerðargjaldsins skuli verðbætt taki einungs til þeirra lóða sem þegar hefur verið úthlutað. Í viðræðum við samgönguráðuneytið lagði Samband íslenskra sveitarfélaga mikla áherslu á að komið yrði til móts við sveitarfélög landsins og verðtryggingarákvæði 9. gr. yrði fellt niður. Byggðist sjónarmið sambandsins á því að vegna þeirra erfiðleika sem nú ríkja í efnahagsmálum þjóðarinnar stæðu mörg sveitarfélög frammi fyrir því að fjölda lóða sem þegar hefði verið úthlutað yrði væntanlega skilað inn og óskað endurgreiðslu gatnagerðargjalda. Kröfur um verðtryggða endurgreiðslu gatnagerðargjalda hafa þegar haft gríðarleg áhrif á lausafjárstöðu margra sveitarfélaga. Þeim er því illmögulegt að standa skil á frekari endurgreiðslum innan þess knappa tímafrests sem kveðið er á um í lögum um gatnagerðargjald. Með breytingunni er lagt til að verðtryggingarákvæði 9. gr. falli brott en engu að síður lagt til í bráðabirgðaákvæði að það haldi gildi sínu hvað varðar endurgreiðslu vegna þeirra lóða sem úthlutað hefur verið eða byggingarleyfi veitt á fyrir gildistöku laganna. Byggist það á sjónarmiðum um bann við afturvirkni laga og þeim réttmætu væntingum sem þeir aðilar sem þegar hafa fengið úthlutað lóðum mega hafa en annað fyrirkomulag væri afar íþyngjandi fyrir þá.
    Í þriðja lagi er lagt til að bráðabirgðaákvæði laga um gatnagerðargjald, nr. 153/2006, breytist með þeim hætti að það gildi til ársloka 2012 í stað ársloka 2009 eins og nú er. Með því gefst þeim sveitarfélögum sem enn eiga eftir að ljúka gatnagerð á grundvelli eldri laga kostur á að laga framkvæmdahraða að efnahagsástandinu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í ljósi þess efnahagsástands sem nú ríkir þykir ekki rétt að sveitarfélög landsins gangi fram af hörku við innheimtu fasteignaskatts. Því er lagt til að við lög um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þess efnis að lögveðsréttur sveitarfélaga vegna fasteignaskatts sem lagður er á á árunum 2009 og 2010 gildi í fjögur ár frá gjalddaga í stað tveggja ára.
    Með breytingunni skapast aukið svigrúm fyrir sveitarfélög til að semja við fasteignaeigendur sem eiga í greiðsluerfiðleikum um skil á fasteignaskatti án þess að sveitarfélagið eigi á hættu að lögveðsrétturinn glatist, en í honum felst mikilvægt hagræði fyrir sveitarfélögin. Möguleiki á samningum hefur einnig í för með sér að skuldari þarf ekki að greiða þann kostnað sem hlytist af nauðungarsöluferlinu sem sveitarfélög þyrftu annars að ráðast í til þess að viðhalda lögveðréttinum. Ljóst er að breytingin hefur áhrif á réttarstöðu síðari veðhafa að því leyti að réttur þeirra getur rýrnað. Í flestum tilvikum verða þau áhrif þó óveruleg. Því er lagt til að breytingin taki einungis til fasteignaskatts vegna áranna 2009 og 2010, auk dráttarvaxta vegna þeirra gjalda enda er ákvæðið einungis hugsað til þess að bregðast við þeim tímabundnu erfiðleikum sem nú ríkja í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Um 2. gr.

    Í 9. gr. gildandi laga um gatnagerðargjald segir að sveitarfélagi beri að endurgreiða gatnagerðargjald innan 30 daga ef lóðarúthlutun er afturkölluð eða ógilt eða lóð er skilað. Sama gildir um gatnagerðargjald sem lagt hefur verið á í tengslum við samþykkt byggingarleyfis, sbr. b-lið 2. mgr. 3. gr. laganna, en í þeim tilvikum skal endurgreiða gatnagerðargjaldið innan 30 daga frá því að byggingarleyfishafi hefur sannanlega krafist greiðslu.
    Ákvæði 9. gr. er afar íþyngjandi fyrir sveitarfélögin vegna þeirra breyttu aðstæðna sem nú ríkja í rekstrar- og fjármálum sveitarfélaga landsins. Leiða má að því líkur að lausafjárstaða sveitarfélaga sé slík að það geti reynst þeim afar erfitt að bregðast við kröfu um endurgreiðslu gatnagerðargjalda á svo skömmum tíma sem ákvæðið kveður á um eða einungis 30 dögum. Með breytingunni fá sveitarfélög rýmri tíma, 90 daga, til þess að endurgreiða gjaldið en ákvæðið á eingöngu við þegar úthlutun lóðar er afturkölluð eða ógilt, lóð er skilað eða hætt er við framkvæmdir samkvæmt útgefnu byggingarleyfi.
    Samkvæmt 9. gr. gildandi laga skal fjárhæð gatnagerðargjalds sem greidd var verðbætt miðað við vísitölu neysluverðs frá greiðsludegi til endurgreiðsludags. Með breytingunni er lagt til að fyrrgreint verðtryggingarákvæði falli brott.

Um 3. gr.

    Í frumvarpinu er lagt til bráðabirgðaákvæðið gildi til ársloka 2012 í stað ársloka 2009 eins og nú er. Með því gefst þeim sveitarfélögum sem enn eiga eftir að ljúka gatnagerð á grundvelli eldri laga kostur á að laga framkvæmdahraða að efnhagsástandinu.

Um 4. gr.

    Samkvæmt 3. málsl. 9. gr. gildandi laga um gatnagerðargjald skal fjárhæð gatnagerðargjalds sem er endurgreidd verðbætt miðað við vísitölu neysluverðs frá greiðsludegi til endurgreiðsludags. Í bráðabirgðaákvæðinu er verðtrygging endurgreiðslunnar eins og hún er í 3. málsl. 9. gr. látin halda sér vegna lóða sem úthlutað var eða byggingarleyfi var veitt á fyrir gildistöku frumvarps þessa. Byggist það á sjónarmiðum um afturvirkni laga og þeim réttmætu væntingum sem þeir aðilar sem þegar hafa fengið úthlutað lóðum eða byggingarleyfi verið veitt á mega hafa en annað fyrirkomulag væri afar íþyngjandi fyrir þá.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, og lögum um gatnagerðargjald, nr. 153/2006, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er sveitarfélögum skapað aukið svigrúm til að mæta breyttum rekstrar- og fjármálaforsendum auk þess að skapa betri rekstrarlegar forsendur til að mæta tímabundnum erfiðleikum sem ríkja í efnahagsmálum þjóðarinnar. Í fyrsta lagi er lagt til að lögum um tekjustofna sveitarfélaga verði breytt á þann veg að lögveðsréttur fasteignaskatts vegna áranna 2009 og 2010 gildi í fjögur ár í stað tveggja. Í öðru lagi er lagt til að lögum um gatnagerðargjald verði breytt með þeim hætti að frestur sveitarfélags til þess að endurgreiða gatnagerðargjald verði lengdur úr 30 dögum í 90 daga. Í þriðja lagi er svo lagt til að bráðabirgðaákvæði laga um gatnagerðargjald breytist með þeim hætti að það gildi til ársloka 2012 í stað ársloka 2009 eins og nú er.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.