Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 23. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Prentað upp.

Þingskjal 195  —  23. mál.
Flutningsmaður.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um geislavarnir, nr. 44/2002, með síðari breytingum (breytingar á eftirliti, niðurlagning geislavarnaráðs o.fl.).

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Margréti Björnsdóttur frá velferðarráðuneyti og Elísabetu Ólafsdóttur og Guðlaug Einarsson frá Geislavörnum ríkisins. Þá hafa nefndinni borist umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Félagi geislafræðinga, Geislavörnum ríkisins og Lyfjastofnun.
    Frumvarpið var áður flutt á 141. löggjafarþingi en hlaut ekki efnislega umfjöllun þá. Með frumvarpinu er lögð til heildarendurskoðun á lögum um geislavarnir, nr. 44/2002, sú fyrsta síðan lögin tóku gildi 1. maí 2002. Endurskoðun laga um geislavarnir ber merki af því að geislavarnir eru alþjóðlegt svið og hafa á síðustu árum orðið áherslubreytingar á alþjóðlegum vettvangi geislavarna. Á árinu 2011 komu út nýjar öryggisreglur Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar sem byggjast á nýlegum ráðleggingum Alþjóðageislavarnaráðsins frá árinu 2008. Frumvarpið tekur mið af þessum reglum og einnig nýjum reglum Evrópusambandsins á sviði geislavarna sem og nýlegum norskum lögum um geislavarnir. Þær reglur sem lagðar eru til í þessu frumvarpi eru því fyrst og fremst alþjóðlegar.
    Í frumvarpinu er lögð aukin áhersla á læknisfræðilega geislun en í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að geislaálag vegna notkunar geislunar til sjúkdómsgreininga, þ.e. vegna læknisfræðilegrar myndgreiningar, hafi aukist mikið á síðustu árum og sé nú um 75% af geislaálagi vegna læknisfræðilegrar geislunar. Þannig er lögð til ný skilgreining á læknisfræðilegri geislun í 3. gr. frumvarpsins sem er mun ítarlegri en sú sem nú er í 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um geislavarnir, nr. 44/2002. Í 13. gr. frumvarpsins eru einnig ákvæði varðandi læknisfræðilega geislun en þar er lagt til að við réttlætingu á beitingu geislunar í læknisfræðilegum tilgangi skuli einnig meta gagnsemi og áhættu af notkun annarrar tækni sem fyrir hendi er og nýtir minni eða enga jónandi geislun, til viðbótar því að við meðferðina skal meta hvort notkun geislunar sé réttlætanleg með tilliti til markmiðs geislunar, einkenna og ástands sjúklings, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga um geislavarnir. Hið nýja ákvæði tekur mið af þeirri alþjóðlegu þróun að við réttlætingu á notkun geislunar skuli einnig taka mið af annarri tækni sem fyrir hendi er og nýtir minni eða enga jónandi geislun. Þá er einnig lögð á það aukin áhersla að við skipulagðar geislunaraðstæður skuli takmarkið vera að beita réttri geislun en ekki endilega sem minnstri geislun. Þannig er í d-lið 13. gr. ákvæði þess efnis að við læknisfræðilega geislun, sem er geislun við skipulagðar geislunaraðstæður, skuli ábyrgðarmaður eða sá sem hann hefur falið framkvæmdina tryggja að geislun á vef utan meðferðarsvæðis sé eins lítil og unnt er í samræmi við markmið meðferðarinnar.
    Af öðrum ákvæðum frumvarpsins má nefna að ráðherraskipað geislavarnaráð er lagt niður þar sem það hefur verið óvirkt í nokkur ár og hittist í raun afar sjaldan á meðan ráðið var virkt. Er nú talið að hjá Geislavörnum ríkisins sé besta sérþekking á sviði geislavarna sem völ er á hérlendis og ráðið því óþarft. Þá eru lagðar til breytingar á eftirlitsákvæðum laganna sem taka mið af breyttum alþjóðlegum áherslum en lögð er til þrepaskipt nálgun þar sem eftirlit með jónandi geislun skuli taka mið af þeirri áhættu sem notkuninni fylgir. Þá eru reglugerðarheimildir laganna endurskoðaðar og felld er brott almenn heimild og lagt til að afmarkaðri heimildir komi í staðinn.
    Nefndinni hafa ekki borist margar umsagnir um málið, hvorki á þessu þingi né á 141. löggjafarþingi þegar málið var fyrst lagt fram. Um tímabæra endurskoðun á lögunum er að ræða sem unnin var í samstarfi við Geislavarnir ríkisins og tekur nefndin undir nauðsyn endurskoðunarinnar sem fram kemur í athugasemdum við frumvarpið.
    Eitt af þeim atriðum sem nefndin skoðaði sérstaklega við vinnu sína var að með breyttri skilgreiningu á læknisfræðilegri geislun gilda ákvæði laganna um þess háttar geislun ekki lengur um réttarfarslega geislun, þ.e. vísvitandi geislun einstaklinga í öryggisskyni eða vegna rannsóknar sakamála, geislun fanga, grunaðra smyglara eða vegna aldursgreiningar. Í athugasemdum við 7. gr. frumvarpsins kemur hins vegar fram að ráðherra muni setja reglugerð þar sem m.a. munu verða ákvæði um þess háttar geislun. Nefndin telur, með hliðsjón af þeim ummælum sem fram koma í athugasemdum við 7. gr. frumvarpsins, rétt að í reglugerðarheimildinni komi skýrlega fram að á grundvelli hennar setji ráðherra ekki aðeins nánari ákvæði um mat á gagnsemi og áhættu við notkun á jónandi geislun heldur komi þar einnig fram með skýrum hætti að reglugerðarheimildin taki einnig til réttarfarslegrar geislunar. Þá er einnig ljóst að gæta þarf sömu öryggissjónarmiða við réttarfarslega geislun og við læknisfræðilega geislun enda fer réttarfarsleg geislun einnig í vissum tilvikum fram á heilbrigðisstofnunum. Það er hins vegar ekki algilt og má sem dæmi nefna geislun flugfarþega í öryggisskyni. Leggur nefndin því til breytingar á reglugerðarheimild 7. gr. frumvarpsins, sem og 13. gr. frumvarpsins þannig að 15. gr. laganna, sem fjallar um framkvæmd læknisfræðilegrar geislunar, gildi einnig um framkvæmd réttarfarslegrar geislunar eftir því sem við á. Vegna þessara breytinga verður einnig talið nauðsynlegt að réttarfarsleg geislun sé sérstaklega skilgreind í 3. gr. laganna og leggur nefndin til þá skilgreiningu að réttarfarsleg geislun sé geislun einstaklinga í öðrum tilgangi en læknisfræðilegum, svo sem vegna rannsóknar sakamála eða í öryggisskyni. Þá getur einnig fallið þar undir geislun vegna aldursgreiningar.
    Af tæknilegum ástæðum er æskilegt fyrir framkvæmd laganna að þau taki gildi um áramótin og leggur nefndin til breytingu því til samræmis.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 3. gr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Réttarfarsleg geislun: Geislun einstaklinga í öðrum tilgangi en læknisfræðilegum, svo sem vegna rannsóknar sakamála eða í öryggisskyni.
     2.      Við efnismálslið c-liðar 7. gr. bætist: svo og um réttarfarslega geislun.
     3.      Við 13. gr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
             Ákvæði þessarar greinar gilda einnig um réttarfarslega geislun eftir því sem við á.
     4.      17. gr. orðist svo:
             Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2014.

Alþingi, 11. nóvember 2013.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


form., frsm.


Þórunn Egilsdóttir.


Ásmundur Friðriksson.



Elín Hirst.


Katrín Júlíusdóttir.


Svandís Svavarsdóttir.



Páll Jóhann Pálsson.


Vilhjálmur Árnason.


Freyja Haraldsdóttir.