Ferill 235. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 714  —  235. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á vopnalögum, nr. 16/1998, með síðari breytingum (forefni til sprengiefnagerðar, EES-reglur).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Skúla Þór Gunnsteinsson og Kristínu Einarsdóttur frá innanríkisráðuneyti. Umsagnir bárust frá Persónuvernd, Neytendastofu og ríkislögreglustjóra.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á vopnalögum, nr. 16/1998, sem taldar eru nauðsynlegar til að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 98/2013 frá 15. janúar 2013 um markaðsetningu og notkun forefna sprengiefna sem tekin var upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2014 frá 12. desember 2014.
    Framangreindri reglugerð er ætlað að koma á samræmdum reglum um aðgengi, markaðssetningu, umráð og notkun forefna en tilgangurinn með reglunum er að takmarka aðgengi almennings að tilteknum efnum sem talin eru upp í viðaukum við reglugerðina og reyna þannig að tryggja öryggi almennings. Reglurnar fela í sér takmarkanir á notkun efnanna, skilyrði um skráningu þeirra, tilkynningarskyldu og eftirlit vegna þeirra.
    Í fyrirliggjandi frumvarpi er lagt til bann við heimatilbúnum sprengjum og að forefni til sprengiefnagerðar verði skilgreind í vopnalögum. Að auki er lagt til að ráðherra fái heimild til að kveða á um það í reglugerð hvaða forefni skuli háð takmörkunum, hvaða forefni skuli vera tilkynningarskyld, að öll viðskipti með tiltekin forefni til sprengiefnagerðar skuli skráð og hvaða viðmið eigi að viðhafa við mat á því hvort um grunsamleg viðskipti sé að ræða.
    Á fundum nefndarinnar var rætt um hugtakið almennir borgarar og skilgreiningu þess samkvæmt frumvarpinu. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að hugtakið gæti verið of víðtækt þar sem hluta almennra borgara þurfi vegna starfa sinna eða viðskipta að vera heimilt að nota tiltekin forefni. Nefndin leggur því til að hugtakið „almennir borgarar“ verði skilgreint nánar í 1. mgr. a-liðar 4. gr. frumvarpsins þannig að almennum borgurum verði óheimilt, í öðru skyni en vegna atvinnugreinar sinnar, viðskipta eða starfsgreinar, að hafa í fórum sínum og nota forefni sprengiefna sem sæta takmörkunum í meiri styrkleika en viðmiðunarmörk samkvæmt reglugerð kveða á um. Nefndin bendir á að þessi breyting er í samræmi við markmið þeirrar reglugerðar sem verið er að innleiða, þ.e. að almennir borgarar eigi aðeins að geta orðið sér úti um, flutt inn, haft í vörslu sinni eða notað slík forefni í lögmætum tilgangi.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið þess efnis að eðlilegt væri að tilgreina einungis einn aðila sem fengi það hlutverk að taka við tilkynningum um grunsamleg viðskipti en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að slíkar tilkynningar skuli senda til lögreglustjóra, tollstjóra eða annars tengiliðar á landsvísu. Nefndin tekur undir þau sjónarmið og leggur til breytingartillögu er þetta varðar en telur rétt að ráðherra ákveði hver sá tengiliður verður í reglugerð.
    Þá var nefndinni bent á að það mætti skilgreina hugtakið „heimatilbúin sprengja“. Nefndin bendir á að alla jafna eru einstök vopn ekki skilgreind í vopnalögum, nr. 16/1998, og mikilvægt er að gæta lagasamræmis.
    Fyrir nefndinni komu einnig fram sjónarmið þess efnis að færa mætti leyfisveitingar skv. 3. mgr. 30. gr. vopnalaga frá ríkislögreglustjóra til lögreglustjóra, slíkt væri til hagræðingar og í samræmi við aðrar leyfisveitingar sem samkvæmt vopnalögum eru veitt af lögreglustjóra. Nefndin er sammála því að rétt sé að skoða hvort samræma megi hvaða aðili hafi umsjón með leyfisveitingum samkvæmt vopnalögum en telur að það þurfi nánari athugunar við auk þess sem það fellur illa að efni frumvarpsins sem ætlað er að innleiða Evrópugerð. Nefndin beinir því til dómsmálaráðuneytis að taka þetta atriði til nánari skoðunar.
    Nefndin leggur jafnframt til minni háttar orðalagsbreytingar á 1. mgr. a- og c-liðar og 2. mgr. c-liðar 4. gr. meðal annars til að gæta samræmis við orðalag frumvarpsins.
    Oddný Harðardóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 4. gr.
     a.      Á eftir orðunum „Almennum borgurum er óheimilt“ í 1. mgr. a-liðar (27. gr. a) komi: í öðru skyni en vegna atvinnugreinar sinnar, viðskipta eða starfsgreinar.
     b.      Í stað orðsins „sprengiefna“ í 1. mgr. a-liðar (27. gr. a) komi: til sprengiefnagerðar.
     c.      Í stað orðanna „til lögreglustjóra, tollstjóra eða annars tengiliðar á landsvísu“ í 1. og 2. mgr. b-liðar (27. gr. b) og í stað orðanna „lögreglustjóra, tollstjóra eða öðrum aðila á landsvísu“ í 5. mgr. c-liðar (27. gr. c) komi: til tengiliðar á landsvísu sem ákveðinn er af ráðherra í reglugerð; og: tengilið á landsvísu sem ákveðinn er af ráðherra í reglugerð.
     d.      Á eftir orðunum „að viðskipti með forefni“ í 1. mgr. c-liðar (27. gr. c.) komi: til sprengiefnagerðar.
     e.      Í stað orðsins „nafn“ í b-lið 2. mgr. c-liðar (27. gr. c) komi: heiti.

Alþingi, 5. maí 2017.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
form.
Nichole Leigh Mosty,
frsm.
Vilhjálmur Árnason.
Björn Leví Gunnarsson. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. Valgerður Gunnarsdóttir.
Pawel Bartoszek. Andrés Ingi Jónsson. Eygló Harðardóttir.