Ferill 599. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Prentað upp.

Þingskjal 1105  —  599. mál.
Viðbót.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Ástu Guðrúnu Helgadóttur um innheimtuþjónustu Lánasjóðs íslenskra námsmanna.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur Lánasjóður íslenskra námsmanna boðið út innheimtuþjónustu og ef svo er ekki, hvernig samrýmist það lögum um opinber innkaup, nr. 120/2016?

    Mennta- og menningarmálaráðuneytið sendi fyrirspurnina til Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Frá lánasjóðnum fengust þau svör að sjóðnum væri umhugað um að kaupa lögfræðiþjónustu á hagstæðu verði og að innheimtukostnaður til greiðenda væri sanngjarn. Lánasjóðurinn sér sjálfur um fruminnheimtu krafna. Sjóðurinn notast við milliinnheimtu hjá innheimtufyrirtækinu Motus sem hét áður Intrum. Ráðgert er að bjóða milliinnheimtu út á næstunni. Undirbúningur fyrir opið útboð í milliinnheimtu hófst á árinu 2016 en ekki er komin endanleg dagsetning á hvenær útboð verður auglýst. Lánasjóðurinn endurskoðaði á árinu 2016 samninga sína við löginnheimtuaðila. Þær lögmannsstofur sem sáu um innheimtu fyrir hönd sjóðsins voru þrjár en þeim var fækkað í tvær. Með því að notast við fleiri en einn þjónustuaðila í löginnheimtu hefur LÍN betri samningsstöðu til að ná fram hagstæðari samningum. Lánasjóðurinn metur það svo að þessi aðferð virki mun betur en útboð til að ná fram hagstæðum samningum í löginnheimtu og til að ná fram hámarksgæðum við þjónustuna. Þess ber að geta að löginnheimta er undanskilin útboðskyldu, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2016, og því er lánasjóðnum ekki skylt að bjóða út slíka þjónustu.
    Það eru verulegir fjárhagslegir hagsmunir fólgnir í því að þeir lögmenn sem sækja mál fyrir hönd sjóðsins séu reynslumiklir og hafi sérþekkingu á kröfum sjóðsins og lánasafni þar sem kröfur Lánasjóðs íslenskra námsmanna hafa sérstöðu samanborið við kröfur annarra lánastofnana. Hér þarf einnig að hafa í huga að þegar mál sjóðsins eru sótt fyrir dómi hefur niðurstaða dómsins ekki aðeins áhrif á það tiltekna mál sem tekist er á um heldur getur haft fordæmisgildi fyrir öll sambærileg mál og sambærilegar kröfur sjóðsins.
    Er það því mat Lánasjóðs íslenskra námsmanna að almennt útboð henti ekki vel til að ná hagstæðum samningum í lögfræðiþjónustu og löginnheimtu.