Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 565. máls.

Þingskjal 955 —  565. mál.


Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 217/2012
um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir
og vottun) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 217/2012, frá 7. desember 2012, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/30/ESB, frá 19. maí 2010, um merkingar og staðlaðar vörulýsingar á orkutengdum vörum er greina frá notkun þeirra á orku og öðrum aðföngum (endurútgefin).

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 217/2012, frá 7. desember 2012, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/30/ESB, frá 19. maí 2010, um merkingar og staðlaðar vörulýsingar á orkutengdum vörum er greina frá notkun þeirra á orku og öðrum aðföngum (endurútgefin).
    Markmiðið með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/30/ESB er að stuðla að því að orka sé notuð með skynsamlegum og hagkvæmum hætti með því að tryggja að neytendur hafi greiðan aðgang að samræmdum upplýsingum um orkunotkun vara sem nýta orku („energy- related products“). Tilskipunin leggur skyldur á herðar þess aðila sem markaðssetur vöru að láta neytendum í té upplýsingar um orkunotkun og orkunýtni vöru sem seld er eða leigð.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/30/ESB, frá 19. maí 2010, um merkingar og staðlaðar vörulýsingar á orkutengdum vörum er greina frá notkun þeirra á orku og öðrum aðföngum (endurútgefin).
    Sem áður segir er markmið tilskipunar 2010/30/ESB að stuðla að því að orka sé notuð með skynsamlegum og hagkvæmum hætti með því að tryggja að neytendur hafi greiðan aðgang að samræmdum upplýsingum um orkunotkun þeirra vara sem tilskipunin nær. Tilskipunin leggur skyldur á herðar þess aðila sem markaðssetur vöru (birgðasali) um að láta neytendum í té upplýsingar um orkunotkun, orkunýtni og annað er varðar rekstur þeirrar vöru sem seld er eða leigð. Birgðasali skal taka saman tæknileg gögn og ber hann ábyrgð á því að upplýsingar á merkimiðum og upplýsingablöðum séu réttar.
    Tilskipun 2010/30/ESB kemur í stað eldri tilskipunar, 92/75/EBE, um sama efni. Sú tilskipun var rammatilskipun, sem innleidd var hér á landi með lögum nr. 72/1994, um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl., með síðari breytingum. Á grundvelli þeirrar tilskipunar voru jafnframt settar nokkrar tilskipanir um merkingar og vörulýsingar á einstökum heimilistækjum, sem teknar voru upp í EES-samninginn á sínum tíma.
    Tilskipun 2010/30/ESB er einnig rammatilskipun eins og fyrirrennari hennar. Gildissvið hennar er víðtækara en hinnar fyrri að því leyti að hún nær til allra vara með notkun sem tengist orku („energy-related products“), en ekki bara heimilistækja.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Innleiðing tilskipunar 2010/30/ESB hér á landi kallar á breytingar á lögum nr. 72/1994, um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl. Þannig er gildissvið laganna afmarkað við merkingu og upplýsingar um heimilistæki, bifreiðar og tæki eða búnað til hitunar húsnæðis og upphitunar á vatni, en gildissvið tilskipunarinnar er hins vegar víðtækara þar sem hún nær til allra vara sem eru með orkutengda notkun („energy-related products“). Fyrirhugað er að atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra leggi fram frumvarp til slíkra laga til innleiðingar á tilskipuninni á næsta löggjafarþingi. Tilskipunin er hluti af stærri lagaramma og felur í sér auknar kröfur til eftirlits. Neytendastofa fer í flestum tilvikum með eftirlit með merkingum og upplýsingaskyldu orkutengdra vara. Tilskipunin eykur umfang eftirlitsins því að hún tekur einnig til orkutengdra vara. Reynslan sýnir að auka þarf eftirlitsheimildir Neytendastofu og jafnframt þarf að tryggja nægilegan mannafla svo hægt sé að sinna eftirlitinu. Til þess þarf auknar fjárheimildir.
    Innleiðingin kallar á aukna upplýsingagjöf fyrirtækja sem framleiða, selja eða flytja inn orkutengdar vörur og getur aukið rekstrarkostnað fyrirtækja.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 217/2012

frá 7. desember 2012

um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN,

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „EES-samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        Fella ber inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/30/ESB frá 19. maí 2010 um merkingar og staðlaðar vörulýsingar á orkutengdum vörum er greina frá notkun þeirra á orku og öðrum aðföngum (endurútgefin) ( 1 ).

2)        Samkvæmt ákvæðum tilskipunar 2010/30/ESB fellur úr gildi tilskipun ráðsins 92/75/EBE ( 2 ), en sú gerð hefur verið felld inn í EES-samninginn og ber því að fella hana úr EES-samningnum.

3)        II. og IV. viðauki við EES-samninginn breytist því í samræmi við það.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


Texti 4. liðar (tilskipun ráðsins 92/75/EBE) í IV. kafla II. viðauka við EES-samninginn hljóði svo:

„32010 L 0030: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/30/ESB frá 19. maí 2010 um merkingar og staðlaðar vörulýsingar á orkutengdum vörum er greina frá notkun þeirra á orku og öðrum aðföngum (endurútgefin) (Stjtíð. ESB L 153, 18.6.2010, bls. 1).“

2. gr.


Texti 11. liðar (tilskipun ráðsins 92/75/EBE) í IV. viðauka við EES-samninginn hljóði svo:

„32010 L 0030: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/30/ESB frá 19. maí 2010 um merkingar og staðlaðar vörulýsingar á orkutengdum vörum er greina frá notkun þeirra á orku og öðrum aðföngum (endurútgefin) (Stjtíð. ESB L 153, 18.6.2010, bls. 1). (1)
(1) Skráð hér eingöngu í upplýsingaskyni. Um beitingu sjá II. viðauka um tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun.“

3. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2010/30/ESB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

4. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi 8. desember 2012, eða daginn eftir að síðasta tilkynning samkvæmt 1. mgr. 103. gr. EES-samningsins berst sameiginlegu EES-nefndinni ( * ), hvort sem ber upp síðar.

5. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 7. desember 2012.

Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar

Atle Leikvoll

formaður.



Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2010/30/ESB
frá 19. maí 2010
um merkingar og staðlaðar vörulýsingar á orkutengdum vörum er greina frá notkun þeirra á orku og öðrum aðföngum
(endurútgefin)

EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins, einkum 2. mgr. 194. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópusambandsins ( 1 ),
að höfðu samráði við svæðanefndina,
í samræmi við almenna lagasetningarmeðferð ( 2 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)        Tilskipun ráðsins 92/75/EBE frá 22. september 1992 um merkingar og staðlaðar vörulýsingar á heimilistækjum er greina frá notkun þeirra á orku og öðrum aðföngum ( 3 ) hefur verið breytt í veigamiklum atriðum ( 4 ). Þar sem um frekari breytingar verður að ræða er rétt að endurútgefa hana til glöggvunar.
2)        Gildissvið tilskipunar 92/75/EBE er takmarkað við heimilistæki. Orðsending framkvæmdastjórnarinnar frá 16. júlí 2008 um aðgerðaáætlun varðandi sjálfbæra neyslu og framleiðslu og sjálfbæra stefnu í iðnaðarmálum hefur leitt í ljós að rýmkun gildissviðs tilskipunar 92/75/EBE þannig að hún taki til orkutengdra vara, sem hafa umtalsverð bein eða óbein áhrif á orkunýtingu við notkun, getur styrkt möguleg samlegðaráhrif á milli gildandi ráðstafana í lögum, einkum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/125/EB frá 21. október 2009 um ramma til að setja fram kröfur varðandi visthönnun að því er varðar orkutengdar vörur ( 5 ). Þessi tilskipun skal ekki hafa áhrif á beitingu tilskipunar 2009/125/EB. Ásamt þeirri tilskipun og öðrum gerningum Sambandsins myndar þessi tilskipun hluta víðtækari lagaramma og stuðlar, með tilliti til heildrænnar nálgunar, að auknum orkusparnaði og umhverfislegum ávinningi.
3)        Í formennskuniðurstöðum leiðtogaráðsins frá 8. og 9. mars 2007 er lögð áhersla á þörfina á að auka orkunýtni í Sambandinu til þess að ná markmiðinu um að minnka orkunotkun í Sambandinu um 20% fyrir 2020, að setja markmið innan ESB um þróun endurnýjanlegrar orku og að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og kallað eftir ítarlegri og hraðri framkvæmd lykilsviðanna sem skilgreind eru í orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar frá 19. október 2006 sem ber titilinn „Aðgerðaáætlun um orkunýtni – möguleikarnir nýttir“. Í aðgerðaáætluninni var lögð áhersla á hin gífurlegu tækifæri til orkusparnaðar á framleiðslusviðinu.
4)        Að bæta skilvirkni orkutengdra vara með upplýstu vali neytenda er ávinningur fyrir hagkerfi ESB í heild sinni.
5)        Ef veittar eru nákvæmar, viðeigandi og samanburðarhæfar upplýsingar um sértæka orkunotkun orkutengdra vara ætti það að verða til þess að endanlegur notandi velur fremur vörur sem nota minni orku, eða leiða óbeint til minni notkunar á orku, og annarra mikilvægra aðfanga, og knýja á um að framleiðendur geri ráðstafanir til að draga úr orkunotkun, og notkun annarra mikilvægra aðfanga, í þeim vörum sem þeir framleiða. Þær skulu einnig hvetja með óbeinum hætti til skilvirkrar notkunar þessara vara og þannig leggja af mörkum til markmiðs ESB um 20% betri orkunýtni. Þegar þessar upplýsingar eru ekki tiltækar munu áhrif markaðsaflanna ein og sér ekki hvetja til skynsamlegrar nýtingar á orku og öðrum mikilvægum aðföngum hvað þessar vörur varðar.
6)        Minnt skal á tilvist löggjafar Sambandsins og landslöggjafar sem veitir neytendum tiltekin réttindi að því er varðar kaup á vörum, þ.m.t. bætur eða skipti á vörunni.
7)        Framkvæmdastjórnin skal láta í té forgangsskrá yfir orkutengdar vörur sem gætu fallið undir framselda gerð samkvæmt þessari tilskipun. Slík skrá gæti fylgt vinnuáætluninni sem um getur í tilskipun 2009/125/EB.
8)        Upplýsingar skipta höfuðmáli í starfsemi markaðsaflanna og því er nauðsynlegt að innleiða samræmdan merkimiða fyrir allar vörur sömu tegundar, til að veita hugsanlegum kaupendum staðlaðar viðbótarupplýsingar um orkukostnað þessara vara og notkun annarra mikilvægra aðfanga og til að gera ráðstafanir sem tryggja að hugsanlegir endanlegir notendur, sem sjá ekki vörurnar í útstillingu og sjá því ekki merkimiðann, fái því einnig þessar upplýsingar. Merkimiðinn skal vera auðþekkjanlegur endanlegum notendum, einfaldur og hnitmiðaður, til að vera skilvirkur og ná árangri. Í þessu skyni skal núverandi útliti merkimiðans viðhaldið sem grunni til að upplýsa endanlega notendur um orkunýtni varanna. Orkunotkun varanna, og aðrar upplýsingar sem varða vörurnar, skal mæld í samræmi við samræmda staðla og aðferðir.
9        Eins og bent var á í mati framkvæmdastjórnarinnar á áhrifum, sem fylgdi tillögu hennar að þessari tilskipun, hefur áætluninni um orkumerkingar verið fylgt sem fyrirmynd í hinum ýmsu löndum um allan heim.
10)        Aðildarríkin skulu hafa reglulegt eftirlit með því að farið sé að ákvæðum þessarar tilskipunar og að allar upplýsingar sem skipta máli séu í skýrslunni, sem þeim ber að leggja fyrir framkvæmdastjórnina á fjögurra ára fresti samkvæmt þessari tilskipun, með sérstakri hliðsjón af ábyrgð birgja og seljenda.
11)        Í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 765/2008 frá 9. júlí 2008 um kröfur varðandi faggildingu og markaðseftirlit í tengslum við markaðssetningu á vörum ( 1 ) eru almenn ákvæði um markaðseftirlit í tengslum við markaðssetningu vara. Til þess að ná markmiðum þessarar tilskipunar er í henni kveðið á um ítarlegri ákvæði hvað þetta varðar. Þessi ákvæði eru í samræmi við reglugerð (EB) nr. 765/2008.
12)        Algjörlega valfrjáls áætlun yrði til þess að einungis sumar vörur yrðu merktar eða staðlaðar vöruupplýsingar látnar fylgja og þetta kynni að leiða til misskilnings fyrir suma endanlega notendur eða að þeir fengju rangar upplýsingar. Sú áætlun sem hér um ræðir verður því að tryggja að orkunotkunar og notkunar annarra mikilvægra aðfanga sé getið á merkimiða og stöðluðum upplýsingablöðum.
13)        Orkutengdar vörur hafa bein eða óbein áhrif á notkun mismunandi tegunda orku á meðan á notkun stendur, þar sem rafmagn og gas eru þær mikilvægustu. Þessi tilskipun ætti því að ná yfir orkutengdar vörur sem hafa bein eða óbein áhrif á notkun allra tegunda orku á meðan á notkun stendur.
14)        Orkutengdar vörur, sem hafa umtalsverð bein eða óbein áhrif á orkunotkun eða, þar sem við á, notkun mikilvægra aðfanga á meðan á notkun stendur og þar sem fullnægjandi svigrúm er fyrir aukna skilvirkni, skulu falla undir framselda gerð þegar miðlun upplýsinga með merkingu getur orðið til þess að hvetja endanlega notendur til að kaupa skilvirkari vörur.
15)         Til þess að uppfylla markmið Sambandsins um loftslagsbreytingar og orkuöryggi og að teknu tilliti til þess að gert er ráð fyrir að heildarorkunotkun vara muni halda áfram að aukast til lengri tíma litið, gætu framseldar gerðir samkvæmt þessari tilskipun, þar sem við á, einnig lagt sérstaka áherslu á mikla orkunotkun vörunnar á merkimiðanum.
16)        Í mörgum aðildarríkjanna er í gildi stefna um opinber innkaup sem skyldar samningsyfirvöld til þess að kaupa orkunýtnar vörur. Í mörgum aðildarríkjanna hafa einnig verið innleiddir hvatar til notkunar á orkunýtnum vörum. Viðmiðanirnar til að vörur geti komið til greina fyrir opinber innkaup eða hvata geta verið mjög misjafnar frá einu aðildarríkis til annars. Að vísa til nothæfisflokka sem þrepa fyrir einstakar vörur, eins og segir í framseldum gerðum samkvæmt þessari tilskipun, getur minnkað uppskiptingu markaðarins, sem mismunandi viðmiðanir fyrir opinber innkaup og hvata hafa í för með sér, og auðveldað útbreiðslu orkunýtinna vara.
17)         Hvatar aðildarríkjanna til stuðnings orkunýtnum vörum kunna að teljast ríkisaðstoð. Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á niðurstöðu meðferðar ríkisaðstoðarmála í framtíðinni sem framkvæmd er í samræmi við 107. og 108. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins að því er varðar slíka hvata og skal ekki taka til skattlagningar og skattamála. Aðildarríkjum er frjálst að ákveða hvernig slíkum hvötum er háttað.
18)         Stuðningur við orkunýtnar vörur með merkingu, opinberum innkaupum og hvötum skal ekki vera á kostnað heildarárangurs í umhverfismálum og virkni slíkra vara.
19)         Framkvæmdastjórnin skal hafa umboð til að samþykkja framseldar gerðir í samræmi við 290. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins að því er varðar merkingu og staðlaðar vöruupplýsingar um notkun á orku og öðrum mikilvægum aðföngum við notkun orkutengdra vara. Einkum er mikilvægt að framkvæmdastjórnin hafi viðeigandi samráð meðan á undirbúningsvinnu hennar stendur, þ.m.t. við sérfræðinga.
20)        Framkvæmdastjórnin skal reglulega leggja fyrir Evrópuþingið og ráðið samantekt, þar sem fjallað er um ESB og hvert aðildarríki sérstaklega, um skýrslur um aðgerðir til að framfylgja lögum og fylgni við kröfur, sem aðildarríkin leggja fram samkvæmt þessari tilskipun.
21)         Framkvæmdastjórnin ber ábyrgð á að breyta flokkun merkimiða með það að markmiði að tryggja atvinnugreinum fyrirsjáanleika og neytendum skilning.
22)         Tækniþróun og möguleikinn á enn meiri orkusparnaði geta, upp að vissu marki eftir því um hvaða vöru er að ræða, aukið þörfina á frekari aðgreiningu vara og réttlætt endurskoðun á flokkuninni. Slík endurskoðun ætti einkum að fela í sér möguleikann á að breyta kvarðanum. Þessi endurskoðun skal framkvæmd eins fljótt og auðið er þegar um er að ræða vörur sem, vegna mikilla nýsköpunareinkenna, geta lagt umtalsvert af mörkum til orkunýtni.
23)        Þegar framkvæmdastjórnin fer yfir framvindu og skýrslur um framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar varðandi sjálfbæra neyslu og framleiðslu og sjálfbæra stefnu í iðnaðarmálum 2012 mun hún einkum greina hvort þörf sé á frekari aðgerðum til þess að bæta orkunýtingu og vistvænleika vara, þ.m.t. meðal annars möguleikann á að láta neytendum í té fyrir upplýsingum um kolefnisspor vara eða umhverfisáhrif varanna á endingartíma þeirra.
24)         Skyldan að taka þessa tilskipun upp í landslög skal takmarkast við þau ákvæði sem fela í sér verulega breytingu í samanburði við tilskipun 92/75/EBE. Skyldan til að taka óbreyttu ákvæðin upp leiðir af tilskipun 92/75/EBE.
25)         Við framkvæmd ákvæða þessarar tilskipunar skulu aðildarríkin leitast við að samþykkja ekki ráðstafanir sem gætu lagt ónauðsynlegar skrifræðislegar og þunglamalegar skyldur á hlutaðeigandi markaðsaðila, einkum lítil og meðalstór fyrirtæki.
26)         Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á skuldbindingar aðildarríkjanna að því er varðar fresti þeirra til að lögleiða tilskipun 92/75/EBE í landslög og beita henni.
27)        Í samræmi við 34. mgr. samstarfssamningsins milli stofnana um betri lagasetningu ( 1 ) eru aðildarríkin hvött til þess, bæði í eigin þágu og í þágu Sambandsins, að taka saman og birta sínar eigin töflur sem sýna, eftir því sem kostur er, samsvörun milli þessarar tilskipunar og lögleiðingarráðstafana þeirra.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.
Gildissvið

1.     Í tilskipun þessari er kveðið á um ramma til samhæfingar á landsbundnum ráðstöfunum um upplýsingar fyrir endanlegan notanda einkum með merkingu og stöðluðum vöruupplýsingum, um orkunotkun og, þar sem við á, notkun annarra mikilvægra aðfanga og viðbótarupplýsingar um orkutengdar vörur, til að gera endanlegum notendum mögulegt að velja orkunýtnari vörur.
2.     Tilskipun þessi gildir um orkutengdar vörur sem hafa umtalsverð bein eða óbein áhrif á notkun á orku og, þar sem við á, á öðrum mikilvægum aðföngum á meðan á notkun stendur.
3.     Tilskipun þessi gildir ekki um:
a)    notaðar vörur,
b)    farartæki til farþega- eða vöruflutninga,
c)     merkiplötuna, eða ígildi hennar, sem er fest á vörur í öryggisskyni.

2. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    „orkutengd vara“ eða „vara“: vara sem hefur áhrif á notkun orku þegar hún er í notkun, og er sett á markað og/eða hún tekin í notkun í Sambandinu, þ.m.t. hlutir sem ætlunin er að setja í orkutengdar vörur, sem falla undir þessa tilskipun, og eru settir á markað og/eða teknir í notkun sem stakir hlutir fyrir endanlega notendur og unnt er að meta sérstaklega að því er varðar vistvænleika,
b)    „upplýsingablað“: stöðluð tafla með upplýsingum um vöru,
c)    „önnur mikilvæg aðföng“: vatn, íðefni eða önnur efni sem vara notar við venjulega notkun,
d)    „viðbótarupplýsingar“: aðrar upplýsingar varðandi afköst og eiginleika vöru sem tengjast, eða gagnast við mat á, notkun vörunnar á orku eða öðrum mikilvægum aðföngum á grundvelli mælanlegra gagna,
e)    „bein áhrif“: áhrif vara, sem í reynd nota orku á meðan á notkun stendur,
f)    „óbein áhrif“: áhrif vara sem nota ekki orku, en leiða til orkusparnaðar á meðan á notkun stendur,
g)    „seljandi“: smásali eða annar aðili sem selur, leigir, býður upp á kaupleigu eða sýnir endanlegum notendum vörur,
h)    „birgir“: framleiðandi, eða viðurkenndur fulltrúi hans í Sambandinu, eða innflytjandi, sem setur vöru á markað eða tekur hana í notkun á markaði Sambandsins. Ef þeir eru ekki til staðar skal hver einstaklingur eða lögaðili, sem setur á markað eða tekur í notkun vörur sem falla undir þessa tilskipun, teljast birgir,
i)    „að setja á markað“: að veita aðgang að vöru í fyrsta skipti á markaði Sambandsins til dreifingar eða notkunar innan Sambandsins, hvort sem er gegn gjaldi eða ókeypis og óháð söluaðferðum,
j)    „að taka í notkun“: fyrsta notkun í Sambandinu á vöru í samræmi við tilætlaða notkun,
k)    „óheimil notkun merkimiða“: notkun merkimiða, nema af yfirvöldum aðildarríkis eða stofnana ESB, með hætti sem ekki er kveðið á um í þessari tilskipun eða framseldum gerðum.

3. gr.
Ábyrgð aðildarríkja

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess:
a)     að allir birgjar eða seljendur með staðfestu á yfirráðasvæði þeirra uppfylli þær skyldur sem mælt er fyrir um í 5. og 6. gr.,
b)     að banna að aðrir merkimiðar, tákn eða áletranir séu sýndar sem uppfylla ekki kröfur þessarar tilskipunar og viðeigandi framseldra gerða, að því er varðar vörur sem falla undir þessa tilskipun, ef slík sýning er líkleg til að vera villandi eða misvísandi fyrir endanlega notendur hvað varðar notkun orku eða, ef við á, annarra mikilvægra aðfanga meðan á notkun stendur,
c)    að innleiðing kerfis fyrir merkimiða og upplýsingablöð um orkunotkun eða orkusparnað fari fram samhliða fræðslu- og kynningarátaki og upplýsingaherferðum, sem miða að því að efla orkunýtni og ábyrgari notkun endanlegra notenda á orku,
d)    að viðeigandi ráðstafanir séu gerðar til að hvetja viðkomandi lands- eða svæðisyfirvöld, sem eru ábyrg fyrir framkvæmd þessarar tilskipunar, til að starfa saman og veita hvert öðru og framkvæmdastjórninni upplýsingar sem gagnast við beitingu þessarar tilskipunar. Í samstarfi stjórnvalda og upplýsingaskiptum skal nota til hins ýtrasta rafræn samskipti, gæta skal kostnaðarhagkvæmni og nýta má stuðning frá viðeigandi áætlunum ESB. Slíkt samstarf skal, ef nauðsyn krefur, tryggja öryggi og trúnaðarkvöð við vinnslu og verndun viðkvæmra upplýsinga, sem veittar eru á meðan á málsmeðferðinni stendur. Framkvæmdastjórnin skal gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að hvetja til og leggja af mörkum til samstarfs milli aðildarríkjanna sem um getur í þessum lið.
2.     Verði aðildarríki þess áskynja að vörur uppfylli ekki allar viðeigandi kröfur, sem settar eru fram í þessari tilskipun og framseldum gerðum hennar, um merkimiða og upplýsingablöð, skal birgirinn skuldbundinn til þess að sjá til þess að varan uppfylli þessar kröfur í samræmi við skilvirk og hófleg skilyrði aðildarríkisins.
Þegar fullnægjandi vísbendingar eru fyrir hendi um að vara uppfylli ekki skilyrðin skal hlutaðeigandi aðildarríki gera nauðsynlegar forvarnarráðstafanir og ráðstafanir sem miða að því að tryggja að farið sé að skilyrðum innan tiltekinna tímamarka, með tilliti til þess tjóns sem hlotist hefur.
Ef ósamræmi varir áfram skal aðildarríkið taka ákvörðun um að takmarka eða banna að viðkomandi vara sé sett á markað og/eða tekin í notkun eða tryggja að hún sé tekin af markaði. Þegar varan er tekin af markaði eða bannað að setja vöruna á markað skal tilkynna framkvæmdastjórninni og hinum aðildarríkjunum um það án tafar.
3.     Á fjögurra ára fresti skulu aðildarríkin leggja skýrslu fyrir framkvæmdastjórnina með upplýsingum um aðgerðir þeirra til að framfylgja tilskipuninni og fylgni við hana á yfirráðasvæði þeirra.
Framkvæmdastjórnin getur tilgreint nánar almennt innihald þessara skýrslna með því að gefa um það leiðbeiningar.
4.     Framkvæmdastjórnin skal reglulega gera samantekt um þessar skýrslur til upplýsinga fyrir Evrópuþingið og ráðið.

4. gr.
Kröfur um upplýsingar

Aðildarríkin skulu sjá til þess:
a)    að athygli endanlegra notenda sé vakin á upplýsingum er varða notkun á raforku, öðrum tegundum orku og, þar sem við á, öðrum mikilvægum aðföngum meðan á notkun stendur, og viðbótarupplýsingum sé, í samræmi við framseldar gerðir samkvæmt þessari tilskipun, komið á framfæri við endanlega notendur með upplýsingablaði og merkimiða um vörurnar sem eru til sölu, leigu, kaupleigu eða eru sýndar endanlegum notendum beint eða óbeint með fjarsölu af einhverju tagi, þ.m.t. í gegnum Netið,
b)     að upplýsingarnar, sem um er getið í a-lið, séu aðeins veittar að því er varðar innbyggðar eða uppsettar vörur þegar þess er krafist í viðeigandi framseldri gerð,
c)     að allar auglýsingar fyrir sérstakar tegundir orkutengdra vara, sem falla undir framselda gerð samkvæmt þessari tilskipun, innihaldi tilvísun í orkunýtniflokk vörunnar, þar sem orkutengdar upplýsingar eða verðupplýsingar eru birtar,
d)    að allt tæknilegt kynningarefni sem varðar orkutengdar vörur og lýsir sérstökum tæknilegum kennistærðum vöru, nánar tiltekið tæknileiðbeiningar og kynningarrit framleiðenda, hvort sem er á prenti eða rafrænu formi, sé látið endanlegum notendum í té ásamt nauðsynlegum upplýsingum um orkunotkun eða tilvísun í orkunýtniflokk vörunnar.

5. gr.
Ábyrgð birgja

Aðildarríkin skulu sjá til þess:
a)    að birgjar, sem setja á markað eða taka í notkun vörur, sem falla undir framselda gerð, leggi til merkimiða og upplýsingablað í samræmi við þessa tilskipun og framseldu gerðina,
b)    að birgjar leggi fram fullnægjandi tæknigögn til að mögulegt sé að meta nákvæmni upplýsinganna sem koma fram á merkimiðanum og upplýsingablaðinu. Tæknigögnin skulu innihalda:
    i.    almenna lýsingu á vörunni,
    ii.     niðurstöður hönnunarútreikninga, þar sem við á
    iii.    prófunarskýrslur, þar sem þær eru tiltækar, þ.m.t. þær sem viðkomandi tilkynntar stofnanir hafa framkvæmt eins og skilgreint er í annarri löggjöf Sambandsins,
    iv.     ef gildi fyrir svipaðar tegundir eru notuð, tilvísanir til að gera kleift að auðkenna þær tegundir.
    Í þessu skyni má nota gögn sem eru nú þegar til staðar í samræmi við kröfur sem mælt er fyrir um í viðeigandi löggjöf Sambandsins,
c)     að birgjar sjái til þess að tæknigögn séu tiltæk í eftirlitstilgangi í fimm ár eftir að síðasta varan sem um er að ræða var framleidd.
    Birgjar skulu veita markaðseftirlitsyfirvöldum aðildarríkjanna og framkvæmdastjórninni aðgang að rafrænni útgáfu tæknigagnanna að fenginni beiðni, innan tíu virkra daga eftir að beiðni frá lögbæru yfirvaldi aðildarríkis eða framkvæmdastjórnarinnar er móttekin,
d)     að birgjar útvegi seljendum nauðsynlega merkimiða að því er varðar merkingar og vöruupplýsingar endurgjaldslaust.
    Án þess að hafa áhrif á með hvaða hætti birgjar velja að afhenda merkimiða, skulu birgjar senda merkimiða tafarlaust að fenginni beiðni frá seljendum,
e)     að auk merkimiðanna afhendi birgjar vöruupplýsingablað,
f)    að birgjar láti vöruupplýsingablað fylgja öllum kynningarritum fyrir vöruna. Láti birgjar ekki í té kynningarrit um vöruna ber þeim að láta upplýsingablað fylgja öðru lesmáli sem fylgir vörunni,
g)    að birgjar séu ábyrgir fyrir áreiðanleika merkimiðanna og upplýsingablaðanna sem þeir afhenda,
h)    að litið sé svo á að birgjar samþykki að upplýsingarnar sem koma fram á merkimiðanum eða upplýsingablaðinu megi birta.

6. gr.

Ábyrgð seljenda

Aðildarríkin skulu sjá til þess:
a)    að seljendur sýni merkimiða á tilhlýðilegan hátt, að þeir séu sýnilegir og læsilegir og að upplýsingablaðið sé í kynningarriti um vöruna eða öðrum skjölum sem fylgja vörunni þegar hún er seld endanlegum notendum,
b)     að hvenær sem vöru sem fellur undir framselda gerð er stillt út skuli seljendur festa á hana viðeigandi merkimiða á áberandi stað, eins og tilgreint er í viðeigandi framseldri gerð, og á viðeigandi tungumáli.

7. gr.

Fjarsala og aðrar söluaðferðir

Þegar vörur eru til sölu, leigu eða kaupleigu í gegnum póstpöntun, verðlista, Netið, með símasölu eða með öðrum hætti sem leiðir af sér að ekki sé hægt að gera ráð fyrir að hugsanlegur endanlegur notandi hafi séð vöruna í útstillingu, skal kveða á um í framseldum gerðum að gengið sé úr skugga um að hugsanlegir endanlegir notendur fái upplýsingarnar, sem tilgreindar eru á merkimiða vörunnar og upplýsingablaðinu, áður en þeir festa kaup á vörunni. Í framseldum gerðum skal, eftir því sem við á, tilgreina á hvaða hátt merkimiðinn eða upplýsingablaðið eða þær upplýsingar, sem tilgreindar eru á merkimiðanum eða upplýsingablaðinu, skuli stillt fram eða þær gefnar hugsanlegum endanlegum notanda.

8. gr.

Frjáls flutningur

1.     Aðildarríkjunum er óheimilt að banna, takmarka eða hindra að vörur, sem falla undir og fullnægja ákvæðum tilskipunar þessarar og viðeigandi framseldra gerða, verði settar á markað og/eða teknar í notkun á yfirráðasvæði þeirra.
2.     Aðildarríki skulu líta svo á að merkimiðar og upplýsingablöð uppfylli ákvæði þessarar tilskipunar og framseldra gerða, nema að þau hafi sönnunargögn um hið gagnstæða. Aðildarríki skulu krefja birgja um sönnunargögn í skilningi 5. gr., varðandi nákvæmni upplýsinganna, sem þeir setja á merkimiðana og upplýsingablöðin sín, þegar grunur leikur á að þessar upplýsingar séu rangar.

9. gr.
Opinber innkaup og hvatar

1.     Þegar vara fellur undir framselda gerð skulu samningsyfirvöld, sem gera opinbera verksamninga, vörusamninga eða þjónustusamninga, eins og um getur í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/ 18/EB frá 31. mars 2004 um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra verksamninga, vörusamninga og þjónustusamninga ( 1 ), sem ekki eru undanskildir samkvæmt 12.–18. gr. þeirrar tilskipunar, leitast við að kaupa aðeins þær vörur sem uppfylla viðmiðanirnar um hæstu nothæfisstigin og tilheyra hæsta orkunýtniflokknum. Aðildarríki geta einnig krafist þess að samningsyfirvöld kaupi aðeins vörur sem uppfylla þessar viðmiðanir. Aðildarríkjum er heimilt að láta beitingu þessara viðmiðana vera með fyrirvara um kostnaðarhagkvæmni, efnahagslega hagkvæmni og tæknilegt hæfi og fullnægjandi samkeppni.
2.     Ákvæði 1. mgr. gilda um samninga sem eru jafnir að verðmæti eða verðmætari en viðmiðunarfjárhæðirnar sem mælt er fyrir um í 7. gr. tilskipunar 2004/18/EB.
3.     Þegar aðildarríki veita hvata fyrir vöru sem fellur undir framselda gerð skulu þau miða við hæstu nothæfisstigin, þ.m.t. hæsti orkunýtniflokkurinn sem mælt er fyrir um í viðeigandi framseldri gerð. Skattlagning og ráðstafanir er varða skattamál teljast ekki hvatar að því er varðar þessa tilskipun.
4.     Þegar aðildarríki veita hvata fyrir vörur, bæði fyrir endanlega notendur sem nota mjög orkunýtnar vörur og fyrir iðnað sem stuðlar að notkun og framleiðir slíkar vörur, skulu þau gefa nothæfisstig upp með tilliti til flokka, sem eru skilgreindir í viðeigandi framseldri gerð, nema þegar þau koma á nothæfisstigum sem eru hærri en viðmiðunarmörkin fyrir hæsta orkunýtniflokkinn í framseldu gerðinni. Aðildarríkjum er heimilt að koma á nothæfisstigum sem eru hærri en viðmiðunarmörkin fyrir hæsta orkunýtniflokkinn í framseldu gerðinni segja til um.

10. gr.
Framseldar gerðir

1.     Framkvæmdastjórnin skal mæla fyrir um ítarlegri ákvæði um merkimiða og upplýsingablað með framseldum gerðum í samræmi við 11.–13. gr., að því er varðar hverja vörutegund í samræmi við þessa grein.
Þegar vara uppfyllir viðmiðanirnar sem taldar eru upp í 2. mgr. skal hún falla undir framselda gerð í samræmi við 4. mgr.
Ákvæði í framseldum gerðum varðandi upplýsingar, sem settar eru á merkimiða og upplýsingablað, um notkun orku og annarra mikilvægra aðfanga á meðan á notkun stendur, skulu auðvelda endanlegum notendum að taka upplýstari ákvarðanir um kaup og auðvelda markaðseftirlitsyfirvöldum að sannreyna hvort að vörur séu í samræmi við veittar upplýsingar.
Þegar mælt er fyrir um, í framseldri gerð, ákvæði varðandi bæði orkunýtni vöru og notkun vörunnar á mikilvægum aðföngum, skal hönnun og innihald merkimiðans leggja áherslu á orkunýtni vörunnar.
2.     Viðmiðanirnar, sem um getur í 1. mgr., eru sem hér segir:
a)    vörurnar skulu samkvæmt nýjustu tiltækum tölum og að teknu tilliti til magnsins sem sett er á markað í Sambandinu hafa umtalsverða möguleika á orkusparnaði og, þar sem við á, sparnaði á öðrum mikilvægum aðföngum,
b)    mikils misræmis skal gæta varðandi nothæfisstig vara með sambærilega virkni sem fáanlegar eru á markaði,
c)    framkvæmdastjórnin skal taka tillit til viðeigandi löggjafar Sambandsins og sjálfseftirlits, svo sem frjálsra samninga, sem gert er ráð fyrir að uppfylli stefnumarkmiðin fyrr eða með minni tilkostnaði en lögboðnar kröfur segja til um.
3.     Við gerð draga að framseldri gerð skal framkvæmdastjórnin:
a)    taka tillit til þeirra umhverfisþátta, sem settir eru fram í 1. hluta I. viðauka við tilskipun 2009/ 125/EB, sem er taldir mikilvægir í viðkomandi framkvæmdarráðstöfun, sem samþykkt er í samræmi við tilskipun 2009/125/EB og skipta máli fyrir endanlegan notanda við notkun,
b)    meta áhrif gerðarinnar á umhverfið, endanlega notendur og framleiðendur, þ.m.t. lítil og meðalstór fyrirtæki, með tilliti til samkeppnishæfni, þ.m.t. á mörkuðum utan Sambandsins, nýsköpun, markaðsaðgang og kostnað og ávinning,
c)     hafa viðeigandi samráð við hagsmunaaðila,
d)    fastsetja einn eða fleiri framkvæmdardaga og hugsanlega áfanga- eða bráðabirgðaaðgerðir eða -tímabil, einkum með tilliti til hugsanlegra áhrifa á lítil og meðalstór fyrirtæki eða sérstaka vöruflokka sem einkum lítil og meðalstór fyrirtæki framleiða.
4.     Í framseldum gerðum skal einkum tilgreina:
a)    nákvæma skilgreiningu á vörutegundunum sem hún tekur til,
b)    mælingastaðlana og aðferðirnar sem nota á við öflun upplýsinganna sem um getur í 1. mgr. 1. gr.,
c)    einstök atriði tæknigagnanna sem krafist er samkvæmt 5. gr.,
d)    hönnun og innihald merkimiðanna, sem um getur í 4. gr., sem skulu hafa eins samræmda hönnun fyrir alla vöruhópa og mögulegt er og skulu í öllum tilvikum vera áberandi og læsilegir. Snið merkimiðans skal áfram byggjast á flokkuninni með bókstöfum frá A til G og skulu flokkunarþrepin samsvara verulegum orkusparnaði og kostnaðarlækkunum út frá sjónarmiði endanlega notandans.
    Bæta má þremur viðbótarflokkum við flokkunina ef það telst nauðsynlegt vegna tækniþróunar. Þessir viðbótarflokkar skulu vera A+, A++ og A+++ fyrir skilvirkasta flokkinn. Að jafnaði mun heildarfjöldi flokka takmarkaður við sjö nema að fleiri flokkar séu enn í notkun.
    Litakvarðinn skal í mesta lagi samanstanda af sjö mismunandi litum frá dökkgrænum yfir í rauðan. Aðeins litakóði hæsta flokksins skal alltaf vera dökkgrænn. Ef flokkarnir eru fleiri en sjö er rauði liturinn sá eini sem má endurnota.
    Flokkunin skal endurskoðuð, einkum þegar umtalsverður hluti vara á innri markaðnum nær tveimur hæstu orkunýtniflokkunum og þegar hægt er að ná fram auknum sparnaði með því að gera frekari greinarmun á vörunum.
    Ítarlegar viðmiðanir vegna hugsanlegrar endurflokkunar varanna skal, eftir því sem við á, ákveða í hverju tilviki fyrir sig í viðeigandi framseldri gerð,
e)    staðsetningu merkimiðans á útstilltri vöru og hvernig merkimiðinn og/eða upplýsingarnar eiga að vera þegar um er að ræða söluaðferðir eins og fjallað er um í 7. gr. Eftir því sem við á má í framseldum gerðum kveða á um að merkimiðinn sé festur á vöruna eða prentaður á umbúðirnar eða kveðið á um nákvæmar kröfur vegna prentunar í verðlistum, vegna fjarsölu og sölu í gegnum Netið,
f)    innihald og, eftir því sem við á, snið og önnur atriði varðandi upplýsingablaðið eða frekari upplýsingar sem tilgreindar eru í 4. gr. og c- lið 5. gr. Upplýsingarnar á merkimiðanum skulu einnig vera á upplýsingablaðinu,
g)    sértækt innihald merkimiðans vegna auglýsinga, þ.m.t. eins og við á, orkuflokkur og önnur viðeigandi nothæfisstig tiltekinnar vöru, með læsilegum og sýnilegum hætti,
h)    gildistíma merkimiðaflokkunarinnar, eftir því sem við á, í samræmi við d-lið,
i)    nákvæmnisstig yfirlýsinganna á merkimiðanum og upplýsingablöðunum,
j)    hvenær fara skal fram mat á framseldu gerðinni og hugsanleg endurskoðun, með tilliti til þess hversu hratt tækniframförum vindur fram.

11. gr.
Beiting framseldra gerða

1.     Framkvæmdastjórninni skal veitt vald til að samþykkja framseldu gerðirnar, sem um getur í 10. gr., í fimm ár frá 19. júní 2010. Framkvæmdastjórnin skal taka saman skýrslu að því er varðar framsal valds eigi síðar en sex mánuðum fyrir lok fimm ára tímabilsins. Framsal valds skal sjálfkrafa framlengt um jafn langan tíma, nema Evrópuþingið eða ráðið afturkalli það í samræmi við 12. gr.
2.     Um leið og framkvæmdastjórnin samþykkir framselda gerð skal hún samtímis tilkynna það Evrópuþinginu og ráðinu.
3.     Framkvæmdastjórnin skal hafa vald til að samþykkja framseldar gerðir með fyrirvara um skilyrðin sem mælt er fyrir um í 12. og 13. gr.

12. gr.
Afturköllun framsals

1.     Evrópuþinginu eða ráðinu er heimilt að afturkalla framsal valdheimilda sem um getur í 10. gr.
2.     Sú stofnun, sem hafið hefur innri málsmeðferð til að skera úr um hvort afturkalla eigi framsal valds, skal leitast við að upplýsa hina stofnunina og framkvæmdastjórnina um það með hæfilegum fyrirvara áður en endanleg ákvörðun er tekin og tilgreina hvaða vald, sem hefur verið framselt, gæti verið afturkallað og hugsanlegar ástæður fyrir því.
3.     Með ákvörðun um afturköllun skal bundinn endi á framsal þeirra valdheimilda sem tilgreindar eru í ákvörðuninni. Skal hún öðlast gildi tafarlaust, eða síðar, eftir því sem tilgreint er í ákvörðuninni. Hún skal ekki hafa áhrif á gildi framseldra gerða sem þegar eru í gildi. Hún skal birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

13. gr.
Andmæli við framseldar gerðir

1.     Evrópuþingið eða ráðið geta andmælt framseldri gerð innan tveggja mánaða frá tilkynningardegi.
Þetta tímabil skal framlengt um tvo mánuði að frumkvæði Evrópuþingsins eða ráðsins.
2.     Ef hvorki Evrópuþingið né ráðið hefur andmælt framseldri gerð þegar þetta tímabil rennur út, skal hún birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins og öðlast gildi á þeim degi sem þar er tilgreindur.
Áður en þetta tímabil rennur út má birta framseldu gerðina í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins og hún öðlast gildi ef bæði Evrópuþingið og ráðið hafa upplýst framkvæmdastjórnina um þá fyrirætlan sína að hreyfa ekki andmælum.
3.     Ef Evrópuþingið eða ráðið andmæla framseldri gerð öðlast hún ekki gildi. Sú stofnun sem andmælir framseldu gerðinni skal tilgreina ástæðurnar fyrir því.

14. gr.
Mat

Framkvæmdastjórnin skal, eigi síðar en 31. desember 2014, endurskoða árangur þessarar tilskipunar og framseldra gerða hennar og leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið.
Á sama tíma skal framkvæmdastjórnin einnig meta:
a)    framlag c-liðar 4. gr. til markmiða þessarar tilskipunar,
b)    árangurinn af 1. mgr. 9. gr.,
c)    þörfina fyrir breytingu á d-lið 4. mgr. 10. gr. í ljósi tækniþróunar og skilnings neytenda á útliti merkimiðans.

15. gr.

Viðurlög

Aðildarríkin skulu setja reglur um viðurlög við brotum gegn ákvæðum landslaga, sem eru samþykkt samkvæmt þessari tilskipun og framseldum gerðum hennar, þ.m.t. óheimil notkun merkimiðanna, og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þeim sé beitt. Viðurlögin, sem kveðið er á um, skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og letjandi. Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um þessi ákvæði eigi síðar en 20. júní 2011 og skulu tilkynna framkvæmdastjórninni án tafar um síðari breytingar sem hafa áhrif á þessi ákvæði.

16. gr.
Lögleiðing

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 20. júní 2011. Þau skulu þegar í stað senda framkvæmdastjórninni texta þessara ákvæða.
Þau skulu beita þessum ákvæðum frá og með 20. júlí 2011.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessi ákvæði skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þau eru birt opinberlega. Í þeim skal einnig vera yfirlýsing þess efnis að líta beri á tilvísanir í gildandi lögum og stjórnsýslufyrirmælum í tilskipun 92/75/EBE sem tilvísanir í þessa tilskipun. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun og hvernig yfirlýsingin skal sett fram.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

17. gr.

Niðurfelling

Tilskipun 92/75/EBE, eins og henni var breytt með reglugerðinni sem vísað er til í A-hluta I. viðauka, er felld úr gildi frá og með 21. júlí 2011 án þess að það hafi áhrif á skuldbindingar aðildarríkjanna varðandi fresti til að leiða í landslög, og beitingu þeirrar tilskipunar, sem settir eru fram í B-hluta I. viðauka.
Líta ber á tilvísanir í tilskipun 92/75/EBE sem tilvísanir í þessa tilskipun og skulu þær lesnar með hliðsjón af samsvörunartöflunni í II. viðauka.

18. gr.

Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi daginn eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Ákvæði d-, g- og h-liðar 5. gr. gilda frá 31. júlí 2011.

19. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Strassborg 19. maí 2010.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
J. BUZEK D. LÓPEZ GARRIDO
forseti. forseti.

____

I. VIÐAUKI


A-HLUTI

Niðurfelld tilskipun með síðari breytingu
(sem um getur í 17. gr.)


Tilskipun ráðsins 92/75/EBE
(Stjtíð. EB L 297, 13.10.1992, bls. 16.)

    Reglugerð (EB) nr. 1882/2003    Eingöngu 32. liður III. viðauka
    (Stjtíð. ESB L 284, 31.10.2003, bls. 1.)


B-HLUTI

Skrá yfir fresti til lögleiðingar í aðildarríkjunum
(sem um getur í 16. gr.)


Tilskipun Lögleiðingarfrestur
92/75/EBE 1. janúar 1994




II. VIÐAUKI

Samsvörunartafla

Tilskipun 92/75/EBE Þessi tilskipun
fyrsti málsliður inngangsorða 1. mgr. 1. gr. 1. mgr. 1. gr.
annar málsliður inngangsorða 1. mgr. 1. gr. 2. mgr. 1. gr.
Fyrsti til sjöundi undirliður 1. mgr. 1. gr.
2. mgr. 1. gr.
a- og b-liður 3. mgr. 1. gr.
3. mgr. 1. gr. c-liður 3. mgr. 1. gr.
a- og b-liður 2. gr.
Fyrsti og annar undirliður 4. mgr. 1. gr. g- og h- liður 2. gr.
Þriðji undirliður 4. mgr. 1. gr.
Fjórði undirliður 4. mgr. 1. gr. c-liður 2. gr.
Fimmti undirliður 4. mgr. 1. gr. d-liður 2. gr.
e-, f-, i-, j- og k-liður 2. gr.
5. mgr. 1. gr.
1. mgr. 2. gr. a-liður 4. gr.
b-, c- og d-liður 4. gr.
2. mgr. 2. gr.
3. mgr. 2. gr. b-liður 5. gr.
4. mgr. 2. gr. b- og c-liður 5. gr.
1. mgr. 3. gr. a-liður 5. gr.
2. mgr. 3. gr. e- og f-liður 5. gr.
3. mgr. 3. gr. g-liður 5. gr.
4. mgr. 3. gr. h-liður 5. gr.
a-liður 6. gr.
a-liður 4. gr. b-liður 6. gr.
b-liður 4. gr. d-liður 5. gr.
5. gr. 7. gr.
6. gr.
a-liður 7. gr. a-liður 1. mgr. 3. gr.
b-liður 7. gr. b-liður 1. mgr. 3. gr.
c-liður 7. gr. c-liður 1. mgr. 3. gr.
d-liður 1. mgr. 3. gr.
2., 3. og 4. mgr. 3. gr.
1. mgr. 8. gr. 1. mgr. 8. gr.
2. mgr. 8. gr. 2. mgr. 8. gr.
9. gr.
9. gr.
10. gr.
1., 10. og 3. mgr. 2. gr.
11. gr.
a-liður 12. gr. a-liður 4. mgr. 10. gr.
b-liður 12. gr. b-liður 4. mgr. 10. gr.
c-liður 12. gr. c-liður 4. mgr. 10. gr.
d-liður 12. gr. d-liður 4. mgr. 10. gr.
e-liður 12. gr. e-liður 4. mgr. 10. gr.
f-liður 12. gr. f-liður 4. mgr. 10. gr.
g-liður 12. gr.
g-, h-, i- og j-liður 4. mgr. 10. gr.
11. til 15. gr.
13. gr. 17. gr.
14. gr. 16. gr.
18. gr.
15. gr. 19. gr.
I. viðauki
II. viðauki

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 153, 18.6.2010, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. EB L 297, 13.10.1992, bls. 16.
Neðanmálsgrein: 3
(*) Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.    
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. ESB C 228, 22.9.2009, bls. 90.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Afstaða Evrópuþingsins frá 5. maí 2009 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindunum), afstaða ráðsins eftir fyrstu umræðu frá 14. apríl 2010 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindunum), afstaða Evrópuþingsins frá 18. maí 2010 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindunum).
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Stjtíð. EB L 297, 13.10.1992, bls. 16.
Neðanmálsgrein: 7
(4)    Sjá A-hluta I. viðauka.
Neðanmálsgrein: 8
(5)    Stjtíð. ESB L 285, 31.10.2009, bls. 10.
Neðanmálsgrein: 9
(1)    Stjtíð. ESB L 218, 13.8.2008, bls. 30.
Neðanmálsgrein: 10
(1)    Stjtíð. ESB C 321, 31.12.2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 11
(1)    Stjtíð. ESB L 134, 30.4.2004, bls. 114.