Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 214. máls.

Þingskjal 222  —  214. mál.



Frumvarp til laga

um breytingar á ýmsum lögum vegna breytinga á Stjórnarráði Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)




I. KAFLI
Breyting á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, nr. 64/1965, með síðari breytingum.
1. gr.

     a.      Í stað orðsins „ráðuneytið“ í 10. gr. laganna kemur: það ráðuneyti sem fer með sjávarútvegsmál.
     b.      11. gr. laganna fellur brott.
     c.      12. gr. laganna fellur brott.
     d.      Orðin „að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar“ og „stjórnar og“ í 1. mgr. 13. gr. laganna falla brott.
     e.      1. mgr. 15. gr. laganna orðast svo:
                 Við Hafrannsóknastofnunina starfar ráðgjafarnefnd. Sá ráðherra sem fer með sjávarútvegsmál skipar nefndina til fjögurra ára í senn, tvo fulltrúa án tilnefningar, og skal annar þeirra vera formaður hennar, tvo samkvæmt tilnefningu þess ráðherra sem fer með málefni sjálfbærrar þróunar, einn fulltrúa samkvæmt tilnefningu Landssambands íslenskra útvegsmanna og einn samkvæmt sameiginlegri tilnefningu Sjómannasambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Að minnsta kosti annar fulltrúi hvors ráðherra í nefndinni skal hafa sérþekkingu á fagsviði Hafrannsóknastofnunarinnar.
     f.      Í stað orðanna „fylgist með rekstri Hafrannsóknastofnunarinnar“ í 2. mgr. 15. gr. laganna kemur: fjallar um langtímarannsóknastefnu fyrir Hafrannsóknastofnunina.
     g.      Orðin „og stjórn“ og „og gerir tillögur varðandi verkefnaval og starfshætti hennar“ í 2. mgr. 15. gr. laganna falla brott.
     h.      16. gr. laganna fellur brott.
     i.      Í stað orðsins „stjórn“ í 1. mgr. 18. gr. laganna kemur: forstjóri.
     j.      Orðin „stjórnar stofnunarinnar og“ í 2. mgr. 18. gr. laganna falla brott.
     k.      Á eftir 18. gr. laganna kemur ný grein er verður 18. gr. a, svohljóðandi:
                 Starfa skal sérstök samstarfsnefnd ráðuneyta um mótun langtímanýtingarstefnu fyrir fiskistofna og eftir atvikum aðrar lifandi auðlindir hafsins. Sá ráðherra sem fer með málefni sjálfbærrar þróunar skipar nefndina. Tveir fulltrúar skulu skipaðir án tilnefningar og tveir fulltrúar samkvæmt tilnefningu þess ráðherra sem fer með sjávarútvegsmál. Skiptast fulltrúar ráðuneytanna á um formennsku í eitt ár í senn.
                 Samstarfsnefndin skal leita faglegs stuðnings Hafrannsóknastofnunarinnar við mótun langtímanýtingarstefnu og vera þeim ráðherra sem fer með sjávarútvegsmál til ráðgjafar.
                 Hafrannsóknastofnunin skal móta rannsóknastefnu og veita ráðgjöf um nýtingu á grundvelli opinberrar nýtingarstefnu þegar hún liggur fyrir.

II. KAFLI
Breyting á lögum um Jarðasjóð, nr. 34/1992, með síðari breytingum.
2. gr.

    Í stað orðanna „Við jarðadeild ráðuneytisins“ í 1. mgr. 1. gr. laganna kemur: Í ráðuneytinu.

III. KAFLI
Breyting á lögum um dýravernd, nr. 15/1994, með síðari breytingum.
3. gr.

    Í stað orðsins „Umhverfisstofnunar“ í 4. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Matvælastofnun.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998, með síðari breytingum.
4. gr.

     a.      Í stað orðanna „þess ráðuneytis er fer með málefni náttúruverndar“ í 4. mgr. 5. gr. laganna kemur: Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og eftir atvikum Veiðimálastofnunar.
     b.      3. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
                 Áður en leyfi er veitt skal leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og eftir atvikum Veiðimálastofnunar. Einnig skal leita umsagnar viðkomandi sveitarstjórnar.

V. KAFLI
Breyting á lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001, með síðari breytingum.
5. gr.

    Í stað orðanna „þeirra ráðuneyta er fara með málefni náttúruverndar sem og rannsóknir, verndun og nýtingu hafsbotnsins“ í 2. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 7. gr. laganna kemur: Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Mannvirkjastofnunar og Hafrannsóknastofnunarinnar.

VI. KAFLI
Breyting á lögum um Umhverfisstofnun, nr. 90/2002, með síðari breytingum.
6. gr.

    E-liður 1. gr. laganna fellur brott.

VII. KAFLI
Breyting á lögum um Vísinda- og tækniráð, nr. 2/2003, með síðari breytingum.
7. gr.

    Í stað d–g-liða 1. mgr. 3. gr. laganna koma tveir nýir liðir, svohljóðandi:
     d.      tvo samkvæmt tilnefningu þess ráðherra er fer með málefni vísinda,
     e.      tvo samkvæmt tilnefningu þess ráðherra er fer með málefni atvinnuvega, atvinnuþróunar og nýsköpunar.

VIII. KAFLI
Breyting á lögum um Matvælastofnun, nr. 80/2005, með síðari breytingum.
8. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: að annast starfsemi dýraverndarráðs og eftirlit með framkvæmd laga um dýravernd, nr. 15/1994.

IX. KAFLI
Breyting á lögum um Veiðimálastofnun, nr. 59/2006.
9. gr.

    Á eftir orðunum „án tilnefningar“ í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur: einn samkvæmt tilnefningu ráðherra sem fer með málefni fiskeldis, fiskræktar og skeldýraræktar.

X. KAFLI
Breyting á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006, með síðari breytingum.
10. gr.

     a.      2. mgr. 24. gr. laganna orðast svo:
                 Með sömu skilmálum og greinir í 1. mgr. er Fiskistofu heimilt, að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar, að setja reglur um friðun tiltekinna svæða í vatni, þar sem fiskur safnast saman til hrygningar, eða vegna fyrirstöðu á göngu, enda sé veiði á þeim stöðum skaðleg fiskstofnum vatnsins.
     b.      2. málsl. 5. mgr. 28. gr. laganna orðast svo: Fiskistofa getur þó, ef sérstaklega stendur á og að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar, heimilað fjölgun lagna.
     c.      6. mgr. 28. gr. laganna orðast svo:
                 Ef heimil veiðitæki samkvæmt lögum þessum þykja stofna viðgangi fiskstofns í veiðivatni í hættu er Fiskistofu heimilt að fækka föstum veiðivélum í því vatni. Skal áður aflað umsagnar Veiðimálastofnunar og viðkomandi veiðifélags eða veiðiréttarhafa, þar sem ekki er veiðifélag.
     d.      2. mgr. 32. gr. laganna orðast svo:
                 Fiskistofa getur, að fenginni umsögn Veiðimálastofnunar, með reglum heimilað notkun annarra veiðitækja og aðrar veiðiaðferðir en greinir í kafla þessum, enda skaði slíkt hvorki lífríki vatns, fiskigengd né fiskför.

XI. KAFLI
Breyting á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011, með síðari breytingum.
11. gr.

     a.      Í stað orðanna „málefni náttúruverndar“ í 1. mgr. 3. gr., 8. gr. og 6. mgr. 10. gr. laganna kemur: orkumál.
     b.      Í stað orðanna „Sá ráðherra er fer með málefni náttúruverndar“ í 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum kemur: Ráðherra.

XII. KAFLI

Breyting á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012.
12. gr.

     a.      Orðið „umhverfismála“ í 1. mgr. 5. gr. laganna fellur brott.
     b.      Orðið „loftslagsmála“ í 3. mgr. 6. gr. laganna fellur brott.

XIII. KAFLI
Gildistaka.
13. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið af starfshópi um lagaleg álitaefni vegna breytinga á ráðuneytum 2012. Hópurinn starfaði samkvæmt erindisbréfi frá samráðshópi um ráðuneytabreytingar, dags. 28. júní 2012, og var skipaður fulltrúum efnahags- og viðskiptaráðuneytis, fjármálaráðuneytis, iðnaðarráðuneytis, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og umhverfisráðuneytis. Fulltrúi forsætisráðuneytis var formaður starfshópsins.
    Hlutverk starfshópsins var að meta þörf á lagabreytingum og annast frumvarpsvinnu í tengslum við einstök verkefni sem taka breytingum eða flytjast á milli ráðuneyta á grundvelli forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 100/2012, sbr. þingsályktun um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands (þskj. 1297, 699. mál á 140. löggjafarþingi). Í meginatriðum fela þessar breytingar í sér að í stað iðnaðarráðuneytis, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, umhverfisráðuneytis, efnahags- og viðskiptaráðuneytis og fjármálaráðuneytis komi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Með þessari breytingu fækkar ráðuneytum úr tíu í átta.
    Um almennt tilefni þessara breytinga, nauðsyn og áhrif er ítarlega fjallað í tillögu að framangreindri þingsályktun. Þar segir m.a. svo:

          Markmið breytinganna er að gera Stjórnarráðið öflugra og skilvirkara og skerpa betur á og skýra verkaskiptingu á milli ráðuneyta. Þannig er lagt til að eðlislík verkefni verði færð saman með það fyrir augum að ná sem mestum samlegðaráhrifum. Jafnframt er ætlunin með stækkun ráðuneyta að gera þeim betur kleift að takast á við aukin og flóknari stjórnsýsluviðfangsefni og tryggja formfestu. Þá býður sameining ráðuneyta sem fara með atvinnumál upp á aukna möguleika til sérhæfingar og aukið bolmagn til nýsköpunar og þróunarstarfs þvert á atvinnugreinar. Breytingarnar tryggja jafnframt skýrari stöðu auðlindamála í samræmi við breytingar á samfélaginu. Þær breytingar sem hér eru boðaðar eru liður í því að tryggja öfluga þjónustu og stjórnsýslu til framtíðar í ráðuneytum sem hafa burði til þess að sinna þeim verkefnum sem þeim eru falin og stýra þannig á skilvirkan hátt þeim verkefnum sem löggjafinn felur framkvæmdarvaldinu að sinna á hverjum tíma.
         Tækifærin sem felast í sameiningu ráðuneyta eru mikil en hafa verður í huga að nokkur tími getur liðið uns árangur kemur fyllilega í ljós. Dæmin sanna að þær stofnanir og ráðuneyti sem sameinuð hafa verið á undanförnum árum eru sveigjanlegri þegar kemur að því að takast á við erfiðleika eins og þá sem glímt er við í ríkisrekstri í dag og með stærri og öflugri einingum er auðveldara að endurskipuleggja starfsemi, takast á við breytingar og ná fram hagræðingu til lengri tíma. Draga má þann lærdóm af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að þörf sé á að efla ráðuneytin og ein leið að því marki er að stækka þau með sameiningu. Undir þetta er tekið í skýrslu starfshóps forsætisráðherra um viðbrögð stjórnsýslunnar við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslunni Samhent stjórnsýsla. Með nýjum lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, er síðan með skýrum hætti fjallað um eftirlitshlutverk ráðherra og samhæfingu á milli ráðuneyta. Þessar breytingar kalla jafnframt á að ráðuneytin séu stærri og öflugri og þar með betur í stakk búin til að sinna skyldum sínum.

    Með nýjum lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, var mörkuð sú stefna að fagheiti ráðherra og ráðuneyta yrðu ekki lengur tilgreind í lögum. Þess í stað yrði forsetaúrskurður um skiptingu stjórnarmálefna tæmandi heimild um þau verkefni sem ráðherrar fara með og fjallað er um í lögum. Í samræmi við þetta voru gerðar breytingar á ýmsum lögum þar sem fagheiti ráðherra eða ráðuneytis kom fyrir, á þann veg að í stað fagheitisins kom hugtakið „ráðherra“ eða „ráðuneyti“. Um þetta efni vísast einkum til laga nr. 126/2011, um breytingar á ýmsum lögum vegna heildarendurskoðunar á lögum um Stjórnarráð Íslands, og laga nr. 21/ 2012, um breytingar á ýmsum lögum vegna nýrra laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011. Af framangreindu leiðir að þær breytingar sem gerðar voru á verkaskiptingu ráðuneyta með forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 100/2012, leiða ekki til lagabreytinga nema að takmörkuðu leyti. Um þau tilvik er fjallað í frumvarpi þessu en að öðru leyti vísast til forsetaúrskurðar.
    Ákvæðum frumvarpsins má skipta í eftirfarandi fjóra flokka:
     1.      Átta ákvæði útfæra nánar flutning verkefna á milli ráðuneyta, í heild eða að hluta, samkvæmt því sem kveðið hefur verið á um í forsetaúrskurði. Þar eru til umfjöllunar Hafrannsóknastofnunin (1. gr.), Jarðasjóður (2. gr.), málefni dýraverndar (3., 6. og 8. gr.), Veiðimálastofnun (9.–10. gr.) og verndar- og orkunýtingaráætlun (11. gr.). Í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins er nánari lýsing á þeim meginbreytingum sem í þessum ákvæðum felast.
     2.      Tvö ákvæði frumvarpsins, þ.e. 4. og 5. gr., kveða á um breytta verkaskiptingu ráðuneyta og stofnana vegna tiltekinna umsagna á grundvelli auðlindalaga og laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis. Hér er lagt til að Orkustofnun fái umsagnir um tilteknar leyfisumsóknir frá tilgreindum stofnunum, í stað þeirra ráðuneyta sem fara með náttúruvernd og rannsóknir, verndun og nýtingu hafsbotnsins. Þær stofnanir sem hér um ræðir eru eftir atvikum Hafrannsóknastofnunin, Mannvirkjastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Veiðimálastofnun og Umhverfisstofnun. Tilgangurinn er að meðferð mála af þessu tagi verði skilvirkari og skjótari en nú er, enda hefur framkvæmdin í raun verið sú að ráðuneytin hafa leitað til þessara stofnana. Þá er til þess að líta að Orkustofnun heyrir frá 1. september 2012 undir það ráðuneyti sem fer með rannsóknir, verndun og nýtingu hafsbotnsins, þ.e. atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
     3.      Eitt ákvæði, þ.e. 12. gr., kveður á um að í stað tilgreiningar á málaflokkum ráðherra komi eingöngu hugtakið ráðherra. Með nýjum lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, var mörkuð sú stefna að fagheiti ráðherra og ráðuneyta yrðu ekki lengur tilgreind í lögum. Þess í stað yrði forsetaúrskurður um skiptingu stjórnarmálefna tæmandi heimild um þau verkefni sem ráðherrar fara með og fjallað er um í lögum. Í samræmi við þetta voru gerðar breytingar á ýmsum lögum þar sem fagheiti ráðherra eða ráðuneytis kom fyrir, á þann veg að í stað fagheitisins kom hugtakið „ráðherra“ eða „ráðuneyti“. Kæmu tveir eða fleiri ráðherrar við sögu var vísað til þess eða þeirra ráðherra sem ekki báru meginábyrgð á framkvæmd laganna með því að tilgreina viðkomandi stjórnarmálefni, væri það ekki augljóst af samhengi. Um þetta efni vísast einkum til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna heildarendurskoðunar á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 126/2011, sem og laga nr. 21/2012. Láðst hefur að taka nægilega mið af framangreindu við undirbúning löggjafar um loftslagsmál, nr. 70/2012. Í frumvarpi þessu er því lagt til að þar verði gerð breyting á.
     4.      Eitt ákvæði, þ.e. 7. gr., fjallar um breytta skipan Vísinda- og tækniráðs, í tilefni af fækkun ráðuneyta og þar sem skipunartími ráðsins rann út í júní síðastliðnum. Að óbreyttu mun sé ráðherra sem fer með atvinnuvega- og nýsköpunarmál tilnefna þrjá en mennta- og menningarmálaráðherra einn.
    Hér fer á eftir lýsing á meginefni þeirra ákvæða sem útfæra flutning verkefna á milli ráðuneyta, í heild eða að hluta, samkvæmt því sem kveðið hefur verið á um í forsetaúrskurði, sbr. 1. tölul. hér að framan:

     *      Hafrannsóknastofnunin.
        Samkvæmt forsetaúrskurði nr. 100/2012, heyrir Hafrannsóknastofnunin áfram undir það ráðuneyti sem fer með sjávarútvegsmál. Undir umhverfis- og auðlindaráðuneyti heyrir „stefnumörkun um sjálfbæra þróun og ráðgjöf um nýtingu auðlinda“. Þær breytingar sem lagðar eru til á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, nr. 64/1965, lúta að því að sá ráðherra sem fer með málefni sjálfbærrar þróunar hafi aðkomu að verkefnum stofnunarinnar. Stofnuð er sérstök samstarfsnefnd ráðuneyta um langtímanýtingarstefnu fyrir fiskistofna og eftir atvikum aðrar lifandi auðlindir hafsins. Þá eru breytingar gerðar á ráðgjafarnefnd stofnunarinnar þannig að bæði ráðherra sjávarútvegsmála og sá ráðherra, sem fer með málefni sjálfbærrar þróunar, skipa nefndarmenn. Ákvæði um stjórn stofnunarinnar eru felld niður og verksvið forstjóra aukið nokkuð.
     *      Jarðasjóður.
        Samkvæmt forsetaúrskurði nr. 100/2012 eru mál er varða Jarðasjóð ríkisins færð frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti til fjármála- og efnahagsráðuneytis. Gert er ráð fyrir að hlutverki Jarðasjóðs ríkisins verði sinnt á þeirri skrifstofu í fjármála- og efnahagsráðuneytinu sem annast eignir ríkisins. Af því leiðir að gera þarf breytingu á lögum um Jarðasjóð, nr. 34/1992, nánar tiltekið fella brott tilvísun til sérstakrar jarðadeildar ráðuneytisins.
     *      Málefni dýraverndar.
        Samkvæmt forsetaúrskurði nr. 100/2012 eru mál er varða dýravernd færð frá umhverfisráðuneyti til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Af því leiðir að gera þarf breytingu á lögum um dýravernd, nr. 15/1994, sem og lögum um Umhverfisstofnun, nr. 90/2002, og Matvælastofnun, nr. 80/2005, nánar tiltekið á þá leið að það hlutverk Umhverfisstofnunar að annast starfsemi dýraverndarráðs og framkvæmd dýraverndarlaga flytjist til Matvælastofnunar. Matvælastofnun heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti en Umhverfisstofnun undir umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Færsla dýraverndarmála byggist á því mati að þannig verði eftirlit með dýravernd skilvirkara í heild sinni. Með því að dýraverndarmál færist til Matvælastofnunar er flestum þeim verkefnum er varða velferð dýra komið á eina hendi.
     *      Veiðimálastofnun.
        Samkvæmt forsetaúrskurði nr. 100/2012 heyra rannsóknir á lífríki í ám og vötnum og ráðgjöf um nýtingu þeirra undir umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Af því leiðir að Veiðimálastofnun flyst undir það ráðuneyti. Áður heyrði Veiðimálastofnun undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Samhliða þessari breytingu er nefndarmönnum í ráðgjafarnefnd forstjóra Veiðimálastofnunar fjölgað um einn og skal hinn nýi nefndarmaður skipaður samkvæmt tilnefningu þess ráðherra sem fer með málefni fiskeldis, fiskræktar og skeldýraræktar. Samkvæmt forsetaúrskurði nr. 100/2012 er þar um að ræða ráðuneyti atvinnuvega- og nýsköpunar. Nauðsynlegt er einnig að laga þau ákvæði laga um lax- og silungsveiði sem um þessar stofnanir fjalla að þessari breyttu stöðu, nánar tiltekið með þeim hætti að stofnunin veiti óbindandi umsagnir um nánar tilgreindar ákvarðanir Fiskistofu.
     *      Verndar- og orkunýtingaráætlun.
        Samkvæmt forsetaúrskurði nr. 100/2012 er svokölluð „rammaáætlun“ um vernd og orkunýtingu landsvæða færð frá iðnaðarráðuneyti til umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Þessi tilfærsla kallar á breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011. Í stað þess að sá ráðherra er fer með orkumál undirbúi og leggi fram áætlunina í samráði við ráðherra sem fer með málefni náttúruverndar, þá mun sá síðarnefndi leggja fram áætlunina í samráði við þann fyrrnefnda.
    Þær tillögur sem settar eru fram í frumvarpi þessu voru kynntar Hafrannsóknastofnuninni, Matvælastofnun, Orkustofnun, Umhverfisstofnun og Veiðimálastofnun. Færi var gefið á athugasemdum og til þeirra tekið tillit að hluta.
    Umhverfisstofnun fór þess á leit við umhverfisráðuneytið að sá málaflokkur er varðar dýravernd yrði færður frá stofnuninni til Matvælastofnunar, sbr. flutning dýraverndarmála frá umhverfisráðuneyti til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Umhverfisráðuneytið og síðar umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafði beint samráð við Umhverfisstofnun vegna nauðsynlegra lagabreytinga í því efni þar sem fyrir lá að gera þyrfti breytingar á lögum um dýravernd, lögum um Umhverfisstofnun og lögum um Matvælastofnun.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 100/2012, heyrir Hafrannsóknastofnunin áfram undir það ráðuneyti sem fer með sjávarútvegsmál. Undir umhverfis- og auðlindaráðuneyti heyrir „stefnumörkun um sjálfbæra þróun og ráðgjöf um nýtingu auðlinda“. Þær breytingar sem lagðar eru til á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, nr. 64/1965, lúta að því að sá ráðherra sem fer með málefni sjálfbærrar þróunar hafi aðkomu að verkefnum stofnunarinnar. Þannig tilnefni hann tvo fulltrúa í ráðgjafarnefnd sem í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fjalli um langtímarannsóknastefnu fyrir Hafrannsóknastofnunina og verði forstjóra til ráðuneytis. Jafnframt verði ákvæði um stjórn Hafrannsóknastofnunarinnar felld úr lögunum, sem er í samræmi við þá þróun að afleggja stjórnir í opinberum stofnunum og skýra og skerpa með því rekstrarlega ábyrgð forstjóra. Þau stjórnunarverkefni sem áður voru í höndum stjórnar, svo sem samþykkt reikninga, falla nú undir forstjóra. Á hinn bóginn þykir rétt að viðhalda samráðsvettvangi við atvinnuveginn og nú, með samkomulagi ráðuneyta atvinnuvega- og nýsköpunar annars vegar og umhverfis- og auðlinda hins vegar, að bæta fulltrúum síðarnefnda ráðuneytisins inn í samráðsvettvanginn. Ráðgjafarnefndinni er, eins og fram kemur í lagagreininni, fyrst og fremst ætlað að fjalla um langtímastefnumótun fyrir stofnunina, vera forstjóra til ráðgjafar um þau málefni sem hann kýs auk þess að vera samráðsvettvangur stofnunarinnar, hlutaðeigandi ráðuneyta og atvinnugreinarinnar. Í nefnd þessari reynir ekki á ákvarðanatöku þar sem krafist er oddatölu fulltrúa.
    Einnig er lagt til að 16. gr. laganna falli brott. Ákvæðið veitir Hafrannsóknastofnuninni heimild til að starfrækja útibú utan Reykjavíkur að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Jafnframt kveður það á um að stofnunin skuli leita samstarfs við aðrar rannsóknastofnanir um rekstur og samnýtingu útibúa eftir því sem kleift þykir. Talið er óþarfi að halda þessu ákvæði inni í löggjöfinni en það er ekki ætlunin að gera breytingar á starfsstöðvum Hafrannsóknastofnunarinnar. Forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar, ásamt ráðgjafarnefnd og ráðuneyti, ákveður staðsetningu stofnunarinnar og eftir atvikum þeirra útibúa hennar sem rekin eru hverju sinni.
    Þá er lagt til að í nýrri 18. gr. a verði fyrirmæli um að sá ráðherra sem fer með málefni sjálfbærrar þróunar skipi nýja samstarfsnefnd ráðuneytanna um mótun langtímanýtingarstefnu fyrir fiskistofna og eftir atvikum aðrar lifandi auðlindir hafsins og að Hafrannsóknastofnunin skuli móta rannsóknastefnu og veita ráðgjöf um nýtingu á grundvelli þeirrar stefnu þegar hún liggur fyrir. Framangreint er í samræmi við tillögu til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, sbr. þskj. 1132, 699. mál á 140. löggjafarþingi, þar sem gert er ráð fyrir að mælt verði fyrir um fastmótaðan og lögbundinn farveg sameiginlegrar vinnu ráðuneytanna við undirbúning ákvarðana um nýtingu. Samstarfsnefnd ráðuneytanna er vettvangur fyrir samstarf ráðuneytanna um mótun langtímanýtingarstefnu. Nefndin skilar tillögum til þess ráðherra sem fer með málefni sjálfbærrar þróunar sem ákveður langtímanýtingarstefnu og sendir með greinargerð til þess ráðherra sem fer með sjávarútvegsmál. Síðarnefndi ráðherrann tekur ákvörðun um árlegan heildarafla úr hverjum nytjastofni og setur eftir atvikum aflareglur til fleiri ára í senn á grundvelli langtímanýtingarstefnu. Gert er ráð fyrir að samstarfsnefndin starfi þannig að hún nái hverju sinni sameiginlegri niðurstöðu. Takist það ekki skal ráðherra gerð grein fyrir ágreiningi og ástæðum hans.
    Með langtímanýtingarstefnu er átt við stefnu um nýtingu fiskistofna og eftir atvikum annarra auðlinda hafsins sem er mótuð af stjórnvöldum. Það er nýmæli í lögum þótt í raun hafi slík stefna verið til staðar varðandi fiskveiðistjórnun. Með langtímanýtingarstefnu eru lagðar línur um hvernig nýta skuli og byggja upp mismunandi nytjastofna, þar sem sjálfbærni verður ávallt höfð að leiðarljósi, og taka þar jöfnum höndum tillit til líffræðilegra, hagrænna og félagslegra þátta. Langtímarannsóknastefna Hafrannsóknastofnunarinnar tekur síðan mið af stefnumótun stjórnvalda um nýtingu auðlindarinnar og felur í sér að skilgreindar eru áherslur í stefnu stofnunarinnar til lengri tíma. Með opinberri nýtingarstefnu er átt við nýtingarstefnu stjórnvalda. Rannsóknastefna Hafrannsóknastofnunar er sú stefna sem Hafrannsóknastofnun vinnur eftir.

Um 2. gr.

    Með nýjum lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, var svo sem fram kemur í almennum athugasemdum mörkuð sú stefna að fagheiti ráðherra og ráðuneyta yrðu ekki lengur tilgreind í lögum. Þess í stað yrði forsetaúrskurður um skiptingu stjórnarmálefna tæmandi heimild um þau verkefni sem ráðherrar fara með og fjallað er um í lögum. Í samræmi við þetta voru gerðar breytingar á ýmsum lögum þar sem fagheiti ráðherra eða ráðuneytis kom fyrir, á þann veg að í stað fagheitisins kom hugtakið „ráðherra“ eða „ráðuneyti“ og eftir atvikum viðkomandi stjórnarmálefni. Um þetta efni vísast einkum til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna heildarendurskoðunar á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 126/2011, sem og laga nr. 21/2012.
    Samkvæmt forsetaúrskurði nr. 100/2012 eru mál er varða Jarðasjóð ríkisins færð frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti til fjármála- og efnahagsráðuneytis. Gert er ráð fyrir að hlutverki Jarðasjóðs ríkisins verði sinnt á þeirri skrifstofu í fjármála- og efnahagsráðuneytinu sem annast eignir ríkisins. Af því leiðir að gera þarf breytingu á lögum um Jarðasjóð, nr. 34/1992, nánar tiltekið fella brott tilvísun til sérstakrar jarðadeildar ráðuneytisins.

Um 3. gr.

    Samkvæmt forsetaúrskurði nr. 100/2012 eru mál er varða dýravernd færð frá umhverfisráðuneyti til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Af því leiðir að gera þarf breytingu á lögum um dýravernd, 15/1994, nánar tiltekið á þá leið að það hlutverk Umhverfisstofnunar að annast starfsemi dýraverndarráðs og framkvæmd dýraverndarlaga flytjist til Matvælastofnunar. Matvælastofnun heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti en Umhverfisstofnun undir umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Þessi breyting á dýraverndarlögum mun hafa það í för með sér að dýraverndarráð mun verða Matvælastofnun til ráðgjafar í stað Umhverfisstofnunar, sbr. 3. mgr. 17. gr. laganna. Tekið skal fram að umhverfis- og auðlindaráðuneyti fer samkvæmt áðurgreindum forsetaúrskurði áfram með þau mál er varða vernd, friðun og veiðar villtra fugla og villtra spendýra, sbr. lög nr. 64/1994.
    Færsla dýraverndarmála byggist á því mati að þannig verði eftirlit með dýravernd skilvirkara í heild sinni. Matvælastofnun sinnir nú þegar mörgum verkefnum sem snúa að heilbrigði dýra. Í lögum um Matvælastofnun, nr. 80/2005, segir að stofnunin eigi að annast starfsemi sem yfirdýralækni er falin, m.a. samkvæmt lögum nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, og lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993. Með því að dýraverndarmál færist til Matvælastofnunar er flestum þeim verkefnum er varða velferð dýra komið á eina hendi.

Um 4. gr.

    Í 5. gr. laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998, er fjallað um rannsóknarleyfi sem gefin eru út af Orkustofnun. Skv. 4. mgr. 5. gr. laganna skal leita umsagnar þess ráðuneytis er fer með málefni náttúruverndar, þ.e. umhverfis- og auðlindaráðuneytis, áður en slík leyfi eru gefin út. Í 6. gr. laganna er fjallað um nýtingu auðlinda, sem er háð leyfi ráðherra. Fyrir veitingu slíkra leyfa er ráðherra einnig skylt að leita umsagnar þess ráðuneytis er fer með málefni náttúruverndar.
    Málsmeðferð vegna beiðna um umsagnir skv. 5. og 6. gr. laganna hefur í reynd verið á þá leið að umhverfisráðuneytið hefur óskað eftir umsögnum viðeigandi stofnana sem heyra undir ráðuneytið áður en endanleg umsögn hefur verið veitt. Hér er lagt til að Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og eftir atvikum Veiðimálastofnun veiti umsagnir um umsóknir um rannsóknarleyfi og nýtingarleyfi í stað umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Tilgangurinn er að meðferð mála af þessu tagi verði skilvirkari og skjótari en nú er.

Um 5. gr.

    Í samræmi við athugasemdir við 4. gr. frumvarpsins er lagt til að Orkustofnun leiti umsagnar Hafrannsóknastofnunarinnar, Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Mannvirkjastofnunar í stað þeirra ráðuneyta er fara með rannsóknir, verndun og nýtingu hafsbotnsins og náttúruvernd.
    Viðkomandi ráðuneyti hafa í reynd leitað til áðurgreindra stofnana vegna beiðna um umsagnir samkvæmt lögunum. Þá er til þess að líta að Orkustofnun heyrir frá 1. september 2012 undir það ráðuneyti sem fer með rannsóknir, verndun og nýtingu hafsbotnsins, þ.e. atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, sbr. forsetaúrskurð nr. 100/2012, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

Um 6. gr.

    Sú breyting sem hér er lögð til, þ.e. að Umhverfisstofnun hafi ekki lengur það hlutverk samkvæmt lögum um Umhverfisstofnun að annast starfsemi dýraverndarráðs og framkvæmd laga um dýravernd, byggist á þeirri breytingu á lögum um dýravernd sem lögð er til í 3. gr. frumvarpsins. Í 6. og 8. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að þessi hlutverk færist til Matvælastofnunar. Sjá nánar um þetta í athugasemdum við 3. gr.

Um 7. gr.

    Í ljósi þess að ráðuneytum hefur fækkað er hér lagt til að breytingar verði gerðar á lögum um Vísinda- og tækniráð, nr. 2/2003. Að óbreyttu mun sé ráðherra sem fer með atvinnu- og nýsköpunarmál tilnefna þrjá aðila en mennta- og menningarmálaráðherra einn aðila. Tillaga um að lögum yrði breytt að þessu leyti barst frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og var borin undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Skipan Vísinda- og tækniráðs rann út í júní síðastliðnum.
    Skv. 4. gr. laganna tilnefnir Vísinda- og tækniráð fulltrúa úr ráðinu í vísindanefnd, sem sá ráðherra er fer með málefni vísinda skipar. Skipar hann jafnframt formann og varaformann úr hópi nefndarmanna. Sá ráðherra er fer með málefni atvinnuþróunar og nýsköpunar skipar tækninefnd með sama hætti. Bent er á að þungi starfs Vísinda- og tækniráðs hvílir á þeim fulltrúum sem stýra starfsnefndunum, þ.e. vísindanefnd og tækninefnd.
    Hér er lagt er til að sá ráðherra sem fer með málefni atvinnuvega, atvinnuþróunar og nýsköpunar tilnefni tvo aðila (í stað þriggja) og sá ráðherra sem fer með málefni vísinda tilnefni einnig tvo aðila (í stað eins). Bent er á að forsætisráðherra tilnefnir tvo aðila, auk þess sem ASÍ og SA tilnefna tvo aðila hvor.

Um 8. gr.

    Sú breyting sem hér er lögð til, þ.e. að Matvælastofnun annist starfsemi dýraverndarráðs og eftirlit með framkvæmd laga um dýravernd, byggist á sömu sjónarmiðum og fram koma í athugasemdum við 3. og 6. gr. frumvarpsins.
    Um hlutverk og skipan dýraverndarráðs er fjallað í 17. gr. dýraverndarlaga, en ráðið hefur það hlutverk samkvæmt lögunum að vera Umhverfisstofnun og ráðherra til ráðgjafar um dýraverndarmál. Hingað til hefur dýraverndarráð haft aðsetur í húsnæði Umhverfisstofnunar og hefur starfsmaður stofnunarinnar einnig setið fundi ráðsins. Gert er ráð fyrir að dýraverndarráð muni framvegis hafa aðsetur hjá Matvælastofnun við þessa breytingu á lögum um Matvælastofnun.

Um 9. gr.

    Samkvæmt forsetaúrskurði nr. 100/2012 heyra rannsóknir á lífríki í ám og vötnum og ráðgjöf um nýtingu þeirra undir umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Af því leiðir að Veiðimálastofnun flyst undir það ráðuneyti en heyrði áður undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.
    Samhliða þessari breytingu er nefndarmönnum í ráðgjafarnefnd forstjóra Veiðimálastofnunar fjölgað um einn og skal hinn nýi nefndarmaður skipaður samkvæmt tilnefningu þess ráðherra sem fer með málefni fiskeldis, fiskræktar og skeldýraræktar. Samkvæmt forsetaúrskurði nr. 100/2012 er þar um að ræða ráðuneyti atvinnuvega- og nýsköpunar.

Um 10. gr.

    Veiðimálastofnun er rannsóknastofnun og heyrir nú undir umhverfis- og auðlindaráðuneyti, sbr. 9. gr. þessa frumvarps. Áður heyrði Veiðimálastofnun undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, líkt og Fiskistofa. Nauðsynlegt er að laga þau ákvæði laga um lax- og silungsveiði sem um þessar stofnanir fjalla að þessari breyttu stöðu, nánar tiltekið með þeim hætti að stofnunin veiti óbindandi umsagnir um nánar tilgreindar ákvarðanir Fiskistofu.

Um 11. gr.

    Samkvæmt forsetaúrskurði nr. 100/2012 er svokölluð „rammaáætlun“ um vernd og orkunýtingu landsvæða færð frá iðnaðarráðuneyti til umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Þessi tilfærsla kallar á breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011. Í stað þess að sá ráðherra er fer með orkumál undirbúi og leggi fram áætlunina í samráði við ráðherra sem fer með málefni náttúruverndar, þá mun sá síðarnefndi leggja fram áætlunina í samráði við þann fyrrnefnda. Tekið skal fram að samkvæmt forsetaúrskurði eru orkumál færð frá iðnaðarráðuneyti til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.

Um 12. gr.

    Svo sem rakið er m.a. í athugasemd við 2. gr. var sú stefna mörkuð með nýjum lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, að fagheiti ráðherra og ráðuneyta verði ekki lengur tilgreind í lögum. Þess í stað komi almennt hugtakið „ráðherra“ eða „ráðuneyti“. Komi tveir eða fleiri ráðherrar við sögu er vísað til þess eða þeirra ráðherra sem ekki bera meginábyrgð á framkvæmd laganna með því að tilgreina viðkomandi stjórnarmálefni, sé það ekki augljóst af samhengi. Láðst hefur að taka nægilegt mið af framangreindu í aðdraganda að setningu laga um loftslagsmál, nr. 70/2012. Hér er því lagt til að þar verði gerð breyting á. Tekið skal fram að málaflokkur sá sem hér um ræðir heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneyti, áður umhverfisráðuneyti.

Um 13. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal I.


Forsetaúrskurður um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 100/2012.


Forseti Íslands
gjörir kunnugt:

    Samkvæmt tillögu forsætisráðherra og með skírskotun til 15. gr. stjórnarskrárinnar, og laga um Stjórnarráð Íslands, ber stjórnarmálefni undir ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands sem hér segir:

1. gr.
Forsætisráðuneyti.

    Forsætisráðuneyti fer með mál er varða:
A.    Stjórnskipan, þar á meðal:
     1.      Stjórnskipan lýðveldisins Íslands.
     2.      Embætti forseta Íslands, þ.m.t. ákvörðun kjördags, embættisgengi og embættisbústað.
     3.      Ríkisráð Íslands.
     4.      Alþingi.
B.    Stjórnarráð Íslands, þar á meðal:
     1.      Forystu og verkstjórn innan Stjórnarráðs Íslands.
     2.      Skipun ráðherra og lausn.
     3.      Skiptingu starfa og samhæfingu þeirra milli ráðherra og ráðuneyta.
     4.      Ríkisstjórn og Stjórnarráð Íslands í heild, þ.m.t. ráðstöfun skrifstofuhúsa og gestahúsa ríkisstjórnarinnar.
     5.      Ráðherranefndir.
     6.      Stjórnarfar almennt, þ.m.t. stjórnsýslulög og upplýsingalög.
     7.      Umbætur í löggjöf og stjórnsýslu.
     8.      Stefnumótun og þróun stjórnsýslu.
     9.      Skipulag og starfshætti.
C.    Þjóðartákn og orður, þar á meðal:
     1.      Fána Íslands og ríkisskjaldarmerki.
     2.      Þjóðsöng Íslendinga.
     3.      Hina íslensku fálkaorðu.
     4.      Önnur heiðursmerki.
D.    Annað:
     1.      Almannavarna- og öryggismálaráð.
     2.      Vísinda- og tækniráð.
     3.      Þjóðlendur.
     4.      Samningagerð um endurgjald fyrir nýtingu auðlinda í eigu og á forræði íslenska ríkisins.
     5.      Umbreytingu varnarsvæða í borgaraleg not.
     6.      Rannsókn á orsökum ofanflóðs og afleiðinga þess ef manntjón hlýst af.
     7.      Rannsókn á starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn.
     8.      Embætti ríkislögmanns.
     9.      Umboðsmann barna.
     10.      Þingvelli og Þingvallaþjóðgarð.

2. gr.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

    Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti fer með mál er varða:
A.    Atvinnuþróun og nýsköpun, þar á meðal:
     1.      Stuðningsþjónustu við frumkvöðla og sprota- og nýsköpunarfyrirtæki.
     2.      Tæknirannsóknir og þróun.
     3.      Starfrækslu frumkvöðlasetra.
     4.      Fjármögnun nýsköpunarverkefna.
     5.      Ívilnanir vegna nýfjárfestinga og gerð fjárfestingarsamninga.
     6.      Opinberar fjárfestingar í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.
     7.      Staðla.
     8.      Atvinnuþróunarfélög.
     9.      Fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri.
B.    Byggðamál, þar á meðal:
     1.      Lánastarfsemi til atvinnulífs á landsbyggðinni.
     2.      Gagnasöfnun og rannsóknir um byggðaþróun.
     3.      Byggðaáætlun.
C.    Ferðaþjónustu, þar á meðal:
     1.      Mörkun ferðamálastefnu.
     2.      Ferðamálaráð.
     3.      Þróunar-, gæða- og skipulagsmál.
     4.      Úrbætur og uppbygging á ferðamannastöðum.
     5.      Samninga um ferðamál.
D.    Hitaveitur, þar á meðal:
     1.      Gjaldskrár og reglugerðir hitaveitna.
     2.      Stofnstyrki til byggingar nýrra hitaveitna.
E.    Iðnað, þar á meðal:
     1.      Orkufrekan iðnað, þ.m.t. forræði á eldri fjárfestingarsamningum vegna stóriðju.
     2.      Handiðnað.
     3.      Verksmiðjuiðnað.
     4.      Starfsréttindi í iðnaði.
     5.      Löggildingu starfsheita í tækni- og hönnunargreinum.
     6.      Visthönnun vöru sem notar orku.
     7.      Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar.
F.    Jarðrænar auðlindir, þar á meðal:
     1.      Nýtingu á auðlindum í jörðu og á, í eða undir hafsbotni.
     2.      Leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis (olíuleit).
     3.      Nýtingu vatns.
G.    Orkumál, þar á meðal:
     1.      Umsjón með raforkumarkaði og starfsemi orkufyrirtækja.
     2.      Framleiðslu, flutning og dreifingu raforku.
     3.      Orkusparnað, nýtingu orku og orkuskipti.
     4.      Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.
     5.      Jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.
     6.      Upprunaábyrgðir á raforku og orkumerkingar vöru.
     7.      Öryggi raforkukerfisins.
H.    Fjármálamarkaðinn, þar á meðal:
     1.      Fjármálafyrirtæki.
     2.      Vátryggingar og vátryggingastarfsemi.
     3.      Málefni verðbréfamarkaða.
     4.      Greiðslukerfi og greiðsluþjónustu.
     5.      Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
     6.      Neytendalán og fjarsölu á fjármálaþjónustu.
     7.      Innstæðutryggingar og málefni Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.
     8.      Opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
     9.      Málefni Fjármálaeftirlitsins.
     10.      Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu (EBRD).
I.    Félagarétt, endurskoðendur og ársreikninga, þar á meðal:
     1.      Hlutafélög, einkahlutafélög, opinber hlutafélög, samvinnufélög, sameignarfélög, samlagsfélög, Evrópufélög, evrópsk samvinnufélög, evrópsk fjárhagsleg hagsmunafélög og sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur.
     2.      Endurskoðendur og endurskoðendaráð.
     3.      Bókhald og ársreikninga.
     4.      Skráningu fyrirtækja og félaga.
J.    Almenn viðskiptamál, þar á meðal:
     1.      Samningarétt.
     2.      Löggildingu viðskiptafræðinga og hagfræðinga.
     3.      Fyrningu.
     4.      Ábyrgðarmenn.
     5.      Viðskiptabréf.
     6.      Innheimtu.
     7.      Rafræn viðskipti, aðra rafræna þjónustu og rafrænar undirskriftir.
     8.      Kauparétt: lausafjárkaup, fasteignakaup, neytendakaup og þjónustukaup.
     9.      Sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa.
     10.      Verslanaskrár, firmu og prókúruumboð.
     11.      Verslunaratvinnu og viðskipti með vöru og þjónustu, aðra en útflutningsverslun.
     12.      Þjónustuviðskipti.
     13.      Umboðsviðskipti.
     14.      Innflutning.
     15.      Hugverkaréttindi á sviði iðnaðar, þ.m.t. einkaleyfi, vörumerki, félagamerki, uppfinningar starfsmanna og hönnun.
     16.      Faggildingu.
     17.      Samkeppnismál.
     18.      Jöfnun á flutningskostnaði.
K.    Sjávarútveg, þar á meðal:
     1.      Rannsóknir á fiskistofnum og öðrum lifandi auðlindum hafsins og hafsbotnsins.
     2.      Stjórn á nýtingu fiskistofna og annarra lifandi auðlinda hafsins og hafsbotnsins á grundvelli viðmiða um sjálfbæra nýtingu auðlinda, sbr. 2. tölul. k-liðar 6. gr.
     3.      Eftirlit með verndun og nýtingu fiskistofna og annarra lifandi auðlinda hafsins og hafsbotnsins.
     4.      Stuðning við rannsóknir, þróun og nýsköpun í sjávarútvegi.
     5.      Fiskvinnslu og aðra vinnslu úr sjávarfangi.
     6.      Uppboðsmarkað sjávarafla.
     7.      Verðlagsráð sjávarútvegsins.
L.    Landbúnað, þar á meðal:
     1.      Framleiðslu- og markaðsmál í landbúnaði, inn- og útflutning landbúnaðarafurða og eftirlit með slíkri starfsemi, þ.m.t. vottun á lífrænni framleiðslu í landbúnaði.
     2.      Stuðning við rannsóknir, þróun og nýsköpun í landbúnaði, þ.m.t. hagrannsóknir, ráðgjafar- og kynbótastarf.
     3.      Almenn jarðamál samkvæmt ákvæðum í jarða- og ábúðarlögum, svo sem lausn úr landbúnaðarnotum, landskipti jarða og stofnun lögbýla.
     4.      Mál er varða afrétti, fjallskil og girðingar.
     5.      Nýtingu hlunninda jarða, svo sem æðardún.
     6.      Inn- og útflutning dýra, plantna og erfðaefnis þeirra, varðveislu erfðaauðlinda í landbúnaði og yrkisrétt.
     7.      Dýravelferð, dýravernd, aðbúnað búfjár og eftirlit með því.
M.    Fiskeldi, fiskrækt og skeldýrarækt, þar á meðal:
     1.      Eldi hvers konar nytjastofna í sjó eða ferskvatni, skipulag og eftirlit með því.
     2.      Veiði í ám og vötnum, fiskrækt, eftirlit og önnur veiðimál, þ.m.t. Fiskræktarsjóð.
     3.      Inn- og útflutning seiða og erfðaefnis.
     4.      Stuðning við rannsóknir, þróun og nýsköpun í fiskeldi og fiskrækt.
N.    Matvæli og matvælaöryggi, þar á meðal:
     1.      Heilbrigðiseftirlit með framleiðslu, vinnslu, inn- og útflutningi og markaðssetningu matvæla og fóðurs.
     2.      Heilbrigði dýra, varnir gegn dýrasjúkdómum.
     3.      Löggildingu dýralækna og störf þeirra.
     4.      Heilbrigði plantna og varnir gegn plöntusjúkdómum.
     5.      Eftirlit með sáðvöru og áburði.
     6.      Stuðning við rannsóknir, þróun og nýsköpun í matvælaiðnaði, þ.m.t. málefni Matvælarannsókna Íslands ohf.

3. gr.
Fjármála- og efnahagsráðuneyti.

    Fjármála- og efnahagsráðuneyti fer með mál er varða:
A.    Fjárreiður ríkisins og fjármál að því marki sem þau eru ekki falin öðrum aðilum, þar á meðal:
     1.      Stefnumörkun og langtímaáætlun í ríkisfjármálum.
     2.      Forsvar og gerð frumvarps til fjárlaga, fjáraukalaga og lokafjárlaga.
     3.      Skuldbindingar fram yfir fjárlagaárið, þ.m.t. rekstrar- og þjónustusamninga.
     4.      Almennt eftirlit með framkvæmd fjárlaga.
     5.      Sjóðstýringu.
     6.      Lánsfjármál og lántökur.
     7.      Ríkisaðstoð, ríkisábyrgðir og styrki til einkafyrirtækja.
     8.      Reikningshald ríkisins.
     9.      Samhæfingu fjármála sveitarfélaga við ríkisfjármál.
B.    Eignir ríkisins, þar á meðal:
     1.      Fasteignir, verðbréf og hlutabréf og fyrirsvar þeirra að því marki sem þær eignir eru ekki faldar öðrum.
     2.      Húsnæðismál ríkisstofnana.
     3.      Bifreiðamál ríkisstofnana.
     4.      Opinberar framkvæmdir.
     5.      Ríkisjarðir.
     6.      Jarðasjóð ríkisins.
C. Tekjuöflun ríkisins, þar á meðal:
     1.      Skattamál, svo sem álagningu, uppgjör og aðra skattframkvæmd, skattrannsóknir og úrskurði í skattamálum.
     2.      Tollar og vörugjöld, þ.m.t. tollgæslu og innheimtu opinberra gjalda.
     3.      Aðrar tekjur ríkissjóðs, þ.m.t. arðgreiðslur, leigutekjur og ýmis gjöld.
D.    Starfsmannamál ríkisins, þar á meðal:
     1.      Almenna stefnumótun í mannauðsmálum ríkisins og fræðslu.
     2.      Launa- og kjaramál.
     3.      Launavinnslu.
     4.      Löggjöf og reglur um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna.
E.    Lífeyrismál, þar á meðal:
     1.      Lífeyrismál starfsmanna ríkisins.
     2.      Skyldutryggingu lífeyrisréttinda.
     3.      Starfsemi lífeyrissjóða að því marki sem þau verkefni eru ekki falin öðrum.
     4.      Viðbótartryggingarvernd og séreignarsparnað, þ.m.t. starfstengda eftirlaunasjóði.
F.    Hagstjórn, þar á meðal:
     1.      Mat á þróun og horfum í efnahagsmálum og gerð þjóðhagsspár.
     2.      Efnahagsáætlanir og samstillingu opinberrar hagstjórnar.
     3.      Vexti og verðtryggingu.
     4.      Lögeyri, gjaldeyri og fjármagnshreyfingar milli landa.
     5.      Málefni Seðlabanka Íslands.
     6.      Málefni Hagstofu Íslands.
G.    Almennar umbætur í ríkisrekstri, þar á meðal:
     1.      Skipulag og stjórnarhætti í ríkisstarfsemi.
     2.      Opinber innkaup.
     3.      Hagræðingu í ríkisrekstri og árangursstjórnun.
H.    Önnur verkefni:
     1.      Kröfulýsing í þjóðlendur.
     2.      Verslun með áfengi og tóbak.
     3.      Málefni, og eigendaforsvar fjölþjóðlegra lánastofnana, annarra en þeirra sem fara með þróunaraðstoð, þ.m.t. gagnvart Norræna fjárfestingarbankanum (NIB) og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF).

4. gr.
Innanríkisráðuneyti.

    Innanríkisráðuneyti fer með mál er varða:
A.    Dómstóla, réttarfar, stjórnskipunarrétt og skaðabótarétt, þar á meðal:
     1.      Dómaskipan, dómstóla aðra en Félagsdóm, réttarfar, gjafsókn, réttaraðstoð vegna nauðasamninga, lögmenn, dómtúlka og skjalaþýðendur.
     2.      Eignarrétt og afnotarétt fasteigna, sem og framkvæmd eignarnáms er eigi ber undir annað ráðuneyti.
     3.      Skaðabætur utan samninga, bætur til þolenda afbrota, sanngirnisbætur og niðurjöfnunarmenn sjótjóns.
     4.      Birtingu laga og stjórnvaldserinda, útgáfu Stjórnartíðinda, lagasafns og Lögbirtingablaðs.
B.    Réttarvörslukerfið og almannaöryggi, þar á meðal:
     1.      Meðferð ákæruvalds, er það ber undir ráðherra að lögum, og eftirlit með framkvæmd ákæruvalds annars.
     2.      Fullnustu refsingar, fangelsi og fangavist, reynslulausn refsifanga, samfélagsþjónustu, náðun, sakaruppgjöf, uppreist æru, framsal sakamanna og gagnkvæma réttaraðstoð.
     3.      Lögreglu og löggæslu, þ.m.t. gæslu landamæra, landhelgi og fiskimiða, almannavarnir, alþjóðlegt löggæslusamstarf, þ.m.t. á grundvelli Schengen-samningsins.
     4.      Skipströnd og vogrek, sjómælingar og sjókortagerð.
     5.      Öryggisfjarskipti, netöryggi, samræmda neyðarsímsvörun, köfun, leit og björgun og öryggisþjónustu í atvinnuskyni.
     6.      Eftirlit með innflutningi, framleiðslu, útflutningi, sölu og meðferð skotvopna auk annarra vopna samkvæmt vopnalögum.
     7.      Framkvæmd löggjafar um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og áfengislöggjafar sem eigi ber undir annað ráðuneyti.
C.    Mannréttindi, þar á meðal: mannréttindasáttmála og persónuvernd.
D.    Persónuréttindi, þar á meðal:
     1.      Málefni útlendinga að frátöldum atvinnuréttindum.
     2.      Ríkisborgararétt og útgáfu vegabréfa, annarra en diplómatískra vegabréfa.
     3.      Mannanöfn.
     4.      Sifjarétt, erfðarétt, hjúskaparmál, ættleiðingarmál, persónurétt, lög um horfna menn og yfirfjárráð.
E.    Trúfélög og málefni þjóðkirkjunnar, þar á meðal:
     1.      Skráningu trúfélaga, kristnisjóð, kirkjumálasjóð, sóknargjöld, utanfararstyrk presta og bókasöfn prestakalla.
     2.      Kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu.
     3.      Helgidagafrið.
F.    Almannakosningar, þar á meðal:
     1.      Kjör forseta Íslands, kosningar til Alþingis og sveitarstjórna, þjóðaratkvæði og aðrar almannakosningar sem eigi ber undir annað ráðuneyti.
     2.      Fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og upplýsingaskyldu þeirra.
G.    Neytendamál, þar á meðal:
     1.      Eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.
     2.      Lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.
     3.      Alferðir.
     4.      Húsgöngu- og fjarsölusamninga.
     5.      Vöruöryggi, þ.m.t. vörur unnar úr eðalmálmum.
     6.      Mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.
H.    Happdrættismál, þar á meðal: happdrætti, veðmálastarfsemi, hlutaveltur, getraunir og almennar fjársafnanir.
I.    Málefni sjóða og stofnana sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.
J.    Málefni sveitarfélaga og sýslumanna, þar á meðal:
     1.      Sveitarstjórnarmál, þ.m.t. stjórnsýslu og verkefni sveitarfélaga, mörk sveitarfélaga, tekjustofna og fjármál þeirra.
     2.      Sýslumenn.
     3.      Fasteignaskráningu og fasteignamat, þjóðskrá, lögheimilismál og almannaskráningu.
K.    Samgöngur, þar á meðal:
     1.      Skipulag samgöngukerfisins, uppbyggingu, rekstur innviða, samgönguþjónustu, samgönguöryggi, samgönguvernd og rannsókn samgönguslysa.
     2.      Eftirlit með skráningu og búnaði ökutækja, loftfara og skipa.
     3.      Eftirlit með loftferðum, umferð ökutækja og skipa. Eftirlit með leiðsögu-, vöktunar-, upplýsinga- og eftirlitskerfi í siglingum, flugi og umferð ökutækja.
     4.      Réttindamál fagaðila í samgöngum. Slysavarnaskóla sjómanna.
     5.      Hafnir, sjóvarnir, vita og sjómerki og varnir gegn mengun sjávar hvað varðar skip og búnað.
     6.      Eftirlit með og skráningu bílaleiga og leigubifreiða.
     7.      Flugvelli, uppbyggingu, rekstur og viðhald. Skipulag loftrýmis.
     8.      Vegi: lagningu, rekstur og viðhald, þ.m.t. stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir, sbr. lög nr. 97/2010.
L.    Fjarskipti, þar á meðal:
     1.      Innviði og öryggi rafrænna samskipta, lén og umsýslu netsins.
     2.      Póstþjónustu, póstflutninga og póstrekstur.
     3.      Fjarskiptaþjónustu, gagnaflutninga og fjarskiptarekstur.
     4.      Fjarskiptanet, þó ekki efni sem sent er á fjarskiptanetum.

5. gr.
Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

    Mennta- og menningarmálaráðuneyti fer með mál er varða:
A.    Fræðslumál, þar á meðal:
     1.      Leikskóla.
     2.      Grunnskóla.
     3.      Framhaldsskóla.
     4.      Háskóla.
     5.      Tónlistarskóla.
     6.      Framhaldsfræðslu.
     7.      Listaskóla.
     8.      Námskrárgerð.
     9.      Námsgögn.
     10.      Námsmat.
B.    Námsaðstoð, þar á meðal:
     1.      Námslán.
     2.      Námsstyrki.
C.    Vísindamál, þar á meðal:
     1.      Rannsóknastarfsemi, einkum á sviði grunnrannsókna.
     2.      Vísindastarfsemi sem eigi ber undir annað ráðuneyti.
     3.      Opinberan stuðning við vísindastarfsemi.
D.    Safnamál, þar á meðal:
     1.      Bókasöfn, utan bókasafna prestakalla.
     2.      Skjalasöfn.
     3.      Minjasöfn.
     4.      Safnasjóð.
     5.      Listasöfn.
E.    Menningarminjar, þar á meðal:
     1.      Fornleifar.
     2.      Húsfriðun.
     3.      Varðveislu menningararfsins, þ.m.t. friðun húsa, jarðfastra minja og gripa og flutning menningarverðmæta úr landi og skil þeirra til annarra landa.
F.    Listir og menningu, þar á meðal:
     1.      Bókmenntir.
     2.      Myndlist.
     3.      Listskreytingar opinberra bygginga.
     4.      Sviðslist.
     5.      Tónlist.
     6.      Kvikmyndir.
     7.      Starfslaun listamanna.
     8.      Stuðning við listir og kynningu íslenskrar listar innan lands og utan.
G.    Höfundarétt, þar á meðal:
     1.      Úrskurðarnefnd höfundaréttarmála, höfundaréttarnefnd og höfundaréttarráð.
     2.      Fylgiréttargjald samkvæmt höfundalögum og lögum um verslunaratvinnu.
H.    Íslensk fræði, þar á meðal:
     1.      Íslenska tungu.
     2.      Íslenskt táknmál.
     3.      Örnefni og örnefnanefnd.
     4.      Bæjanöfn.
I.    Fjölmiðla, þar á meðal:
     1.      Mynd- og hljóðmiðla.
     2.      Netmiðla.
     3.      Prentmiðla.
     4.      Eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum.
J.    Ábyrgðarreglur og efnisréttindi á netinu, þ.m.t. höfundarétt.
K.    Íþróttamál, þar á meðal:
     1.      Málefni þjóðarleikvanga.
     2.      Frjáls félagasamtök.
     3.      Sjóði.
     4.      Íslenskar getraunir.
     5.      Launasjóð stórmeistara í skák og málefni Skákskóla Íslands.
L.    Æskulýðsmál, þar á meðal:
     1.      Æskulýðsráð ríkisins.
     2.      Æskulýðssjóð.
     3.      Frjáls félagasamtök.
M.    Lögvernduð starfsheiti, þar á meðal:
     1.      Starfsréttindi bókasafns- og upplýsingafræðinga.
     2.      Lögverndun starfsréttinda leik-, grunn- og framhaldsskólakennara.
     3.      Starfsréttindi náms- og starfsráðgjafa.
     4.      Viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi.
N.    Erlent samstarf á sviði menntunar, menningar og vísinda.
O.    Annað, þar á meðal:
     1.      Félagsheimili.
     2.      Byggingu og rekstur dagvistarheimila fyrir börn.
     3.      Landgræðslustörf skólafólks.

6. gr.
Umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

    Umhverfis- og auðlindaráðuneyti fer með málefni er varða:
A.    Náttúruvernd, þar á meðal:
     1.      Vernd líffræðilegrar fjölbreytni, erfðaauðlinda og vistkerfa, þar með talin vistkerfi í hafi.
     2.      Ákvörðun um verndarsvæði í hafi til varðveislu náttúruminja eða sérstakra vistkerfa á hafsbotni til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar á forræði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.
     3.      Þjóðgarða, aðra en Þingvallaþjóðgarð.
     4.      Friðlýst svæði.
     5.      Gerð og framkvæmd náttúruverndaráætlunar.
     6.      Svæði sem njóta verndar samkvæmt sérlögum vegna náttúru eða landslags.
     7.      Sinubrennur og meðferð elds á víðavangi.
     8.      Úrbætur og uppbygging á aðstöðu til móttöku ferðamanna í þjóðgörðum og friðlýstum svæðum.
B.    Skógrækt, landgræðsla og endurheimt votlendis, þar á meðal:
     1.      Friðunar- og uppgræðsluaðgerðir á sviði gróður- og skógverndar.
     2.      Jarðvegsvernd og varnir gegn landbroti.
C.    Söfnun og skráningu upplýsinga um náttúru landsins, hafsins og hafsbotnsins, þar á meðal:
     1.      Umhverfisrannsóknir og umhverfisvöktun.
     2.      Rannsóknir á jarðrænum auðlindum á landi og á hafsbotni öðrum en olíu og ráðgjöf um nýtingu þeirra.
     3.      Rannsóknir á lífríki í ám og vötnum og ráðgjöf um nýtingu þeirra.
D.    Söfnun upplýsinga um málefni norðurslóða.
E.    Vatnsvernd og ráðgjöf um nýtingu vatns.
F.    Mengunarvarnir, þar á meðal:
     1.      Hljóðvist.
     2.      Varnir gegn mengun hafs og stranda.
     3.      Mengun jarðvegs.
     4.      Meðhöndlun úrgangs og úrvinnslugjald.
     5.      Fráveitur og skólp.
     6.      Loftgæði.
G.    Loftslagsvernd, þar á meðal:
     1.      Losun gróðurhúsalofttegunda.
     2.      Viðskipti með losunarheimildir.
     3.      Skráningarkerfi gróðurhúsalofttegunda og losunarheimilda.
H.    Hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, þar á meðal öryggisþætti tengda þeim.
I.    Efni og efnavörur, þar á meðal eiturefni og hættuleg efni.
J.    Skipulagsmál, þar á meðal:
     1.      Gerð landnýtingaráætlana og landskipulagsstefnu.
     2.      Skipulag haf- og strandsvæða.
K.    Sjálfbæra þróun, þar á meðal:
     1.      Stefnumörkun um sjálfbæra þróun og ráðgjöf um nýtingu auðlinda.
     2.      Skilgreiningar á viðmiðum um sjálfbæra nýtingu auðlinda.
L.    Mat á umhverfisáhrifum áætlana og framkvæmda.
M.    Upplýsingarétt um umhverfismál.
N.    Landmælingar og grunnkortagerð.
O.    Mannvirki, þar á meðal:
     1.      Eftirlit með mannvirkjum og gerð þeirra.
     2.      Brunavarnir.
     3.      Eftirlit með byggingarvörum.
     4.      Eftirlit með öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga í mannvirkjum.
P.    Veður og náttúruvá, þar á meðal:
     1.      Veðurþjónustu.
     2.      Vöktun á náttúruvá.
     3.      Varnir gegn ofanflóðum.
     4.      Fjarkönnun og mælingar og rannsóknir á vatnafari landsins.
Q.    Veiðistjórnun og alþjóðaverslun með villt dýr og plöntur, þar á meðal:
     1.      Stjórnun veiða villtra fugla og villtra dýra, annarra en sjávardýra.
     2.      Vernd og friðun villtra dýra og villtra fugla.
     3.      Alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna í útrýmingarhættu.
R.    Erfðabreyttar lífverur.
S.    Framkvæmd alþjóðasamninga um umhverfismál.
T.    Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

7. gr.
Utanríkisráðuneyti.

    Utanríkisráðuneyti fer með mál er varða:
A.    Utanríkismál, þar á meðal:
     1.      Skipti forseta Íslands og annarra þjóðhöfðingja.
     2.      Sendiráð, fastanefndir og ræðisskrifstofur Íslands erlendis.
     3.      Sendiráð og ræðisskrifstofur erlendra ríkja á Íslandi.
     4.      Skipti við erlend ríki, þ.m.t. norræna samvinnu.
     5.      Réttindi Íslendinga og íslenska hagsmuni erlendis.
     6.      Samninga við önnur ríki og gerð þeirra og framkvæmd tiltekinna samninga, sbr. m.a. lög nr. 90/1994, 57/2000, 93/2008 og 58/2010.
     7.      Aðild Íslands að alþjóðlegum samtökum, stofnunum, ráðstefnum og fundum er varða opinbera hagsmuni og eigi ber undir annað ráðuneyti samkvæmt ákvæðum þessa úrskurðar eða eðli máls. Friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana.
     8.      Diplómatísk vegabréf, þjónustuvegabréf og áritun vegabréfa.
     9.      Kynningu Íslands og íslenskra efna með öðrum þjóðum, sbr. m.a. lög nr. 38/2010, nema slík mál séu lögð til annars ráðuneytis.
     10.      Varnarmál, aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO), varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna, samskipti og samstarf við erlend ríki, hermálayfirvöld og alþjóðastofnanir á sviði öryggis- og varnarmála, varnarsvæði, öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli og önnur öryggissvæði, þ.m.t. skipulags- og mannvirkjamál, rekstur mannvirkja og eigna Atlantshafsbandalagsins á Íslandi, þ.m.t. íslenska ratsjár- og loftvarnakerfið (IADS).
     11.      Útflutningsverslun.
     12.      Undirbúning og framkvæmd viðskiptasamninga.
     13.      Skipti Íslands við alþjóðleg viðskiptasamtök.
     14.      Vörusýningar erlendis.
     15.      Þróunarsamvinnu, friðargæslu og neyðarhjálp.

8. gr.
Velferðarráðuneyti.

    Velferðarráðuneyti fer með mál er varða:
A.    Velferðar- og fjölskyldumál, þar á meðal:
     1.      Félagsþjónustu sveitarfélaga.
     2.      Málefni fatlaðs fólks.
     3.      Barnavernd.
     4.      Málefni aldraðra.
     5.      Málefni innflytjenda og flóttafólks.
     6.      Lífeyristryggingar almannatrygginga.
     7.      Slysatryggingar almannatrygginga.
     8.      Félagslega aðstoð.
     9.      Skuldamál heimilanna.
     10.      Sjúklingatryggingu.
     11.      Málefni langveikra og alvarlega fatlaðra barna.
     12.      Ættleiðingarstyrki.
     13.      Fjárhagsaðstoð við lifandi líffæragjafa.
B.    Heilbrigðismál, þar á meðal:
     1.      Heilbrigðisþjónustu.
     2.      Sjúkratryggingar.
     3.      Málefni sjúklinga.
     4.      Lýðheilsu og forvarnir.
     5.      Sóttvarnir.
     6.      Geislavarnir.
     7.      Heilsugæslu.
     8.      Sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir.
     9.      Uppbyggingu og þjónustu á hjúkrunarheimilum.
     10.      Endurhæfingarstarfsemi og meðferðarstofnanir.
     11.      Lyf.
     12.      Ávana- og fíkniefni.
     13.      Lækningatæki.
     14.      Brottnám líffæra.
     15.      Lífsýnasöfn.
     16.      Sjúkraskrár og gagnasöfn á heilbrigðissviði.
     17.      Tæknifrjóvgun.
     18.      Lífvísindi, þ.m.t. vísindarannsóknir á heilbrigðissviði.
     19.      Ákvörðun dauða.
     20.      Starfsréttindi í heilbrigðisþjónustu og löggildingu starfsheita í heilbrigðisgreinum.
     21.      Málefni græðara.
C.    Húsnæði, þar á meðal:
     1.      Íbúðalán samkvæmt lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998.
     2.      Húsaleigumál, þ.m.t. stuðningsaðgerðir við uppbyggingu félagslegra leiguíbúða á vegum sveitarfélaga og félagasamtaka og húsaleigubætur.
     3.      Húsnæðissamvinnufélög, byggingarsamvinnufélög og fjöleignarhús.
     4.      Frístundabyggð og leigu lóða undir frístundabyggð.
D.    Vinnumarkað, þar á meðal:
     1.      Réttindi og skyldur á vinnumarkaði, þ.m.t. orlof, starfsmenn í hlutastörfum, tímabundnar ráðningar, hópuppsagnir, starfsmannaleigur og samskipti við aðila vinnumarkaðarins.
     2.      Félagsdóm.
     3.      Félagsmálaskóla alþýðu.
     4.      Sáttastörf í vinnudeilum.
     5.      Aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
     6.      Vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum.
     7.      Vinnumarkaðsaðgerðir, þ.m.t. vinnumiðlun, mat á vinnufærni atvinnuleitenda, skipulag vinnumarkaðsúrræða og atvinnutengda endurhæfingu.
     8.      Atvinnuleysistryggingar.
     9.      Atvinnuréttindi útlendinga.
     10.      Ábyrgð á launum við gjaldþrot.
     11.      Fæðingar- og foreldraorlof.
E.    Jafnréttismál.

9. gr.
Ágreiningur.

    Málefni sem eigi er getið í 1.–8. gr. skulu lögð til ráðuneytis þar sem þau eðli sínu samkvæmt eiga heima.
    Nú leikur vafi á hvaða ráðuneyti skuli með mál fara, og sker forsætisráðherra þá úr.

10. gr.
Gildistaka.

    Forsetaúrskurður þessi, sem á sér stoð í 15. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, öðlast gildi frá og með 1. september 2012. Frá sama tíma falla úr gildi ákvæði eldri forsetaúrskurðar nr. 125 frá 28. september 2011 um skiptingu stjórnarmálefna á milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.


Fylgiskjal II.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna breytinga á Stjórnarráði Íslands.

    Í frumvarpinu eru lagðar til lagabreytingar í tengslum við flutning málaflokka og verkefna milli ráðuneyta á grundvelli forsetaúrskurðar nr. 100, dags. 30. ágúst 2012, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, sem í meginatriðum felur í sér að í stað iðnaðarráðuneytis, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, umhverfisráðuneytis, efnahags- og viðskiptaráðuneytis og fjármálaráðuneytis komi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Ólíkt því sem áður var þá grundvallast skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands núna á forsetaúrskurði en ekki breytingu á lögunum. Því er í umsögn þessari ekki lagt sérstakt mat á áhrif þeirra breytinga á útgjöld ríkissjóðs.
    Auk lagabreytinga sem gera þarf í framhaldi af forsetaúrskurðinum eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á yfirstjórn Hafrannsóknastofnunarinnar, annars vegar að stjórn stofnunarinnar verði aflögð og hins vegar breytt skipan ráðgjafarnefndar við stofnunina og að hlutverk nefndarinnar einskorðist við umfjöllun um langtímarannsóknarstefnu fyrir stofnunina og að vera tengiliður milli stofnunarinnar og sjávarútvegsins. Einnig er lagt til að starfrækt verði sérstök samstarfsnefnd tveggja ráðuneyta um mótun langtímanýtingarstefnu fyrir fiskstofna og eftir atvikum aðrar lifandi auðlindir hafsins. Þá er lagt til að ráðherra sem fer með málefni fiskeldis, fiskræktar og skeldýraræktar tilnefni fulltrúa í ráðgjafarnefnd Veiðimálastofnunar og verða nefndarmenn þá einum fleiri. Að lokum er lagt til að samhliða flutningi málefna dýraverndar frá umhverfisráðuneyti til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis flytjist eftirlit með framkvæmd laga nr. 15/1994, um dýravernd, frá Umhverfisstofnun til Matvælastofnunar. Að öðru leyti felur frumvarpið ekki í sér efnisbreytingar.
    Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir að áhrif frumvarpsins og þeirra breytinga sem um er fjallað í athugasemdum á kostnað ríkissjóðs verði einkum í formi tilflutnings á kostnaði milli ráðuneyta og stofnana og auki þannig ekki heildarkostnað ríkissjóðs. Í fjárlögum munu áhrifin koma fram í tilflutningi fjárheimilda milli ráðuneyta. Að öðru leyti má gera ráð fyrir að áhrif frumvarpsins á kostnað ríkissjóðs verði óveruleg.