Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 359. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 504  —  359. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008,
með síðari breytingum (samningar Sjúkratrygginga Íslands, frestun).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðríði Þorsteinsdóttur, Steinunni Margréti Lárusdóttur og Önnu Sigrúnu Baldursdóttur frá velferðarráðuneyti auk Steingríms Ara Arasonar frá Sjúkratryggingum Íslands. Umsögn barst um málið frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Með frumvarpinu er lagt til að frestað verði gildistöku ákvæði laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, sem felur Sjúkratryggingum Íslands að annast samningsgerð vegna kaupa á heilbrigðisþjónustu. Lögin tóku gildi 1. október 2008 og í þeim gert ráð fyrir að Sjúkratryggingar tækju að sér samningsgerð við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins og samninga við sveitarfélög og aðra sem reka hjúkrunarheimili eigi síðar en 1. janúar 2010. Gildistökunni var þó frestað tvisvar eftir það í ár í senn og hefur ákvæðið því ekki enn tekið gildi.
    Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að ákvæðinu verði frestað enn að nýju til tveggja ára, þ.e. til 1. janúar 2014. Í framsögu velferðarráðherra við 1. umræðu kom aftur á móti fram að til stæði að fresta gildistökunni í eitt ár, þ.e. til 1. janúar 2013. Nefndin óskaði upplýsinga um þetta frá velferðarráðuneyti og var tjáð að mistök hefðu verið gerð við framlagningu málsins og til hefði staðið að frumvarpið kvæði á um árs frestun en ekki tveggja ára frestun. Leggur meiri hlutinn því til breytingu á frumvarpinu þessu til samræmis. Í ljósi reynslunnar af yfirfærslu málefna fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga bendir meiri hlutinn á nauðsyn þess að samningar verði gerðir við stofnanir sem annast þjónustu við aldraða samhliða þeirri undirbúningsvinnu sem nú er hafin við yfirfærslu þess málaflokks til sveitarfélaga.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að árið verði nýtt til að ljúka stefnumörkun vegna sjúkratrygginga og meta reynslu og stöðu Sjúkratrygginga Íslands og mun fylgja því eftir að það verði gert.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Í stað orðanna „1. janúar 2014“ í 1. og 2. gr. komi: 1. janúar 2013.

Alþingi, 12. desember 2011.



Álfheiður Ingadóttir,


form., frsm.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Lúðvík Geirsson.



Kristján L. Möller.


Valgerður Bjarnadóttir.


Guðmundur Steingrímsson.