Ferill 189. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 712  —  189. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni um kostnað við heilbrigðisþjónustu fyrir erlenda ferðamenn.


    Vegna fyrirspurnar um veitta heilbrigðisþjónustu til erlendra ferðamanna var leitað svara hjá Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri og Sjúkratryggingum Íslands. Þá var leitað til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni, en þær eru Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
    Meirihluti þeirra erlendu ferðamanna sem leita heilbrigðisþjónustu meðan á dvöl þeirra á Íslandi stendur á rétt á aðstoð í samræmi við ákvæði milliríkjasamninga um sjúkratryggingar. Ferðamenn sem koma frá löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins og eru sjúkratryggðir í samningsríki eiga rétt á nauðsynlegri aðstoð hjá þjónustuveitanda. Um greiðslur fer þá samkvæmt sömu reglum og gilda um sjúkratryggða einstaklinga hér á landi. Alþjóðadeild Sjúkratrygginga Íslands annast endurgreiðslur sjúkrakostnaðar og eftirfylgni heilbrigðisþjónustu við einstaklinga sem sjúkratryggingar og milliríkjasamningar um sjúkratryggingar gilda um og endurkrefja erlendar sjúkratryggingastofnanir um útlagðan kostnað vegna þjónustunnar.
    Ferðamenn sem koma frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins eiga rétt á neyðaraðstoð hins opinbera heilbrigðiskerfis hér á landi, þ.e. heilbrigðisþjónustu sem hinu opinbera er skylt að veita samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu. Fyrir aðstoðina greiða þeir fullt gjald skv. 16. gr. reglugerðar nr. 1177/2017, um heilbrigðisþjónustu við þá sem ekki eru sjúkratryggðir á Íslandi og greiðslur fyrir heilbrigðisþjónustuna. Sjúkratryggingar Íslands greiða ekki þjónustuveitanda og hafa ekki milligöngu um endurkröfur í þessum tilvikum.
    Fæstar stofnanir gera greinarmun á kostnaði eða tekjum frá ósjúkratryggðum einstaklingum eftir því hvort þeir eru erlendir ferðamenn, erlendir einstaklingar í vinnu á Íslandi sem hafa ekki fengið íslenska kennitölu, hælisleitendur eða Íslendingar sem eru ósjúkratryggðir á Íslandi vegna 6 mánaða reglu. Erlendir ferðamenn sem fá notið heilbrigðisþjónustu á Íslandi tilheyra þannig stærra mengi ósjúkratryggðra sjúklinga. Í sjúkraskrárkerfum eru ferðamenn ekki merktir sérstaklega og því snúið að einangra þann hóp frá öðrum ósjúkratryggðum sjúklingum. Voru heilbrigðisstofnanirnar því misvel í stakk búnar til að meta þann kostnað sem spurt er um í fyrirspurninni. Því verður að hafa í huga að forsendurnar að baki tölunum í svörunum hér að neðan geta verið mismunandi og ber að taka tölunum með fyrirvara.

     1.      Hver var árlegur heildarkostnaður ríkissjóðs vegna veittrar heilbrigðisþjónustu fyrir erlenda ferðamenn, hvert ár 2015–2017 og samtals fyrir árin 2008–2014? Óskað er eftir að kostnaður sé sundurliðaður eftir Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri og heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni.

Tafla 1. Heildargreiðslur erlendra ferðamanna.     
Heilbrigðisstofnanir 2008–14 2015 2016 2017 Forsendur
Landspítali 2.259.614.490 603.736.905 695.654.105 870.821.141 DRG
Sjúkrahúsið á Akureyri 230.158.900 51.584.333 84.181.481 99.595.938 1
Heilbr.stofnun Vesturlands 11.100.000 1
Heilbr.stofnun Vestfjarða 7.264.488 2.082.118 3.898.389 5.079.166 Ósjúkratryggðir
Heilbr.stofnun Norðurlands 8.375.542 11.971.366 16.325.460 2
Heilbr.stofnun Austurlands 15.792.133 4.419.309 9.386.310 9.118.293 Erl. kennitala
Heilbr.stofnun Suðurlands n/a
Heilbr.stofnun Suðurnesja 5.016.000 1.840.000 2.286.000 2.895.000 3
Heilbrigðisstofnanir samtals 2.517.846.011 672.038.207 807.377.651 1.014.934.998
Sjúkratryggingar Íslands 488.056.205 109.903.220 162.741.590 110.924.373 4

1.     DRG-kostnaður eins og LSH reiknar hann lagður til grundvallar reikningum ósjúkratryggðra.
2.     Tekjur vegna erlendra ríkisborgara, þjónustugjöld og endurgreiðslur SÍ endurspegla kostnað Heilbrigðisstofnunar Norðurlands.
3.    Miðað er við áætlun stofnunarinnar.
4.    Sjúkratryggingar Íslands fá kostnað vegna ferðamanna frá EES endurgreiddan erlendis frá, nema í tilfellum sem falla undir Norðurlanda- eða Lúxemborgarsamning. Þar hefur verið samið um gagnkvæmt afsal endurkrafna, sem þýðir að SÍ berast ekki heldur reikningar frá þeim ríkjum vegna kostnaðar sem þeir sem eru sjúkratryggðir á Íslandi hafa valdið.

     2.      Hver er útistandandi heildarfjárhæð ógreiddra reikninga fyrir hvert ár 2015–2017 og heildarfjárhæð áranna þar á undan?

Tafla 2. Útistandandi heildarfjárhæð ógreiddra reikninga.     
Heilbrigðisstofnanir 2008–14 2015 2016 2017 Forsendur
Landspítali 55.900.196 90.432.890 285.968.439 DRG
Sjúkrahúsið á Akureyri 5.775.306 DRG
Heilbr.stofnun Vesturlands 1.500.000 1.500.000 1.500.000 1.500.000
Heilbr.stofnun Vestfjarða 488.078 1
Heilbr.stofnun Norðurlands 2
Heilbr.stofnun Austurlands n/a
Heilbr.stofnun Suðurlands 1.793.620 3.568.160 10.494.453 Ósjúkratryggðir
Heilbr.stofnun Suðurnesja 3.000.000 650.000 1.300.000 1.700.000 Áætlun stofnunar
Heilbrigðisstofnanir samtals 4.988.078 58.050.196 93.232.890 294.943.745
Sjúkratryggingar Íslands 3.057.406 4.054.385 96.334.593 285.929.626
1.     Í svari Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða kemur fram að ekki hafi verið innheimtar kröfur á ósjúkratryggða frá árinu 2010.
2.     Í svari Heilbrigðisstofnunar Norðurlands kemur fram að engir ógreiddir reikningar séu útistandandi hjá stofnuninni.

     3.      Hverjar eru árlegar afskriftir, beinar og óbeinar, sbr. 2. tölul.?

Tafla 3. Árlegar afskriftir (beinar og óbeinar) útistandandi ógreiddra reikninga.
Heilbrigðisstofnanir 2008-14 2015 2016 2017 Forsendur
Landspítali 21.599.554 19.838.873 28.033.219 Óbeinar
Sjúkrahúsið á Akureyri 959.816 10.000 56.700 68.200
Heilbr.stofnun Vesturlands 300.000 300.000 300.000 300.000
Heilbr.stofnun Vestfjarða 500.000 1
Heilbr.stofnun Norðurlands 258.337 237.622 2
Heilbr.stofnun Austurlands 1.964.310 574.508 1.818.650 5.862.994 3
Heilbr.stofnun Suðurlands 4
Heilbr.stofnun Suðurnesja 3.000.000 650.000 1.300.000 1.700.000 Áætlun stofnunar
Heilbr.stofnanir samtals 6.724.126 23.134.062 23.572.560 36.202.035
Sjúkratryggingar Íslands 4.882.062 102.148 192.204 5
1.     Í svari Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða kemur fram að ekki hafi verið reynt að innheimta kröfur á ósjúkratryggða frá árinu 2010.
2.     Niðurfelldir reikningar vegna erlendra ríkisborgara sem eiga að vera sjúkratryggðir en gögn vantar til að krefjast endurgreiðslu.
3.     Í svari Heilbrigðisstofnunar Austurlands kemur fram að bæði sé um að ræða afskriftir og útistandandi skuldir.
4.     Í svari Heilbrigðisstofnunar Suðurlands kemur fram að erlendar kröfur séu ekki afskrifaðar hjá stofnuninni.
5.     Í svari SÍ kemur fram að með bættu verklagi hafi tekist að útrýma afskriftum.

     4.      Hver er árlegur innheimtukostnaður vegna fyrrgreindra reikninga, hver er fjöldi ársverka vegna innheimtunnar og hve stór hluti kostnaðarins hefur verið greiddur?
    Engin stofnananna, utan Sjúkrahússins á Akureyri og Sjúkratrygginga Íslands, hafði gert sérstaka greiningu á innheimtukostnaði eftir því hvaða kröfur væri verið að innheimta. Sjúkrahúsið á Akureyri taldi að um væri að ræða 3 millj. kr. á ári að meðaltali en SÍ um 30 millj. kr. Þá hélt engin stofnananna utan um það hversu stór hluti kostnaðar hefði verið greiddur. Fimm stofnanir gátu áætlað hversu mörg stöðugildi jafngiltu vinnuframlagi við ósjúkratryggða sjúklinga umfram vinnuframlag við sjúkratryggða eins og sjá má í töflunni hér að neðan.

Tafla 4. Fjöldi ársverka vegna innheimtu.
Heilbrigðisstofnanir Stöðugildi
Landspítali 6,00
Sjúkrahúsið á Akureyri 0,25
Heilbrigðisstofnun Vesturlands 0,03
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða
Heilbrigðisstofnun Norðurlands 0,05
Heilbrigðisstofnun Austurlands
Heilbrigðisstofnun Suðurlands 0,30
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja
Heilbrigðisstofnanir samtals 6,63
Sjúkratryggingar Íslands 2

    Landspítalinn benti á í svari sínu að komugjöld væru innheimt á um 20 stöðum á spítalanum og að starfsmenn þar og á fjármálasviði, þar sem reikningagerð og önnur innheimta fer fram, sinntu jafnframt ýmsum öðrum störfum. Þessi innheimta er lögbundin samkvæmt reglugerðum sem heilbrigðisráðherra setur. Almennt er ferli innheimtu komugjalda á bráða-, dag- og göngudeildir Landspítalans þannig að mikil áhersla er lögð á staðgreiðslu. Hlutfall staðgreiddra krafna er nokkuð misjafnt eftir deildum en að meðaltali er það um 80%. Ef ekki er staðgreitt er krafa stofnuð í netbanka og greiðsluseðill sendur í pósti. Áminningarbréf er sent 10 dögum eftir eindaga, sem er 30 dagar, og ítrekunarbréf 45 dögum eftir eindaga. Ef ekki er greitt innan þess tíma er krafan send í lögfræðiinnheimtu.

     5.      Hefur allur óbeinn kostnaður sem hlýst af meðferð sjúklinganna og innheimtuvinnu verið lagður á þá sem innheimtan beinist að og hefur hann allur innheimst? Ef svo er ekki, um hvaða kostnað er að ræða sem ekki er lagður á og innheimtur?
    Með auknum heimsóknum ferðamanna og fjölgun erlendra starfsmanna sem starfa hér um skamman tíma hefur eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu aukist. Fyrir utan þjónustuna sjálfa koma til ýmis afleidd viðfangsefni, svo sem vegna tungumálaerfiðleika í samskiptum við sjúklinga, vegna samskipta við aðstandendur, tryggingafélög og aðra erlenda aðila, vegna gagnaöflunar og upplýsingaskráningar, og síðast en ekki síst þarf oft að aðstoða við flutning sjúklings.
    Í lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, er fjallað um gjaldtöku vegna heilbrigðisþjónustu í gr. 29. Í athugasemdum við umrædda grein frumvarpsins kemur fram að þessir aðilar skuli greiða raunkostnað af þeirri þjónustu sem þeir fá á heilbrigðisstofnunum, heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum, enda eru þeir oftast með tryggingar í heimalandi sínu. Um gjaldið fer skv. 16. gr. reglugerðar nr. 1177/2017 og nær það til alls kostnaðar, t.d. við innritun og aðstöðu, til tímagjalds vegna læknisþjónustu eða þjónustu annarra heilbrigðisstarfsmanna, til kaupa á aðföngum, leigu á húsnæði og kostnaðar við hjálpartæki og lyf, auk innheimtukostnaðar. Ekki er gert ráð fyrir að innheimt sé sérstaklega fyrir viðbótarþjónustu vegna umsýslu ósjúkratryggðra.

     6.      Hvernig hyggst ráðherra draga úr kostnaði við innheimtuna og draga úr þeirri vinnu og fyrirhöfn sem henni fylgir? Hvað má gera ráð fyrir að mörg ársverk séu bundin í innheimtunni?
    Eins og fram hefur komið fer um heimild til innheimtu gjalda vegna sjúklinga sem ekki eru sjúkratryggðir hér á landi skv. 16. gr. reglugerðar nr. 1177/2017, um heilbrigðisþjónustu við þá sem ekki eru sjúkratryggðir á Íslandi og greiðslur fyrir heilbrigðisþjónustuna. Núgildandi lögum er ætlað að draga úr innheimtukostnaði eins og kostur er, sbr. svar við lið 5, en í ljósi mikillar fjölgunar erlendra ferðamanna sem hingað koma þarf að taka fyrirkomulag á innheimtu umrædds kostnaðar enn fastari tökum.

     7.      Hvað hyggst ráðherra gera til þess að koma í veg fyrir að erlendir ferðamenn, sem nýta sér heilbrigðisþjónustuna, yfirgefi landið án þess að fullnægjandi greiðsla eða fullnægjandi tryggingar hafi borist fyrir þjónustuna?
    Ferðamenn frá löndum innan EES-svæðisins greiða sama gjald til heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa hér á landi og sjúkratryggðir einstaklingar hér á landi ef þeir framvísa sjúkratryggingakorti sínu auk vegabréfs sem staðfestir ríkisfang viðkomandi. Í einstaka tilfellum getur fullnægjandi greiðsla frá sjúkratryggingum erlendra aðila sem sannanlega eru með gildar sjúkratryggingar tekið lengri tíma en eðlilegt þykir. Meirihluti þeirra erlendu ferðamanna sem eru ekki með gildar sjúkratryggingar og nýta sér heilbrigðisþjónustu á Íslandi staðgreiðir þjónustuna skv. 16. gr. reglugerðar nr. 1177/2017 (staðgreiðsluhlutfallið er um 66% hjá Landspítala). Líkt og komið hefur fram gefur fjölgun erlendra ferðamanna tilefni til þess að taka fyrirkomulag á innheimtu umrædds kostnaðar fastari tökum.

     8.      Í hverju felast fullnægjandi tryggingar að mati ráðherra og telur ráðherra að tryggingarnar hafi reynst fullnægjandi hingað til?
    Skýr lagarammi gildir um málefnið og eins og áður hefur komið fram eiga þeir sem eru ekki sjúkratryggðir hér á landi rétt á neyðaraðstoð á vegum hins opinbera heilbrigðiskerfis hér á landi, sbr. lög nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, og reglugerð nr. 1177/2017, um heilbrigðisþjónustu við þá sem ekki eru sjúkratryggðir á Íslandi og greiðslur fyrir heilbrigðisþjónustuna.