Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 111. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 441  —  111. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breytingu á íþróttalögum, nr. 64/1998,
með síðari breytingum (lyfjaeftirlit í íþróttum).


Frá allsherjar- og menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Agnesi Guðjónsdóttur og Óskar Þór Ármannsson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti og Örvar Ólafsson, Skúla Skúlason og Lárus Blöndal frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands. Umsagnir bárust frá Frjálsíþróttasambandi Íslands, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands og Landssambandi hestamanna.
    Með frumvarpinu er lagt til að alþjóðaskuldbindingar ríkisins á sviði lyfjaeftirlits í íþróttum verði lögfestar en íslenska ríkið er aðili að samningi Evrópuráðsins gegn misnotkun lyfja í íþróttum frá árinu 1989, ásamt viðbótarbókun frá árinu 2003, Kaupmannahafnaryfirlýsingunni frá árinu 2003 og UNESCO-lyfjaeftirlitssamningnum frá árinu 2005.
    Nefndin tekur heilshugar undir mikilvægi þess að stuðla að framþróun í baráttunni við lyfjamisnotkun hér á landi. Nefndin áréttar að ekki er verið að setja á fót sjálfstæða stofnun heldur er með frumvarpinu lagt til að ráðherra geti falið þar til bærum aðila framkvæmd lyfjaeftirlits í íþróttum með þjónustusamningi.
    Við meðferð málsins í nefndinni var nokkuð rætt um mikilvægi þess að auknar fjárheimildir fylgi lagabreytingunni. Nefndin telur einsýnt að ef uppfylla eigi alþjóðaskuldbindingar á sviði lyfjaeftirlits verði að fylgja því aukið fjármagn. Nefndin tekur undir álit fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins en þar kemur fram að um 11,8 millj. kr. eigi að renna til lyfjaeftirlits á árinu 2013. Komi til frekari útgjalda verði því að gera ráð fyrir að mennta- og menningarmálaráðuneytið nýti til þess fjárheimildir af öðrum verkefnum sínum.
    Samkvæmt 2. gr. frumvarpsins eiga lögin að taka gildi 1. janúar 2013. Það er mat nefndarinnar að nauðsynlegt sé að framkvæmd lyfjaeftirlits og fræðslu sé tryggð með öruggum hætti. Af þeim sökum telur nefndin rétt að fresta gildistöku laganna og leggur til breytingu þar að lútandi.
    Einnig leggur nefndin til lítils háttar orðalagsbreytingar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



     1.      Við 1. gr.
              a.      B-liður 2. efnismgr. orðist svo: málsmeðferð við lyfjaeftirlit og þau verkefni sem ríkissjóður greiðir fyrir.
              b.      Á eftir orðinu „lyfjaeftirlits“ í 3. efnismgr. komi: með samningi.
     2.      2. gr. orðist svo:
             Lög þessi öðlast gildi 1. mars 2013.

    Sigmundur Ernir Rúnarsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Birgitta Jónsdóttir og Tryggvi Þór Herbertsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. nóvember 2012.



Björgvin G. Sigurðsson,


form.


Skúli Helgason.


Þráinn Bertelsson.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


frsm.


Siv Friðleifsdóttir.