Ferill 356. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 458  —  356. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um tekjuskatt, lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, lögum um fjársýsluskatt, tollalögum, lögum um vörugjald af ökutækjum,
eldsneyti o.fl. og lögum um búnaðargjald, með síðari
breytingum (samræming og einföldun).

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.
1. gr.

    2. málsl. 3. tölul. og 3. málsl. 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Orðin „sbr. 1. málsl. 3. tölul. 1. mgr. og 2. málsl. 2. mgr. 8. gr.“ í 3. mgr. 16. gr. laganna falla brott.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 57. gr. laganna:
     1.      Orðin „með tilliti til milliverðlagningarreglna Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD)“ í 1. málsl. 3. mgr. falla brott.
     2.      2. málsl. c-liðar 4. mgr. fellur brott.
     3.      3. málsl. 5. mgr. orðast svo: Skjölunarskyldur aðili skal varðveita sérstaklega gögn um slík viðskipti, upplýsingar um viðskiptaskilmála, veltu, eignir og annað sem þýðingu kann að hafa við milliverðlagninguna og sýna fram á að verð og skilmálar séu sambærileg því sem almennt gerist í viðskiptum milli ótengdra aðila undir sambærilegum kringumstæðum.

4. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „18%“ í 1. mgr. 2. tölul. og 1. málsl. a-liðar 3. tölul. 70. gr. laganna kemur: 20%.

5. gr.

    Í stað orðanna „og 7. tölul.“ í 1. málsl. 4. mgr. 71. gr. laganna kemur: 7. og 8. tölul.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. málsl. 1. mgr. 111. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „stjórnsýsluumdæmi Reykjavíkur“ kemur: umdæmi sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu.
     b.      Í stað orðsins „stjórnsýsluumdæmum“ kemur: umdæmum.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 112. gr. laganna:
     a.      3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Eindagi er síðasti virki dagur mánaðarins, sbr. þó 5. og 6. mgr.
     b.      Við 6. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Eindagi er mánuði eftir gjalddaga.

8. gr.

    Í stað orðanna „og 2013“ í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XLIV í lögunum kemur: 2013 og 2014.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda,
með síðari breytingum.

9. gr.

    Í stað orðanna „og 8. tölul. 3. gr.“ og „og 8. tölul. 70. gr.“ í 2. málsl. A-liðar 2. gr. laganna kemur: 8. og 10. tölul. 1. mgr. og 2. mgr. 3. gr.; og: 8. og 10. tölul. 70. gr.

10. gr.

    Í stað orðanna „og 8. tölul.“ í 6. tölul. 5. gr. laganna kemur: 8. og 10. tölul. 1. mgr. og 2. mgr.

11. gr.

    Í stað orðanna „og 8. tölul.“ í 4. mgr. 9. gr. laganna kemur: 8. og 10. tölul. 1. mgr. og 2. mgr.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur,
með síðari breytingum.

12. gr.

    Í stað orðanna „og 7. tölul.“ í 1. málsl. 2. mgr. 2. gr. laganna kemur: 7. og 8. tölul.

IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 165/2011, um fjársýsluskatt, með síðari breytingum.
13. gr.

    Á eftir orðunum „og önnur fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki“ í 2. tölul. 2. gr. laganna kemur: og rafeyrisfyrirtæki samkvæmt lögum nr. 17/2013, um útgáfu og meðferð rafeyris.

V. KAFLI
Breyting á tollalögum nr. 88/2005, með síðari breytingum.
14. gr.

    Við 1. mgr. 7. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Af tækjum og öðrum búnaði sem fluttur er hingað til lands í kjölfar viðbragðsaðgerða vegna mengunarslysa og náttúruhamfara.

15. gr.

    Við 47. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Tollstjóra er heimilt að birta tollmiðlara ákvarðanir og leiðbeiningar vegna umbjóðanda hans, sbr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og skal tollmiðlari upplýsa umbjóðanda sinn um þær.

16. gr.

    Við 4. tölul. 2. mgr. 48. gr. laganna bætist: ásamt viðeigandi málsmeðferðarreglum.

17. gr.

    Við 130. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Heimilt er að kæra ákvörðun um stöðvun tollafgreiðslu til ráðuneytis tollamála, sbr. VII. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Ákvörðun um að vara sé leyfisskyld er heimilt að kæra til stofnunar þeirrar sem tók ákvörðun um leyfisskyldu og/eða fagráðuneytis þeirrar stofnunar.

VI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.,
með síðari breytingum.

18. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „búnar til flutnings á fötluðum, þ.m.t. búnar hjólastólalyftu“ í m-lið 1. tölul. kemur: útbúnar fyrir fatlað fólk. Bifreiðarnar skulu búnar hjólastólalyftu eða öðrum sambærilegum búnaði.
     b.      Við b-lið 3. tölul. bætist: fjórhjól, sexhjól, körtur, golfbílar og beltabifreiðar, þ.m.t. vélsleðar.

VII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 84/1997, um búnaðargjald, með síðari breytingum.
19. gr.

    4. málsl. 4. mgr. 5. gr. laganna orðast svo: Við mismun sem á rætur að rekja til of hárrar fyrirframgreiðslu skal reikna vexti jafnháa vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir á hverjum tíma skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

20. gr.

    Ákvæði 1.–3. og 7.–8. gr. öðlast þegar gildi.
    Ákvæði 4.–5. og 9.–12. gr. öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu 2016 og á staðgreiðsluárinu 2015 eftir því sem við á.
    Ákvæði 6. og 13.–18. gr. öðlast gildi 1. janúar 2015.
    Ákvæði 19. gr. öðlast þegar gildi og kemur til framkvæmda við álagningu 2016 vegna mismunar á fyrirframgreiðslu 2015 og álagningu 2016.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

1. Tilefni lagasetningar.
    Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á skatta- og tollalögum sem eru af ólíkum toga en flestar varða framkvæmdaratriði.
    Tilefni frumvarpsins er yfirferð fjármála- og efnahagsráðuneytisins á ákveðnum atriðum í skatta- og tollalöggjöfinni sem talin er þörf á að samræma, einfalda og skýra með gleggri hætti til að styrkja framkvæmdina og auka réttaröryggi.
    Á vorþingi 2014 var lagt fram frumvarp (509. mál á 143. löggjafarþingi) sem innihélt sambærilegar tillögur að breytingum á skattalögum. Það frumvarp náði ekki fram að ganga og er nú lagt fram að nýju með nokkrum viðbótum sem aðallega snúa að tollum og vörugjöldum.

2. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er að finna tillögur að breytingum sem skipta má í eftirfarandi flokka.

1. Brottfelling skyldu lögaðila til að afhenda ríkisskattstjóra sameignarfélagssamning með skattframtali.
    Lagt er til að felld verði brott skylda lögaðila til að afhenda ríkisskattstjóra sameignarfélagssamning með skattframtali enda eru frumgögn vegna skráningar félaga til staðar hjá embætti ríkisskattstjóra.

2. Afleiður – vaxtaskiptasamningar.
    Lögð er til sú nauðsynlega breyting að fella tilvísun til 8. gr. tekjuskattslaga, er fjallar um vexti, afföll og gengishagnað, brott úr 16. gr. laganna. Í meðförum Alþingis á frumvarpi því er varð að lögum nr. 142/2013 var fallið frá þeirri tillögu frumvarpsins að láta sérreglur gilda um skattlagningu vaxtaskiptasamninga. Umrædd tilvísun er því markleysa þar sem sömu reglur gilda um skattlagningu afleiðuviðskipta óháð undirliggjandi eignum.
    Þá er lögð til breyting til þess að samræmis sé gætt við afdrátt staðgreiðslu af söluhagnaði aðila með takmarkaða skattskyldu vegna sölu verðbréfa, þannig að söluhagnaður af hlutabréfum og afleiðum sæti hvoru tveggja afdrætti staðgreiðslu samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Auk þess er lagt til að tilvísun í 2. mgr. 3. gr. tekjuskattslaga verði tekin upp í staðgreiðslulögunum, en þar kemur fram að með orðunum „hér á landi“ sé átt við landið sjálft, landhelgina, efnahagslögsöguna og landgrunnið, sem og svæði þar sem Ísland hefur rétt til skattlagningar lögum samkvæmt eða samkvæmt sérstökum samningum við erlent ríki.

3. Tilvísun til leiðbeiningarreglna OECD um milliverðlagningu.
    Lagt er til að beinar tilvísanir til leiðbeiningarreglna OECD um milliverðlagningu verði felldar brott enda ekki nauðsynlegt að vísa með beinum hætti til þeirra í lagagreininni sjálfri. Leiðbeiningarreglur OECD um milliverðlagningu verða eftir sem áður mikilvæg heimild við beitingu milliverðlagningarreglna á Íslandi rétt eins og í öðrum ríkjum OECD enda eru íslensku reglurnar byggðar á þeim grundvallarreglum sem þar koma fram. Hér eru því ekki lagðar til neinar efnislegar breytingar á núgildandi reglum um milliverðlagningu sem er að finna í 3.–6. mgr. 57. gr. tekjuskattslaga.

4. Skilgreining á tengdum lögaðilum.
    Í milliverðlagningarreglum 3.–6. mgr. 57. gr. tekjuskattslaga er fjallað um verðlagningu í viðskiptum milli tengdra lögaðila. Eru þeir lögaðilar sem geta talist tengdir samkvæmt ákvæðunum skilgreindir í a–c-lið 4. mgr. 57. gr. Lagt er til að seinni málsliður c-liðar 4. mgr. 57. gr., þar sem fjallað er um lögaðila sem teljast tengdir vegna eignarhalds eða stjórnunarlegra yfirráða einstaklinga sem tengjast fjárhagslegum böndum í gegnum sameiginleg viðskipti og fjárfestingar, verði felldur brott.
    Ástæða þess að lagt er til að skilgreiningin verði felld brott er einkum sú að erfitt getur verið að skilgreina hvenær lögaðilar teljast tengdir samkvæmt ákvæðinu. Þar sem tengsl lögaðila samkvæmt milliverðlagningarreglum 3.–6. mgr. 57. gr. tekjuskattslaga geta undir ákveðnum kringumstæðum leitt til þess að lögaðilar verði skjölunarskyldir, er mjög mikilvægt að engin óvissa sé um það hvenær aðilar teljist tengdir í skilningi laganna. Þrátt fyrir brottfall ákvæðisins þarf verðlagning í viðskiptum aðila, sem hefðu getað fallið undir ákvæðið, engu að síður ávallt að vera í samræmi við armslengdarsjónarmið, sbr. almennar reglur 1. og 2. gr. 57. gr. tekjuskattslaga.

5. Tekjuskattur aðila með takmarkaða skattskyldu.
    Til samræmingar er lögð til hækkun á tekjuskattshlutfalli manna með takmarkaða skattskyldu úr 18% í 20%, sbr. áður lögfestar hækkanir á tekjuskattsprósentum manna og lögaðila með takmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 70. gr.

6. Skylda aðila sem undanþegnir eru tekjuskatti til að greiða fjármagnstekjuskatt.
    Lagt er til að kveðið verði skýrt á um það að sá rekstur vatnsveitna og/eða fráveitna, sem undanþeginn var tekjuskatti með lögum nr. 142/2013, sé ekki undanþeginn greiðslu fjármagnstekjuskatts. Flestir aðilar sem undanþegnir eru greiðslu tekjuskatts greiða fjármagnstekjuskatt og ekki þykja standa rök til þess að undanþiggja rekstur vatnsveitna og fráveitna sérstaklega frá greiðslu skatts af fjármagnstekjum.

7. Innheimta opinberra gjalda í umdæmi sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu.
    Á vorþingi 2014 samþykkti Alþingi frumvarp til laga um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði sem lög. Samkvæmt lögunum er sýslumannsembættum fækkað úr 24 í 9. Með fækkuninni verður sýslumannsembætti höfuðborgarsvæðisins eitt. Í frumvarpi þessu er lögð til orðalagsbreyting í samræmi við fækkun sýslumannsembættanna og mun tollstjóri annast innheimtu opinberra gjalda í umdæmi sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu verði frumvarpið að lögum. Þá er ráðherra heimilt að ákveða í reglugerð hvaða sýslumenn innheimta skatta í tilteknu umdæmi eða umdæmum, sbr. 2. mgr. 111. gr. tekjuskattslaga.

8. Eindagi tekjuskatts.
    Lagt er til að ákvæði 112. gr. laganna, sem kveður á um að eindagi tekjuskatts af öðrum tekjum en launatekjum sé 30 dögum eftir gjalddaga, verði breytt á þann veg að eindaginn verði síðasti virki dagur mánaðarins eftir gjalddaga. Er þetta gert til að fullt samræmi verði milli mánaða almanaksársins sem og milli 112. og 114. gr. tekjuskattslaga. Til margra ára hefur það verið framkvæmdin að eindagi þing- og sveitarsjóðsgjalda sé síðasti virki dagur mánaðarins eins og reyndar dráttarvaxtaákvæði 114. gr. laganna ber með sér.
    Í 6. mgr. 112. gr. tekjuskattslaga er sérákvæði um skattbreytingu til hækkunar þar sem gjalddaginn er 10 dögum eftir að gjaldanda hefur verið tilkynnt um hækkunina. Ákvæðið vísar til 1. mgr. 112. gr. varðandi eindagann og er lagt til að við 6. mgr. 112. gr. tekjuskattslaga bætist nýr málsliður er kveður á um það að eindagi samkvæmt málsgreininni sé mánuði eftir gjalddaga.

9. Skattaleg meðferð á eftirgjöf skulda einstaklinga og rekstraraðila.
    Lagt er til að ákvæði til bráðabirgða XLIV í lögum um tekjuskatt, er varðar skattalega meðferð á eftirgjöf skulda rekstraraðila, verði framlengt út árið 2014 til samræmis við framlengingu á ákvæðum til bráðabirgða XXXVI og XXXVII er varða skattalega meðferð á eftirgjöf skulda einstaklinga utan atvinnurekstrar annars vegar og rekstraraðila hins vegar.

10. Fjársýsluskattur og rafeyrisfyrirtæki.
    Lagt er til að rafeyrisfyrirtæki verði skattskyldir aðilar samkvæmt lögum nr. 165/2011, um fjársýsluskatt.
    Skv. 2. tölul. 2. gr. laga nr. 165/2011, um fjársýsluskatt, eru fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, skattskyldir aðilar þegar þau í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni inna af hendi vinnu eða þjónustu sem er undanþegin virðisaukaskatti skv. 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
    Rafeyrisfyrirtæki voru skilgreind sem fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og voru því skattskyldir aðilar samkvæmt lögum nr. 165/2011, um fjársýsluskatt. Ný lög nr. 17/2013, um útgáfu og meðferð rafeyris (rafeyrislög), tóku gildi 1. apríl 2013. Í greinargerð með rafeyrislögum kemur fram að lagt er til að rafeyrisfyrirtæki verði sérstök tegund fjármálastofnana en ekki ein tegund fjármálafyrirtækja eins og verið hefur. Eftir gildistöku rafeyrislaga falla rafeyrisfyrirtæki ekki með skýrum hætti undir ákvæði 2. tölul. 2. gr. laga nr. 165/2011, um fjársýsluskatt. Slík fyrirtæki inna þó enn af hendi vinnu eða þjónustu sem talin hefur verið undanþegin virðisaukaskatti skv. 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988.
    Í ljósi þeirrar breytingar, sem gerð hefur verið á stöðu rafeyrisfyrirtækja með rafeyrislögum, er hér lagt til að ákvæði laga um fjársýsluskatt verði breytt í þá veru að rafeyrisfyrirtæki verði með afdráttarlausum hætti felld undir ákvæði laganna um skattskylda aðila. Við gildistöku laga nr. 165/2011, um fjársýsluskatt, var við það miðað að rafeyrisfyrirtæki yrðu skattskyld og ný lög um þá starfsemi þykja ekki hafa breytt neinu um þær forsendur.

11. Undanþága tollalaga vegna tækja og annars búnaðar sem fluttur er til landsins í kjölfar mengunarslysa og náttúruhamfara.
    Lagt er til að við upptalninguna í undanþáguákvæði 7. gr. tollalaga verði bætt tækjum og öðrum búnaði sem fluttur er hingað til lands í kjölfar viðbragðsaðgerða vegna mengunarslysa og náttúruhamfara. Tilefni þessarar breytingartillögu er samningur norðurskautsríkjanna um samstarf um viðbúnað og viðbrögð gegn olíumengun sjávar á norðurslóðum sem undirritaður var í Kiruna í Svíþjóð í maí 2013. Norðurskautsríkin eru Ísland, Bandaríkin, Danmörk, Finnland, Kanada, Noregur, Rússland og Svíþjóð.

12. Umboð tollmiðlara.
    Lögð er til breyting á ákvæðum tollalaga með það fyrir augum að tryggja að gætt sé að ákvæðum stjórnsýslulaga með fullnægjandi hætti varðandi umboð og þekkingu tollmiðlara skv. XI. kafla laganna. Lögfest verður heimild tollstjóra til að birta tollmiðlara ákvarðanir og leiðbeiningar vegna umbjóðenda hans, sbr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Tollmiðlari skal upplýsa lögaðila og einstaklinga, sem stunda inn- eða útflutning, um ákvarðanir og leiðbeiningar tollstjóra, þ.m.t. kæruleiðbeiningar.
    Þá er gert ráð fyrir því að eitt af skilyrðum fyrir veitingu starfsleyfis til tollmiðlunar verði þekking á viðeigandi málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga.

13. Kæruleiðir vegna stöðvunar tollafgreiðslu.
    Lagt er til að tekinn verði af allur vafi varðandi kæruleiðir þegar tollafgreiðsla er stöðvuð á grundvelli 130. gr. tollalaga og lögfest að sú athöfn að stöðva tollafgreiðslu sé kæranleg til fjármála- og efnahagasráðuneytisins, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga, en ákvörðun um að vara sé leyfisskyld sé kæranleg til þeirrar stofnunar sem tók ákvörðun um leyfisskylduna og/eða fagráðuneytis þeirrar stofnunar.

14. Skilyrði vegna bifreiða fatlaðs fólks sem undanþegnar eru vörugjaldi.
    Orðalag m-liðar 1. tölul. 4. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. hefur valdið embætti tollstjóra, sem fer með framkvæmd laganna, vandræðum. Með breytingu ákvæðisins er allur vafi tekinn af um að skilyrði niðurfellingar vörugjalda samkvæmt ákvæðinu er að bifreiðar séu búnar hjólastólalyftu eða sambærilegum búnaði. Með tækniþróun á sviði hjálpartækja á undanförnum árum standa fötluðum einstaklingum nú til boða ýmis önnur hjálpartæki en hjólastólalyftur. Þessi hjálpartæki eru til að mynda skábrautir og sérútbúin sæti með snúnings- eða lyftubúnaði. Hjálpartæki þessi kalla á umfangsmiklar og kostnaðarsamar breytingar á bifreiðum rétt eins og þegar hjólastólalyftu er komið fyrir. Af þeim sökum þykir rétt að bifreiðar sem breytt hefur verið með þessum hætti verði einnig undanþegnar vörugjöldum.

15. Vörugjald af fjórhjólum, sexhjólum, körtum, golfbílum og beltabifreiðum, þ.m.t. vélsleðum.
    Í frumvarpinu er tekinn af allur vafi um að fjórhjól, sexhjól, körtur, golfbílar og beltabifreiðar, þ.m.t. vélsleðar, beri 30% vörugjald samkvæmt b-lið 3. tölul. 4. gr. laganna. Lagt er til að ökutæki þessi verði nú talin upp í ákvæðinu þar sem rétt þykir að kveða skýrt á um það.

16. Inneignarvextir reiknaðir á mismun vegna of hárrar fyrirframgreiðslu búnaðargjalds.
    Samkvæmt ákvæðum laga um búnaðargjald skal bæta við 2,5% álagi þegar um mismun er að ræða sem á rætur að rekja til of hárrar fyrirframgreiðslu. í frumvarpinu er lagt til að í stað álagsbeitingar skuli í slíkum tilvikum reikna inneignarvexti jafnháa vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir á hverjum tíma samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu í samræmi við ákvæði tekjuskatts- og tollalaga.

3. Samráð og mat á áhrifum.
    Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að tillögur þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.
    Þær breytingartillögur sem lagðar eru til í frumvarpinu eru nær eingöngu framkvæmdalegs eðlis og við samningu þeirra var haft samráð við ríkisskattstjóra vegna breytinga á lögum um tekjuskatt, lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur og lögum um fjársýsluskatt. Þá var haft samráð við tollstjóra vegna ákvæða er snúa að breytingum á tollalögum og lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og Fjársýslu ríkisins vegna breytinga á lögum um búnaðargjald.
    Lagabreytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpinu hafa ekki bein fjárhagsleg áhrif á afkomu ríkissjóðs enda nær eingöngu um að ræða leiðréttingar og breytingar í samræmingarátt á ákvæðum einstakra laga. Hins vegar má gera ráð fyrir nokkrum ávinningi af samþykkt frumvarpsins í því formi að reglur verða skýrari og gagnsærri sem er til hagsbóta fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki auk þess að auðvelda stjórnsýsluna hjá skatt- og tollyfirvöldum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 17/2003, um fyrirtækjaskrá, starfrækir ríkisskattstjóri fyrirtækjaskrá og heldur jafnframt verslanaskrár, þ.m.t. skrár yfir sameignarfélög, sbr. lög nr. 137/2013, um breytingu á lögum nr. 42/1903, um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð. Frumgögn vegna skráningar þeirra félaga, sem hér um ræðir, eru því til staðar hjá embætti ríkisskattstjóra hvað skattframkvæmd varðar.


Um 2. og 9.–11. gr.

    Með lögum nr. 142/2013, um breytingu á lögum um tekjuskatt, voru lögfest ákvæði um skattalega meðferð afleiðuviðskipta. Í þeim breytingum felst að tekjur af afleiðusamningum, óháð undirliggjandi eignum, verða meðhöndlaðar sem söluhagnaður/tap í stað vaxtatekna/gjalda. Það leiðir til þess að staðgreiðsla af afleiðuviðskiptum, í tilviki aðila sem bera hér á landi ótakmarkaða skattskyldu, fellur brott. Jafnframt verður heimilt að jafna saman hagnaði eða tapi af sölu afleiðna á tekjuári. Í frumvarpi því er varð að áðurnefndum lögum var upphaflega gert ráð fyrir því að vaxtaskiptasamningar, sem taka mið af breytingum á vöxtum sem undirliggjandi verðmæti, yrðu undanskildir, þ.e. áfram skyldu gilda sömu reglur og um vexti að því er varðaði vaxtaskiptasamninga. Í meðförum þingsins var fallið frá þessu og því gilda nú sömu reglur um skattlagningu afleiðuviðskipta óháð undirliggjandi eignum. Nauðsynlegt er að fella tilvísun til 8. gr. tekjuskattslaga, er fjallar um vexti, afföll og gengishagnað, brott úr 16. gr. laganna þar sem fallið var frá því að láta sérreglur gilda um skattlagningu vaxtaskiptasamninga.
    Þá er lögð til breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, með hliðsjón af 7. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, en eðlilegra þykir að samræmis sé gætt við afdrátt staðgreiðslu af söluhagnaði aðila með takmarkaða skattskyldu vegna sölu verðbréfa, þannig að söluhagnaður af hlutabréfum og afleiðum sæti hvoru tveggja afdrætti staðgreiðslu samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Um er að ræða brúttóskattlagningu án nokkurs frádráttar og ber að halda staðgreiðslunni eftir af heildartekjunum. Auk þess er lagt til að tilvísun í 2. mgr. 3. gr. tekjuskattslaga verði tekin upp í staðgreiðslulögunum, en þar kemur fram að með orðunum „hér á landi“ sé átt við landið sjálft, landhelgina, efnahagslögsöguna og landgrunnið, sem og svæði þar sem Ísland hefur rétt til skattlagningar lögum samkvæmt eða samkvæmt sérstökum samningum við erlent ríki. Rétt þykir að vísað sé til þeirrar tilvísunar tekjuskattslaga í staðgreiðslulögunum.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að tilvísanir til leiðbeiningarreglna OECD um milliverðlagningu verði felldar brott. Þá er einnig lagt til að lögaðilar teljist ekki lengur tengdir í skilningi ákvæðisins vegna eignarhalds eða stjórnunarlegra yfirráða einstaklinga sem tengjast fjárhagslegum böndum í gegnum sameiginleg viðskipti og fjárfestingar. Engu að síður þarf verðlagning í viðskiptum aðila, sem hefðu getað fallið undir ákvæðið, ávallt að vera í samræmi við armslengdarsjónarmið, sbr. almennar reglur 1. og 2. gr. 57. gr. tekjuskattslaga.

Um 4. gr.

    Til samræmingar er hér lögð til hækkun á tekjuskatti manna með takmarkaða skattskyldu, sbr. áður lögfestar hækkanir á tekjuskattsprósentum manna og lögaðila með takmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 70. gr. Menn sem njóta frá íslenskum aðilum launa fyrir störf, þ.m.t. stjórnar-, endurskoðenda- eða nefndarstörf, eftirlauna, biðlauna, lífeyris, styrkja eða hliðstæðra greiðslna skulu greiða 20% tekjuskatt af þeim greiðslum í stað 18% verði frumvarpið að lögum. Sama á við um menn sem fá greiðslu fyrir þjónustu eða starfsemi innta af hendi hér á landi. Sá hundraðshluti reiknast m.a. af launum eða þóknunum til listamanna og annarra sem fram koma í atvinnuskyni til skemmtunar eða í hvers konar keppni, en með launum og þóknunum teljast hvers konar hlunnindi, þ.m.t. flutningur að og frá landinu hafi móttakandi ekki greitt hann sjálfur.

Um 5. og 12. gr.

    Með ákvæðunum er lagt til að 8. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga verði bætt við upptalningu 1. málsl. 4. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 1. málsl. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Ákvæði 8. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga fjallar um skattfrelsi stofnana eða félaga í meirihlutaeigu ríkis og/eða sveitarfélaga að því leyti sem þeim hafa verið falin lögbundin verkefni vegna reksturs vatnsveitu og/eða fráveitu. Ákvæðið kom inn í tekjuskattslögin með lögum nr. 142/2013, um breytingu á lögum um tekjuskatt. Við vinnslu breytingarinnar láðist að gera nauðsynlegar breytingar á 1. málsl. 4. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og 1. málsl. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, til þess að ganga úr skugga um að rekstur vatnsveitna og/eða fráveitna væri ekki undanþeginn greiðslu fjármagnstekjuskatts. Ekki eru talin standa rök til þess að undanþiggja reksturinn sérstaklega frá greiðslu skatts af fjármagnstekjum. Flestir aðilar sem falla undir 4. gr. tekjuskattslaga þurfa að greiða slíkan skatt en þeirra á meðal eru t.d. félög, sjóðir og stofnanir sem ekki reka atvinnu og lögaðilar sem verja hagnaði sínum einungis til almannaheilla. Til þess að gæta samræmis í framkvæmd varðandi skattlagningu á fjármagnstekjum hjá aðilum sem undanþegnir eru skattskyldu skv. 4. gr. tekjuskattslaga er því lagt til að fella aðila skv. 8. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga undir skattskyldu skv. 1. málsl. 4. mgr. 71. gr. tekjuskattslaga.

Um 6. gr.

    Vegna laga nr. 50/2014, um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, er lögð til breyting á 1. málsl. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
    Í lögum um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði er sýslumannsembættum fækkað úr 24 í 9. Með fækkun embætta breytist umdæmaskipan þeirra þannig að eitt sýslumannsembætti verður á höfuðborgarsvæðinu, sbr. 2. gr. laganna. Fækkun embætta er jákvæð að því leyti að hún mun að öllum líkindum leiða til hagkvæmari, skilvirkari og samræmdari innheimtu opinberra gjalda. Þörf er á breytingu á 1. málsl. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, til samræmis við þær breytingar sem gerðar hafa verið með lögunum. Í frumvarpi því sem hér er lagt fram er lagt til að tollstjóri annist innheimtu opinberra gjalda í umdæmi sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu. Þessi breyting er eðlileg og hagkvæm þar sem tollstjóri hefur sinnt innheimtu opinberra gjalda í stjórnsýsluumdæmi sýslumannsins í Reykjavík. Við sameiningu umdæma sýslumanna í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði í eitt skapast tækifæri til að ná fram verulegri hagræðingu og samlegðaráhrifum við innheimtu opinberra gjalda. Tollstjóri innheimtir nú þegar á milli 60% og 70% allra álagðra skatta og gjalda, ásamt því að gegna sérstöku lögbundnu hlutverki við innheimtu skatta og gjalda á landsvísu, sbr. 1.–3. tölul. 1. mgr. 111. gr. tekjuskattslaga. Þá er ráðherra heimilt að ákveða í reglugerð hvaða sýslumenn innheimta skatta í tilteknu umdæmi eða umdæmum, sbr. 2. mgr. 111. gr. tekjuskattslaga.

Um 7. gr.

    Í 3. málsl. 1. mgr. 112. gr. tekjuskattslaga er tiltekið að eindagi sé 30 dögum eftir gjalddaga. Þar sem mánuðir almanaksársins telja ekki allir jafn marga daga þykir eðlilegt að ákvæðinu verði breytt á þann veg að eindaginn verði síðasti virki dagur mánaðarins eftir gjalddagann svo að samræmis gæti, sbr. 5. mgr. 112. gr. og 1. málsl. 1. mgr. 114. gr. Til margra ára hefur það verið framkvæmdin að eindagi þing- og sveitarsjóðsgjalda sé síðasti virki dagur mánaðarins eins og reyndar dráttarvaxtaákvæði 114. gr. laganna ber með sér.
    Í 6. mgr. 112. gr. tekjuskattslaga er sérákvæði um skattbreytingu til hækkunar þar sem gjalddaginn er 10 dögum eftir að gjaldanda hefur verið tilkynnt um hækkunina. Ákvæðið vísar til 1. mgr. 112. gr. varðandi eindagann og er lagt til að við 6. mgr. 112. gr. tekjuskattslaga bætist nýr málsliður er kveður á um það að eindagi samkvæmt málsgreininni sé mánuði eftir gjalddaga.

Um 8. gr.

    Með lögum nr. 139/2013, um tekjuaðgerðir frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014, voru bráðabirgðaákvæði XXXVI og XXXVII við tekjuskattslögin framlengd um eitt ár eða út árið 2014. Við breytingu þessa fórst fyrir samsvarandi framlenging bráðabirgðaákvæðis XLIV. Ákvæðin varða skattalega meðferð á eftirgjöf skulda einstaklinga annars vegar og rekstraraðila hins vegar, en fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis kom fram að talsverður fjöldi aðila ætti enn eftir að fá úrlausn sinna mála. Ákvæðunum sem lögfest voru með lögum nr. 104/2010, sbr. einnig b-lið 19. gr. laga nr. 165/2010, var ætlað að vera liður í skilvirkri endurskipulagningu skulda sem yrði til þess fallin að flýta efnahagsbata.
    Lagt er til að ákvæði til bráðabirgða XLIV í lögum um tekjuskatt er varðar skattalega meðferð á eftirgjöf skulda rekstraraðila verði framlengt út árið 2014 til samræmis við framlengingu á ákvæðum til bráðabirgða XXXVI og XXXVII er varða skattalega meðferð á eftirgjöf skulda einstaklinga utan atvinnurekstrar annars vegar og rekstraraðila hins vegar.

Um 13. gr.

    Með ákvæðinu eru rafeyrisfyrirtæki skv. lögum nr. 17/2013, um útgáfu og meðferð rafeyris, felld undir ákvæði 2. tölul. 2. gr. laga nr. 165/2011, um fjársýsluskatt, þar sem skattskyldir aðilar samkvæmt lögunum eru tilgreindir.

Um 14. gr.

    Með ákvæðinu er verið að uppfylla samningsskyldur íslenska ríkisins vegna samnings um samstarf um viðbúnað og viðbrögð gegn olíumengun sjávar á norðurslóðum frá maí 2013. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar lagalegar ráðstafanir eða stjórnsýsluráðstafanir til þess að greiða fyrir í fyrsta lagi, komu, nýtingu og brottför skipa, loftfara og annarra samgöngutækja, sem taka þátt í viðbragðsaðgerðum vegna olíumengunarslyss, frá yfirráðasvæði sínu, eða mannskapar í flutningum, farms, efnis og búnaðar sem nauðsynlegur er til þess að fást við olíumengunarslys og í öðru lagi skjótum flutningi til, í gegnum og frá yfirráðasvæði sínu á mannskap, farmi, efni, vörum vegna viðbragðsaðgerða og öðrum búnaði sem um getur í undirgrein a í samningnum.

Um 15. og 16. gr.

    Lögð er til breyting á ákvæðum tollalaga með það fyrir augum að tryggja að gætt sé að ákvæðum stjórnsýslulaga með fullnægjandi hætti varðandi umboð tollmiðlara skv. XI. kafla laganna. Lögfest verður heimild tollstjóra til að birta tollmiðlara ákvarðanir og leiðbeiningar vegna umbjóðenda hans, sbr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Tollmiðlari skal upplýsa lögaðila og einstaklinga, sem stunda inn- eða útflutning, um ákvarðanir og leiðbeiningar tollstjóra, þ.m.t. kæruleiðbeiningar.
    Þá er gert ráð fyrir því að eitt af skilyrðum fyrir veitingu starfsleyfis til tollmiðlunar verði þekking á viðeigandi málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga.

Um 17. gr.

    Ákveðin lagaleg óvissa ríkir um kæruleiðir þegar ákvörðun er tekin um stöðvun tollafgreiðslu á grundvelli 130. gr. tollalaga. Stöðvun tollafgreiðslu getur komið til vegna ýmissa atriða en í framkvæmd byggir ákvörðunin þó yfirleitt á því að leyfi skortir frá annarri stofnun. Sú framkvæmd að stöðva tollafgreiðslu felur ekki í sér efnislega afstöðu til leyfisskyldu, heldur er stöðvun hverju sinni framkvæmd á grundvelli efnislegrar ákvörðunar annars stjórnvalds. Til að tryggja að málsaðili fái efnislega meðferð í kærumáli til æðra stjórnvalds er eðlilegra að kæruleiðbeiningar séu veittar til þess stjórnvalds eða ráðuneytis sem ber ábyrgð á viðkomandi málaflokki samkvæmt lögum. Lagt er til að tekinn verði af allur vafi varðandi kæruleiðir þegar tollafgreiðsla er stöðvuð á grundvelli 130. gr. tollalaga og lögfest að sú athöfn að stöðva tollafgreiðslu sé kæranleg til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga, en ákvörðun um að vara sé leyfisskyld sé kæranleg til þeirrar stofnunar sem tók ákvörðun um leyfisskylduna og/eða fagráðuneytis þeirrar stofnunar. Skýr lína í þessum málum með betri leiðbeiningarskyldu um kæruleiðir felur í sér bætta stjórnsýsluhætti.

Um 18. gr.

    Í a-lið er lagt til að tekinn verði af allur vafi um að skilyrði niðurfellingar vörugjalda samkvæmt ákvæðinu er að bifreiðar séu búnar hjólastólalyftu eða sambærilegum búnaði. Sambærilegur búnaður er til að mynda skábrautir og sérútbúin sæti með snúnings- eða lyftubúnaði.
    Þá er í b-lið lagt til að tekinn verði af allur vafi um að fjórhjól, sexhjól, körtur, golfbílar og beltabifreiðar, þ.m.t. vélsleðar, beri 30% vörugjald samkvæmt 3. tölul. 4. gr. laganna. Ökutækin verða því talin upp í ákvæðinu, verði frumvarpið að lögum, en rétt þykir að kveða skýrt á um það.

Um 19. gr.

    Rétt þykir, til einföldunar og hagræðingar við álagningar- og innheimtuvinnslu, að gera ákvæði 4. málsl. 4. mgr. 5. gr. laga um búnaðargjald, sambærilegt öðrum svipuðum ákvæðum skatta- og tollalaga í þeim tilvikum þegar um mismun er að ræða sem á rætur að rekja til of hárrar fyrirframgreiðslu. Samkvæmt lögum um búnaðargjald skal bæta við 2,5% álagi við þessar aðstæður. Lagt er til að í stað álagsbeitingar skuli reikna inneignarvexti jafnháa vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir á hverjum tíma samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu í samræmi við ákvæði laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda og tollalaga nr. 88/2005. Frá 1. janúar 2013 hafa inneignarvextir verið 4,5%.

Um 20. gr.

    Gert er ráð fyrir því að lög þessi öðlist þegar gildi og að ákvæði 4.–5. og 9.–12. gr. komi til framkvæmda við álagningu 2016 og á staðgreiðsluárinu 2015 eftir því sem við á. Þó mun 6. gr. öðlast gildi 1. janúar 2015 í samræmi við gildistökuákvæði laga nr. 50/2014, um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði. Sama á við um 13.–18. gr. og er ástæðan framkvæmdarlegs eðlis. Þá er gert ráð fyrir því að 19. gr. öðlist þegar gildi og komi til framkvæmda við álagningu 2016 vegna mismunar á fyrirframgreiðslu búnaðargjalds 2015 og álagningu 2016.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt,
lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um staðgreiðslu skatts
á fjármagnstekjur, lögum um fjársýsluskatt, tollalögum,
lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.
og lögum um búnaðargjald, með síðari breytingum
(samræming og einföldun).

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til ýmsar breytingar á skatta- og tollalögum í þeim tilgangi að samræma, einfalda og skýra betur ákveðin atriði í gildandi löggjöf. Markmið frumvarpsins er að styrkja framkvæmd laganna og auka réttaröryggi frá því sem nú er. Ítarlega er fjallað um þessar breytingar í athugasemdum við frumvarpið en fyrst og fremst eru þær framkvæmdalegs eðlis.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.