Ferill 456. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 655  —  456. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á ábúðarlögum, nr. 80/2004 (úttekt og yfirmat).

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.



1. gr.

    Við 42. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Úttektarmenn skulu birta málsaðilum niðurstöðu úttektar eins fljótt og unnt er.

2. gr.

    Í stað orðanna „frá dagsetningu úttektar“ í 1. mgr. 44. gr. laganna kemur: frá því að málsaðilum hefur verið birt niðurstaða úttektar.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ákvæðum 42. og 44. gr. ábúðarlaga vegna ábendingar umboðsmanns Alþingis til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 31. júlí 2017. Í erindinu var bent á skamman kærufrest skv. 44. gr. laganna. Þótti umboðsmanni rétt að vekja athygli ráðuneytisins á þessu máli þar sem kærufrestur samkvæmt ákvæðum laganna byrjar að jafnaði að líða áður en málsaðila hefur verið tilkynnt um ákvörðun. Vegna framangreinds er lagt til að 42. og 44. gr. ábúðarlaga verði breytt til að skýrt komi fram að frestur til að krefjast yfirmats vegna úttektar byrji ekki að líða fyrr en málsaðila hefur verið birt niðurstaða úttektar. Í gildandi lögum er miðað við 15 daga frest frá dagsetningu úttektar en í frumvarpinu er lagt til að miðað sé við 15 daga frest frá því að málsaðila hefur verið birt niðurstaða úttektar.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Þar sem kærufrestur skv. 44. gr. gildandi laga er mjög skammur og upphaf hans miðað við dagsetningu úttektar fremur en birtingu niðurstöðu úttektar til málsaðila þykir nauðsynlegt að kveða á um það með skýrum hætti að fyrrgreindur frestur byrji ekki að líða fyrr en við birtingu á niðurstöðu úttektar. Samkvæmt gildandi lögum byrjar fresturinn að jafnaði að líða áður en málsaðila hefur verið tilkynnt um niðurstöðu úttektar.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að 42. og 44. gr. ábúðarlaga verði breytt til að skýrt komi fram að frestur til að krefjast yfirmats vegna úttektar byrji ekki að líða fyrr en málsaðila hefur verið birt niðurstaða úttektar.
4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið gaf ekki tilefni til að skoða samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarpið er samið með hliðsjón af ábendingu umboðsmanns Alþingis og gaf ekki tilefni til víðtæks samráðs.

6. Mat á áhrifum.
    Afleiðingar af samþykkt frumvarpsins eru almenningi til hagsbóta þar sem tryggt verður að frestur til að krefjast yfirmats vegna úttektar byrjar ekki að líða fyrr en málsaðila hefur verið birt niðurstaða úttektarinnar. Að öðru leyti hefur samþykkt frumvarpsins ekki áhrif.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum hefur það ekki áhrif á tekjur eða gjöld ríkissjóðs.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um að birta skuli niðurstöðu úttektar eins fljótt og unnt er. Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 2. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um að frestur til að krefjast yfirmats vegna niðurstöðu úttektar byrji ekki að líða fyrr en málsaðilum hefur verið birt niðurstaða úttektarinnar. Þar sem miðað er við dagsetningu úttektar í gildandi lögum byrjar fresturinn að jafnaði að líða áður en málsaðila hefur verið tilkynnt um niðurstöðu úttektar. Þar af leiðandi þykir nauðsynlegt að skýrt verði kveðið á um að miðað sé við birtingu úttektar til málsaðila.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.