Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 424. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 900  —  424. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Ármanns Kr. Ólafssonar um Icesave-reikninga Landsbankans.

     1.      Hvaða skýrslur um stöðu viðræðna við bresk og hollensk yfirvöld liggja fyrir í ráðuneytum eða undirstofnunum þeirra? Ef einhverjar eru er óskað eftir því að þingið verði upplýst um innihald þeirra?
    Viðræður við hollensk og bresk stjórnvöld um lausn Icesave-málsins hafa staðið yfir frá því í október. Utanríkismálanefnd hefur jafnóðum verið upplýst um efni viðræðnanna og afhent helstu gögn í trúnaði með vísan til 24. gr. þingskapalaga.

     2.      Hafa íslensk stjórnvöld undirritað eitthvert samkomulag við áðurnefnd yfirvöld um skilning á skuldbindingum Íslands varðandi Icesave-reikninganna eða undirgengist lánveitingu frá þeim til að borga innstæðurnar að fullu?
    Hinn 11. október var skrifað undir bráðabirgðasamkomulag við Hollendinga eins og greint var frá á sínum tíma. Það samkomulag var hins vegar ekki til lykta leitt og er það sameiginlegur skilningur aðila að mál séu nú komin í annan farveg. Þannig ályktaði Alþingi hinn 5. desember sl. að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hefðu komið sér saman um. Samningaviðræður standa enn yfir og ekkert samkomulag hefur verið undirritað. Hin umsömdu viðmið voru birt sem fylgiskjal með umræddri þingsályktunartillögu (þskj. 219, 177. mál). Það er hins vegar sameiginlegur skilningur aðila að eftir hin umsömdu viðmið séu mál komin í annan farveg.

     3.      Hefur nákvæm lagaleg úttekt verið gerð á réttarstöðu Íslands innan ramma EES-samningsins varðandi Icesave? Ef svo er hverjar eru þær og hvar er hægt að nálgast þær?
    Fjölmargar úttektir hafa verið gerðar sem tengjast réttarstöðu Íslands varðandi Icesave- reikningana. Helstu gögn málsins, m.a. lögfræðilegar úttektir, hafa verið afhentar utanríkismálanefnd, sbr. svar við 1. tölul.