Ferill 75. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 163  —  75. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni um viðurlög við því að hylma yfir kynferðisafbrot.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða lög eða reglur brýtur biskup ef hann fylgir fyrirmælum Vatíkansins varðandi kynferðisafbrot presta kirkjunnar, m.a. gagnvart börnum, og hvaða lög hefur kaþólska kirkjan brotið með því að gefa slík fyrirmæli og hóta brottvísun úr starfi sé þeim ekki fylgt?
     2.      Eru fyrirmæli Vatíkansins næg ástæða fyrir lögreglu eða saksóknara til að rannsaka málið frekar og ákæra? Ef ekki, hvað hyggst ráðherra gera til að rannsakaður sé sterkur grunur um skipulagða yfirhylmingu kynferðisafbrota gegn börnum?
     3.      Er það brot á lögum eða reglum sem gilda fyrir einstaklinga að hylma yfir kynferðisafbrot? Eru undanþágur frá þeim ákvæðum og ef svo er, hverjar?
     4.      Er það brot á lögum eða reglum sem gilda um trúfélög, félagasamtök, fyrirtæki eða stofnanir að fyrirskipa félagsmönnum sínum eða starfsmönnum að hylma yfir kynferðisafbrot? Ef ekki, hvað ef þeim fyrirskipunum fylgir hótun um mögulega brottvísun úr starfi? Ef ekki, hvað hyggst ráðherra gera til að koma í veg fyrir slík fyrirmæli og hótanir?
     5.      Hver eru viðurlög við áðurnefndum brotum á lögum og reglum og hver finnst ráðherra að réttmæt viðurlög ættu að vera?


    Í íslenskri stjórnskipan gilda þær grundvallarreglur að dómstólar og ákæruvaldið eru sjálfstæð í störfum sínum og lúta ekki boðvaldi dómsmálaráðherra. Í því ljósi er ekki rétt að ráðherra taki hér afstöðu til þess hvort kaþólska kirkjan gerist hugsanlega brotleg við lög né heldur hvort tilvísuð fyrirmæli Vatíkansins gefi tilefni til sakamálarannsóknar og útgáfu ákæru. Hins vegar heyra kaþólska kirkjan á Íslandi og starfsmenn hennar hér á landi eins og aðrir undir íslensk hegningarlög.
    Í 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, kemur fram að hver sá maður, sem með liðsinni í orði eða verki, fortölum, hvatningum eða á annan hátt á þátt í að brot samkvæmt lögunum er framið skuli sæta þeirri refsingu sem við brotinu er lögð. Í 2. og 3. mgr. sömu greinar er að finna heimild til þess að dæma þátttakanda í broti í vægari refsingu undir tilteknum kringumstæðum eða fella niður refsingu. Í 4. mgr. kemur svo fram að ef brot er fullframið skuli sá sem veitir brotamanni sjálfum eða öðrum liðsinni til þess að halda við ólögmætu ástandi er skapast hefur fyrir brotið, eða nýtur hagnaðar af því, sæta refsingu eftir ákvæðum greinarinnar, enda taki önnur ákvæði laga ekki til verknaðar. Af ákvæðinu er ljóst að hver sá sem hvetur til kynferðisbrota gegn barni skal sæta sömu refsingu og við brotinu liggur.
    Í því sambandi er jafnframt rétt að benda á að samkvæmt b-lið 1. mgr. 16. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, er öllum skylt að tilkynna til barnaverndarnefndar ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Samkvæmt 2. mgr. 96. gr. sömu laga varðar það enn fremur sektum eða fangelsi allt að tveimur árum láti maður hjá líða að tilkynna barnaverndarnefnd um svo illa meðferð eða slæman aðbúnað barns að lífi þess eða heilsu sé hætta búin. Engar undanþágur eru frá framangreindum ákvæðum og taka þau jafnt til starfsmanna trúfélaga sem annarra.
    Að lokum er bent á að lögaðilar geta borið refsiábyrgð eftir II. kafla A almennra hegningarlaga. Eðli málsins samkvæmt verða lögaðila einungis gerðar sektir en ekki fangelsisvist, sbr. 19. gr. a laganna.