Ferill 606. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 1380  —  606. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Þorgerði K. Gunnarsdóttur um rannsóknir á mengun í Hvalfirði.


     1.      Telur ráðherra ástæðu til frekari rannsókna á mengun í Hvalfirði sem m.a. kynni að stafa frá hvalskurði og vinnslu á langreyðum í Hvalstöðinni?
    Vöktun er skilgreind sem kerfisbundin og síendurtekin skráning einstakra breytilegra þátta í umhverfinu, og er mjög mikilvæg. Margvísleg vöktun hefur átt sér stað í Hvalfirði og má þar nefna að umhverfisvöktun fer fram vegna iðjuveranna á Grundartanga samkvæmt áætlun sem Umhverfisstofnun hefur samþykkt. Hana má finna á heimasíðu stofnunarinnar. 1
    Skýrslu um niðurstöður umhverfisvöktunar iðnaðarsvæðisins á Grundartanga vegna ársins 2017 og samanburð við undangengin ár er einnig að finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar 2 sem og annað ítarefni er varðar umhverfisvöktun í Hvalfirði. 3
    Í ítarefninu má m.a. finna niðurstöður kræklingavöktunar frá 2013 og 2015. Sérstök vöktun hefur farið fram í Hvalfirði vegna kræklingaræktar, sem snýr að þörungagróðri vegna ræktunarinnar. Þá hafa líffræðinemar í Háskóla Íslands farið árlega í botn Hvalfjarðar til að gera þar kræklingarannsóknir.
    Ráðherra er ekki kunnugt um rannsóknir á mengun í Hvalfirði sem tengjast beint hvalskurði og vinnslu á langreyðum í Hvalstöðinni og telur miður að áhrifin frá þessari starfsemi hafi ekki verið vöktuð sérstaklega. Hvalur hf. hefur starfsleyfi frá heilbrigðisnefnd Vesturlands fyrir vinnslu hvalaafurða á Litla-Sandi í Hvalfjarðarsveit í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í starfsleyfinu er kveðið á um varnir gegn mengun ytra umhverfis og eftirlit með starfseminni.
    Verði áframhald á hvalveiðum og þar með þessari starfsemi telur ráðherra ástæðu til frekari rannsókna á mengun í Hvalfirði sem m.a. kynni að stafa af hvalskurði og vinnslu á langreyðum í Hvalstöðinni.

     2.      Styður ráðherra að hvalveiðistefna Íslendinga verði endurmetin?
    Reglugerð nr. 163/1973, um hvalveiðar, með síðari breytingum, heimilar veiðar á hrefnu og langreyði. Í 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar er m.a. kveðið á um leyfi til veiða á hrefnu 2018 og 2019 og á langreyði árið 2018, þannig að núgildandi reglugerðarákvæði um leyfi til veiða á stórhvölum rennur út í árslok 2018. Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er ekki farið að huga að frekari breytingum á reglugerðinni.
    Stefna Íslands í hvalveiðimálum hefur byggst á því að viðhalda rétti til að nýta hvalastofna við landið með sjálfbærum hætti líkt og aðrar lifandi auðlindir hafsins. Umhverfis- og auðlindaráðherra er ekki sannfærður um að umræddar veiðar hér við land séu sjálfbærar. Þá hefur ráðherra einnig efasemdir um að hagsmunir Íslendinga af nýtingu hvala séu eins miklir og stundum er haldið fram. Ráðherra telur rétt að staldrað verði við, hvalveiðistefna Íslendinga verði endurmetin og málið skoðað heildstætt út frá umhverfissjónarmiðum sem og út frá samfélagslegum og efnahagslegum sjónarmiðum.
1     www.ust.is/library/Skrar/Atvinnulif/Starfsleyfi/Eftirlitsskyrslur/alver/Voktunaraaetlun_2018_2021_2endursk_28032018.pdf
2     www.ust.is/library/Skrar/Einstaklingar/Mengandi-Starfssemi/alver/Nordural-Grundartanga/2434-108-SKU-001-v01-Umhverf isv%C3%B6ktun%202017%20Grundartanga.pdf
3     www.ust.is/einstaklingar/mengandi-starfsemi/alver/nordural-grundartanga/