Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 229. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1053  —  229. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um vátryggingastarfsemi.

Frá meiri hluta viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kjartan Gunnarsson frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Guðmund Guðbjarnason og Hildi Árnadóttur frá Endurskoðendaráði, Sigurð Pál Hauksson frá Félagi löggiltra endurskoðenda, Gunnar Andersen, Ingu Einarsdóttur, Rúnar Guðmundsson og Sigurð Frey Jónatansson frá Fjármálaeftirlitinu, Jóhannes Gunnarsson frá Neytendasamtökunum, Eyjólf Ármannsson og Helga Magnús Gunnarsson frá embætti ríkislögreglustjóra, Helgu Jónsdóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Helga Þórsson frá Tryggingamiðstöðinni og Þórdísi Bjarnadóttur frá Viðskiptaráði Íslands. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Endurskoðendaráði, Fjármálaeftirlitinu, Neytendasamtökunum, Ríkisendurskoðun, embætti ríkislögreglustjóra, embætti ríkisskattstjóra, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjármálafyrirtækja, Seðlabanka Íslands, Samtökum verslunar og þjónustu, Tryggingamiðstöðinni og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ný heildarlög um vátryggingastarfsemi. Gildandi lög eru frá árinu 1994 og hefur verið breytt alloft síðan. Frumvarpið er samið af nefnd sem viðskiptaráðherra skipaði 18. september 2007 til að semja frumvarp til að innleiða tilskipun 2005/68/EB um endurtryggingar. Þegar vinna hófst við innleiðinguna var talið að ekki yrði komist hjá því að endurskoða lögin í heild enda þyrfti að taka tillit til breytinga sem höfðu verið gerðar á lögunum í gegnum tíðina og einnig komu fram ábendingar um nokkur atriði eldri tilskipana sem höfðu ekki verið innleidd rétt. Frumvarpið var lagt fram á 136. og 137. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu úr nefnd.
    Gildandi lög um vátryggingastarfsemi eiga bæði við um frum- og endurtryggingastarfsemi. Skv. 1. mgr. 5. gr. gildandi laga er óheimilt í atvinnuskyni að stuðla að því að vátryggingaráhætta sem hér er sé frumtryggð annars staðar en hjá vátryggingafélögum sem hafa starfsleyfi hér. Í lögunum eru ekki takmörk á því hvar vátryggingaráhætta er endurtryggð. Í tilskipunum EB (73/239/EBE og 2002/83/EB) eru ákvæði um starfsemi félaga sem sérhæfa sig í frumtryggingum. Ekki voru ákvæði um starfsemi sérhæfðra endurtryggingafélaga í tilskipunum EB fyrr en með tilkomu tilskipunar 2005/68/EB um endurtryggingar en markmið hennar er að samræma eftirlit með endurtryggingastarfsemi og styrkja innri markað EB á sviði vátryggingastarfsemi. Ákvæði tilskipunarinnar eru í samræmi við alþjóðlega staðla um eftirlit með endurtryggingastarfsemi sem hafa verið unnir af alþjóðasamtökum eftirlitsstjórnvalda á vátryggingasviði (IAIS). Samkvæmt tilskipuninni getur endurtryggingafélag á grundvelli starfsleyfis í heimaríki verið með starfsemi annars staðar í Evrópubandalaginu. Endurtryggingafélag þarf ekki að tilkynna eftirliti í heimaríki um fyrirætlanir sínar um starfsemi í öðru aðildarríki né þarf eftirlit í heimaríki að tilkynna eftirliti í gistiríki um starfsemi félagsins en slíkar skyldur hvíla á hlutaðeigandi þegar um frumtryggingafélag ræðir.
    Önnur ákvæði frumvarpsins um endurtryggingafélög sem byggjast á endurtryggingatilskipuninni eru eftirfarandi: Annars vegar er í 5. gr. veitt heimild til þess að endurtryggingarvernd sé keypt í þriðja ríki. Ef um er að ræða endurtryggingarvernd á frumtryggingaráhættu skal liggja fyrir samstarfssamningur milli Fjármálaeftirlitsins og eftirlitsstjórnvalds í heimaríki endurtryggingafélags. Sé um endurtryggingu á endurtryggingaráhættu að ræða á framangreint ekki við. Hins vegar eru í 38. gr. almennari reglur en eiga við um frumtryggingafélög um eignir til jöfnunar vátryggingaskuld.
    Helstu nýmæli og breytingar sem felast í frumvarpinu, önnur en þau sem leiðir af endurtryggingatilskipuninni, eru eftirfarandi:
    Lagt er til í 2. gr. að íslenskt vátryggingafélag skuli rekið sem hlutafélag. Verði frumvarpið að lögum fellur því brott heimild gildandi laga til að reka vátryggingafélag sem gagnkvæmt félag. Engin gagnkvæm vátryggingafélög eru starfandi hér á landi og engar óskir hafa komið fram um stofnun slíkra félaga. Reglur um gjaldþol og afnám einkaréttar bátaábyrgðarfélaganna á að veita þjónustu á tilteknu markaðssvæði höfðu í för með sér erfiðleika fyrir bátaábyrgðarfélög hér á landi og hættu félögin starfsemi í kjölfarið. Gagnkvæm vátryggingafélög eiga í erfiðleikum ef þau þurfa að bæta fjárhagsstöðu sína en þau geta ekki líkt og hlutafélög aukið eigið fé félagsins með útgáfu nýrra hlutabréfa. Með afnámi heimildar til að stofnsetja gagnkvæm vátryggingafélög er hins vegar ekki verið að skerða réttindi t.d. félagasamtaka til þess að gefa félagsmönnum sínum kost á að standa að stofnun vátryggingafélags. Hins vegar er ekki talin ástæða til að viðhalda í lögum ónýttum heimildum enda ákveðnir vankantar á forminu, sbr. framangreint. Meiri hlutinn telur brýnt að löggjöf um vátryggingastarfsemi verði endurskoðuð komi í ljós að áhugi sé fyrir því að koma á fót gagnkvæmum vátryggingafélögum.
    Í 6. gr. er afmarkað betur en í gildandi lögum hvenær Fjármálaeftirlitið getur gripið til aðgerða og viðurlaga séu hagsmunir neytenda ekki hafðir til hliðsjónar. Sambærilegt ákvæði er í 55. gr. gildandi laga. Lagt er til að Fjármálaeftirlitið hafi heimild til að grípa til ráðstafana telji það starfsemi eftirlitsskylds aðila ekki vera í samræmi við góða viðskiptahætti eða venjur. Sé ekki farið að fyrirmælum sem Fjármálaeftirlitið gefur getur það beitt viðurlögum XIII. kafla eða gripið til úrræða samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Lagt er til í 18. gr. að Fjármálaeftirlitið veiti vátryggingafélögum starfsleyfi en samkvæmt gildandi lögum er það viðskiptaráðherra sem veitir starfsleyfi. Þessi breyting er í samræmi við það sem gildir um önnur fjármálafyrirtæki.
    Lagt er til að aðili sem hyggst eignast virkan eignarhlut í vátryggingafélagi skuli tilkynna Fjármálaeftirlitinu fyrir fram um slík áform og skulu tilkynningu fylgja nánar tilgreindar upplýsingar, sbr. 2. mgr. 41. gr. Samkvæmt gildandi lögum er aðilum í þessari stöðu skylt að leita samþykkis Fjármálaeftirlitsins fyrir fram en slíkt er ekki heimilt samkvæmt tilskipun 2007/44/EB um breytingu á nokkrum tilskipunum að því er varðar reglur um málsmeðferð og viðmiðanir vegna varfærnismats við yfirtökur og aukningu eignarhlutdeildar í fjármálageiranum.
    Lagt er til það nýmæli í 2. mgr. 53. gr. að vátryggingafélagi verði óheimilt að veita lán með veði í eigin hlutabréfum eða skuldabréfum. Samsvarandi regla er í 17. gr. frumvarps til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki sem nefndin hefur til umfjöllunar (343. mál á 138. löggjafarþingi).
    Í 54. gr. eru lagðar til breytingar um skipan stjórnarmanna í vátryggingafélagi. Lagt er til að stjórn setji reglur sem Fjármálaeftirlitið staðfestir um innra eftirlit, innri endurskoðun, fjárfestingarstarfsemi, lánveitingar og viðskipti við tengda aðila. Einnig er lagt til að stjórnarmenn og framkvæmdastjóri vátryggingafélags megi ekki hafa hlotið dóm vegna brota á samkeppnislögum og sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi, þar á meðal lögum um vátryggingastarfsemi. Þá er skerpt á öðrum hæfisskilyrðum um fjárhagsstöðu, menntun, starfsreynslu og starfsferil stjórnarmanna og framkvæmdastjóra. Kveðið er á um að stjórnarmenn og framkvæmdastjórar skuli hafa lokið háskólaprófi sem nýtist í starfi en jafnframt lagt til að Fjármálaeftirlitið geti veitt undanþágu frá menntunarkröfum á grundvelli reynslu og þekkingar viðkomandi. Gert er ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitið setji sérstakar reglur um fjárhagslegt sjálfstæði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra og um hvernig staðið skuli að hæfismati þeirra.
    Þá eru lagðar til þrengri heimildir til stjórnarsetu í öðrum félögum og lagt til að óheimilt verði að hafa starfandi stjórnarformann í vátryggingafélagi. Um þetta síðarnefnda má geta breytingar sem var nýverið gerð á 70. gr. laga um hlutafélög um að formaður stjórnar skuli ekki taka að sér önnur störf fyrir félag en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem stjórnarformanns, að undanskildum einstökum verkefnum sem stjórn felur honum að vinna fyrir sig (71. mál á 138. löggjafarþingi). Nefndin leggur til breytingar á 54. gr. sem nánar verður greint frá síðar í áliti þessu.
    Í 4. mgr. 56. gr. frumvarpsins er lagt til að óheimilt verði að kjósa sama endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki oftar en fimm ár í röð. Þetta eru þrengri skilyrði en kveðið er á um í 3. mgr. 20. gr. laga um endurskoðendur þar sem mælt er fyrir um að endurskoðandi sem beri ábyrgð á einingu tengdri almannahagsmunum skuli taka sér hlé frá endurskoðun þeirrar einingar í a.m.k. tvö ár samfellt eigi síðar en sjö árum frá því að honum var falið verkið. Nefndin leggur til breytingu á ákvæðinu sem verður greint frá síðar í áliti þessu.
    Í 1. mgr. 11. gr. frumvarpsins er kveðið á um að vátryggingafélag megi ekki reka aðra starfsemi en vátryggingastarfsemi nema annað leiði af 13. gr. Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. er vátryggingafélagi þó heimilt að reka viðskiptabanka eða aðra fjármálastarfsemi í sérstöku félagi enda sé starfsemin háð eftirliti opinberra aðila. Í 13. gr. er tilgreind sú hliðarstarfsemi sem vátryggingafélagi er heimilt að reka. Ákvæðið er að mestu sambærilegt 11. gr. gildandi laga en geta má tveggja breytinga. Annars vegar er lagt til að stjórn vátryggingafélags setji reglur um rekstur fasteigna sem lið í fjárfestingu til að ávaxta fjármuni félagsins og skal Fjármálaeftirlitið staðfesta reglurnar. Hins vegar er lagt til að lögfest verði að vátryggingafélag hafi heimild til að kaupa og selja skuldabréf og aðra fjármálagerninga samkvæmt reglum stjórnar félagsins sem Fjármálaeftirlitið staðfestir. Ákvæði þetta á ekki við um fjármálagerninga sem eru skráðir á skipulegum verðbréfamarkaði sem er fjárfest í til að ávaxta fjármuni félagsins. Ákvæði gildandi laga um hliðarstarfsemi var lögfest með lögum nr. 60/1994 og voru slíkar heimildir þá auknar frá því sem verið hafði.
    Í 36. gr. eru ákvæði um vátryggingaskuld félags, þ.e. þær óuppgerðu heildarskuldbindingar félagsins vegna vátryggingarsamninga sem hafa verið gerðir. Skv. 2. mgr. skulu vátryggingafélög, auk þess að uppfylla skilyrði um gjaldþol, sjá til þess að á hverjum tíma séu fyrir hendi eignir, sérstaklegar tilgreindar til jöfnunar vátryggingaskuld. Ákvæðið er að mestu sambærilegt gildandi lögum. Í 3. mgr. felst innleiðing á endurtryggingartilskipuninni. Hún mælir fyrir um að þegar heimaríki veitir heimild fyrir því að vátryggingaskuld sé tryggð með kröfum á hendur endurtryggjendum sem eru ekki með starfsleyfi í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar eða vátryggingafélögum sem eru ekki með starfsleyfi í samræmi við tilgreindar EB-tilskipanir, þá skuli það ákveða skilyrði þess að slíkar kröfur séu viðurkenndar. Í 4. mgr. felst innleiðing á EB-tilskipun um líftryggingar í þá veru að líftryggingafélög skuli veita upplýsingar um grunn og aðferðir við útreikning líftryggingaskuldar. Í 5. gr. er líkt og í 4. mgr. 34. gr. gildandi laga að finna heimild til að setja í reglugerð nánari ákvæði um þær tegundir eigna sem má telja til jöfnunar vátryggingaskuld og útjöfnunarsjóði frumtryggingafélags, samsetningu þeirra og vægi. Drög að reglugerð um jöfnun eigna á móti vátryggingaskuld frumtryggingafélaga liggja þegar fyrir.
    Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu:
    Nefndinni bárust athugasemdir þess efnis að svigrúm vátryggingafélaga til að endurtryggja frumtryggingaráhættu í þriðja ríki væru of takmarkaðar þar sem liggja þyrfti fyrir samkvæmt ákvæðinu samstarfssamningur milli Fjármálaeftirlitsins og heimaríkis þess sem veitir þjónustuna. Nefndin leggur til breytingu á 5. gr. í þeim tilgangi að draga úr kvöð á Fjármálaeftirlitsins til sjálfstæðrar samningsgerðar enda er það í reynd nefnd eftirlitsaðila á vátrygginga- og eftirlaunasviði Evrópusambandsins (CEIOPS) sem gerir slíka samninga. Leggur nefndin til að 2. málsl. 2. mgr. greinarinnar orðist svo: ,,Aðeins er heimilt að endurtryggja frumtryggingaráhættu, sbr. 1. mgr., hjá endurtryggingafélagi í þriðja ríki að fyrir liggi samstarfssamningur við eftirlitsstjórnvald í heimaríki viðkomandi endurtryggingafélags um gagnkvæmt eftirlit með starfsemi endurtryggingafélaga sem Fjármálaeftirlitið viðurkennir.“ Vert er að geta þess að skv. 3. málsl. 2. mgr. 5. gr. eiga ákvæði 1. og 2. málsl. greinarinnar ekki við um endurtryggingar á endurtryggingaráhættu.
    Lögð er til viðbót við 7. gr. þess efnis að nafn vátryggingafélags skuli koma skýrt fram í öllum tilkynningum þess, þar á meðal auglýsingum.
    Lagðar eru til nokkrar breytingar á 54. gr. um stjórn vátryggingafélags. Lögð er til breyting á 3. mgr. í þá veru að stjórnarmenn geti jafnframt verið búsettir í ríki sem er aðili að Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD). Einnig er lagt til að lengd verði tímamörk sem tengjast brotum gegn tilteknum lögum sem getið er í ákvæðinu (svo sem samkeppnislögum, lögum um hlutafélög og lögum um bókhald). Með öðrum orðum er lagt til að þeir komi ekki til greina sem stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar sem hafa á síðustu 10 árum hlotið dóm í tengslum við refsiverðan verknað samkvæmt þeim lögum sem talin eru upp í greininni. Nefndin hróflar ekki við þeim tímamörkum sem gilda um gjaldþrotaskipti. Jafnframt er lagt til að 5. og 6. mgr. greinarinnar verði breytt svo að samræmist betur sambærilegu ákvæði í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki (343. mál á 138. löggjafarþingi). Að lokum má nefna breytingar sem lúta að því að veita vátryggingafélögum nokkurn tíma til aðlögunar til að uppfylla kröfur frumvarpsins um stjórnarmenn.
    Í samræmi við frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki (343. mál) leggur meiri hlutinn til að við frumvarpið bætist ný grein. Er þar kveðið á um að Fjármálaeftirlitið setji reglur um það hvernig vátryggingafélögum verði heimilt að veita starfsmönnum kauprétt eða kaupaukagreiðslur. Er jafnframt gert ráð fyrir því í ákvæðinu að áunnin réttindi starfsmanna samkvæmt kaupaukakerfi skuli færð til gjalda á hverju ári eftir því sem reglur um reikningsskil heimila og skal gerð grein fyrir þeim í skýringum með ársreikningi. Þá er mælt fyrir um takmarkanir á heimildum vátryggingafélaga til að gera starfslokasamning við framkvæmdastjóra eða annan lykilstarfsmann nema hagnaður hafi verið af rekstri félagsins samfellt síðustu þrjú ár starfstíma hans. Svo virðist sem kaupaukakerfi á fjármálamörkuðum hafi á liðnum árum haft þau áhrif að áhættusækni hafi aukist og að of mikil áhersla hafi verið lögð á skammtímasjónarmið. Hjá Evrópusambandinu hafa verið gefin út tilmæli um slík kerfi og má reikna með að ekki líði á löngu þar til ákveðnar tillögur sambandsins liggja fyrir. Í breytingartillögu nefndarinnar er Fjármálaeftirlitinu veitt heimild til að setja reglur um kaupaukakerfi en í þeim skal hafa tilmæli sambandsins til hliðsjónar sem og aðrar reglur samþykktar alþjóðlega eða viðurkenndar. Helstu atriði tilmæla Evrópusambandsins um starfskjarastefnu í fjármálageiranum eru m.a. þær að aðildarríki setji reglur sem tryggi að starfskjarastefna sé í samræmi við og stuðli að traustri og skilvirkri áhættustjórnun en hvetji ekki til of mikillar áhættutöku. Þá skuli vera ákveðið jafnvægi milli fastra launa og bónusgreiðslna og mælt fyrir um að aðildarríkin eigi að tryggja að starfskjarastefna fjármálastofnana setji hámark á bónusgreiðslur. Einnig skulu mælingar á frammistöðu ná til lengri tíma og kveðið er á um að fjármálastofnanir eigi að geta krafist endurgreiðslu á bónusgreiðslum ef í ljós kemur að þær hafi verið byggðar á röngum upplýsingum. Starfslokasamningar skulu samkvæmt tilmælunum tengjast frammistöðu sem hefur náðst á lengri tíma, og í þeim má ekki felast umbun fyrir mistök og skal hún uppfærð reglulega. Upplýsa skal hluthafa um starfskjarastefnu og skulu eftirlitsaðilar á fjármálamarkaði yfirfara og leggja mat á starfskjarastefnu fjármálastofnana til að tryggja að stefnan sé í samræmi við skilvirka áhættustjórnun.
    Lagðar eru til tvenns konar breytingar á 55. gr. Er í fyrsta lagi lagt til að orðið „skýringar“ bætist við upptalningu í 2. málsl. 1. mgr. á því hvað ársreikningur skuli hafa að geyma. Í öðru lagi eru lagðar til orðalagsbreytingar á lokamálslið 1. mgr. og 1. málsl. 4. mgr.
    Lagt er til að skylt verði að skipta um endurskoðunarfélag á fimm ára fresti en ekki aðeins endurskoðanda. Þá leggur nefndin til viðbót þess efnis að endurskoðendur og endurskoðunarfélög skuli kjörin á aðalfundi til fimm ára og að álit endurskoðendaráðs þurfi að liggja fyrir áður en tekin verður ákvörðun um að víkja endurskoðanda eða endurskoðunarfélagi frá.
    Lögð er til breyting á 1. mgr. 59. gr. sem miðar að því að Fjármálaeftirlitið geti fylgt eftir ákvæðum um skil á skýrslum. Umrædd félög skuli því innan þriggja mánaða frá lokum reikningsárs láta eftirlitinu umræddar upplýsingar í té.
    Nefndin leggur til að 65. gr. frumvarpsins falli brott. Í greininni er mælt fyrir um heimild Fjármálaeftirlitsins til að birta opinberlega niðurstöður í málum og athugunum. Ákvæði sama efnis hefur þegar verið lögfest í 9. gr. a laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 97/1998, sbr. lög um breytingu á þeim lögum nr. 20/2009. Við þá lagabreytingu féll brott sambærilegt ákvæði í lögum um verðbréfaviðskipti. Talið er nægjanlegt að hafa ákvæði þessa efnis á einum stað, þ.e. í lögum sem gilda um stofnunina.
    Þá leggur nefndin til að í stað orðanna „opinber rannsókn“ víðs vegar í frumvarpinu komi orðin ,,rannsókn sakamála“ til að samræmist orðnotkun í lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Einnig eru lagðar til breyttar tilvísanir þar sem röð greina breytist vegna tillagna nefndarinnar um viðbótargrein á eftir 54. gr. og brottfall 65. gr.
    Í 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins er kveðið á um að vátryggingastarfsemi skuli rekin í samræmi við góða viðskiptahætti og venjur í vátryggingaviðskiptum og með hag vátryggingartaka og vátryggðra fyrir augum. Í 5. gr. laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, er lagt bann við óréttmætum viðskiptaháttum. Neytendastofa hefur eftirlit með hvers konar atvinnustarfsemi samkvæmt lögunum sem skv. 1. mgr. 2. gr. þeirra taka til samninga, skilmála og athafna sem hafa eða ætlað er að hafa áhrif hér á landi. Rætt var um það við umfjöllun málsins í nefndinni að skörun gæti orðið milli annars vegar hlutverks Neytendastofu og hins vegar Fjármálaeftirlits hvað þetta snertir. Meiri hlutinn telur mikilvægt að hlutverk og ábyrgð stofnana sé skýr og beinir því til viðkomandi ráðherra að huga að því að eyða óvissu ef hún er til staðar.
    Niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis um orsakir falls bankanna voru gerðar opinberar þegar skýrsla hennar kom út 12. apríl. Skýrslan er mikil að vöxtum og eins og gefur að skilja tekur þetta frumvarp ekki á öllu því sem kann að koma fram í skýrslunni. Í skýrslunni er t.d. fjallað um lagabreytingar sem höfðu áhrif á þróun starfsemi lánastofnana. Ein slík breyting var aukin heimild lánastofnana til að reka vátryggingafélög en um slíkar heimildir er mælt fyrir í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Fram kemur í skýrslunni að þrátt fyrir að lánastofnanir þyrftu heimild Fjármálaeftirlitsins til að eiga virka eignarhluti í vátryggingafélögum jókst hættan á hagsmunaárekstrum hlutrænt séð í rekstri þeirra. Hætta var á að samspil yrði milli ákvarðana um ávöxtun bótasjóða vátryggingafélaga (vátryggingarskuldar) og ákvarðana um viðskipti af hálfu lánastofnana og/eða eigenda þeirra. Var þetta talið til þess fallið að stuðla að aukinni kerfisáhættu og hættu á keðjuverkun í fjármálakerfi landsins. Farið verður yfir þetta atriði eins og mörg önnur og er ljóst að þær breytingar sem lagðar eru til í þessu frumvarpi eru aðeins fyrsta skrefið í endurskoðun reglna á sviði fjármálamarkaðar. Meiri hlutinn telur brýnt að unnin verði pólitísk stefnumótun varðandi framtíðarskipulag fjármálamarkaðarins á Íslandi m.a. í ljósi niðurstaðna rannsóknarnefndar Alþingis um orsakir falls bankanna.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 23. apríl 2010.



Lilja Mósesdóttir,


form., frsm.


Magnús Orri Schram.


Anna Margrét Guðjónsdóttir.



Auður Lilja Erlingsdóttir.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.