Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 352. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 902  —  352. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Guðjóns A. Kristjánssonar um þróun erlendra vaxtatekna og vaxtagjalda.

     1.      Hver var hlutdeild einstakra viðskiptabanka annars vegar og annarra aðila hins vegar í vaxandi vaxtatekjum og vaxtagjöldum þjóðarbúsins á hverju ári frá 2004–2008?
    Vegna ákvæðisins um þagnarskyldu í 35. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, er ekki unnt að veita upplýsingar um einstakar stofnanir.

m.kr. 2008   2007   2006   2005   2004 
Vaxtatekjur 213.264 138.955 73.114 21.491 8.795
    Innlánsstofnanir 191.175 127.249 66.188 17.925 5.685
    Aðrir 22.089 11.706 6.926 3.559 3.099
Vaxtagjöld -534.798 -292.772 -166.673 -61.407 -35.478
    Innlánsstofnanir -389.333 -235.028 -133.802 -43.640 -19.207
    Aðrir -145.465 -57.744 -32.871 -17.767 -16.271

     2.      Hver var hlutdeild helstu erlendra fjármálastofnana eftir ríkisfangi í vaxtatekjum og vaxtagjöldum á tímabilinu?
    Seðlabanki Íslands hefur ekki yfir að ráða nauðsynlegum upplýsingum til þess að svara þessum lið í fyrirspurninni.

     3.      Hver er skýring Seðlabanka Íslands á því að miðað við verga landsframleiðslu hafi erlend skuldastaða þjóðarbúsins tvöfaldast á tímabilinu, samkvæmt upplýsingum úr nýlegri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en af hækkun vaxtagjalda eins og þau birtast í peningamálum virðist mega ráða að erlend skuldastaða hafi allt að fimmfaldast?

    Erlendar skuldir eru reiknaðar yfir í íslenskar krónur á gengi í lok ársfjórðungs. Því er mikilvægt að hafa í huga að áhrif gengisbreytinga á erlenda skuldastöðu geta verið töluverð, ekki síst síðustu missiri. Landsframleiðsla er hins vegar flæðistærð sem safnast upp yfir allt árið. Áhrif gengis á landsframleiðslu eru því ekki þau sömu og á erlendu skuldastöðuna.
    Virði erlendra gjaldmiðla í árslok 2008 var töluvert hærra en meðalvirði þeirra á árinu gaf til kynna. Sem dæmi þá var bandaríkjadalur tæpum 40% verðmeiri í árslok 2008 en meðaltal ársins. Gengisbreytingarnar leiða til þess að skuldastaða þjóðarbúsins versnar töluvert miðað við landsframleiðslu.
    Ein helsta skýringin á mikilli aukningu vaxtagjalda er sú að vextir á erlendum lánamörkuðum hafa hækkað mikið frá árinu 2004 auk þess sem skuldaálag á íslensku bankanna hækkaði mjög mikið frá síðari hluta ársins 2007.
    Byggt er á upplýsingum frá Seðlabanka Íslands.