Ferill 29. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 179  —  29. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Eygló Harðardóttur um Lánasjóð íslenskra námsmanna.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hver er stefna og sýn ráðherra gagnvart Lánasjóði íslenskra námsmanna?

    Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2018–2022, 402. mál á 146. löggjafarþingi, var lýst framtíðarsýn og meginmarkmiðum málefnasviðs 21 fyrir háskólastigið. Þar kemur fram að áfram verði stuðlað að jöfnu aðgengi að námi óháð efnahag og því að íslenskir námsmenn fari utan til að afla sér menntunar og reynslu við erlenda háskóla. Í þessu skyni er stefnt að því að taka upp námsstyrkjakerfi að norrænni fyrirmynd og að námsaðstoð verði miðuð við fulla framfærslu.
    Til að stefnan nái fram að ganga eru þrjú markmið skilgreind sérstaklega fyrir málaflokk 21.4, stuðningur við námsmenn:
    „1.     Jafnari og gagnsærri dreifing á framlagi ríkisins til nemenda. Framlag ríkisins til námsmanna í gegnum Lánasjóð íslenskra námsmanna (LÍN) hefur verið metið 47% af útlánum hvers árs á undanförnum árum. Annars vegar felst framlag eða styrkur ríkisins aðallega í því að vextir eru 1% lægri en meðalvextir við fjármögnun sjóðsins (3,69%, 2014–2015) og hins vegar að lánin falla niður við andlát lánþega. Að auki eru afborganir af lánum sjóðsins tekjutengdar og því er greiðsluflæði lánanna ekki þekkt þótt greitt sé reglulega af þeim. Styrknum er mjög misskipt á milli einstaklinga þar sem stærstur hluti hans fer til þeirra sem taka hæstu lánin og fara seint í nám en þeir sem hefja nám ungir og taka hóflegri lán eru líklegri til að greiða námslán sín til baka að fullu. Það er markmið ráðuneytisins að gera dreifingu styrksins gagnsærri og jafnari og með því bregðast við ábendingum Ríkisendurskoðunar um fjárhagslega áhættu sjóðsins.
    2.      Hækka námsaðstoð að framfærsluviðmiði. Meginmarkmið LÍN, að tryggja að allir námsmenn fái tækifæri til náms án tillits til efnahags, verður treyst með því að hækka námsaðstoð úr 93% af framfærsluviðmiði sjóðsins í 100%.
    3.     Bætt námsframvinda nemenda í háskólum. Bætt námsframvinda dregur úr skuldsetningu nemenda og stuðlar að bættri nýtingu fjármuna í menntakerfinu og aukinni skilvirkni. Slíkt svigrúm má nýta til að auka þjónustu við nemendur og efla gæði kennslu. Til að stuðla að bættri námsframvindu er stefnt að því, með nýjum lögum um LÍN, að nemendur sem geta sýnt fram á fulla námsframvindu eigi rétt á námsstyrk til framfærslu meðan á skólaárinu stendur.“
    Markmið sem sett voru fram í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2018, 1. mál á 147. löggjafarþingi, taka mið af framangreindu.