Ferill 2. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 42  —  2. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2017.

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Umræða um skattamál er í eðli sínu hápólitísk og heimspekileg enda snýst hún um hvers konar samfélag við viljum byggja og hvernig við viljum búa að almennum borgurum. Stund­um er gefið í skyn að umræða um skattamál sé fyrst og fremst tæknilegs eðlis en það er vill­andi því skattar eru ekki aðeins nauðsynlegt tæki til að afla tekna til samfélagslegra verkefna heldur hefur uppbygging skattkerfisins áhrif á samfélagið allt, skiptingu skattbyrðar, eigna­myndun og tekjudreifingu.

Aukinn jöfnuður í gegnum skattkerfið.
    Að mati margra fræðimanna er skattkerfið langáhrifamesta tæki samfélagsins til að auka jöfnuð í samfélaginu. Á meðal þeirra er franski hagfræðingurinn Thomas Piketty sem leggur til að komið verði á þrepaskiptum fjármagnsskatti til að auka jöfnuð í heiminum. Jöfnuður er í sjálfu sér ekki aðeins réttlætismál heldur líka mikilvægt hagstjórnarmarkmið. Í skýrslu OECD frá desember 2014 er vitnað til rannsókna sem sýna að aukinn ójöfnuður dregur úr hagvexti en greiningar OECD benda til að tekjuójöfnuður hafi mælanleg áhrif til að draga úr hagvexti. Efnahagsstefna sem dregur úr ójöfnuði leiðir því ekki einungis til réttlátara þjóð­félags heldur verða þjóðfélögin einnig auðugri. Á vegum Cambridge-háskóla hafa einnig birst rannsóknir sem sýna m.a. að breska hagkerfið hefur vaxið hlutfallslega minna en ella vegna hagstjórnarstefnu nýfrjálshyggjunnar. Í stuttu máli sagt sýna þessar rannsóknir að meiri jöfnuður leiðir til sanngjarnari þjóðfélaga og styrkir hagkerfin.
    Samkvæmt efnahagsyfirliti VR frá því í október á þessu ári jókst kaupmáttur ráðstöfunar­tekna um 3,8% á milli áranna 2014 og 2015. Aðeins tekjuhæstu 20 prósentin fengu meiri hækkun. Kaupmáttur jókst aðeins um og undir 2,5% fyrir þau 40% sem hafa lægstu tekjurnar. Þetta er vísbending um að tekjuójöfnuður sé að aukast í samfélaginu. Þá hefur ASÍ bent á að ríkustu 20 prósentin fái nærri helming allra ráðstöfunartekna. Sýnt hefur verið fram á að með skattbreytingum á nýliðnu kjörtímabili jókst skattbyrði allra hópa nema tekjuhæstu 20 prósentanna en skattbyrði þeirra minnkaði meira en svo að hægt sé að útskýra það með launa­hækkunum. Það eru því vísbendingar um að tekjujöfnuður sé að minnka eftir að hafa aukist mjög á árunum eftir hrun.
    Á árunum fyrir efnahagshrunið jókst ójöfnuður í þjóðfélaginu en minnkaði í hruninu, bæði vegna þess að mikill auður tapaðist í hruninu en einnig vegna þess að aðgerðir síðustu ríkis­stjórnar beindust að því að vernda þá sem lægri höfðu tekjurnar. Efnahags- og framfarastofn­un Evrópu (OECD), hinn óháði sérfræðingur mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna sem gerði úttekt á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun og fleiri aðilar hafa reyndar lofað það hvernig tókst að dreifa byrðum hrunsins með sanngjörnum hætti á Íslandi. Nú hefur sama þróun og var fyrir efnahagshrunið hins vegar hafist aftur og aðgerðir ríkisstjórnarinnar ýta undir þenn­an ójöfnuð.
    Mun meiri ójöfnuð má greina þegar kemur að eignastöðu en efnamestu tíu prósentin eiga um tvo þriðju af öllum eignum landsins. Þannig má segja að jöfnuðurinn sem fulltrúar allra stjórnmálaflokka hafa hrósað sér af nái ekki til eignaskiptingarinnar, hvorki á Íslandi né annars staðar á Vesturlöndum. Einmitt þess vegna hefur verið bent á mikilvægi auðlegðar­skatts og þrepaskipts fjármagnstekjuskatts en hvort tveggja er lagt til í breytingartillögum með nefndaráliti þessu.
    Slíkar aðgerðir auka að sjálfsögðu jöfnuð en eru líka mikilvæg tekjuöflun til að styrkja innviði samfélagsins sem hafa verið vanræktir um langt skeið. Hvarvetna blasa við áskoranir, hvort sem litið er til heilbrigðisþjónustunnar, menntakerfisins eða samgangna um land allt. Þá hafa lífeyrisþegar ekki verið nefndir en enn er verk að vinna til að bæta kjör aldraðra og öryrkja. Til að þessi uppbygging geti farið fram með efnahagslega ábyrgum hætti er mikil­vægt að styrkja tekjustofna ríkisins til frambúðar. Réttlátasta leiðin til þess er að skattleggja fjármagnið þar sem það er að finna.
    Slík skattlagning dregur enn fremur úr peningamagni í umferð og getur þar með nýst til að slá á þenslu sem er orðið verulegt áhyggjuefni. Við blasir að þegar ný ríkisstjórn verður mynduð verður hennar fyrsta aðgerð væntanlega að setja saman aðgerðaáætlun til að draga úr þenslu og koma þannig í veg fyrir kollsteypu í efnahagslífinu. Skattalækkanir fyrrverandi ríkisstjórnar hafa hins vegar verið sem olía á eld og hvatt til þenslu, þvert á ráðleggingar Seðlabankans sem hefur ítrekað bent á að ríkisfjármálastefnan þurfi að styðja við peninga­málastefnuna. Skattalækkanir hafa þar verið nefndar sérstaklega sem aðgerð sem þjónar öfugum tilgangi, þ.e. eykur þenslu fremur en hitt.

Lýðheilsuskattur.
    Á heimasíðu landlæknisembættisins kemur fram að samkvæmt nýlegri rannsókn á matar­æði 6 ára barna fá börn að meðaltali 11% orkunnar úr viðbættum sykri, sem er yfir almennum ráðleggingum. Þetta hlutfall er 13% hjá 9 ára börnum og 16% hjá 15 ára börnum. Tæplega 60% 6 ára barna borða of mikinn sykur. Yfir helmingur af viðbætta sykrinum kemur úr sykr­uðum gos- og svaladrykkjum, sælgæti og ís hjá 9 ára börnum og tæplega 70% hjá 15 ára börnum. Á heimasíðu landlæknisembættisins kemur einnig fram að í grein sem birtist árið 2011 í The Lancet, einu þekktasta tímariti heims um heilbrigðismál og lýðheilsu, var lagt mat á hvaða aðgerðir stjórnvalda í Ástralíu skiluðu mestum ávinningi og árangri í því að sporna gegn offitu þar í landi. Niðurstaða greiningarinnar var sú að skattar á óholla mat- og drykkjarvöru væri áhrifaríkasta leiðin til að bæta heilsu og draga úr útgjöldum vegna hennar. Af þessum sökum leggur 1. minni hluti til að settur verði sérstakur skattur á sykraða gos­drykki en Íslendingar drekka að meðaltali 130 lítra af sykruðum gosdrykkjum á ári og borða að meðaltali 45–48 kg af sykri á ári. Hér er lögð til sú breyting að vöruflokkar sem innihalda sykraða gosdrykki verði færðir í hærra virðisaukaskattsþrep en lýðheilsumarkmiðið með þeirri breytingu er ótvírætt, fyrir utan að hún skilar auknum tekjum í ríkissjóð.

Umhverfis- og auðlindaskattar.
    Að lokum verður að nefna að íslenskt samfélag stendur frammi fyrir gríðarlegum áskor­unum sem felast í loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á umhverfi og samfélag. Það er for­gangsverkefni að setja hagstjórnina í samhengi við breyttar aðstæður í heiminum, endurskoða hagræna mælikvarða og koma á loftslagsbókhaldi í ríkisrekstrinum. Bent hefur verið á að kolefnisgjald sé áhrifamesta skattlagningin til að draga úr notkun óendurnýjanlegra orku­gjafa, meðal annars af framkvæmdastjóra AGS, sem telur að kolefnisgjald sé mun skilvirkari aðferð til þess heldur en markaður með losunarheimildir eins og er innan ESB. OECD hefur bent á að kolefnisgjald og skattar á bensín, dísilolíu og olíu til upphitunar séu almennt lægri hér á landi en hjá öðrum Norðurlöndum. OECD hefur enn fremur bent á að gjald sem ýmsar þjóðir hafa lagt á útblástur koltvísýrings sé um það bil 80% of lágt til þess að það nýtist sem skyldi til að verja loftslag jarðarinnar en í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar kemur fram að kolefnisgjald á 90% losunar þjóða sé undir lágmarksviðmiði og að ekkert gjald sé lagt á full 60% losunarinnar. Með því að hækka gjöldin og láta þau ná til fleiri eldsneytistegunda, eins og steinolíu og kola, væri hægt að draga úr losun á gróðurhúsaloftteg­undum og öðrum mengunarvöldum. 1. minni hluti telur að afnema eigi undanþágur frá kol­efnisgjaldi og mælist til þess að sú vinna fari fram á komandi þingi. Hér er hins vegar lögð til hækkun á gjaldinu fyrir næsta ár.

Komugjöld á ferðamenn.
    Í nokkur ár hefur verið rætt talsvert um hvers konar skattlagningu og gjaldtöku á ferða­þjónustuna. Ferðaþjónusta er orðinn stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar og hefur átt ríkan þátt í efnahagsbata samfélagsins á undanförnum árum. Hún skilar þegar miklum verðmætum til samfélagsins en eigi að síður hefur verið töluverð pólitísk umræða um aukna gjaldtöku á ferðaþjónustuna sem nýtist þá til uppbyggingar innviða fyrir atvinnugreinina sem og rekstur friðlýstra svæða og ferðamannastaða. Í frumvarpinu er lögð til hækkun á gistináttagjaldi sem minni hlutinn tekur undir en leggur að auki til að komið verði á komugjöldum á hvern far­seðil sem gæti skipt verulegu máli við uppbyggingu sem skiptir atvinnugreinina verulegu máli.

Barna- og vaxtabætur.
    Í nokkrum þeirra umsagna sem nefndinni bárust vegna þess frumvarps sem hér er til umfjöllunar er bent á að tekju- og eignaviðmið þau sem barna- og vaxtabætur skerðast eftir hafi ekki hækkað til samræmis við vísitölur og verðlagsþróun undanfarin ár. 1. minni hluti leggur til úrbætur í þessa veru, þannig að þessar fjárhæðir hækki um 35% frá því sem nú er, í stað þeirrar 12,5% hækkunar sem frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Að framangreindu virtu leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi 21. desember 2016.

Katrín Jakobsdóttir.