Ferill 142. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 332  —  142. mál.




Svar


félags- og jafnréttismálaráðherra við fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur um fæðingarorlof og heimabyggð fjarri fæðingarþjónustu.

     1.      Hvaða viðmið telur ráðherra að ættu að liggja því til grundvallar, með tilliti til vegalengda eða landfræðilegra aðstæðna, að barnshafandi kona, sem þarf að dveljast fjarri heimabyggð í einhvern tíma til að hafa öruggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu, geti átt rétt á því að hefja fæðingarorlof fyrr en gildandi lög gera ráð fyrir?
    Félags- og jafnréttismálaráðherra hefur ákveðið í samstarfi við heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem hefur það hlutverk að fara heildstætt yfir aðstæður barnshafandi kvenna á landsbyggðinni með tilliti til staðsetningar fæðingarþjónustu á landsvísu og koma fram með tillögur að leiðum sem koma til móts við aðstæður þeirra og fjölskyldna þeirra, hvort sem er innan fæðingarorlofskerfisins eða með öðrum hætti.
    Almennt þykir mikilvægt að þau viðmið sem sett eru í lög í tengslum við lögbundin réttindi einstaklinga séu þannig að þau leiði ekki til mismununar heldur tryggi að sambærilegar aðstæður einstaklinga leiði til sambærilegra réttinda þeirra á grundvelli þeirra laga sem í hlut eiga hverju sinni. Verður að ætla að framangreind sjónarmið eigi einnig við um viðmið í tengslum við réttindi verðandi mæðra innan fæðingarorlofskerfisins, hvort sem um er að ræða viðmið varðandi vegalengdir sem þær þurfa að fara til að fá heilbrigðisþjónustu, varðandi aðrar landfræðilegar aðstæður út frá búsetu þeirra eða varðandi heilsufarsaðstæður þeirra.
    Ráðherra hefur þó til skoðunar með hvaða hætti sé unnt að bæta félagslega stöðu fjölskyldna sem þurfa að sækja fæðingarþjónustu um langan veg.

     2.      Hversu mörg börn fæddust árlega á tímabilinu 2012–2017 þar sem foreldrarnir áttu lögheimili fjarri fæðingarþjónustu?
    Samkvæmt upplýsingum frá Fæðingarorlofssjóði fæddust á hverju ári að meðaltali 437 börn á árunum 2012–2017 þar sem foreldrarnir voru með skráð lögheimili í 50–74 km fjarlægð, 75–99 km fjarlægð eða 100 km fjarlægð eða meira frá fæðingarþjónustu eða voru með skráð lögheimili á einni af eyjunum við Ísland, sbr. töflu 1.
Þannig fæddist 61 barn á árinu 2012 þar sem foreldrarnir voru með skráð lögheimili í 50-74 km fjarlægð frá fæðingarþjónustu, 101 barn þar sem foreldrarnir voru með skráð lögheimili í 75-99 km fjarlægð frá fæðingarþjónustu, 254 börn þar sem foreldrarnir voru með skráð lögheimili í 100 km fjarlægð eða meira frá fæðingarþjónustu og 49 börn þar sem foreldrarnir voru með skráð lögheimili á einni af eyjunum við Ísland.
    Á árinu 2017 fæddist 51 barn þar sem foreldrarnir voru með skráð lögheimili í 50–74 km fjarlægð frá fæðingarþjónustu, 61 barn þar sem foreldrarnir voru með skráð lögheimili í 75–99 km fjarlægð frá fæðingarþjónustu, 239 börn þar sem foreldrarnir voru með skráð lögheimili í 100 km fjarlægð eða meira frá fæðingarþjónustu og 54 börn þar sem foreldrarnir voru með skráð lögheimili á einni af eyjunum við Ísland.

Tafla 1.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Heimild: Vinnumálastofnun.

     3.      Hve margar barnshafandi konur, sem áttu lögheimili fjarri fæðingarþjónustu, þurftu að fá framlengt fæðingarorlof á grundvelli gildandi laga vegna veikinda á meðgöngu árin 2012–2017?
    Í töflu 2 má sjá heildarfjölda mæðra sem fengu framlengt fæðingarorlof á grundvelli laga um fæðingar- og foreldraorlof á árunum 2012–2017 vegna veikinda á meðgöngu og voru með skráð lögheimili í 50–74 km fjarlægð, 75–99 km fjarlægð eða 100 km fjarlægt eða meira frá fæðingarþjónustu eða voru með skráð lögheimili á einni af eyjunum við Ísland.
    Þannig fengu fimm mæður framlengt fæðingarorlof á árinu 2012 vegna veikinda á meðgöngu sem voru með skráð lögheimili í 50–74 km fjarlægð frá fæðingarþjónustu, tvær mæður voru með skráð lögheimili í 75–99 km fjarlægð frá fæðingarþjónustu, 23 mæður voru með skráð lögheimili í 100 km fjarlægð eða meira frá fæðingarþjónustu og sex mæður voru með skráð lögheimili á einni að eyjunum við Ísland.
    Á árinu 2017 fengu 17 mæður framlengt fæðingarorlof vegna veikinda á meðgöngu og voru 15 þeirra með skráð lögheimili í 100 km fjarlægð eða meira frá fæðingarþjónustu og tvær þeirra voru með skráð lögheimili á einni af eyjunum við Ísland.


Tafla 2.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Heimild: Vinnumálastofnun.