Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 343. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1119  —  343. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum.

Frá 2. minni hluta viðskiptanefndar.



    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Lagt er til að Fjármálaeftirlitið fái auknar valdheimildir og meira svigrúm til að meta rekstur fjármálafyrirtækja. Einnig er lagt til að komið verði upp skrá yfir skuldbindingar hjá eftirlitinu í þeim tilgangi að það geti takmarkað útlánaáhættu í fjármálakerfinu og til að betri yfirsýn fáist yfir stórar áhættuskuldbindingar á landsvísu. Þá er í frumvarpinu lagt til að settar verði strangari reglur um stórar áhættuskuldbindingar, lánveitingar til tengdra aðila og hæfi eigenda.
    Annar minni hluti telur ýmis ákvæði frumvarpsins og breytingartillagna meiri hlutans jákvæð. Nefna má það markmið frumvarpsins að kveða skýrt á um heimildir Fjármálaeftirlitsins til inngripa þegar þörf er á. Þá hefur meiri hlutinn í breytingartillögum sínum tekið tillit til frumvarps Guðlaugs Þórs Þórðarsonar o.fl. í 564. máli um heimildir tiltekinna tegunda fjármálafyrirtækja til að stunda óskyldan rekstur. Einnig eru settar hömlur á lánveitingar fjármálafyrirtækis til eigenda virkra eignarhluta, stjórnarmanna og framkvæmdastjóra. Hins vegar er spurning hvort nóg sé að gert hvað þetta síðastnefnda varðar, e.t.v. þyrfti að kveða á um að eigendur og stjórnendur ættu fremur að vera í viðskiptum við aðrar fjármálastofnanir. Þá er í frumvarpinu lagt til að Fjármálaeftirlitið fái heimild til að setja reglur um kaupaukakerfi til að koma í veg fyrir þá misnotkun sem var hér við lýði. Einnig er til bóta sú breyting að ekki verður heimilt að veita lán til kaupa á hlutabréfum með veði í sjálfum bréfunum.
    Verkefnið að byggja upp traustan fjármálamarkað á Íslandi eftir bankahrunið er stórt og viðfangsmikið. Það vantar heildarsýn á það hvernig fjármálamarkað við viljum hafa í framtíðinni og mikið skortir á að nægjanleg pólitísk stefnumótun hafi farið fram á vettvangi þingsins. Sá þáttur skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem fjallar um fjármálafyrirtæki hefur ekki verið tekinn sérstaklega fyrir í nefndinni. Frumvarpið ber þess merki og þannig hefur til dæmis ekki verið tekin afstaða til eftirfarandi atriða:
          Hvort og hvernig eigi að setja reglur um hámarkseignarhlut fjármálafyrirtækja.
          Hvort skynsamlegt þyki að reka fjárfestingarbanka- og viðskiptabanka í einni stofnun,
          Ekki hefur verið ráðist í endurbætur á lögum um endurskoðendur.
          Ekki hefur verið tekið á verkaskiptingu milli Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins, Fram hefur komið meðal annars í viðskiptanefnd að verkaskipting stofnananna hafi ekki verið nógu skýr. Það verður að telja grundvallarforsendur þess að unnt sé að byggja upp fjármálamarkað til framtíðar að völd og ábyrgð þeirra sem sinna eftirliti sé skýrt.
          Því hefur ekki verið svarað hver sé framtíðarskipan sparisjóðanna í landinu en ríkið hefur nú tekið yfir marga þeirra. Í breytingartillögum meiri hlutans er mælt fyrir um minni kröfur um stofnfé þegar um er að ræða sparisjóð sem starfar á staðbundnum afmörkuðum markaði. Skilgreiningu á því hvað teljist staðbundinn afmarkaður markaður er ýtt yfir á Fjármálaeftirlitið en með því er vandinn ekki leystur.
          Ekki er tekið á ábyrgð svokallaðra skuggastjórnenda, þ.e. aðila sem beita valdi sínu til að hafa áhrif innan fjármálafyrirtækis jafnvel þannig að stjórnir lúti boðvaldi þeirra. Í því fælist réttarbót að kveða á um skaðabótaábyrgð slíkra aðila ef ákvarðanir þeirra valda félaginu tjóni.
          Annar minni hluti hefur áhyggjur af því að ekki sé girt fyrir að bankar geti lánað til eigenda sinna og keypt í fyrirtækjum tengdum þeim,
          Ekki hefur verið rætt um innstæðutryggingakerfi.
          Ekki hefur verið rætt um hvort skynsamlegt væri með auknu valdi Fjármálaeftirlitsins að fjármálafyrirtæki hafi málskotsrétt.
    Annar minni hluti telur afskipti löggjafans af starfslokasamningum of miklar. Allir eru sammála um að ýmsir slíkir samningar sem hafa verið gerðir á undangengnum árum voru ekki í samræmi við efni og aðstæður, en hafa ber í huga að starfslokasamningar eru ýmist gerðir til að fullnægja ráðningarsamningum eða til að koma til móts við starfsmenn sem hafa starfað lengi á sama stað og sinnt sínu starfi vel. Í frumvarpinu er bæði gert ráð fyrir því að verði það að lögum eigi ákvæði þess við um samninga sem gerðir voru fyrir gildistöku þess og einnig þar sem það er gert að skilyrði að hagnaður hafi verið af rekstri fyrirtækis undanfarin þrjú ár.
    Í breytingartillögum meiri hlutans er gert ráð fyrir takmörkunum á heimild tiltekinna tegunda fjármálafyrirtækja til að reka fyrirtæki í óskyldum rekstri. 2. minni hluti vill ganga lengra og leggur til að fjármálafyrirtæki skuli hafa losað sig út úr eignarhaldinu áður en 12 mánuðir eru liðnir frá því að það hóf að stunda starfsemina, sbr. fyrri málslið 1. mgr. 22. gr. laganna.
    Í breytingartillögum meiri hlutans er lagt til að sett verði ákvæði til bráðabirgða um heimild til að fá aðgang að kröfuskrá. 2. minni hluti telur nauðsynlegt að upplýsingar fáist um raunverulegan eiganda kröfu. Eigendur krafna eru því jafnframt eigendur Arion banka og Íslandsbanka nú þegar þeir hafa að nýju verið einkavæddir.
    Annar minni hluti leggur til tvenns konar breytingar á frumvarpinu. Annars vegar er lögð til viðbót við breytingartillögu meiri hlutans við 13. gr. í þá veru að fjárhagslegri endurskipulagningu skuli ljúka innan tólf mánaða. Hins vegar er lögð til breyting á ákvæði til bráðabirgða V í þá veru að bæta því við að slitastjórn skuli tryggja að ljóst sé hverjir séu eigendur kröfu.
    Óljóst er hvort Fjármálaeftirlitið hafi burði til að sinna af krafti þessum auknu verkefnum en með þessu er m.a. vísað til möguleika eftirlitsins til að ráða og halda í hæft fólk enda hefur verið mörkuð sú stefna að engin laun verði hærri en laun forsætisráðherra.
    Annar minni hluti hefur ekki fullvissu fyrir því að með frumvarpinu sé girt fyrir þann kerfislega vanda sem var til staðar og hefur áhyggjur af því að frumvarpið veiti falskt öryggi.

Alþingi, 17. maí 2010.



Guðlaugur Þór Þórðarson,


frsm.


Sigurður Kári Kristjánsson.