Ferill 651. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1378  —  651. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Söru Elísu Þórðardóttur um biðlista á Vog.


     1.      Hvaða markmið um biðtíma og þjónustu við skjólstæðinga eru skilgreind í þjónustusamningi Sjúkratrygginga Íslands við SÁÁ um sjúkrahúsið Vog?
    Í þriðju grein samningsins kemur fram að markmið hans sé að veita þeim sem samningurinn tekur til bestu mögulegu þjónustu á sviði áfengis- og vímuefnameðferðar sem uppfyllir gæðakröfur sem stofnunin setur sér. Öll meðferð hjá SÁÁ er veitt á grundvelli gæðahandbókar sem nýlega hefur verið uppfærð. Í samningi um þjónustuna kemur fram að hún sé þverfagleg og einstaklingsbundin. Þannig er þjónustan löguð að þörfum hvers og eins. Í samningi kemur fram að á sjúkrahúsinu Vogi skuli starfa læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og áfengis- og vímuefnaráðgjafar. Ekki eru skilgreind markmið um biðtíma en vísað til þess að embætti landlæknis sé sá aðili innan heilbrigðiskerfisins sem hafi það hlutverk að fylgjast með biðtíma eftir þjónustu og að skilgreina hvaða biðtími sé ásættanlegur. Það eftirlit hefur aðallega beinst að skurðaðgerðum, en vilji er til þess innan velferðarráðuneytisins að færa eftirlitið til annarrar þjónustu einnig.

     2.      Hvernig hefur ráðherra eftirlit með því að markmiðum í þjónustusamningi Sjúkratrygginga Íslands við SÁÁ um sjúkrahúsið Vog sé náð?
    Í lögum um sjúkratryggingar er fjallað um eftirlit með samningum sem Sjúkratryggingar Íslands gera. Þar kemur fram að sjúkratryggingastofnunin skuli hafa eftirlit með starfsemi samningsaðila sem miðar að því að tryggja að tegundir, magn, gæði, kostnaður og árangur þjónustu sé í samræmi við gerða samninga. Þar kemur einnig fram að stofnunin skuli hafa samráð við embætti landlæknis um fyrirkomulag og framkvæmd eftirlitsins. Faglegt eftirlit með heilbrigðisþjónustu sem veitt er hér á landi er í höndum embættis landlæknis, þar á meðal eftirlit með þjónustu sem veitt er á grundvelli samninga sjúkratrygginga. Taka má fram að árið 2016 gerði embætti landlæknis úttekt á ákveðnum þáttum meðferðarþjónustu SÁÁ og fylgdi henni eftir með eftirfylgdarskýrslu árið eftir. Í eftirfylgdarskýrslunni kom fram að brugðist hefði verið við flestum ábendingum í úttektarskýrslunni og ekki gerðar frekari athugasemdir. Eftirlit fyrir hönd ráðherra hafa því Sjúkratryggingar Íslands og embætti landlæknis.

     3.      Hversu margir létust meðan þeir voru á biðlista eftir rými á sjúkrahúsinu Vogi? Svar óskast sundurliðað eftir mánuðum árin 2013–2017.
    Samkvæmt upplýsingum frá SÁÁ létust 11 einstaklingar sem voru á biðlista eftir rými á Vogi árið 2016 og 15 einstaklingar árið 2017. Ekki voru aðgengilegar upplýsingar um hversu margir einstaklingar sem voru á biðlista eftir rými á Vogi létust árin 2013–2015.

     4.      Hver eru kynjahlutföll þeirra sem eru nú á biðlista eftir rými á sjúkrahúsinu Vogi?
    Hinn 16. júlí 2018 voru 534 einstaklingar á biðlista eftir innlögn á sjúkrahúsið Vog, þar af 170 konur eða 32%. Þetta kynjahlutfall er hið sama og meðal þeirra sem koma til meðferðar.

     5.      Hversu margir þeirra sem voru á biðlista eftir rými á Vogi árin 2013–2017 skiluðu sér í meðferð að lokinni bið? Svar óskast sundurliðað eftir árum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Taflan er miðuð við tölur sem voru aðgengilegar hjá SÁÁ. Þar kemur fram að í kringum þriðjungur þeirra sem fara á biðlista eftir innlagnarbeiðni skili sér ekki í meðferð.

     6.      Telur ráðherra að framboð á meðferðarúrræðum fyrir fólk með fíknivanda sé nógu fjölbreytt? Hvernig hyggst ráðherra auka þetta framboð og gera fjölbreyttara á kjörtímabilinu?
    Fyrirhugað er að hefja stefnumótun um meðferðarúrræði fyrir fólk með fíknivanda. Í þeirri vinnu verður m.a. athugað hvort framboð meðferðarúrræða sé nægilega fjölbreytt hér á landi.