Ferill 405. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 830  —  405. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vegabréf, nr. 136/1998, með síðari breytingum (samningar um framleiðslu vegabréfa).

Frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Með frumvarpinu er lagt til að Þjóðskrá Íslands verði veitt heimild til þess að semja um vegabréf og framleiðslukerfi þeirra til lengri tíma en fimm ára, að hámarki þó til tíu ára. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að fyrirhugað sé að Þjóðskrá Íslands leigi nýtt kerfi til framleiðslu vegabréfa til a.m.k. átta ára, að undangengnu útboði. Sá kostur muni hafa minnstan kostnað í för með sér, tryggja góða þjónustu, takmarka áhættu við framleiðsluna og uppfylla öryggisskilyrði. Við 1. umræðu þingsins um frumvarpið lýsti dómsmálaráðherra því yfir að mun hagkvæmara væri að semja um leigu á nýju kerfi til a.m.k. átta ára frekar en að breyta því kerfi sem fyrir væri. Sú leið hefði í för með sér minnstan kostnað, tryggði góða þjónustu, takmarkaði áhættu við framleiðslu og uppfyllti um leið öll öryggisskilyrði, en miklar kröfur væru gerðar til framleiðslu vegabréfa. Með þessari leið var talið tryggt að íslenska ríkið gæti uppfyllt þær kröfur sem gerðar væru til framleiðslu vegabréfa á alþjóðavettvangi.
    Á fundum nefndarinnar kom síðan í ljós að ekki hafði staðið til að leigja kerfið heldur að kaupa það og greiða á átta ára tímabili. Minni hluti allsherjar- og menntamálanefndar telur ekki til eftirbreytni að málinu hafi verið vísað til 2. umræðu þar sem greinargerðin er röng og að umræða þingsins um frumvarpið hefur farið fram á röngum forsendum. Ekki er mögulegt að breyta greinargerð frumvarpsins án þess að það verði lagt fram að nýju. Það skiptir engu um hvort lagaákvæðið sjálft tilgreini ekki hvort um sé að ræða leigu eða kaup. Greinargerð frumvarpsins lýsir vilja löggjafans og er notað sem lögskýringargagn við túlkun laganna. Þar sem núverandi greinargerð endurspeglar ekki vilja löggjafans er frumvarpið gallað í núverandi mynd.
    Við setningu laga nr. 116/2016, um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um málefni aldraðra, með síðari breytingum, urðu þau mistök að ákvæði var fest í lög sem veitti ellilífeyrisþegum réttindi umfram vilja löggjafans. Þessi mistök voru síðar leiðrétt með lögum nr. 9/2017, um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum. Við meðferð þess máls (þskj. 285, 150. mál) var því borið við að vilji löggjafans í greinargerð hefði verið skýr og þau rök notuð sem grundvöllur fyrir því að réttlæta afturvirka lagasetningu sem skerti réttindi ellilífeyrisþega afturvirkt sem og þá framkvæmd Tryggingastofnunar ríkisins að fara ekki að lögum í tvo mánuði við greiðslu ellilífeyris. Þannig er mikilvægt að samræmis sé gætt í störfum og meðferð mála á Alþingi og að virðing sé borin fyrir hlutverki greinargerða við lagasetningu.
    Minni hlutinn telur vissulega mikilvægt að Þjóðskrá Íslands fái heimild í lögum til að tryggja að þau kerfi sem notuð eru til gerðar vegabréfa séu á hverjum tíma í samræmi við allar helstu öryggiskröfur. Aftur á móti fæst ekki séð hvers vegna frumvarpið var ekki afturkallað þegar framangreind mistök komu í ljós og frumvarpið lagt fram með réttri greinargerð sem endurspeglaði vilja löggjafans til að velja þá leið sem hagkvæmust þætti hverju sinni, hvort sem um væri að ræða leigu eða kaup. Engin haldbær rök hafa komið fram fyrir því hvers vegna sú leið var ekki farin. Minni hluti allsherjar- og menntamálanefndar telur umrædda málsmeðferð ekki til eftirbreytni og frekar fallna til þess að grafa undan trúverðugleika Alþingis og veita framkvæmdarvaldinu óeðlilega fyrirgreiðslu til þess að afgreiða augljóslega vanbúin og illa unnin lagafrumvörp.
    Trúverðugleiki Alþingis á betra skilið.

19. maí 2017.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir,
frsm.
Björn Leví Gunnarsson.