Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 659. máls.

Þskj. 1172  —  659. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki,
með síðari breytingum (fjárhagsleg endurskipulagning og slit).

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




1.     gr.

    Á eftir orðinu „hendi“ í h-lið 2. mgr. 99. gr. laganna kemur: sem hafin var fyrir uppkvaðningu úrskurðar um endurskipulagningu fjárhags.

2.     gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er lögð til breyting á h-lið 2. mgr. 99. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum. Ákvæðið kom inn í lögin í núverandi mynd með lögum nr. 130/2004, um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, en með þeim lögum voru innleidd ákvæði tilskipunar 2001/24/EB um endurskipulagningu og slit lánastofnana.
    Í ákvæði h-liðar 2. mgr. 99. gr. í A-hluta XII. kafla laganna, sem lýtur að endurskipulagningu fjárhags lánastofnana, felst innleiðing 32. gr. tilskipunarinnar, sbr. e-lið 2. mgr. 10. gr. hennar. Um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunar um slit lánastofnana skal skv. 2. málsl. 1. mgr. 104. gr. laganna fara að íslenskum lögum með sömu takmörkunum og greinir í fyrrgreindri 2. mgr. 99. gr.
    Tilskipun 2001/24/EB leggur grundvöll að samræmdum reglum á Evrópska efnahagssvæðinu um endurskipulagningu fjárhags og slit fjármálafyrirtækja og byggist á meginsjónarmiðum um einingu (e. principle of unity), algildi (e. principle of universality) og jafnræði (e. principle of non-discrimination). Í tilskipuninni er talið felast mikið hagræði, en markmið hennar er að tryggja gagnkvæma viðurkenningu aðildarríkja á ráðstöfunum um endurskipulagningu og slit fjármálafyrirtækja og málsmeðferð sem fylgir í kjölfarið. Samkvæmt tilskipuninni skal að meginstefnu fara um endurskipulagningu og slit fjármálafyrirtækis sem hefur aðalstöðvar í einu aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins og útibú í öðru aðildarríki eftir lögum heimaríkis, en ekki gistiríkis. Tilskipuninni er ætlað að koma í veg fyrir að kröfuhöfum verði mismunað með því að mismunandi lög gildi um endurskipulagningu eða slit lánastofnunar annars vegar og útibúa hennar hins vegar.
    Frá áðurgreindri meginreglu tilskipunarinnar eru undantekningar, m.a. í 32. gr. hennar. Núgildandi ákvæði h-liðar 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 er svohljóðandi: „Um réttaráhrif úrskurðar um endurskipulagningu fjárhags á málshöfðun vegna eignar eða annarra réttinda sem lánastofnun hefur látið af hendi fer eftir lögum þess aðildarríkis þar sem málið var höfðað.“ 1 Efnislega felst í ákvæðinu að það ræðst af löggjöf gistiríkis hvort mál sem höfðað var áður en úrskurður um endurskipulagningu eða slit var kveðinn upp verði haldið áfram eða fellt niður.
    Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2004, um breytingu á lögum nr. 161/2002, kemur fram að með þeim breytingum á XII. kafla laganna séu m.a. innleiddar reglur tilskipunar 2001/24/EB um lagaskil varðandi tiltekna samninga, réttindi og eignir. Í frumvarpinu er ekki að finna sérstakar útskýringar á efni h-liðar 2. mgr. 99. gr. laganna, en ætla má að ef tilgangur löggjafans hefði verið sá að ganga lengra en 32. gr. tilskipunarinnar kveður á um hefði þess verið sérstaklega getið í athugasemdum. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), sem hefur eftirlit með framkvæmd EES-samningsins, hefur farið ítarlega yfir innleiðingu tilskipunarinnar í hérlendri löggjöf og gert athugasemdir við tiltekin afmörkuð atriði. Það á þó ekki við um innleiðingu 32. gr. tilskipunarinnar, en af því má draga þá ályktun að það sé mat stofnunarinnar að ákvæðið hafi verið innleitt í íslenskan rétt með fullnægjandi hætti.
    Frumvarp þetta er lagt fram í kjölfar ábendinga af hálfu skilanefndar Kaupþings banka hf. vegna dóms sem kveðinn var upp 16. mars sl. í „High Court of Justice, Queen´s Bench Divison, Commercial Court“, sem er dómstóll á fyrsta dómstigi í Englandi. Kaupþing banki hf. hafði krafist frávísunar m.a. á þeim grundvelli að mál yrði ekki höfðað gegn bankanum meðan hann væri í greiðslustöðvun eða slitameðferð samkvæmt íslenskum lögum um fjármálafyrirtæki. Annars vegar reyndi á það hvort Kaupþing banki hf. hefði verið í fjárhagslegri endurskipulagningu eða slitameðferð í skilningi tilskipunarinnar þegar málið var höfðað í Englandi, en hins vegar á túlkun á ákvæði h-liðar 2. mgr. 99. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Niðurstaða dómstólsins sem hér skiptir einkum máli var sú að h-liður 2. mgr. 99. gr. skyldi túlkaður með þeim hætti að réttaráhrif málshöfðunar gegn íslensku fjármálafyrirtæki sem er í endurskipulagningu eða slitameðferð ráðist af lögum gistiríkis, þ.e. enskum lögum í þessu tilviki, óháð því hvort málið hafi verið höfðað áður en úrskurður um endurskipulagningu eða slit var kveðinn upp. Jafnframt að af orðalagi h-liðar 2. mgr. 99. gr. megi ráða að 32. gr. tilskipunar 2001/24/EB hafi verið innleidd í íslenskan rétt með víðtækari hætti en tilskipunin gerir ráð fyrir.
    Túlkun enska dómstólsins á ákvæði 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 gengur gegn grunnsjónarmiðum laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., svo og XII. kafla laga nr. 161/2002. Ef túlkun hans yrði hins vegar almennt lögð til grundvallar á Evrópska efnahagssvæðinu er líklegt að mál yrðu í mörgum tilvikum rekin fyrir dómstólum bæði erlendis og hér á landi, með tilheyrandi kostnaði.
    Í ljósi þess að verulegir hagsmunir kunna ella að vera í húfi, og með vísan til jafnræðis kröfuhafa, er með frumvarpi þessu lagt til að orðalagi h-liðar 2. mgr. 99. gr. verði breytt þannig að öllum hugsanlegum vafa verði eytt um að túlka beri ákvæðið til samræmis við 32. gr. tilskipunarinnar, þ.e. samkvæmt orðanna hljóðan, og að einungis mál sem höfðuð hafa verið fyrir upphaf endurskipulagningar eða slitameðferðar verði undanþegin málshöfðunartakmörkunum skv. 2. mgr. 99. gr.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að orðalag ákvæðis h-liðar 2. mgr. 99. gr. laganna verði breytt. Í breytingunni felst ekki efnisbreyting frá gildandi rétti heldur er um það að ræða að tekin verði af öll tvímæli um að ákvæðinu sé eingöngu ætlað að undanþiggja þau mál frá gildissviði íslenskra laga sem höfðuð hafa verið fyrir upphaf slitameðferðar eða endurskipulagningar. Um skýringar við ákvæðið að öðru leyti er vísað til umfjöllunar í almennum athugasemdum.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum, nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum (fjárhagsleg endurskipulagning og slit).

    Með frumvarpi þessu er lagt til að ákvæði laganna um innleiðingu tilskipunar 2001/24/EB um endurskipulagningu og slit fjármálafyrirtækja verði gert skýrara. Þannig verði tryggt að erlendir dómstólar hafi sama skilning og íslensk stjórnvöld á því hvernig staðið var að innleiðingu 32. gr. tilskipunarinnar, en enskur dómstóll hefur kveðið upp úrskurð sem gengur þvert á skilning íslenskra stjórnvalda. Ekki er um efnisbreytingu að ræða heldur að tekin verði af öll tvímæli um að undanþágum í ákvæði 32. gr. tilskipunarinnar sé eingöngu ætlað að undanþiggja þau mál frá gildissviði íslenskra laga sem höfðuð eru fyrir upphaf slitameðferðar eða endurskipulagningar.
    Þrátt fyrir að málið snúist um mikla fjárhagslega hagsmuni verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.
Neðanmálsgrein: 1
1 Ákvæði 32. gr. tilskipunarinnar er svohljóðandi, á ensku: „The effects of reorganisation measures or winding-up proceedings on a pending lawsuit concerning an asset or a right of which the credit institution has been divested shall be governed solely by the law of the Member State in which the lawsuit is pending.“