Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 19. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 793  —  19. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á barnaverndarlögum og barnalögum.

(Eftir 2. umr., 24. mars.)



I. KAFLI

Breyting á barnaverndarlögum, nr. 80/2002, með síðari breytingum.

1. gr.

    2. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Allir sem hafa uppeldi og umönnun barna með höndum skulu sýna þeim virðingu og umhyggju og óheimilt er með öllu að beita börn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Foreldrum ber að sýna börnum sínum umhyggju og nærfærni og gegna forsjár- og uppeldisskyldum við börn sín svo sem best hentar hag og þörfum þeirra. Þeim ber að búa börnum sínum viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra í hvívetna.

2. gr.

    2. mgr. 18. gr. laganna orðast svo:
    Gefa skal fulltrúa barnaverndarnefndar kost á að vera viðstaddur skýrslutöku af barni sem sakborningi í samræmi við ákvæði laga um meðferð sakamála, svo og af barni sem brotaþola og sem vitni. Á þetta við hvort sem skýrslutaka fer fram hjá lögreglu eða fyrir dómi. Um skýrslutöku af barni gilda að öðru leyti ákvæði laga um meðferð sakamála og reglugerða sem settar hafa verið með stoð í þeim.

3. gr.

    1. mgr. 99. gr. laganna orðast svo:
    Hver sem beitir barn andlegum eða líkamlegum refsingum eða annarri vanvirðandi háttsemi, hótunum eða ógnunum skal sæta sektum eða fangelsi allt að þremur árum.

II. KAFLI
Breyting á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum.

4. gr.

    2. mgr. 28. gr. laganna orðast svo:
    Foreldrum er óheimilt að beita barn sitt andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi, þ.m.t. andlegum eða líkamlegum refsingum. Þá felur forsjá í sér skyldu foreldra til að vernda barn sitt gegn ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi.


5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.