Ferill 457. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 656  —  457. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi (áhættumat erfðablöndunar, úthlutun eldissvæða, stjórnvaldssektir o.fl.).

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.



I. KAFLI

Breyting á lögum um fiskeldi, nr. 71/2008, með síðari breytingum.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða 3. gr. laganna:
     a.      20. tölul. orðast svo: Sjókvíaeldi: Eldi á eldisdýrum í kvíum eða lokuðum eldisbúnaði sem komið er fyrir í sjó eða söltu vatni.
     b.      Við bætast ellefu nýjar skilgreiningar, í viðeigandi stafrófsröð, svohljóðandi:
                  1.      Áhættumat erfðablöndunar: Mat á því magni frjórra eldislaxa sem strjúka úr sjókvíaeldi og vænta má að komi í ár þar sem villta laxastofna er að finna og þar sem metið er hvenær erfðablöndun eldislax við villta nytjastofna verði það mikil að stofngerð villta stofnsins stafi hætta af.
                  2.      Eldissvæði: Svæði þar sem fiskeldi er leyft og afmarkað með sérstökum hnitum.
                  3.      Kví: Netpoki sem hangir í fljótandi grind eða er festur á grind sem komið er fyrir við yfirborð lagar.
                  4.      Lax: Fiskur af tegundinni Salmo salar.
                  5.      Laxfiskar: Fiskar af tegundunum lax ( Salmo salar), urriði ( Salmo trutta), bleikja ( Salvelinus alpinus) og regnbogasilungur ( Oncorhynchus mykiss).
                  6.      Lífmassi: Lífmassi er margfeldi af fjölda og meðalþyngd eldisdýra á tilteknu eldissvæði.
                  7.      Lokaður eldisbúnaður: Eldisbúnaður þar sem eldisdýrum er haldið í lokuðu rými í sjó eða söltu vatni, sjó- eða vatnsskiptum er stýrt og mögulegt er að endurnýta úrgang vegna eldisins með því að fjarlægja hann úr eldisbúnaðinum. Slíkur eldisbúnaður skal standast sömu staðla og kröfur og gerðar eru til kvía sem notaðar eru í sjó.
                  8.      Ófrjór lax: Lax sem framleiðir ekki frjóar kynfrumur.
                  9.      Sjókvíaeldisstöð: Starfsstöð rekin sem ein heild. Getur verið hefðbundin kví í sjó, sökkvanlegur eða fljótandi lokaður eldisbúnaður, einnig fleki, fóðurlagnir og annar sá búnaður sem er nauðsynlegur til reksturs slíkrar stöðvar.
                  10.      Sníkjudýr: Dýr sem lifir sníkjulífi á eða í eldisdýri og getur valdið því skaða.
                  11.      Villtur laxastofn: Laxastofn þar sem meiri hluti fisks er klakinn í náttúrulegu umhverfi, elst þar upp og er kominn undan villtum foreldrum.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 3. mgr. fellur brott.
     b.      4. mgr. fellur brott.

3. gr.

    Á eftir 4. gr. laganna kemur ný grein, 4. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Skipting hafsvæða í eldissvæði, auglýsing og úthlutun þeirra.

    Hafrannsóknastofnun skal ákveða skiptingu fjarða eða hafsvæða í eldissvæði á grundvelli burðarþols og hagkvæmastrar nýtingar þessara svæða. Áður en Hafrannsóknastofnun skiptir upp svæðum skal stofnunin leita umsagnar Samgöngustofu, Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar, Matvælastofnunar, Landhelgisgæslu Íslands og aðliggjandi sveitarfélaga.
    Þegar burðarþol, áhættumat erfðablöndunar og svæðaskipting skv. 1. mgr. liggur fyrir úthlutar ráðherra eða stofnun í hans umboði eldissvæðum. Ráðherra ákveður hvenær eldissvæðum er úthlutað og hversu mörgum er úthlutað hverju sinni.
    Auglýsa skal opinberlega úthlutun eldissvæða og skal úthluta svæðum samkvæmt hagstæðasta tilboði. Við mat á hagstæðasta tilboði kemur meðal annars til skoðunar reynsla af fiskeldisstarfsemi, samfélagsleg ábyrgð, fjárhagslegur styrkur og mælikvarðar sem mæla hvernig tilboðsgjafi hefur stundað rekstur sinn og upplýsingar um það hvernig tilboðsgjafi hyggst stunda reksturinn, m.a. út frá umhverfissjónarmiðum.
    Komi í ljós að umsækjandi uppfyllir ekki skilmála úthlutunar eða umsókn hans um rekstrarleyfi er hafnað af Matvælastofnun, þar sem hún er ekki í samræmi við lög þessi, er heimilt að úthluta eldissvæðum að nýju samkvæmt þessari grein.
    Heimilt er að úthluta eldissvæðum að nýju þegar eldra rekstrarleyfi fellur niður, því er breytt þannig að gefa þarf út nýtt rekstrarleyfi eða þegar rekstrarleyfið uppfyllir ekki skilyrði laga sem um það gilda þegar gildistími þess rennur út.
    Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um skiptingu hafsvæða í eldissvæði, um auglýsingu, úthlutun eldissvæða, skilmála úthlutunar, hvað teljist hagstæðasta tilboð og afturköllun tilboðs.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. a laganna, sem verður 4. gr. b:
     a.      2. mgr. verður svohljóðandi:
                      Þegar ákvörðun Skipulagsstofnunar, eða eftir atvikum hlutaðeigandi sveitarstjórnar, um að framkvæmd sé ekki matsskyld eða álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar liggur fyrir skal umsækjandi afhenda Matvælastofnun umsóknir um leyfi skv. 1. mgr., sbr. þó 2. mgr. 17. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, og skulu þær afgreiddar samhliða.
     b.      Í stað 2.–4. málsl. 3. mgr. kemur einn nýr málsliður, svohljóðandi: Hvor stofnun um sig skal tilkynna umsækjanda hvort umsókn telst fullnægjandi innan mánaðar frá því að umsókn berst.
     c.      6. málsl. 3. mgr. verður svohljóðandi: Matvælastofnun afhendir umsækjanda útgefin starfs- og rekstrarleyfi samtímis.

5. gr.

    5. gr. laganna fellur brott ásamt fyrirsögn.

6. gr.

    Við 2. mgr. 6. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra er heimilt að taka tillit til sjónarmiða um aðra nýtingu hafsvæða en nýtingu vegna fiskeldis við ákvörðun sína skv. 1. mgr.

7. gr.

    Á eftir 6. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 6. gr. a og 6. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (6. gr. a.)

Lífmassi frjórra laxa í sjókvíaeldi.

    Hafrannsóknastofnun skal gefa út áhættumat erfðablöndunar þar sem fram kemur það magn frjórra laxa, mælt í lífmassa, sem leyfilegt er að ala í sjókvíum hverju sinni. Áhættumat erfðablöndunar skal Hafrannsóknastofnun gefa út svo oft sem þörf þykir að mati stofnunarinnar en þó eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti.
    Matvælastofnun skal hafa eftirlit með að leyfilegur lífmassi frjórra laxa í rekstrarleyfi sé í samræmi við niðurstöður áhættumats erfðablöndunar á hverjum tíma. Lífmassi frjórra laxa hvers rekstrarleyfis skal þannig breytast í hlutfalli við leyfilegan lífmassa frjórra laxa á svæðinu samkvæmt áhættumati erfðablöndunar hverju sinni skv. 1. mgr.
    Matvælastofnun skal gefa út rekstrarleyfi fyrir ófrjóan lax á tilteknu eldissvæði í samræmi við leyfilegan lífmassa áhættumats erfðablöndunar á hverjum tíma. Ætli rekstrarleyfishafi að stunda bæði eldi á frjóum og ófrjóum laxi skal Matvælastofnun gefa út aðskilin rekstrarleyfi. Eldi ófrjórra laxa skal halda aðgreindu frá eldi frjórra laxa.
    Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um notkun og framkvæmd áhættumats erfðablöndunar, svo sem um útgáfu rekstrarleyfa og framkvæmd breytinga á rekstrarleyfum við endurskoðun áhættumats.

    b. (6. gr. b.)

Burðarþolsmat.

    Ráðherra ákveður hvaða firði eða hafsvæði skuli meta til burðarþols og hvenær það skuli gert. Burðarþolsmat skal framkvæmt af Hafrannsóknastofnun eða aðila sem ráðuneytið samþykkir að fenginni bindandi umsögn Hafrannsóknastofnunar.
    Hafrannsóknastofnun skal vakta lífrænt álag þeirra svæða sem þegar hafa verið metin til burðarþols og endurskoða matið svo oft sem þörf þykir að mati stofnunarinnar. Við endurskoðun burðarþolsmatsins skal lífmassi hvers rekstrarleyfis breytast í hlutfalli við leyfilegan lífmassa eldisdýra á hafsvæðinu samkvæmt burðarþolsmatinu. Sama gildir um starfsleyfi sem gefin eru út samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.
    Matvælastofnun skal hafa eftirlit með að leyfilegur lífmassi eldisdýra í rekstrarleyfi sé í samræmi við niðurstöður burðarþols á hverjum tíma. Rekstrarleyfishafa er þannig óheimilt að stunda eldi sem felur í sér meiri lífmassa á eldissvæði á hverjum tíma en rekstrarleyfi kveður á um.
    Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um notkun og framkvæmd mats á burðarþoli og framkvæmd breytinga á rekstrarleyfum vegna endurskoðunar burðarþolsmats.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 2. mgr. verður svohljóðandi: Umsækjandi skal uppfylla kröfur sem gerðar eru um heilbrigði lagareldisdýra og afurða þeirra, um forvarnir og varnir gegn tilteknum sjúkdómum í lagardýrum og um velferð lagareldisdýra.
     b.      3. mgr. verður svohljóðandi:
                      Sé um endurnýjun á rekstrarleyfi að ræða skal Matvælastofnun endurmeta hvort umsækjandi uppfylli kröfur sem gerðar eru til rekstursins skv. 2. mgr.

9. gr.

    8. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Umsókn um rekstrarleyfi til fiskeldis skal vera skrifleg. Í henni skulu meðal annars koma fram upplýsingar um eignaraðild að fiskeldisstöð, að umsækjandi hafi fullnægjandi fagþekkingu á viðkomandi sviði, að innra eftirlit stöðvar og eldisbúnaður standist kröfur sem nánar er kveðið á um í lögum þessum eða reglugerð um fiskeldi, um stærð og framleiðslumagn stöðvar mælt í lífmassa, eldistegundir, eldisstofna, hlutfall frjórra laxa og ófrjórra í eldi og eldisaðferðir. Einnig skal fylgja umsókn afrit af ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmd sé ekki matsskyld eða álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum
    Umsókn skv. 1. mgr. skulu fylgja gögn um heimild til afnota af landi eða vatni eða gögn um úthlutun eldissvæðis skv. 4. gr. a ef við á. Umsókn skal einnig fylgja rekstraráætlun sem sýnir meðal annars uppbyggingarferil eldis, öflun hrogna og seiða, svo og önnur gögn sem Matvælastofnun eru nauðsynleg til að meta hvort skilyrði til útgáfu rekstrarleyfis séu fyrir hendi.
    Umsókn um rekstrarleyfi sjókvíaeldisstöðvar skal fylgja áætlun um fjárfestingar í mannvirkjum og búnaði ásamt staðfestingu á stöðu eigin fjár og eiginfjárhlutfalli umsækjanda þegar umsókn er lögð fram. Eiginfjárhlutfall skal vera að lágmarki 30% að teknu tilliti til fjárfestinga í mannvirkjum og búnaði samkvæmt áætlun.

10. gr.

    9. gr. laganna, ásamt fyrirsögn, verður svohljóðandi:

Afstaða Matvælastofnunar.

    Gefi Skipulagsstofnun út álit um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar skal Matvælastofnun taka rökstudda afstöðu til álitsins áður en tillaga að rekstrarleyfi er auglýst opinberlega.
    Matvælastofnun skal taka rökstudda afstöðu til áhættumats erfðablöndunar skv. 6. gr. a og burðarþolsmats skv. 6. gr. b og sjúkdómstengdra þátta sem kunna að fylgja starfsemi fiskeldisstöðvar.

11. gr.

    1.–4. mgr. 10. gr. laganna verða svohljóðandi:
    Telji Matvælastofnun að umsókn um rekstrarleyfi fullnægi skilyrðum laga þessara, og eftir auglýsingu tillögu að rekstrarleyfi skv. 10. gr. a, skal stofnunin gefa út rekstrarleyfi. Rekstrarleyfi sem gefin eru út eftir úthlutun skv. 4. gr. a eru ótímabundin en önnur rekstrarleyfi skulu gefin út til sextán ára í senn. Ef áhættumat vegna erfðablöndunar skv. 6. gr. a eða burðarþolsmat skv. 6. gr. b mæla með er þó heimilt að gefa út rekstrarleyfi til skemmri tíma.
    Í rekstrarleyfi skulu vera ákvæði um stærð fiskeldisstöðvar mælt í leyfilegum lífmassa og hvort um sé að ræða seiðaeldi, áframeldi, strandeldi, landeldi eða sjókvíaeldi, hvort sem það er kynslóðaskipt eða án kynslóðaskiptingar. Þá skal í rekstrarleyfi kveðið á um leyfilegar tegundir í eldi, leyfilega eldisstofna og skyldu rekstrarleyfishafa til að annast vöktun og rannsóknir á nánasta umhverfi sínu. Í rekstrarleyfi fyrir laxeldi skal meðal annars kveðið á um hvort um sé að ræða eldi á frjóum laxi eða ófrjóum, skyldu til notkunar erfðavísa, örmerkinga eða annarra merkinga þannig að unnt sé að rekja uppruna eldislaxa til ákveðinna sjókvíaeldisstöðva. Ráðherra skal setja nánari ákvæði í reglugerð um þær aðferðir sem skylt er að nota til að rekja uppruna eldislaxa til ákveðinna sjókvíaeldisstöðva og um framkvæmd þeirra.
    Ráðherra er í reglugerð heimilt að mæla fyrir um nánari skilyrði sem setja má í rekstrarleyfi.
    Við útgáfu rekstrarleyfis skal þess ávallt gætt að fullnægt sé ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum. Rekstrarleyfi vegna framkvæmdar þar sem Skipulagsstofnun hefur gefið út álit um mat á umhverfisáhrifum umræddrar framkvæmdar skal fylgja greinargerð þar sem farið er yfir málsmeðferðina, tekin afstaða til niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum ef við á og gerð grein fyrir afstöðu Matvælastofnunar til athugasemda sem bárust.

12. gr.

    Á eftir 10. gr. laganna kemur ný grein, 10. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Auglýsing tillögu að rekstrarleyfi. Birting rekstrarleyfis.

    Matvælastofnun skal vinna tillögur að rekstrarleyfi og auglýsa opinberlega hvers efnis þær eru og hvar megi nálgast þær. Matvælastofnun og Umhverfisstofnun skulu auglýsa tillögu að rekstrar- og starfsleyfi á sama tíma. Heimilt er að gera skriflegar athugasemdir við tillögur Matvælastofnunar innan fjögurra vikna frá auglýsingu.
    Matvælastofnun skal innan fjögurra vikna frá því að frestur rann út til að gera athugasemdir við tillögur að rekstrarleyfi taka ákvörðun um útgáfu rekstrarleyfis. Skal Umhverfisstofnun, umsækjanda um rekstrarleyfi og þeim sem athugasemdir hafa gert tilkynnt um afgreiðsluna.
    Matvælastofnun skal auglýsa á vefsíðu sinni útgáfu og gildistöku rekstrarleyfa. Birting á vefsíðu Matvælastofnunar telst vera opinber birting.

13. gr.

    Við 11. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Sjókvíaeldisstöðvar skulu hafa stöðvarskírteini útgefið af faggiltri skoðunarstofu og skal skírteinið aðeins gilda fyrir eina sjókvíaeldisstöð á tilteknum stað. Í stöðvarskírteini skulu koma fram upplýsingar um hönnun, ástand og samsetningu búnaðar sjókvíaeldisstöðvar og vottun um að búnaður uppfylli kröfur laga og gildandi staðla.
    Ráðherra setur nánari reglur um upphaf starfsemi þar sem fram koma meðal annars nánari reglur um staðarúttekt, matsgreiningar festinga, meginíhluti og stöðvarskírteini.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      1. mgr. verður svohljóðandi:
                      Fiskistofa skal án tafar að eigin frumkvæði kanna aðstæður á eldissvæði ef fram koma upplýsingar eða rökstuddur grunur um strokufisk úr kvíum eða lokuðum eldisbúnaði og gera ráðstafanir ef þörf krefur. Rekstrarleyfishafi, sem missir eldisfisk úr fiskeldisstöð eða hann strýkur, skal án tafar tilkynna slíkan atburð til Fiskistofu, Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar verður: Veiðar á fiski sem strýkur.

15. gr.

    Á eftir 13. gr. laganna kemur ný grein, 13. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Innra eftirlit.

    Rekstrarleyfishafi ber ábyrgð á því að sett sé á fót og starfrækt innra eftirlit með starfseminni, þ.m.t. eldisdýrum og heilbrigði þeirra, mannvirkjum og búnaði. Innra eftirlit skal tryggja að starfsemin sé í samræmi við ákvæði laga, stjórnvaldsfyrirmæla eða rekstrarleyfa sem eru sett samkvæmt þeim. Rekstrarleyfishafi skal sannprófa að eftirlit og úrbætur séu í samræmi við reglur um innra eftirlit.
    Innra eftirlit sjókvíaeldisstöðvar skal meðal annars fela í sér vöktun á viðkomu sníkjudýra í eldinu í samræmi við leiðbeiningar sem fram koma í reglugerð sem ráðherra setur. Niðurstöður vöktunar skulu sendar Matvælastofnun sem metur hvort og þá hvaða aðgerða er þörf vegna sníkjudýra í eldinu. Matvælastofnun skal leita umsagnar Hafrannsóknastofnunar áður en ákvörðun um aðgerðir er tekin. Niðurstöður vöktunar skal birta opinberlega í samræmi við 19. gr. b.
    Heimilt er að draga úr tíðni eftirlits hjá rekstrarleyfishafa sem hefur vottun frá faggiltum aðila um að innra eftirlit fyrirtækisins uppfylli kröfur laga og reglna og viðmið Matvælastofnunar um frávik í opinberu eftirliti.
    Rekstrarleyfishafi sjókvíaeldisstöðvar skal, sem hluta af innra eftirliti, starfrækja gæðakerfi þar sem fram koma verklagsreglur, m.a. um þjálfun starfsmanna og viðbragðsáætlanir. Leyfishafi skal sannreyna að verklagsreglur og viðbragðsáætlanir uppfylli markmið og gera nauðsynlegar úrbætur.
    Matvælastofnun skal sannreyna með reglulegum hætti að framkvæmd innra eftirlits með starfseminni sé í samræmi við lög og reglur.
    Ráðherra setur frekari ákvæði um innra eftirlit í reglugerð, þ.m.t. um viðbragðsáætlanir og gæðakerfi.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      3. málsl. 1. mgr. verður svohljóðandi: Eftirlit með heilbrigði og velferð fiska og heilnæmi eldisafurða skal einnig framkvæmt af Matvælastofnun í samræmi við lög þar að lútandi.
     b.      2. mgr. verður svohljóðandi:
                      Til að Matvælastofnun geti framkvæmt eftirlit skv. 1. mgr. skal rekstrarleyfishafi mánaðarlega gefa Matvælastofnun skýrslu um starfsemi sína. Ráðherra skal hafa aðgang að skýrslu rekstrarleyfishafa um starfsemina. Þar skulu meðal annars koma fram upplýsingar um framleiðslumagn stöðvar af slátruðum fiski, eldisrými, fóðurnotkun, birgðir af fiski mældar í lífmassa, uppruna fisks, sjúkdóma, sníkjudýr og önnur óhöpp í rekstri, svo og önnur þau atriði sem stofnuninni eru nauðsynleg til virks eftirlits samkvæmt lögum þessum. Þá skal færð dagbók um starfsemina í fiskeldisstöðvum samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur. Matvælastofnun er heimilt að kalla eftir frekari gögnum en hér greinir þegar tilefni er til.
     c.      Í stað 5. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, 5. og 6. mgr., svohljóðandi:
                      Matvælastofnun skal heimill óheftur aðgangur til skoðunar og eftirlits, þar á meðal til töku sýna og myndatöku, að dagbók rekstrarleyfishafa og að öllum þeim stöðum sem lög þessi og stjórnvaldsreglur ná yfir og er stofnuninni heimilt að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf. Einnig er Matvælastofnun heimilt að taka sýni þar sem starfsemi fer fram og lög þessi og stjórnvaldsreglur settar samkvæmt þeim ná til.
                      Rekstrarleyfishafa eða starfsmönnum hans er skylt að veita aðstoð við framkvæmd eftirlitsins og veita allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits með framkvæmd laga þessara og ber rekstrarleyfishafa endurgjaldslaust að afhenda sýni sem talin eru nauðsynleg til eftirlits. Þá getur opinber eftirlitsaðili ákveðið að rekstrarleyfishafi skuli greiða allan kostnað vegna þvingunarúrræða sem framkvæmd eru samkvæmt lögum þessum og má innheimta slíkan kostnað með fjárnámi án dóms eða sáttar.

17. gr.

    Á eftir 19. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, 19. gr. a – 19. gr. c, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (19. gr. a.)

Tímabundnar rannsóknir Hafrannsóknastofnunar.

    Hafrannsóknastofnun getur, ein eða í samvinnu við aðra, stundað tímabundnar rannsóknir í fiskveiðilandhelgi Íslands á eldi lagardýra, eldisaðferðum, atferli eldisfisks, mannvirkjum, búnaði og heilbrigði lagardýra.
    Ráðherra veitir leyfi til rannsókna skv. 1. mgr. samkvæmt umsókn þar sem fram koma meðal annars upplýsingar um markmið og framkvæmd rannsóknarinnar.
    Við slíkar rannsóknir skal gætt allra varúðarsjónarmiða vegna þeirra eldisstarfsemi sem þegar er starfrækt á viðkomandi svæði og þess gætt að tilraunastarfsemi raski ekki eða auki rekstrarlega áhættu þeirrar starfsemi.
    Hafrannsóknastofnun skal hafa samráð við Matvælastofnun og Umhverfisstofnun um undirbúning og framkvæmd rannsókna.

    b. (19. gr. b.)

Birting upplýsinga úr eftirliti og um framleiðslu.

    Heimilt er að birta opinberlega upplýsingar úr eftirliti Matvælastofnunar og upplýsingar úr rekstrarleyfum og framleiðsluskýrslum einstakra rekstrarleyfishafa skv. 2. mgr. 14. gr.
    Upplýsingar um slysasleppingar og tilkynningarskylda sjúkdóma, svo sem um laxalús, dauða eldisdýra eða slæma meðferð á eldisdýri, skal birta opinberlega þegar slíks verður vart.
    Ráðherra skal setja ákvæði í reglugerð um opinbera birtingu upplýsinga. Slíkar reglur skulu kveða nánar á um framsetningu og inntak birtingarinnar, m.a. að birtingin sé rafræn og á hvaða tímamarki skuli birta slíkar upplýsingar.
    Ráðherra getur meðal annars ákveðið að kæra fresti ekki réttaráhrifum opinberrar birtingar og jafnframt ákveðið að vissum upplýsingum sé haldið leyndum.

    c. (19. gr. c.)

Birting upplýsinga um afturköllun rekstrarleyfa, stjórnsýsluviðurlaga og þvingunarúrræða.

    Matvælastofnun skal greina opinberlega frá niðurstöðum eftirlits og ákvörðunum sem fela í sér:
     a.      afturköllun rekstrarleyfis,
     b.      ákvörðun um úrbætur sem unnar eru á kostnað rekstrarleyfishafa,
     c.      álagningu dagsekta,
     d.      ákvörðun um álagningu stjórnvaldssekta eða sátt málsaðila.

18. gr.

    Lokamálsliður 20. gr. a laganna fellur brott.

19. gr.

    2. mgr. 20. gr. e laganna fellur brott.

20. gr.

    Á eftir 1. málsl. 21. gr. b laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Með sama hætti getur Matvælastofnun látið slátra eldisfiski og hreinsað eldissvæði á kostnað rekstrarleyfishafa þegar hann hefur ekki farið að ákvæðum laga og reglugerða vegna skerðingar á leyfilegum lífmassa frjórra laxa eða lífmassa eldisdýra við breytingu á útgefnu áhættumati erfðablöndunar eða breytingu á útgefnu burðarþoli.

21. gr.

    Á eftir 21. gr. c laganna koma fjórar nýjar greinar, 21. gr. d – 21. gr. g, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (21. gr. d.)

Stjórnvaldssektir.

    Matvælastofnun getur lagt stjórnvaldssektir á rekstrarleyfishafa, hvort heldur hann er einstaklingur eða lögaðili, ef viðkomandi brýtur gegn ákvæði um:
     1.      hámark lífmassa í eldi á hverjum tíma skv. 6. gr. a og 6. gr. b,
     2.      rekstrarleyfisskyldu skv. 7. gr.,
     3.      efni eða gegn fyrirmælum eða skilyrðum rekstrarleyfis skv. 1., 2. eða 3. mgr. 10. gr.,
     4.      úttekt á fiskeldisstöð eða flutning eldisfisks eða seiða skv. 11. gr.,
     5.      tilkynningarskyldu eða skyldu til ráðstafana, aðgerða eða veiða skv. 1., 2. eða 3. mgr. 13. gr.,
     6.      skyldu til að starfrækja innra eftirlit, sannprófa það og framkvæma úrbætur skv. 1. mgr. 13. gr. a,
     7.      skyldu til að vakta viðkomu laxalúsar og upplýsingagjöf um niðurstöðu vöktunar skv. 2. mgr. 13. gr. a,
     8.      skyldu til að skila framleiðsluskýrslu, upplýsingagjöf eða gerð dagbókar um starfsemina og aðgang að henni skv. 2. mgr. 14. gr.,
     9.      skyldu til að afhenda frekari gögn skv. 2. mgr. 14. gr.,
     10.      veitingu aðgangs að eldisstöð og aðstoð við eftirlit skv. 3. og 4. mgr. 14. gr.,
     11.      gilda ábyrgðartryggingu eða ígildi hennar skv. 14. gr. b,
     12.      bann við framsali, leigu og veðsetningu á rekstrarleyfi án skriflegs samþykkis Matvælastofnunar skv. 17. gr.,
     13.      bann við sleppingum kynbætts eldisfisks í fiskrækt eða hafbeit skv. 1. mgr. 19. gr.,
     14.      bann við flutningi og sleppingum eldisfisks og lifandi fisks skv. 2. mgr. 19. gr.,
     15.      bann við innflutningi á notuðum eldisbúnaði án leyfis Matvælastofnunar skv. 20. gr.
    Matvælastofnun getur lagt stjórnvaldssekt á rekstrarleyfishafa ef hann, fyrirsvarsmenn hans, starfsmenn eða aðrir þeir sem í þágu hans starfa hafa brotið gegn ákvæðum laga þessara.
    Sektir geta numið frá 250.000 kr. til 150.000.000 kr.
    Ráðherra skal í reglugerð ákveða fjárhæð stjórnvaldssekta fyrir brot á einstökum ákvæðum laga þessara, sbr. 1. mgr., innan þess ramma sem ákveðinn er í 3. mgr.
    Hafi fjárhæð sekta ekki verið ákveðin í reglugerð skal við ákvörðun sekta meðal annars tekið tillit til þeirra hagsmuna sem í húfi eru, verðmætis ólögmætrar framleiðslu, alvarleika brots, hvað það hefur staðið yfir lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot hefur verið að ræða síðastliðin þrjú ár. Jafnframt skal líta til þess hvort ætla megi að brotið hafi verið framið í þágu hagsmuna lögaðila og hvort hægt hafi verið að koma í veg fyrir lögbrotið með stjórnun og eftirliti. Matvælastofnun er heimilt að ákveða hærri sektir hafi aðili haft ávinning af broti.
    Stjórnvaldssektum skal beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina er tekin. Hafi stjórnvaldssekt ekki verið greidd innan 15 daga frá gjalddaga hennar skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar frá gjalddaga hennar. Ákvörðun Matvælastofnunar um álagningu stjórnvaldssektar er aðfararhæf og renna sektir í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu. Matvælastofnun getur fellt mál niður í stað þess að leggja á stjórnvaldssektir ef:
     a.      ómögulegt var að koma í veg fyrir brot,
     b.      brot er smávægilegt,
     c.      sérstaklega stendur á og álagning stjórnvaldssekta þykir ekki brýn af almennum réttarvörsluástæðum.
    Aðili máls getur skotið ákvörðun Matvælastofnunar um stjórnvaldssektir til ráðherra innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Málskot til ráðherra frestar aðför. Úrskurðir ráðherra um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfir.

    b. (21. gr. e.)
    Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara eða ákvarðanir Matvælastofnunar á grundvelli þeirra er heimilt að ljúka máli með sátt með samþykki málsaðila, enda sé ekki um að ræða meiri háttar brot sem refsiviðurlög liggja við. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. Matvælastofnun setur nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins.

    c. (21. gr. f.)
    Heimild Matvælastofnunar til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
    Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar Matvælastofnun tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.

    d. (21. gr. g.)
    Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta eða kæru til lögreglu hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Matvælastofnun skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.

22. gr.

    Í stað ákvæðis til bráðabirgða í lögunum koma fimm ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a. (I.)
    Umsóknir um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á hafsvæðum sem ekki er búið að meta til burðarþols við gildistöku ákvæðis þessa falla úr gildi. Falli umsókn niður skal byggja úthlutun eldissvæðis á auglýsingu skv. 4. gr. a laganna.
    Gilt rekstrarleyfi á hafsvæði sem ekki er búið að meta til burðarþols heldur gildi sínu eftir gildistöku þessa ákvæðis. Að öðru leyti gilda ákvæði laganna um slík rekstrarleyfi.

    b. (II.)
    Umsóknir um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á hafsvæðum sem hafa verið metin til burðarþols við gildistöku ákvæðis þessa skulu halda gildi sínu eftir gildistöku þessa ákvæðis og skal eldissvæðum sem sótt er um samkvæmt þessum umsóknum ekki úthlutað skv. 4. gr. a laganna. Umsóknir um rekstrarleyfi á sama sjókvíaeldissvæði skv. 1. málsl. skulu afgreiddar í þeirri röð sem þær berast Matvælastofnun, enda fullnægi umsókn skilyrðum laga. Að öðru leyti gilda ákvæði laganna um þessar umsóknir og rekstrarleyfi útgefin samkvæmt þeim.
    Hafi Hafrannsóknastofnun ekki ákveðið leyfilegan lífmassa á skilgreindu eldissvæði samkvæmt rekstrarleyfi 1. janúar 2019 skulu lagakröfur um leyfilegan lífmassa á eldissvæðinu taka gildi þegar Hafrannsóknastofnun skilgreinir lífmassa eldissvæðisins.

    c. (III.)
    Rekstrarleyfi sem Matvælastofnun gefur út fyrir eldi á ófrjóum laxi í samræmi við áhættumat erfðablöndunar skal endurskoða fimm árum frá útgáfu rekstrarleyfisins enda liggi fyrir endurskoðaðar niðurstöður áhættumats erfðablöndunar innan þess tíma.
    Hafi rekstrarleyfishafi ekki hafið eldi á ófrjóum laxi innan fimm ára frá útgáfu rekstrarleyfisins skal Matvælastofnun fella niður rekstrarleyfi til að ala ófrjóan lax. Ef rekstrarleyfishafi hefur ekki nýtt helming eða meira af leyfilegum lífmassa rekstrarleyfis á ófrjóum laxi innan sjö ára frá útgáfu rekstrarleyfisins skal Matvælastofnun fella niður ónýtt magn ófrjós lax samkvæmt rekstrarleyfinu.
    Ráðherra er heimilt að auglýsa og úthluta að nýju í samræmi við 4. gr. a laganna eldissvæðum eða leyfilegum lífmassa rekstrarleyfis fyrir ófrjóan lax sem fellur niður skv. 2. mgr.
    Ef endurskoðaðar niðurstöður áhættumats erfðablöndunar skv. 1. mgr. fela í sér auknar framleiðsluheimildir á frjóum laxi á tilteknu svæði skal sú aukning bætast hlutfallslega við leyfilegar framleiðsluheimildir rekstrarleyfa þess svæðis.

    d. (IV.)
    Gilt starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi sem ekki hefur gilt rekstrarleyfi og er á hafsvæði sem ekki hefur verið burðarþolsmetið við gildistöku ákvæðis þessa fellur úr gildi við gildistöku þessa ákvæðis.

    e. (V.)
    Þrátt fyrir ákvæði 20. gr. e laganna skulu þeir rekstrarleyfishafar sem stunda eldi í kvíum á ófrjóum laxi og regnbogasilungi vera undanþegnir árgjaldi til ársloka 2025. Sama á við um rekstrarleyfishafa sem stunda eldi með lokuðum eldisbúnaði.

II. KAFLI

Breyting á lögum um varnir gegn fisksjúkdómum, nr. 60/2006, með síðari breytingum.

23. gr.

    Við 10. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sé um að ræða ráðstafanir vegna sjúkdóma eða sníkjudýra í sjókvíaeldi skal leita samráðs um ráðstafanir við Hafrannsóknastofnun.

24. gr.

    Við 3. mgr. 11. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra skal setja reglugerð, að höfðu samráði við Matvælastofnun, sem mælir fyrir um aðgerðir vegna sníkjudýra í fiskeldi, svo sem um skyldu rekstraraðila til að telja laxalús við tilteknar aðstæður, setja tiltekin viðmiðunarmörk um viðbrögð og aðgerðir vegna útbreiðslu laxalúsar.

III. KAFLI

Breyting á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum.

25. gr.

    2. mgr. 58. gr. laganna fellur brott.

IV. KAFLI

Gildistökuákvæði.

26. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2019. Þó öðlast 1. gr., 6. gr., 1. mgr. b-liðar 7. gr. (1. mgr. 6. gr. b), 12. gr., 13. gr., 14. gr., a-liður 17. gr. (19. gr. a) og ákvæði til bráðabirgða I, II og IV þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samráði við umhverfis- og auðlindaráðuneytið.
    Hin síðari ár hefur uppbygging fiskeldis verið umtalsverð hérlendis. Nú er svo komið að fiskeldi, sér í lagi eldi á laxi í sjókvíum, hefur eflt atvinnulíf og byggð á tilteknum stöðum á landinu. Uppi eru áform um frekari uppbyggingu á tilteknum land- og hafsvæðum hér við land og væntingar um að þessi uppbygging skili þjóðarbúinu umtalsverðum tekjum, svo sem raun hefur á orðið hjá nágrannaþjóðum okkar.
    Þau áform sem uppi eru um aukið sjókvíaeldi fela hins vegar í sér miklar áskoranir. Þannig hefur ekki farið fram hjá neinum sem fylgst hefur með þróun fiskeldis hér á landi síðustu misseri að þessi áform eru ekki óumdeild. Bent hefur verið í því sambandi á nauðsyn þess að atvinnugreinin byggist upp og þróist í sátt við umhverfið. Þannig þurfi fiskeldi að vera ábyrgt og byggt á grundvallaratriðum um sjálfbæra þróun og verndun lífríkis svo koma megi í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum stofnum og lífríki.
    Hinn 30. nóvember 2016 skipaði þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp um stefnumótun í fiskeldi á Íslandi. Í skipunarbréfi starfshópsins er vísað til mikilvægis þess að skilyrði og umgjörð um fiskeldi verði eins og best verður á kosið og í sem mestri sátt við umhverfið. Starfshópurinn skilaði tillögum sínum með skýrslu um stefnumótun í fiskeldi þann 21. ágúst 2017 sem var birt á vef Stjórnarráðsins 23. ágúst 2017.
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá 30. nóvember 2017 er sett fram eftirfarandi stefnuyfirlýsing:
     „Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein sem felur í sér tækifæri til atvinnuuppbyggingar en þarf að byggja upp með ýtrustu varúð í samræmi við ráðgjöf vísindamanna þannig að líffræðilegri fjölbreytni verði ekki ógnað. Samhliða vexti greinarinnar þarf að tryggja nauðsynlegar rannsóknir og eðlilega vöktun áhrifa á lífríkið. Eftir því sem fiskeldinu vex fiskur um hrygg þarf að ræða framtíðarfyrirkomulag gjaldtöku vegna leyfisveitinga.“
    Frumvarp þetta er í samræmi við framangreinda stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
    Ríkisstjórnin leggur áherslu á að löggjöf um fiskeldi sé framsýn og hafi það að markmiði að vernda villta stofna. Þannig beri að stuðla að nýtingu og rannsóknum á fýsileika eldis á ófrjóum laxi og eldi sem byggist á lokuðum eldisbúnaði.
    Vegna niðurstaðna áhættumats erfðablöndunar, sem frumvarpið gerir ráð fyrir, liggur fyrir að komið geti til þess að gefin verði út rekstrarleyfi fyrir ófrjóan eldisfisk í umtalsverðu magni. Í samræmi við framangreindan vilja stjórnvalda er í frumvarpinu gert ráð fyrir að eldi í kvíum á ófrjóum eldisfiski og eldi með lokuðum eldisbúnaði verði undanþegið árgjaldi í Umhverfissjóð sjókvíaeldis. Gert er ráð fyrir að undanþágan gildi til ársloka 2025. Markmið ákvæðisins er að hvetja til eldis ófrjórra laxa og eldis með lokuðum eldisbúnaði.
    Í frumvarpinu endurspeglast jafnframt sá vilji stjórnvalda að rekstrarleyfishafi nýti heimildir sínar til eldis á ófrjóum eldisfiski ella muni þær heimildir falla niður eftir tilteknum reglum. Falli slíkar framleiðsluheimildir niður er gert ráð fyrir úthlutun þeirra að nýju í samræmi við nýjar leyfisveitingarreglur.
    Í ljósi framangreinds leggja stjórnvöld áherslu á rannsóknir á framangreindum eldisaðferðum með það að markmiði að kanna nýtingu slíkra aðferða í eldi. Þannig mun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafa frumkvæði að úttekt á fýsileika á notkun á ófrjóum eldisfiski og lokuðum eldisbúnaði. Úttektin hefur það markmið að hægt verði að nota þessar eldisaðferðir í fiskeldi hér á landi og þá um leið að setja frekari skorður við og draga smám saman úr notkun á frjóum eldisfiski í sjókvíum. Þessari úttekt skal lokið fyrir 1. desember 2019 þar sem fram koma tillögur um mögulegar aðgerðir í þessa veru.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Með samþykkt þessa frumvarps er hrint í framkvæmd stefnu ríkisstjórnarinnar sem fram kemur í stefnuyfirlýsingu hennar. Frumvarpið byggist að stærstum hluta á tillögum starfshóps um stefnumótun í fiskeldi sem fram koma í skýrslu starfshópsins til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Jafnframt er ýmsum ákvæðum laga um fiskeldi, nr. 71/2008, breytt eða þau felld brott. Þessi endurskoðun er í samræmi við ákvæði til bráðabirgða IV í lögum nr. 49/2014 sem kvað á um að endurskoða skyldi lögin innan 18 mánaða frá gildistöku þeirra. Við endurskoðunina skyldi meðal annars hugað að vistfræðilegum þáttum og innleiðingu ýtrustu umhverfisstaðla í starfsemi fiskeldisfyrirtækja.
    Markmið þessarar lagasetningar er að styrkja lagaumgjörð fiskeldis þannig að íslensku fiskeldi séu sköpuð bestu möguleg skilyrði til uppbyggingar og það verði þannig sterk og öflug atvinnugrein jafnframt því að stuðla að ábyrgu fiskeldi, þar sem sjálfbær þróun og vernd lífríkis er höfð að leiðarljósi á grundvelli vísinda og rannsókna. Gert er ráð fyrir að með lagasetningunni verði náð meiri sátt um uppbyggingu fiskeldisins þannig að það geti vaxið eðlilega í sátt við helstu hagsmunaaðila og ekki síst að ímynd íslensks fiskeldis verði umhverfisvæn sem aftur skapi sérstöðu íslenskra fiskeldisafurða á markaði. Frumvarpinu er einnig ætlað að leggja grunn að öflugu og skilvirku eftirliti með fiskeldi. Jafnframt er í samfélaginu gerð krafa um aukna upplýsingagjöf og betra aðgengi almennings að upplýsingum sem tengjast fiskeldi. Frumvarpinu er ætlað að mæta þessum kröfum.
    Í samræmi við framangreint er nauðsynlegt að breyta lögum nr. 71/2008, um fiskeldi, lögum nr. 60/2006, um varnir gegn fisksjúkdómum, og lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.
    Ef lögum verður ekki breytt og ekkert aðhafst mun óvissa um áhrif fiskeldis á umhverfi ráða för en ekki vísindi og rannsóknir. Neikvæðar afleiðingar þessa munu koma fram í hægum vexti greinarinnar og samhliða hægari og ómarkvissri byggðaþróun á þeim svæðum sem litið hafa til fiskeldis, einkum sjókvíaeldis, sem möguleika í atvinnuuppbyggingu. Óvissa um áhrif fiskeldis á villta stofna og lífríki getur mögulega einnig leitt til neikvæðrar ímyndar íslensks fiskeldis almennt.
    Það er stefna stjórnvalda að gæta ýtrustu varúðar við uppbyggingu fiskeldis og byggja ákvarðanir stjórnvalda um framþróun fiskeldis á ráðgjöf vísindamanna. Það er nauðsynlegt fyrsta skref við framkvæmd þessarar stefnu að lögfesta áhættumat erfðablöndunar og endurskoðun þess þannig að það verði lagt til grundvallar leyfilegu magni af frjóum eldislaxi í sjókvíum á hverjum tíma. Mikilvægt er að koma megi í veg fyrir möguleg skaðleg áhrif og erfðablöndun eldisfisks við villta laxastofna og því nauðsynlegt að rekstrarleyfi endurspegli leyfilegt magn frjórra laxa í eldi á tilteknu svæði þar sem hætta er á erfðablöndun. Frumvarpið heimilar þannig Matvælastofnun að breyta ákvæðum rekstrarleyfa í samræmi við breytingar á útgefnu áhættumati erfðablöndunar eða breytingar á útgefnu burðarþoli.
    Vegna þessarar áherslu stjórnvalda á rannsóknir og vöktun lífríkisins gerir frumvarpið einnig ráð fyrir sérstakri heimild Hafrannsóknastofnunar til að stunda tímabundnar rannsóknir á fiskeldi í fiskveiðilandhelgi Íslands, ein eða í samstarfi við aðra. Slík heimild á að auðvelda og greiða fyrir nauðsynlegum rannsóknum vegna fiskeldis, þá sérstaklega eldistilraunum vegna sjókvíaeldis.
    Núverandi lagaumhverfi vegna leyfisveitinga býður upp á kapphlaup umsækjenda um eldissvæði. Þetta kapphlaup getur leitt af sér ágreining milli umsækjenda varðandi afmörkun eldissvæða og ósamræmi við aðra nýtingu í viðkomandi fjörðum. Jafnframt er ekki tryggt að heildarnýting svæða sé sem hagkvæmust. Í ljósi þessa eru lagðar til breytingar á núverandi fyrirkomulagi leyfisveitinga. Þannig er lagt til að eldissvæðum verði skipt upp snemma í leyfisveitingarferlinu eftir ítarlegt umsagnarferli. Frumvarpið gerir jafnframt ráð fyrir að eldissvæðum sé úthlutað eftir opinbera auglýsingu og á grundvelli hagstæðasta tilboðs. Lagt er til að við mat á hagstæðasta tilboði komi meðal annars til skoðunar reynsla af fiskeldisstarfsemi, samfélagsleg ábyrgð, fjárhagslegur styrkur og mælikvarðar sem mæla hvernig tilboðsgjafi hefur stundað sinn rekstur og upplýsingar um það hvernig tilboðsgjafi hyggst stunda sinn rekstur, m.a. út frá umhverfissjónarmiðum.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að starfsemi fiskeldisstöðva verði eins og áður háð starfsleyfi sem Umhverfisstofnun gefur út og hefur eftirlit með og rekstrarleyfi sem Matvælastofnun gefur út og hefur eftirlit með. Áður en tillaga að leyfum er auglýst munu Matvælastofnun og Umhverfisstofnun fara yfir og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar í þeim tilvikum sem umrædd framkvæmd er matsskyld, sbr. ákvæði 13. gr. laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Matvælastofnun mun afhenda umsækjanda bæði leyfin samtímis en stofnanirnar munu hvor um sig birta opinberlega ákvörðun sína um útgáfu leyfa og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Meginmarkmið þessarar lagabreytingar er að skýra lögin, einfalda og bæta stjórnsýsluframkvæmdina og auka þannig skilvirkni í leyfisveitingarferlinu.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að Matvælastofnun hætti að sinna umhverfiseftirliti sem stofnunin hefur framkvæmt á grundvelli þjónustusamnings við Umhverfisstofnun skv. 5. mgr. 14. gr. laga nr. 71/2008, um fiskeldi, og að Umhverfisstofnun sjái um eftirlit á grundvelli laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Núverandi fyrirkomulag á eftirliti hafði það að markmiði að auka skilvirkni eftirlits gagnvart eftirlitsþegum. Fram hefur komið gagnrýni á fyrirkomulagið bæði frá framangreindum stofnunum sem og eftirlitsþegum. Vísað er til þess að umhverfiseftirlit með fiskeldi falli ekki faglega að störfum Matvælastofnunar. Fram hefur komið að árið 2016 komst Matvælastofnun ekki í allar þær eftirlitsferðir sem stofnunin átti að sinna samkvæmt samningi og því hafi Umhverfisstofnun farið í 16 eftirlitsferðir í lok árs til að halda eftirlitsáætlun og eftirlitsþegar fengju það eftirlit sem þeim bæri.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir meiri og tíðari upplýsingagjöf fiskeldisfyrirtækja til stjórnvalda. Rökin fyrir auknum kröfum um upplýsingar eru þau að stjórnvöld þurfa að fylgjast með framleiðslumagni, þróun á nýtingu leyfa og hámarki leyfilegrar framleiðslu á tilteknu svæði vegna eftirlits. Upplýsingar um magn sláturfisks gefur vísbendingu um vöxt eldisfisks og afföll, sem hægt er að bera saman við tilkynnt afföll. Magn fóðurs gefur vísbendingar um frávik í rekstri og mögulega mengun. Útsett magn seiða, afföll á eldistíma og sláturmagn gefur upplýsingar um mögulegt strok sem þannig má rekja til eldisstöðvar. Upplýsingar um útsetningu á seiðum, framleiðslu og upplýsingar um slátrað magn eru jafnframt grundvöllur ákvörðunar um álagningu auðlindagjalds, komi til álagningar slíks gjalds. Framangreindar upplýsingar um þróun fiskeldis eru jafnframt grunnur að upplýstum ákvörðunum stjórnvalda og áframhaldandi stefnumótun í fiskeldi.
    Gert er ráð fyrir að stjórnvöld fái heimild til að birta opinberlega tilteknar upplýsingar, m.a. með rafrænum hætti. Hér er um að ræða heimild til að birta upplýsingar úr rekstri fyrirtækja og niðurstöður eftirlits. Jafnframt verður stjórnvöldum heimilt að birta opinberlega ákvarðanir um þvingunaraðgerðir og viðurlög. Mögulegt verður að birta upplýsingarnar rafrænt á netinu á sérstakri vefsíðu fyrir íslenskt fiskeldi. Markmið slíkrar vefsíðu væri að veita réttar og traustar upplýsingar um íslenskt fiskeldi fyrir almenning, frjáls félagasamtök, þá sem eru í viðskiptum við íslensk fiskeldisfyrirtæki og þá sem þurfa að afla og mögulega vinna með upplýsingar um íslenskt fiskeldi. Markmiðið er að auka gegnsæi í starfsemi fiskeldisfyrirtækja. Með þessum lagabreytingum er verið að veita almenningi upplýsingar um það hvernig einstök fyrirtæki uppfylla kröfur laga og stjórnvaldsfyrirmæla. Þannig er verið að upplýsa almenning um það hvort rekstrarleyfishafar framfylgja lögum og reglum og hafa þannig sína hluti í lagi. Birting upplýsinga úr eftirliti og möguleg viðurlög veitir þannig fyrirtækjum aðhald og eykur varnaðaráhrif löggjafarinnar.
    Í frumvarpinu er það nýmæli að Matvælastofnun skal auglýsa tillögu sína að rekstrarleyfi til fiskeldisfyrirtækja. Matvælastofnun hefur hingað til ekki auglýst tillögu að rekstrarleyfi en núverandi fyrirkomulag við útgáfu rekstrarleyfis hefur verið gagnrýnt. Telja verður rétt að gefa almenningi, frjálsum félagasamtökum og þeim sem hafa hagsmuna að gæta, beint eða óbeint, tækifæri til athugasemda eða ábendinga varðandi útgáfu leyfisins og skilmála þess. Stofnunin getur þannig tekið afstöðu til þessara athugasemda og ábendinga áður en rekstrarleyfi er gefið út. Jafnframt er það áréttað að stofnunin skuli auglýsa útgáfu rekstrarleyfis. Þetta fyrirkomulag er í samræmi við gildandi ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, þar sem kveðið er á um skyldu útgefanda starfsleyfis, þ.e. Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefnda sveitarfélaga, að vinna tillögur að starfsleyfi og auglýsa opinberlega hvers efnis þær eru og hvar megi nálgast þær.
    Gert er ráð fyrir að þeir rekstrarleyfishafar sem stunda eldi í kvíum á ófrjóum laxi og regnbogasilungi skulu vera undanþegnir árgjaldi í Umhverfissjóð sjókvíaeldis. Frumvarpið gerir ráð fyrir að undanþágan gildi til ársloka 2025. Sama á við um rekstrarleyfishafa sem stunda eldi með lokuðum eldisbúnaði. Markmið þessa ákvæðis er að hvetja til eldis á ófrjóum laxi og eldi með lokuðum eldisbúnaði. Eldi á regnbogasilungi hefur átt erfitt uppdráttar. Með þessu ákvæði er því verið að ívilna rekstrarleyfishöfum sem stunda slíkt eldi með því að draga úr opinberum álögum.
    Núverandi ákvæði um innra eftirlit fiskeldisstöðva eru í 42.–44. gr. reglugerðar nr. 1170/2015, um fiskeldi. Í frumvarpinu er lagt til að tekið verði upp í lög nr. 71/2008, um fiskeldi, sérstakt ákvæði sem fjallar um innra eftirlit fiskeldisstöðva. Þannig eru kröfur um innra eftirlit gerðar skýrari. Með nýju almennu lagaákvæði um innra eftirlit er Matvælastofnun heimilað að draga úr tíðni eftirlitsheimsókna hjá rekstrarleyfishöfum. Með þessu ákvæði er kominn vísir að áhættumiðuðu eftirliti með fiskeldi sem þýðir að fiskeldisfyrirtæki sem hafa sinn rekstur í lagi og starfa í samræmi við kröfur laga og stjórnvaldsfyrirmæla fá færri eftirlitsheimsóknir en þau sem ekki uppfylla kröfurnar. Jafnframt er lagt til að sett verði sérstök ákvæði í reglugerð um inntak innra eftirlits, svo sem um markmið, ábyrgð, framkvæmd og tíðni eftirlits, viðmiðanir, sannprófun, úrbætur og skráningu. Að auki verður heimilað að leggja á rekstrarleyfishafa stjórnvaldssektir ef brotið er gegn ákvæði um innra eftirlit, sannprófun þess og framkvæmd úrbóta
    Vegna mikilvægis eftirlits með laxalús gerir frumvarpið ráð fyrir að innra eftirlit með sjókvíaeldi feli í sér vöktun á viðkomu laxalúsar í eldinu í samræmi við leiðbeiningar sem fram koma í reglugerð sem ráðherra setur. Mikilvægt er að stjórnvöld bregðist hratt við ef þörf er á sérstökum aðgerðum vegna laxalúsar. Því eru lagðar til breytingar á reglugerðarheimild laga nr. 60/2006, um varnir gegn fisksjúkdómum, sem miða að því að gera hana skýrari hvað varðar vöktun og aðgerðir vegna laxalúsar og annarra sníkjudýra í eldinu.
    Gert er ráð fyrir að Matvælastofnun fái heimild til að leggja stjórnvaldssektir á fiskeldisfyrirtæki sem brjóta gegn tilteknum ákvæðum laga nr. 71/2008, um fiskeldi. Gildandi stjórnsýsluviðurlögum í lögum nr. 71/2008 verður einungis beitt vegna ítrekaðra og mjög alvarlegra brota á lögum nr. 71/2008, um fiskeldi, og þjóna því illa tilgangi sínum. Með tilkomu ákvæðis um stjórnvaldssektir er mögulegt að haga sektum í samræmi við fjárhagslegan ávinning brotsins og þannig beita úrræðum sem hafa veruleg varnaðaráhrif gagnvart þeim aðilum sem ber að fara eftir lögunum.
    Í frumvarpinu er felld brott sú heimild að veita veiðiréttarhöfum styrki úr Umhverfissjóði sjókvíaeldis til að mæta þeim kostnaði eða tekjumissi sem þeir hafa orðið fyrir vegna tjóns sem er ekki hægt að rekja til ákveðinnar eldisstöðvar. Umrætt lagaákvæði fellur hvorki að markmiðum fiskeldislaga né hlutverki Umhverfissjóðs sjókvíaeldis, sem er að fjármagna burðarþolsrannsóknir fjarða og stuðla að lágmarksumhverfisáhrifum sjókvíaeldis með rannsóknum og vöktun. Núverandi ákvæði felur hins vegar í sér styrkveitingar til veiðiréttarhafa vegna tjóns sem er ekki hægt að rekja til ákveðinnar eldisstöðvar. Í ákvæðinu kemur fram að greiða megi kostnað eða tekjumissi án frekari skýringa. Þannig er það lagt í hendur stjórnar Umhverfissjóðs sjókvíaeldis að meta hvaða tjónstilvik falli undir ákvæðið auk þess sem mat á fjárhæð bóta er falið stjórn sjóðsins. Telja verður að ef það er vilji löggjafans að greiða bætur í tilvikum sem þessum eigi það ekki að byggjast á mati sjóðstjórnar hverju sinni heldur þurfi að kveða skýrt á um í lögum hvaða tjón eigi að bæta og hvernig meta eigi tjónið. Jafnframt þarf að fjármagna slíka styrki með öðrum hætti en úr sjóði sem hefur ekki nægjanlegt ráðstöfunarfé til að sinna meginhlutverki sínu sem er að fjármagna burðarþolsrannsóknir, vöktun og rannsóknir til að lágmarka umhverfisáhrif sjókvíaeldis.
    Lagt er til að rekstrarleyfi fyrir eldi á ófrjóum eldisfiski í samræmi við áhættumat erfðablöndunar skuli endurskoða að liðnum fimm árum frá útgáfu rekstrarleyfisins og þau felld niður eftir tilteknum reglum ef nýting er ekki viðunandi. Tilgangur með ákvæðinu er að tryggja að rekstrarleyfi fyrir eldi á ófrjóum eldisfisk sem rekstrarleyfishafi nýtir ekki séu nýtt og opnað fyrir möguleika áhugasamra aðila á slíku eldi. Ákvæðið felur einnig í sér betri nýtingu burðarþols á svæðum.
    Lagt er til að felld verði brott sú skylda að allar fiskeldisstöðvar skuli hafa með sér samtök, Landssamband fiskeldisstöðva, sem gæti sameiginlegra hagsmuna. Þar sem ekki er um að ræða félagsaðild með vísan til almannahagsmuna, sbr. ákvæði 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, þá þykir rétt að fella þessa skylduaðild niður.
    Auk framangreinds eru ýmis ákvæði eldri laga jafnframt felld brott þar sem þau eiga ekki við vegna nýrra reglna um úthlutun eldissvæða eða þjóna ekki tilgangi sínum lengur.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1. Heildarframleiðslumagn frjórra laxa í sjókvíaeldi byggt á áhættumati erfðablöndunar.
    Með áhættumati erfðablöndunar, útgefnu í júlí 2017, hefur Hafrannsóknastofnun metið mögulega erfðablöndun eldislaxa við náttúrulega villta stofna vegna laxeldis í sjókvíum. Tilgangur með gerð áhættumatsins er að koma í veg fyrir möguleg skaðleg áhrif erfðablöndunar eldisfisks við villta laxa. Þannig gerir áhættumatið ráð fyrir því að óafturkræfum skaða sé valdið eða sjálfbærri nýtingu villts stofns sé stefnt í hættu ef fjöldi eldislaxa í veiðivatni fer yfir tiltekin viðmiðunarmörk. Áhættumatið byggist á líkani sem mælir áhættu erfðablöndunar sem hlutfall af umfangi sjókvíaeldis á tilteknum stað. Við áhættumatið notaði Hafrannsóknastofnun gögn um strokufiska í sjókvíaeldi, áhrif hafstrauma, fjarlægð áa frá svæðum þar sem sjókvíaeldi er stundað og stofnstærð laxa í ám. Áhættumatið er framkvæmt af Hafrannsóknastofnun og vann stofnunin matið í samstarfi við tvo erlenda sérfræðinga á sviði stofnerfðafræði. Til að tryggja að áhættumat erfðablöndunar fái vísindalega umræðu og fræðilega rýni hefur Hafrannsóknastofnun kynnt aðferðafræði áhættumatsins fyrir erlendum fræðimönnum á sviði stofnerfðafræði.
    Samkvæmt núverandi löggjöf ræðst heildarframleiðsla í sjókvíaeldi á hverju svæði af útgefnu burðarþolsmati og því framleiðslumagni sem kveðið er á um í einstökum rekstrarleyfum. Í frumvarpi þessu er hins vegar lagt til að lögfest verði breyting á lögum nr. 71/2008, um fiskeldi, þar sem Hafrannsóknastofnun er skylt gefa út áhættumat erfðablöndunar, þar sem fram kemur magn frjórra laxa sem leyfilegt er að ala í sjókvíum hverju sinni. Jafnframt er lagt til að lögfest verði skilgreining á áhættumati erfðablöndunar.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að Hafrannsóknastofnun skuli gefa út áhættumat erfðablöndunar svo oft sem þörf þykir að mati stofnunarinnar en þó eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti. Matvælastofnun skal síðan tryggja að leyfilegt magn frjórra laxa samkvæmt rekstrarleyfi sé í samræmi við niðurstöður áhættumats erfðablöndunar á hverjum tíma. Magn frjórra laxa hvers rekstrarleyfis skal þannig breytast í hlutfalli við leyfilegt magn laxa á svæðinu samkvæmt áhættumati Hafrannsóknastofnunar. Frumvarpið gerir jafnframt ráð fyrir því að ef rekstrarleyfishafi vill stunda eldi með ófrjóum laxi geti hann mætt fyrirhugaðri skerðingu á eldi frjós lax með eldi ófrjós lax upp að leyfilegu heildarmagni rekstrarleyfisins.

3.2. Skipting hafsvæða í eldissvæði – úthlutun eldissvæða með auglýsingu.
    Í núverandi leyfisveitingarferli vegna umsókna um rekstrarleyfi í sjókvíaeldi, þar sem í raun nokkurs konar kapphlaup ríkir þannig að „fyrstur kemur fyrstur fær“, velur umsækjandi sér eldissvæði án aðkomu stjórnvalda.
    Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir breyttu umsóknarferli, þar sem eldissvæði verða skilgreind, síðan auglýst opinberlega og úthlutað samkvæmt hagstæðasta tilboði. Þannig skal Hafrannsóknastofnun, þegar burðarþol er metið, skipta tilteknu hafsvæði eða firði upp í eitt eða fleiri eldissvæði í samræmi við mögulegt burðarþol hafsvæðis. Við skiptingu hafsvæða í eldissvæði skal stofnunin notast við niðurstöður og aðrar upplýsingar úr burðarþolsmælingum eða gera frekari burðarþolsrannsóknir ef slíkt er talið nauðsynlegt svo skipta megi umræddu hafsvæði niður í eldissvæði. Hafrannsóknastofnun skal kappkosta að ná sem hagkvæmastri nýtingu hafsvæða þegar svæði er skipt upp. Gert er ráð fyrir að Samgöngustofa, Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, Landssamband fiskeldisstöðva, aðliggjandi sveitarfélög og Landhelgisgæsla Íslands séu umsagnaraðilar vegna ákvörðunar um svæðaskiptingu hafsvæða. Það er nýmæli að ráðherra ákveður hvenær tilteknir firðir eða tiltekin hafsvæði verða metin til burðarþols.
    Þegar burðarþolsmat, áhættumat um erfðablöndun og svæðaskipting Hafrannsóknastofnunar liggur fyrir getur ráðherra eða stofnun í hans umboði úthlutað eldissvæðum. Ráðherra ákveður hvenær eldissvæðum er úthlutað og hversu mörgum eldissvæðum er úthlutað hverju sinni. Ráðherra er ekki skylt að úthluta eldissvæðum þegar burðarþols- eða áhættumat liggur fyrir heldur er um að ræða heimildarákvæði. Jafnframt metur ráðherra hversu mörgum eldissvæðum er úthlutað hverju sinni en mögulega er hagkvæmt að úthluta samstæðum eldissvæðum í einu lagi þegar burðarþol og áhættumat liggur fyrir á öllum svæðunum. Þannig getur verið nauðsynlegt að taka tillit til heildarnýtingar burðarþolsmetinna svæða og reglna um kynslóðaskipt eldi þegar ákvörðun er tekin um úthlutun eldissvæða.
    Ráðherra eða stofnun í umboði hans úthlutar hverju eldissvæði samkvæmt hagstæðasta tilboði. Gert er ráð fyrir að skilmálar úthlutunar, svo sem hvað telst hagstæðasta tilboð og hverjir geta mögulega boðið í eldissvæði, verði skilgreindir í reglugerð. Hér getur verið um að ræða skilyrði um tiltekna reynslu af fiskeldisstarfsemi, fjárhagslegan styrk, samfélagslega ábyrgð og mælikvarða sem mæla hvernig viðkomandi hefur stundað sinn rekstur eða áætlun tilboðsgjafa um það hvernig hann hyggst stunda sinn rekstur, m.a. út frá umhverfissjónarmiðum.
    Sé tilboði tekið og eldissvæði úthlutað til tilboðsgjafa skal hann sækja um rekstrarleyfi til Matvælastofnunar og hefja umsóknarferlið hjá Matvælastofnun. Að auki þarf að liggja fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmdin sé ekki matsskyld eða álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar áður en sótt er um rekstrarleyfi.
    Gert er ráð fyrir að framangreind úthlutunarregla gildi um svæði og firði sem eftir er að burðarþolsmeta þegar lagabreyting tekur gildi. Af þeim stöðum þar sem einhver áform eru uppi um fiskeldi þá á eftir er meta burðarþol Seyðisfjarðar, Mjóafjarðar, fjarðanna inn af Norðfjarðarflóa, Eyjafjörð, Önundarfjörð og Jökulfirði. Einnig er rétt að nota hina nýju reglu um þær framleiðsluheimildir sem ekki eru nýttar af rekstrarleyfishafa eða hafa verið felldar niður af öðrum ástæðum.

3.3. Umsóknir um rekstrarleyfi á svæðum sem ekki eru burðarþolsmetin falla niður en rekstrarleyfi á slíkum svæðum halda gildi sínu.
    Í frumvarpinu er lagt til að umsóknir um rekstrarleyfi sem eru til meðferðar hjá Matvælastofnun á svæðum eða í fjörðum sem ekki er búið að meta til burðarþols við gildistöku ákvæðis til bráðabirgða falli niður. Þetta verður að telja eðlilegt tímamark að miða við þar sem skv. 1. mgr. 8. gr. gildandi laga skal fylgja umsókn um rekstrarleyfi burðarþolsmat fyrir viðkomandi sjókvíaeldissvæði. Þannig er umsókn ekki fullnægjandi samkvæmt gildandi lögum ef burðarþol viðkomandi hafsvæðis liggur ekki fyrir. Falli umsókn niður skal byggja úthlutun eldissvæðis á auglýsingu, sbr. kafla 3.2. hér að framan. Fyrirtæki, sem hafa tilkynnt Skipulagsstofnun um áform sín um fiskeldi á tilteknum hafsvæðum, sem eftir er að meta til burðarþols, munu því ekki geta tryggt sér tiltekið svæði samkvæmt reglu gildandi laga heldur verður þessum svæðum úthlutað á grundvelli opinberrar auglýsingar.
    Gilt rekstrarleyfi á hafsvæði, sem ekki er búið að meta til burðarþols við gildistöku ákvæðis til bráðabirgða, heldur hins vegar gildi sínu þrátt fyrir gildistöku ákvæðisins.

3.4. Innra eftirlit fiskeldisstöðva – áhættumiðað eftirlit.
    Gert er ráð fyrir að tekið verði upp í lög nr. 71/2008, um fiskeldi, sérstakt ákvæði sem fjallar um innra eftirlit fiskeldisstöðva. Þannig skal rekstrarleyfishafi almennt hafa eftirlit með starfsumhverfinu, þ.m.t. eldi eldisdýra, heilbrigði þeirra, mannvirkjum og búnaði. Rekstrarleyfishafi sjókvíaeldisstöðvar skal þannig starfrækja innra eftirlit sem felur í sér vöktun á tilteknum þáttum og setja sér verklagsreglur og gæðahandbók. Jafnframt er lagt til að sett verði í lög sérstakt ákvæði um innra eftirlit með laxalús, sbr. umfjöllun hér síðar.
    Með nýju almennu lagaákvæði um innra eftirlit, sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, er Matvælastofnun jafnframt heimilað að draga úr tíðni eftirlitsheimsókna hjá rekstrarleyfishöfum sem hafa vottun frá faggiltum aðila um að innra eftirlit þeirra uppfylli allar lagakröfur. Jafnframt er gerð sú krafa að frávik við eftirlit Matvælastofnunar sé innan ásættanlegra marka. Öflugt innra eftirlit á að tryggja að starfsemin sé í lagi og uppfylli settar kröfur. Með þessu ákvæði er kominn vísir að áhættumiðuðu eftirliti með fiskeldi sem þýðir að fiskeldisfyrirtæki sem hafa sinn rekstur í lagi og starfa í samræmi við kröfur laga og stjórnvaldsfyrirmæla fá færri eftirlitsheimsóknir en þau sem ekki uppfylla kröfurnar.
    Jafnframt er lagt til að sett verði sérstök ákvæði í reglugerð um inntak innra eftirlits, svo sem um markmið, ábyrgð, framkvæmd og tíðni eftirlits, viðmiðanir, sannprófun, úrbætur og skráningu.
    Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að Matvælastofnun verði heimilað að leggja á rekstrarleyfishafa stjórnvaldssektir ef brotið er gegn ákvæði um innra eftirlit, sannprófun þess og framkvæmd úrbóta.

3.5. Aðgerðir vegna laxalúsar.
    Samkvæmt 8. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, getur ráðherra að fengnum tillögum Matvælastofnunar fyrirskipað hverjar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að útrýma eða hindra útbreiðslu tilkynningarskyldra og skráningarskyldra sjúkdóma. Jafnframt er kveðið á um viðbrögð við sjúkdómum og sníkjudýrum í fiskeldisstöð í 10. gr. laga nr. 60/2006, um varnir gegn fisksjúkdómum. Þar segir að ef upp kemur smitandi sjúkdómur eða sníkjudýr í fiskeldisstöð er Matvælastofnun heimilt, að höfðu samráði við fisksjúkdómanefnd og með hliðsjón af lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að hefta útbreiðslu þeirra.
    Í 15. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að innra eftirlit sjókvíaeldisstöðvar skuli meðal annars fela í sér vöktun á viðkomu laxalúsar í eldinu í samræmi við leiðbeiningar sem fram koma í reglugerð sem ráðherra setur. Niðurstöður vöktunar skulu sendar Matvælastofnun sem metur hvort og þá hvaða aðgerða er þörf vegna laxalúsar í eldinu. Niðurstöður vöktunar skal birta opinberlega í samræmi við b-lið 17. gr. frumvarpsins. Jafnframt er lagt til að sett verði skýr reglugerðarheimild í lög nr. 60/2006, um varnir gegn fisksjúkdómum, fyrir ráðherra til að setja ákvæði um vöktun og aðgerðir vegna laxalúsar. Þannig væri hægt að kveða á um skyldu rekstraraðila til að telja laxalús við tilteknar aðstæður og bregðast við fjölgun laxalúsar ef upp koma aðstæður sem kalla á slík viðbrögð.

3.6. Heimild Matvælastofnunar til að sinna umhverfiseftirliti felld brott.
    Samkvæmt ákvæðum 5. mgr. 14. gr. laga nr. 71/2008, um fiskeldi, ber Matvælastofnun, á grundvelli þjónustusamnings við Umhverfisstofnun, að sjá um afmarkaða þætti eftirlits með fiskeldi sem Umhverfisstofnun er falið samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Gerður hefur verið þjónustusamningur milli þessara tveggja stofnana þar sem framkvæmd eftirlitsins og gjaldtaka vegna þess er nánar útfærð. Í frumvarpi þessu er lagt til að þessu fyrirkomulagi verði hætt og að Umhverfisstofnun sinni framvegis umhverfiseftirliti með fiskeldi á grundvelli laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.

3.7. Auglýsing Matvælastofnunar á tillögu að rekstrarleyfi – opinber birting rekstrarleyfis.
    Ekki hvílir ótvíræð lagaskylda á Matvælastofnun að auglýsa tillögu að rekstrarleyfi fyrir fram. Því er lagt til í 12. gr. frumvarpsins að Matvælastofnun skuli auglýsa tillögu sína að rekstrarleyfi fiskeldisfyrirtækis og gefa þannig þeim aðilum sem hafa hag beint eða óbeint af ákvörðun Matvælastofnunar þess kost að koma með athugasemdir sem stofnunin tekur síðan afstöðu til áður en rekstrarleyfi er gefið út. Þetta fyrirkomulag væri þá í samræmi við gildandi ákvæði laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, þar sem kveðið er á um skyldu útgefanda starfsleyfis, þ.e. Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefnda sveitarfélaga, að vinna tillögur að starfsleyfi og auglýsa opinberlega hvers efnis þær eru og hvar megi nálgast þær. Heimilt er að gera skriflegar athugasemdir við tillögur Matvælastofnunar að rekstrarleyfi innan fjögurra vikna frá auglýsingu. Í frumvarpinu er það lagt í hendur Matvælastofnunar, í hverju tilviki, hvaða gögn stofnunin leggur fram í rökstuðningi sínum með tillögum um rekstrarleyfi og gæti þess þannig að ekki séu afhent gögn um fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila enda óheimilt samkvæmt upplýsingalögum, nr. 140/2012, að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni.

3.8. Aukið gegnsæi í fiskeldisstarfsemi – birting upplýsinga rafrænt.
3.8.1. Tíðari upplýsingagjöf til stjórnvalda.
    Lagt er til að upplýsingagjöf fiskeldisfyrirtækja verði tíðari en kveðið er á um í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 71/2008, um fiskeldi. Þannig verði upplýsingagjöfin ekki árleg eins og nú er heldur fá stjórnvöld þessar upplýsingar mánaðarlega þannig að hægt verði að leggja mat á breytingar í eldinu á eldistímanum og þannig greina hvernig eldið þróast yfir tiltekið tímabil. Slíkar upplýsingar munu gefa opinberum eftirlitsaðilum betri mynd af rekstrinum og þannig efla eftirlit þeirra. Lagt er til að þessi upplýsingaskylda nái til sömu rekstrarupplýsinga og áður og fram koma í lögbundinni framleiðsluskýrslu. Þannig ber rekstrarleyfishafa að upplýsa um útsetningu á seiðum, framleiðslumagn stöðvar mælt í birgðum af fiski, afföll fisks, uppruna fisks, slátrað magn úr eldiseiningu, stærð eldisrýmis og nýtingu þess, fóðurnotkun, sjúkdóma, viðkomu og vöktun á laxalús og óhöpp í rekstri.

3.8.2. Rafræn opinber birting upplýsinga til almennings.
    Samkvæmt b-lið 17. gr. frumvarpsins er Matvælastofnun heimilt að birta opinberlega niðurstöður úr eftirliti með fiskeldisfyrirtækjum auk upplýsinga úr framleiðsluskýrslum skv. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 71/2008, um fiskeldi. Matvælastofnun er meðal annars heimilt að birta upplýsingar rafrænt á netinu. Framangreind lagabreyting er í samræmi við efnisákvæði laga nr. 23/2006, um upplýsingarétt um umhverfismál, þar sem almenningur á rétt til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál hjá stjórnvöldum, sem skulu vinna með almennum hætti að því að gera upplýsingar um umhverfismál aðgengilegar almenningi.

3.8.3. Birting ákvörðunar um þvingunaraðgerðir og viðurlög.
    Samkvæmt c-lið 17. gr. frumvarpsins verður skylt að greina opinberlega frá ákvörðunum um þvingunaraðgerðir, viðurlög eða sátt milli aðila. Þetta eru ákvarðanir sem sjálfsagt þykir að almenningur fái vitneskju um enda aðgerðir sem gripið er til í alvarlegum tilvikum, þegar fyrirtæki hafa gerst brotleg eða uppfylla ekki kröfur laga og reglna og verða ekki við tilmælum um úrbætur. Í flestum tilvikum hefur hinn brotlegi ekki hlítt banni eða ekki orðið við lögboðinni tilkynningarskyldu og þannig brotið gegn lögunum.

3.9. Tímabundnar rannsóknir Hafrannsóknastofnunar.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir sérstakri heimild Hafrannsóknastofnunar til að stunda tímabundnar rannsóknir á fiskeldi í fiskveiðilandhelgi Íslands. Slíkar tilraunir getur stofnunin gert ein eða í samstarfi við aðra. Hér geta verið um að ræða rannsóknir eða tilraunir á eldi lagardýra, eldisaðferðum, mannvirkjum, búnaði og heilbrigði lagardýra.

3.10. Stjórnvaldssektir – aukin varnaðaráhrif viðurlaga.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir því að Matvælastofnun fái heimild til að leggja stjórnvaldssektir á einstaklinga eða lögaðila sem brjóta gegn tilteknum bannákvæðum laganna eða ákvörðunum teknum samkvæmt þeim. Slík ákvæði eru nú í ýmsum lögum og því eðlilegt að Matvælastofnun fái slíkar heimildir með sama hætti og aðrir eftirlitsaðilar.

3.11. Eldi á ófrjóum laxi, regnbogasilungi eða eldi með lokuðum eldisbúnaði undanþegið árgjaldi í Umhverfissjóð sjókvíaeldis.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að þeir rekstrarleyfishafar sem stunda eldi í kvíum á ófrjóum laxi og regnbogasilungi skulu vera undanþegnir árgjaldi. Sama á við um rekstrarleyfishafa sem stunda eldi með lokuðum eldisbúnaði. Gert er ráð fyrir að undanþágan gildi til 31. desember 2025.

3.12. Skylduaðild fiskeldisstöðva að Landssambandi fiskeldisstöðva aflögð.
    Lagt er til að lögð verði af sú skylda að allar fiskeldisstöðvar skuli hafa með sér samtök, Landssamband fiskeldisstöðva, sem gæta eigi sameiginlegra hagsmuna.

3.13. Skylda til umsagnar felld niður.
    Í a-lið 2. gr. frumvarpsins er felld niður skylda ráðherra til að leita umsagnar vegna allra reglugerða sem fyrirhugað er að setja samkvæmt lögum nr. 71/2008, um fiskeldi. Ákvæðið felur í sér að ráðherra skal leita umsagnar Fiskistofu, Matvælastofnunar og Hafrannsóknastofnunar og leita álits Sambands íslenskra sveitarfélaga, Landssambands fiskeldisstöðva og Landssambands veiðifélaga. Breytingin felur í sér að ráðherra leitar umsagnar þeirrar stofnunar, sveitarfélaga eða samtaka, eða fiskeldisfyrirtækja er málið varðar hverju sinni. Rétt er að benda á að nú eru flest drög að reglugerðum sett í opið kynningarferli í samráðsgátt Stjórnarráðsins og því hafa þeir sem það vilja tök á að kynna sér áform um setningu reglugerða og möguleika að senda inn umsagnir.

3.14. Rekstrarleyfi fyrir eldi á ófrjóum laxi felld niður ef nýting er ekki viðunandi.
    Lagt er til í bráðabirgðaákvæði við lögin að rekstrarleyfi fyrir eldi á ófrjóum laxi í samræmi við áhættumat erfðablöndunar skuli endurskoða að liðnum fimm árum frá útgáfu rekstrarleyfisins og þessi rekstrarleyfi fyrir ófrjóan lax felld niður eftir tilteknum reglum ef nýting er ekki viðunandi.

3.15. Heimild til styrkveitinga til veiðiréttarhafa úr Umhverfissjóði sjókvíaeldis felld niður.
    Samkvæmt 20. gr. a laga nr. 71/2008, um fiskeldi, er heimilt að veita veiðiréttarhöfum styrki úr Umhverfissjóði sjókvíaeldis til að mæta þeim kostnaði eða tekjumissi sem veiðiréttarhafar hafa orðið fyrir vegna tjóns sem er ekki hægt að rekja til ákveðinnar eldisstöðvar. Lagt er til í frumvarpinu að þessi heimild til styrkveitingar verði felld niður.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Í frumvarpinu er felld niður skylduaðild fiskeldisstöðva að Landssambandi fiskeldisstöðva. Löggjafinn hefur með setningu ákvæðis 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar lagt til grundvallar að engan má skylda til aðildar að félagi nema mælt sé annars vegar fyrir um slíka skyldu í lögum og hins vegar að sú skylda sé nauðsynleg til þess að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra. Ekki verður séð að hlutverk Landssambands fiskeldisstöðva réttlæti skylduaðild að félaginu í skilningi þessa ákvæðis stjórnarskrárinnar. Því er lagt til að ákvæði laga nr. 71/2008, um fiskeldi, um skylduaðild fiskeldisstöðva að Landssambandi fiskeldisstöðva verði fellt brott. Frumvarpið gaf að öðru leyti ekki tilefni til að samræmi við stjórnarskrá væri skoðað sérstaklega.
    Reglur EES-samningsins gilda um fisksjúkdóma og sníkjudýr í fiskeldi. Ákvæðum frumvarpsins er ætlað að styrkja eftirlit og aðgerðir gegn laxalús með öflugu innra eftirliti rekstrarleyfishafa vegna laxalúsar og skýrri reglugerðarheimild til að setja nánari ákvæði um vöktun og aðgerðir vegna laxalúsar auk skýrra stjórnsýsluviðurlaga. Ákvæði frumvarpsins eru í samræmi við skyldur stjórnvalda samkvæmt fisksjúkdómalöggjöf ESB, sem innleidd var með EES-samningnum, um öflugt eftirlit með sníkjudýrum í fiskeldi og í samræmi við kröfur þeirrar löggjafar um skilvirk viðurlög ef brotið er gegn henni.

5. Samráð.
    Frumvarp þetta er unnið upp úr tillögum starfshóps um stefnumótun í fiskeldi sem skipaður var af þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í nóvember 2016 og skilaði skýrslu sinni um stefnumótun í fiskeldi þann 21. ágúst 2017 sem var birt á vef Stjórnarráðsins 23. ágúst 2017.
    Starfshópurinn var skipaður fulltrúum frá Landssambandi fiskeldisstöðva, Landssambandi veiðifélaga, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti en þessir hagsmunaaðilar voru sammála um tillögur starfshópsins. Í vinnu starfshópsins var haft samráð við þær stofnanir sem hafa lögbundið stjórnsýsluhlutverk vegna fiskeldis. Þessar stofnanir eru Fiskistofa, Hafrannsóknastofnun, Matvælastofnun, Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun. Þá komu ýmsir hagsmunaaðilar til fundar við starfshópinn, svo sem sveitarfélög og ýmis frjáls félagasamtök sem meðal annars tengjast náttúruvernd.
    Frumvarpið var birt til samráðs á vef Stjórnarráðsins þann 30. janúar 2018 og bárust 30 umsagnir. Í frumvarpinu eins og það liggur fyrir hefur verið tekið tillit til hluta af fram komnum athugasemdum. Eftirfarandi breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu:
          Í 1. gr. er bætt við skilgreiningum, þar sem hugtökin kví, lax, laxfiskar, ófrjór lax, lokaður eldisbúnaður, sjókvíaeldi, sjókvíaeldisstöð og villtur laxastofn eru skilgreind.
          Gert er ráð fyrir Samgöngustofu sem umsagnaraðila áður er Hafrannsóknastofnun skiptir upp svæðum, sbr. 2. gr. frumvarpsins.
          Í 3. gr. er áréttuð sú heimild ráðherra að úthluta eldissvæðum að nýju þegar eldra rekstrarleyfi fellur niður, því breytt þannig að gefa þarf út nýtt rekstrarleyfi eða það uppfyllir ekki skilyrði laga þegar gildistími þess rennur út og leyfið á að endurnýjast.
          Í 7. gr. er skýrt kveðið á um að Matvælastofnun skuli gefa út sérstakt rekstrarleyfi fyrir ófrjóan lax sem þýðir mögulega að tilteknir rekstrarleyfishafar fá útgefin tvenns konar rekstrarleyfi, eitt fyrir frjóan lax og annað fyrir ófrjóan lax á sama eldissvæði.
          Skýrt er kveðið á um að eldi ófrjórra laxa skuli halda aðgreindu frá eldi frjórra laxa, sbr. 7. gr.
          Orðalag um eftirlit Matvælastofnunar í a- og b-lið 7. gr. frumvarpsins er samræmt.
          Í 8. gr. er heimild Matvælastofnunar til endurmats við endurnýjun rekstrarleyfis gerð víðtækari.
          Í 9. gr. er krafa um eigin fjármögnun vegna sjókvíaeldis gerð skýrari og krafa um leyfi til mannvirkjagerðar fellt niður.
          Í 11. gr. er kveðið á um að rekstrarleyfi sem gefin eru út eftir úthlutun skv. 4. gr. a laganna skuli vera ótímabundin en önnur rekstrarleyfi hafa almennt tíu ára gildistíma.
          Samkvæmt 13. gr. er áréttað að allar sjókvíaeldisstöðvar skuli hafa stöðvarskírteini útgefið af faggiltri skoðunarstofu og að ráðherra skuli setja reglur um upphaf starfsemi, þar sem fram koma meðal annars nánari reglur um staðarúttekt, matsgreiningar festinga, meginíhluti og stöðvarskírteini.
          Í 14. gr. er skýrt tekið fram að Fiskistofa skuli að eigin frumkvæði kanna aðstæður á eldissvæði ef fram koma upplýsingar eða rökstuddur grunur um að eldisfiskur hafi strokið úr kvíum eða lokuðum eldisbúnaði og gera ráðstafanir ef þörf krefur.
          Í 17. gr. er kveðið á um að ráðherra veiti leyfi til tímabundinna rannsókna Hafrannsóknastofnunar og Hafrannsóknastofnun skuli hafa samráð við Matvælastofnun og Umhverfisstofnun um undirbúning og framkvæmd slíkra rannsókna.
          Núverandi ákvæði í 2. mgr. 20. gr. e laga nr. 71/2008, um fiskeldi, sem segir að árgjald í sjóðinn skuli endurskoðað á fimm ára fresti er fellt niður. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða verða rekstrarleyfishafar sem stunda eldi í kvíum á ófrjóum laxi og regnbogasilungi undanþegnir árgjaldi í Umhverfissjóð sjókvíaeldis til og með 2025. Sama á við um rekstrarleyfishafa sem stunda eldi með lokuðum eldisbúnaði.
          Samkvæmt 20. gr. er Matvælastofnun heimilt að slátra eldisfiski og hreinsa eldissvæði á kostnað rekstrarleyfishafa þegar hann hefur ekki farið að ákvæðum laga og reglugerða vegna skerðingar á lífmassa frjórra laxa eða lífmassa eldisfisks við breytingu á útgefnu áhættumati erfðablöndunar eða breytingu á útgefnu burðarþoli.
          Samkvæmt a-lið 21. gr. er aðila máls heimilt að skjóta ákvörðun Matvælastofnunar um stjórnvaldssektir til ráðherra, en ekki einungis til dómstóla.
          Samkvæmt 24. gr. verður ráðherra skylt að setja reglugerð um aðgerðir vegna sníkjudýra í fiskeldi en ekki einungis heimilt að setja slíka reglugerð.
    Í ákvæði til bráðabirgða, sbr. 22. gr. frumvarpsins, er felld brott heimild til niðurfellingar á matsáætlun, sem er í matsferli hjá Skipulagsstofnun samkvæmt lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Ekki er gert ráð fyrir að fiskeldi verði skráningarskylt heldur verður fiskeldi áfram háð starfsleyfi eins og gildandi lög gera ráð fyrir. Þannig verður áfram gefið út starfsleyfi af Umhverfisstofnun og rekstrarleyfi af Matvælastofnun en ferli við umsókn, vinnslu, kynningu og útgáfu starfsleyfis og rekstrarleyfis verði samþætt með samvinnu Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar á meðan á þessu ferli stendur. Með þessu eru hugmyndir um skráningarskyldu teknar út úr frumvarpinu og samþætt ferli kemur í staðinn þar sem hlutverk hvorrar stofnunar fyrir sig er skýrt.

6. Mat á áhrifum.
6.1. Áhrif.
6.1.1. Aukin áhrif stjórnvalda á framtíðaruppbyggingu fiskeldis.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherra ákveði hvenær og hvaða firði eða hafsvæði skuli burðarþolsmeta auk þess sem ráðherra ákveður hvenær eldissvæðum er úthlutað og hversu mörgum er úthlutað hverju sinni. Með þessum heimildum ráðherra eru það stjórnvöld á hverjum tíma sem ákveða hvernig haga skuli framtíðaruppbyggingu fiskeldis hérlendis en sú uppbygging ekki lögð í hendur umsækjendum um leyfi. Þannig munu stjórnvöld hafa ákvörðunarvald um staðsetningu sjókvíaeldis á þeim svæðum sem eftir er að burðarþolsmeta og hversu hratt sú uppbygging á sér stað.

6.1.2. Umsóknir um rekstrarleyfi á svæðum sem ekki eru burðarþolsmetin falla niður.
    Umsóknir um rekstrarleyfi sem eru til meðferðar hjá Matvælastofnun á svæðum eða í fjörðum sem ekki er búið að meta til burðarþols við gildistöku ákvæðis til bráðabirgða eru ekki gildar og falla niður. Falli umsókn niður skal byggja úthlutun eldissvæðis á auglýsingu skv. 4. gr. a laganna. Fyrirtæki, sem hafa tilkynnt Skipulagsstofnun um áform sín um fiskeldi á tilteknum svæðum, sem eftir er að meta til burðarþols, munu þannig ekki geta tryggt sér tiltekið svæði samkvæmt reglu gildandi laga enda verður þessum svæði úthlutað á grundvelli auglýsingar.

6.1.3. Auknar rannsóknir.
    Það er stefna stjórnvalda að byggja ákvarðanir um framþróun fiskeldis á rannsóknum og ráðgjöf vísindamanna. Fyrirhugaðar lagabreytingar eiga að stuðla að ábyrgu fiskeldi, þar sem sjálfbær þróun og vernd lífríkis er höfð að leiðarljósi á grundvelli vísinda og rannsókna.
    Nauðsynlegt fyrsta skref í framkvæmd þessarar stefnu er að lögfesta áhættumat erfðablöndunar þannig að það verði lagt til grundvallar leyfilegu magni frjós eldislax í sjókvíum. Vegna þessarar áherslu stjórnvalda á rannsóknir og vöktun lífríkisins gerir frumvarpið einnig ráð fyrir sérstakri heimild Hafrannsóknastofnunar til að stunda tímabundnar rannsóknir á fiskeldi í fiskveiðilandhelgi Íslands. Ef frumvarpið verður að lögum munu rannsóknir á fiskeldi aukast hérlendis. Jafnframt er fyrirhugað að auka vöktun umhverfis og lífríkis í ám og nánasta umhverfi eldissvæða. Samkvæmt frumvarpinu þarf því aukið fjármagn til rannsókna og vöktunar. Því er lagt til að ríkið leggi Umhverfissjóði sjókvíaeldis til aukið fjármagn vegna mikilvægis þess að auka rannsóknir á eldi ófrjórra laxfiska hér við land, rannsókna á laxalús, eldistilrauna ýmiss konar og aukinnar vöktunar á áhrifum eldis á lífríki og umhverfi. Meginhlutverk sjóðsins er að greiða kostnað við rannsóknir vegna burðarþolsmats, vöktunar og annarra verkefna sem stjórn sjóðsins ákveður. Þar sem gera má ráð fyrir að sjóðurinn þurfi að greiða sífellt hærra framlag til Hafrannsóknastofnunar vegna kostnaðar við vöktun burðarþols svæða sem þegar hafa verið metin til burðarþols er mikilvægt að fé sjóðsins sé fullnægjandi miðað við hlutverk hans og aukna áherslu á rannsóknir í fiskeldi.

6.1.4. Aukin sátt um uppbyggingu fiskeldis – fyrirsjáanleg uppbygging.
    Með því að hrinda í framkvæmd þeirri stefnu stjórnvalda að byggja ákvarðanir um framþróun fiskeldis á ráðgjöf vísindamanna má gera ráð fyrir að meiri sátt verði náð um uppbyggingu fiskeldisins þannig að það geti vaxið eðlilega í sátt við helstu hagsmunaaðila og ekki síst að ímynd íslensks fiskeldis verði umhverfisvæn sem aftur skapi sérstöðu íslenskra fiskeldisafurða á markaði. Jafnframt má gera ráð fyrir, ef frumvarpið verður að lögum, að álitamálum vegna leyfisveitinga og staðsetningar sjókvía eigi eftir að fækka með lögleiðingu nýs leyfisveitingarkerfis, þar sem nýtt kerfi gerir ráð fyrir að búið sé að áætla staðsetningu og burðarþol hvers eldissvæðis þegar úthlutun fer fram og leyfishafi gerir tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar og sækir í framhaldinu um rekstrarleyfi til Matvælastofnunar. Jafnframt gerir tillagan ráð fyrir auknu samráði stofnana og fagaðila snemma í leyfisveitingarferlinu sem auka mun samræmi og heildaryfirsýn við ákvörðunartöku í ferlinu öllu.

6.1.5. Auknar kröfur gagnvart rekstrarleyfishöfum – áherslubreytingar í eftirliti.
    Eftirlit verður aukið með fiskeldisfyrirtækjum vegna takmarkana á framleiðsluheimildum fyrirtækja, aukinna krafna um upplýsingagjöf og vöktun umhverfis. Öll fyrirtæki í greininni verða fyrir áhrifum vegna aukinna eftirlitskrafna. Jafnframt má gera ráð fyrir að með skýrum kröfum um innra eftirlit fyrirtækja og áhættumiðað eftirlit muni áherslur í opinberu eftirliti færast til. Þannig mun umfang opinbers eftirlits og ákvörðun eftirlitsgjalda taka mið af virku innra eftirliti þeirra fyrirtækja sem eftirlit beinist að og þeir njóta þess sem standa sig á meðan opinbert eftirlit mun beinast í meira mæli að rekstrarleyfishöfum þar sem frávik er frá kröfum laga og reglna.

6.1.6. Aukið gegnsæi í rekstri fiskeldisfyrirtækja.
    Með heimild stjórnvalda til að birta opinberlega upplýsingar úr rekstri fyrirtækja, niðurstöðum eftirlits og ákvörðun um þvingunaraðgerðir og stjórnsýsluviðurlög með rafrænum hætti er verið að veita almenningi upplýsingar um það hvernig einstök fyrirtæki uppfylla kröfur laga og stjórnvaldsfyrirmæla. Þannig er verið að upplýsa almenning um það hvort rekstrarleyfishafar framfylgi lögum og reglum og hafi þannig sína hluti í lagi. Birting þessara upplýsinga úr eftirliti og möguleg viðurlög veitir fyrirtækjum auk þess aðhald og eykur varnaðaráhrif löggjafarinnar.

6.1.7. Aukin skilvirkni eftirlits og aukin varnaðaráhrif.
    Með því að fella niður þjónustusamning Matvælastofnunar við Umhverfisstofnun, um afmarkaða þætti umhverfiseftirlits með fiskeldi sem Umhverfisstofnun er falið lögum samkvæmt, er verið að nýta þá sérþekkingu sem til staðar er hjá Umhverfisstofnun vegna þessa eftirlits í stað þess að byggja upp þessa þekkingu á tveimur stöðum. Áhrifin eiga að koma fram í bættri framkvæmd eftirlits þar sem sérþekking stofnana er betur nýtt enn áður og verkaskipting Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar er gerð skýr.
    Heimild til að leggja stjórnvaldssektir á rekstrarleyfishafa, sem brjóta gegn tilteknum ákvæðum laga nr. 71/2008, um fiskeldi, mun auka skilvirkni eftirlits og skilvirkni viðurlaga vegna brota og skapa varnaðaráhrif sem stuðla að því að lögum og stjórnvaldsreglum sé fylgt. Auglýsing viðurlaga mun hafa sömu áhrif.

6.1.8 Einfaldari stjórnsýsluframkvæmd.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir einfaldari stjórnsýsluframkvæmd og eyðir óvissu vegna mismunandi ákvæða í starfs- og rekstrarleyfum þar sem náin samvinna verður á milli Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar þó svo að rekstraraðilar þurfi einungis að sækja til Matvælastofnunar um leyfi.

6.1.9. Eftirlit með sníkjudýrum.
    Lagður er grunnur að auknum heimildum stjórnvalda til að hafa aukið eftirlit með sníkjudýrum í fiskeldi, svo sem með laxalús. Þannig er hægt að skylda rekstraraðila til að telja laxalús við tilteknar aðstæður og bregðast við fjölgun laxalúsar ef upp koma aðstæður sem kalla á slík viðbrögð.

6.2. Óbein áhrif.
6.2.1. Aukin umsvif fiskeldis – innviðauppbygging.
    Markmið þessarar lagasetningar er að styrkja lagaumgjörð fiskeldis þannig að íslensku fiskeldi séu sköpuð bestu möguleg skilyrði til uppbyggingar og verði þannig sterk og öflug atvinnugrein. Ef slík uppbygging fiskeldis gengur eftir má gera ráð fyrir jákvæðum áhrifum á byggðarlög. Hér er helst horft til fjölgunar starfa. Þannig má gera ráð fyrir að með auknum umsvifum fiskeldis muni tekjur sveitarfélaga og ríkisins af fiskeldi aukast. Samhliða uppbyggingu fiskeldis munu kröfur um innviðauppbyggingu og þjónustu í viðkomandi sveitarfélögum aukast. Þannig má gera ráð fyrir auknum útgjöldum ef efla þarf samfélagsþjónustu við íbúa og bæta samgöngur.

6.2.2. Umhverfisvæn ímynd.
    Ef markmið lagasetningarinnar ganga eftir ætti sérstaða íslensks fiskeldis að aukast, þar sem fiskeldi verður byggt upp í sátt við umhverfið. Þetta getur þýtt hærra verð fyrir íslenskar afurðir í samanburði við erlendar.

6.2.3. Auknar kröfur til menntunar.
    Frumvarpið hefur óbein áhrif á menntun en aukinn vöxtur greinarinnar kallar á menntað starfsfólk og aukið framboð slíks náms.

6.3. Fjárhagsleg áhrif.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem kalla á auknar rannsóknir og útgáfu burðarþolsmats. Þannig á Hafrannsóknastofnun eftir að meta til burðarþols tiltekin hafsvæði og firði. Auk þess þarf stofnunin að vakta lífrænt álag á þeim svæðum sem búið er að burðarþolsmeta. Aukinn kostnaður fellur til vegna endurskoðunar á áhættumati erfðablöndunar, sem er lögfest í frumvarpinu. Jafnframt fellur til aukinn kostnaður vegna aukinna rannsókna þegar hafsvæðum er skipt upp í eldissvæði. Gert er ráð fyrir að þessi verkefni verði fjármögnuð af Umhverfissjóði sjókvíaeldis og er áætlað að sjóðurinn þurfi 200 m.kr. á ári til ráðstöfunar í þessi verkefni og önnur sem honum eru ætluð samkvæmt lögum, frá og með árinu 2020. Í fjárlögum 2018 er framlag ríkissjóðs 110 m.kr. og er því aukningin 90 m.kr. á ári.
    Þá hafa breytingar í frumvarpinu áhrif á störf atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og er gert ráð fyrir að ráðinn verði sérfræðingur sem sinnir verkefnum ráðuneytisins vegna fiskeldis, svo sem samskiptum við hagsmunaaðila, eftirlitsaðila, greiningu upplýsinga og umsjón við rafræna gátt um upplýsingar um fiskeldi. Auk þess fellur til kostnaður vegna uppsetningar, reksturs og hýsingar rafrænnar gáttar. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir töluverðri vinnu við reglugerðir og innleiðingu regluverks. Styrkja þarf fiskeldissvið Hafrannsóknastofnunar, vegna aukinna rannsókna og úrvinnslu gagna með ráðningu á einum sérfræðingi. Jafnframt þarf að efla fiskeldismál hjá Matvælastofnun. Gert er ráð fyrir aukinni tíðni skila á rekstrarupplýsingum frá rekstrarleyfishöfum og aukinni úrvinnslu upplýsinga samfara því. Auk þess gerir frumvarpið ráð fyrir nýju umsóknarferli, endurskoðun á niðurstöðum áhættumats erfðablöndunar og breytingum vegna vöktunar burðarþols. Áætlaður kostnaður vegna áhrifa frumvarpsins á störf atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og stofnana þess er 83 m.kr. árið 2019, þar af eru 23 m.kr. stofnkostnaður. Árlegur kostnaður verði þannig 60 m.kr. frá og með árinu 2020.
    Verði frumvarpið samþykkt óbreytt aukast útgjöld um 83 m.kr. á árinu 2019, en þar af eru 23 m.kr. tímabundinn stofnkostnaður. Árleg útgjaldaaukning, að meðtalinni 90 m.kr. aukningu á fjárþörf Umhverfissjóðs sjókvíaeldis, er því talin verða 150 m.kr. frá og með árinu 2020. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti mun fjármagna útgjöld ársins 2019 innan útgjaldaramma málefnasviðsins sjávarútvegur og fiskeldi í fjármálaáætlun 2019–2023 en frá og með árinu 2020 verða útgjöldin fjármögnuð með sérstakri gjaldtöku. Annars vegar verður um að ræða tekjur í samræmi við 3. gr. frumvarps þessa, þar sem kveðið er á um reglugerð um skiptingu hafsvæða í eldissvæði, auglýsingu og úthlutun þeirra, og hins vegar verður um að ræða tekjur samkvæmt frumvarpi um gjaldtöku sem ráðuneytið áformar að leggja fram haustið 2018. Á árunum 2018 og 2019 mun Hafrannsóknastofnun vinna að burðarþolsmati og undirbúningi sem nauðsynlegur er áður en gjaldtaka hefst. Úthlutun Umhverfissjóðs sjókvíaeldis í mars 2018 tók mið af þessari þörf og var stofnuninni úthlutað 95 m.kr. til mats á burðarþoli fjarða og sjókvíaeldissvæða og 30 m.kr. til vöktunar á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis.

6.4. Jafnréttismat.
    Efni frumvarpsins gefur ekki ástæðu til að ætla að það hafi áhrif á stöðu kynjanna.

7. Auðlindagjald í fiskeldi.
    Í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er unnið að frumvarpi til laga um auðlindagjald í fiskeldi. Byggt er á tillögu starfshóps um stefnumótun í fiskeldi við útfærslu gjaldsins. Þar er lagt til að rekstrarleyfishafar sem stunda fiskeldi í sjókvíum greiði auðlindagjald. Ekki er gert ráð fyrir að fiskeldi sem stundað er á landi greiði slíkt gjald. Byggt er á því að auðlindagjald verði lagt á öll eldisfyrirtæki sem nýta sameiginlega auðlind til starfseminnar.
    Við það er miðað að gjaldstofn auðlindagjalds ákvarðist af framleiðslu eldisfisks í sjó og raunverulegri nýtingu þess eldisrýmis sem notað er hverju sinni. Útreikningur gjaldstofns auðlindagjalds mundi þannig miðast við þyngd eldisfisks við slátrun að frádreginni þyngd (meðalstærð) seiða sem sett eru út í sjókvíar. Þessi aðferð við ákvörðun gjaldstofnsins felur í sér hvata til að stytta eldistíma í sjó með útsetningu á sem stærstum seiðum, sem aftur lækkar gjaldstofn auðlindagjaldsins.
    Ákvörðun um fjárhæð auðlindagjalds liggur ekki fyrir en sé miðað við að álagt gjald sé 15 kr. á hvert kg af eldislaxi upp úr sjó gæti auðlindagjaldið skilað rúmlega 1 milljarði kr. ef framleiðslan verður meiri en 67.000 tonn. Til skoðunar er að rekstrarleyfishafar fái tiltekinn frest á greiðslu auðlindagjalds talið frá þeim tíma þegar fyrsta slátrun hefst úr eldiskvíum. Til að hvetja til eldis á ófrjóum laxi verður slíkt eldi tímabundið undanþegið greiðslu auðlindagjalds.
    Gengið er út frá því að stærstur hluti auðlindagjalds renni til uppbyggingar innviða á þeim svæðum sem nýtast við uppbyggingu fiskeldis. Hér er horft til uppbyggingar samfélagslegrar þjónustu og samgangna á svæðum sem hafa aðkomu að eldi í sjókvíum. Þannig mætti nýta tekjur af gjaldinu til að bæta samgöngumannvirki sem nýtt eru til flutnings afurða á markað. Jafnframt hefur verið horft til þess að hluta auðlindagjalds verði ráðstafað sem framlagi til Umhverfissjóðs sjókvíaeldis til þess að efla vöktun og rannsóknir í fiskeldi.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í ákvæðinu eru skilgreind nokkur hugtök sem notuð eru í frumvarpinu.
     Um a-lið. Hér er endurskoðuð skilgreining á sjókvíaeldi og er hún víðtækari en áður og nær nú til lokaðs eldisbúnaðar.
     Um b-lið. Í 1. tölul. er að finna skilgreiningu á hugtakinu áhættumat erfðablöndunar. Í hugtakinu felst annars vegar mat á magni frjórra eldislaxa sem strjúka úr sjókvíum og vænta má að komi í ár þar sem villta laxastofna er að finna. Hins vegar er metið hvenær erfðablöndun eldislax við villta nytjastofna er orðin það mikil að stofngerð villta stofnsins stafi hætta af. Matið segir þannig til um hversu mikið magn laxa óhætt er að ala í sjókvíum á ákveðnu svæði þannig að ekki hljótist skaði af fyrir villta laxastofna. Hafrannsóknastofnun framkvæmir og gefur út áhættumat erfðablöndunar. Matið tekur til erfðablöndunar við villtan laxastofn en það hugtak er skilgreint í 11. tölul. Skilgreiningin gerir ráð fyrir að villtur laxastofn samkvæmt ákvæðinu sé nytjastofn en nytjastofn er skilgreindur í lögunum.
    Í 2. tölul. segir að eldissvæði sé svæði þar sem fiskeldi er leyft og afmarkað með sérstökum hnitum. Hugtakið er notað í 3 gr. frumvarpsins, þar sem fjallað er um skiptingu hafsvæða í eldissvæði, auglýsingu og úthlutun þeirra.
    Í 3. tölul. er kví skilgreind en kví og lokaður eldisbúnaðar eru hugtök sem notuð eru til að skilgreina hugtakið sjókvíaeldi.
    Í 4. tölul. er lax skilgreindur en áhættumat erfðablöndunar gildir einungis um fiska af tegundinni Salmo salar.
    Í 5. tölul. er hugtakið laxfiskar skilgreint en það hugtak er notað í 11. og 13. gr. gildandi laga.
    Í 6. tölul. er að finna skilgreiningu á lífmassa í rekstrarleyfi. Þar segir að lífmassi sé margfeldi af fjölda og meðalþyngd fiska á tilteknu eldissvæði. Í 7. gr. frumvarpsins er skýrt kveðið á um að lífmassi eldisdýra samkvæmt rekstrarleyfi á tilteknu eldissvæði skuli á hverjum tíma vera í samræmi við útgefið burðarþol Hafrannsóknastofnunar. Í frumvarpinu er þannig lögð sú skylda á rekstrarleyfishafa að vita hversu mikið magn eldisfisks er í eldi.
    Í 7. tölul. er lokaður eldisbúnaður skilgreindur. Slíkt eldi þarf að vera í lokuðu rými í sjó eða vatni og hægt að stýra skiptum á sjó eða vatni í rýminu. Auk þessa þarf að vera mögulegt að endurnýta úrgang vegna eldisins með því að fjarlægja hann úr eldisbúnaðinum. Síðast en ekki síst þarf slíkur eldisbúnaður að standast sömu staðla og kröfur og gerðar eru til sjókvía sem notaðar eru hérlendis. Ef lokaður eldisbúnaður er notaður er eldi undanþegið árgjaldi í Umhverfissjóð sjókvíaeldis til og með 2025.
    Í 8. tölul. er ófrjór lax skilgreindur og er sú skilgreining í samræmi við skilgreiningu á geldstofni í gildandi lögum.
    Í 9. tölul. er skilgreining á sjókvíaeldisstöð sem tekur bæði til kvía og lokaðs eldisbúnaðar.
    Í 10. tölul. er hugtakið sníkjudýr skilgreint. Hugtakið er nota í nokkrum ákvæðum frumvarpsins og mikilvægt að merking þess sé skýr.
    Í 11. tölul. er skilgreining á villtum laxastofni og er hún í samræmi við skilgreiningu laganna á villtum fiskstofni.

Um 2. gr.

    Í a-lið greinarinnar er lagt til að felld verði brott sú skylda að ávallt skuli leitað faglegrar umsagnar Fiskistofu, Matvælastofnunar og Hafrannsóknastofnunar og leitað álits Sambands íslenskra sveitarfélaga, Landssambands fiskeldisstöðva og Landssambands veiðifélaga þegar setja á reglugerðir samkvæmt lögunum. Ekki er talið eðlilegt að sá ráðherra sem fer með málefni fiskeldis þurfi alltaf að leita umsagnar þessara aðila enda þótt efni reglugerðar eða breyting á reglugerð varði ekki umsagnaraðila. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir umtalsverðu samráði við framangreinda aðila, t.d. í 3. gr. frumvarpsins þegar hafsvæðum er skipt upp í eldissvæði. Eðlilegra verður að telja að leitað sé umsagnar þess sveitarfélags er málið varðar en ekki Sambands íslenskra sveitarfélaga eða einstakra rekstrarleyfishafa nú þegar skylduaðild að Landssambandi fiskeldisstöðva er felld niður samkvæmt frumvarpinu.
    Í b-lið greinarinnar er lagt til að skylduaðild að Landssambandi fiskeldisstöðva verði aflögð en í ákvæðinu segir: „Allar fiskeldisstöðvar skulu hafa með sér samtök, Landssamband fiskeldisstöðva, sem gæta sameiginlegra hagsmuna fiskeldismanna.“ Ekki verður séð að hægt sé að skylda rekstrarleyfishafa til slíkrar aðildar þar sem ekki verður séð að þessi skylda sé nauðsynleg til þess að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eins og ákvæði 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar um félagafrelsi kveður á um.

Um 3. gr.

    Hér er um að ræða nýtt ákvæði þar sem breytingar eru gerðar á úthlutun leyfa til sjókvíaeldis. Gert er ráð fyrir að hafsvæðum sé skipt upp í eldissvæði, þau auglýst opinberlega og þeim úthlutað til þeirra sem leggja fram tilboð. Hafrannsóknastofnun ákveður skiptingu fjarða eða hafsvæða í eldissvæði og gerir það samhliða vinnu sinni við mat á burðarþoli. Þannig er gert ráð fyrir að eldissvæði verði staðsett þar sem skilyrði eru góð fyrir aukið líffræðilegt álag. Jafnframt skal stofnunin skipta upp svæðum í eldissvæði með hagkvæmustu nýtingu að leiðarljósi. Áður en Hafrannsóknastofnun skiptir upp svæðum skal stofnunin leita umsagnar Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar, Landhelgisgæslu Íslands, Samgöngustofu auk aðliggjandi sveitarfélaga. Miklu skiptir að sjónarmið þessara aðila komi fram snemma í leyfisveitingarferlinu þannig að tillit sé tekið til þeirra áður en úthlutun svæða er auglýst. Hafrannsóknastofnun getur jafnframt, ef stofnun telur þörf á, leitað umsagnar fiskeldisfyrirtækja eða veiðiréttarhafa eftir atvikum.
    Það er skilyrði fyrir úthlutun ráðherra eða stofnunar í hans umboði að burðarþol, áhættumat erfðablöndunar og svæðaskipting fyrir umrætt hafsvæði liggi fyrir.
    Það er hins vegar lagt í vald ráðherra að ákveða hvenær eldissvæðum er úthlutað og hversu mörgum er úthlutað hverju sinni. Ráðherra getur ákveðið að bíða með úthlutun eldissvæðis eða eldissvæða enda þótt eldissvæðin séu tilbúin til úthlutunar. Þannig getur það talist heppilegt að auglýsa og úthluta fleiri en einu eldissvæði á sama tíma, m.a. vegna reglna um hvíld eldissvæða og kynslóðaskipt eldi.
    Auglýsa skal úthlutun eldissvæða og skal úthluta svæðum samkvæmt hagstæðasta tilboði. Gefnar eru leiðbeiningar um hvaða mælikvarða hægt sé að nota við mat á hagstæðasta tilboði. Upptalning ákvæðisins er ekki tæmandi. Þannig þarf hagstæðasta tilboð ekki að fela í sér fjárhagslega greiðslu tilboðsgjafa en ákvæði útilokar ekki slíkar peningalegar greiðslur tilboðsgjafa. Gert er ráð fyrir að ráðherra ákveði skilmála úthlutunar og hvað teljist hagstæðasta tilboð með reglugerð, þar sem þessi atriði geta breyst milli úthlutana og eftir því sem tíminn líður. Að öðru leyti er gert ráð fyrir frekari útfærslu ákvæðisins með reglugerð ráðherra.
    Jafnframt er ráðherra heimilt að úthluta eldissvæðum að nýju þegar eldra rekstrarleyfi fellur niður, því breytt þannig að gefa þarf út nýtt rekstrarleyfi eða það fæst ekki endurnýjað þegar gildistími þess rennur út. Ekki er útilokað að eldri útgefin rekstrarleyfi falli niður af einhverjum ástæðum, t.d. forsendubresti skv. 15. gr. laga nr. 71/2008 eða gildistími þeirra renni út án þess að þau séu nýtt eftir gildistöku þessa frumvarps. Í þeim tilvikum er heimilt að úthluta þessum rekstrarleyfum að nýju samkvæmt þessari grein. Gert er ráð fyrir að rekstrarleyfi sem eru gild við gildistöku þessa frumvarps og uppfylla lagakröfur þegar kemur að endurnýjun verði endurnýjuð en ekki boðin út, sbr. t.d. b-lið 8. gr. frumvarpsins. Að auki er gert ráð fyrir því að hægt sé að úthluta eldissvæðum að nýju ef tilboðsgjafi uppfyllir ekki skilmála úthlutunar eða umsókn hans um rekstrarleyfi er hafnað eftir að honum hefur verið úthlutað eldissvæði og tilboði hans tekið. Hér er um heimildarákvæði að ræða. Þannig er það lagt í vald ráðherra að ákveða hvort umræddu eldissvæði verði úthlutað eða ekki.
    Sérstakt ákvæði um niðurfellingu rekstrarleyfa fyrir ófrjóan lax er í ákvæði til bráðabirgða III.

Um 4. gr.

    Hér eru lagðar til breytingar á 4. gr. a laganna, um móttöku og afgreiðslu umsókna. Greinin verður 4. gr. b laganna.
    Í a-lið er gert ráð fyrir því skilyrði að ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmdin sé ekki matsskyld eða álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar liggi fyrir áður en sótt er um rekstrarleyfi. Þannig þarf umsækjandi um rekstrarleyfi að fara í gegnum matsferli Skipulagsstofnunar ef stofnunin telur slíkt ferli nauðsynlegt áður en hann getur sótt um rekstrarleyfi hjá Matvælastofnun. Í ákvæðinu er áréttað að umsóknir beri að afgreiða samhliða.
    Með breytingum á 3. mgr. greinarinnar í b-lið er felld brott sú skylda Matvælastofnunar að afgreiða umsóknir um starfsleyfi og rekstrarleyfi innan sex mánaða frá því að þær berast stofnunum jafnframt er fellt úr ákvæðinu texti sem segir: „Verði tafir á málsmeðferð vegna ófullnægjandi gagna umsækjanda framlengist frestur til afgreiðslu sem því nemur“. Eðlilegt er að um afgreiðslu umsókna um rekstrarleyfi gildi almennar reglur stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sem kveða á um í 9. gr. laganna að ákvarðanir í málum skulu teknar svo fljótt sem unnt er.

Um 5. gr.

    Í frumvarpinu er felld brott 5. gr. laga nr. 71/2008, um fiskeldi, þar sem ráðherra skal, ef vistfræðileg eða hagræn rök mæla með því, ákveða samkvæmt lögum skiptingu fiskeldissvæða meðfram ströndum landsins. Ákvæðið er óþarft þar sem ráðherra hefur heimild í 6. gr. laganna til að takmarka eða banna fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í einstökum fjörðum, flóum eða á svæðum sem teljast sérlega viðkvæm gagnvart starfsemi þeirri sem fram fer samkvæmt lögum þessum.
    Að auki er í gildi auglýsing nr. 460/2004, um friðunarsvæði, þar sem eldi laxfiska í sjókvíum er óheimilt á tilteknum svæðum. Enn fremur er lífmassi í sjókvíaeldi takmarkaður með útgáfu á burðarþolsmati og áhættumati erfðablöndunar samkvæmt frumvarpinu.

Um 6. gr.

    Gert er ráð fyrir viðbót við 2. mgr. 6. gr. sem heimilar ráðherra að taka tillit til sjónarmiða um aðra nýtingu hafsvæða en eldisstarfsemi við ákvörðun sína þegar hann takmarkar eða bannar fiskeldi á ákveðnum hafsvæðum. Í sumum tilvikum getur reynst erfitt að samræma fiskeldisstarfsemi við aðra starfsemi á tilteknu svæði. Þannig getur eldisstarfsemi jafnvel komið í veg fyrir aðra nýtingu á tilteknu hafsvæði. Hér getur verið um að ræða starfsemi sem fyrir er á svæðinu og mun bíða skaða af ef fiskeldi er leyft á svæðinu eða starfsemi sem er fyrirhuguð í framtíðinni. Því er nauðsynlegt að ráðherra hafi lagaheimild til að banna fiskeldisstarfsemi á svæðum sem þannig er ástatt um. Hér getur verið um að ræða nýtingu efna á hafsbotni eða nýtingu svæðisins til ferðaþjónustu svo að dæmi séu tekin.

Um 7. gr.

     Um a-lið (6. gr. a).
    Hér er lagt til að áhættumat erfðablöndunar verði lögfest þannig að Hafrannsóknastofnun verði gert skylt að gefa út áhættumat erfðablöndunar þar sem fram kemur magn frjórra laxa sem leyfilegt er að ala í sjókvíum hverju sinni. Í 1. gr. frumvarpsins er sett fram skilgreining á áhættumati erfðablöndunar, sem segir til um hvað felst í áhættumati erfðablöndunar. Þar segir að meta skuli hvenær erfðablöndun eldislax við villta nytjastofna verði það mikil að stofngerð villta stofnsins stafi hætta af.
    Ákvæðið tekur til einungis til laxa, þ.e. fiska af tegundinni Salmo salar, en ófrjór lax er skilgreindur sem lax sem ekki framleiðir frjóar kynfrumur.
    Ákvæðið gerir ráð fyrir að Matvælastofnun hafi eftirlit með framkvæmd áhættumats erfðablöndunar og að rekstrarleyfishafar fari eftir niðurstöðu áhættumatsins. Matvælastofnun skal þannig hafa eftirlit með að leyfilegur lífmassi frjórra laxa samkvæmt rekstrarleyfi sé í samræmi við niðurstöður áhættumats erfðablöndunar á hverjum tíma. Matvælastofnun skal miða við lífmassa laxa í eldinu en lífmassi er skilgreindur í 1. gr. frumvarpsins.
    Í ákvæðinu er kveðið skýrt á um að Matvælastofnun skuli gefa út sérstakt rekstrarleyfi fyrir ófrjóan lax ef um slíkt er að ræða og annað rekstrarleyfi fyrir frjóan lax ef rekstrarleyfishafi ætlar að stunda eldi á frjóum og ófrjóum laxi. Jafnframt er áréttað að eldi á ófrjóum laxi skuli halda aðgreindu frá eldi frjórra laxa þannig að hægt sé að hafa eftirlit með ófrjóum laxi á eldistímanum. Ef rekstrarleyfishafi ákveður að nota ófrjóan lax í eldinu getur hann nýtt leyfilegan lífmassa rekstrarleyfisins í þeim hlutföllum sem áhættumat erfðablöndunar kveður á um.
    Áhættumat skal endurskoða eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti en stofnuninni er heimilt að gefa út áhættumat svo oft sem þörf þykir að mati stofnunarinnar. Við endurskoðun áhættumats erfðablöndunar skal lífmassi frjórra laxa hvers rekstrarleyfis þannig breytast í hlutfalli við leyfilegan lífmassa frjórra laxa á svæðinu samkvæmt áhættumati erfðablöndunar.
    Nauðsynlegt er að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd breytinga á rekstrarleyfi til hækkunar eða lækkunar lífmassa frjórra laxa til samræmis við endurskoðað áhættumat hverju sinni.
     Um b-lið (6. gr. b).
    Lagt er til að við lögin bætist nýtt ákvæði, 6. gr. b, um burðarþolsmat. Ákvæðið heimilar ráðherra að ákveða hvaða hafsvæði skuli meta til burðarþols og hvenær slíkt burðarþolsmat skuli framkvæmt. Hér er um að ræða nýmæli. Samkvæmt gildandi löggjöf hefur Hafrannsóknastofnun ákveðið forgangsröðun hafsvæða sem metin eru til burðarþols. Við ákvörðun um forgangsröðun svæða hefur stofnunin meðal annars horft til fjölda fyrirliggjandi umsókna um leyfi á svæðum. Telja verður að betur fari á því að ráðherra ákveði hvaða svæði skuli burðarþolsmeta hverju sinni.
    Samkvæmt ákvæðinu skal Hafrannsóknastofnun framkvæma burðarþolsmat svæðis eða aðili sem ráðuneytið samþykkir að fenginni bindandi umsögn Hafrannsóknastofnunar og er ekki lögð til breyting á því frá gildandi lögum. Það er hins vegar nýmæli að Hafrannsóknastofnun skipti hafsvæðum upp í möguleg eldissvæði þegar svæði eru burðarþolsmetin. Þetta mun líklega þýða að burðarþolsmatið verður ítarlegra en áður hefur verið þar sem stofnunin þarf mögulega að framkvæma frekari rannsóknir á lífrænu álagi svæðisins þannig að skýr mynd fáist af vistfræði og umhverfi svæðisins.
    Í frumvarpinu er kveðið skýrt á um það að Hafrannsóknastofnun skuli vakta lífrænt álag þeirra svæða sem þegar hafa verið metin til burðarþols. Jafnframt eru tekin af öll tvímæli að leyfilegt magn eldisdýra hvers rekstrarleyfis skuli breytast ef burðarþol hækkar eða lækkar eftir endurskoðun matsins. Rekstrarleyfishafa er þannig óheimilt að stunda eldi sem felur í sér meiri lífmassa á eldissvæði á hverjum tíma en rekstrarleyfi kveður á um.
    Í ákvæðinu er lögð sú skylda á rekstrarleyfishafa að magn eldisdýra sé ekki meira en fram kemur í rekstrarleyfinu. Magnið skal mælt í lífmassa eldisdýra á hverjum tíma. Þetta þýðir að rekstrarleyfishafi verður að gæta að því allan eldistímann að lífmassi eldisdýra fari ekki umfram leyfilegt magn samkvæmt rekstrarleyfinu. Samkvæmt gildandi lögum hefur einungis verið miðað við að slátrað framleiðslumagn fari ekki yfir leyfilegt magn samkvæmt rekstrarleyfi óháð magni eldisdýra á eldistímanum. Matvælastofnun skal hafa eftirlit með að leyfilegur lífmassi eldisdýra samkvæmt rekstrarleyfi sé í samræmi við niðurstöður burðarþols á hverjum tíma.
    Lífmassi er miðaður við eldissvæði. Sé lífmassi á tilteknu eldissvæði ekki skilgreindur af Hafrannsóknastofnun við gildistöku laganna munu lagakröfur um lífmassa á eldissvæði taka gildi eftir því sem Hafrannsóknastofnun skilgreinir lífmassa á eldissvæðum um landið.

Um 8. gr.

    Í a-lið er lögð til breyting á 2. málsl. 2. mgr. 7. gr. laganna og gerð sú krafa að Matvælastofnun meti hvort umsækjandi uppfylli kröfur sem gerðar eru í reglugerð um velferð lagareldisdýra. Fyrir var gerð sú krafa til Matvælastofnunar að hún mæti hvort umsækjandi uppfyllti heilbrigðiskröfur vegna lagareldisdýra og afurða þeirra.
    Samkvæmt b-lið er Matvælastofnun skylt, við endurnýjun á rekstrarleyfi, að endurmeta hvort rekstrarleyfishafi uppfylli kröfur laga um heilbrigði dýra og afurða auk krafna um velferð dýra.

Um 9. gr.

    Lagt til að upptalningu í 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. laganna verði breytt til samræmis við aðrar breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu. Þannig er lagt til að í umsókn komi fram upplýsingar um innra eftirlit stöðvarinnar svo að meta megi hvort slíkt eftirlit standist kröfu laga. Felld er brott krafa um upplýsingar um gæðakerfi en innra eftirlit á að fela í sér upplýsingar um gæðakerfi. Jafnframt er krafist upplýsinga um stærð og framleiðslumagn stöðvar mælt í lífmassa og magn frjórra laxa og ófrjórra í fyrirhuguðu eldi í samræmi við þær breytingar sem frumvarpið felur í sér.
    Lagt er til að 3. málsl. 1. mgr. 8. gr. laganna falli brott en þar segir: „Þá skal fylgja umsókn burðarþolsmat fyrir viðkomandi sjókvíaeldissvæði sem framkvæmt hefur verið af Hafrannsóknastofnun eða öðrum aðila sem ráðuneytið samþykkir að fenginni bindandi umsögn Hafrannsóknastofnunar.“ Þetta ákvæði er nú óþarft þar sem burðarþolsmat er forsenda fyrir úthlutun eldissvæða. Í 7. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir nýju ákvæði þar sem fjallað er um ákvörðun um burðarþol og framkvæmd þess.
    Í greininni er lagt til að felld verði brott úr 4. málsl. 1. mgr. 8. gr. laganna heimild Skipulagsstofnunar til að vinna samtímis að mati á umhverfisáhrifum og starfsleyfi.
    Jafnframt er lagt til að ásamt umsögn skuli fylgja gögn um heimild til afnota af landi eða vatni en felld brott sú skylda að leggja fram skilríki um heimild til afnota af sjó, enda hefur slíkra skilríkja ekki verið krafist af stjórnvöldum. Hins vegar er það áréttað í ákvæðinu að þegar eldissvæðum er úthlutað samkvæmt nýrri reglu 4. gr. a laganna með auglýsingu leggi umsækjandi fram gögn um úthlutun eldissvæðisins.
    Loks er 2. mgr. 8. gr. laganna breytt þannig að krafa um staðfestingu á a.m.k. 30% eigin fjármögnun eldis gildir einungis í sjókvíaeldi en ekki í eldi á landi eins og nú er gerð krafa um. Þetta þýðir að eldi í kvíum í sjó, söltu vatni og lokuðum eldisbúnaði þarf að uppfylla kröfur um eigin fé í rekstrinum. Jafnframt eru kröfur um eiginfjárhlutfallið gerðar skýrari Þannig á eiginfjárhlutfallið að vera tiltekið lágmark að teknu tilliti til fjárfestinga í mannvirkjum og búnaði sem á að tilgreina í sérstakri áætlun um fjárfestingar í mannvirkjum og búnaði. Að auki er sett fram sú regla að staðfesting á stöðu eigin fjár og eiginfjárhlutfalli skuli miðast við það tímamark þegar umsókn er lögð fram.

Um 10. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að 1. mgr. 9. gr. laganna falli brott en þar segir: „Umsóknir um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á sama sjókvíaeldissvæði skulu afgreiddar í þeirri röð sem þær berast Matvælastofnun, enda fullnægi umsókn skilyrðum laga þessara.“ Frumvarpið gerir ráð fyrir að eldissvæðum verði úthlutað samkvæmt auglýsingu og hagstæðasta boði. Sé tilboði tekið og úthlutað til tilboðsgjafa skal hann sækja um rekstrarleyfi til Matvælastofnunar og hefja umsóknarferlið hjá stofnuninni. Vegna þessa er ákvæðið óþarft til framtíðar en sambærilegt ákvæði er í bráðabirgðaákvæði vegna umsókna sem nú eru í ferli.
    Í 1. mgr. greinarinnar kemur þess í stað nýtt ákvæði þar sem Matvælastofnun er skylt að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar áður en tillaga að rekstrarleyfi er auglýst opinberlega. Þetta ákvæði er í samræmi við nýlegan úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
    Í 2. mgr. greinarinnar segir að Matvælastofnun skuli taka afstöðu til áhættumats vegna erfðablöndunar skv. 6. gr. a og burðarþolsmats skv. 6. gr. b og leggja mat á sjúkdómstengda þætti sem kunna að fylgja starfsemi fiskeldisstöðvar. Hér er vísað til áhættumats erfðablöndunar og burðarþolsmats í stað hugtaksins „vistfræði“ sem er óljóst hugtak. Orðin „vistfræðilega þætti“ eru því felld brott úr ákvæðinu.

Um 11. gr.

    Í ákvæðinu er lögð til breyting á 1. málsl. 1. mgr. 10. gr. þar sem nú er lögð sú skylda á Matvælastofnun að auglýsa tillögu að rekstrarleyfi skv. 10. gr. a, en hér er um að ræða nýjar kröfur gagnvart Matvælastofnun. Þannig er Matvælastofnun nú heimilt að gefa út rekstrarleyfi ef umsókn um rekstrarleyfi fullnægir skilyrðum laganna og auglýsing tillögu að rekstrarleyfi skv. 10. gr. a hefur átt sér stað.
    Rekstrarleyfi sem gefin eru út samkvæmt gildandi lögum skulu gefin út til tíu ára í senn. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir þeirri meginreglu að rekstrarleyfi sem eru í umsóknarferli á svæðum sem hafa verið metin til burðarþols verði einnig gefin út til sextán ára í senn. Öðru máli gegnir um rekstrarleyfi sem gefin eru út eftir úthlutun skv. 4. gr. a laganna. Frumvarpið gerir ráð fyrir að slík rekstrarleyfi verði ótímabundin. Eðlilegt verður að telja að slík rekstrarleyfi verði ótímabundin enda hefur umsækjandi gengið í gegnum tiltekið úthlutunarferli þar sem hagstæðasta tilboði var tekið. Mögulega hefur umsækjandi jafnframt greitt fyrir slíkt leyfi og því eðlilegt að leyfið sé ótímabundið.
    Í ákvæðinu er lagt til að upptalningu í 2. mgr. 10. gr. laganna verði breytt til samræmis við aðrar breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu. Þannig er lagt til að í umsókn komi fram upplýsingar um stærð fiskeldisstöðvar mælt í leyfilegum lífmassa og hvort um sé að ræða eldi frjórra laxa og ófrjórra auk þeirra upplýsinga sem tilgreindar eru í gildandi lögum.
    Jafnframt hefur reglugerðarheimild verið gerð víðtækari en áður þar sem setja skal nánari ákvæði í reglugerð um þær aðferðir sem skylt er að nota til að rekja uppruna eldislaxa til ákveðinna sjókvíaeldisstöðva og framkvæmd þeirra.
    Í 4. mgr. lagagreinarinnar er loks lagt til að Matvælastofnun útbúi greinargerð þar sem tekin er afstaða til niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum, farið yfir afstöðu Matvælastofnunar til athugasemda sem bárust og farið yfir málsmeðferðina.

Um 12. gr.

    Hér er um nýtt ákvæði að ræða og er efni þess í samræmi við 3. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Hér er lögð sú skylda á Matvælastofnun að auglýsa tillögu að rekstrarleyfi. Heimilt er að gera skriflegar athugasemdir við tillögur Matvælastofnunar innan fjögurra vikna frá auglýsingu. Þannig er gert ráð fyrir að tillaga að rekstrarleyfi skuli birt með sama hætti og starfsleyfi sem Umhverfisstofnun gefur út. Ákvæðið skyldar jafnframt bæði Matvælastofnun og Umhverfisstofnun til að auglýsa tillögur sínar að leyfum samtímis.
    Í ákvæðinu er einnig áréttað að birta skuli með auglýsingu á vef Matvælastofnunar útgáfu og gildistöku rekstrarleyfa. Áfram mun Umhverfisstofnun birta á vefsíðu sinni þær upplýsingar sem henni ber samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Um 13. gr.

    Hér er um að ræða nýtt ákvæði. Í 1. mgr. er kveðið á um skyldu um stöðvarskírteini fyrir allar sjókvíaeldisstöðvar útgefið af faggiltri skoðunarstofu. Í ákvæðinu kemur einnig fram hvaða upplýsingar skuli vera í slíku skírteini.
    Samkvæmt 2. mgr. er ráðherra falið að setja nánari reglur í reglugerð um upphaf starfsemi, þar sem fram koma meðal annars nánari reglur um staðarúttekt, matsgreiningar festinga, meginíhluti og stöðvarskírteini.

Um 14. gr.

    Hér eru gerðar breytingar á 1. mgr. 13. gr. laganna vegna veiða eldisfisks sem strýkur.
    Gert ráð fyrir að Fiskistofa skuli að eigin frumkvæði kanna aðstæður á eldissvæði ef fram koma upplýsingar um strokufisk úr sjókvíaeldi eða eldisstöð og gera ráðstafanir ef þörf krefur. Sama á við ef fram kemur rökstuddur grunur um strokufisk úr sjókvíaeldi eða eldisstöð. Gert er ráð fyrir að Fiskistofa bregðist við án tafar. Þannig er gert ráð fyrir að Fiskistofa sannreyni slíkar upplýsingar eða rökstuddan grun um strokufisk en bíði ekki eftir tilkynningu frá rekstrarleyfishafa eða þriðja aðila.
    Rekstrarleyfishafi hefur enn sem fyrr þá skyldu að tilkynna strok eldisfisks úr eldi án tafar til Fiskistofu. Hann skal nú jafnframt tilkynna slíkan atburð til Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar.

Um 15. gr.

    Gert er ráð fyrir að tekið verði upp í lög nr. 71/2008, um fiskeldi, sérstakt ákvæði sem fjallar um innra eftirlit fiskeldisstöðva. Núverandi ákvæði um gæðastjórnun og innra eftirlit fiskeldisstöðva eru í 42.–44. gr. reglugerðar nr. 1170/2015, um fiskeldi. Þannig skal rekstrarleyfishafi almennt hafa eftirlit með starfsumhverfinu, þ.m.t. eldi lagardýra, heilbrigði þeirra, mannvirkjum og búnaði. Um er að ræða fyrirbyggjandi aðgerðir þar sem áhættuþættir í starfseminni eru greindir og viðmið skilgreind fyrir þau eftirlitsatriði sem vakta skal. Rekstrarleyfishafi eldisstöðvar skal þannig starfrækja virkt eftirlit þar sem skýrt kemur fram hvað á að vakta, hver á að annast vöktunina, hvenær og hvernig vöktunin fer fram. Innra eftirlit felur þannig í sér verklagsreglur, viðhaldsáætlanir og þjálfun starfsmanna.
    Sjókvíaeldi lýtur sérstökum reglum þegar kemur að innra eftirliti enda um áhættumeiri rekstur að ræða. Rekstraraðili í sjókvíaeldi skal þannig, sem hluta af innra eftirliti, starfrækja gæðakerfi þar sem fram koma verklagsreglur meðal annars um þjálfun starfsmanna og viðbragðsáætlanir. Innra eftirlit sjókvíaeldisstöðvar skal jafnframt fela í sér vöktun á viðkomu sníkjudýra í eldinu, svo sem laxalúsar, í samræmi við leiðbeiningar sem fram koma í reglugerð sem ráðherra setur. Niðurstöður vöktunar skulu sendar Matvælastofnun sem metur hvort og þá hvaða aðgerða er þörf. Matvælastofnun er skylt að leita umsagnar Hafrannsóknastofnunar áður en ákvörðun um aðgerðir er tekin. Aðgerðir Matvælastofnunar vegna sníkjudýra geta haft áhrif á lífríkið og villta nytjastofna í næsta nágrenni. Því er mikilvægt að gætt sé allrar varúðar við framkvæmd slíkra aðgerða.
    Með því að taka upp í lög sérstakt ákvæði um innra eftirlit, þar sem rekstrarleyfishafi ber ábyrgð á að sett sé á fót og starfrækt innra eftirlit, sem hefur það hlutverk að tryggja að starfsemin sé í samræmi við ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæla, er ekki einungis verið að árétta mikilvægi innra eftirlits heldur verður Matvælastofnun nú heimilt að draga úr tíðni eftirlits hjá rekstrarleyfishafa ef tiltekin skilyrði eru uppfyllt. Annars vegar þarf að liggja fyrir vottun frá faggiltum aðila um að innra eftirlit fyrirtækisins uppfylli kröfur laga og reglna og hins vegar að starfsemin uppfylli viðmið Matvælastofnunar um frávik í opinberu eftirliti. Gert er ráð fyrir að Matvælastofnun ákveði leyfileg viðmið vegna frávika í eftirliti stofnunarinnar.
    Í ákvæðinu er jafnframt kveðið á um skyldu Matvælastofnunar að sannreyna með reglulegum hætti að framkvæmd innra eftirlits með starfseminni sé í samræmi við lög og reglur.
    Með því að taka upp sérstakt ákvæði um innra eftirlit fiskeldisfyrirtækja í lög er einnig verið að gera Matvælastofnun kleift að leggja stjórnvaldssektir á þá rekstrarleyfishafa sem brjóta gegn ákvæðum um innra eftirlit. Gert er ráð fyrir að þessi heimild til álagningar stjórnvaldssekta muni gera allt eftirlit með innra eftirliti fyrirtækja skilvirkara.

Um 16. gr.

    Um er að ræða ýmsar breytingar á 14. gr. laganna sem fjallar um eftirlit og skýrsluskil.
     Um a-lið. Í 3. málsl. 1. mgr. 14. gr. laganna er áréttað að Matvælastofnun hefur eftirlit með velferð fiska auk heilbrigðis og heilnæmis eldisafurða.
     Um b-lið. Í 2. mgr. greinarinnar er tíðni skila á rekstrarupplýsingum til Matvælastofnunar aukin. Samkvæmt frumvarpinu skal rekstrarleyfishafi skila Matvælastofnun skýrslu mánaðarlega um starfsemi sína en ekki árlega eins og gildandi lög kveða á um. Þessi breyting er nauðsynleg svo hafa megi fullnægjandi eftirlit með rekstrinum og þróun hans. Jafnframt er nú skýrt kveðið á um að rekstrarleyfishafi skuli skila upplýsingum um framleiðslumagn stöðvarinnar mælt í slátruðum fiski. Jafnframt á að skila upplýsingum um magn birgða af fiski mælt í lífmassa í samræmi við skilgreiningu þess hugtaks. Loks er það nýmæli að rekstrarleyfishafi skuli skila upplýsingum um sníkjudýr, svo sem laxalús, ef vöktun hefur leitt í ljós viðgang slíkra dýra í eldinu. Í lokamálslið 2. mgr. er skýrt tekið fram að Matvælastofnun hefur alltaf heimild til að kalla eftir frekari gögnum en greinir í 2. mgr. þegar tilefni er til.
    Í þessu sambandi er rétt að benda á að skv. b-lið 17. gr. frumvarpsins verður stjórnvöldum heimilt að birta opinberlega upplýsingar úr eftirliti og niðurstöður úr eftirliti með fiskeldisfyrirtækjum auk upplýsinga úr framleiðsluskýrslum skv. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 71/2008, um fiskeldi.
     Um c-lið. Gert er ráð fyrir að 5. mgr. 14. gr. laganna falli brott en þar er gert ráð fyrir að Matvælastofnun sjái um afmarkaða þætti eftirlits með fiskeldi sem Umhverfisstofnun er falið samkvæmt  lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Eftirlit Matvælastofnunar byggist á þjónustusamningi við Umhverfisstofnun. Þetta fyrirkomulag á eftirliti hafði það að markmiði að auka skilvirkni eftirlits gagnvart eftirlitsþegum sem ekki hefur orðið, enda fellur umhverfiseftirlit með fiskeldi ekki faglega að störfum Matvælastofnunar.
    Í stað 5. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar sem annars vegar árétta að Matvælastofnun skuli heimill óheftur aðgangur til skoðunar og eftirlits, þar á meðal töku sýna, myndatöku, skoðunar á dagbók rekstrarleyfishafa, og hins vegar að rekstrarleyfishafa, forráðamanni eða starfsmönnum hans sé skylt að veita aðstoð við framkvæmd eftirlitsins og veita allar upplýsingar auk þess sem heimilt er að láta rekstrarleyfishafann greiða allan kostnað vegna þvingunarúrræða.

Um 17. gr.

     Um a-lið (19. gr. a).
    Hér er um að ræða nýtt ákvæði sem heimilar Hafrannsóknastofnun að stunda tímabundnar rannsóknir vegna fiskeldis í lögsögunni. Það er skilyrði að um sé að ræða tímabundna rannsókn. Ekki eru sett sérstök tímamörk rannsóknar en rannsókn getur tekið nokkur ár. Hér getur verið um að ræða ýmiss konar rannsóknir, svo sem rannsóknir á eldisfisk við ýmis skilyrði í sjókvíum, eldisbúnaði eða hafbeitartilraun, þar sem heimtur eldisfisks eru rannsakaðar. Það er Hafrannsóknastofnun sem ákveður hvort slíkar rannsóknir fari fram á grundvelli þessa ákvæðis. Stofnunin getur gert þessar rannsóknir í samvinnu við aðra, bæði einstaklinga eða lögaðila og opinbera aðila eða einkaaðila. Ef rannsókn er gerð þar sem eldi er fyrir þarf að gæta þess að eldistilraun auki ekki áhættu í því eldi og gætt sé allra varúðarsjónarmiða.
    Það er ráðherra sem veitir leyfi til rannsókna skv. 1. mgr. eftir að umsókn hefur komið fram, þar sem fram koma upplýsingar um markmið og framkvæmd rannsóknarinnar.
    Hafrannsóknastofnun skal hafa samráð við Matvælastofnun og Umhverfisstofnun um undirbúning og framkvæmd þessara rannsókna.
     Um b-lið (19. gr. b).
    Hér er um að ræða heimildarákvæði um opinbera birtingu upplýsinga úr eftirliti og niðurstöður úr eftirliti með fiskeldisfyrirtækjum auk upplýsinga úr framleiðsluskýrslum skv. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 71/2008, um fiskeldi. Þannig nær ákvæðið til upplýsinga í lögbundinni framleiðsluskýrslu þar sem fram koma upplýsingar um útsetningu á seiðum, framleiðslumagn stöðvar mælt í birgðum af fiski, afföll fisks, uppruna fisks, slátrað magn úr eldiseiningu, stærð eldisrýmis og nýtingu þess, fóðurnotkun, sjúkdóma, viðkomu og vöktun laxalúsar og óhappa í rekstri auk annarra niðurstaðna úr eftirliti. Birta má niðurstöður eftirlits hjá einstökum rekstrarleyfishöfum. Matvælastofnun skal þó gæta þess að ekki séu afhent gögn um fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja enda óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni sbr. upplýsingalög, nr. 140/2012.
    Ákvæðið er í samræmi við kröfur tilskipunar ráðsins 2006/88/EB þar sem heimilt er að birta upplýsingar um sjúkdómastöðu hverrar eldisstöðvar og kröfur 5. gr. laga nr. 23/2006, um upplýsingarétt um umhverfismál, en þar er kveðið á um rétt almennings til aðgangs að gögnum, skrám og gagnagrunnum sem geyma upplýsingar um umhverfismál hjá stjórnvöldum, fyrirtækjum sem gegna opinberu hlutverki eða veita opinbera þjónustu og lúta stjórn hins opinbera og verktökum sem gegna opinberu hlutverki eða veita opinbera þjónustu á grundvelli samnings við stjórnvöld, með tilgreindum takmörkunum. Skv. 1. mgr. 10. gr. laganna skulu þau stjórnvöld sem falla undir lögin vinna með almennum hætti að því að gera upplýsingar um umhverfismál aðgengilegar almenningi. Þá er einnig kveðið á um að stjórnvöldum beri ávallt að hafa sérstakt frumkvæði að upplýsingagjöf til almennings, sé ástæða til að ætla að frávik vegna mengandi efna í umhverfi geti haft í för með sér hættu eða skaðleg áhrif á umhverfi eða heilsu fólks eða dýra, sbr. 2. mgr. 10. gr. laganna.
     Um c-lið (19. gr. c).
    Hér er gert ráð fyrir nýju ákvæði sem skyldar Matvælastofnun til að greina opinberlega frá ákvörðunum um þvingunarúrræði og stjórnsýsluviðurlög. Um er að ræða ákvarðanir um aðgerðir sem gripið er til í alvarlegum tilvikum þegar fyrirtæki hafa gerst brotleg eða uppfylla ekki kröfur laga og reglna og verða ekki við tilmælum um úrbætur. Þessar upplýsingar eru þess eðlis að sjálfsagt þykir að almenningur fái vitneskju um þær. Gert er ráð fyrir að birting þessara upplýsinga muni fela í sér aukin varnaðaráhrif löggjafarinnar, þar sem slík birting skapar aðhald fyrir fyrirtækin. Þetta nýja ákvæði er í samræmi við og rökrétt viðbót við efnisákvæði b-liðar 17. gr. hér að framan.

Um 18. gr.

    Með ákvæðinu er felld niður heimild stjórnar Umhverfissjóðs sjókvíaeldis til að veita veiðiréttarhöfum styrki úr sjóðnum til að mæta þeim kostnaði eða tekjumissi sem þeir hafa orðið fyrir vegna tjóns sem er ekki hægt að rekja til ákveðinnar eldisstöðvar. Umrætt lagaákvæði fellur hvorki að markmiðum fiskeldislaga né hlutverki Umhverfissjóðs sjókvíaeldis, sem er að fjármagna burðarþolsrannsóknir fjarða og lágmarka umhverfisáhrif sjókvíaeldis með rannsóknum og vöktun. Telja verður að ef það er vilji löggjafans að greiða bætur í tilvikum sem þessum eigi það ekki að byggjast á mati sjóðstjórnar hverju sinni heldur þurfi að kveða skýrt á um í lögum hvaða tjón eigi að bæta og hvernig meta eigi tjónið.

Um 19. gr.

    Sjá skýringar við e-lið 22. gr. (ákvæði til bráðabirgða V).

Um 20. gr.

    Fyrir liggur að Hafrannsóknastofnun mun vakta burðarþol hafsvæða og endurskoða áhættumat erfðablöndunar. Við slíka vöktun eða endurskoðun getur lífmassi eldisdýra á hafsvæðinu minnkað og sama á við um lífmassa frjórra laxa á eldissvæði. Ef rekstrarleyfishafi bregst ekki við lögbundnum ákvörðunum Hafrannsóknastofnunar getur Matvælastofnun látið slátra eldisfiski og hreinsað eldissvæði á kostnað rekstrarleyfishafa.

Um 21. gr.

     Um a-lið (21. gr. d).
    Með ákvæðum þessarar greinar er lagt til að Matvælastofnun öðlist heimildir til að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á nánar tilteknum ákvæðum laganna. Með ákvæðum greinarinnar er lagt til að við ákvörðun sekta skuli meðal annars taka tillit til þeirra hagsmuna sem í húfi eru, alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Við afmörkun hámarks sektarfjárhæða var litið til þeirra hagsmuna sem um er að ræða og miðar ákvæðið þannig að því að tryggja að einstaklingar eða lögaðilar geti ekki hagnast á því að brjóta gegn ákvæðum laganna.
    Gert er ráð fyrir að ákvörðun Matvælastofnunar um stjórnvaldssekt sé aðfararhæf og að sektir fari í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu. Stjórnvaldssektum skal beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi. Ákvæðið veitir Matvælastofnun heimild til þess að fella mál niður án viðurlaga í ákveðnum tilvikum sem lögfest eru í ákvæðinu. Er slík niðurfellingarheimild eðlileg í ljósi meðalhófs og byggist á fyrirmynd í öðrum lögum.
    Í lokamálsgrein ákvæðisins er kveðið á um að aðili máls geti skotið ákvörðun um stjórnvaldssekt til ráðherra og að málshöfðunarfrestur sé þrír mánuðir frá því að ákvörðun var tekin. Þá frestar málskot aðför.
     Um b-lið (21. gr. e).
    Hér er kveðið á um heimild Matvælastofnunar til að ljúka máli með sátt sé ekki um meiri háttar brot að ræða sem refsiviðurlög liggja við. Höfð var hliðsjón af 98. gr. laga nr. 56/2010 við útfærslu ákvæðisins.
     Um c-lið (21. gr. f).
    Höfð var hliðsjón af 100. gr. laga nr. 56/2010 við útfærslu ákvæðisins. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki frekari skýringa.
     Um d-lið (21. gr. g).
    Hér er lagt til að lögfest verði ákvæði er kveður á um rétt einstaklings til að fella ekki á sig sök við rannsókn á stjórnsýslustigi. Á meðan slíkt almennt ákvæði er ekki í stjórnsýslulögum þykir æskilegt að inntak réttarins verði lögfest í þessum lögum þar sem stjórnsýsluviðurlög, sem talist geta viðurlög við „refsiverðu broti“ í skilningi 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, liggja við brotum á lögunum. Ákvæðið á aðeins við ef til staðar er „rökstuddur grunur“ um að viðkomandi hafi framið refsivert brot. Þykir eðlilegt að miða við að grunur yfirvalda sé svo sterkur að ástæða væri til að veita honum réttarstöðu grunaðs manns samkvæmt reglum opinbers réttarfars. Þannig verði að vera til staðar aðstæður eða sönnunargögn sem bendi til sektar viðkomandi og rannsókn að beinast að honum sérstaklega en ekki stærri hópi manna. Ef til staðar er rökstuddur grunur um að viðkomandi hafi framið refsivert brot er honum aðeins skylt að veita upplýsingar ef unnt er að útiloka að þær geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um sekt hans. Væri honum því t.d. skylt að veita upplýsingar um nafn sitt og heimilisfang.

Um 22. gr.

     Um a-lið (ákvæði til bráðabirgða I).
    Í ákvæðinu er kveðið á um í fyrsta lagi hvernig fara eigi með þær umsóknir um rekstrarleyfi sem eru til meðferðar hjá Matvælastofnun við gildistöku ákvæðisins í fjörðum eða hafsvæðum sem ekki er búið að meta til burðarþols við gildistöku ákvæðisins. Gert er ráð fyrir að þær umsóknir sem þannig er ástatt um falli niður. Þetta verður að telja eðlilegt tímamark að miða við þar sem skv. 1. mgr. 8. gr. gildandi laga skal fylgja umsókn um rekstrarleyfi burðarþolsmat fyrir viðkomandi sjókvíaeldissvæði. Þannig er umsókn ekki fullnægjandi samkvæmt gildandi lögum ef burðarþol viðkomandi hafsvæðis liggur ekki fyrir. Umsóknir um rekstrarleyfi sem falla þannig niður eru ógildar og skal úthluta eldissvæðum á grundvelli auglýsingar skv. 4. gr. a laganna. Samkvæmt þeirri grein ákveður Hafrannsóknastofnun þau svæði sem nýtt verða til fiskeldis og auglýst verða en ekki umsækjandi sjálfur eins og nú er. Þar sem framangreindar umsóknir eru ekki fullnægjandi lögum samkvæmt er ekki gert ráð fyrir greiðslu skaðabóta til umsækjanda vegna útlagðs kostnaðar hans.
    Í öðru lagi fjallar ákvæðið um rekstrarleyfi, sem eru í gildi við gildistöku ákvæðisins og taka til starfsemi í fjörðum eða hafsvæðum sem ekki er búið að meta til burðarþols við gildistöku ákvæðisins. Frumvarpið kveður á um að þessi rekstrarleyfi haldi gildi sínu. Ákvæði 4. gr. a um auglýsingu og úthlutun gilda ekki um þessi leyfi við endurnýjun ef rekstrarleyfið uppfyllir skilyrði þeirra laga sem um það gilda þegar gildistími þess rennur út. Annars fellur leyfið niður og viðkomandi eldissvæði er úthlutað skv. 4. gr. a laganna. Í þessum tilvikum er um gilt rekstrarleyfi að ræða og eldisstarfsemi þegar hafin. Fjárhagslegir hagsmunir geta hér verið miklir og ekki rétt að kollvarpa forsendum slíks rekstrar þannig að hann leggist af.
     Um b-lið (ákvæði til bráðabirgða II).
    Í þessu ákvæði er það áréttað í samræmi við ákvæði til bráðabirgða I að umsóknir um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á hafsvæðum sem hafa verið metin til burðarþols við gildistöku ákvæðisins haldi gildi sínu. Þetta þýðir að þessi eldissvæði eru ekki auglýst opinberlega og úthlutað. Eldri regla gildandi laga um afgreiðsluröð umsókna á sama sjókvíaeldissvæði er áréttuð en umsóknir skal afgreiða í þeirri röð sem þær berast Matvælastofnun, enda fullnægi umsókn skilyrðum laga. Við endurnýjun rekstrarleyfa útgefinna á grundvelli þessara umsókna skulu gilda kröfur laga, sem um þau gilda þegar gildistími þeirra rennur út. Rekstrarleyfi útgefin á grundvelli þessara umsagna ber þannig ekki að auglýsa og úthluta skv. 4. gr. a þegar kemur að endurnýjun þeirra ef þau uppfylla lagakröfur á þeim tíma þegar þau renna út. Að öðru leyti gilda ákvæði laganna um þessar umsóknir og rekstrarleyfi útgefin samkvæmt þeim.
    Í ákvæðinu er fjallað um þau tilvik þegar Hafrannsóknastofnun hefur ekki ákveðið leyfilegan lífmassa á skilgreindu eldissvæði samkvæmt rekstrarleyfi þegar lögin taka gildi. Þetta á við í einhverjum tilvikum. Ef um slíkt er að ræða skal beita ákvæðum nýrra laga þegar stofnunin hefur metið leyfilegan lífmassa á umræddu eldissvæði.
     Um c-lið (ákvæði til bráðabirgða III).
    Ákvæðið skyldar Matvælastofnun til að endurskoða gildandi rekstrarleyfi vegna ófrjós lax fimm árum frá útgáfu rekstrarleyfisins enda liggi fyrir endurskoðaðar niðurstöður áhættumats erfðablöndunar innan þess tíma. Endurskoðun Matvælastofnunar skal taka til nýtingar leyfa vegna ófrjós lax.
    Þar sem áhættumat erfðablöndunar verður lögfest með frumvarpi þessu munu umsækjendur um rekstrarleyfi á tilteknum svæðum fá heimild til að ala ófrjóan lax í umtalsverðu magni ef umsóknir þeirra verða samþykktar. Þannig getur komið upp sú staða að rekstrarleyfi þeirra hljóði upp á eldi á ófrjóum eldislaxi að hluta eða öllu leyti enda þótt þeir hafi einungis sótt um eldi á frjóum laxi. Þar sem það er alls óvíst hvort þessir rekstrarleyfishafar muni telja hagstætt að hefja eldi ófrjós eldisfisks í samræmi við heimildir er þörf á að taka afstöðu til þeirra tilvika þegar leyfilegt magn af ófrjóum laxi er ekki nýtt eða vannýtt. Í þessum tilvikum er rétt að fella niður slíkar heimildir og eftir atvikum úthluta þeim að nýju til fyrirtækja sem hug hafa á eldi ófrjórra laxa. Það mundi ráðherra gera með auglýsingu á grundvelli 4. gr. a laganna.
    Niðurfelling heimilda miðast við tvenns konar tímamörk, annars vegar þegar rekstrarleyfishafi hefur ekki hafið eldi á ófrjóum laxi við lok framangreinds fimm ára tímabils og hins vegar ef rekstrarleyfishafi hefur ekki nýtt helming eða meira af leyfilegu magni af ófrjóum laxi innan sjö ára frá útgáfu leyfis.
    Magn eldisfisks samkvæmt þessari grein skal miðast við leyfilegan lífmassa eldisfisks.
    Í lokamálsgrein ákvæðisins er það áréttað að þegar endurskoðað áhættumat erfðablöndunar samkvæmt ákvæðinu felur í sér auknar framleiðsluheimildir á frjóum laxi á tilteknu svæði skuli sú aukning bætast hlutfallslega við leyfilegar framleiðsluheimildir rekstrarleyfa á þessu tiltekna svæði í samræmi við 7. gr. frumvarpsins.
     Um d-lið (ákvæði til bráðabirgða IV).
    Gert er ráð fyrir að þau starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á hafsvæði sem ekki hefur verið burðarþolsmetið við gildistöku ákvæðisins, og leyfishafi starfsleyfis hefur ekki gilt rekstrarleyfi, falli úr gildi eftir gildistöku ákvæðisins. Með niðurfellingu þessara starfsleyfa er Hafrannsóknastofnun gert kleift að skilgreina hentug eldissvæði og hámarka nýtingu á þeim hafsvæðum sem eftir er að burðarþolsmeta þar sem ekki þarf að taka tillit til umsókna um rekstrarleyfi og starfsleyfi á þessum hafsvæðum.
     Um e-lið (ákvæði til bráðabirgða V).
    Með þessu ákvæði eru þeir rekstrarleyfishafar sem stunda eldi í kvíum á ófrjóum laxi og regnbogasilungi undanþegnir árgjaldi í Umhverfissjóð sjókvíaeldis. Gert er ráð fyrir að undanþágan gildi til loka ársins 2025. Sama á við um rekstrarleyfishafa sem stunda eldi með lokuðum eldisbúnaði. Lokaður eldisbúnaður er skilgreindur í 1. gr. frumvarpsins. Markmið ákvæðisins er að hvetja til eldis ófrjórra laxa og eldis með lokuðum eldisbúnaði. Þar sem eldi á regnbogasilungi hefur átt erfitt uppdráttar er jafnframt lagt til að komið verði til móts við þá rekstrarleyfishafa sem slíkt eldi stunda með því að fella niður árgjaldið tímabundið.
    Núverandi ákvæði 2. mgr. 20. gr. e sem segir að árgjald í sjóðinn skuli endurskoðað á fimm ára fresti er fellt niður.

Um 23. gr.

    Lagt er til í greininni að ef um er að ræða ráðstafanir sem Matvælastofnun leggur til vegna sjúkdóma eða sníkjudýra fiskeldis í netkvíum í söltu vatni eða sjó skuli leita samráðs um ráðstafanir við Hafrannsóknastofnun. Hafrannsóknastofnun hefur sérþekkingu á lífríki vatna og sjávar en aðgerðir Matvælastofnunar, t.d. lyfjagjöf eða böðun, geta haft áhrif á lífríki villtra nytjastofna svo dæmi sé tekið. Því er mikilvægt að haft sé samráð við stofnunina um aðgerðir.

Um 24. gr.

    Ákvæðið gerir ráð fyrir breytingu á reglugerðarheimild laga nr. 60/2006, um varnir gegn fisksjúkdómum. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ráðherra verði skylt að setja reglugerð sem mælir fyrir um aðgerðir vegna sníkjudýra í fiskeldi. Nauðsynlegt er að lögfesta skýra heimild fyrir stjórnvöld, ef þörf krefur, til að setja annars vegar reglur um vöktun sníkjudýra, sem plaga eldið, og hins vegar viðbrögð og framkvæmd aðgerða sem miða að því að hefta útbreiðslu þeirra.
    Hér er ekki einungis horft til aðgerða sem felast í meðhöndlun á eldisfiski heldur einnig aðgerða stjórnvalda, sem fela í sér takmörkun á magni eldisfisks á eldissvæði.
    Laxalús er nefnd í ákvæðinu sem ein tegund sníkjudýra en ákvæðið gildir um öll sníkjudýr sem leggjast á eldisfisk. Gert er ráð fyrir að slíkar reglur verði settar að höfðu samráði við Matvælastofnun.

Um 25. gr.

    Í greininni er lagt til að 2. mgr. 58. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem kveður á um að Umhverfisstofnun skuli gera þjónustusamning við Matvælastofnun um að Matvælastofnun sinni afmörkuðum þáttum eftirlits Umhverfisstofnunar með fiskeldi og að nánar skuli kveðið á um umfang og tilhögun eftirlits og gerð og efni þjónustusamnings í reglugerð falli brott. Þetta er einnig lagt til í samræmi við tillögur áðurnefnds starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi á Íslandi. Eftirlitsaðilar og eftirlitsþegar eru sammála um að bæta þurfi framkvæmd umhverfiseftirlits með fiskeldi og gera það markvissara. Sú leið sem farin var að Matvælastofnun framkvæmi eftirlit Umhverfisstofnunar hafi ekki gefist vel þar sem fagþekkingin á umhverfiseftirliti og mengunarvörnum sé hjá Umhverfisstofnun og framkvæmd eftirlitsins samræmist ekki vel öðrum störfum Matvælastofnunar. Því sé eðlilegt að umhverfiseftirlit sé á könnu Umhverfisstofnunar.

Um 26. gr.

    Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. janúar 2019 þannig að nægur tími ætti að gefast til nauðsynlegs undirbúnings hjá stofnunum eða rekstrarleyfishöfum.
    Þó öðlast 1. gr. frumvarpsins sem fjallar um skilgreiningar og 6. gr. frumvarpsins sem heimilar ráðherra að taka tillit til sjónarmiða um aðra nýtingu hafsvæða en vegna fiskeldis þegar gildi. Sama á við um ákvæði 1. mgr. 6. gr. b laganna í 7. gr. frumvarpsins sem kveður á um ákvörðun ráðherra um hvaða firði eða hafsvæði skuli burðarþolsmeta og hvenær það skuli gert. Ákvæði frumvarpsins í 12.–14. gr., sem fjalla um auglýsingu tillögu að rekstrarleyfi, stöðvarskírteini og veiðar á fiski sem strýkur, öðlast einnig þegar gildi. Jafnframt öðlast a-liður 17. gr. frumvarpsins (19. gr. a), sem fjallar um tímabundnar rannsóknir Hafrannsóknastofnunar, þegar gildi. Loks taka ákvæði til bráðabirgða I, II og IV þegar gildi enda mikilvægt að kveða upp úr með gildi umsókna um rekstrarleyfi og gildi rekstrar- og starfsleyfa.