Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 659. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1274  —  659. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum (fjárhagsleg endurskipulagning og slit).

Frá meiri hluta viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigríði Rafnar Pétursdóttur og Þóru Hjaltested frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Arnar Þór Sæþórsson frá Fjármálaeftirlitinu, Kolbein Árnason frá skilanefnd Kaupþings og Ólaf Garðarsson frá slitastjórn Kaupþings.
    Með lögum nr. 130/2004, um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um vátryggingastarfsemi, var meðal annars innleidd í íslenskan rétt tilskipun 24/2001/EB um endurskipulagningu og slit lánastofnana. Markmið tilskipunarinnar er að tryggja gagnkvæma viðurkenningu aðildarríkja á ráðstöfunum um endurskipulagningu og slit lánastofnana og málsmeðferð sem fylgir í kjölfarið. Í tilskipuninni felst sú meginregla að endurskipulagning fjárhags og slit lánastofnunar fer fram á grundvelli þeirra laga sem gilda í heimaríki, þ.e. þar sem lánastofnun hefur skráðar höfuðstöðvar.
    Í frumvarpi því er varð að lögum nr. 130/2004 kemur fram að það hafi verið talið forgangsmál á vettvangi Evrópusambandsins að afgreiða tilskipunina enda mikið óhagræði fólgið í því við slit og endurskipulagningu fjárhags lánastofnana með útibú í fleiri aðildarríkjum að yfirvöld í hverju ríki fyrir sig geti gripið til aðgerða. Þrjú sjónarmið búa að baki tilskipuninni: Eining (e. unity), algildi (e. universality) og jafnræði (e. non-discrimination). Tilskipuninni er ætlað að koma í veg fyrir að kröfuhöfum verði mismunað með því að mismunandi lög gildi um endurskipulagningu eða slit lánastofnunar annars vegar og útibúa hennar hins vegar.
    Í 2. málsl. 1. mgr. 104. gr. laga um fjármálafyrirtæki er kveðið á um að um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunar um slit lánastofnana skuli farið að íslenskum lögum með sömu takmörkunum og greinir í 2. mgr. 99. gr. um endurskipulagningu fjárhags. Í h-lið 2. mgr. 99. gr. laganna er kveðið á um að mál um eignir eða önnur réttindi sem lánastofnun hafi látið af hendi skuli fara eftir lögum þess aðildarríkis sem mál var höfðað í. Undanþága h-liðar byggist á 32. gr. tilskipunarinnar þar sem segir orðrétt: „Áhrif endurskipulagningarráðstafana eða slitameðferðar á yfirstandandi málaferli er varða eignir eða réttindi sem lánastofnunin hefur látið af hendi skulu falla einvörðungu undir lög aðildarríkisins þar sem málaferlin fara fram.“ Í h-lið 2. mgr. 99. gr. laganna er kveðið á um að farið skuli eftir lögum þess aðildarríkis þar sem mál var höfðað. Með því orðalagi er vísað til málaferla sem hafin voru þegar slitameðferð eða endurskipulagning hófst, enda er ekki sérstaklega getið um það í athugasemdum með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 130/2004 að víkja bæri frá ákvæði tilskipunarinnar.
    Með frumvarpinu er lagt til að 99. gr. laga um fjármálafyrirtæki verði skýrð til að taka af öll tvímæli um að undanþága h-liðar 2. mgr. 99. gr. eigi aðeins við hafi mál verið höfðað áður en slitameðferð eða endurskipulagning hófst. Hinn 16. mars sl. féll dómur á fyrsta dómstigi í Englandi (High Court of Justice, Queen's Bench Division) sem túlkaði ákvæðið á þá leið að réttaráhrif málshöfðunar gegn íslensku fjármálafyrirtæki í endurskipulagningu eða slitameðferð ráðist af lögum gistiríkis (í því tilviki enskum lögum) óháð því hvort mál hafi verið höfðað áður en endurskipulagning eða slitameðferð hófst.
    Túlkun dómsins gengur gegn grunnsjónarmiðum laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sem og XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki. Yrði túlkun hans almennt lögð til grundvallar á Evrópska efnahagssvæðinu er líklegt að mál yrðu í mörgum tilvikum rekin fyrir dómstólum bæði erlendis og hér á landi, með tilheyrandi kostnaði. Með frumvarpinu er lögð til viðbót við h-lið 2. mgr. 99. gr. laganna þess efnis að ákvæðið eigi við um málaferli sem hófust áður en úrskurður um endurskipulagningu fjárhags var kveðinn upp.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að taka af öll tvímæli um að ákvæðinu sé eingöngu ætlað að undanþiggja þau mál frá gildissviði íslenskra laga sem voru höfðuð fyrir upphaf slitameðferðar eða endurskipulagningar. Andstæð regla gæti leitt til þess að við slit hinna föllnu banka yrðu mál rekin víðs vegar í aðildarríkjunum sem gæti mismunað kröfuhöfum þeirra.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 7. apríl 2011.



Magnús Orri Schram,


varaform., frsm.


Auður Lilja Erlingsdóttir.


Valgerður Bjarnadóttir.



Björn Valur Gíslason.


Skúli Helgason.


Margrét Tryggvadóttir,


með fyrirvara.