Ferill 7. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 7  —  7. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, með síðari breytingum (dvalarleyfi vegna iðnnáms).

Frá dómsmálaráðherra.



1. gr.

    15. tölul. 3. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 65. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Fullt nám er samfellt nám á háskólastigi, þ.m.t. nám á háskólastigi sem fram fer á vinnustöðum, eða annað það nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Sá sem sækir einstök námskeið telst ekki stunda fullt nám.
     b.      Á eftir 4. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Heimilt er að veita útlendingi dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu að uppfylltum skilyrðum 2. mgr. vegna iðnnáms og viðurkennds starfsnáms á framhaldsskólastigi.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta, sem samið er í dómsmálaráðuneytinu, kveður á um tvær breytingar. Annars vegar er lögfest heimild til að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi vegna iðnnáms eða annars viðurkennds starfsnáms á framhaldsskólastigi og hins vegar er, til samræmis við þetta, felld út skilgreining á hugtakinu nám í orðskýringaákvæði 3. gr., en þar hefur það verið skilgreint sem nám á háskólastigi sem uppfyllir tiltekin skilyrði. Sú skilgreining verður takmörkuð við skýringu á 1. mgr. 65. gr. ef frumvarpið verður að lögum. Við framkvæmd á nýjum lögum um útlendinga, nr. 80/2016, hefur komið í ljós að lagagrundvöll skorti til að útlendingar gætu fengið leyfi til dvalar til að stunda m.a. iðnnám, líkt og heimilt var samkvæmt eldri lögum um útlendinga, nr. 96/2002. Þetta leiddi til þess að iðnnemum sem þegar höfðu fengið dvalarleyfi hér á landi í gildistíð eldri laga um útlendinga, nr. 96/2002, og óskuðu eftir endurnýjun á grundvelli núgildandi laga var synjað um áframhaldandi dvalarleyfi og gátu þar af leiðandi ekki lokið því iðnnámi sem þeir þegar höfðu hafið. Þá er ekki skýrt samkvæmt lögskýringargögnum að vilji löggjafans hafi verið sá að þrengja heimild til dvalar hér á landi vegna náms og útiloka iðnnema frá námi. Frumvarp þetta er því lagt fram í þeim tilgangi að færa ákvæði laganna um dvöl hér á landi vegna náms til fyrra horfs þannig að heimilt sé að veita dvalarleyfi til nema sem hyggjast stunda hér iðnnám eða viðurkennt starfsnám á framhaldsskólastigi.

2. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið lýtur að því hverjir uppfylli skilyrði laga um útlendinga til að fá útgefið dvalarleyfi hér á landi vegna náms.
    Með frumvarpinu er núgildandi lögum breytt til þess að heimila útgáfu dvalarleyfis á grundvelli náms til einstaklinga sem stunda iðnnám.

3. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið gaf ekki tilefni til að samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar væri skoðað sérstaklega.

4. Samráð.
    Frumvarpið snertir fyrst og fremst þá einstaklinga sem sækja um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli iðnnáms.
    Samráð var haft við starfsfólk á leyfasviði Útlendingastofnunar.
    Frumvarpið var borið undir mennta- og menningarmálaráðuneytið.

5. Mat á áhrifum.
    Með frumvarpinu er framkvæmd varðandi dvalarleyfi vegna náms færð til fyrra horfs, nánar tiltekið þess sem í gildi var í eldri lögum um útlendinga, nr. 96/2002. Þeir einstaklingar sem hingað koma og stunda iðnnám eða annað viðurkennt starfsnám á framhaldsskólastigi þurfa eftir sem áður að sýna fram á að þeir uppfylli grunnskilyrði dvalarleyfis, sbr. 1. og 2. mgr. 55. gr. laga um útlendinga. Það felur m.a. í sér að viðkomandi þarf að sýna fram á örugga framfærslu og sjúkratryggingu. Mögulegur kostnaður sem félli á ríkissjóð væri þá vegna umsókna um dvalarleyfi, þ.e. sá stjórnsýslukostnaður sem félli á Útlendingastofnun við afgreiðslu umsókna.
    Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að lögfesting þess hafi fjárhagsáhrif á ríkissjóð sem nokkru nemur.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Ákvæði 15. tölul. 3. gr. laganna, orðskýring náms, er fellt brott þar sem það hefur valdið óskýrleika við túlkun laganna. Orðskýringin hefur verið í ósamræmi við túlkun orðsins náms í einstökum greinum laganna og má sem dæmi nefna 4. mgr. 71. gr. laganna, en í lögskýringargögnum kemur skýrt fram að með námi sé í því tilviki átt við framhaldsskólanám. Orðskýring náms í 15. tölul. 3. gr. er hins vegar afdráttarlaus og gerir ekki ráð fyrir því að með námi geti verið átt við framhaldsskólanám, iðnnám, starfsnám eða annað viðurkennt nám.

Um 2. gr.

    Skilgreining á námi skv. 65. gr. laganna er nú felld inn í ákvæðið sjálft. Er þar jafnframt sett fram meginregla við túlkun laganna á því hvað sé átt við með námi sem getur orðið grundvöllur dvalarleyfis. Er stuðst við þá meginreglu að nám skuli vera á háskólastigi.
    Þá er í 4. mgr. sömu greinar lögð til undanþága frá áðurnefndri meginreglu þess efnis að heimilt sé að veita iðnnemum dvalarleyfi á grundvelli náms hér á landi. Í 12. gr. e eldri laga um útlendinga, nr. 96/2002, var sérstaklega tekið fram að ákvæðið ætti jafnframt við um iðnnám. Það er ekki svo í núgildandi 65. gr. laga um útlendinga. Í lögskýringargögnum, þ.m.t. greinargerð og umræðum á Alþingi um frumvarp það er varð að lögum nr. 80/2016, er ekki að finna skýra vísbendingu um ákvörðun löggjafans að fella iðnnema sérstaklega úr skilgreiningu laganna á námi. Hefur breytingin leitt til þess að iðnnemar sem hafa stundað nám hér á landi á grundvelli dvalarleyfis sem veitt var samkvæmt eldri lögum eru í þeirri stöðu að fá dvalarleyfi sín ekki endurnýjuð. Þá er grundvöllur þeirra, sem ekki hafa áður fengið útgefið dvalarleyfi á grundvelli náms hér á landi, til að leggja fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli iðnnáms brostinn. Miðað er við skilgreiningu Lánasjóðs íslenskra námsmanna hvað varðar lánshæft sérnám á Íslandi en það er löggilt iðnnám og annað a.m.k. eins árs starfsnám á framhaldsskólastigi sem hlotið hefur staðfestingu ráðherra samkvæmt lögum nr. 92/2008, um framhaldsskóla, og uppfyllir að auki skilyrði stofnunarinnar, m.a. um jákvæða umsögn viðkomandi starfsgreinaráðs. Miðað er við nám í iðngreinum frekar en öðrum greinum á framhaldsskólastigi þar sem iðnnám er sérhæft nám sem veitir tiltekin starfsréttindi. Þá hafa Íslendingar haft tækifæri til þess að sækja sér sérhæfða iðnmenntun út fyrir landsteinana og telst því óeðlilegt að erlendum nemum sé gert ókleift að dvelja hér til að stunda iðnnám. Þá er einnig vert að benda á að þrátt fyrir að ákvæðið nái ekki til bóklegs náms á framhaldsskólastigi stendur nemendum í slíku námi til boða að sækja um dvalarleyfi á grundvelli annarra ákvæða, t.d. á grundvelli fjölskyldusameiningar eða skiptináms.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.