Ferill 302. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 350  —  302. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um tekjuskatt og fleiri lögum (fyrirkomulag innheimtu).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



I. KAFLI

Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum.

1. gr.

    Í stað orðsins „tollstjóra“ í 7. mgr. 51. gr. laganna kemur: ríkisskattstjóra.

2. gr.

    Á eftir orðinu „skatteftirlits“ í 1. málsl. 2. mgr. 94. gr. laganna kemur: og innheimtu, þ.m.t. kyrrsetningar.

3. gr.

    5. mgr. 96. gr. laganna orðast svo:
    Upplýsingar um skattbreytingar skal senda öðrum innheimtumönnum ríkissjóðs við uppkvaðningu úrskurðar.

4. gr.

    5. málsl. 1. mgr. 98. gr. laganna orðast svo: Þá skal ríkisskattstjóri upplýsa aðra innheimtumenn ríkissjóðs um niðurstöður álagningar á einstaka aðila.

5. gr.

    5. málsl. 1. mgr. 99. gr. laganna orðast svo: Jafnframt skal upplýsa aðra innheimtumenn ríkissjóðs um fjárhæðir skattbreytinga.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 111. gr. laganna:
     a.      Í stað 1. málsl. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Skattar álagðir samkvæmt lögum þessum renna í ríkissjóð og annast innheimtumenn ríkissjóðs innheimtu þeirra. Innheimtumenn ríkissjóðs eru ríkisskattstjóri í umdæmi sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu en sýslumenn í öðrum umdæmum, sbr. þó 2.–4. mgr. þessarar greinar og ákvæði laga um staðgreiðslu opinberra gjalda.
     b.      Í stað orðanna „tollstjóra“ og „tollstjóri“ í 2. málsl. kemur: ríkisskattstjóra; og: ríkisskattstjóri.
     c.      Í stað orðanna „tollstjóri“ í 2. málsl. 1. tölul. og „Tollstjóra“ í 2. málsl. 2. tölul. kemur: ríkisskattstjóri; og: Ríkisskattstjóra.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. mgr. 113. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Tollstjóri“ í 1. málsl. og „tollstjóra“ í 2. málsl. kemur: Ríkisskattstjóri; og: ríkisskattstjóra.
     b.      3. málsl. fellur brott.

II. KAFLI

Breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, með síðari breytingum.

8. gr.

    Á undan orðinu „innheimtumönnum“ í 2. málsl. 3. mgr. 24. gr. laganna kemur: öðrum.

9. gr.

    Á eftir orðinu „skatteftirlits“ í 1. málsl. 2. mgr. 25. gr. laganna kemur: og innheimtu, þ.m.t. kyrrsetningar.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 31. gr. a laganna:
     a.      Í stað orðanna „Tollstjóri“ í 1. málsl. og „tollstjóra“ í 2. málsl. kemur: Ríkisskattstjóri; og: ríkisskattstjóra.
     b.      3. málsl. fellur brott.

III. KAFLI

Breyting á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996, með síðari breytingum.

11. gr.

    Í stað orðsins „innheimtumanna“ í 2. mgr. 8. gr. laganna kemur: innheimtumanns.

12. gr.

    Á undan orðinu „innheimtumönnum“ í 2. málsl. 1. mgr. 14. gr. laganna kemur: öðrum.

13. gr.

    Á eftir orðinu „skatteftirlits“ í 1. málsl. 2. mgr. 15. gr. laganna kemur: og innheimtu, þ.m.t. kyrrsetningar.

14. gr.

    Í stað orðanna „Innheimtumaður ríkissjóðs skal“ og „hann hefur“ í 1. málsl. 3. mgr. 18. gr. laganna kemur: Aðrir innheimtumenn ríkissjóðs skulu; og: þeir hafa.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 20. gr. a laganna:
     a.      Í stað orðanna „Tollstjóri“ í 1. málsl. og „tollstjóra“ í 2. málsl. kemur: Ríkisskattstjóri; og: ríkisskattstjóra.
     b.      3. málsl. fellur brott.

IV. KAFLI

Breyting á lögum um skattlagningu á kolvetnisvinnslu, nr. 109/2011, með síðari breytingum.

16. gr.

    Í stað orðanna „innheimtumanns ríkissjóðs“ í 1. málsl. 2. mgr. 7. gr. laganna kemur: ríkisskattstjóra.

17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 21. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „lagðir á“ í 1. málsl. kemur: og innheimtir.
     b.      2. málsl. fellur brott.

V. KAFLI

Breyting á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, með síðari breytingum.

18. gr.

    Í stað orðsins „sýslumenn“ í 1. málsl. 2. mgr. 19. gr. laganna kemur: innheimtumenn ríkissjóðs.

VI. KAFLI

Breyting á lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990, með síðari breytingum.

19. gr.

    Orðin „í Reykjavík tollstjóra“ í 2. mgr. 10. gr. laganna falla brott.

VII. KAFLI

Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.

20. gr.

    Í stað orðanna „innheimtumanni og skattgreiðanda“ í 4. málsl. 2. mgr. 25. gr. laganna kemur: skattgreiðanda og viðkomandi innheimtumanni ríkissjóðs.

21. gr.

    Á eftir orðinu „skatteftirlits“ í 1. málsl. 3. mgr. 38. gr. laganna kemur: og innheimtu, þ.m.t. kyrrsetningar.

22. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 41. gr. a laganna:
     a.      Í stað orðanna „Tollstjóri“ í 1. málsl. og „tollstjóra“ í 2. málsl. kemur: Ríkisskattstjóri; og: ríkisskattstjóra.
     b.      3. málsl. fellur brott.

23. gr.

    Í stað orðanna „ríkisskattstjóri, skattrannsóknarstjóri ríkisins, yfirskattanefnd og innheimtumenn ríkissjóðs“ í 1. málsl. 47. gr. laganna kemur: ríkisskattstjóri og aðrir innheimtumenn ríkissjóðs, skattrannsóknarstjóri ríkisins og yfirskattanefnd.

VIII. KAFLI

Breyting á lögum um fjársýsluskatt, nr. 165/2011, með síðari breytingum.

24. gr.

    Orðin „í Reykjavík tollstjóra“ í 2. mgr. 8. gr. laganna falla brott.

25. gr.

    Í stað orðsins „innheimtumanns“ í 2. málsl. 1. mgr. 11. gr. laganna kemur: annarra innheimtumanna ríkissjóðs.

IX. KAFLI

Breyting á lögum um erfðafjárskatt, nr. 14/2004, með síðari breytingum.

26. gr.

    Í stað orðsins „tollstjóri“ í 1. málsl. 1. mgr. 14. gr. laganna kemur: ríkisskattstjóri.

X. KAFLI

Breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.

27. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 122. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Tollstjóra“ í 1. málsl. 3. mgr. og „tollstjóra“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: Ríkisskattstjóra; og: ríkisskattstjóra.
     b.      Í stað orðsins „tollstjóra“ í e-lið 4. mgr. kemur: ríkisskattstjóra.
     c.      Í stað orðsins „tollstjóra“ tvívegis í 1. og 2. málsl. 5. mgr. kemur: ríkisskattstjóra.

28. gr.

    Í stað orðanna „Tollstjóri“ í 1. málsl. 1. mgr. 123. gr. laganna og „tollstjóra“ í 2. málsl. 1. mgr. sömu greinar kemur: Ríkisskattstjóri; og: ríkisskattstjóra.

29. gr.

    Í stað orðanna „tollstjóra“ í 1. mgr. 126. gr. laganna, „Tollstjóri“ í 2. mgr. sömu greinar og „Tollstjóra“ í 3. mgr. sömu greinar kemur: ríkisskattstjóra; Ríkisskattstjóri; og: Ríkisskattstjóra.

30. gr.

    Á eftir orðinu „Tollstjóra“ í 1. mgr. 131. gr. laganna kemur: og eftir atvikum ríkisskattstjóra.

XI. KAFLI

Breyting á búvörulögum, nr. 99/1993, með síðari breytingum.

31. gr.

    Í stað 2. málsl. 3. mgr. 85. gr. A laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Tollstjóri annast meðferð umsókna um greiðslu verðjöfnunar. Ríkisskattstjóri annast greiðslu.

XII. KAFLI

Breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, með síðari breytingum.

32. gr.

    Í stað orðanna „ökutækis o.fl. til innheimtumanns ríkissjóðs í því umdæmi þar sem þeir eru heimilisfastir og greiða gjald það sem þeim ber að standa skil á“ í 2. mgr. 18. gr. laganna kemur: innlendrar framleiðslu á gjaldskyldum vörum til tollstjóra.

33. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 25. gr. laganna:
     a.      Orðin „og innheimtu“ í 1. málsl. falla brott.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Innheimtumenn ríkissjóðs annast innheimtu vörugjalds.

XIII. KAFLI

Breyting á lögum um olíugjald og kílómetragjald, nr. 87/2004, með síðari breytingum.

34. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Tollstjóri annast álagningu olíugjalds á innflutta gjaldskylda olíu sem aðrir en skráðir aðilar skv. 3. gr. flytja til landsins. Ríkisskattstjóri annast álagningu olíugjalds á skráða aðila skv. 3. gr. og innlenda gjaldskylda framleiðslu. Ríkisskattstjóri annast innheimtu olíugjalds af gjaldskyldri olíu.

35. gr.

    Orðin „innheimtumanni og“ í 4. málsl. 2. mgr. 11. gr. laganna falla brott.

XIV. KAFLI

Breyting á lögum um bifreiðagjald, nr. 39/1988, með síðari breytingum.

36. gr.

    Í stað orðanna „tollstjórar“ í 2. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna og „tollstjórar“ í 2. mgr. sömu greinar kemur: innheimtumenn ríkissjóðs; og: ríkisskattstjóri.

XV. KAFLI

Breyting á lögum um gjald af áfengi og tóbaki, nr. 96/1995, með síðari breytingum.

37. gr.

    Í stað orðsins „tollstjóri“ í 4. mgr. 5. gr. a laganna kemur: ríkisskattstjóri.

38. gr.

    Í stað orðanna „tollstjóranum í Reykjavík“ í 3. málsl. 3. mgr. 9. gr. laganna kemur: ríkisskattstjóra.

XVI. KAFLI

Breyting á lögum um umhverfis- og auðlindaskatta, nr. 129/2009, með síðari breytingum.

39. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Orðin „og innheimtu“ í 1. mgr. falla brott.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Ríkisskattstjóri annast innheimtu kolefnisgjalds.

XVII. KAFLI

Breyting á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, með síðari breytingum.

40. gr.

    10. gr. laganna orðast svo:
    Tollstjóri skal annast álagningu af gjaldskyldum vörum í innflutningi, ríkisskattstjóri annast álagningu vegna innlendrar gjaldskyldrar framleiðslu og álagningu úrvinnslugjalds af ökutækjum. Innheimtumenn ríkissjóðs annast innheimtu úrvinnslugjalds.

41. gr.

    Í stað orðanna „og tollstjórinn í Reykjavík geta“ í 1. málsl. 2. mgr. 13. gr. laganna kemur: getur.

XVIII. KAFLI

Breyting á lögum um veiðigjald, nr. 74/2012, með síðari breytingum.

42. gr.

    Í stað orðsins „tollstjóri“ í 2. mgr. 14. gr. laganna kemur: ríkisskattstjóri.

XIX. KAFLI

Breyting á lögum um vitamál, nr. 132/1999, með síðari breytingum.

43. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 8. gr. laganna:
     a.      1. málsl. orðast svo: Ríkisskattstjóri annast innheimtu vitagjalds vegna íslenskra skipa og tollstjóri annast innheimtu vitagjalds vegna erlendra skipa.
     b.      Í stað orðsins „innheimtumanni“ tvívegis í 2. málsl. kemur: álagningaraðila.

XX. KAFLI

Breyting á lögum um eftirlit með skipum, nr. 47/2003, með síðari breytingum.

44. gr.

    1. málsl. 2. mgr. 28. gr. laganna orðast svo: Innheimtumenn ríkissjóðs annast innheimtu skipagjalds.

XXI. KAFLI

Breyting á lögum um opinber innkaup, nr. 120/2016.

45. gr.

    Í stað orðanna „Tollstjóri“ í 1. málsl. 3. mgr. 118. gr. laganna og „tollstjóra“ í 4. málsl. 3. mgr. sömu greinar kemur: Ríkisskattstjóri; og: ríkisskattstjóra.

XXII. KAFLI

Breyting á skipulagslögum, nr. 123/2010, með síðari breytingum.

46. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 17. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Sýslumaður“ í 4. málsl. kemur: Innheimtumaður ríkissjóðs.
     b.      5. málsl. fellur brott.

XXIII. KAFLI

Breyting á lögum um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara, nr. 103/1994, með síðari breytingum.

47. gr.

    Í stað orðanna „Tollstjórinn í Reykjavík og sýslumenn utan Reykjavíkur“ í 3. mgr. 3. gr. laganna kemur: Innheimtumenn ríkissjóðs.

48. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2019.
    Við gildistöku laga þessara tekur ríkisskattstjóri við óloknum málum innheimtusviðs tollstjóra.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Starfsmenn innheimtusviðs tollstjóra sem eru í starfi við gildistöku laga þessara verða starfsmenn hjá embætti ríkisskattstjóra og fer um rétt starfsmanna til starfa hjá embætti ríkisskattstjóra eftir ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, og laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 72/2002, eins og við á hverju sinni. Ákvæði um auglýsingaskyldu í 7. gr. laga nr. 70/1996 gilda ekki við ráðstöfun starfa samkvæmt þessu ákvæði.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í framhaldi af vinnu nefndar um aukna skilvirkni í skattframkvæmd, álagningu og innheimtu opinberra gjalda sem ráðherra skipaði 21. júní 2018. Nefndina skipa ráðuneytisstjóri, sérfræðingar ráðuneytisins auk fulltrúa tollstjóra og ríkisskattstjóra og er hún enn að störfum. Í frumvarpinu er lagt til að innheimta opinberra gjalda, sem tollstjóri annast nú, verði færð til ríkisskattstjóra frá og með 1. janúar 2019. Ekki eru lagðar til breytingar á fyrirkomulagi innheimtu opinberra gjalda sem sýslumenn annast.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar koma meðal annars fram áherslumál um bættan ríkisrekstur og að almannaþjónusta verði markvisst bætt með því að setja á fót rafræna þjónustugátt þar sem landsmenn geti á einum stað nálgast þjónustu hins opinbera og sinnt þeim erindum sem beinast að stjórnvöldum. Þar kemur einnig fram markmið um að átak verði gert í einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings og lögð áhersla á að stjórnsýslan sé skilvirk og réttlát. Til að fylgja þessum áherslum er stefnt að öflugri rafrænni stjórnsýslu og fjölbreyttum sjálfsafgreiðslumöguleikum fyrir gjaldendur, meðal annars á þjónustugáttinni island.is.
    Umtalsverð tækifæri eru til að bæta þjónustu og styrkja stjórnsýslu varðandi verkefni tollstjóra og ríkisskattstjóra með því að samþætta starfsemi stofnananna betur, þannig að álagning og innheimta opinberra gjalda verði einfaldari, skilvirkari og hagkvæmari.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Meginefni frumvarpsins felur í sér þá breytingu að innheimta opinberra gjalda, sem tollstjóri annast nú, færist til ríkisskattstjóra frá og með 1. janúar 2019. Af þessum sökum er nauðsynlegt að fella niður í lögum um þessi embætti tilvísanir til tollstjóra og setja ríkisskattstjóra sem innheimtumann ríkissjóðs í hans stað. Í þeim tilvikum sem gera þarf efnisbreytingar sem leiða af tilfærslunni, þ.e. að innheimta opinberra gjalda, sem tollstjóri annast nú, verði færð til ríkisskattstjóra, er vísað til skýringa við einstakar greinar.
    Meginverkefni tollstjóra eru einkum tvö: Annars vegar tollafgreiðsla og -eftirlit, og hins vegar innheimta opinberra gjalda, sem um fjórðungur starfsmanna tollstjóra sinnir. Tollstjóri hefur það hlutverk samkvæmt lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, að móta stefnu á sviði innheimtu opinberra gjalda með hagræðingu, samræmingu, framþróun og öryggi að leiðarljósi.
    Meginverkefni ríkisskattstjóra er að annast álagningu skatta og gjalda og hafa með höndum skatteftirlit. Á undanförnum árum hefur ríkisskattstjóri verið leiðandi í rafrænni stjórnsýslu og eru skil framtala og annarra skýrslna nú nánast eingöngu rafræn.
    Nefndin fékk það meginhlutverk að greina verkaskiptingu, faglegt samstarf og sameiginleg verkefni embættanna við skattframkvæmd, álagningu og innheimtu opinberra gjalda og skyldi hún ljúka umfjöllun sinni þar um fyrir 1. október 2018. Þá var nefndinni einnig ætlað að greina hvaða kostir væru fyrir hendi varðandi breytingar á stofnanaskipulagi og verkaskiptingu og líta meðal annars í því sambandi til fyrirkomulags innheimtumála í víðara samhengi og þjónustu við gjaldendur og aðila í inn- og útflutningsstarfsemi. Jafnframt skyldi nefndin meta hvort einhverjar breytingar kynnu að vera æskilegar fyrir þær stofnanir ráðuneytisins sem sinna skyldum eða tengdum verkefnum. Undir það fellur víðtæk nýting sjálfvirknivæðingar og gervigreindar, aðlögun að breyttum viðskiptaháttum, áhættustjórnun innan skattkerfisins o.fl. Nefndinni er ætlað að ljúka umfjöllun um þessi atriði fyrir 1. mars 2019 og verður störfum hennar hagað með framangreint að markmiði. Tilfærsla á innheimtu opinberra gjalda verður einungis fyrsti áfangi af fleirum sem nefndin áformar að skoða. Þannig verða meðal annars kannaðir kostir þess að sameina að fullu starfsemi tollstjóra og ríkisskattstjóra, eftir atvikum með sérstakri útfærslu á þeirri starfsemi er varðar tollafgreiðslu og -eftirlit sem tengist náið starfsemi lögreglu. Vinna sem þessi er tímafrek auk þess sem vanda þarf til verka og því metur nefndin það heillavænlegast að slíkt verði gert í áföngum.
    Mögulegir kostir á tilfærslu innheimtu opinberra gjalda eru m.a. eftirtaldir:
          Ferill skattlagningar og innheimtu verði samfelldur en ekki rofinn eins og hann er í dag.
          Auknir sjálfsafgreiðslumöguleikar og samnýting tölvu- og upplýsingakerfa.
          Bætt greining á tölfræðiupplýsingum varðandi álagningu og innheimtu opinberra gjalda.
          Áhættugreining. Farið verði fyrr í innheimtuaðgerðir eftir því sem tilefni er til.
          Bættur innheimtuárangur vegna aukins aðgangs innheimtustarfsmanna að upplýsingum um skattaðila/gjaldendur.
          Bætt skatteftirlit með samnýtingu á mannauði, sem er með sérþekkingu á annars vegar skattálagningu og hins vegar efnisreglum varðandi innheimtu.
          Erlend innheimta. Starfsmenn innheimtunnar fengju aðgang að sjálfvirkum upplýsingaskiptum, sem ríkisskattstjóri fær en ekki tollstjóri, sem og samnýtingu upplýsinga um erlend heimilisföng.
          Ein þjónustugátt til miðlunar á upplýsingum til gjaldenda varðandi opinber gjöld og heildstæð löggjöf um innheimtu opinberra gjalda.
          Fræðslumál, uppbygging menntunar og færni.
    Í tengslum við fyrirhugaðar breytingar er mikilvægt að vel verði staðið að breytingastjórnun og að kynninga- og upplýsingaflæði til starfsmanna verði gott. Þá er nauðsynlegt, með tilliti til hags starfsmanna beggja ríkisaðila, að breytingaferlið taki sem skemmstan tíma. Ekki er gert ráð fyrir að störf verði lögð niður heldur verði þau flutt frá tollstjóra til ríkisskattstjóra. Óhjákvæmilegt er hins vegar að skipulag starfseminnar þróist í tímans rás og að skipulaginu verði þannig háttað að saman fari góð nýting fjármagns og skilvirk skattframkvæmd.
    Líta verður á tilfærsluna sem tækifæri til að tryggja starfsumhverfi og starfsmannamenningu. Miklar breytingar hafa orðið á íslenska skattkerfinu sem og starfsemi og hlutverki skattyfirvalda. Þróun í upplýsingatækni og gervigreind hefur gjörbylt vinnulagi og afköstum í skattframkvæmdinni og aukið gæði hennar til muna. Það kallar á betri rekstur og þjónustu með samlegð og hagræðingu að leiðarljósi. Umhverfið er fjölbreytt og má nefna alþjóðlegar áskoranir í rafrænni verslun sem sífellt verða fyrirferðarmeiri. Með samþættingu ríkisaðilanna er stefnt að meiri árangri þar sem öll þjónusta verður á einum stað almenningi, starfsmönnum, ríkisaðilum og samfélaginu til hagsbóta.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Markmiðum frumvarpsins verður aðeins náð með breytingum á skattalögum og fleiri lögum. Þess var sérstaklega gætt við undirbúning frumvarpsins að orðalag breytinganna væri skýrt og í samræmi við þær kröfur sem leiða má af ákvæðum stjórnarskrár.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir fyrst og fremst skattskylda aðila, bæði einstaklinga og lögaðila en einnig tollstjóra, ríkisskattstjóra, Fjársýslu ríkisins, ríkið og sveitarfélög. Frumvarpið er samið í framhaldi af vinnu nefndar um aukna skilvirkni í skattframkvæmd, álagningu og innheimtu opinberra gjalda. Í nefndinni sitja meðal annars fulltrúar tollstjóra og ríkisskattstjóra. Við vinnslu frumvarpsins var einnig haft samráð við Fjársýslu ríkisins og aðra sérfræðinga innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins, tollstjóra og ríkisskattstjóra. Þá var frumvarpið kynnt á vettvangi ráðuneytisstjóra og almenningi í opinni samráðsgátt ráðuneytanna 5.–19. október. Þrjár umsagnir bárust í samráðsgáttina. Um er að ræða umsagnir frá ferðamálaráði, KPMG ehf. og Sýslumannafélagi Íslands og hefur verið brugðist við þeim.

6. Mat á áhrifum.
    Með tilfærslu á innheimtu opinberra gjalda frá tollstjóra til ríkisskattstjóra er stefnt að aukinni skilvirkni og hagkvæmni í skattframkvæmd. Mikil einföldun felst í því að hafa álagningu og innheimtu opinberra gjalda á einni hendi. Með því má gera ráð fyrir að þjónusta við skattaðila og gjaldendur verði árangursríkari og betri sem aftur mun leiða til enn betri innheimtuárangurs og tekjuöflunar hins opinbera. Miklir möguleikar eru fyrir hendi til að samnýta tölvu- og upplýsingakerfi og bæta alla verkferla sem og árangur og skilvirkni í störfum skattyfirvalda. Þannig má reikna með að samfélagslegt hagræði og fjárhagslegur ávinningur verði meiri en áður sem efla mun starfsemina og lækka kostnað við rekstur skattkerfisins í heild án þess að það bitni á þjónustu og afköstum skattyfirvalda.
    Til framtíðar þarf að skapa starfseminni umgjörð sem stuðlar að hagkvæmni, samþættingu og samlegð. Í því sambandi er nauðsynlegt að huga að skipulagningu húsnæðismála en ljóst er að af því verður ekki á næstu misserum.
    Gert er ráð fyrir því að sá kostnaður sem til fellur við tilfærsluna rúmist innan fjárheimildar í málaflokki 05 Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1., 3., 8., 11.–12., 14., 16.–20., 23.–42. og 44.–47. gr.

    Meginefni frumvarpsins er sú breyting að færa innheimtu opinberra gjalda, sem tollstjóri annast nú, til ríkisskattstjóra frá og með 1. janúar 2019. Af þessum sökum er nauðsynlegt að fella niður tilvísanir til tollstjóra þar sem það á við og setja ríkisskattstjóra eða innheimtumenn ríkissjóðs í hans stað. Sama á við um tilvísanir til sýslumanna en í þeirra stað koma innheimtumenn ríkissjóðs. Þarfnast þessar breytingar ekki frekari skýringa en fram koma í greinargerð.

Um 4. og 5. gr.

    Í 4. og 5. gr. eru annars vegar ákvæði þar sem lagðar eru skyldur á ríkisskattstjóra að senda öðrum innheimtumönnum ríkissjóðs skrá um þá aðila, sem á hafa verið lagðir skattar, svo og samrit til ríkisendurskoðanda. Hins vegar er um að ræða ákvæði þar sem lögð er sú skylda á ríkisskattstjóra að senda tilkynningar um skattbreytingar vegna kæra á álagningu opinberra gjalda til innheimtumanna ríkissjóðs og samrit til ríkisendurskoðanda. Niðurstöður álagningar og skattbreytinga fara fram vélrænt yfir í innheimtukerfið og því lagt til að felld verði niður skylda til að senda sérstaka skrá um niðurstöðu álagningar eða senda sérstaklega tilkynningar um skattbreytingar til annarra innheimtumanna og samrit til ríkisendurskoðanda enda um að ræða ákvæði og fyrirkomulag frá eldri tíð sem er með öllu úrelt.

Um 6. gr.

    Innheimtuaðilar ríkissjóðs eru skilgreindir í 111. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og taka ákvæði annarra laga mið af þeirri skilgreiningu. Lagt er til að innheimtumenn ríkissjóðs annist innheimtu opinberra gjalda en til þeirra telst ríkisskattstjóri í umdæmi sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu en sýslumenn í öðrum umdæmum, sbr. þó 2.–4. mgr. greinarinnar og ákvæði laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.

Um 2., 7., 9.–10., 13., 15. og 21.–22. gr.

    Í greinunum er að finna breytingar á ákvæðum í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996 og lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, sem veita skattyfirvöldum heimild til að krefjast kyrrsetningar á eignum aðila sem eru til rannsóknar vegna brota á skattalögum. Í greinunum er kveðið á um að tollstjóri annist rekstur mála vegna kyrrsetningarkröfu og sendir skattrannsóknarstjóri tilkynningu þar að lútandi til hans. Tollstjóra er því heimilaður aðgangur að öllum nauðsynlegum upplýsingum og gögnum sem skattyfirvöld, fjármálastofnanir og aðrir búa yfir og snerta ráðstafanir samkvæmt greinunum. Lagt er til að ríkisskattstjóri taki við rekstri mála vegna kyrrsetningarkrafna og þar sem hann hefur nú þegar allar heimildir til aðgangs að nauðsynlegum upplýsingum og gögnum lögum samkvæmt er lagt til að heimildir tollstjóra, er snerta ráðstafanir samkvæmt greinunum, verði felldar brott. Jafnframt er hnykkt á því að gildandi heimildir ríkisskattstjóra taki einnig til innheimtuaðgerða, þ.m.t. kyrrsetningar.

Um 43. gr.

    Lagðar eru til breytingar á lögum um vitamál, nr. 132/1999, með það að markmiði að lögfesta gildandi framkvæmd. Nauðsynlegt er að tryggja skýrleika laganna og kveða á um að ríkisskattstjóri annist innheimtu vitagjalds vegna íslenskra skipa og tollstjóri annist innheimtu vegna erlendra skipa.

Um 48. gr.

    Gert er ráð fyrir því að frumvarpið öðlist gildi 1. janúar 2019. Við gildistöku laganna skal ríkisskattstjóri taka við öllum óloknum málum innheimtusviðs tollstjóra á hvaða stigi sem þau kunna að standa. Þannig skal ríkisskattstjóri taka við öllum óloknum innheimtuaðgerðum, kærum, erindum, fyrirspurnum og öðrum þeim málum þar sem innheimtusvið tollstjóra hefur ekki lokið málsmeðferð samkvæmt þeim lögum sem tollstjóri fór með framkvæmd á.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Gert er ráð fyrir því að starfsmenn innheimtusviðs tollstjóra sem eru í starfi við gildistöku laganna verði starfsmenn hjá embætti ríkisskattstjóra. Ekki er því gert ráð fyrir að störf verði lögð niður heldur að þau verði flutt frá tollstjóra til ríkisskattstjóra þar sem miðað er við að allir haldi störfum sínum. Ákvæði um auglýsingaskyldu í 7. gr. laga nr. 70/1996 gilda ekki við ráðstöfun starfa samkvæmt ákvæðinu.