Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 160. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 341  —  160. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 162/2006, um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ágúst Geir Ágústsson frá forsætisráðuneyti. Þá barst nefndinni minnisblað um málið frá Ríkisendurskoðun.
    Með frumvarpinu er lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem heimilar Ríkisendurskoðun að taka við og birta upplýsingar um framlög til stjórnmálasamtaka og frambjóðenda þeirra aftur í tímann ef þeir óska eftir því. Frumvarpið er byggt á viljayfirlýsingu stjórnmálasamtaka sem fulltrúa eiga á Alþingi auk Frjálslynda flokksins, en markmið þess er að endurskapa traust sem nauðsynlegt er að ríki um starfsemi stjórnmálasamtaka í landinu.
    Nefndin ræddi um þá heimild sem Ríkisendurskoðun er falin til að taka við og birta upplýsingar að ósk stjórnmálasamtaka og frambjóðenda. Hún felur í sér að frumkvæðið þarf að koma frá samtökunum og frambjóðendunum sjálfum. Þá ræddi nefndin nokkuð um ákvæði frumvarpsins um birtingu upplýsinga um fjárframlög, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að allir styrkir frá lögaðilum sem ekki hafa krafist trúnaðar séu birtir en ef um einstakling sé að ræða þurfi birting ætíð að byggjast á samþykki einstaklingsins. Nefndinni voru kynntar upplýsingar þess efnis að Persónuvernd teldi æskilegt, að teknu tilliti til persónuverndarsjónarmiða og ákvæða um friðhelgi einkalífs, að miðlun upplýsinga um fjárframlög einstaklinga til Ríkisendurskoðunar byggðist einnig á samþykki einstaklinganna. Af því tilefni beinir nefndin því til stjórnmálasamtaka og frambjóðenda að áður en upplýsingar eru sendar Ríkisendurskoðun til birtingar verði samþykkis viðkomandi einstaklinga fyrir þeirri málsmeðferð afdráttarlaust aflað.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Vigdís Hauksdóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir skrifa undir álit þetta með fyrirvara.
    Ásmundur Einar Daðason, Birgir Ármannsson og Róbert Marshall voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 19. ágúst 2009.



Steinunn Valdís Óskarsdóttir,


form., frsm.


Atli Gíslason.


Valgerður Bjarnadóttir.



Vigdís Hauksdóttir,


með fyrirvara.


Unnur Brá Konráðsdóttir,


með fyrirvara.


Þráinn Bertelsson.