Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 217. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 367  —  217. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 88 12. júní 2008, um meðferð sakamála.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund nefndarinnar kom Ragna Árnadóttir frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
    Með frumvarpinu er lagt til að stofnun embættis héraðssaksóknara verði frestað um eitt ár eða til 1. janúar 2010. Ákvæði laga um meðferð sakamála taka að öðru leyti gildi 1. janúar 2009 og munu þau leysa af hólmi lög um meðferð opinberra mála.
    Nefndin leggur áherslu á að frestunin er til komin vegna þeirra aðstæðna sem nú eru uppi í ríkisfjármálum. Nefndin vill hins vegar árétta þá afstöðu sína að efling ákæruvaldsins m.a. með stofnun embættis héraðssaksóknara er mikilvægt framfaraskref og leggur því áherslu á að hér er aðeins um að ræða frestun til eins árs.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Atli Gíslason skrifar undir álitið með fyrirvara.
    Sigurður Kári Kristjánsson, Siv Friðleifsdóttir, Ólöf Nordal og Jón Magnússon voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
                             

Alþingi, 17. des. 2008.



Birgir Ármannsson,


form., frsm.


Ágúst Ólafur Ágústsson.


Atli Gíslason,


með fyrirvara.



Ellert B. Schram.


Karl V. Matthíasson.