Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 188. máls.

Þskj. 205  —  188. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                  Hvor eigandi um sig er í einfaldri ábyrgð fyrir þeim skuldbindingum fyrirtækisins sem heimilaðar eru skv. 9. gr., en um innbyrðis skiptingu á ábyrgð þeirra fer eftir eignarhlutföllum. Ábyrgð eigenda nær ekki til annarra skuldbindinga fyrirtækisins.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Komi fram beiðni um greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrotaskipti skulu ákvæði laga um gjaldþrotaskipti, eins og þau eru á hverjum tíma, eiga við um Landsvirkjun með sama hætti og um félag með takmarkaða ábyrgð.

2. gr.

    9. gr. laganna orðast svo:
    Landsvirkjun er heimilt að taka lán til þarfa fyrirtækisins og gangast í ábyrgð fyrir greiðslum í sama skyni. Nýjar lántökur, sem njóta skulu ábyrgðar eigenda skv. 2. mgr. 1. gr., eru háðar samþykki fjármálaráðherra.

3. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi.
    Ábyrgðir eigenda á lánaskuldbindingum Landsvirkjunar, svo og skuldbindingum samkvæmt langtímarafmagnssamningum Landsvirkjunar við orkufrek fyrirtæki sem nýta rafmagnið í eigin þágu, sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku laga þessara halda gildi sínu eins og til þeirra er stofnað og þar til þær eru að fullu efndar eða einstakir samningar falla niður. Greiða ber árlega ríkisábyrgðargjald, sbr. lög nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir, af þeim lánaskuldbindingum, svo og skuldbindingum samkvæmt langtímarafmagnssamningum Landsvirkjunar við orkufrek fyrirtæki sem nýta rafmagnið í eigin þágu, frá og með gildistöku laga þessara.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2011.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1. Inngangur.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun. Er frumvarpið lagt fram í kjölfar ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), dags. 8. júlí 2009, í tengslum við rannsókn stofnunarinnar á fyrirkomulagi eigendaábyrgða Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur.
    Á ríkisstjórnarfundi 30. júní 2009 var samþykkt að bregðast við ákvörðun ESA með þeim hætti að leggja fram frumvörp til laga sem komi til móts við athugasemdir ESA við núverandi fyrirkomulag eigendaábyrgða Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur. Í kjölfar þeirrar ákvörðunar voru unnin þrjú frumvörp til laga um breytingar á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun, lögum nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir, og lögum nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur. Undanfarið ár hafa drög að þeim frumvörpum verið til skoðunar hjá ESA og er þeirri skoðun nú lokið og frumvörpin því tilbúin til framlagningar á Alþingi.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Niðurstaða rannsóknar ESA, sbr. ákvörðun ESA, dags. 8. júlí 2009, var í stuttu máli sú að hin ótakmarkaða eigendaábyrgð sem Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur njóta, í gegnum eigendur fyrirtækjanna, sé ekki að fullu í samræmi við ákvæði EES-samningsins um ríkisaðstoð. Hins vegar lítur ESA svo á að heimilt sé að veita ríkisábyrgð vegna lána viðkomandi fyrirtækja, að því gefnu að greitt sé hæfilegt ábyrgðargjald fyrir. Í dag greiða fyrirtækin 0,25% ábyrgðargjald af þeim lánum sem eigendaábyrgð er á, í samræmi við lög nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir.
    Ákvörðun ESA frá 8. júlí 2009 var í formi tilmæla („appropriate measures“) til íslenskra stjórnvalda um að grípa til nauðsynlegra ráðstafana þannig að fyrirkomulag eigendaábyrgða Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur yrði í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum. Áður hafði ESA beint sams konar tilmælum til norskra stjórnvalda vegna sambærilegra mála.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Markmið frumvarps þess sem hér er lagt fram er að gera nauðsynlegar breytingar á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun, til að koma til móts við tilmæli ESA og tryggja að ríkisábyrgðir vegna Landsvirkjunar séu í samræmi við ríkisstyrkjareglur EES-samningsins. Í þeirri breytingu felst að ríkisábyrgðin sé ekki ótakmörkuð, hún nái eingöngu til lánaskuldbindinga og að fyrir ábyrgðina sé greitt hæfilegt ríkisábyrgðargjald.
    Samhliða frumvarpi þessu er lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir, sem kveður á um að í stað hins almenna ríkisábyrgðargjalds (0,25%) skv. 2. mgr. 6. gr. þeirra laga skuli Landsvirkjun, og aðrir þeir aðilar sem tilgreindir eru í 1. mgr. 6. gr. laga um ríkisábyrgðir, greiða ríkisábyrgðargjald sem svarar að fullu til þeirrar ívilnunar sem fyrirtækið nýtur, á grunni ríkisábyrgðar, í formi hagstæðari lánskjara umfram þau kjör sem almennt bjóðast á markaði án ríkisábyrgðar. Jafnframt er samhliða frumvarpi þessu lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um Orkuveitu Reykjavíkur þar sem kveðið er á um sams konar breytingar hvað eigendaábyrgð á lánaskuldbindingum Orkuveitu Reykjavíkur varðar.
    Í kjölfar ákvörðunar ESA var fenginn óháður aðili til að meta hvað telst vera hæfilegt ríkisábyrgðargjald vegna þeirra ríkisábyrgða sem eru á lánum Landsvirkjunar en það var gert með samanburði á lánskjörum með og án ríkisábyrgðar. Liggur úttekt hins óháða aðila þegar fyrir eins og nánar er gert grein fyrir hér á eftir.
    Í frumvarpinu er að lokum lagt til að í bráðabirgðaákvæði verði kveðið á um að ábyrgðir eigenda Landsvirkjunar á lánaskuldbindingum, svo og skuldbindingum samkvæmt langtímarafmagnssamningum við orkufrek stóriðjufyrirtæki sem nýta rafmagnið í eigin þágu, sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku laganna, haldi gildi sínu eins og til þeirra er stofnað þar til þær eru að fullu efndar.

4. Samráð og mat á áhrifum.
    Við gerð og undirbúning frumvarpsins var haft samráð við Landsvirkjun, Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og iðnaðarráðuneytið. Var farið yfir drög að frumvarpinu á sameiginlegum fundum og aðilum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og ábendingum.
    Frumvarpið hefur fyrst og fremst áhrif á Landsvirkjun en einnig ríkissjóð. Síðar í athugasemdum þessum er fjallað um núverandi lánaskuldbindingar Landsvirkjunar en fyrir þær mun Landsvirkjun þurfa að greiða hærra ríkisábyrgðargjald en áður. Að sama skapi verður ríkisábyrgð sú sem fyrirtækið nýtur ekki lengur ótakmörkuð. Lagt er til að nýjar lántökur sem njóta skulu ábyrgðar ríkisins séu í öllum tilvikum háðar samþykki fjármálaráðherra. Um áhrif frumvarpsins á ríkissjóð vísast til kostnaðarumsagnar um frumvarpið, sbr. fylgiskjal.

5. Ákvæði EES-samningsins um ríkisaðstoð.
    Í 1. mgr. 61. gr. EES-samningsins kemur fram sú meginregla að hvers kyns aðstoð, sem aðildarríki EB eða EFTA-ríki veitir eða veitt er af ríkisfjármunum og raskar eða er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinna vara, sé ósamrýmanleg framkvæmd samningsins að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila. Í 2. og 3. mgr. 61. gr. er að finna undanþágur frá þessu að því er varðar aðstoð sem talin er samrýmast framkvæmd samningsins annars vegar og hins vegar aðstoð sem getur talist samrýmanleg framkvæmd hans að tilteknum skilyrðum uppfylltum.
    Til ríkisaðstoðar teljast bæði bein fjárframlög, sem og lán og ábyrgðir. Í leiðbeinandi reglum ESA um ríkisaðstoð er sérstaklega fjallað um ríkisábyrgðir. Ríkisábyrgð gefur lántakanda möguleika á að ná betri lánskjörum en almennt bjóðast á fjármálamörkuðum, t.d. hvað varðar vexti eða tryggingar. Almennt er gert ráð fyrir að ríki krefjist endurgjalds fyrir því að taka á sig áhættu vegna lántökunnar, í formi hæfilegs ríkisábyrgðargjalds. Endurspegli slíkt endurgjald ekki hag lántakanda af ábyrgðinni er það talið fela í sér ríkisaðstoð. Þá feli undanþágur frá lögum um gjaldþrotaskipti í sér ótakmarkaða ábyrgð, bæði að umfangi, tíma og fjárhæð, að svo miklu leyti sem hún jafngildir ábyrgð á öllum skuldbindingum og veitir fyrirtækjum möguleika á að ná hagstæðari kjörum, einkum á lánamörkuðum.

6. Ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá 8. júlí 2009.
    Á árinu 2002 hófst rannsókn ESA á því hvort ríkisábyrgð Landsvirkjunar fæli í sér ólögmæta ríkisaðstoð. Fram til ársins 2009 áttu ýmis bréfaskipti sér stað milli stjórnvalda og ESA vegna málsins og með ákvörðun ESA, dags. 8. júlí 2009, lauk rannsókn málsins af hálfu ESA með útgáfu tilmæla til íslenskra stjórnvalda.
    Í ákvörðun ESA kemur í fyrsta lagi fram það mat ESA að Landsvirkjun njóti ótakmarkaðrar ríkisábyrgðar á grundvelli 3. mgr. 5. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, og 1. gr. laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun. Í skjóli þessarar ótakmörkuðu ríkisábyrgðar geti viðkomandi fyrirtæki í raun ekki orðið gjaldþrota og það sé hæsta trygging sem fyrirtæki getur fengið og hafi í för með sér hagstæðari lánskjör. Slík ótakmörkuð ríkisábyrgð, ólíkt einstökum ríkisábyrgðum, sé í öllum tilvikum andstæð ríkisstyrkjareglum EES-samningsins og því þurfi að afnema hana og sjá til þess að lög nr. 21/1991 geti átt við um fyrirtækið.
    Í öðru lagi kemur fram í ákvörðun ESA, dags. 8. júlí 2009, að ríkisábyrgð á einstökum skuldbindingum viðkomandi fyrirtækja sé ekki andstæð EES-samningnum svo framarlega sem greitt sé hæfilegt ábyrgðargjald („appropriate premium“) í samræmi við lög um ríkisábyrgðir. Slíkt ábyrgðargjald þarf að byggja á samanburði á lánskjörum viðkomandi fyrirtækis með og án ríkisábyrgðar.
    Með ákvörðun ESA frá 2009 er rannsókn málsins lokið af hálfu ESA og þeim tilmælum beint til íslenskra stjórnvalda að bregðast við og sjá til þess að ríkisábyrgð Landsvirkjunar verði innan þess ramma sem ákvæði EES-samningsins heimila.

7. Ábyrgð eigenda á skuldbindingum Landsvirkjunar.
    Samkvæmt lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun, er fyrirtækið sameignarfyrirtæki ríkissjóðs og Eignarhluta ehf. Landsvirkjun er fyrirtæki með sérstakt lögbundið rekstrarform sem verður helst líkt við sameignarfélag, en þó með þeim afbrigðum á ábyrgð sem felast í 1. gr. laga um fyrirtækið. Í 1. gr. laganna kemur fram að ríkissjóður og Eignarhlutir ehf., sem alfarið eru í eigu ríkissjóðs, eru í einfaldri ábyrgð fyrir öllum skuldbindingum Landsvirkjunar.
    Ákvæði um að hver eigandi sé í einfaldri ábyrgð felur í sér frávik frá þeirri almennu reglu sem gildir um sameignarfélög að hver og einn eigandi sé í ótakmarkaðri ábyrgð fyrir félagið. Í 2. gr. laga um sameignarfélög, nr. 50/2007, er kveðið á um þetta, en þar er sameignarfélag skilgreint sem samstarfsform sem byggist á samningi tveggja eða fleiri aðila um sameiginlega fjárhagslega starfsemi þar sem allir félagsmenn bera beina, óskipta og ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins. Einföld ábyrgð eigenda Landsvirkjunar felur í sér að ganga verður fyrst að félaginu sjálfu til innheimtu skuldbindinga þess áður en gengið er að einstökum eigendum fyrirtækisins. Um innbyrðis skiptingu á ábyrgð milli eigenda fer eftir eignarhlutföllum þar sem ríkissjóður á 99,9% en Eignarhlutir ehf. 0,1%. Samkvæmt því sem fyrr segir um hina einföldu ábyrgð má ganga út frá því að ábyrgð einstakra eigenda félagsins verði ekki virk nema félagið sjálft sé ógjaldfært. Þegar hin einfalda ábyrgð verður virk gagnvart eigendum er ábyrgðin óskipt þannig að unnt er fyrir kröfuhafa að ganga að öðrum hvorum eigenda fyrir allri skuldbindingunni.
    
8. Lög um ríkisábyrgðir.
    Í lögum nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir, er að finna þær almennu reglur sem gilda um ríkisábyrgðir. Samkvæmt 1. gr. laganna má ríkissjóður aldrei takast á hendur ábyrgðarskuldbindingar, nema heimild sé veitt til þess í lögum. Í lögum um Landsvirkjun er eins og áður segir kveðið á um ábyrgð ríkisins á skuldbindingum Landsvirkjunar.
    Í 6. gr. laga nr. 121/1997 segir að bankar, lánasjóðir, lánastofnanir, fyrirtæki og aðrir þeir aðilar sem lögum samkvæmt njóta, eða hafa notið, ábyrgðar ríkissjóðs, hvort sem hún er tilkomin vegna eignaraðildar ríkissjóðs eða annars, skuli greiða ábyrgðargjald af þeim skuldbindingum sínum sem ríkisábyrgð er á. Samkvæmt greininni nemur ábyrgðargjaldið 0,0625% á ársfjórðungi (0,25% á ári) af höfuðstól gjaldskyldra skuldbindinga eins og hann er að meðaltali á hverju gjaldtímabili, og rennur gjaldið í ríkissjóð. Landsvirkjun greiðir umrætt ábyrgðargjald af höfuðstól lána sinna í samræmi við ákvæði laganna.
    Í samræmi við ákvörðun ESA, dags. 8. júlí 2009, var óháður aðili fenginn til að meta hæfilegt ríkisábyrgðargjald vegna núgildandi lánaskuldbindinga Landsvirkjunar, en þær eru 58 talsins. Úttekt þess aðila leiddi í ljós að hæfilegt ríkisábyrgðargjald, með samanburði á lánskjörum með og án ríkisábyrgðar, vegna núverandi lánaskuldbindinga væri 0,45% á ári (í stað núgildandi 0,25%).
    Eins og áður greinir er samhliða frumvarpi þessu lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir, sem kveður á um hið hæfilega ríkisábyrgðargjald sem Landsvirkjun ber að greiða ríkinu af þeim lánaskuldbindingum sem ríkisábyrgð er á. Kemur þar m.a. fram að slíkt ríkisábyrgðargjald skal svara að fullu til þeirrar ívilnunar sem fyrirtækið nýtur, á grunni ríkisábyrgðar, í formi hagstæðari lánskjara umfram þau kjör sem almennt bjóðast á markaði án ríkisábyrgðar og að ábyrgðargjald það sem Landsvirkjun greiðir skuli ákveðið á grundvelli mats óháðs aðila á lánskjörum með og án ríkisábyrgðar.

9. Núverandi skuldbindingar Landsvirkjunar.
    Rekstur Landsvirkjunar hefur leitt af sér ýmsar skuldbindingar til skemmri eða lengri tíma. Samkvæmt lögum um Landsvirkjun er ríkissjóður í einfaldri ábyrgð fyrir öllum þessum skuldbindingum.
    Ábyrgð ríkissjóðs hefur gegnt mikilvægu hlutverki í lánsfjármögnun Landsvirkjunar á undanförnum áratugum. Skuldir fyrirtækisins sem mynda stofn til greiðslu ábyrgðargjalds námu um 365 milljörðum kr. í lok september 2009. Lán sem tekin voru fyrir 1. janúar 2007 nema 260 milljörðum kr. en ábyrgðargjald af þeim rennur til ársloka 2011 að hluta til Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar. Ríkissjóður ábyrgist eftir þann tíma skaðleysi sveitarfélaganna samkvæmt kaupsamningi á hlut sveitarfélaganna í Landsvirkjun. Lán sem tekin eru eftir 1. janúar 2007 nema 106 milljörðum kr.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni eru lagðar til tvíþættar breytingar á 1. gr. laganna.
    Annars vegar er kveðið á um að eigendur séu í einfaldri ábyrgð fyrir þeim nýju lánaskuldbindingum sem fjármálaráðherra heimilar. Tekið er fram að ábyrgð eigenda nái ekki til annarra skuldbindinga fyrirtækisins og er ábyrgð á þeim því takmörkuð við fyrirtækið. Varðandi eldri skuldbindingar vísast til 3. gr. frumvarpsins.
    Þar sem um einfalda ábyrgð er áfram að ræða, samkvæmt greininni, verður kröfu ekki beint að ríkissjóði fyrr en fullreynt er að krafa fáist ekki greidd hjá fyrirtækinu. Þetta getur ýmist verið með árangurslausu fjárnámi eða gjaldþrotaskiptum. Breytingunni er ekki ætlað að hafa áhrif á stöðu Landsvirkjunar í ríkisreikningi.
    Hins vegar er með greininni lagt til að kveðið verði á um það með beinum hætti að komi fram beiðni um greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrotaskipti skulu ákvæði laga um gjaldþrotaskipti, eins og þau eru á hverjum tíma, eiga við um Landsvirkjun, með sama hætti og um félag með takmarkaða ábyrgð. Samkvæmt núgildandi lögum hefur verið litið svo á að Landsvirkjun væri, stöðu sinnar vegna, undanþegin ákvæðum laga um greiðslustöðvun, nauðasamninga og gjaldþrotaskipti. Samkvæmt ákvörðun ESA frá 8. júlí 2009 felur slík undanþága í sér ótakmarkaða ríkisábyrgð sem er andstæð ákvæðum EES-samningsins. Er sú breyting sem hér er lögð til því í samræmi við kröfu ESA og með henni er tryggt að Landsvirkjun lúti sömu reglum um gjaldþrotaskipti, greiðslustöðvun og nauðasamninga og félög með takmarkaðri ábyrgð.

Um 2. gr.


    Með greininni eru þrengd skilyrði Landsvirkjunar til að taka lán og gangast í ábyrgð fyrir greiðslum og öðrum skuldbindingum, með ábyrgð ríkissjóðs. Samkvæmt núgildandi 9. gr. laga um Landsvirkjun er fyrirtækinu heimilt að taka lán til þarfa þess og að taka ábyrgð á greiðslum og öðrum skuldbindingum í sama skyni, en að því leyti sem nýjar skuldbindingar og ábyrgðir fara fram úr 5% af höfuðstól (bókfærðu eigin fé í lok næstliðins árs) á ári hverju þarf Landsvirkjun að leita samþykkis fjármálaráðherra. Samkvæmt núgildandi 2. mgr. 1. gr. laganna er ábyrgð eigenda á öllum skuldbindingum fyrirtækisins.
    Með greininni er lagt til að nýjar lántökur, sem njóta skulu ábyrgðar eigenda, séu í öllum tilvikum háðar samþykki fjármálaráðherra. Samkvæmt greininni er Landsvirkjun því heimilt, án sérstaks samþykkis fjármálaráðherra, að taka lán án ríkisábyrgðar. Með sama hætti og gildir um aðrar skuldbindingar fyrirtækisins, sem ekki eru með ríkisábyrgð, sbr. 1. gr. frumvarpsins, er ábyrgð á slíkum skuldbindingum eingöngu takmörkuð við fyrirtækið og ekki á hendi eigendanna.
    Lög um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997, gilda um ríkisábyrgð Landsvirkjunar og greiðir fyrirtækið því ábyrgðargjald af þeim skuldbindingum sínum sem ríkisábyrgð er á í samræmi við ákvæði þeirra laga, sbr. 6. gr. laga um ríkisábyrgðir. Samhliða frumvarpi þessu er sem áður segir lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um ríkisábyrgðir sem kveður nánar á um með hvaða hætti ábyrgðargjald Landsvirkjunar er áætlað.

Um 3. gr.


    Með greininni er lagt til að ákvæði til bráðabirgða verði bætt við lögin sem tekur á eldri lánaskuldbindingum og eldri skuldbindingum samkvæmt langtímarafmagnssamningum við orkufrek fyrirtæki. Með greininni er þannig lagt til að í bráðabirgðaákvæði verði kveðið á um að ábyrgðir eigenda Landsvirkjunar á lánaskuldbindingum, svo og skuldbindingum samkvæmt langtímarafmagnssamningum við orkufrek fyrirtæki, sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku laganna haldi gildi sínu eins og til þeirra er stofnað þar til þær eru að fullu efndar. Tekið er fram að greiða beri árlega ríkisábyrgðargjald af þeim skuldbindingum, þ.e. bæði viðkomandi lánaskuldbindingum og skuldbindingum samkvæmt langtímarafmagnssamningum við orkufrek fyrirtæki.
    Þeir langtímarafmagnssamningar sem hér um ræðir eru við eftirtalda aðila:
          Elkem á Íslandi hf. frá 1975.
          Alcan á Íslandi hf. (ISAL) frá 1966.
          Alcan á Íslandi hf. (ISAL) viðbótarrafmagn frá 2003.
          Alcan á Íslandi hf. (ISAL) frá 2010 (nýr samningur sem kemur í stað samninganna frá 1966 og 2003).
          Norðurál Grundartanga hf. frá 1997.
          Norðurál Grundartanga hf. frá 2009.
          Alcoa Fjarðaál sf. frá 2003.
          Becromal á Íslandi hf. frá 2007.
          Verne Holdings ehf. frá 2009.
    Við mat á hæfilegu ríkisábyrgðargjaldi vegna fyrirliggjandi langtímarafmagnssamninga ber á sama hátt og greint er frá í almennum athugasemdum að sjá til þess að slíkt ábyrgðargjald svari að fullu til þeirrar ívilnunar sem fyrirtækið nýtur, á grunni ríkisábyrgðar, þ.e. leggja þarf mat á verðmæti ríkisábyrgðarinnar og skal ábyrgðargjaldið endurspegla það. Hins vegar er um ólíkar ábyrgðir að ræða hvað varðar lánaskuldbindingar og rafmagnssamninga þar sem erfitt er að leggja mat á raunverulegt virði ábyrgðarinnar í tilviki rafmagnssamninga. Verðmæti og gildi slíkra ábyrgða er fyrst og fremst á byggingar- og framkvæmdatíma viðkomandi verkefna. Hinn óháði aðili, sem vísað er til að framan, mun leggja mat á hæfilegt ríkisábyrgðargjald vegna slíkra skuldbindinga samkvæmt langtímarafmagnssamningum sem þegar hefur verið gengið frá.
    Ábyrgðir eigenda á öðrum eldri skuldbindingum Landsvirkjunar falla niður frá og með gildistöku laganna og ábyrgðin er þar með ekki ótakmörkuð eins og verið hefur.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 42/1983,
um Landsvirkjun, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að ákvæði í lögum um Landsvirkjun verði löguð að fyrirhuguðum breyttum lögum um ríkisábyrgðir í kjölfar ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um að ótakmarkaðar eigendaábyrgðir séu ekki að fullu í samræmi við EES samninginn um ríkisaðstoð. Samhliða þessu frumvarpi eru lögð fram frumvörp um breytingar á lögum um ríkisábyrgðir og um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur. Fram kemur í ákvörðun ESA að eigendaábyrgð vegna lána viðkomandi fyrirtækja sé heimil að því gefnu að hæfilegt ábyrgðargjald sé greitt fyrir. Nýtt ábyrgðargjald skal ákveðið á grundvelli mats óháðs aðila á lánskjörum með og án ríkisábyrgðar. Ábyrgðargjaldið skal svara að fullu til þeirrar ívilnunar sem felst í hagstæðari lánskjörum.
    Í frumvarpi þessu er í fyrsta lagi lagt til að eigendur séu í einfaldri ábyrgð fyrir nýjum skuldbindingum sem fjármálaráðherra heimilar. Það þýðir að sú einfalda ábyrgð sem ríkið hefir borið á öllum skuldbindingum fyrirtækisins fellur niður. Um þessar skuldbindingar munu framvegis gilda almennar ábyrgðir fyrirtækisins. Samhliða þessum breytingum er gert ráð fyrir að um fyrirtækið gildi almennar reglur samkvæmt lögum um greiðslustöðvun, nauðasamninga og gjaldþrotaskipti komi til þess en til þessa hefur Landsvirkjun verið undanþegin þessum lögum. Sérstaklega er þó tekið á því í ákvæði til bráðabirgða að eldri lánaskuldbindingar og eldri skuldbindingar samkvæmt langtímarafmagnssamningum við orkufrek fyrirtæki haldi gildi sínu þar til þær eru að fullu efndar.
    Í öðru lagi er lagt til að skilyrði Landsvirkjunar til að taka lán og gangast í ábyrgð á greiðslum og öðrum skuldbindingum með ríkisábyrgð eru þrengd verulega. Breytingin er í því fólgin að allar nýjar lántökur, sem eiga að bera ríkisábyrgð, skulu bornar undir fjármálaráðherra til samþykktar. Fyrirtækinu verður jafnframt heimilt að taka lán sem ekki bera ríkisábyrgð án sérstaks samþykkis ráðherra.
    Breytingar þessar á lögum um Landsvirkjun og sambærileg breyting á lögum um ríkisábyrgðir munu leiða til þess að greiðslur fyrirtækisins í ríkisábyrgðargjald munu væntanlega aukast um tæpar 450 m.kr. á ársgrundvelli með samsvarandi tekjuauka fyrir ríkissjóð og er þá miðað við fyrirliggjandi mat á því að á ársgrundvelli þyrfti ríkisábyrgðargjald að hækka úr 0,25% í 0,45%.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er hins vegar ekki gert ráð fyrir að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.