Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 189. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 233  —  189. mál.




Nefndarálit



við frv. til l. um breyt. á l. nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jónínu S. Lárusdóttur, Jón Þór Sturluson og Þóru Margréti Hjaltested frá viðskiptaráðuneytinu, Sigríði Logadóttur og Tómas Örn Kristjánsson frá Seðlabanka Íslands, Ragnar Hafliðason og Árna Huldar Sveinbjörnsson frá Fjármálaeftirlitinu, Högna Kristjánsson og Sesselju Sigurðardóttur frá utanríkisráðuneytinu, Björn Rúnar Guðmundsson frá forsætisráðuneytinu, Gylfa Arnbjörnsson frá ASÍ, Vilhjálm Egilsson frá Samtökum atvinnulífsins, Eddu Rós Karlsdóttur hagfræðing, Ásgeir Jónsson hagfræðing og Ingólf Bender hagfræðing.
    Tilgangur frumvarpsins er að stuðla að stöðugleika á gengi íslensku krónunnar, draga úr hættu á óeðlilegri gengislækkun og tilheyrandi erfiðleikum fyrir þjóðarbúið í heild. Fram kom hjá nefndinni að með frumvarpinu væri ætlað að leiða í lög þær hömlur á gjaldeyrisviðskiptum sem leiða af sameiginlegri áætlun ríkisstjórnar, Seðlabanka og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um efnahagsmál. Í frumvarpinu felst að gjaldeyrishöftum, öðrum en þeim er tengjast viðskiptum með vöru og þjónustu, verði viðhaldið með þeim hætti sem kemur fram í frumvarpinu. Frumvarpið er því mikilvægur liður í heildaráætlun til að koma auknu jafnvægi á íslenskt hagkerfi.
    Meginefni frumvarpsins varðar heimildir til handa Seðlabanka Íslands til að takmarka gjaldeyrisviðskipti tímabundið vegna fjármagnsviðskipta. Koma heimildirnar til viðbótar þeim úrræðum sem bankinn hefur til að stemma stigu við útflæði fjármagns þegar möguleikar á gjaldeyrisviðskiptum aukast. Tekið er fram að aðgerðirnar beinast ekki að vöru- og þjónustuviðskiptum heldur fyrst og fremst að gjaldeyrisviðskiptum sem standa í tengslum við fjármagnsviðskipti. Í raun afléttir frumvarpið núverandi höftum af vöru- og þjónustuviðskiptum og fagnar meiri hluti nefndarinnar því.
    Stofnunum Evrópska efnahagssvæðisins verður tilkynnt um þessa ráðstöfun í samræmi við ákvæði EES-samningsins. Er það mat stjórnvalda að aðgerðir sem frumvarpið kveður á um rúmist því innan heimilda 43. gr. EES-samningsins.
    Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að 3. gr. laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, veiti heimild til að takmarka tiltekna flokka fjármagnsflutninga. Heimildin er tímabundin og einskorðuð við skammtímahreyfingar fjármagns en er ekki talin duga til að sporna við útflæði fjármagns við ríkjandi aðstæður. Þess vegna þarf að leiða í lög fyllri lagaákvæði um þetta efni.
    Þá eru í frumvarpinu ákvæði um viðurlagaheimildir Fjármálaeftirlitsins vegna brota á lögum um gjaldeyrismál og er þeim ætlað að treysta þau úrræði sem Seðlabankinn hefur samkvæmt lögunum. Ákvæði þessi byggjast á sams konar ákvæðum í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
    Við umfjöllun nefndarinnar var ýmsum sjónarmiðum hreyft um frumvarp þetta og markmið þess. Meðal þessara sjónarmiða voru ákvæði til bráðabirgða sem skylda útflutningsaðila til þess að skila erlendum gjaldeyri inn í landið. Nokkuð var rætt um áhrif þessarar skyldu á útflutningsfyrirtæki og almenning í landinu. Vert er að taka það fram að ekki er um að ræða söluskyldu á gjaldeyri heldur einungis skyldu til að koma erlendum gjaldeyri inn í landið.
    Þá kom einnig til umræðu sú tímalengd sem frumvarpið gerir ráð fyrir að takmarkanir Seðlabankans geti varað, þ.e. til 30. nóvember 2010 sem er tímalengd sameiginlegrar áætlunar ríkisins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um efnahagsmál. Fram komu áhyggjur af því að tíminn væri of langur. Nefndin telur hins vegar mikilvægt að stjórnvöld og Seðlabanki hafi lagaheimildina út þennan tíma, þótt ljóst sé að þörf fyrir beitingu hennar verði endurmetin reglulega.
    Einnig var rætt um sjónarmið í tengslum við skuldbindingar Íslendinga að EES-samningnum um frjálst fjármagnsflæði en það var mat fulltrúa utanríkisráðuneytisins að önnur Evrópulönd muni sýna ráðstöfunum okkar skilning.
    Nefndin vill að reglur þær sem getið er um í bráðabirgðaákvæði frumvarpsins og Seðlabankinn gefur út að fengnu samþykki viðskiptaráðherra verði endurskoðaðar eigi síðar en 1. mars 2009 og ber þá aftur að fá samþykki viðskiptaráðherra.
    Nefndin leggur ríka áherslu á hraða afgreiðslu þessa máls í ljósi eðlis málsins en mikilvægt er að afgreiða frumvarpið sem fyrst svo að markaðsaðilar geti ekki nýtt sér upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar á lögum sér til hagsbóta en þjóðarbúinu til tjóns.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
    Í fyrsta lagi er lögð til viðbót við ákvæði til bráðabirgða á þann hátt að við bætist tilvísun í 9. gr. laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991. Í ákvæði þessu er kveðið á um að erlendur aðili, sem fjárfestir í atvinnurekstri hér á landi, skuli eiga rétt á að fá yfirfært í hvern þann erlenda gjaldmiðil sem Seðlabanki Íslands annast reglubundna skráningu á, móttekinn arð eða annan hagnaðarhlut og söluandvirði fjárfestingar. Í greinargerð með ákvæðinu kemur fram að þar sé kveðið á um rétt aðila til að flytja arð og söluandvirði eða annað endurgreiðsluverð úr landinu að nýju. Ljóst er að gera þarf undantekningu frá þessu ákvæði til að unnt verði að setja reglur sem kveða á um takmörkun á þessum rétti
    Í öðru lagi er lögð til breyting á bráðabirgðaákvæði sem felur í sér að lagt er til að Seðlabanka Íslands verði veitt heimild til að veita undanþágur frá takmörkunum á fjármagnshreyfingum sem kunna að verða settar í reglum á grundvelli 1. mgr. ákvæðisins. Við málsmeðferð slíkra mála gilda ákvæði stjórnsýslulaga. Slíkar ákvarðanir Seðlabanka eru kæranlegar til viðskiptaráðherra, sem fer með framkvæmd laga um gjaldeyrismál. Einnig er lagt til að ekki verði innheimt leyfisgjald ef undanþágur eru veittar.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir á sérstöku þingskjali.
     Jón Magnússon áheyrnarfulltrúi sat fundinn.

Alþingi, 28. nóv. 2008.



Ágúst Ólafur Ágústsson,


form., frsm.


Ásta Möller.


Ólöf Nordal.



Björk Guðjónsdóttir.


Árni Páll Árnason.


Birgir Ármannsson.