Ferill 312. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 428  —  312. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um endurskoðendur, nr. 79/2008, með síðari breytingum (eftirlitsgjald).

Frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. mgr. 18. gr. laganna:
     a.      Í stað „50.000 kr.“ í 1. málsl. kemur: 80.000 kr.
     b.      Í stað „1. janúar“ í 2. málsl. kemur: 1. apríl.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 8. mgr. 18. gr. verður árlegt gjald fyrir rekstrarárið 2017 50.000 kr., með gjalddaga 1. janúar 2018.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Við samningu þess hafði ráðuneytið samráð við endurskoðendaráð.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Átta ár eru frá því að núgildandi lög um endurskoðendur tóku gildi. Með lögunum var endurskoðendaráði falið ríkara eftirlit með endurskoðendum en verið hafði. Mikilvægt er að ráðið geti sinnt því eftirlitshlutverki sem það hefur samkvæmt lögunum og með frumvarpinu eru lagðar til breytingar til að tryggja að svo sé.
    Til að standa straum af kostnaði við störf endurskoðendaráðs greiða endurskoðendur árlegt gjald í ríkissjóð, eftirlitsgjald. Gjaldið er lögbundið og nemur 50.000 kr. á hvern endurskoðanda og hefur það verið óbreytt síðastliðin átta ár. Vegna aukins umfangs í rekstri ráðsins nægja tekjur þess ekki fyrir kostnaði og verður því að hækka hið lögbundna gjald til að standa straum af honum. Útgjöld ráðsins hafa aukist m.a. vegna hækkunar launataxta nefndarmanna og meiri sérfræðikostnaðar við stærri mál sem ráðið hefur fengið utanaðkomandi sérfræðinga til að skoða. Einnig eru meiri kröfur gerðar nú um samskipti við eftirlit bæði á Norðurlöndum og annars staðar í Evrópu og fylgir kostnaður slíkum fundum erlendis og samstarfi.
    Talið er rétt að ráðast í þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu til að endurskoðendaráð geti sinnt lögbundnu eftirlitshlutverki sínu.

3. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið þótti ekki kalla á sérstaka skoðun á samræmi við stjórnarskrá.

4. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarp þetta að lögum mun það tryggja rekstur endurskoðendaráðs. Í eftirlitinu felast m.a. kröfur um aukin alþjóðleg samskipti og samskipti við sérfræðinga auk þess sem upp koma umfangsmikil mál sem kalla á aukinn fjölda vinnutíma nefndarmanna. Þessir þættir hafa farið vaxandi á undanförnum árum. Af þeim sökum er mikilvægt að hækka árlegt gjald endurskoðenda til að standa straum af kostnaði við eftirlitið og til að fyrirbyggja að endurskoðendaráð verði rekið með halla.
    Á tímabilinu 2012–2016 voru tekjur af eftirlitsgjaldi endurskoðenda að meðaltali 15,6 m.kr. á ári. Á sama tíma voru gjöld endurskoðendaráðs að meðaltali 19,2 m.kr. Á árinu 2016 voru tekjur af eftirlitsgjaldinu 15,9 m.kr. en gjöld endurskoðendaráðs 22,2 m.kr. Halli ársins var því 6,3 m.kr. Endurskoðendaráð hefur því verið rekið með hærri gjöldum en tekjum. Afgangur var af starfsemi endurskoðendaráðs fyrstu tvö starfsár þess og hefur sá afgangur komið til móts við aukin gjöld ráðsins á undanförnum árum. Þessi sjóður klárast á árinu 2017.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum munu tekjur ríkissjóðs aukast um tæplega 10 m.kr. og yrðu tekjur af eftirlitsgjaldinu þá um 25 m.kr. á ári. Tekjurnar miðast við að gjaldið verði lagt á 318 endurskoðendur en undanfarin tvö ár hefur það verið fjöldi endurskoðenda og er gert ráð fyrir að svo verði áfram. Tekjunum er ætlað að standa undir kostnaði við störf endurskoðendaráðs sem áætlað er að verði um 25 m.kr. á ári. Áhrif á tekjur og gjöld ríkissjóðs eru þannig þau sömu og því ekki gert ráð fyrir að frumvarpið hafi áhrif á afkomu ríkissjóðs.
    Hækkun á eftirlitsgjaldi endurskoðenda hefur áhrif á takmarkaðan hóp í samfélaginu, þ.e. löggilta endurskoðendur. Í byrjun árs 2017 eru löggiltir endurskoðendur 321 og eru kynjahlutföllin eftirfarandi: 234 karlar og 87 konur. Markmiðið með hækkun gjaldsins er að bregðast við hækkun kostnaðar við eftirlit með endurskoðendum. Niðurstaða matsins er að breytingin sem lögð er til í frumvarpinu muni ekki hafa áhrif á stöðu kynjanna innan hópsins þar sem breytingin er tæknilegs eðlis og er einungis til að koma til móts við aukin útgjöld endurskoðendaráðs við eftirlit með endurskoðendum.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Frá 1. janúar 2009, þegar núgildandi lög um endurskoðendur tóku gildi, hefur hver endurskoðandi verið skyldugur til að greiða árlegt gjald að fjárhæð 50.000 kr. til að standa straum af kostnaði við störf endurskoðendaráðs.
    Vert er að taka fram að á fyrstu tveimur starfsárunum var ráðið rekið með afgangi og náði sá afgangur að ganga upp í halla næstu fjögurra ára á eftir. Endurskoðendaráð hefur því í raun einungis verið rekið með halla síðastliðið eina og hálfa árið.
    Mikilvægt er að hækka árlegt gjald endurskoðenda til að koma til móts við halla ársins 2016 og hluta árs 2015 og til að fyrirbyggja að framvegis verði endurskoðendaráð rekið með halla.

Um 2. gr.

    Eftirlitsgjald endurskoðenda hefur verið innheimt eftir á þannig að gjaldið fyrir 2015 var innheimt í byrjun árs 2016. Talið er rétt að þessu verði breytt þannig að í byrjun árs verði innheimt fyrir yfirstandandi ár. Því verður innheimt 50.000 kr. eftirlitsgjald fyrir 2017 í byrjun árs 2018 en eftirlitsgjaldið fyrir 2018, 80.000 kr., verður innheimt 1. apríl 2018.

Um 3. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.