Ferill 481. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 691  —  481. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um köfun.

Frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.



I. KAFLI

Markmið o.fl.

1. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að stuðla að auknu öryggi við köfun.

2. gr.

Gildissvið.

    Lög þessi gilda um köfun á íslensku yfirráðasvæði og landgrunni Íslands, eins og það er skilgreint í lögum um landhelgi, aðlægt belti, efnahagslögsögu og landgrunn, þar á meðal frá hafstöðvum, og um köfun sem fer fram frá skipi skráðu á Íslandi.
    Lög þessi gilda ekki um köfun í atvinnuskyni sem fram fer frá erlendu skipi vegna köfunar við eigið skip eða um köfun sem fram fer í tengslum við öryggisgæslu á hafinu í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, samninga við önnur ríki og ákvæði laga.

3. gr.

Orðskýringar.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Köfun: Þær athafnir manna sem fara fram undir yfirborði vatns eða sjávar og þar sem notast er við búnað sem gerir mönnum kleift að kafa.
     2.      Köfun í atvinnuskyni: Allar athafnir sem teljast til köfunar eða eru í beinum tengslum við köfun og sem falla undir og eru liður í atvinnustarfsemi kafarans eða annarra tengdra aðila. Undir þetta fellur iðnaðarköfun, leiðsöguköfun og köfun vegna vísindalegra rannsókna. Einnig telst það vera köfun í atvinnuskyni ef athöfnin er liður í skipulagðri þjónustustarfsemi til verndar almannahagsmunum, svo sem leitar- og björgunarköfun. Um sjálfboðaliða, sem þiggja ekki laun fyrir störf sín, gilda reglur sem samtök þeirra setja og ráðherra hefur samþykkt.
     3.      Áhugaköfun: Allar þær athafnir sem teljast til köfunar samkvæmt lögum þessum en teljast ekki til köfunar í atvinnuskyni.
     4.      Atvinnukafari: Handhafi skírteinis til köfunar í atvinnuskyni sem gefið er út samkvæmt lögum þessum.
     5.      Köfunarformaður: Sá sem hefur með höndum verkstjórn við köfun og ber skyldur sem slíkur.
     6.      Köfunarkennari: Sá sem hefur leyfi Samgöngustofu til að kenna köfun í atvinnuskyni eða áhugaköfun.
     7.      Viðurkenndur aðili: Einstaklingur eða lögaðili sem Samgöngustofa hefur veitt heimild til að skipuleggja nám í köfun samkvæmt viðurkenndri námskrá.

II. KAFLI

Köfun í atvinnuskyni.

4. gr.

Skírteini sem heimilar köfun í atvinnuskyni.

    Sá sem kafar í atvinnuskyni skal vera handhafi viðeigandi skírteinis sem tekur mið af mismunandi verksviði kafara og Samgöngustofa gefur út í samræmi við lög þessi.
    Óheimilt er að ráða til köfunar í atvinnuskyni aðra en handhafa skírteinis samkvæmt lögum þessum.

5. gr.

Skilyrði fyrir útgáfu skírteinis.

    Til að fá útgefið skírteini sem heimilar köfun í atvinnuskyni þarf umsækjandi að:
     a.      vera fullra 20 ára,
     b.      standast með fullnægjandi hætti heilbrigðiskröfur, sbr. 6. gr.,
     c.      standast með fullnægjandi árangri menntunar- og hæfniskröfur, sbr. 7. gr.
    Skírteinið er í gildi svo lengi sem handhafi þess getur framvísað heilbrigðisvottorði nema það sé fellt úr gildi, sbr. 12. gr. Skilyrði fyrir endurútgáfu skírteinis er að framvísað sé heilbrigðisvottorði.
    Einstaklingar, sem réttarreglur Evrópska efnahagssvæðisins um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, eins og þær hafa verið innleiddar hér á landi, taka til og eru handhafar skírteinis til köfunar í atvinnuskyni, sem gefið er út af lögbærum stjórnvöldum, hafa rétt til að stunda köfun í atvinnuskyni hér á landi.

6. gr.

Heilbrigðiskröfur.

    Hver sá sem kafar í atvinnuskyni skal vera handhafi gilds heilbrigðisvottorðs sem gefið er út að undangenginni læknisskoðun.
    Til að fá útgefið heilbrigðisvottorð skal viðkomandi vera í góðu andlegu og líkamlegu ástandi til að geta rækt störf sín af öryggi.
    Gildistími heilbrigðisvottorðs skal taka mið af mismunandi verksviði kafara. Nú stenst handhafi skírteinis ekki læknisskoðun og skal læknir þá tilkynna það til Samgöngustofu.

7. gr.

Menntunar- og hæfniskröfur.

    Umsækjandi um skírteini sem heimilar köfun í atvinnuskyni skal hafa staðist með fullnægjandi árangri viðeigandi menntunar- og hæfniskröfur. Skal hann leggja fram við Samgöngustofu skírteini þess efnis frá viðurkenndum aðila.
    Samgöngustofa viðurkennir nám til köfunar í atvinnuskyni hér á landi.
    Nám til atvinnuköfunar sem fram fer erlendis fullnægir lögum þessum enda uppfylli það alþjóðleg viðmið um menntunar- og hæfniskröfur sem Samgöngustofa viðurkennir.
    Umsækjandi um skírteini sem heimilar köfun í atvinnuskyni, sem lokið hefur námi til köfunar í atvinnuskyni erlendis hjá aðila sem uppfyllir skilyrði 3. mgr., skal leggja fram nauðsynleg gögn til staðfestingar á að hann hafi staðist með fullnægjandi árangri viðeigandi menntunar- og hæfniskröfur.
    Nám til köfunar í atvinnuskyni skal fullnægja þeim skilyrðum og stöðlum sem mælt er fyrir um í reglugerð til samræmis við þau réttindi sem skírteinin veita. Nám sem Samgöngustofa viðurkennir skal vera í samræmi við viðurkennda námskrá, sem m.a. tiltekur efni námsins, lengd þess, hæfi kennara og leiðbeinenda og fyrirkomulag námsmats.

8. gr.

Starfsskyldur.

    Köfun í atvinnuskyni skal fara fram undir stjórn köfunarformanns.
    Sá sem kafar í atvinnuskyni skal haga starfi sínu í samræmi við lög þessi og reglugerðir settar samkvæmt þeim. Skal hann gæta þess að fylgt sé nauðsynlegum varúðarreglum vegna hættu á slysum.
    Þeim sem taka þátt í köfun undir stjórn atvinnukafara er skylt að hlýða fyrirmælum hans um notkun köfunarbúnaðar og öðrum varúðarreglum. Áður en köfun hefst skal atvinnukafari gæta þess að þátttakendur séu upplýstir með fullnægjandi hætti um nauðsynlegar öryggisreglur.


III. KAFLI

Kennsla í köfun.

9. gr.

Kennsla í köfun.

    

    Köfunarkennari, hvort sem hann kennir köfun í atvinnuskyni eða áhugaköfun, skal hafa til þess skírteini gefið út samkvæmt lögum þessum.

10. gr.

Skilyrði fyrir útgáfu skírteinis til kennslu.

    Til að fá útgefið skírteini sem heimilar kennslu í köfun þarf umsækjandi að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
     a.      vera fullra 20 ára,
     b.      standast með fullnægjandi hætti menntunar- og hæfniskröfur skv. 2. mgr.,
     c.      leggja fram staðfestingu um ábyrgðartryggingu frá vátryggingafélagi.
    Umsækjandi um skírteini sem heimilar kennslu í köfun skal hafa staðist viðeigandi menntunar- og hæfniskröfur. Skal hann leggja fram vottorð frá viðurkenndum aðila sem heimilar honum að sinna kennslu í köfun. Verði vottorð frá viðurkenndum aðila gert ógilt er Samgöngustofu heimilt að ógilda skírteini sem heimilar kennslu í köfun, sbr. 12. gr.
    Samgöngustofa viðurkennir nám til kennslu í köfun hér á landi.
    Nám til kennslu í köfun sem fram fer erlendis fullnægir lögum þessum enda uppfylli það alþjóðleg viðmið um menntunar- og hæfniskröfur sem Samgöngustofa viðurkennir.
    Umsækjandi um skírteini sem heimilar kennslu í köfun, sem lokið hefur námi til kennslu í köfun erlendis hjá aðila sem uppfyllir skilyrði 4. mgr., skal leggja fram nauðsynleg gögn til staðfestingar á að hann hafi staðist með fullnægjandi árangri viðeigandi menntunar- og hæfniskröfur.
    Nám til kennslu í köfun skal fullnægja þeim skilyrðum og stöðlum sem mælt er fyrir um í reglugerð til samræmis við þau réttindi sem skírteinin veita. Nám sem Samgöngustofa viðurkennir skal vera í samræmi við viðurkennda námskrá, sem m.a. tiltekur efni námsins, lengd þess, hæfi kennara og leiðbeinanda og fyrirkomulag námsmats.

IV. KAFLI

Ýmis ákvæði.

11. gr.

Eftirlit.

    Samgöngustofa hefur umsjón og eftirlit með framkvæmd laga þessara og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim. Samgöngustofu er heimilt að innheimta gjöld vegna eftirlits samkvæmt lögum þessum, útgáfu og endurnýjunar köfunarskírteina.
    Í tengslum við eftirlit samkvæmt lögum þessum getur Samgöngustofa gert vettvangskannanir. Landhelgisgæsla Íslands og lögreglan hafa einnig heimild til vettvangskannana.
    Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða nánar á um eftirlit Samgöngustofu.

12. gr.

Niðurfelling leyfis og önnur úrræði.

    Samgöngustofu er heimilt að ógilda skírteini samkvæmt lögum þessum ef handhafi skírteinis fullnægir ekki lengur skilyrðum laga þessara eða brýtur á annan hátt gegn ákvæðum þeirra.
    Áður en skírteini er ógilt skv. 1. mgr. skal Samgöngustofa senda skírteinishafa skriflega viðvörun um fyrirhugaða niðurfellingu skírteinis þar sem koma skal fram tilefni niðurfellingar. Veita skal skírteinishafa hæfilegan frest til að bæta úr annmörkum.
    Komi til endanlegrar niðurfellingar leyfis skal Samgöngustofa senda skírteinishafa skriflega tilkynningu þess efnis og tiltaka frá hvaða tíma skírteinið telst niður fallið.
    Handhafi skírteinis sem fellt hefur verið úr gildi skal skila því til Samgöngustofu án tafar eftir að tilkynning skv. 3. mgr. berst.

13. gr.

Stjórnsýslukæra.

    Ákvörðunum Samgöngustofu samkvæmt lögum þessum verður skotið til ráðherra. Um málsmeðferð fer eftir ákvæðum stjórnsýslulaga.

14. gr.

Viðurlög.

    Brot á lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim varða sektum og/eða sviptingu réttinda nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

15. gr.

Rannsókn köfunarslysa.

    Slys eða óhöpp sem verða við köfun skal tilkynna þegar í stað til lögreglu í því umdæmi þar sem slys eða óhapp átti sér stað og annast lögreglan rannsókn á orsökum þeirra. Um rannsóknina gilda að öðru leyti lög um meðferð sakamála.
    Niðurstöður rannsóknar skulu sendar rannsóknarnefnd samgönguslysa sem fjallar um málið og birtir álit sitt í ársskýrslu nefndarinnar.

16. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara þar sem m.a. er kveðið á um:
     a.      köfun í atvinnuskyni og mismunandi réttindi og réttindastig, svo sem um iðnaðarköfun, leiðsöguköfun, leitar- og björgunarköfun, vísindaköfun o.fl.,
     b.      skilyrði fyrir útgáfu skírteina,
     c.      heilbrigðiskröfur og útgáfu heilbrigðisvottorðs,
     d.      menntunar- og hæfniskröfur,
     e.      viðurkenningu náms til köfunar í atvinnuskyni og kennslu í köfun,
     f.      kennslu í köfun,
     g.      rannsókn slysa við köfun í atvinnuskyni.
     h.      eftirlit Samgöngustofu.

17. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Frá og með gildistöku þeirra falla brott lög um köfun, nr. 31/1996, með síðari breytingum.

18. gr.

Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um rannsókn samgönguslysa, nr. 18/2013, með síðari breytingum:
                  a.      D-liður 2. mgr. 15. gr. laganna orðast svo: köfunarslys, sbr. 15. gr. laga um köfun.
                  b.      Við a-lið 40. gr. laganna bætist: og köfunarslys skv. d-lið 2. mgr. 15. gr.
     2.      Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, með síðari breytingum: Orðin „og lög nr. 12/1976 um kafarastörf“ í 1. málsl. a-liðar 2. mgr. 2. gr. laganna falla brott.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Með því er lagt til að sett verði ný heildarlög um köfun í atvinnuskyni en gildandi lög eru nr. 31/1996, um köfun, með síðari breytingum.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Á undanförnum árum hefur köfunarstarfsemi aukist til muna hér á landi, sérstaklega með auknum straumi ferðamanna. Alvarleg köfunarslys hafa vakið umræðu um lög og reglur sem gilda um köfun og sér í lagi hvernig eftirliti með starfseminni er háttað.
    Fyrir gildistöku laga nr. 31/1996 giltu hér á landi lög nr. 12/1976, um kafarastörf. Uppruna þeirra mátti rekja til erindis Félags íslenskra kafara til iðnaðardeildar efri deildar Alþingis. Tilgangur þeirrar lagasetningar var að tryggja þeim, sem stunduðu köfun í atvinnuskyni, ákveðinn starfsgrundvöll og setja jafnframt reglur um réttindi og skyldur í starfi. Samkvæmt athugasemdum í greinargerð, sem fylgdu frumvarpinu, byggðist það á dönskum lögum (þskj. 31, 97. löggjafarþing 1975–1976, bls. 2–3). Með setningu gildandi laga voru litlar efnislegar breytingar gerðar, að því undanskildu að skilið var á milli atvinnuköfunar og áhugaköfunar.
    Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Samgöngustofa töldu því að nauðsynlegt væri að endurskoða gildandi lög og reglur um köfun með það að markmiði að skýra þau og uppfæra.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Efnisatriði frumvarpsins eru eftirfarandi:
          Lagðar eru til breytingar og uppfærslur á ýmsum ákvæðum er varða köfun, t.d. um gildissvið laganna, skilgreiningar o.fl.
          Lagt er til að ákvæði um viðurkenningu og eftirlit með köfunarbúnaði verði felld brott en eftirlit með persónuhlífum, eins og köfunarbúnaði, fellur undir reglur nr. 501/1994, um gerð persónuhlífa, sem innleiðir ákvæði tilskipunar ráðsins 89/686/EB um samræmingu laga aðildarríkjanna um persónuhlífar, sem sett er á grundvelli laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, en þau heyra undir félags- og jafnréttismálaráðherra.
          Lagt er til að ákvæði um skírteini sem heimilar köfun í atvinnuskyni, sem og skilyrði fyrir útgáfu þeirra, séu gerð ítarlegri og skýrari.
          Lagt er til að mælt verði sérstaklega fyrir um nám í köfun hér á landi og hvernig fara skuli með viðurkenningu náms til köfunar í atvinnuskyni sem fram fer erlendis.
          Lagt er til að rannsókn slysa við köfun muni að nýju heyra undir rannsóknarnefnd samgönguslysa. Með sameiningu rannsóknarnefnda í samgöngumálum með lögum nr. 18/2013, um rannsókn samgönguslysa, sem felldu úr gildi lög nr. 68/2000, um rannsókn sjóslysa, með síðari breytingum, var ákvæði laga um rannsókn köfunarslysa breytt frá því sem hafði verið, en ekki er að finna sérstakar skýringar á því í athugasemdum í greinargerð sem fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 18/2013 (þskj. 131, 141. löggjafarþing 2012–2013).

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið gaf ekki tilefni til að skoða samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarpið var birt á vef Stjórnarráðs Íslands 17. janúar sl. og veittur frestur til athugasemda til 30. janúar sl. Í kjölfar beiðna frá hagsmunaaðilum var fresturinn framlengdur til 6. febrúar sl. Tíu umsagnir bárust og komu þær frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Landhelgisgæslu Íslands, ríkislögreglustjóra, Samgöngustofu, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, Dive.is, Lex lögmannsstofu f.h. þjóðgarðsins á Þingvöllum, Marbendli köfun ehf., Samtökum ferðaþjónustunnar og Sportkafarafélagi Íslands.
    Í kjölfarið var fulltrúum framangreindra aðila boðið á fund með fulltrúum ráðuneytisins til að fara nánar yfir umsagnirnar og svara spurningum. Landhelgisgæsla Íslands, Dive.is, Lex lögmannsstofa f.h. þjóðgarðsins á Þingvöllum, Marbendill köfun ehf. og Sportkafarafélag Íslands þáðu boð um fund. Einnig var fulltrúum Félags íslenskra kafara boðið á fund sem þeir þáðu.
    Í ljósi ýmissa umsagna var ákveðið að einskorða ekki gildissvið frumvarpsins við köfun í atvinnuskyni heldur fylgja núgildandi lögum hvað gildissvið áhrærir.
    Flestir af umsagnaraðilum lýstu yfir ánægju sinni með að hafin væri endurskoðun á lögum um köfun þar sem þau væru komin til ára sinna en margt væri breytt í köfun hér á landi. Einnig komu fram margar góðar ábendingar og tekið var tillit til þeirra eins og kostur var.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.
    Í umsögn atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins kemur fram að ráðuneytið fari með málefni ferðaþjónustunnar og frumvarpið sé mjög þarft. Nauðsynlegt sé að skýra og uppfæra regluverk um köfun á Íslandi til þess að tryggja öryggi, hvort sem um er að ræða köfun ferðamanna eða heimamanna. Í því ljósi vildi skrifstofa ferðamála í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu vekja athygli á því að margir aðilar, sem bjóða upp á köfun, falla undir lög um skipan ferðamála, nr. 73/2005, oftast nær sem ferðaskipuleggjendur.
    Nú standi yfir endurskoðun á lögum um skipan ferðamála og í þeim verði lagt til að gerðar verði auknar kröfur til ferðaþjónustuaðila um öryggi og gerð öryggisáætlana. Þetta spili ágætlega saman við frumvarp þetta og muni vonandi verða til þess að gott fyrirkomulag komist á í lögum og reglum sem eiga að tryggja öryggi allra sem stunda köfun.

Landhelgisgæsla Íslands.
    Í umsögn sinni lagði Landhelgisgæsla Íslands til þrjár breytingar á gildissviðsákvæði frumvarpsins. Í fyrsta lagi að frumvarpið myndi einnig ná til leiðsögu- og yfirborðsköfunar, en slík köfun hefur ekki verið skilgreind sem atvinnuköfun og félli því utan gildissviðs frumvarpsins. Í öðru lagi að frumvarpið myndi ekki gilda um köfun í atvinnuskyni á erlendu skipi við eigið skip. Í þriðja lagi að skip og kafarar Landhelgisgæslunnar yrðu undanskilin frumvarpinu. Ráðuneytið tekur undir með Landhelgisgæslu Íslands varðandi fyrsta og annan lið. Varðandi þriðja liðinn tekur ráðuneytið undir röksemdir stofnunarinnar um að margvísleg starfsemi hennar sé frábrugðin hefðbundinni köfunarstarfsemi, svo sem sprengjueyðingar neðansjávar þar sem gera þarf aðrar öryggisráðstafanir. Við slíka starfsemi styðst Landhelgisgæslan við regluverk Norður-Atlantshafsbandalagsins. Á fundi með ráðuneytinu kom einnig fram að Landhelgisgæslan tæki þátt í ýmsum aðgerðum með bandalagsríkjum Íslands og því væri mikilvægt að stofnunin gæti starfað óhindrað í samræmi við þær reglur sem þar gilda. Til að koma til móts við þessi sjónarmið var gerð breyting á 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins þar sem nú segir að frumvarpið gildi ekki um köfun í tengslum við öryggisgæslu á hafinu í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, samninga við önnur ríki og ákvæði laga.
    Landhelgisgæslan lagði einnig til að bætt yrði við skilgreiningu eftirfarandi hugtaka sem taka mið af mismunandi verksviði kafara, þ.e. iðnaðarköfun, köfunarformaður, köfunarkennari, leiðsögukafari og vísindalegar rannsóknir við köfun. Ráðuneytið telur ekki þörf á að bæta við skilgreiningum um iðnaðarköfun, leiðsöguköfun eða vísindalegar rannsóknir við köfun sem sérstökum liðum í ákvæði 3. gr. frumvarpsins heldur sé rétt að taka fram að þessar tegundir köfunar falli undir hugtakið köfun í atvinnuskyni. Bætt var við nýjum liðum um köfunarformann og köfunarkennara.
    Einnig lagði Landhelgisgæslan til að ákvæði 8. gr. frumvarpsins yrði breytt á þann hátt að fram kæmi að köfunarverkefni færu fram undir stjórn köfunarformanns og hefur það verið gert. Þá kom einnig fram að nauðsynlegt væri að fram kæmi, þá helst í reglugerð, hverjir teljast vera viðurkenndir aðilar samkvæmt frumvarpinu. Er gert ráð fyrir því að það verði nánar útfært í reglugerð sem ráðherra setur.
    Landhelgisgæslan lagði einnig til að fram kæmi í frumvarpinu að stofnunin og lögreglan auk Samgöngustofu gætu gert vettvangskannanir. Það yrði mjög þung byrði fyrir Samgöngustofu að vera ein um slíkt eftirlit en þar sem lögreglan hefur starfsstöðvar í öllum landshornum væri auðveldara fyrir hana að sinna því. Þá sé Landhelgisgæslan einnig löggæslustofnun á hafinu og því eðlilegt að hún geti farið um borð í skip og kannað hvort ákvæði frumvarpsins séu virt. Er ráðuneytið sammála þessum sjónarmiðum og gerði breytingar til samræmis.
    Þá lagði Landhelgisgæslan til að það kæmi sérstaklega fram að rannsóknarnefnd samgönguslysa gæti kallað til sérfræðinga frá Landhelgisgæslunni, lögreglu eða öðrum sem þörf væri á við rannsókn málsins. Í framkvæmd hefur raunin verið sú en heppilegra að kveðið sé á um slíkt í lögum. Ráðuneytið telur sig ekki geta orðið við þeirri beiðni í ljósi sjálfstæðis rannsóknarnefndarinnar, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga um rannsókn samgönguslysa. Þess má þó geta að í 3. mgr. 25. gr. sömu laga segir að rannsóknarnefndin geti leitað aðstoðar rannsóknarstofnana, innlendra eða erlendra, ásamt því að kalla til starfa með nefndinni sérfræðinga á tilteknum sviðum telji hún tilefni til.
    Að lokum lagði Landhelgisgæslan til að bætt yrði við nokkrum liðum við reglugerðarheimild frumvarpsins og var það gert.

Ríkislögreglustjóri.
    Umsögn ríkislögreglustjóra laut að ákvæðum 6. og 15. gr. frumvarpsins.
    Að því er varðar 6. gr. um gildistíma heilbrigðisvottorða óskaði ríkislögreglustjóri nánari skýringa á því hvers vegna lagður væri til tveggja ára gildistíma vottorða í stað þess að miða við fimm ára gildistíma sbr. 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. núgildandi laga. Í því samhengi er bent á að fimm ára frestur núgildandi laga mælir fyrir um gildistíma köfunarskírteinis en ekki heilbrigðisvottorðs. Í reglugerð nr. 535/2001, um köfun, með síðari breytingum, segir hins vegar að gildistími heilbrigðisvottorðs sé 12 mánuðir ef ekki komi til ástæða sem því breytir. Nú hefur verið brugðist við þessari ábendingu og valin sú leið að köfunarskírteini sé í gildi ef heilbrigðisvottorð er í gildi. Í ljósi þess að verksvið kafara kann að vera mismunandi er í frumvarpinu lagt til að mælt sé fyrir um gildistíma í reglugerð sem taki mið af mismunandi verksviði kafara.
    Þá lagði ríkislögreglustjóri áherslu á að ákvæði 7. gr. núgildandi laga yrði einnig í frumvarpinu en það varðar rannsókn lögreglu á slysum eða óhöppum sem verða við köfun. Ráðuneytið féllst á þau sjónarmið og gerði nauðsynlegar breytingar.

Samgöngustofa.
    Í umsögn sinni fjallaði Samgöngustofa um þrjú atriði, þ.e. gildissvið frumvarpsins, eftirlitsákvæði og köfunarbúnað.
    Að því er varðar gildissvið frumvarpsins og eftirlitsákvæði er afstaða Samgöngustofu sú að hlutverk stofnunarinnar verði með skýrum hætti einskorðað við útgáfu atvinnuskírteina. Þá leggst Samgöngustofa einnig gegn víðtækari eftirlitsákvæðum, einkum um vettvangskannanir. Stofnunin hafi hvorki yfir að ráða mannafla né tæknilegri þekkingu til að sinna eftirliti umfram það sem felst í útgáfu skírteina. Ráðuneytið fellst ekki á þau sjónarmið þar sem slík afmörkun er ekki í samræmi við yfirlýst markmið frumvarpsins um að stuðla að auknu öryggi við köfun. Um vettvangskannanir er það að segja að í reglugerð um köfun segir sérstaklega í 2. mgr. 3. gr. að Samgöngustofu sé heimilt hvenær sem er að skoða köfunarbúnað og framkvæmd köfunaraðgerða með tilliti til öryggis enda sé þess gætt að tefja ekki atvinnu að óþörfu. Þá hefur ákvæði 1. mgr. 11. gr. frumvarpsins verið fært til samræmis við núgildandi ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga um köfun. Því felst engin breyting á eftirlitshlutverki Samgöngustofu í frumvarpinu.
    Að því er köfunarbúnað varðar þá styður Samgöngustofa að eftirlit með köfunarbúnaði sé fært til félags- og jafnréttismálaráðherra.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins.
    Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins gerir svipaða athugasemd og Landhelgisgæslan um undanþágu frá gildissviði frumvarpsins vegna köfunar í hernaðarlegum tilgangi. Um þessa athugasemd vísast að öðru leyti til þeirrar umfjöllunar.
    Einnig var velt upp þeirri spurningu hvort með því að segja að til köfunar í atvinnuskyni heyrði einnig köfun sem væri liður í skipulagðri þjónustustarfsemi til verndar almannahagsmunum væri verið að gera þá kröfu að kafarar Landsbjargar, sem að sögn, væru flestir með áhugamannaréttindi, þyrftu að verða sér úti um atvinnukafaraskírteini. Um þetta er það að segja að þessi skilgreining er í gildandi lögum en í athugasemdum við 2. gr. frumvarps þess sem síðar varð að lögum um köfun segir að það hafi verið „miklum vafa undirorpið hvernig skilgreina beri atvinnuköfun og mikið ósamræmi í túlkun þess. Vafi hafi t.d. leikið á því hvort athafnir kafara í skipulagðri sjálfboðavinnu eða annarri þjónustustarfsemi, svo sem kafanir björgunarsveita, lögreglu eða slökkviliðs, falli undir hugtakið. Var valin sú leið að hafa skilgreininguna á atvinnuköfun rúma svo hún væri til þess fallin að eyða þeim mikla vafa sem verið hafði á túlkun hugtaksins atvinnuköfun. Með mismunandi menntunar- og hæfniskröfum í reglugerð væri síðan unnt að koma [til] móts við þarfir t.d. neyðarþjónustunnar (lögreglu, slökkviliðs og björgunarsveita).“ Sömu sjónarmið og hér hafa verið reifuð eiga einnig við um frumvarp þetta.
    Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins lagði einnig til að það kæmi fram í skilgreiningu hugtaksins „viðurkenndur aðili“ að um væri að ræða einstaklinga eða lögaðila og að gildissvið rannsóknar köfunarslysa myndi einnig ná til áhugaköfunar. Var orðið við báðum athugasemdum.

Dive.is.
    Í umsögn Dive.is er að finna almenna umfjöllun um þær kröfur sem gera beri til fyrirtækja sem bjóða upp á köfunarferðir fyrir ferðamenn. Þar sem málefni ferðaþjónustunnar falla undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið ekki forsendur til að bregðast við þeirri umfjöllun.
    Að því er varðaði frumvarpið sérstaklega lagði Dive.is til breytingar á ákvæði 3. tölul. 1. mgr. 10. gr. frumvarpsins um tryggingar. Í stað þess að mælt sé fyrir um gilda slysa- og veikindatryggingu fyrir sérhvern nemanda verði fremur mælt fyrir um að umsækjandi um skírteini sem heimilar kennslu í köfun skuli leggja fram staðfestingu um ábyrgðartryggingu frá vátryggingafélagi. Ráðuneytið fellst á þær athugasemdir þar sem upphafleg tillaga kann að verða ómöguleg í framkvæmd.

LEX lögmannsstofa f.h. þjóðgarðsins á Þingvöllum.
    Í umsögn þjóðgarðsins á Þingvöllum segir að brýnt sé að það sé engum vafa undirorpið að lögin um köfun taki á hverjum tíma til köfunar í þjóðgarðinum. Í framkvæmd núgildandi laga hafi Samgöngustofa borið því við að eftirlit stofnunarinnar sé bundið við það að athuga hvort skírteini kafara séu í gildi. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum telur þá túlkun ranga og fullyrðir þvert á móti að það sé og hafi verið hlutverk stofnunarinnar samkvæmt gildandi lögum að hafa eftirlit með lögum um köfun og reglugerðum, reglum og fyrirmælum settum á grundvelli þeirra. Í frumvarpinu, eins og það var birt á vef Stjórnarráðsins, virtist hins vegar vera tekið undir skilning Samgöngustofu. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum telur afar brýnt að skýrt sé kveðið á um það í lögunum að Samgöngustofu, sem eftirlitsaðila á sviði köfunar, sé falið að hafa eftirlit með lögum, öllum stjórnvaldsfyrirmælum, reglum og öryggiskröfum sem settar eru á grundvelli laganna og beri að hafa eftirlit með því að þeim sé fylgt, enda heyri málefnið undir stofnunina. Eftirlitið geti ekki verið bundið einungis við eftirlit með útgefnum skírteinum, eins og kom fram í drögum að frumvarpinu. Ráðuneytið fellst á það með þjóðgarðinum á Þingvöllum að mikilvægt sé að enginn vafi leiki á um hver er eftirlitsaðili. Í ljósi markmiðs frumvarpsins, um að stuðla að auknu öryggi við köfun, er lagt til að eftirlitsákvæði frumvarpsins verði samhljóða eftirlitsákvæði núgildandi laga.
    Þjóðgarðurinn á Þingvöllum leggst gegn því að viðurkenning og eftirlit með köfunarbúnaði verði fært undir félags- og jafnréttismálaráðherra. Það sé á verksviði Samgöngustofu að hafa eftirlit með köfun en athugun á köfunarbúnaði hlýtur að vera órjúfanlegur þáttur slíks eftirlits. Eins og fram kemur í umfjöllun um meginefni frumvarpsins hafa verið settar samræmdar reglur um köfunarbúnað á Evrópska efnahagssvæðinu með reglugerð þingsins og ráðsins (ESB) 2016/425, um samræmingu laga aðildarríkjanna um persónuhlífar, áður tilskipun ráðsins 89/686/EB, um sama efni. Tilskipunin var innleidd á grundvelli laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, en þau heyra undir félags- og jafnréttismálaráðherra. Að mati ráðuneytisins gæti það reynst erfitt í framkvæmd að skipta innleiðingu gerðarinnar á milli ráðuneytanna.
    Þjóðgarðurinn á Þingvöllum óskar einnig eftir því að fyrirmælum nr. 165/2013, vegna köfunar og yfirborðsköfunar í þjóðgarðinum á Þingvöllum, sem gefin voru út af Siglingastofnun Íslands, verði veitt skýrari lagastoð í frumvarpinu. Ráðuneytið telur að hluti fyrirmælanna snúi að eftirlitshlutverki Samgöngustofu en annað lúti stjórn þjóðgarðsins. Áður en það liggur fyrir hefur ráðuneytið ekki forsendur til að meta hvort veita eigi þeim betri lagastoð eða ekki.
    Þá leggur þjóðgarðurinn á Þingvöllum til að skilgreining um köfun verði uppfærð og hefur það verið gert.
    Þjóðgarðurinn á Þingvöllum gagnrýndi einnig harðlega að þau drög sem kynnt voru á vef Stjórnarráðsins giltu aðeins um köfun í atvinnuskyni. Sérstaklega var nefnt að sömu reglur yrðu að eiga við um alla köfun, enda alltaf um mannslíf að ræða, gæta þyrfti fyllsta öryggis við hverja köfun og nauðsynlegt að lagaramminn væri skýr. Ráðuneytið tekur undir sjónarmið þjóðgarðsins á Þingvöllum og hefur gert nauðsynlegar breytingar á frumvarpinu.
    Að lokum gagnrýndi þjóðgarðurinn á Þingvöllum að ákvæði 8. gr. frumvarpsins um starfsskyldur væri einskorðað við atvinnukafara og að ákvæði um heilbrigðiskröfur væri of óljóst. Ráðuneytið hefur ekki forsendur til að útfæra ákvæði sem taki einnig til áhugakafara og leggur því til að ákvæðið sé óbreytt, þó með þeim breytingum sem gerðar hafa verið á því í samræmi við umsagnir annarra aðila, og að erfitt kunni að vera að mæla nákvæmar fyrir um heilbrigðiskröfur í lögum, sem taki til mismunandi verksviða kafara. Ákvæði frumvarpsins gengur þó lengra en núgildandi lög þar sem eingöngu kemur fram að til þess að stunda atvinnuköfun þurfi viðkomandi að standast með fullnægjandi hætti heilbrigðiskröfur sem ráðherra útfærir nánar í reglugerð.

Marbendill köfun ehf.
    Í umsögn Marbendils köfunar ehf. var í fyrsta lagi gerð athugasemd við notkun hektópaskala í skilgreiningu hugtaksins köfun. Um sé að ræða mælikvarða sem almennt er ekki notaður. Á fundi með fulltrúum Marbendils köfunar ehf. var þetta skýrt nánar og aðrir umsagnaraðilar sérstaklega spurðir út í þetta. Voru allir á sama máli; að um úreltan mælikvarða væri að ræða. Var því ákveðið að fella brott vísun í hektópasköl en í stað þess taka upp annan mælikvarða fyrir þrýsting sem byggist á skilgreiningu á köfun í dönskum lögum.
    Marbendill köfun ehf. fjallar einnig um ört vaxandi grein innan köfunar hér á landi sem þekkist sem fríköfun. Í henni er ekki notaður köfunarbúnaðar og fellur fríköfun því utan gildissviðs núgildandi laga. Ráðuneytið tekur undir sjónarmið Marbendils köfunar ehf. en hefur ekki nægar forsendur að svo stöddu til að mæla fyrir um að frumvarpið taki einnig til fríköfunar.
    Marbendill köfun ehf. lagði einnig ríka áherslu á að ef skírteini sem einstaklingur hefur frá viðurkenndum aðila um að honum sé heimilt að kenna köfun sé gert ógilt af viðurkennda aðilanum geti Samgöngustofa fellt skírteini hans úr gildi. Ráðuneytið tekur undir sjónarmið Marbendils köfunar ehf. enda mikilvægt að aðeins hæfir einstaklingar hafi heimild til kennslu í köfun.
    Að lokum gerði Marbendill köfun ehf. sömu athugasemdir og Dive.is um ákvæði um tryggingarskyldu.

Samtök ferðaþjónustunnar.
    Samtök ferðaþjónustunnar fagna því að fram sé komið frumvarp sem rammar inn starfsemi í atvinnuköfun. Samtökin benda á að margir sem starfa við köfun og eiga að starfa í samræmi við lög eru af erlendu bergi brotnir. Því leggja þau til að lögin verði einnig gefin út í enskri þýðingu.
    Samtök ferðaþjónustunnar benda jafnframt á mikilvægi þess að til að gæta fyllsta öryggis verði lögin að ná til allra þeirra sem starfa við köfun á Íslandi og að jafnræðis sé gætt með því að öllum fyrirtækjum, erlendum sem innlendum, sé gert að vera með sína starfsemi og starfsmenn á skrá hjá Samgöngustofu. Þá telja samtökin mikilvægt að gerð sé skýrari grein fyrir skilyrðum fyrir leyfi til atvinnuköfunar, hvaða tryggingar þarf að hafa og að fyrirtækjum sé heimilt að vera með tryggingar fyrir starfsfólk sem sinnir kennslu og leiðbeiningum við köfun. Ráðuneytið telur að komið sé til móts við þetta í frumvarpinu.

Sportkafarafélag Íslands.
    Sportkafarafélag Íslands leggur til orðalagsbreytingar á markmiðsákvæði frumvarpsins. Í stað þess að mælt sé fyrir um að markmið þess sé að tryggja öryggi við köfun komi að það sé markmið frumvarpsins að stuðla að auknu öryggi við köfun. Þá leggur Sportkafarafélag Íslands áherslu á að stjórnsýsla köfunarmála verði ekki íþyngjandi fyrir köfunarkennara. Einnig fagna þau að fallið sé frá aldurslágmarki til áhugaköfunar og að rannsókn köfunarslysa nái einnig til köfunarslysa í ferskvatni. Ráðuneytið telur að frumvarpið endurspegli nú þessi sjónarmið Sportkafarafélags Íslands.

6. Mat á áhrifum.
    Ekki er gert ráð fyrir að samþykkt frumvarpsins muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Samning frumvarpsins fól fyrst og fremst í sér uppfærslu á núgildandi lögum. Ákvæði um eftirlit, sem kann að fela í sér kostnað, er samhljóða ákvæði núgildandi laga. Þá er sérstaklega tekið fram að Samgöngustofa hafi heimild til gjaldtöku fyrir eftirlit og útgáfu og endurnýjun skírteina. Þá er ekki heldur gert ráð fyrir að samþykkt frumvarpsins muni hafa kostnaðarauka í för með sér fyrir hagsmunaaðila í köfun. Verði frumvarpið óbreytt að lögum hefur það engin áhrif á fjárhag ríkissjóðs.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Hér er mælt fyrir um markmið frumvarpsins en það er að stuðla að auknu öryggi við köfun. Í gildandi lögum er ekki sambærilegt ákvæði, en slík umfjöllun er í greinargerð sem fylgdi frumvarpinu.

Um 2. gr.

    Með þessu ákvæði er gildissvið frumvarpsins afmarkað. Fyrirmynd þessa ákvæðis er í dönskum lögum um vinnu við köfun og köfunarbúnað (sjá lov om dykkerarbejde og dykkermateriel m.v.).
    Í 1. mgr. er lagt til að lögin gildi um köfun á íslensku yfirráðasvæði og landgrunni Íslands, þar á meðal frá hafstöðvum, og um köfun sem fer fram frá skipi skráðu á Íslandi. Með yfirráðasvæði er átt við landsvæði Íslands ásamt ám og vötnum, innsævi og landhelgi.
    Í 2. mgr. er undanskilin frá gildissviði frumvarpsins köfun í atvinnuskyni sem fram fer frá skipi skráðu erlendis við eigið skip. Þá er einnig undanskilin köfun sem fram fer í tengslum við öryggisgæslu á hafinu í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, samninga við önnur ríki og ákvæði laga. Hér er um að ræða vísun í 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um Landhelgisgæslu Íslands. Þessi undantekning er nýmæli en með henni er reynt að koma til móts við óskir Landhelgisgæslu Íslands um að starfsemi hennar í þágu öryggisgæslu á hafinu sé undanskilin gildissviði frumvarpsins.

Um 3. gr.

    Í 1. tölul. er hugtakið köfun skilgreint. Skilgreiningin er sú sama og í gildandi lögum nema að felld er brott vísun í hektópasköl.
    2. tölul. fjallar um köfun í atvinnuskyni og er átt við allar þær athafnir sem teljast til köfunar, falla undir og eru liður í atvinnustarfsemi kafarans eða annarra tengdra aðila. Þá telst það einnig vera köfun í atvinnuskyni ef athöfnin er liður í skipulagðri þjónustustarfsemi til verndar almannahagsmunum, en með því er átt við köfunaraðgerðir Landhelgisgæslunnar og slökkviliða.
    Þessi skilgreining frumvarpsins fylgir skilgreiningu 1. mgr. 2. gr. laga nr. 31/1996 að mestu leyti. Í gildandi lögum segir að atvinnuköfun merki allar þær athafnir sem falla undir og eru liður í atvinnustarfsemi kafarans eða annarra aðila. Telja verður að ýmislegt annað kunni að falla undir atvinnustarfsemi kafarans en eiginleg köfun og því kunni gildandi skilgreining að vera víðtækari en nauðsyn ber til sem gæti leitt til vandkvæða í framkvæmd. Þá er bætt við að köfun í atvinnuskyni þurfi að vera liður í atvinnustarfsemi kafarans eða annarra tengdra aðila en í gildandi lögum segir einungis annarra aðila.
    Rétt eins og í gildandi lögum ræður það ekki úrslitum með hvaða hætti greiðsla kemur fyrir köfun í atvinnuskyni. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 31/1996 er sérstaklega tekið dæmi um hvernig þetta getur birst í framkvæmd en þar segir:
    „Enn fremur má nefna dæmi um söfnun ígulkera, ljósmyndaköfun, leiðbeinendur við köfun og fleira. Söfnun ígulkera hefur verið talin atvinnuköfun ef kafarinn selur vinnu sína sem kafari en annar aðili selur ígulkerin. Hins vegar hefur það verið talin áhugaköfun ef kafarinn kafar eftir ígulkerunum og fær síðan sjálfur andvirði ígulkeranna.“ (Þskj. 176, 120. löggjafarþing 1995–1996, bls. 2–3.)
    Í 3. tölul. er fjallað um áhugaköfun og sérstakrar skýringar ekki þörf.
    Í 4.–6. tölul. eru skilgreiningar á hugtökunum atvinnukafari, köfunarformaður og köfunarkennari og sérstakrar skýringar ekki þörf.
    7. tölul. er nýmæli. Með viðurkenndum aðila er átt við einstakling eða lögaðila sem Samgöngustofa hefur veitt heimild til þess að skipuleggja nám í köfun samkvæmt viðurkenndri námskrá. Ákvæðið er hluti af þeim tillögum frumvarpsins sem mæla sérstaklega fyrir um nám og kennslu í köfun.

Um 4. gr.

    Í þessari grein segir að sá sem kafar í atvinnuskyni skuli vera handhafi viðeigandi skírteinis sem tekur mið af mismunandi verksviði kafara og Samgöngustofa gefur út. Þannig er reynt að bregðast við athugasemdum um að í gildandi lögum og reglum um köfun sé ekki gerður greinarmunur á mismunandi verksviðum kafara sem hefur leitt til þess að einstaklingar hafa fengið útgefin eins skírteini þó að menntun þeirra og þjálfun sé mismunandi. Þessu ákvæði er ætlað að koma í veg fyrir það.
    Þá segir jafnframt að óheimilt sé að ráða til köfunar í atvinnuskyni aðra en handhafa skírteinis samkvæmt lögum. Um er að ræða efnislega samhljóða ákvæði og í 1. gr. og 2. mgr. 3. gr. núgildandi laga.

Um 5. gr.

    Í þessari grein er fjallað um skilyrði fyrir útgáfu skírteinis til köfunar í atvinnuskyni.
    Ákvæði 1. mgr. er sambærileg 3. gr. gildandi laga. Þar segir að til að fá útgefið skírteini sem heimilar köfun í atvinnuskyni þurfi umsækjandi í fyrsta lagi að vera fullra 20 ára. Í öðru lagi þarf hann að standast með fullnægjandi hætti viðeigandi heilbrigðiskröfur. Í þriðja lagi þarf hann að standast með fullnægjandi árangri viðeigandi menntunar- og hæfniskröfur.
    Í 2. mgr. er fjallað um gildi skírteinisins en lagt er til að það gildi svo lengi sem handhafi þess getur framvísað heilbrigðisvottorði, nema það hafi verið fellt úr gildi sbr. 12. gr. Þá eru skilyrði fyrir endurútgáfu skírteinis að viðkomandi geti framvísað heilbrigðisvottorði.
    Að lokum er lagt til í 3. mgr. að mælt sé fyrir um rétt einstaklinga sem falla undir réttarreglur Evrópska efnahagssvæðisins um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til köfunar í atvinnuskyni hér á landi en um þann rétt gilda almennt lög nr. 26/2010, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, með síðari breytingum.

Um 6. gr.

    Í þessari grein er fjallað um heilbrigðiskröfur. Hver sá sem kafar í atvinnuskyni skal vera handhafi gilds heilbrigðisvottorðs sem gefið er út að undangenginni læknisskoðun. Til að fá útgefið heilbrigðisvottorð skal viðkomandi vera í góðu andlegu og líkamlegu ástandi til að geta rækt störf sín af öryggi við þær erfiðu aðstæður sem geta komið upp við köfun. Kafari ber ábyrgð á því að heilbrigðisvottorð hans sé í gildi.
    Lagt er til að gildistími heilbrigðisvottorðs taki mið af mismunandi verksviði kafara og verður hann útfærður í reglugerð. Standist handhafi skírteinis ekki læknisskoðun ber viðkomandi lækni að tilkynna það til Samgöngustofu og fellur skírteinið þá úr gildi.

Um 7. gr.

    Þessi grein fjallar um menntunar- og hæfniskröfur. Þar er lagt til að umsækjandi um skírteini sem heimilar köfun í atvinnuskyni skuli hafa staðist með fullnægjandi árangri viðeigandi menntunar- og hæfniskröfur. Til sönnunar á að þessu hafi verið framfylgt er lagt til að viðkomandi leggi fram skírteini þess efnis frá viðurkenndum aðila. Um skilgreiningu á viðurkenndum aðila vísast til athugasemda við 3. gr. frumvarpsins. Lagt er til að Samgöngustofa viðurkenni nám til köfunar í atvinnuskyni.
    Að því er varðar nám til köfunar í atvinnuskyni sem fram fer erlendis er lagt til að það teljist fullnægjandi að lögum ef það er í samræmi við alþjóðleg viðmið um menntunar- og hæfniskröfur. Sá sem lokið hefur námi erlendis getur sótt um að fá útgefið skírteini ef hann leggur fram nauðsynleg gögn til staðfestingar á að hann hafi staðist með fullnægjandi árangri viðeigandi menntunar- og hæfniskröfur.

Um 8. gr.

    Í þessari grein er að finna nýmæli um starfsskyldur atvinnukafara. Lagt er til að mælt sé sérstaklega fyrir um að köfun í atvinnuskyni skuli fara fram undir stjórn köfunarformanns í samræmi við ábendingar Landhelgisgæslu Íslands. Þá er einnig mælt sérstaklega fyrir um skyldu atvinnukafara til að haga starfi sínu í samræmi við lög og reglugerðir um köfun í atvinnuskyni. Þá er einnig mælt svo fyrir að hann skuli gæta þess að fylgt sé nauðsynlegum varúðarreglum gegn slysum.
    Einnig er lagt til að mælt sé fyrir um skyldur þeirra sem taka þátt í köfun undir stjórn atvinnukafara. Þar segir að þeir skuli hlíta fyrirmælum hans um notkun köfunarbúnaðar og öðrum varúðarreglum. Þá skuli atvinnukafari gæta þess að þeir séu upplýstir með fullnægjandi hætti um nauðsynlegar öryggisreglur.

Um 9. og 10. gr.

    Í þessum greinum frumvarpsins er lagt til að mælt verði fyrir um kennslu í köfun. Í gildandi lögum eru ekki slík ákvæði en í IV. kafla reglugerðar nr. 535/2001, um köfun, með síðari breytingum, eru ýmis ákvæði tengd kennslu í köfun.
    Lagt er til að sá sem kennir köfun, hvort sem um er að ræða köfun í atvinnuskyni eða áhugaköfun, skuli hafa til þess skírteini. Skilyrði fyrir útgáfu skírteinisins eru að viðkomandi sé fullra 20 ára, standist með fullnægjandi hætti menntunar- og hæfniskröfur og leggi fram staðfestingu um ábyrgðartryggingu frá vátryggingafélagi.
    Lagt er til að sá sem sæki um skírteini sem heimilar kennslu í köfun leggi fram vottorð frá viðurkenndum aðila sem heimilar honum að sinna kennslu og þjálfun í köfun. Ef viðurkenndur aðili ógildir skírteinið getur Samgöngustofa fellt úr gildi skírteini til kennslu hér á landi.

Um 11. gr.

    Ákvæði þetta er að mestu samhljóða ákvæði 6. gr. núgildandi laga um köfun að því er varðar eftirlit Samgöngustofu og þarfnast ekki sérstakrar skýringar. Um þátttöku Landhelgisgæslu Íslands og lögreglunnar í vettvangseftirliti vísast til umfjöllunar í samráðskafla.


Um 12. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um heimildir Samgöngustofu til þess að fella úr gildi skírteini sem heimilar köfun í atvinnuskyni ef handhafi skírteinisins fullnægir ekki lengur skilyrðum frumvarpsins eða brýtur á annan hátt gegn ákvæðum þess.
    Samgöngustofu verður gert skylt að senda skriflega viðvörun þar sem veittur er hæfilegur frestur til þess að bæta úr annmörkum áður en skírteini er fellt úr gildi. Verði skírteini endanlega gert ógilt ber Samgöngustofu að senda handhafa skírteinisins skriflega tilkynningu þar sem fram kemur frá hvaða tíma það telst ógilt. Ber þá að skila skírteininu til Samgöngustofu.

Um 13. gr.

    Í þessari grein er fjallað um stjórnsýslukæru vegna ákvarðana Samgöngustofu. Ákvæðið þarfnast ekki frekari skýringar.

Um 14. gr.

    Hér er fylgt ákvæði gildandi laga um viðurlög vegna brota gegn frumvarpinu. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að gildandi lögum segir eftirfarandi um viðurlög: „Ljóst þykir að öryggissjónarmið krefjast þess að hart verði tekið á brotum samkvæmt lögum þessum. Í þessari grein kemur fram heimild til þess að sekta og/eða svipta menn réttindum gerist þeir brotlegir við ákvæði laganna eða reglugerða settra samkvæmt þeim.“ (Þskj. 176, 120. löggjafarþing 1995–1996, bls. 4.)


Um 15. gr.

    Ákvæði þetta er samhljóða 7. gr. núgildandi laga um köfun og þarfnast ekki sérstakrar skýringar.

Um 16. gr.

    Þessi grein fjallar um reglugerðarheimild handa ráðherra til nánari útfærslu frumvarpsins. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki frekari skýringa.

Um 17. gr.

    Ákvæði þetta varðar gildistöku frumvarpsins sem lög. Lagt er til að þau öðlist þegar gildi og frá gildistöku þeirra falli lög um köfun, nr. 31/1996, með síðari breytingum, úr gildi.

Um 18. gr.

    Ákvæðið fjallar um breytingu á öðrum lögum og þarfnast ekki frekari skýringar.