Ferill 72. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 72  —  72. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum,
nr. 61/1999 (innleiðing tilskipunar).

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




1. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn eða fulltrúa þeirra skal fara fram á viðeigandi stjórnunarstigum við þar til bæra fulltrúa í samræmi við það efni sem er til umfjöllunar hverju sinni.

2. gr.

    Við 2. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Valdsvið samstarfsráðs, upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn samkvæmt lögum þessum skal takmarkast við fjölþjóðlegt málefni, sbr. 8. gr. a.
    Lög þessi gilda ekki um upplýsingamiðlun og samráð samkvæmt lögum um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum, nr. 151/2006. Þá gilda lög þessi ekki um reglur um upplýsingamiðlun og samráð skv. 6. gr. laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 72/2002, og skv. II. kafla laga um hópuppsagnir, nr. 63/2000.

3. gr.

    Á eftir 8. gr. laganna koma fjórar nýjar greinar, 8. gr. a – 8. gr. d, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (8. gr. a.)

Fjölþjóðlegt málefni.

    Með fjölþjóðlegu málefni er í lögum þessum átt við málefni sem varðar:
     1.      fyrirtæki, sbr. 3. gr., sem eina heild,
     2.      fyrirtækjasamstæðu, sbr. 4. gr., sem eina heild eða
     3.      a.m.k. tvö fyrirtæki fyrirtækjasamstæðu eða tvær starfsstöðvar fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu í tveimur EES-ríkjum.

    b. (8. gr. b.)

Fulltrúar starfsmanna.

    Með fulltrúum starfsmanna er í lögum þessum átt við trúnaðarmenn stéttarfélaga og/eða sam­eigin­legan fulltrúa þeirra starfsmanna hlutaðeigandi fyrirtækis sem ekki eiga trúnaðarmann nema annað sé ákveðið í kjarasamningum eða samkomulag sé um aðra framkvæmd í fyrirtæki.

    c. (8. gr. c.)

Upplýsingamiðlun.

    Með upplýsingamiðlun er í lögum þessum átt við miðlun upplýsinga frá vinnuveitanda til fulltrúa starfsmanna sem gerir þeim kleift að kynna sér efni máls. Upplýsingar skulu vera þess efnis og veittar á þeim tíma og með þeim hætti að fulltrúar starfsmanna geti framkvæmt ítarlegt mat á hugsanlegum áhrifum þeirra og eftir því sem við getur átt undirbúið samráð við þar til bæran aðila í viðkomandi fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæðu.

    d. (8. gr. d.)

Samráð.

    Með samráði er í lögum þessum átt við að komið sé á viðræðum og skoðanaskiptum á milli fulltrúa starfsmanna og aðalstjórnar eða annars viðeigandi stjórnunarstigs. Samráð skal vera þess efnis og fara fram á þeim tíma og með þeim hætti að fulltrúar starfsmanna geti á grundvelli þeirra upplýsinga sem þeim hafa verið veittar látið í ljós álit sitt á hinum fyrirhuguðu aðgerðum sem samráðið varðar.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                  Fulltrúar starfsmanna kjósa fulltrúa í samningaráð skv. 1. mgr. úr hópi sínum. Ef því verður ekki við komið skulu allir starfsmenn kjósa um þá.
     b.      5. mgr. orðast svo:
                  Fjöldi fulltrúa starfsmanna frá hverju EES-ríki, þar sem fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæða hefur fyrirtæki eða starfsstöð, sem skipaðir eru í samningaráð ræðst af hlutfalli starfsmanna í því ríki af heildarfjölda starfsmanna fyrirtækisins eða fyrirtækjasamstæðunnar. Skal að lágmarki einn fulltrúi starfsmanna eiga sæti í samningaráðinu frá því EES-ríki skv. 1. málsl. þar sem starfsmenn eru færri en nemur 10% af heildarfjölda starfsmanna fyrirtækisins eða fyrirtækjasamstæðunnar.
     c.      Í stað 6. og 7. mgr. kemur ein ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Þegar samningaráðið hefur verið skipað skal aðalstjórn, staðbundnum stjórnum og þar til bærum samtökum launafólks og vinnuveitenda á Evrópuvísu tilkynnt um skipan þess og um upphaf samningaumleitana.

5. gr.

    2. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
    Samningaráðið getur kvatt sér til aðstoðar sérfræðinga að eigin vali, svo sem fulltrúa þar til bærra viðurkenndra stéttarfélaga eða samtaka launafólks á Evrópuvísu. Að beiðni samningaráðsins er slíkum sérfræðingum og fulltrúum stéttarfélaga heimilt að vera viðstaddir fundi þar sem samningaumleitanir fara fram til að veita samningaráðinu ráðgjöf.

6. gr.

    Við 13. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Fyrir og eftir hvern fund með aðalstjórn er sérstaka samningaráðinu heimilt að koma saman án þess að fulltrúar aðalstjórnar séu viðstaddir og er samningaráðinu heimilt að nota til þess nauðsynlegar samskiptaleiðir.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      2. tölul. orðast svo: Samsetningu samstarfsráðsins, fjölda fulltrúa í ráðinu, úthlutun sæta og skipunartíma þess. Gæta skal jafnvægis við úthlutun sæta, að því marki sem unnt er, með tilliti til kyns fulltrúanna, starfa þeirra og starfssviðs.
     b.      3. tölul. orðast svo: Hlutverk samstarfsráðsins og upplýsingamiðlun og samráð samstarfsráðsins sem og með hvað hætti upplýsingamiðlun og samráð samstarfsráðsins verði samhæft við upplýsingamiðlun og samráð innlendra fulltrúaráða starfsmanna, en við þá samhæfingu skal taka mið af ákvæðum 3. mgr. 1. gr. og 3. mgr. 2. gr.
     c.      6. tölul. orðast svo: Gildistökudag samningsins og gildistíma hans, með hvaða hætti honum verði breytt eða sagt upp og í hvaða tilvikum samningur skuli endurnýjaður og með hvaða hætti það skuli gert, þar á meðal vegna breytinga á skipulagi fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu ef þess gerist þörf.
     d.      Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Skipan, hlutverk og reglur um tilnefningar og málsmeðferð framkvæmdanefndarinnar sem sett er á fót innan samstarfsráðsins, ef við á.

8. gr.

    20. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Upplýsingamiðlun og samráð.

    Upplýsingamiðlun til samstarfsráðs skal einkum varða skipulag fyrirtækisins eða fyrirtækjasamstæðunnar, efnahagslega og fjárhagslega stöðu og líklega þróun hvað varðar rekstur, framleiðslu og sölu.
    Upplýsingamiðlun og samráð við samstarfsráð skal einkum varða ástand og horfur í atvinnumálum, fjárfestingar og umtalsverðar breytingar á skipulagi fyrirtækisins eða fyrirtækjasamstæðunnar, tilkomu nýrra starfsaðferða eða framleiðsluaðferða, flutning framleiðslu, samruna fyrirtækja, niðurskurð eða lokun fyrirtækja, starfsstöðva eða annarra mikilvægra hluta þeirra og hópuppsagnir.
    Samráði skal þannig háttað að fulltrúar starfsmanna geti fundað með aðalstjórn og fengið viðbrögð hennar við álitum sínum ásamt rökstuðningi aðalstjórnar fyrir þeim viðbrögðum.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
     a.      4. mgr. orðast svo:
                  Fjöldi fulltrúa starfsmanna frá hverju EES-ríki, þar sem fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæða hefur fyrirtæki eða starfsstöð, sem skipaðir eru í samstarfsráð ræðst af hlutfalli starfsmanna í því ríki af heildarfjölda starfsmanna fyrirtækisins eða fyrirtækjasamstæðunnar. Skal að lágmarki einn fulltrúi starfsmanna eiga sæti í samstarfsráðinu frá því EES-ríki skv. 1. málsl. þar sem starfsmenn eru færri en nemur 10% af heildarfjölda starfsmanna fyrirtækisins eða fyrirtækjasamstæðunnar.
     b.      5. mgr. fellur brott.
     c.      7. mgr. orðast svo:
                  Til að tryggja að samstarfsráðið geti samræmt starfsemi sína skal það kjósa úr sínum hópi framkvæmdanefnd sem skal skipuð allt að fimm fulltrúum. Framkvæmdanefndinni skal gert kleift að koma reglulega saman til að rækja skyldur sínar og skal hún setja sér starfsreglur.

10. gr.

    2. mgr. 23. gr. laganna fellur brott.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 24. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Ef fyrir hendi eru sérstakar aðstæður eða teknar hafa verið ákvarðanir sem hafa umtalsverð áhrif á hagsmuni starfsmanna, einkum vegna flutnings, lokunar fyrirtækja eða starfsstöðva þeirra eða hópuppsagna, á framkvæmdanefnd eða samstarfsráð, hafi framkvæmdanefnd ekki verið skipuð, rétt á að fá upplýsingar þar um.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                  Fulltrúar í samstarfsráðinu, sem kosnir hafa verið í fyrirtækjum eða starfsstöðvum þeirra sem viðkomandi aðstæður eða ákvarðanir skv. 1. mgr. hafa umtalsverð áhrif á, eiga rétt á að sitja fundi framkvæmdanefndar sem ráðgerðir eru skv. 2. mgr.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  1.–6. mgr. um upplýsingamiðlun og samráð skal framfylgt með tilliti til 2. mgr. 1. gr. og 29. gr.

12. gr.

    Á eftir 30. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 30. gr. a og 30. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (30. gr. a.)

Samhæfing upplýsingamiðlunar og samráðs gagnvart innlendum
fulltrúaráðum starfsmanna.

    Upplýsingamiðlun og samráð samstarfsráðs skal vera samhæft við upplýsingamiðlun og samráð innlendra fulltrúaráða starfsmanna, að teknu tilliti til valdsviðs og aðgerðasviðs þessara aðila, sbr. 3. mgr. 1. gr. og 3. mgr. 2. gr.
    Kveða skal á um fyrirkomulag samhæfingar upplýsingamiðlunar og samráðs samstarfsráðs og innlendra fulltrúaráða starfsmanna skv. 1. mgr. í samningi um stofnun samstarfsráðs, sbr. 14. gr. Hafi fyrirkomulag samhæfingar skv. 1. mgr. ekki verið skilgreint með samningi, sbr. 3. tölul. 14. gr., og fyrirhugað er að taka ákvarðanir sem leitt geta til verulegra breytinga á starfsskipulagi eða samningssambandi starfsmanna og vinnuveitanda skal upplýsingamiðlun og samráð fara fram í samstarfsráði sem og hjá trúnaðarmönnum stéttarfélaga og/eða sam­eigin­legum fulltrúum þeirra starfsmanna sem ekki eiga trúnaðarmenn.

    b. (30. gr. b.)

Breytingar á samningi um samstarfsráð vegna verulegra
breytinga á fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæðu.

    Hefja skal að nýju samningaumleitanir vegna samnings um samstarfsráð ef gerðar eru verulegar breytingar á skipulagi fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu og í gildandi samningum hefur ekki verið kveðið á um hvernig bregðast skuli við þegar slíkar breytingar verða eða ákvæði gildandi samninga þar um eru ósamrýmanleg. Slíkar samningaumleitanir verða hafnar að frumkvæði aðalstjórnar eða að skriflegri beiðni minnst 100 starfsmanna eða fulltrúa þeirra í a.m.k. tveimur EES-ríkjum þar sem fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæða hefur starfsemi.
    Í sérstöku samningaráði skulu auk kjörinna fulltrúa eiga sæti a.m.k. þrír fulltrúar frá hverju starfandi samstarfsráði.
    Meðan á samningaumleitunum stendur skulu starfandi samstarfsráð, eitt eða fleiri, starfa áfram með þeim hætti sem fulltrúar samstarfsráðsins og aðalstjórn hafa komið sér saman um.

13. gr.

    31. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Hlutverk og réttarstaða fulltrúa starfsmanna.

    Með fyrirvara um valdsvið annarra aðila skulu fulltrúar samstarfsráðs hafa nauðsynleg úrræði til að nýta réttindi sín samkvæmt lögum þessum og til að gæta hagsmuna starfsmanna fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu.
    Með fyrirvara um ákvæði 29. gr. skulu fulltrúar samstarfsráðs veita fulltrúum starfsmanna fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu upplýsingar um efni og niðurstöður upplýsingamiðlunar og samráðs. Sé ekki um slíka fulltrúa að ræða skulu fulltrúar samstarfsráðs veita öllum starfsmönnum upplýsingar þessar.
    Fulltrúar í sérstaka samningaráðinu eða samstarfsráðinu eða fulltrúar starfsmanna skulu hvorki sæta uppsögn né skerðingu á kjörum sínum vegna starfa sinna. Fulltrúar starfsmanna, sbr. 8. gr. b, skulu njóta sams konar réttarverndar og trúnaðarmenn samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938.
    Fulltrúum starfsmanna skal tryggður réttur með samningi við vinnuveitanda til að taka sér leyfi frá störfum svo að þeir geti á eðlilegan hátt sinnt skyldum sínum við gerð og framkvæmd samninga samkvæmt lögum þessum.
    Fulltrúum sérstaka samningaráðsins og samstarfsráðsins skal, án þess að þeir missi við það laun, veitt sú þjálfun sem nauðsynleg er til að þeir geti rækt skyldur sínar samkvæmt lögum þessum.

14. gr.

    Á eftir 36. gr. laganna kemur ný grein, 36. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Innleiðing tilskipunar.

    Lög þessi eru sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/38/EB frá 6. maí 2009 um stofnun evrópsks samstarfsráðs eða samþykkt reglna í fyrirtækjum og fyrirtækjasamstæðum, er starfa á bandalagsvísu, varðandi upplýsingamiðlun til starfsmanna og samráð við starfsmenn, sem vísað er til í 27. lið XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sam­eigin­legu EES-nefndarinnar nr. 54/2010.

15. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta til breytinga á lögum nr. 61/1999, um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum, er lagt fram í annað sinn en það var áður lagt fram á 143. löggjafarþingi 2013–2014 án þess að fjallað hafi verið um það efnislega á því þingi.
    Tilskipun 2009/38/EB, um stofnun evrópsks samstarfsráðs eða samþykkt reglna í fyrirtækjum og fyrirtækjasamstæðum, er starfa á bandalagsvísu, varðandi upplýsingamiðlun til starfsmanna og samráð við starfsmenn, felur í sér endurútgáfu tilskipunar 94/45/EBE, um sama efni, og fellur síðarnefnda tilskipunin jafnframt úr gildi. Samkvæmt ákvörðun sam­eigin­legu EES-nefndarinnar nr. 54/2010, frá 30. apríl 2010, var gerð breyting á XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og tilskipun 2009/38/EB felld undir samninginn. Tilskipun 94/45/EBE var innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 61/1999, um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum. Í ljósi þess að tilskipun 2009/38/EB felur í sér efnislegar breytingar á eldri tilskipun 94/45/EBE er nauðsynlegt að breyta lögum um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum með frumvarpi þessu, til að tryggja fullnægjandi innleiðingu tilskipunar 2009/38/EB. Er umræddum breytingum einkum ætlað að skýra nánar þær reglur sem eiga að gilda um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum. Frumvarpið var sent til umsagnar til Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Sambands íslenskra sveitarfélaga og fjármálaráðuneytisins og bárust athugasemdir frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna og Samtökum atvinnulífsins sem ráðuneytið hefur unnið úr.
    Í formálsorðum tilskipunar 2009/38/EB er vísað til þess að m.a. hafi verið talið nauðsynlegt að færa löggjöf Evrópubandalagsins, nú Evrópusambandsins, um upplýsingamiðlun til starfsmanna og samráð milli landa til nútímahorfs með það að markmiði að tryggja virk réttindi starfsmanna til upplýsinga og samráðs milli landa. Einn liður í því er að stuðla að fjölgun evrópskra samstarfsráða en jafnframt að tryggja áfram­haldandi virkni þeirra samninga sem þegar hafa komist á. Markmiðið er ávallt að tryggja virk réttindi starfsmanna til upplýsinga og samráðs milli landa samhliða fjölgun evrópskra samstarfsráða á sama tíma og áfram­haldandi virkni þeirra samninga sem þegar hafa komist á sé tryggð. Enn fremur er tekið fram að greiða hafi þurft úr vandkvæðum sem komið hafi í ljós við framkvæmd tilskipunar 94/45/EBE sem og að eyða þeirri réttaróvissu sem upp hafi komið um tiltekin álitamál. Þá hafi þótt mikilvægt að tryggja aukið samræmi á milli þeirrar löggjafar Evrópubandalagsins, nú Evrópusambandsins, er varðar upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn. Í formálsorðum tilskipunarinnar kemur einnig fram að með tilskipuninni sé stefnt að því markmiði að leggja sem minnstar byrðar á fyrirtæki og fyrirtækjasamstæður á sama tíma og starfsmönnum séu tryggð virk réttindi í sambandi við upplýsingar og samráð. Vert er að geta þess að ekkert hefur reynt á efni þessarar tilskipunar hér á landi í ljósi þess um hversu stór fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæður þær gilda en skv. 3. gr. laganna um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum gilda þau um fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæður sem hafa a.m.k. 1.000 starfsmenn í ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu. Þegar um er að ræða fyrirtækjasamstæðu er enn fremur skilyrði að þau hafi fyrirtæki eða starfsstöðvar í a.m.k. tveimur EES-ríkjum og 150 starfsmenn í hvoru þeirra. Verður að ætla að áhrif frumvarps þessa verði því ekki mikil hér á landi. Eins og fram kemur í athugasemdum við 3. gr. frumvarps þess er varð að lögum um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum er orðið starfsstöð ekki skilgreint nánar í frumvarpinu en með því er almennt átt við útibú eða sambærilegt form á rekstri. Ekki eru lagðar til breytingar á þeim skilningi með frumvarpi þessu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í ákvæði þessu er lagt til að starfsmönnum og fulltrúum þeirra séu tryggðar upplýsingar og samráð á viðeigandi stjórnunarstigi í samræmi við það efni sem til umfjöllunar er, sbr. einnig 1. málsl. 3. mgr. 1. gr. tilskipunar 2009/38/EB. Er þetta lagt til svo að markmiðum laganna skv. 1. mgr. 1. gr., um að bæta rétt starfsmanna til upplýsinga og samráðs í fyrirtækjum eða fyrirtækjasamstæðum er starfa í a.m.k. tveimur ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu, verði náð. Í þessu sambandi vísast jafnframt til 1. mgr. 2. gr. frumvarps þessa þar sem kveðið er á um að valdsvið evrópsks samstarfsráðs sem og upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn skuli takmarkast við fjölþjóðleg málefni. Vísast þar um til athugasemda við 1. mgr. 2. gr. frumvarps þessa.

Um 2. gr.

    Lagt er til að tvær nýjar málsgreinar bætist við 2. gr. laganna en þær eru efnislega samhljóða 2. málsl. 3. mgr. 1. gr. og 4. mgr. 12. gr. tilskipunar 2009/38/EB.
    Gert er ráð fyrir nýrri 3. mgr. þar sem kveðið verði á um að valdsvið samstarfsráðs, upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn skuli takmarkast við fjölþjóðleg málefni. Nánar er skýrt í a-lið 3. gr. frumvarpsins hvað átt er við með fjölþjóðlegum málefnum en lagt er til að málefni verði talin fjölþjóðleg er þau varða fyrirtæki skv. 3. gr. laganna sem eina heild eða fyrirtækjasamstæðu skv. 4. gr. laganna sem eina heild. Hið sama á við er málefni varða a.m.k. tvö fyrirtæki þegar um er að ræða fyrirtækjasamstæðu eða tvær starfsstöðvar fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu í tveimur EES-ríkjum. Tilgangur slíkrar afmörkunar á valdsviði samstarfsráða sem og á upplýsingamiðlun og samráði við starfsmenn er aðallega að aðgreina valdsvið og aðgerðasvið evrópskra samstarfsráða frá valdsviði og aðgerðasviði innlendra fulltrúaráða starfsmanna. Má ætla að slík tilhögun sé til þess fallin að gera upplýsingar og samráð í svo fjölmennum fyrirtækjum eða fyrirtækjasamstæðum sem starfa í fleiri en einu EES-ríki skilvirkari sem aftur stuðlar að því að bæta rétt starfsmanna til upplýsinga og samráðs í fyrirtækjum sem er markmið laganna um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum. Ákvæðið er í samræmi við 1. málsl. 3. mgr. 1. gr. tilskipunar 2009/38/EB. Að öðru leyti vísast til athugasemda við a-lið 3. gr. frumvarps þessa. Í lögum um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum er nú fjallað í 20. gr. laganna um valdsvið samstarfsráða sem stofnuð eru á grundvelli IV. kafla laganna um ákvæði til vara. Ákvæði kafla­ns víkja fyrir ákvæðum III. kafla laganna og ber því einungis að beita þeim í tilvikum sem lýst er í 19. gr. laganna. Þar sem lagt er til með frumvarpi þessu að fyrrgreind takmörkun á valdsviði samstarfsráðs taki jafnt til samskipta aðila á grundvelli III. kafla laganna sem og IV. kafla þeirra er því jafnframt lagt til að efni 20. gr. laganna falli brott.
    Þá er lagt til að kveðið verði á um í nýrri 4. mgr. 2. gr. að lögin taki ekki til upplýsingamiðlunar og samráðs sem lög nr. 151/2006, um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum, gilda um sem og að þau taki ekki til reglna um upplýsingamiðlun og samráð sem mælt er fyrir um í 6. gr. laga nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, sem og II. kafla laga nr. 63/2000, um hópuppsagnir. Er framangreindum lögum því áfram ætlað að gilda um þau tilvik sem þar falla þegar undir.

Um 3. gr.

    Í II. kafla laga um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum er að finna skýringar á því hvað átt sé við með fyrirtæki, fyrirtækjasamstæðu, móðurfyrirtæki, aðalstjórn fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu og reglur um útreikning á fjölda starfsmanna í skilningi laganna. Með þessu frumvarpi er lagt til að við kafla­nn bætist skýringar á því við hvað sé átt með fulltrúum starfsmanna, fjölþjóðlegu málefni, upplýsingamiðlun og samráði. Eru þær skýringar í samræmi við 4. mgr. 1. gr. og d-, f- og g-lið 1. mgr. 2. gr. tilskipunar 2009/38/EB.
    Lagt er til í 2. gr. frumvarps þessa að valdsvið samstarfsráða, upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn á grundvelli laga um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum takmarkist við fjölþjóðlegt málefni. Skýringin á því hvað átt er við með fjölþjóðlegu málefni á sér fyrirmynd í gildandi 20. gr. laganna þar sem valdsvið samstarfsráða sem stofnuð eru á grundvelli IV. kafla laganna er afmarkað. Er því sú breyting lögð til að sú orðskýring eigi við um öll samstarfsráð sem eru sett á laggirnar á grundvelli laganna. Við mat á því hvort um fjölþjóðlegt málefni sé að ræða skal bæði litið til þess hve umfangsmikil áhrif málefnið geti haft sem og til þess hvaða stjórnunar- og fulltrúastig málefnið snertir. Þannig teljast málefni sem varða fyrirtækið eða fyrirtækjasamstæðuna í heild sinni til fjölþjóðlegra málefna. Einnig getur málefni enn fremur talist fjölþjóðlegt þegar það varðar a.m.k. tvö fyrirtæki fyrirtækjasamstæðu sem staðsett eru í tveimur EES-ríkjum sem og þegar það varðar tvær starfsstöðvar fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu sem staðsettar eru í tveimur EES-ríkjum. Þar getur verið átt við málefni sem varða mikilvæga hagsmuni starfsmanna innan Evrópska efnahagssvæðisins eða flutning á starfsemi milli EES-ríkja, óháð fjölda þeirra EES-ríkja sem málefnið varðar. Er þetta í samræmi við 4. mgr. 1. gr. tilskipunar 2009/38/EB.
    Í 1. tölul. 3. gr. laga nr. 151/2006, um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum, er að finna orðskýringu á hvað átt er við með fulltrúum starfsmanna en þar kemur fram að fulltrúar starfsmanna séu trúnaðarmenn stéttarfélaga og/eða sam­eigin­legur fulltrúi þeirra starfsmanna hlutaðeigandi fyrirtækis sem ekki eiga trúnaðarmann nema annað sé ákveðið í kjarasamningum eða samkomulag sé um aðra framkvæmd í fyrirtæki. Er lagt til að sama orðskýring verði notuð í frumvarpi þessu á hvað átt sé við með fulltrúum starfsmanna í skilningi laga um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum þannig að gætt sé ákveðins samræmis að þessu leyti milli laganna. Er þetta í samræmi við d-lið 1. mgr. 2. gr. tilskipunar 2009/38/EB sem kveður á um að með fulltrúum starfsmanna sé átt við þá aðila sem skilgreindir eru sem slíkir að landsrétti eða samkvæmt venju viðkomandi ríkis.
    Skýringin sem lögð er til á orðinu upplýsingamiðlun tekur mið af því markmiði að gera þurfi fulltrúum starfsmanna kleift að framkvæma viðeigandi könnun á efni máls. Er með því átt við að upplýsingar skuli vera þess efnis sem og veittar á þeim tíma og með þeim hætti sem nauðsyn ber til þannig að starfsmenn njóti í reynd virks réttar til upplýsinga lögum samkvæmt án þess þó að hægt sé á eða með öðrum hætti komið í veg fyrir skilvirkt ákvörðunartökuferli hjá viðkomandi fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæðu. Er þetta í samræmi við f-lið 1. mgr. 2. gr. tilskipunar 2009/38/EB.
    Skýringin sem lögð er til að verði á orðinu samráð tekur mið af því markmiði að heimila verði fulltrúum starfsmanna að lýsa áliti sínu á tilteknu málefni sem komið getur að gagni við ákvörðunartökuferli innan fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu. Með því er átt við að samráð skuli vera þess efnis, fara fram á þeim tíma og með þeim hætti sem nauðsyn ber til þannig að fulltrúar starfsmanna geti, á grundvelli þeirra upplýsinga sem þeim hafa verið veittar, látið í ljós álit sitt á hinum fyrirhuguðu aðgerðum sem samráðið varðar. Er þannig leitast við að ná fram aukinni skilvirkni, auknu samræmi og réttaröryggi með aukinni upplýsingamiðlun og samráði við starfsmenn til samræmis við það efni sem til umfjöllunar er hverju sinni. Líkt og á við um upplýsingamiðlun er mikilvægt að tryggja virk réttindi starfsmanna til samráðs samkvæmt því sem nánar er kveðið á um í lögum um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum á sama tíma og tryggt er að ekki sé með því komið í veg fyrir skilvirka ákvörðunartöku fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu. Er þetta í samræmi við g-lið 1. mgr. 2. gr. tilskipunar 2009/ 38/EB.

Um 4. gr.

    Lagt er til að gerð verði sú breyting á 2. mgr. 11. gr. laganna að ekki verði lengur kveðið á um hámarks- og lágmarksfjölda fulltrúa í sérstöku samningaráði. Er þetta í samræmi við b-lið 2. mgr. 5. gr. tilskipunar 2009/38/EB. Að öðru leyti er lagt til að málsgreinin verði áfram efnislega samhljóða 2. og 3. málsl. 2. mgr. 11. gr. laganna.
    Í 5. mgr. 11. gr. laganna er kveðið á um með hvaða hætti samningaráð skuli skipað en með frumvarpi þessu er lagt til að í stað þess fyrirkomulags sem þar er lýst verði kveðið á um að fjöldi fulltrúa starfsmanna frá hverju EES-ríki, þar sem fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæða hefur starfsemi, sem skipaðir eru í samningaráð skuli ráðast af hlutfalli starfsmanna fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu í því ríki af heildarfjölda starfsmanna fyrirtækisins eða fyrirtækjasamstæðunnar. Skal þannig að lágmarki einn fulltrúi starfsmanna eiga sæti í samningaráðinu frá því EES-ríki þar sem starfsmenn eru færri en nemur 10% af heildarfjölda starfsmanna. Með þessu er ætlunin að einfalda samsetningu samningaráðsins. Er það í samræmi við b-lið 2. mgr. 5. tilskipunar 2009/38/EB en jafnframt er lagt til að efni 6. mgr. falli brott þar sem það byggist á fyrirkomulaginu sem fjallað er um í 5. mgr.
    Enn fremur eru lagðar til breytingar á 7. mgr. og er því lagt til að í stað 6. og 7. mgr. komi ný málsgrein. Þar er lagt til að þegar samningaráð hafi verið skipað skuli tilkynna aðalstjórn, staðbundnum stjórnum og þar til bærum samtökum launafólks og vinnuveitenda á Evrópuvísu um skipan samningaráðsins í stað einungis aðalstjórnum og staðbundnum stjórnum. Er þetta í samræmi við c-lið 2. mgr. 5. gr. tilskipunar 2009/38/EB. Þá er lagt til að fyrrnefndum aðilum skuli tilkynnt um skipan samningaráðsins, líkt og þegar er kveðið á um í 7. mgr. 11. gr. laganna, en það nýmæli tekið upp að jafnframt skuli tilkynna þeim um upphaf samningaumleitana.

Um 5. gr.

    Lagt er til að tekið verði fram að með sérfræðingum í skilningi ákvæðisins sé m.a. átt við fulltrúa þar til bærra viðurkenndra stéttarfélaga eða samtaka launafólks á Evrópuvísu. Þá er það jafnframt nýmæli að þeim sérfræðingum sem samningaráðið getur kvatt sér til aðstoðar samkvæmt grein þessari sé jafnframt heimilt að vera viðstaddir fundi þar sem samningaumleitanir fara fram til að veita samningaráðinu ráðgjöf. Þessi breyting er í samræmi við 3. undirgrein 4. mgr. 5. gr. tilskipunar 2009/38/EB.

Um 6. gr.

    Lagt er til að tekið verði upp það nýmæli að sérstaka samningaráðið hafi heimild til að koma saman án þess að fulltrúar aðalstjórnar séu viðstaddir og hafi heimild til að nota til þess nauðsynlegar samskiptaleiðir. Þessi breyting er í samræmi við 2. undirgrein 4. mgr. 5. gr. tilskipunar 2009/38/EB.

Um 7. gr.

    Í greininni eru talin upp þau atriði sem kveðið skal á um í samningi um evrópsk samstarfsráð. Að öðru leyti geta aðilar ákveðið sjálfir hvert efni samningsins skuli vera. Lagðar eru til breytingar á 2., 3. og 6. tölul. 14. gr. laganna auk þess sem lagt er til að nýr töluliður bætist þar við.
    Lagt er til að þær breytingar verði gerðar á 2. tölul. að nánar verði fjallað um úthlutun sæta í samstarfsráðinu, þannig að kveðið verði á um að gæta skuli jafnvægis að því marki sem unnt er við úthlutun sæta í ráðið þegar kemur að kyni starfsmanna, störfum þeirra og starfssviði. Er þannig ætlast til að kynjahlutfallið í evrópsku samstarfsráði verði sem jafnast og komið verði í veg fyrir að einsleitni sé í störfum þeim sem fulltrúar gegna hjá umræddu fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæðu. Breyting þessi er í samræmi við b-lið 2. mgr. 6. gr. tilskipunar 2009/38/EB.
    Jafnframt er lagt til að þær breytingar verði gerðar á 3. tölul. að þar verði jafnframt kveðið á um með hvaða hætti upplýsingamiðlun og samráð við evrópsk samstarfsráð verði samhæft upplýsingamiðlun og samráði við innlend fulltrúaráð starfsmanna. Gert er ráð fyrir að við þá samhæfingu skuli taka mið af ákvæðum 1. gr. og 1. mgr. 2. gr. frumvarps þessa. Er breyting þessi í samræmi við c-lið 2. mgr. 6. gr., sbr. 2. mgr. 12. gr., tilskipunar 2009/38/EB. Kemur það til viðbótar ákvæðum laganna um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum þar sem kveðið er á um hlutverk slíkra ráða og upplýsingamiðlun og samráð þeirra í samningnum um evrópsk samstarfsráð.
    Enn fremur er gert ráð fyrir að breytingar verði gerðar á 6. tölul. þannig að kveðið verði á um gildistökudag samningsins um samstarfsráð og með hvaða hætti samningnum verði breytt eða honum verði sagt upp til viðbótar þeim atriðum sem þegar eru lögákveðin í þessu sambandi. Auk þess verði að finna í samningnum ákvæði um í hvaða tilfellum samningur skuli endurnýjaður. Þá skuli í samningnum kveðið á um með hvaða hætti hann verði endurnýjaður vegna breytinga á uppbyggingu fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu ef þess gerist þörf. Breytingin er í samræmi við g-lið 2. mgr. 6. gr. tilskipunar 2009/38/EB.
    Að lokum er lagt til að við 14. gr. laganna bætist nýr töluliður, 7. tölul., þar sem kveðið verði á um að fram komi í samningi um samstarfsráð ákvæði um skipan framkvæmdanefndar sem sett er á fót innan evrópska samstarfsráðsins ásamt ákvæðum um hlutverk hennar og þær reglur sem gilda skulu um tilnefningar í framkvæmdanefndina og málsmeðferð nefndarinnar. Breyting þessi er í samræmi við e-lið 2. mgr. 6. gr. tilskipunar 2009/38/EB.

Um 8. gr.

    Ákvæði þetta fjallar um þau atriði sem upplýsingamiðlun og samráð við evrópsk samstarfsráð skulu einkum varða en þau er að finna í 2. mgr. 23. gr. laganna. Þar er aðallega vísað til atriða sem skal fjallað um á reglulegum fundum samstarfsráðs. Er þannig lagt til að í 1. mgr. verði kveðið á um að upplýsingamiðlun til samstarfsráðs skuli einkum varða uppbyggingu fyrirtækisins eða fyrirtækjasamstæðunnar, efnahags- og fjárhagslega stöðu og líklega þróun hvað varðar rekstur, framleiðslu og sölu. Er því jafnframt gert ráð fyrir að 2. mgr. 23. gr. laganna falli brott, sbr. 10. gr. frumvarps þessa.
    Enn fremur er lagt til að tekið verði fram í 2. mgr. að samráð og upplýsingamiðlun til samstarfsráðs skuli einkum varða ástand og horfur í atvinnumálum, fjárfestingar og umtalsverðar breytingar á skipulagi fyrirtækisins eða fyrirtækjasamstæðunnar, tilkomu nýrra starfsaðferða eða framleiðsluaðferða, flutning framleiðslu, samruna fyrirtækja, niðurskurð eða lokun fyrirtækja, starfsstöðva þeirra eða annarra mikilvægra hluta þeirra og hópuppsagnir.
    Loks er lagt til að kveðið verði á um að samráði skuli þannig háttað að fulltrúar starfsmanna geti fundað með aðalstjórn og fengið viðbrögð hennar við álitum sínum ásamt rökstuðningi aðalstjórnar fyrir þeim viðbrögðum. Framangreindar breytingar eru í samræmi við a-lið 1. gr. I. viðauka við tilskipun 2009/38/EB.

Um 9. gr.

    Lagt er til að gerðar verði breytingar á orðalagi 4. og 7. mgr. 21. gr. laganna ásamt því að 5. mgr. 21. gr. laganna verði felld brott. Í 4. mgr. 21. gr. laganna er kveðið á um með hvaða hætti samstarfsráð skuli skipað. Með frumvarpi þessu er lagt til að í stað þess fyrirkomulags sem þar er lýst verði kveðið á um að fjöldi fulltrúa starfsmanna frá hverju EES-ríki, þar sem fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæða hefur starfsemi, sem skipaðir eru í samstarfsráð skuli ráðast af hlutfalli starfsmanna fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu í því ríki af heildarfjölda starfsmanna fyrirtækisins eða fyrirtækjasamstæðunnar. Í samstarfsráðinu skuli þannig að lágmarki eiga sæti einn fulltrúi frá hverju EES-ríki þar sem starfsmenn fyrirtækisins eða fyrirtækjasamstæðunnar eru færri en nemur 10% af heildarfjölda allra starfsmanna. Þannig er tryggt að starfsmenn í öllum þeim EES-ríkjum þar sem umrætt fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæða hefur starfsemi sína í eigi fulltrúa í samstarfsráðinu en um er að ræða sömu reglu og gildir um fjölda fulltrúa starfsmanna í sérstaka samningaráðinu, sbr. 4. gr. frumvarps þessa. Er þetta í samræmi við c-lið 1. gr. I. viðauka við tilskipun 2009/38/EB. Í því sambandi er jafnframt lagt til að 5. mgr. 21. gr. laganna verði felld brott enda tekur efni þeirrar málsgreinar til þess fyrirkomulags sem kveðið er á um í 4. mgr. og lagðar eru til breytingar á í frumvarpi þessu.
    Enn fremur er lagt til að gerðar verði breytingar á 7. mgr. 21. gr. laganna þannig að kveðið verði á um að til að tryggja að samstarfsráðið geti samræmt starfsemi sína skuli það kjósa úr sínum hópi framkvæmdanefnd sem skipuð skuli allt að fimm fulltrúum í stað þriggja fulltrúa samkvæmt gildandi 7. mgr. 21. gr. laganna. Framkvæmdanefndinni skal jafnframt vera gert kleift að koma reglulega saman til að rækja skyldur sínar. Þessi breyting felur því í sér fjölgun þeirra fulltrúa sem að hámarki geta skipað framkvæmdanefnd auk þess sem ekki er lengur gert ráð fyrir að framkvæmdanefnd skuli ein­göngu skipuð að því skilyrði fullnægðu að samstarfsráðið sé skipað fleiri en tíu fulltrúum eða samkomulag hafi verið gert við aðalstjórn þar um. Áfram er gert ráð fyrir að kveðið verði á um skyldu framkvæmdanefndar til að setja sér starfsreglur. Eru breytingar þessar í samræmi við d-lið 1. mgr. I. viðauka við tilskipun 2009/38/EB.

Um 10. gr.

    Lagt er til að 2. mgr. 23. gr. falli brott og vísast í því sambandi til athugasemda við 8. gr. frumvarps þessa.

Um 11. gr.

    Lagt er til að gerðar verði breytingar á 1. og 3. mgr. 24. gr. laganna auk þess sem ný málsgrein, 7. mgr., bætist við þá grein. Þannig er lagt til að í 1. mgr. verði kveðið á um að séu fyrir hendi sérstakar aðstæður eða teknar hafi verið ákvarðanir sem hafi umtalsverð áhrif á hagsmuni starfsmanna, einkum vegna flutnings, lokunar fyrirtækja eða starfsstöðva þeirra eða hópuppsagna, þá eigi framkvæmdanefndin eða samstarfsráðið, hafi framkvæmdanefnd þess ekki verið skipuð, rétt á að fá upplýsingar þar um. Er það í samræmi við 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. I. viðauka við tilskipun 2009/38/EB.
    Enn fremur er lagt til að vísað verði til aðstæðna eða ákvarðana skv. 1. mgr. í 3. mgr. í stað ráðstafana enda er þar fjallað um bæði sérstakar aðstæður og ákvarðanir sem leiða til þess að réttur framkvæmdanefndar eða, eftir atvikum, samstarfsráðs til upplýsinga stofnast. Áfram er gert ráð fyrir að fulltrúar í samstarfsráðinu, sem kosnir hafa verið í fyrirtækjum eða starfsstöðvum þeirra sem viðkomandi aðstæður eða ákvarðanir hafa umtalsverð áhrif á, sbr. 1. mgr., eigi rétt á að sitja fundi framkvæmdanefndar sem ráðgerðir eru skv. 2. mgr. 24. gr. laganna. Eru breytingarnar gerðar til samræmis við 2. mgr. 3. gr. I. viðauka við tilskipun 2009/38/EB.
    Þá er lagt til að kveðið verði sérstaklega á um að við framkvæmd ákvæða 24. gr. laganna um upplýsingamiðlun og samráð skuli farið að ákvæðum 2. mgr. 1. gr. og 29. gr. laganna til samræmis við 5. mgr. 3. gr. I. viðauka við tilskipun 2009/38/EB.

Um 12. gr.

    Lagt er til að kveðið verði á um að koma skuli á fót tengingu milli upplýsingamiðlunar og samráðs á innlendum vettvangi annars vegar og fjölþjóðlegum vettvangi hins vegar en gert er ráð fyrir að fyrirkomulag slíkrar tengingar verði nánar skilgreint í samningi um evrópsk samstarfsráð, sbr. b-lið 7. gr. frumvarps þessa. Er þannig lagt til að kveðið verði á um að samhæfa skuli upplýsingamiðlun og samráð samstarfsráðs við upplýsingamiðlun og samráð innlendra fulltrúaráða starfsmanna að teknu tilliti til marka á milli vald- og aðgerðasviða þessara aðila en í því sambandi vísast til athugasemda við 1. gr. og 1. mgr. 2. gr. frumvarps þessa, sbr. einnig a-lið 3. gr. Er nýmæli þetta í samræmi við 1. mgr. 12. gr. tilskipunar 2009/ 38/EB. Enn fremur er lagt til að hafi fyrirkomulag samhæfingar upplýsingamiðlunar og samráðs samstarfsráðs og innlendra fulltrúaráða starfsmanna ekki verið skilgreint í samningi um stofnun samstarfsráðs, sbr. b-lið 7. gr. frumvarps þessa, og fyrirhugað er að taka ákvarðanir sem leitt geta til verulegra breytinga á starfsskipulagi eða samningssambandi skuli upplýsingamiðlun og samráð fara fram í samstarfsráði sem og hjá trúnaðarmönnum stéttarfélaga og/eða sam­eigin­legum fulltrúum þeirra starfsmanna sem ekki eiga trúnaðarmenn. Er það í samræmi við 3. mgr. 12. gr. tilskipunar 2009/38/EB. Jafnframt er lagt til það nýmæli að mælt verði fyrir um hvernig bregðast skuli við verulegum breytingum á fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæðu með tilliti til samnings sem gerður hefur verið um samstarfsráð. Þannig er lagt til að kveðið verði á um að hefja skuli að nýju samningaumleitanir vegna samnings um samstarfsráð ef gerðar eru verulegar breytingar á skipulagi fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu og í gildandi samningum hefur ekki verið kveðið á um hvernig bregðast skuli við slíkum breytingum eða ákvæði gildandi samninga þar um eru ósamrýmanleg. Þá er lagt til að tekið verði upp það nýmæli að slíkar samningaumleitanir verði hafnar að frumkvæði aðalstjórnar eða að skriflegri beiðni minnst 100 starfsmanna eða fulltrúa þeirra í a.m.k. tveimur EES- ríkjum þar sem fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæða hefur starfsemi. Eru breytingar þessar í samræmi við 1. mgr. 13. gr. tilskipunar 2009/38/EB.
    Að lokum er lagt til að í sérstöku samningaráði skuli, auk kjörinna fulltrúa, eiga sæti a.m.k. þrír fulltrúar frá hverju starfandi samstarfsráði, einu eða fleiri. Enn fremur er lagt til að meðan á samningaumleitunum standi skuli starfandi samstarfsráð, eitt eða fleiri, starfa áfram með þeim hætti sem fulltrúar samstarfsráðs og aðalstjórn hafa komið sér saman um. Er það í samræmi við 2. og. 3. mgr. 13. gr. tilskipunar 2009/38/EB.

Um 13. gr.

    Lagt er til að þær breytingar verði gerðar á 31. gr. laganna að í 1. mgr. verði kveðið á um að fulltrúar evrópsks samstarfsráðs skuli, með fyrirvara um valdsvið annarra aðila hvað það varðar, hafa nauðsynleg úrræði til að nýta réttindi þau sem þeim eru látin í té samkvæmt lögum um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum og til að gæta hagsmuna starfsmanna hlutaðeigandi fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu. Ákvæði þetta er í samræmi við 1. mgr. 10. gr. tilskipunar 2009/38/EB. Þannig er lagt til að mælt verði fyrir um það í 2. mgr. að með fyrirvara um ákvæði 29. gr. laganna um þagnarskyldu skuli fulltrúar evrópska samstarfsráðsins veita fulltrúum starfsmanna fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu upplýsingar um efni og niðurstöður upplýsingamiðlunar og samráðs en sé ekki um slíka fulltrúa að ræða þá skuli fulltrúar samstarfsráðsins veita öllum starfsmönnum þær upplýsingar. Er þetta í samræmi við 2. mgr. 10. gr. tilskipunar 2009/38/EB.
    Enn fremur er lagt til að í 3. mgr. 31. gr. laganna verði kveðið á um að fulltrúar í sérstaka samningaráðinu eða samstarfsráðinu eða fulltrúar starfsmanna skuli hvorki sæta uppsögn né skerðingu á kjörum sínum vegna starfa sinna. Enn fremur er gert ráð fyrir að fulltrúar starfsmanna sem nánar eru skilgreindir í b-lið 3. gr. frumvarps þessa (8. gr. b) skuli njóta sams konar réttarverndar og trúnaðarmenn samkvæmt lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, með síðari breytingum. Efni málsgreinar þessarar er samhljóða efni 1. mgr. 31. gr. laganna og er í samræmi við 3. mgr. 10. gr. tilskipunar 2009/38/EB.
    Þá er lagt til að 4. mgr. verði efnislega samhljóða 2. mgr. 31. gr. laganna en í 5. mgr. 31. gr. verði mælt fyrir um að fulltrúum sérstaka samningaráðsins og evrópska samstarfsráðsins skuli, án þess að þeir missi við það laun, veitt sú þjálfun sem nauðsynleg er til að þeir geti rækt skyldur sínar samkvæmt lögum um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum, þar á meðal að taka þátt í samvinnu starfsmanna sem starfa í fleiri en einu landi, til samræmis við 4. mgr. 10. gr. tilskipunar 2009/38/EB.

Um 14. og 15. gr.

    Ákvæðin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um evrópsk samstarfsráð
í fyrirtækjum, nr. 61/1999 (innleiðing tilskipunar).

         Með frumvarpinu er lögð til innleiðing á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/ 38/EB frá 6. maí 2009. Tilskipunin felur í sér endurútgáfu tilskipunar 94/45/EBE um sama efni. Þar sem tilskipunin felur í sér efnislegar breytingar á eldri tilskipun er talið nauðsynlegt að breyta lögum um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum til að tryggja fullnægjandi innleiðingu hennar. Með breytingunum er ætlunin að skýra nánar þær reglur sem eiga að gilda um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum.
    Tilskipunin fjallar um stofnun evrópsks samstarfsráðs eða samþykkt reglna í fyrirtækjum og fyrirtækjasamstæðum, er starfa á bandalagsvísu, varðandi upplýsingamiðlun til starfsmanna og samráð við starfsmenn. Markmið tilskipunarinnar er að tryggja virk réttindi starfsmanna til upplýsinga og samráðs milli landa. Einn liður í því er að stuðla að fjölgun evrópskra samstarfsráða en jafnframt að tryggja áfram­haldandi virkni þeirra samninga sem þegar hafa komist á. Ekki hefur enn reynt á lög um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum á Íslandi því skv. 3. gr. laganna gilda þau um fyrirtæki sem hafa a.m.k. 1.000 starfsmenn í ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu. Í ljósi þess hversu stór fyrirtæki og fyrirtækjasamstæður þurfa að vera til að falla undir ákvæði laganna má ætla að áhrif frumvarpsins verði ekki mikil hér á landi.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér áhrif á útgjöld ríkissjóðs.