Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 477. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 821  —  477. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf árið 2009.

1. Inngangur.
    Helstu mál til umfjöllunar hjá Norðurlandaráði árið 2009 voru öryggismál, tengsl Norðurlandanna við Evrópusambandið, opnun norrænnar upplýsingaskrifstofu í Minsk og kjör forseta Norðurlandaráðs 2010.
    Öryggismál hlutu mikla umfjöllun meðal þingmanna Norðurlandaráðs á árinu, sem og hjá norrænum utanríkisráðherrum, eftir birtingu skýrslu Thorvalds Stoltenbergs, fyrrverandi utanríkis- og varnarmálaráðherra Noregs, ásamt þrettán tillagna Stoltenbergs í þeim efnum. Norðurlandaráð fjallaði um skýrsluna á fundi forsætisnefndar í apríl, júní, september og desember og hún var einnig í brennidepli við umræður um utanríkis- og öryggismál á Norðurlandaráðsþingi í Stokkhólmi. Norðurlandaráð ákvað að fylgja skýrslunni eftir með því að leggja áherslu á samfélagsöryggi. Utanríkisráðherrarnir gáfu svo út svokallaða Reykjavíkuryfirlýsingu í júní þar sem fram kom að sumum tillagna Stoltenbergs væri hægt að fylgja eftir á tiltölulega stuttum tíma en aðrar væru erfiðari og tímafrekari í framkvæmd.
    Tengsl Norðurlandanna við Evrópusambandið voru áberandi af tveimur ástæðum. Annars vegar vegna vinnu Norðurlandaráðs við aðgerðaáætlun gagnvart sambandinu, í þeim skilningi að fylgjast með meðferð mála hjá því til að hafa áhrif á mál sem snerta samnorræna hagsmuni. Hins vegar vegna umræðu á leiðtogafundi á Norðurlandaráðsþingi um hlutverk Norðurlandanna í samstarfi Evrópusambandsins, auk formennsku Svía í sambandinu á síðari hluta ársins og umsóknar Íslands um aðild að sambandinu sem lögð var fram í júlí.
    Opnun norrænnar upplýsingaskrifstofu í Minsk, af svipuðum toga og norrænar upplýsingaskrifstofur í Eystrasaltsríkjunum, var fyrst tekin fyrir hjá Norðurlandaráði árið 2008. Skiptar skoðanir hafa verið um mikilvægi þess, en svo fór að tillaga um opnun skrifstofunnar var samþykkt á Norðurlandaráðsþingi í Stokkhólmi með nokkrum meiri hluta.
    Kjör forseta Norðurlandaráðs 2010 varð tilefni umræðu innan ráðsins um meginreglur við forsetakjör. Tekist var á um hvort taka skyldi heldur mið af þeirri hefð að kjörnefnd og þingfundur Norðurlandaráðs fylgdi tilnefningu þess lands sem fer með formennsku eða hvort hafa skyldi hliðsjón af því að forsetaembættið dreifðist milli flokkahópa ráðsins með vissu árabili. Svo fór að fyrrnefnda sjónarmiðið varð yfirsterkara og þingfundur kaus forseta Norðurlandaráðs í samræmi við tilnefningu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sem fer með forsetaembættið árið 2010.
    Svíar fóru með formennsku í Norðurlandaráði 2009. Forseti ráðsins var Sinikka Bohlin og varaforseti Kent Olsson.

2. Almennt um Norðurlandaráð.
    Norðurlandaráð var stofnað árið 1952 og er samstarfsvettvangur þjóðþinga á Norðurlöndum. Sjálfstjórnarsvæðin Álandseyjar, Færeyjar og Grænland taka jafnframt þátt í samstarfinu. Alþingi hefur átt aðild að ráðinu frá stofnun þess. Norðurlandaráð kemur saman til þingfundar einu sinni á ári og ræðir og ályktar um norræn málefni. Auk þess kemur Norðurlandaráð saman til nefndarfunda þrisvar sinnum á ári. Á vegum Norðurlandaráðs er unnið að margvíslegum norrænum verkefnum sem þingmenn, nefndir eða flokkahópar ráðsins hafa átt frumkvæði að. Norðurlandaráð hefur tillögu- og umsagnarrétt um fjármagn sem er veitt til norrænnar samvinnu árlega. Norræna ráðherranefndin tekur verulegt tillit til þeirra ábendinga.
    Í Norðurlandaráði sitja 87 þingmenn, þar af sjö alþingismenn. Hvert hinna landanna fjögurra (ásamt sjálfstjórnarsvæðunum) á 20 þingmenn í Norðurlandaráði. Hvert land skipar forseta Norðurlandaráðs á fimm ára fresti. Á árlegum þingfundi Norðurlandaráðs, sem stendur í þrjá til fjóra daga í senn um mánaðamótin október/nóvember, er fjallað um fram komnar tillögur og beinir þingið tilmælum sínum til ríkisstjórna landanna eða Norrænu ráðherranefndarinnar. Forsætisráðherrar og utanríkisráðherrar Norðurlanda gefa Norðurlandaráðsþinginu skýrslu og samstarfsráðherrar svara fyrirspurnum í sérstökum fyrirspurnatíma. Fjárlög komandi starfsárs eru jafnframt ákveðin á þinginu og skipað er í nefndir og trúnaðarstöður. Í Norðurlandaráði starfa fjórir flokkahópar: jafnaðarmenn, miðjumenn, hægrimenn og vinstrisósíalistar og grænir. Flokkahóparnir móta sameiginlega afstöðu til einstakra mála og velja þingmenn í nefndir. Að öðru leyti byggist starf Norðurlandaráðs á landsdeildum aðildarríkjanna.
    Málefnastarf Norðurlandaráðs fer að mestu fram í fimm málefnanefndum auk forsætisnefndar. Á milli þinga stýrir forsætisnefnd starfi ráðsins, vísar tillögum til nefnda eða afgreiðir þær. Forsætisnefnd fer jafnframt með utanríkis- og öryggismál svo og samskipti Norðurlandaráðs við aðrar alþjóðastofnanir. Þá fer eftirlitsnefnd yfir ársreikninga ráðsins og stofnana sem starfa innan Norðurlandastarfsins. Loks kemur kjörnefnd saman á þingum til að gera tillögu að skipan í nefndir og trúnaðarstöður á vegum Norðurlandaráðs.

3. Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
Skipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Á fyrri hluta árs 2009 skipuðu Íslandsdeildina Árni Páll Árnason formaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Kjartan Ólafsson varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Helgi Hjörvar, þingflokki Samfylkingarinnar, Kolbrún Halldórsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Kristján Þór Júlíusson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Siv Friðleifsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Ólöf Nordal, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Einar Már Sigurðarson, þingflokki Samfylkingarinnar, Steingrímur J. Sigfússon, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Árni Johnsen, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Björk Guðjónsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Jón Magnússon, þingflokki Frjálslynda flokksins.
    Eftir Alþingiskosningar 25. apríl var kosin ný Íslandsdeild á þingfundi 15. maí. Aðalmenn voru kosnir Helgi Hjörvar, þingflokki Samfylkingarinnar, Illugi Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Álfheiður Ingadóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Siv Friðleifsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Ásmundur Einar Daðason, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og Bjarni Benediktsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru kosnir Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Árni Þór Sigurðsson, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Margrét Tryggvadóttir, þingflokki Borgarahreyfingarinnar, Guðmundur Steingrímsson, þingflokki Framsóknarflokks, Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Jón Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks.
    Á fundi Íslandsdeildar 18. maí var Helgi Hjörvar kosinn formaður og Álfheiður Ingadóttir varaformaður. Álfheiður Ingadóttir varð heilbrigðisráðherra 1. september. Í hennar stað í kom Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og var hún kosin varaformaður Íslandsdeildar á fundi deildarinnar 19. október.
    Ritari Íslandsdeildar árið 2009 var Lárus Valgarðsson alþjóðaritari.

Nefndaskipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Kosið var í embætti og nefndir fyrir starfsárið 2009 á 60. þingi Norðurlandaráðs sem fram fór í Helsinki dagana 27.–29. október 2008. Eftir kosningar í nefndir og ráð var nefndarseta fulltrúa Íslandsdeildar Norðurlandaráðs árið 2009 sem hér segir: Árni Páll Árnason sat áfram í forsætisnefnd, Kjartan Ólafsson fór úr borgara- og neytendanefnd og eftirlitsnefnd og tók sæti í forsætisnefnd, Siv Friðleifsdóttir var áfram formaður velferðarnefndar, Kolbrún Halldórsdóttir flutti sig um set úr umhverfis- og náttúruauðlindanefnd í menningar- og menntamálanefnd, Helgi Hjörvar sat áfram í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd, Ragnheiður Ríkharðsdóttir var áfram í menningar- og menntamálanefnd og Kristján Þór Júlíusson sat áfram í efnahags- og viðskiptanefnd og tók jafnframt sæti í eftirlitsnefnd.
    Eftir nýskipan Íslandsdeildar varð nefndarseta meðlima Íslandsdeildar sú að Helgi Hjörvar tók sæti í forsætisnefnd og í fjárlagahóp forsætisnefndar, Álfheiður Ingadóttir í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd, Siv Friðleifsdóttir sat áfram í velferðarnefnd og kjörnefnd, Bjarni Benediktsson tók sæti í forsætisnefnd, Illugi Gunnarsson í efnahags- og viðskiptanefnd og eftirlitsnefnd, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir í menningar- og menntamálanefnd og Ásmundur Einar Daðason í menningar- og menntamálanefnd. Þegar Guðfríður Lilja Grétarsdóttir tók sæti í Íslandsdeild í október í stað Álfheiðar Ingadóttur fyllti hún einnig skarð hennar í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd.
    Fulltrúar Íslandsdeildar sátu auk þess í vinnuhópum á vegum Norðurlandaráðs og í stjórnum stofnana og voru fulltrúar þess út á við. Árni Páll Árnason og Helgi Hjörvar áttu sæti í fjárlagahóp forsætisnefndar. Helgi Hjörvar var einnig fulltrúi Norðurlandaráðs á málþingi Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins í Vilnius 23.–24. mars með þátttöku stjórnmálamanna frá Hvíta-Rússlandi, á fundi Norræna félagsins í Danmörku í Albertslund 16. maí, í sendinefnd ráðsins við hringborðsumræður þess með rússnesku Dúmunni í Khanty-Mansiysk 7.–10. júní, á Þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins í Nyborg 31. ágúst til 1. september og á Eystrasaltsþinginu 26.–28. nóvember. Kjartan Ólafsson var fulltrúi Norðurlandaráðs á hnattvæðingarráðstefnu Norrænu ráðherranefndarinnar í Bláa lóninu 26.–27. febrúar.

Starfsemi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs fundaði sex sinnum á árinu. Undirbúin var þátttaka í fundum og þingi Norðurlandaráðs og fjallað um mál á verksviði nefndarinnar, ásamt gagnkvæmum upplýsingaskiptum meðlima Íslandsdeildar um stöðu mála í einstökum nefndum og starfshópum Norðurlandaráðs.
    Í júní fékk Íslandsdeildin gesti sem starfa að norrænum málefnum á Íslandi til upplýsingaveitu og samráðs. Ásdís Eva Hannesdóttir, framkvæmdastjóri Norræna félagsins, sagði frá starfsemi norræna félagsins árið 2009, m.a. aukinni ásókn í Nordjobb, aukningu á fyrirspurnum til Halló Norðurlönd, fleiri umsóknum um lýðháskóla, bókasafnsviku 2009, umfjöllun um loftslagsbreytingar og útgáfu bókar með erindum á höfuðborgaráðstefnu 2007.
    María Jónsdóttir, forstöðumaður norrænu upplýsingaskrifstofunnar á Akureyri, sagði frá starfsemi skrifstofunnar, þar á meðal áherslu á börn og ungmenni og athugun á þætti ungs fólks í lýðháskólasamstarfi, þátttöku í norrænu menningarsamstarfi og námskeiðafalli í dönsku sem hefði verið haldið síðustu fimm ár.
    Max Dager, forstjóri Norræna hússins, fjallaði um starfsemi Norræna hússins, m.a. fjárhag þess, flutning skrifstofa norrænna lektora við HÍ úr húsinu í Nýja Garð, menningarviðburði og samstarfi hússins við alþjóðlegar kvikmynda-, bókmennta-, og tónlistarhátíðir.
    Íslandsdeild fjallaði einnig um fréttamannastyrki Norðurlandaráðs 2009. Ákveðið var að eftirtaldir fengju úthlutað styrk: Arnar Björnsson, Bergþóra Njála Guðmundsdóttir, Erla Hjördís Gunnarsdóttir, Hólmfríður Helga Sigurðardóttir, Klemens Ólafur Þrastarson, Kristinn Hrafnsson og Þóra Kristín Ásgeirsdóttir.
    Í september var Sinikka Bohlin, forseti Norðurlandaráðs, gestur á fundi Íslandsdeildar ásamt Evu Smekal, deildarstjóra Norðurlandaráðsskrifstofu sænska þingsins. Bohlin fjallaði stuttlega um formennskuáætlun Svía í Norðurlandaráði 2009 og kynntu meðlimir Íslandsdeildar helstu áherslur hennar á formennskuári Íslands 2010 í Norðurlandaráði, þ.e. öryggismál, hafið, tungumál og innri málefni. Nokkur umræða varð um áhersluþættina og hvernig þeir væru í framhaldi af áherslum Svía og rammaáætlun ráðsins og umfjöllun.
    Í september og október fjallaði Íslandsdeildin í tvígang um kjör forseta Norðurlandaráðs 2010. Tveir meðlimir Íslandsdeildar sóttust eftir kjöri, Helgi Hjörvar og Siv Friðleifsdóttir. Á fundi 14. september var gengið til atkvæða milli þeirra og féllu atkvæði þannig að Helgi fékk fjögur atkvæði og Siv þrjú. Í kjölfarið féllst Siv á að vera tilnefnd sem varaforseti. Niðurstaðan varð sú að Íslandsdeildin tilnefndi Helga Hjörvar sem forsetaefni og Siv Friðleifsdóttur sem varaforsetaefni.
    Á fundi 26. október voru greidd atkvæði um nýtt varaforsetaefni í stað Sivjar Friðleifsdóttur, þar sem hún gaf ekki lengur kost á sér til varaforseta. Tillaga um Illuga Gunnarsson hlaut öll sex greidd atkvæði viðstaddra.
    
4. Starfsemi nefnda Norðurlandaráðs.
Forsætisnefnd.
    Árni Páll Árnason, Helgi Hjörvar og Bjarni Benediktsson sátu í forsætisnefnd á starfsárinu 2008.
    Forsætisnefnd er skipuð forseta og tólf fulltrúum sem kosnir eru á þingi Norðurlandaráðs. Allar landsdeildir á Norðurlöndunum og allir flokkahópar eiga fulltrúa í henni. Forsætisnefnd annast víðtæk pólitísk og stjórnunarleg málefni og hefur yfirumsjón með öllum málum í sambandi við Norðurlandaráðsþingið. Forsætisnefnd fjallar um norrænu fjárlögin en sérstakur starfshópur á vegum nefndarinnar tók þá vinnu sérstaklega að sér árið 2008, líkt og áður. Þá sér forsætisnefnd um tengsl við svæðisbundnar og alþjóðlegar stofnanir og alþjóðlegt samstarf, m.a. við ESB og Sameinuðu þjóðirnar. Forsætisnefnd fjallar um tillögur sem til hennar er beint og vísar öðrum tillögum sem lagðar eru fyrir ráðið til viðeigandi málefnanefnda. Forsætisnefnd fer með æðsta vald Norðurlandaráðs á milli þinga og hefur vald til þess að samþykkja tillögur fyrir hönd þingsins í sérstökum tilvikum og taka til afgreiðslu ákveðin málefni sem ekki þykir fært að bíði næsta þings.
    Forsætisnefnd fundaði sex sinnum árið 2009. Í janúar var Snjólaug Ólafsdóttir, skrifstofustjóri Norðurlandaskrifstofu forsætisráðuneytisins, gestur nefndarinnar, til kynningar á formennskuáætlun Íslendinga í Norrænu ráðherranefndinni 2009.
    Á fundi forsætisnefndar í janúar var samþykkt tillaga A 1448/presidiet um norrænt sendiráðasamstarf. Í tillögunni er mælst til þess við ríkisstjórnir Norðurlandanna að þær auki samstarf varðandi starfsemi ræðismannaskrifstofa og sendiráða. Hægt væri að minnka kostnað með því að samnýta húsnæði erlendis og deila ábyrgð norrænna ríkja svæðisbundið í öðrum löndum og heimsálfum.
    Forsætisnefnd samþykkti einnig í janúar tillögu A 1446/presidiet um loftslagskvóta. Fjallað var um hana í félagi við umhverfis- og náttúruauðlindanefnd, ásamt tillögu A 1442/miljö um umhverfisstefnu fyrir Norðurlandaráð og Norrænu ráðherranefndina. Niðurstaðan varð sú að forsætisnefnd og umhverfis- og náttúruauðlindanefnd mæltust til þess við Norrænu ráðherranefndina að hún lyki á árinu 2009 við gerð umhverfis- og loftslagsstefnu fyrir sína starfsemi. Þess má geta að þjóðþing Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar hafa hafið eða stefna að umhverfisvænum aðgerðaáætlunum. Einnig beindu nefndirnar þeim tilmælum til framkvæmdastjóra Norðurlandaráðs að hann fylgdist með vinnunni við umhverfisstefnu Norrænu ráðherranefndarinnar og ynni að samsvarandi umhverfisstefnu fyrir Norðurlandaráð, auk þess að vinna tillögu á árinu 2009 að greiðslu gjalda fyrir útstreymi gróðurhúsalofttegunda (CO 2) vegna flugferða starfsfólks ráðsins. Þá hvöttu nefndirnar þjóðþing Danmerkur og Íslands til að greiða gjald fyrir útstreymi gróðurhúsalofttegunda (CO 2) fyrir flugferðir á sambærilegan hátt og hjá þjóðþingum Svíþjóðar, Finnlands og Noregs.
    Á aprílfundi forsætisnefndar hófst umfjöllun nefndarinnar um skýrslu Thorvalds Stoltenbergs um öryggis- og varnarsamstarf á Norðurlöndum á næstu 10–20 árum. Í skýrslunni eru 13 tillögur að aðgerðum til að efla öryggis- og varnarmálasamstarf Norðurlanda og framlag Norðurlanda til alþjóðlegra viðbragða við neyðarástandi. Forsætisnefndin ræddi sérstaklega hvernig Norðurlandaráð ætti að bregðast við skýrslunni. Ákveðið var að Stoltenberg-skýrslan yrði á dagskrá Norðurlandaráðsþings í október og jafnframt að norski þingmaðurinn Inge Lønning yrði skýrslugjafi forsætisnefndar um samfélagsöryggi á næsta fundi hennar, þar sem nefndin mundi fjalla nánar um meðhöndlun skýrslunnar innan ráðsins.
    Forsætisnefndin ákvað einnig á fundi sínum í apríl að Norðurlandaráð skyldi mælast til þess við Norrænu ráðherranefndina að opna norræna skrifstofu í Minsk, höfuðborg Hvíta- Rússlands, með það að markmiði meðal annars að stuðla að lýðræðisuppbyggingu þar.
    Þá lá fyrir aprílfundinum tillaga og minnisblað um norræna úttekt á græn- og hvítbókum ESB en skrifstofa Norðurlandaráðs fylgist skipulega með umfjöllun mikilvægra málefna á vettvangi ESB. Ýmis sjónarmið komu fram í umræðunni svo sem að forsætisnefndin ætti að stefna að því að hitta ESB-nefndir þjóðþinga Norðurlanda og koma ætti á föstum samskiptum við norræna þingmenn á Evrópuþinginu.
    Fjárlög Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2010 voru einnig rædd á aprílfundinum auk nýrra leiðbeininga ráðherranefndarinnar um fjárlagagerðina. Fram kom að ætlunin væri að fjármagna framlag til hnattvæðingarsjóðs sem næmi 70 milljónum danskra króna meðal annars með 1,3% flatri lækkun á fjárhagsramma allra fagsviða. Var flatur niðurskurður gagnrýndur nokkuð á þeim forsendum að ekki væri allt jafn mikilvægt. Norski þingmaðurinn Berit Brørby gagnrýndi jafnframt að ekki lægi fyrir í hvað hnattvæðingarsjóðspeningarnir færu.
    Á fundi forsætisnefnar í júní rakti Inge Lønning, skýrslugjafi forsætisnefndar um samfélagsöryggi, sameiginlega umfjöllun Norðurlanda um utanríkis- og öryggismál frá árinu 1948 í stuttu máli og kynnti tillögur sínar um eftirfylgni Norðurlandaráðs við Stoltenberg- skýrsluna. Hann lagði til að eftirfylgnin færi fram innan núverandi skipulags norrænnar samvinnu og ekki væri þörf á að setja t.d. á laggirnar utanríkis- og öryggismálanefnd innan Norðurlandaráðs. Þau mál skyldu heldur vera áfram á verksviði forsætisnefndar. Lønning lagði einnig til að Norðurlandaráð óskaði eftir skýrslu eða tillögu frá ríkisstjórnum Norðurlanda á Norðurlandaráðsþingi í Stokkhólmi í október um hvernig yfirlýsingu norrænu utanríkisráðherranna 9. júní í Reykjavík yrði fylgt eftir. Á fundinum var sú skoðun útbreidd að eftirfylgni ráðsins skyldi lúta að samfélagslegu, eða borgaralegu, öryggi. Forsætisnefnd ákvað að fela Inge Lønning að vera áfram skýrslugjafi nefndarinnar um samfélagsöryggi og undirbúa ásamt ráðgjöfum Norðurlandaráðs greinargerð um vinnu ráðsins undanfarin ár varðandi samfélagsöryggi, sem lögð yrði fram á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi.
    Starfsskipulag Norðurlandaráðs var til umfjöllunar í júní undir þremur dagskrárliðum. Í fyrsta lagi lá fyrir fundinum tillaga frá hópi finnskra þingmanna um að breyta formennskuárum hjá Norðurlandaráði og Norrænu ráðherranefndinni þannig að hvert land mundi gegna formennsku sama árið í ráðinu og ráðherranefndinni. Tillagan hlaut ekki hljómgrunn. Í öðru lagi fjallaði forsætisnefnd áfram um drög að aðgerðaáætlun Norðurlandaráðs til að fylgjast með málum sem eru til umfjöllunar hjá Evrópusambandinu og varða samnorræna hagsmuni. Á fundinum var ítrekuð gagnsemi þess að ráðið hafi góð tengsl við ESB-nefndir þjóðþinga þeirra Norðurlanda sem eiga aðild að ESB. Í þriðja lagi ræddi forsætisnefnd hvort Norðurlandaráð ætti að fela Stellan Ottoson, fyrrverandi sænskum sendiherra, að gera úttekt á starfsskipulagi ráðsins á sama hátt og hann hefði gert á starfsskipulagi Norrænu ráðherranefndarinnar. Skiptar skoðanir voru um þörfina á slíkri úttekt.
    Berit Brørby, formaður fjárlagahóps forsætisnefndar, gerði á júnífundi forsætisnefndar grein fyrir stöðu vinnunnar við fjárlög Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir 2010. Ráðherranefndinni ber samkvæmt Helsinki-sáttmálanum að leggja tillögu að fjárhagsáætlunum sínum fyrir Norðurlandaráð til umsagnar og eru fjárlögin samþykkt á Norðurlandaráðsþingum. Vinnuferlið undanfarin ár hefur verið á þann veg að fjárlagahópurinn hefur átt fundi með samstarfsráðherra þess lands sem fer með formennsku í ráðherranefndinni og verið í samskiptum við starfsmenn skrifstofu ráðherranefndarinnar frá upphafi hvers almanaksárs til Norðurlandaráðsþings að hausti. Árið 2009 lagði fjárlagahópurinn til þá nýbreytni að formenn málefnanefnda ráðsins skyldu funda með formönnum ráðherranefnda fagráðherra á þeirra verksviði til að kynna áherslur málefnanefndanna og ræða áherslur ráðherranefndarinnar á mismunandi fagsviðum í fjárlögum 2010. Slíkir fundir áttu sér stað með íslenskum ráðherrum í Reykjavík í mars og júní. Drög að fjárlögum Norrænu ráðherranefndarinnar 2010 voru kynnt í byrjun júní. Meðal helstu atriða þeirra voru hnattvæðingarsjóður að upphæð 70 MDKK til hnattvæðingarverkefna, 1,3% flatur niðurskurður á öllum fagsviðum til að fjármagna að hluta hnattvæðingarverkefni og sérstök fjárveiting til Íslands að upphæð 7,2 MDKK vegna fjármálakreppunnar til að styrkja meðal annars íslenska náms- og vísindamenn og íslenska embættismenn til þátttöku í norrænum fundum. Á fundi fjárlagahópsins 24. júní kom fram ánægja með að ráðherranefndin hefði m.a. tekið tillit til óska ráðsins um aukna þátttöku fagráðherra í fjárlagavinnunni og til efasemda um fyrri áætlanir um 2,0% flatan niðurskurð og 80 MDKK í hnattvæðingarsjóð. Óánægju gætti hins vegar með að framsetning fjárlaganna væri sem fyrr ekki nógu skýr, til að mynda vegna gæðamismunar í framsetningu ólíkra fjárlagaliða. Þá vakti Brørby athygli forsætisnefndar á því að af 907 MDKK heildarfjárhæð fjárlaganna væru 200 MDKK sveigjanlegar frá ári til árs, þ.e. ekki lagalega samningsbundnar. Hún sagði einnig að greiningu og rökstuðning vantaði fyrir því hvers vegna æ stærri hluti fjárlaganna væri skilgreindur sem hnattvæðingarverkefni.
    Eitt af hnattvæðingarverkefnum ráðherranefndarinnar er vinna við upprætingu landamærahindrana, þ.e. stjórnsýsluhindrana, milli Norðurlandanna sem einstaklingar og fyrirtæki reka sig á. Ráðherranefndin setti í þessum tilgangi á laggirnar nefnd ( Gränsehinderforumet) og var Ole Norrback formaður hennar gestur á fundi forsætisnefndar í júní. Á fundinum lagði hann fram upplýsingar um hvaða hindranir væru til umfjöllunar hjá nefndinni um þær mundir og sagði að ráðherranefndin mundi gera frekari grein fyrir stöðu vinnunnar á Norðurlandaráðsþingi. Norrback var einnig gestur á sameiginlegum fundi þingmanna Norðurlandaráðs um landamærahindranir með hliðsjón af reynslu nærbýlis sænska bæjarins Haparanda og finnska bæjarins Tornio á landamærum Svíþjóðar og Finnlands við strönd Helsingjabotns, aðskildir af Torneánni. Sumarfundir nefnda Norðurlandaráðs voru haldnir í nágrenni við landamærin árið 2009 til að minnast 200 ára afmælis aðskilnaðar Svíþjóðar og Finnlands eftir finnska stríðið 1808–1809. Norrback sagði á fundinum að stjórnsýsla Norðurlandanna væri þung í vöfum þegar kæmi að upprætingu landamærahindrana. Johan Tiedemann, ráðuneytisstjóri norrænnar samvinnu í Svíþjóð, var sammála Norrback um þunglamalega stjórnsýslu en benti jafnframt á að landamærahindranir gætu einnig verið af hinu góða og myndað sérstöðu stjórnkerfa ólíkra landa. Raimo Ronkainen, aðstoðarbæjarstjóri í Tornio, rakti margvíslega samvinnu Haparanda og Tornio yfir landmærin, til dæmis varðandi hitaveitu, sorphirðu, og sjúkra- og slökkviliðsbíla og sagði frá yfirstandandi uppbyggingu sameiginlegs miðbæjar bæjanna á hólma í Torneánni. Þá var kynnt samvinna yfir landamæri í menntamálum, m.a. af Hjördisi Lagnebäck skólastjóra Språkskolan í Haparanda, sem er sameiginlegur grunnskóli sem nemendur beggja vegna landamæranna sækja. Þar læra börnin, til viðbótar við lögbundna sænska kennsluskrá, tungumál nágrannalandsins, sem og sögu og menningu svæðisins, með það fyrir augum að þau verði tvítyngd og tileinki sér góða samstarfshæfni og alþjóðlegt sjónarhorn.
    Á fundi forsætisnefndar í september var Stoltenberg-skýrslunni áfram fylgt eftir í umræðum. Lagt var fram minnisblað um starf Norðurlandaráðs varðandi samfélagsöryggi, meðferð borgaralegs bráðavanda og fyrirbyggjandi aðgerðir gegn átökum. Inge Lønning, sem forsætisnefnd hafði beðið að gefa skýrslu um málið á fundinum, lagði fram niðurstöður sínar og tillögur. Niðurstöður Lønnings voru þær að norrænt samstarf á sviði utanríkis- og öryggismála og samfélagsöryggis ætti að vera til umfjöllunar hjá norrænum þingmönnum og að hjá Norðurlandaráði væri það á verksviði forsætisnefndar. Hann lagði til að forsætisnefnd gerði áætlun um eftirfylgni á þessum málefnasviðum, skipaði skýrslugjafa um samfélagsöryggi og óskaði eftir skýrslu frá norrænu ríkisstjórnunum um utanríkis- og öryggismál og samfélagsöryggi á Norðurlandaráðsþingi. Lønning gerði einnig að tillögu sinni að fulltrúar ráðsins funduðu einu sinni á ári með norrænum utanríkisráðherrum og dómsmála-, innanríkis- og varnarmálaráðherrum til að fylgja eftir meðferð málsins hjá ráðinu, sem og að funda með Eystrasaltsþinginu um mikilvæg mál á þessum sviðum. Forsætisnefnd studdi tillögur Lønnings.
    Utanríkis- og öryggismál voru enn til umfjöllunar á desemberfundi forsætisnefndar í Jevnaker og á málstofu í tengslum við fundinn. Umfjöllunin var í framhaldi af umræðunni á fyrri forsætisnefndarfundum, sem og umræðu á Norðurlandaráðsþingi í október og fundi forsætisnefndar með norrænum utanríkisráðherrum í tengslum við þingið. Meginatriði umræðunnar í Jevnaker voru sem fyrr eftirfylgni Stoltenberg-skýrslunnar, auk samstarfs Norðurlandaráðs við Eystrasaltsríkin og Rússland. Inge Lønning, sem nú var hættur þingmennsku, hafði framsögu í málstofunni um eftirfylgni Stoltenberg-skýrslunnar. Varðandi hana sagði hann að samstarf Norðurlanda á norðurskautssvæðinu þyrfti meðal annars að hafa hliðsjón af starfi Norðurskautsráðsins, þar sem sæti eiga meðal annarra Bandaríkin, Kanada og Rússland. Til að mynda gætu Norðurlöndin hvorki ein síns liðs né saman séð um björgunarstarf á norðurskautssvæðinu. Lønning benti á að í ályktunum Eystrasaltsþingsins frá því í nóvember væri að finna áherslur um efnahagslegan stöðugleika, öryggi Eystrasaltsríkjanna og samstarf við Norðurlönd. Helgi Hjörvar bætti við að greinilegt hefði verið á Eystrasaltþinginu í Vilnius í nóvember að þingið væri í nokkurri tilvistarkreppu. Þörf væri á að samstarf þingmannasamtakanna snerist um þröngt skilgreind viðfangsefni á borð við Eystrasaltið, auk þess sem samfélagsöryggi gæti verið meðal viðfangsefna. Lønning tók undir það og sagði að viðfangsefnin mættu líka vera viðkvæmari mál á borð við stöðu þjóðernisminnihluta.
    Sinikka Bohlin, forseti Norðurlandaráðs og áheyrnarfulltrúi ráðsins gagnvart þingmannasamtökum Norðvestur-Rússlands, boðaði gerð sérstakrar Rússlandsáætlunar um samskipti ráðsins við Rússland.
    Á tímabilinu janúar til október 2009 samþykkti forsætisnefnd sjö tilmæli af hálfu Norðurlandaráðs. Tvenn af þeim höfðu verið til umfjöllunar í nefndinni sem tillögur. Það voru umhverfisstefna Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar (tilmæli 2/2009) og samstarf norrænna sendiráða (tilmæli 6/2009). Fjórar tillögur forsætisnefndar voru samþykktar sem tilmæli á Norðurlandaráðsþinginu í Stokkhólmi. Það voru verkefna- og fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar 2010 (tilmæli 8/2009), alþjóðleg ráðstefna um þróun á heimskautasvæðum (tilmæli 10/2009), stofnun norrænnar skrifstofu í Minsk í Hvíta-Rússlandi (tilmæli 15/2009) og átak um að samræma varnarmál á Norðurlöndum (tilmæli 16/2009). Að lokum voru þrjár ákvarðanir um innri málefni teknar á þinginu sem forsætisnefnd hafði undirbúið. Það voru umhverfisstefna Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar (ákvörðun 1/2009), ESB-áætlun fyrir Norðurlandaráð (ákvörðun 2/2009) og nánari kynning á norrænu samstarfi í þjóðþingunum (ákvörðun 3/2009).

Menningar- og menntamálanefnd.
    Fulltrúar Íslandsdeildar Norðurlandaráðs í menningar- og menntamálanefnd árið 2009 voru Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Ásmundur Einar Daðason.
    Menningar- og menntamálanefnd annast málefni sem varða menningu og listir á Norðurlöndum og á alþjóðavísu, fjölmenningarleg Norðurlönd, kvikmyndir og fjölmiðla, tungumál, íþróttir, óháð félagasamtök, menningu barna og unglinga, grunnmenntun, framhaldsmenntun, fullorðinsfræðslu, rannsóknir, menntun vísindamanna og fræðimannaskipti.
    Helstu umfjöllunarefni menningar- og menntamálanefndar árið 2009 voru eftirfylgni yfirlýsingarinnar um norræna tungumálastefnu, hnattvæðingarverkefni varðandi tölvuleiki m.a., menning í skólum, mat á breytingu á skipulagi menningarmála hjá norrænum stofnunum, skapandi iðnaður, höfundaréttur á netinu, menntun ungmenna, vísindapólitík, opinber þjónusta og smáar handverksiðnir.
    Sex tillögur sem menningar- og menntamálanefndar hafði til umfjöllunar urðu að tilmælum Norðurlandaráðs á árinu 2009. Það voru aukið rannsóknarsamstarf á og um norðurslóðir (tilmæli 22/2009), norrænar rannsóknir á heimskautalægðum (tilmæli 23/2009), menning í skólum (tilmæli 24/2009), fylgt eftir endurskipulagningu menningarsviðs (tilmæli 30/2009), beiting höfundarréttar á netinu (tilmæli 31/2009) og norrænt styrkjakerfi til þróunar á tölvuleikjum (tilmæli 32/2009).

Efnahags- og viðskiptanefnd.
    Kristján Þór Júlíusson og Illugi Gunnarsson voru fulltrúar Íslandsdeildar í efnahags- og viðskiptanefnd á árinu.
    Efnahags- og viðskiptanefnd annast málefni sem varða efnahags- og framleiðsluskilyrði, atvinnulíf, innri markað Norðurlanda, frjálsa fólksflutninga, afnám landamærahindrana, viðskipti, byggðastefnu, atvinnumál og vinnumarkað, vinnuvernd, innra skipulag, samgöngur og upplýsingatækni.
    Helstu mál á borði efnahags- og viðskiptanefndar árið 2009 voru byggðastefna, landamærahindranir í viðskiptalífi, nýsköpunarstefna á Norðurlöndum, skapandi iðnaður, samgöngur og skipulag innviða samfélaga, skipulag skila á dósum og flöskum á Norðurlöndum, samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja og græn- og hvítbækur Evrópusambandsins.
    Í janúar fundaði efnahags- og viðskiptanefnd með borgara- og neytendanefnd í Reykjavík um áhrif alþjóðlegu fjármálakreppunnar á Íslandi. Þar fluttu erindi Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, Henný Hinz, hagfræðingur hjá ASÍ, Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Gylfi ræddi kreppuna á Íslandi og hvernig sjálfsmynd Íslendinga hefði orðið fyrir áfalli. Hann taldi að kreppan mundi vara í að minnsta kosti 2–3 ár þótt langtímahorfur væru ekki slæmar. Hann benti á að fjármálakreppan hefði áhrif á viðskiptaaðila Íslendinga erlendis og því mætti búast við samdrætti í útflutningi.
    Henný Hinz rakti hvernig kaupmáttur hefur hrapað síðasta árið og hvernig greiðslubyrði og skuldir heimilanna hafa hækkað. Þá væri reiknað með 7–9% atvinnuleysi á árinu 2009. Hún vonaðist til að vextir yrðu lækkaðir, komið yrði á fjármálalegum stöðugleika, gengið til samninga um Evrópusambandsaðild og tekin upp evra.
    Jóhannes Gunnarsson fór yfir þróunina í efnahagsmálum síðasta árið, góðærið, áhrif kreppunnar fyrir heimilin og mótmæli almennings. Til að útskýra þróunina tók hann dæmi um fjölskyldu sem keypt hefði húsnæði með verðtryggðum og gengistryggðum lánum þar sem eftirstöðvar lánanna væru meiri en kaupverðið, auk þess sem fasteignaverð hefði lækkað. Jóhannes greindi frá því að Neytendasamtökin vildu að látið yrði reyna á aðild að Evrópusambandinu og stefnt að upptöku evru með aðildarviðræðum.
    Vilhjálmur Egilsson fjallaði um fyrirtækin og bankana á Íslandi. Hann sagði meðal annars að ekkert fyrirtæki væri svo sterkt að það gæti greitt 20% vexti. Hann taldi að regluverkið hefði verið til staðar en mörg atriði hefðu þó fallið utan þess. Í orðum sínum vék hann að metnaði og græðgi, ábyrgum lífsgæðum og ofneyslu, vinnureglum og siðareglum. Vilhjálmur ræddi um umbætur í opinberum fjármálum og nefndi gerð fjárhagsáætlana til þriggja ára, einhliða upptöku evru og aðild að Evrópusambandinu.
    Fjórar tillögur sem efnahags- og viðskiptanefnd hafði til umfjöllunar urðu að tilmælum Norðurlandaráðs árið 2009. Það voru norræn framkvæmdaáætlun um starfsmanna- og notendastýrða nýsköpun innan ramma norrænu hnattvæðingaráætlunarinnar (tilmæli 7/2009), norrænn þekkingarbanki á sviði umhverfis- og orkumála (tilmæli 14/2009), samstarf um stefnu í geimferðamálum (tilmæli 17/2009) og samgöngukerfi á Mið-Norðurlöndum (tilmæli 29/2009).

Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd.
    Á árinu 2009 voru Helgi Hjörvar, Álfheiður Ingadóttir og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir fulltrúar Íslandsdeildar í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd.
    Umhverfis- og nátturuauðlindanefnd annast málefni er varða umhverfismál, landbúnað og skógrækt, sjávarútveg, sjálfbæra þróun og orkumál.
    Megináherslur umhverfis- og náttúruauðlindanefndar árið 2009 voru Eystrasaltsstefna ESB, norrænt eða alþjóðlegt skipulag um skil á dósum og flöskum, endurskoðun sjávarútvegsstefnu ESB, grasrótarstarfsemi um umhverfismál, ofvöxtur þörunga í Eystrasaltinu, og samgöngumál í tengslum við loftslagsbreytingar.
    Á árinu 2009 samþykkti Norðurlandaráð fimm tillögur sem tilmæli sem umhverfis- og náttúruauðlindanefnd hafði haft til umfjöllunar. Það voru samnorrænn gagnabanki um tegundir í baráttunni gegn útrýmingu plöntu- og dýrategunda (tilmæli 1/2009), vindorkuver í Eystrasalti (tilmæli 4/2009), bættur viðgerðaviðbúnaður fyrir raforkugeira á Norðurlöndum (tilmæli 5/2009), betri nýting auðlinda í fiskveiðum og bann við brottkasti á fiski (tilmæli 9/2009) og framkvæmdaáætlun um orkusamstarf 2010–2013 (tilmæli 13/2009). Þá tók ráðið eina ákvörðun um innri málefni sem verið hafði til umfjöllunar hjá nefndinni. Það var Umhverfisstefna Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar (ákvörðun 1/2009).

Velferðarnefnd.
    Siv Friðleifsdóttir var fulltrúi Íslandsdeildar og formaður í velferðarnefnd á starfsárinu 2009.
    Velferðarnefnd sinnir velferðar- og tryggingamálum, félagsþjónustu- og heilbrigðismálum, málefnum fatlaðra, bygginga- og húsnæðismálum, fjölskyldumálum, málefnum barna og unglinga og baráttu gegn misnotkun vímuefna.
    Aðaláhersla velferðarnefndar árið 2009 var á hvernig skapa mætti sjálfbært atvinnulíf fyrir alla á Norðurlöndum. Nefndin heimsótti í janúar Barnahús í Reykjavík og fundaði með Ingvar Kamprad, stofnanda IKEA, og Sven-Erik Bucht bæjarfulltrúa í Haparanda í júní.
    Norðurlandaráð samþykkti þrjár tillögur sem tilmæli á árinu 2008 sem höfðu verið til umfjöllunar í velferðarnefnd. Það voru aðgerðir gegn útbreiðslu berkla/fjölónæmra berkla og alnæmis í Norðvestur-Rússlandi (tilmæli 3/2009), tilmæli um að norrænu stofnuninni um tannlækningaefni (NIOM) verði breytt í samstarfsvettvang frá og með 1.1.2010 (tilmæli 26/2009) og sjálfbær vinnumarkaður fyrir alla á Norðurlöndum (tilmæli 27/2009).

Borgara- og neytendanefnd.
    Enginn fulltrúi Íslandsdeildar sat í borgara- og neytendanefnd Norðurlandaráðs á starfsárinu 2009.
    Borgara- og neytendanefnd annast málefni sem varða lýðræði, mannréttindi, borgararéttindi, jafnrétti, neytendamál, hollustu matvæla, baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi, löggjöf, innflytjendur, flóttafólk og baráttu gegn kynþáttafordómum.
    Á starfsárinu 2009 voru helstu áhersluþættir borgara- og neytendanefndar stefnumótun um innflytjendur og hælisleitendur, fíkniefni og vændi.
    Af þeim tillögum sem samþykktar voru sem tilmæli hjá Norðurlandaráði á árinu 2009 höfðu fimm verið til umfjöllunar hjá borgara- og neytendanefnd. Það voru notkun kennitölu við tímabundna dvöl í norrænu ríki – samræming þjóðskrár (tilmæli 11/2009), stefna varðandi fólksflutninga, hælisleitendur og flóttafólk: Formlegt samstarfssvið hjá Norrænu ráðherranefndinni (tilmæli 18/2009), börn sem verða fórnarlömb mansals (tilmæli 19/2009), norrænt átak gegn fíkniefnum (tilmæli 20/2009) og tengslanet neytendasamtaka (tilmæli 28/2009).

Eftirlitsnefnd.
    Kristján Þór Júlíusson og Illugi Gunnarsson voru fulltrúar Íslandsdeildar í eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs árið 2009.
    Eftirlitsnefndin fylgist fyrir hönd Norðurlandaráðsþings með starfsemi sem fjármögnuð er úr sameiginlegum sjóðum Norðurlandanna. Nefndin hefur einnig umsjón með málefnum sem snerta túlkun samninga um norræna samvinnu, vinnutilhögun Norðurlandaráðs og önnur innri málefni. Hluti af fastri starfsemi nefndarinnar er að fara yfir skýrslur dönsku ríkisendurskoðunarinnar um ársreikninga Norðurlandaráðs, Norrænu ráðherranefndarinnar og Norræna menningarsjóðsins.
    Helsta ummfjöllunarefni eftirlitsnefndar árið 2009 var að fylgja eftir starfi nefndarinnar árið 2008 varðandi eftirlit verkefna hjá Norrænu ráðherranefndinni og tilmælum sem nefndin átti frumkvæði að, um verkefnaumsjón hjá Norrænu ráðherranefndinni (tilmæli 38/2008).

5. Verðlaun Norðurlandaráðs.
    Verðlaun Norðurlandaráðs eru fern, þ.e. bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun, náttúru- og umhverfisverðlaun, og kvikmyndaverðlaun. Þau eru að upphæð 350 þúsund danskar krónur. Verðlaunin fyrir árið 2009 voru afhent við hátíðlega athöfn í Kulturhuset í Stokkhólmi þann 28. október í tengslum við 61. þing Norðurlandaráðs.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs hefur verið úthlutað á hverju ári frá 1962. Þau eru veitt fyrir fagurbókmenntir sem skrifaðar eru á einu af norrænu tungumálunum. Til greina koma skáldsögur, leikrit, ljóða-, smásagna- eða ritgerðasöfn og önnur bókmenntaverk. Verðlaunaverkin skulu hafa til að bera mikið listrænt og bókmenntalegt gildi. Markmið verðlaunaveitingarinnar er að auka áhuga Norðurlandabúa á bókmenntum og tungumáli nágrannalandanna og á sameiginlegri menningararfleifð Norðurlanda.
    Norski rithöfundurinn Per Petterson hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2009 fyrir skáldsöguna Jeg forbanner tidens elv. Hann er meðal virtustu og vinsælustu höfunda Noregs og hefur áður, árið 1997, verið tilnefndur til bókmenntaverðlaunanna. Í rökstuðningi dómnefndar sagði: „Í skáldsögunni lýsir aðalpersónan reynslu sinni og brotakenndum minningum um áföll í eigin fjölskyldu. Petterson lýsir á ljóðrænu og hæglátu máli hversu erfitt það er að segja hvert öðru það sem mikilvægast er.“

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs.
    Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1965. Fram til ársins 1988 voru þau afhent annað hvert ár en frá 1990 hafa þau hins vegar verið veitt á ári hverju, annað árið tónskáldi og hitt árið tónlistarflytjanda. Tónlistarverðlaununum er ætlað að vekja athygli á tónlistarsköpun og tónlistarflutningi sem telst hafa mikið listrænt gildi.
    Finnski tónlistarmaðurinn og klarínettuleikarinn Kari Kriikku hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs árið 2009. Hann er viðurkenndur á alþjóðavettvangi og þekktur sem framúrskarandi fulltrúi og sendiherra nútímatónlistar. Í rökstuðningi sínum komst dómnefndin þannig að orði: „Kari Kriikku hefur sýnt einstaka hæfileika í klarínettuleik. Leikur hans einkennist af sveigjaleika og mikilli tónlistargleði og hann er tónlistarmaður í orðsins fyllstu merkingu. Kriikku er frumkvöðull á sínu sviði sem einleikari og það hefur leitt til þess að hann hefur unnið með fjölmörgum nútímatónsmiðum og frumflutt verk þeirra. Sem kammertónlistarmaður hefur hann einnig farið út fyrir ramma klassískrar tónlistar í flutningi og túlkun.“ Kjartan Ólafsson tónskáld kynnti verðlaunahafann við afhendinguna.

Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.
    Náttúru- og umhverfisverðlaunum Norðurlandaráðs var komið á fót árið 1995. Verðlaunin eru veitt fyrirtæki, stofnun, samtökum eða einstaklingi sem skilað hefur sérstöku framlagi til náttúru- og umhverfisverndar. Dómnefnd verðlaunanna ákvað að árið 2009 skyldi veita verðlaunin norrænu fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem á einstakan hátt hefði skapað gott fordæmi við að fá fólk til að stunda útivist og auka skilning á þýðingu náttúrunnar fyrir andlegt og líkamlegt heilbrigði.
    Ákvörðun um verðlaunahafa var tekin á fundi dómnefndar 7. október í Reykjanesbæ og hreppti sænska skólaverkefnið I Ur og Skur hnossið. Það er verkefni sem sænska ríkisstofnunin Útivist ( Friluftsfrämjandets Riksorganisation) setti á fót árið 1985. Verkefnið nær nú til um 200 skóla, sem flestir eru á leikskólastigi, og alls taka um 30.000 börn og fullorðnir þátt í því. Markmið verkefnisins er að efla þroska barna með því að tengja saman nám og upplifun og ferðir út í náttúruna. Börnunum gefst kostur á að þroska skilningarvitin með því að þefa, hlusta og horfa á náttúruna. Allt þetta stuðlar að því að börnin öðlast betri skilning á náttúrunni og umhverfi sínu.
    Ákvörðun dómnefndar var rökstudd með eftirfarandi hætti: „Aðferðir verkefnisins I Ur og Skur hvetja til útivistar og eru frábært dæmi um verkefni sem stuðlar að velferð barna og eykur skilning þeirra á náttúrunni á tímum, þar sem flestir eru í rauntíma „on-line“ í gegnum netið. Verkefnið er að mestu leyti rekið utan húss og er nálægð barnanna og stofnana við náttúruna höfð að leiðarljósi. Verkefnið I Ur og Skur er frábær fyrirmynd að því að skapa upplifanir í náttúrunni og stuðla þannig að aukinni velferð barna. Verkefnið er jafnframt fyrirmynd sem nýta má í sambærilegum verkefnum, hvar sem er á Norðurlöndum.“ Kolbrún Halldórsdóttir, formaður dómnefndar, kynnti verðlaunahafann við afhendinguna.

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð veitti kvikmyndaverðlaun í fyrsta sinn á 50 ára afmælisþingi sínu árið 2002. Frá 2005 hafa þau verið veitt árlega og hafa skipst jafnt milli handritshöfunda, leikstjóra og framleiðenda. Til þess að hljóta verðlaunin verður viðkomandi að hafa gert kvikmynd sem á rætur í norrænni menningu, sem hefur til að bera listrænan frumleika og sameinar alla þætti myndarinnar í heilsteyptu verki.
    Danski kvikmyndaleikstjórinn Lars von Trier og framleiðandinn Meta Louise Foldager fengu kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2009 fyrir kvikmyndina Andkristur ( Antichrist). Andkristur var frumsýnd í Cannes 2009 þar sem hún tók þátt í aðalkeppninni og Charlotte Gainsbourg hlaut verðlaun fyrir bestan leik í kvenhlutverki.
    Í rökstuðningi dómnefndar fyrir vali á verðlaunahafa sagði: „ Andkristur eftir Lars von Trier er villt sjónræn veisla en jafnframt yfirgengilega ofbeldisfull kvikmynd sem fjallar um sorg, heift og sekt. Kvikmyndin, sem er í senn óþægileg og hjartnæm, fjallar um þá ringulreið sem skapast í lífi hjóna þegar ungur sonur þeirra deyr. Hún er ástríðufull frásögn af órökrænum öflum tilfinninga og eðlishvata, sem hvorki skynsemi né meðferð fær stjórnað. Myndin er á mörkum hins innra og ytra veruleika og leitað er í innstu sálarkima sögupersóna. Með fullkomnu tjáningarfrelsi sviðsetur Lars von Trier martröð foreldranna eins nákvæmlega og unnt er, og lýsir á miskunnarlausan hátt þeirri upplausn sem verður í kynbundnum hlutverkum þeirra. Með fullkominni sviðssetningu, leik og margvíslegri skírskotun í menningarsöguna, setur Andkristur það þekkta úr kvikmyndamáli, og hið sálfræði- og líkamlega í nýtt og ögrandi samhengi. Úr þessu framsýna verki sprettur fram formlaust myrkur, nístandi einsemd og sársauki sem er frumforsenda þess að mannskepnan lifir af. Á þennan hátt, sem vissulega er afar persónulegur, setur Lars von Trier spurningamerki við hentistefnu í trúmálum og ræðst gegn viðurkenndri rökhugsun og allsráðandi metnaðargirnd og ýtir áhorfandanum fram á ystu nöf eigin ótta.“

6. Sameiginlegir fundir Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð kom saman til nefndafunda þrisvar sinnum árið 2009, í janúar, apríl og september, eins og það gerir að jafnaði. Markmiðið með fundunum er að vinna þær tillögur og þau mál sem lögð eru fyrir Norðurlandaráðsþing á haustin. Í tengslum við nefndafundina fara fram stuttir sameiginlegir fundir alls ráðsins þar sem tekin eru fyrir efni sem tengjast verksviðum nefndanna, auk þess sem ein eða fleiri nefndir í samstarfi standa fyrir málstofum um málefni sem eru á borði nefndanna.

Janúarfundir Norðurlandaráðs í Reykjavík.
    Janúarfundir Norðurlandaráðs voru haldnir á Radisson SAS Hotel Saga í Reykjavík dagana 27.–28. janúar 2009. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundina Árni Páll Árnason formaður, Helgi Hjörvar, Kjartan Ólafsson, Kristján Þór Júlíusson og Siv Friðleifsdóttir, auk Lárusar Valgarðssonar ritara. Meðal helstu mála til umfjöllunar á fundunum voru starfsemi Norðurlandaráðs árið 2009 undir forustu Svíþjóðar, formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2009, áhrif alþjóðlegu fjármálakreppunnar á Íslandi og stefnumótun Norðurlandaráðs og norrænu þjóðþinganna í umhverfismálum.
    Janúarfundir Norðurlandaráðs eru haldnir í því landi sem fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni það árið. Sú hefð er einnig ríkjandi að allir þingmenn ráðsins haldi sameiginlegan fund þar sem fjallað er um formennskuáætlun gestgjafalandsins í ráðherranefndinni og starfsemi Norðurlandaráðs á árinu, og var það einnig gert í Reykjavík við upphaf janúarfundanna.
    Árni Páll Árnason, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, opnaði sameiginlega fundinn og lýsti stuttlega atburðum líðandi stundar í íslenskum stjórnmálum og sagði að efla þyrfti traust milli almennings og stjórnmálamanna.
    Sinikka Bohlin, forseti Norðurlandaráðs, kynnti starfsemi Norðurlandaráðs 2009 undir forsæti Svíþjóðar. Sú nýbreytni hefur verið tekin upp að ráðið hefur sett sér rammaáætlun til nokkurra ára og það land sem er í forsæti sérhvert ár leggur eigin áherslur í samræmi við hana. Í rammaáætlun ráðsins eru lykilatriðin að styrkja norræna velferð, að hafa áhrif á hnattvæðinguna, að auka hreyfanleika á Norðurlöndum, að standa vörð um lífríki hafsins, að móta viðfangsefni í Norðlægu víddinni og að vilja skilvirkara norrænt tungumálasamstarf. Bohlin sagði að sem forseti Norðurlandaráðs 2009 mundi hún leggja áherslu á að standa vörð um samkennd Norðurlandabúa og styrkja nærsvæðasamstarf við Norðvestur-Rússland, ríki við Eystrasalt og samstarf um norðurskautssvæðið, auk loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn í desember 2009.
    Snjólaug Ólafsdóttir, skrifstofustjóri Norðurlandaskrifstofu forsætisráðuneytisins, kynnti formennskuáætlun Íslands sem nefndist „Norrænn áttaviti“ í heild sinni fyrir Norrænu ráðherranefndinni. Stærsti einstaki viðburðurinn á formennskuárinu var hnattvæðingarþing 26.–27. febrúar sem fram fór á Íslandi, með þátttöku um 100 forustumanna í atvinnulífi, vísindum og stjórnmálum þar sem alþjóðlega fjármálakreppan og áhrif hennar á loftslagsmál og nýsköpun voru til umræðu.
    Danfríður Skarphéðinsdóttir, sérfræðingur í umhverfisráðuneytinu, kynnti formennskuáætlunina á sviði umhverfismála. Á því sviði var sjónum beint að loftslagsmálum og málefnum hafsins. Eitt helsta markmið Íslendinga á formennskutímanum var að efla samstarf um verndun Norður-Atlantshafsins og um málefni norðurskautsins. Liður í því var að hrinda úr vör gerð vákorts fyrir Norður-Atlantshafið sem grundvöll fyrir samræmdar aðgerðir, komi til umhverfisslyss.
    Karitas H. Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri í menntamálaráðuneyti, og Ragnheiður H. Þórarinsdóttir og Eiríkur S. Sigurðarsson, sérfræðingar í menntamálaráðuneyti, upplýstu um formennskuáætlun á sviði vísinda, menntunar og menningar. Mikilvægt inntak áætlunarinnar var að efla samstarf um rannsóknir og nýsköpun, ekki síst á sviði loftslags-, orku- og umhverfismála.
    Sinikka Bohlin, forseti Norðurlandaráðs, heimsótti Alþingi í tengslum við janúarfundina og fundaði með forseta Alþingis, Sturlu Böðvarssyni, til samráðs og gagnkvæmrar upplýsingagjafar.

Aprílfundir Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn.
    Aprílfundir Norðurlandaráðs voru haldnir í Eigtveds Pakhus í Kaupmannahöfn dagana 16.–17. apríl 2009. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundina Helgi Hjörvar og Kjartan Ólafsson. Staðgengill ritara Íslandsdeildar var Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins. Meðal helstu mála til umfjöllunar voru: Stoltenberg-skýrslan og norrænt samstarf um utanríkis- og öryggismál; tillaga um stofnun norrænnar skrifstofu í Hvíta-Rússlandi; aðgerðaáætlun Norðurlandaráðs gagnvart ESB og fjárlög Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir 2010. Auglýstum sameiginlegum fundi sem halda átti í tengslum við aprílfundina um fjármálakreppuna var aflýst.

Septemberfundir Norðurlandaráðs í Mariehamn.
    Septemberfundir Norðurlandaráðs voru haldnir í Mariehamn á Álandseyjum 29.–30. september. Fyrir hönd Íslandsdeildar Norðurlandaráðs tóku þátt í fundunum Helgi Hjörvar formaður, Álfheiður Ingadóttir varaformaður, Siv Friðleifsdóttir, Bjarni Benediktsson, Illugi Gunnarsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Ásmundur Einar Daðason. Helstu mál á dagskrá fundanna voru eftirfylgni Stoltenberg-skýrslunnar, norrænt framlag til átakastjórnunar og friðaruppbyggingar á alþjóðavettvangi og kjör forseta Norðurlandaráðs árið 2010.
    Sameiginlegur fundur allra þingmanna Norðurlandaráðs fjallaði um norrænt framlag til átakastjórnunar og friðaruppbyggingar á alþjóðavettvangi. Aðalframsögumenn á fundinum voru Martti Ahtisaari, fyrrverandi forseti Finnlands, og Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs. Ahtisaari sagði að mikill áhugi væri á átakastjórnun á Norðurlöndum. Það kæmi meðal annars fram í formennskuáætlun Svíþjóðar í ESB fyrir seinni hluta ársins 2009. Í átakastjórnun fælist að koma jafnvægi á aðstæður og vinda ofan af þeim og við það væri þörf á utanaðkomandi aðstoð. Mikilvægt væri að reyna að þróa vinnureglur við lausn átaka. Þar þyrfti að hafa í huga bakgrunn átaka, hverjir væru málsaðilar, hvað hefði þegar verið reynt til lausnar og hvort málsaðilar væru tilbúnir að reyna að leysa aðsteðjandi bráðavanda. Stoltenberg talaði út frá skýrslu sinni um utanríkis- og öryggismál. Þar gerði hann meðal annars að umtalsefni 13. tillögu skýrslunnar um gagnkvæma samstöðuyfirlýsingu Norðurlandanna í öryggismálum. Hann sagði að tillagan hefði komið af stað miklum umræðum um hvort slík yfirlýsing væri möguleg, en sjálfur væri hann fylgjandi slíkri yfirlýsingu.
    Kjörnefnd tók fyrir kjör forseta Norðurlandaráðs 2010. Nefndin hafði óskað eftir tilnefningu Íslandsdeildar um íslenskt forseta- og varaforsetaefni ráðsins og ákvað deildin að tilnefna Helga Hjörvar sem forseta, eftir atkvæðagreiðslu, og Siv Friðleifsdóttur sem varaforseta, án atkvæðagreiðslu. Á fundi kjörnefndar lýsti flokkahópur miðjumanna yfir óánægju með tilnefningu Íslandsdeildar og vísaði til fundargerðar forsætisnefndar frá árinu 2003 þar sem fram kom að forsætisnefnd væri viljug til að fallast á tilnefningar landsdeilda um forseta og að viss skipting skyldi eiga sér stað milli flokkahópa. Flokkahópur miðjumanna taldi að Íslandsdeild hefði ekki tekið tillit til skiptingar milli flokkahópa því ef Helgi Hjörvar yrði fyrir valinu yrði forseti ráðsins úr flokkahópi jafnaðarmanna þriðja árið í röð. Flokkahópur miðjumanna vísaði til að þingfundur Norðurlandaráðsþings tæki ákvörðun um hver yrði forseti og gerði tillögu um Siv Friðleifsdóttur sem forseta. Kjörnefnd ákvað að biðja forsætisnefnd að skilgreina nánar hvernig tilnefning forseta og varaforseta skyldi ganga fyrir sig og hvernig skipting milli flokkahópa skyldi eiga sér stað. Þar sem fundur kjörnefndar var á undan fundi forsætisnefndar fjallaði forsætisnefnd strax um málið. Hún komst að þeirri niðurstöðu að vinnureglur Norðurlandaráðs um kosningar giltu, að mikilvægt væri að breyta ekki reglum í miðjum aðdraganda kosninga, mikilvægt væri að reglurnar væru skýrar. Forsætisnefndin sagði um núverandi kosningaaðstæður að samkvæmt vinnureglunum væri öðrum en þeim sem Íslandsdeild tilnefndi heimilt að bjóða sig fram og hægt væri að kjósa á milli manna á þingfundi. Einnig sammæltist forsætisnefnd um að biðja kjörnefnd um að gera drög að reglum um fyrirkomulag forsetakjörs í framtíðinni.

7. 61. þing Norðurlandaráðs í Stokkhólmi.
    61. þing Norðurlandaráðs var haldið í Stokkhólmi dagana 27.–29. október. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu þingið Helgi Hjörvar formaður, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir varaformaður, Siv Friðleifsdóttir, Bjarni Benediktsson, Illugi Gunnarsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Ásmundur Einar Daðason, auk Lárusar Valgarðssonar ritara. Helstu mál á dagskrá þingsins voru hlutverk Norðurlanda í samstarfi Evrópusambandsins, aukið utanríkis- og varnarsamstarf á Norðurlöndum, norðurskauts- og náttúruauðlindamál og kjör forseta Norðurlandaráðs 2010.
    Hlutverk Norðurlanda í samstarfi Evrópusambandsins var umfjöllunarefni norræns leiðtogafundar í upphafi Norðurlandaráðsþingsins. Á þeim vettvangi ræða leiðtogar allra ríkisstjórna og stjórnarandstöðu á Norðurlöndum samnorræn málefni. Leiðtogar ríkisstjórna voru almennt jákvæðir gagnvart norrænu samstarfi samhliða samstarfi Evrópusambandsins og um þau áhrif sem Norðurlöndin gætu haft á sambandið þó að þau séu ekki öll aðildarríki né myndi blokk innan þess. Í umræðunni voru loftslagsmál og fjármálakreppa áberandi. Kaj Leo Johannesen, lögmaður Færeyja, og Kuupik Kleist, formaður landsstjórnar Grænlands, fjölluðu einnig beint um tengsl Færeyja og Grænlands við Evrópusambandið og stefnu þess varðandi fiskveiðar og norðurskautssvæðið, þar á meðal um nýtingu sjávarspendýra. Jóhanna Sigurðardóttir gerði grein fyrir hvað Ísland gæti lagt af mörkum innan Evrópusambandsins. Þar nefndi hún þekkingu og reynslu af sjálfbærum fiskveiðum, nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og landbúnaði á norðurslóðum. Þá væri hnattstaða Íslands mikilvæg varðandi eftirlit og samgöngur á norðurslóðum og Íslendingar mundu gefa mannréttindum og velferð sérstakan gaum í starfi innan stofnana sambandsins, og jafnframt stuðla að auknu samstarfi smærri aðildarríkja, samfara því að árétta samstöðu allra aðilarríkja. Bjarni Benediktsson veitti ræðu forsætisráðherra andsvar og spurði hvort þróun almenningsálitsins á Íslandi undanfarna mánuði væri henni áhyggjuefni og hvort aðildarumsókn Íslands byggðist á því að sambandið veitti undanþágur, t.d. varðandi fiskveiðistefnu sína. Ráðherra sagði í svari sínu að öll áhersla yrði lögð á viðunandi niðurstöðu í sjávarútvegsmálum þannig að Íslendingar hefðu áfram yfirráð yfir sínum sjávarauðlindum og minni stuðningur við aðild tengdist þeim skuldbindingum sem Ísland hefði þurft að taka á sig vegna Icesave-málsins. Hins vegar væri hún sannfærð um að þegar niðurstöður aðildarviðræðna lægju fyrir og þær hefðu verið kynntar vandlega mundi sú skoðun breytast og meiri hluti verða fyrir aðild.
    Fulltrúar norrænnar stjórnarandstöðu fjölluðu á leiðtogafundinum um atvinnusköpun, auk loftslagsmála og fjármálakreppu, og gagnrýndu einnig tollastefnu sambandsins og fulltrúalýðræði þess. Bjarni Benediktsson fjallaði um reglur Evrópusambandsins í tengslum við Icesave- málið. Hann lýsti vonbrigðum Íslendinga með þá framkomu annarra Norðurlandaríkja að gefa ekki vilyrði um lán til Íslands án þess að tengja þau afgreiðslu lána Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til Íslands. Hún hefði frestast fyrir tilstuðlan Bretlands og Hollands til að þrýsta á Íslendinga um að gefa eftir í málinu og gefa frá sér rétt til að láta reyna á ágreining fyrir dómstólum, en það væri í andstöðu við reglur sjóðsins og græfi undan trúverðugleika hans. Hvorki Norðurlöndin né Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri málsaðili að Icesave-deilunni sem fjallaði fyrst og fremst um túlkun á reglum Evrópusambandsins og hvernig deila Íslands við Bretland og Holland skyldi leidd til lykta. Frederik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, svaraði því til að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, með sínum skilmálum, væri í aðalhlutverki við stuðning við ríki sem rötuðu í djúpar efnahagskreppur og að mjög sjaldgæft væri að lönd væru tilbúin að veita tvíhliða lán á borð við þau sem Norðurlöndin væru tilbúin að veita Íslandi. Ástæðan fyrir því væru tengsl Norðurlandanna. Siv Friðleifsdóttir veitti ræðu Jens Stoltenbergs, forsætisráðherra Noregs, andsvar og spurði hvort norska ríkisstjórnin væri til viðræðu um beina lánaaðstoð við Ísland án tengingar við áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hvort hægt væri að taka til umfjöllunar aðstoð við Ísland á vettvangi norrænna forsætisráðherra svo að Ísland væri ekki eins bundið Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Stoltenberg svaraði að ábyrgðin á því að fjármálageiranum á Íslandi hefði verið leyft að verða jafnstór og raun bar vitni án efnahagslegrar undirstöðu væri Íslendinga, ekki annarra norrænna landa og það væri ekki í myndinni að Noregur veitti lán á annan hátt. Skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins væru forsenda þess að unnt væri að lána háar upphæðir.
    Aukið utanríkis- og varnarsamstarf á Norðurlöndum var tekið fyrir á öðrum degi Norðurlandaráðsþingsins. Norrænir utanríkis- og varnarmálaráðherrar gáfu skýrslu og helstu tillögur til umfjöllunar voru tillaga um samræmda norræna varnarmálastefnu, tillaga um stofnun norrænnar skrifstofu í Minsk og tillaga um norrænar athuganir á grænbókum og hvítbókum Evrópusambandsins. Skýrsla Thorvalds Stoltenbergs um þróun norræns samstarfs um öryggis- og varnarmál á næstu 10–20 árum var fyrirferðarmikil í umræðunni í kjölfar skýrslna utanríkis- og varnarmálaráðherranna. Af tillögum Stoltenbergs í skýrslunni hlutu tillagan um norrænt samstarf um loftrýmiseftirlit yfir Íslandi, tillagan um samstarf á sviði utanríkisþjónustu og tillagan um norræna samstöðuyfirlýsingu mesta athygli. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra rifjaði upp að utanríkisráðherrar Norðurlandanna hefðu ákveðið í júní að kanna möguleika hvers lands til þátttöku í eftirliti með loftrými yfir Íslandi en Erkki Tuomioja, sem sæti á í forsætisnefnd Norðurlandaráðs, taldi ekki raunhæft að öll norrænu löndin tækju þátt í því. Af því tilefni benti Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, á að samkvæmt skýrslunni væri möguleiki fyrir hendi á samstarfi tveggja, þriggja eða fjögurra norrænna landa um viss verkefni og sagði að nokkur norræn lönd væru tilbúin að taka þátt í eftirliti með loftrými yfir Íslandi því það væri mikilvægt fyrir öryggi í Norður-Atlantshafi. Almenn sátt var um samstarf milli norrænna sendiráða og minnti Tuomioja á að Norðurlandaráð hefði samþykkt tilmæli um aukið samstarf í utanríkisþjónustu Norðurlandanna. Össur Skarphéðinsson sagði að í tillögu Stoltenberg-skýrslunnar um norræna samstöðuyfirlýsingu glitti í ljóðræna fegurð. Tuomioja þótti lýsing utanríkisráðherra falleg en taldi það erfiðleikum bundið að yfirfæra fegurðina í hinu ljóðræna í lagalega bindandi samninga.
    Tillaga forsætisnefndar um samræmda norræna varnarmálastefnu olli nokkrum skoðanaskiptum milli fulltrúa flokkahópa hægrimanna og vinstrisósíalista og grænna. Kent Olsson frá flokkahópi hægrimanna lagði áherslu á að um væri að ræða hagræðingu í varnarmálum en fulltrúi vinstrisósíalista og grænna, Line Barfod, sagði að flokkahópur hennar væri fylgjandi nánara samstarfi í varnarmálum, en þá um friðargæslusveitir og friðarumleitanir, t.d. um afleiðingar náttúruhamfara og loftslagabreytinga og um rafrænar árásir.
    Lífleg umræða skapaðist um tillögu um stofnun norrænnar skrifstofu í Minsk. Stuðningsmenn tillögunnar sögðu að skrifstofan gæti haft jákvæð áhrif á lýðræðisþróun í Hvíta-Rússlandi en þeir sem voru andvígir töldu að opnun slíkrar skrifstofu væri ekki forgangsatriði og erfitt að koma auga á samnorrænan ávinning af málinu. Mantas Adomenas, forseti Eystrasaltsþingsins, sem var gestur Norðurlandaráðsþingsins, blandaði sér í umræðuna og taldi að fulltrúar stjórnarandstöðunnar í Hvíta-Rússlandi mundu líta á opnun slíkrar skrifstofu sem stuðningsvott við Lukashenko forseta landsins, en að ákvörðunin væri Norðurlandaráðs. Siv Friðleifsdóttir lýsti yfir stuðningi við tillöguna og svo fór að hún var samþykkt með nokkrum meiri hluta.
    Þá var samþykkt tillaga um norrænar athuganir á grænbókum og hvítbókum Evrópusambandsins. Markmið hennar er að skrifstofa ráðsins fylgist með gangi mála í kerfi Evrópusambandsins, miðli upplýsingum og geri tillögu um forgangsröðun mála sem teljast veigamikil fyrir Norðurlönd samkvæmt þröngri skilgreiningu. Lögð er áhersla á að Norðurlandaráð láti að sér kveða snemma í ferli mála og efli samskipti við norrænu þjóðþingin, einkum Evrópunefndir þeirra sem starfa saman á Evrópuvettvangi í COSAC ( Conference of Community and European Affairs Committees of Parliaments of the European Union), og gert er ráð fyrir að landsdeildir Norðurlandaráðs verði í tengslum við þessar þingnefndir til þess að afla upplýsinga.
    Helstu tillögur til umfjöllunar um norðurskauts- og náttúruauðlindamál voru tillaga um alþjóðlega ráðstefnu um þróun norðurskautssvæðisins og tillaga um verndarstefnu í fiskveiðum og bann við brottkasti fisks. Norðurlandaráð hefur á síðustu árum samþykkt ýmis tilmæli varðandi norðurskautið, til að mynda um samnorræn eftirlitskerfi á norðurskauti, um rannsóknir á lagaumhverfi hafsvæða á norðurslóðum og norðurskautssáttmála, um áherslu á umhverfismál á norðurslóðum og um norðurskautsrannsóknir. Einnig hefur Norðurlandaráð á síðustu árum fjallað um borgaralegt öryggi í norðurhöfum sem hluta af samfélagsöryggi. Við umræðurnar kom fram að málefni norðurskautsins snerust ekki aðeins um loftslagsmál, nýjar siglingaleiðir, náttúruauðlindir og öryggismál, heldur einnig um framtíð samfélaga á svæðinu. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir rakti hvernig margar ráðstefnur um loftslagsmál, og þá sérstaklega um áhrifin sem loftslagsbreytingar hafa á norðurskautssvæðið, hefðu verið haldnar ár eftir ár án þess að aðgerðir hefðu fylgt fínum ræðum. Hún varpaði einnig fram þeirri spurningu hvers vegna norðurskautið væri í raun komið í tísku á heimsvísu og svaraði því sjálf á þá leið að það væri vegna alþjóðlegra stórfyrirtækja og stórra landa sem sæju sér leik á borði að græða. Í umræðum um náttúruauðlindir var endurnýjuð fiskveiðistefna Evrópusambandsins, sem taka á gildi árið 2013, í brennidepli. Þingmenn ráðsins lögðu áherslu á að við endurnýjun stefnunnar þyrfti að taka á brottkasti fisks og leggja til grundvallar að fiskveiðarnar væru umhverfislega, hagfræðilega og félagslega sjálfbærar.
    Í fyrirspurnatíma norrænu samstarfsráðherranna á þriðja degi þingsins beindi Siv Friðleifsdóttir þeirri spurningu til Bertels Haarders, danska samstarfsráðherrans, hvaða augum hann liti efni greinar Gunnars Wetterbergs í dagblaðinu Dagens Nyheter þá vikuna um nýtt norrænt sambandsríki. Haarder kvaðst telja að greinin væri um margt athyglisverð og nýta mætti hana sem innblástur í norrænu samstarfi. Hann benti á að samstarf Norðurlandanna gæti verið mun víðtækara en innan Evrópusambandsins þar sem þau væru líkari en 27 og ef til vill bráðum 30 aðildarríki sambandsins.
    Sigríður Ingibjörg Ingadóttir spurði í fyrirspurnatímanum sænska samstarfsráðherrann Cristina Husmark Pehrsson um hvort hún hygðist beita sér fyrir því að Framhaldsmenntunarstofnun Svíþjóðar ( Högskoleverket) drægi til baka fyrirmæli sín um nýjar inntökureglur frá og með haustmisseri 2010 þar sem útlenskar og alþjóðlegar einkunnir skyldu metnar í eigin flokki, þar á meðal íslenskar og norskar einkunnir, þegar slíkt stangaðist á við norrænan samning um aðgang að æðri menntun. Spurning Sigríðar var borin upp í framhaldi af ræðu hennar frá deginum áður við umræður um landamærahindranir þar sem hún vakti athygli á þessum fyrirmælum sem verðandi landamærahindrunum. Samningurinn um æðri menntun, sem tryggja ætti öllum Norðurlandabúum jafnan aðgang að æðri menntun í öðru norrænu landi, hefði nýlega verið framlengdur til ársins 2012. Pehrsson svaraði fyrirspurninni á þá leið að málið væri til meðferðar hjá sænsku ríkisstjórninni.
    Sigríður Ingibjörg tók einnig þátt í umræðum um mansal og jafnrétti. Þar sagði hún frá því að ríkisstjórn Íslands hefði sett lög að sænskri fyrirmynd sem gerðu kaup á kynlífsþjónustu ólögleg og lagði til að sett yrðu lög til að vernda fórnarlömb mansals. Í umræðunni veitti hún einnig andsvar við ræðu Árna Páls Árnasonar félags- og tryggingamálaráðherra sem fyrir hönd Norrænu ráðherranefndarinnar kynnti skýrslu um aðgerðir ráðherranefndarinnar til að koma í veg fyrir mansal. Sigríður Ingibjörg þakkaði fyrir skýrsluna og fagnaði því að ríkisstjórn Íslands hefði samþykkt aðgerðaáætlun gegn mansali sem væri einn ljótasti bletturinn á mannlegu samfélagi.
    Kjör forseta og varaforseta Norðurlandaráðs fyrir árið 2010 var áfram til umfjöllunar ráðsins. Fjallað var um málið á fundi kjörnefndar, á fundi Íslandsdeildar og á þingfundi. Ágreiningur hafði risið innan Norðurlandaráðs í september um hvort fylgja ætti þeirri hefð við kjör forseta að þingfundur ráðsins fylgdi tilnefningu landsdeildar formennskulands eða hvort hafa skyldi til hliðsjónar skiptingu embættisins milli flokkahópa á ákveðnu árabili. Eftir fund kjörnefndar í september lágu fyrir tvær tillögur um forseta, annars vegar tilnefning Íslandsdeildar frá 14. september um Helga Hjörvar, formann deildarinnar, eftir atkvæðagreiðslu sem lauk 4:3, og hins vegar tillaga flokkahóps miðjumanna um Siv Friðleifsdóttur, formann velferðarnefndar. Íslandsdeild hafði jafnframt tilnefnt Siv Friðleifsdóttur sem varaforseta, án atkvæðagreiðslu. Föstudaginn 23. október tilkynnti Siv Friðleifsdóttir að hún gæfi einungis kost á sér til embættis forseta ráðsins en ekki til bæði embættis forseta og varaforseta. Íslandsdeild fundaði um nýja tilnefningu varaforseta mánudaginn 26. október í Stokkhólmi og ákvað að tilnefna Illuga Gunnarsson með öllum sex greiddum atkvæðum viðstaddra. Siv Friðleifsdóttir átti ekki kost á að sækja fundinn vegna starfa sem formaður velferðarnefndar. Síðar sama dag fundaði kjörnefnd. Nefndinni hafði borist svar forsætisnefndar við beiðni hennar frá í september um nánari skilgreiningar um hvernig yfirstandandi tilnefning forseta og varaforseta skyldi ganga fyrir sig og hvernig skiptingu forsetaembættis milli flokkahópa eftir árafjölda skyldi háttað þess efnis að fylgja skyldi núgildandi starfsreglum. Kjörnefnd skyldi því gera tillögu um kosningu forseta til þingfundarins en öðrum frambjóðendum en þeim sem kjörnefnd gerði tillögu um væri heimilt að sækjast eftir kosningu. Kjörnefndinni hafði einnig borist tilkynning um ákvörðun Íslandsdeildar fyrr um daginn. Á fundi kjörnefndar var gengið til atkvæða milli tillögu um Helga Hjörvar sem forseta og Illuga Gunnarsson sem varaforseta og breytingartillögu flokkahóps miðjumanna um Siv Friðleifsdóttur sem forseta og Helga Hjörvar sem varaforseta. Atkvæði féllu þannig að tillagan um Helga og Illuga hlaut fimm atkvæði fulltrúa flokkahópa vinstrisósíalista og grænna, jafnaðarmanna og hægrimanna og tillagan um Siv og Helga tvö atkvæði fulltrúa flokkahóps miðjumanna. Á næsta fundi kjörnefndar 28. október tilkynnti fulltrúi flokkahóps miðjumanna að ekki yrði óskað eftir atkvæðagreiðslu á þingfundi milli Helga Hjörvar og Sivjar Friðleifsdóttur til forseta en fulltrúar flokkahóps miðjumanna mundu hugsanlega taka til máls við kjörið. Þeir gerðu það og gagnrýndu að forseti kæmi úr röðum sama flokkahóps þrjú ár í röð, sem hefði ekki gerst í fjörutíu ár, og að af síðustu sex forsetum væru fimm frá sama flokkahópi. Formaður kjörnefndar, Lars Wegendal, svaraði gagnrýninni á þann veg að þar sem Íslandsdeild hefði ekki verið á einu máli um tilnefningu til forseta hefði einnig myndast meiri hluti og minni hluti í kjörnefndinni og niðurstaða fengist með atkvæðagreiðslu. Fyrir hönd kjörnefndar gerði hann tillögu um Helga Hjörvar sem forseta sem þingfundurinn samþykkti án atkvæðagreiðslu. Illugi Gunnarsson var kjörinn varaforseti.
    Eftir kjörið tók Helgi Hjörvar til máls og þakkaði það traust sem honum væri sýnt. Hann vék að aðdraganda forsetakjörsins og sagði að umfjöllun ráðsins um meginreglur við kjör forseta hefði verið fagleg og lagði áherslu á gott samstarf við fulltrúa allra flokkahópa þar sem hann sem forseti mundi starfa í þágu ráðsins alls. Helgi tók fram að það væri mikilvægt fyrir Ísland að gegna formennsku í Norðurlandaráði því Íslendingar legðu æ meiri áherslu á norrænt samstarf í kjölfar efnahagskreppunnar. Hann tiltók nokkra áhersluþætti af hálfu Íslands á næsta ári, innan rammaáætlunar ráðsins, í fyrsta lagi öryggismál í víðu samhengi, þar á meðal baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi, eftirfylgni Stoltenberg-skýrslunnar, lærdóma af efnahagskreppunni og afleiðingar loftslagsbreytinga, í öðru lagi hafið, þ.m.t. Eystrasaltið, Norður-Atlantshaf og áhrif á uppfærslu fiskveiðistefnu Evrópusambandsins, og í þriðja lagi tungumál. Að svo mæltu þakkaði hann núverandi forseta og varaforseta fyrir vel unnin störf á árinu og vel heppnað Norðurlandaráðsþing og bauð þinggesti velkomna til Reykjavíkur að ári.
    Eftir kosningar í nefndir og ráð á Norðurlandaráðsþingi í Stokkhólmi er nefndarseta fulltrúa Íslandsdeildar Norðurlandaráðs árið 2010 sem hér segir: Helgi Hjörvar, forseti Norðurlandaráðs, situr í forsætisnefnd ásamt Illuga Gunnarssyni, varaforseta Norðurlandaráðs, sem sat áður í efnahags- og viðskiptanefnd og eftirlitsnefnd, Siv Friðleifsdóttir er áfram formaður velferðarnefndar, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir situr í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd, Bjarni Benediktsson fer úr forsætisnefnd yfir í efnahags- og viðskiptanefnd og tekur jafnframt sæti í eftirlitsnefnd, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir fer úr menningar- og menntamálanefnd yfir í velferðarnefnd og Ásmundur Einar Daðason situr áfram í menningar- og menntamálanefnd.
    Íslendingar fara með formennsku í Norðurlandaráði árið 2010. Næsta þing Norðurlandaráðs verður í Reykjavík 2.–4. nóvember 2010.

8. Starfsáætlun og áherslur árið 2010.
Norðurlandaráð.
    Norðurlandaráð hefur nú breytt áætlanagerð sinni þannig að rammaáætlun, „Norðurlönd í heiminum – heimurinn á Norðurlöndum“, gildir til lengri tíma en jafnframt gerir formennskuland ráðsins áætlun fyrir hvert ár í einu. Þá gera málefnanefndir starfsáætlun fyrir hvert ár. Samkvæmt rammaáætlun ráðsins eru markmið þess að styrkja norrænu velferðina, að hafa áhrif á hnattvæðinguna, að auka hreyfanleika á Norðurlöndum, að bæta hafsumhverfi, að móta viðfangsefni Norðlægu víddarinnar og að stuðla að skilvirkara norrænu tungumálasamstarfi.
    Ísland gegnir formennsku í Norðurlandaráði 2010. Formennskuáætlun Íslendinga er byggð á langtímaáætlun Norðurlandaráðs og fylgir eftir formennskuáætlun Svía í ráðinu árið 2009. Íslenska formennskuáætlunin skiptist í þrjá hluta, auk kafla um innri málefni ráðsins. Hnattvæðingin, sem það umhverfi og aðstæður sem Norðurlöndin búa við, fléttast inn í umfjöllun um alla hluta áætlunarinnar.
    Fyrsti hluti formennskuáætlunarinnar fjallar um öryggi, velferð og menningu. Þar er áætlað að fylgja eftir Stoltenberg-skýrslunni með áherslu á samfélagsöryggi og borgaralegt öryggi, þ.m.t. á Norður-Atlantshafi og við norðurskaut, að berjast gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi, þar á meðal mansali og starfsemi glæpasamtaka, að stuðla að velferð Norðurlandabúa, þar á meðal íbúa strandsamfélaga og nýrra Norðurlandabúa, og stuðla að umfjöllun um áhrif loftslagsbreytinga, nýrra siglingaleiða og aukinnar hættu á umhverfis- og farþegaslysum á strandsamfélögin, að fylgja eftir vinnu gegn landamærahindrunum, að fylgja eftir yfirlýsingu um norræna tungumálastefnu og að stuðla að efnahagslegu öryggi, m.a. með því að stuðla að umfjöllun um hvaða lærdóm má draga af fjármálakreppum á Norðurlöndum.
    Annar hluti formennskuáætlunarinnar fjallar um haf, loftslag og orku. Áætlað að stuðla að bættu umhverfi norrænna hafa, að fylgjast með og hafa áhrif á uppfærslu fiskveiðistefnu ESB, að fylgja eftir niðurstöðu Kaupmannahafnarfundar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál og að stuðla að rannsóknum og nýtingu á endurnýjanlegri orku.
    Þriðji hluti formennskuáætlunarinnar fjallar um alþjóðleg tengsl og helstu áherslur þar eru að rækta tengsl og samstarf á nærsvæðum til vesturs og austurs og við þingmannasamtök þar, sem og við Samband norrænu félaganna á Norðurlöndum og samtök frumbyggja þar, að fylgja eftir aðgerðaáætlun Norðurlandaráðs gagnvart Evrópusambandinu og að stuðla að jákvæðri ímynd Norðurlandanna í hnattvæddum heimi.
    Auk hinna þriggja hluta geymir formennskuáætlunin kafla um innri málefni. Varðandi þau er áætlað að efla tengsl Norðurlandaráðs við þjóðþingin og auka eftirfylgni tilmæla ráðsins, stuðla að því að gera veg dags Norðurlandanna, 23. mars, meiri til þess að vekja athygli á Norðurlöndum og norrænni samvinnu og að stuðla að nútímalegu Norðurlandaráði og norrænu samstarfi.

Alþingi, 16. mars 2010.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,


varaform.


Illugi Gunnarsson.



Siv Friðleifsdóttir.


Bjarni Benediktsson.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.



Ásmundur Einar Daðason.





Fylgiskjal.


Tilmæli Norðurlandaráðs og ákvarðanir um innri málefni árið 2009.


Tilmæli samþykkt af forsætisnefnd janúar – október 2009.
     *      Tilmæli 1/2009: Samnorrænn gagnabanki um tegundir í baráttu gegn útrýmingu plöntu- og dýrategunda (A 1443/miljø).
     *      Tilmæli 2/2009: Umhverfisstefna Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar (A 1442/miljö og A 1446/presidiet).
     *      Tilmæli 3/2009: Aðgerðir gegn útbreiðslu berkla/fjölónæmra berkla og alnæmis í Norðvestur-Rússlandi (A 1465/velferd).
     *      Tilmæli 4/2009: Vindorkuver í Eystrasalti (A 1456/miljø).
     *      Tilmæli 5/2009: Bættur viðgerðaviðbúnaður fyrir raforkugeira á Norðurlöndum (A 1457/ miljø).
     *      Tilmæli 6/2009: Samstarf norrænna sendiráða (A 1448/presidiet).
     *      Tilmæli 7/2009: Norræn framkvæmdaáætlun um starfsmanna- og notendastýrða nýsköpun innan ramma norrænu hnattvæðingaráætlunarinnar (A 1462/næring).
    
Tilmæli samþykkt á 61. þingi Norðurlandaráðs.
     *      Tilmæli 8/2009: Verkefna- og fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar 2010 (B 263/presidiet).
     *      Tilmæli 9/2009: Betri nýting auðlinda í fiskveiðum og bann við brottkasti á fiski (A 1471/miljø).
     *      Tilmæli 10/2009: Alþjóðleg ráðstefna um þróun á heimskautasvæðum (A 1459/ presidiet).
     *      Tilmæli 11/2009: Samræming milli norrænna þjóðskráa svo að hægt verði að nota kennitölu heimalandsins í hinum norrænu ríkjunum (A 1470/medborger).
     *      Tilmæli 12/2009: Notkun kennitölu – þróun auðkenniskerfis fyrir netverslun (A 1470/ medborger).
     *      Tilmæli 13/2009: Framkvæmdaáætlun um orkusamstarf 2010–2013 (B 262/miljø).
     *      Tilmæli 14/2009: Norrænn þekkingarbanki á sviði umhverfis- og orkumála (A 1463/ næring).
     *      Tilmæli 15/2009: Stofnun norrænnar skrifstofu í Minsk í Hvíta-Rússlandi (A 1435/ presidiet).
     *      Tilmæli 16/2009: Átak um að samræma varnarmál á Norðurlöndum (A 1455/presidiet).
     *      Tilmæli 17/2009: Samstarf um stefnu í geimferðamálum (A 1464/næring).
     *      Tilmæli 18/2009: Stefna varðandi fólksflutninga, hælisleitendur og flóttafólk: Formlegt samstarfssvið hjá Norrænu ráðherranefndinni (A 1479/medborger).
     *      Tilmæli 19/2009: Börn sem verða fórnarlömb mansals (A 1449/medborger).
     *      Tilmæli 20/2009: Norrænt átak gegn fíkniefnum (A 1467/medborgar).
     *      Tilmæli 21/2009: Norræn áætlun gegn fíkniefnum og rannsóknarverkefni (A 1467/ medborgar).
     *      Tilmæli 22/2009: Aukið rannsóknarsamstarf á og um norðurslóðir (A 1474/kultur).
     *      Tilmæli 23/2009: Norrænar rannsóknir á heimskautalægðum (A 1472/kultur).
     *      Tilmæli 24/2009: Menning í skólum (A 1469/kultur).
     *      Tilmæli 25/2009: Norrænt samstarf um fámennar iðngreinar/listgreinar (A 1473/kultur).
     *      Tilmæli 26/2009: Norrænu stofnuninni um tannlækningaefni (NIOM) verði breytt í samstarfsvettvang frá og með 1.1.2010 (B 264/velfærd).
     *      Tilmæli 27/2009: Sjálfbær vinnumarkaður fyrir alla á Norðurlöndum (A 1480/velferd).
     *      Tilmæli 28/2009: Tengslanet neytendasamtaka (A 1478/medborger).
     *      Tilmæli 29/2009: Samgöngukerfi á Mið-Norðurlöndum (A 1458/näring).
     *      Tilmæli 30/2009: Fylgt eftir endurskipulagningu menningarsviðs (A 1481/kultur).
     *      Tilmæli 31/2009: Beiting höfundarréttar á netinu (A 1482/kultur).
     *      Tilmæli 32/2009: Norrænt styrkjakerfi til þróunar á tölvuleikjum (A 1475/kultur).

Ákvarðanir um innri málefni.
     *      Ákvörðun 1/2009: Umhverfisstefna Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar (A 1442/miljö og A 1446/presidiet).
     *      Ákvörðun 2/2009: ESB-áætlun fyrir Norðurlandaráð (A 1438/presidiet).
     *      Ákvörðun 3/2009: Nánari kynning á norrænu samstarfi í þjóðþingunum (A 1439/ presidiet).