Ferill 398. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 789  —  398. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Berglindi Häsler um þriggja fasa rafmagn.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig miðar vinnu við lagningu þriggja fasa rafmagns? Kemur til greina að gera sérstakt átak í þeim efnum í líkingu við landsátakið Ísland ljóstengt og ljósleiðaravæðingu þá sem nú stendur yfir?

    Í samræmi við áherslur í samstarfssáttmála ríkisstjórnarflokkanna er á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis unnið að því að flýta fyrirliggjandi áformum dreifiveitna um þrífösun rafmagns á Íslandi. Í því skyni var í maí 2017 skipaður starfshópur til að greina möguleika og gera tillögur um uppfærslur á raforkuflutningskerfi í dreifbýli, með áherslu á þrífösun rafmagns. Núverandi áætlanir um endurnýjun á dreifikerfi raforku í þriggja fasa dreifikerfi ná allt til ársins 2035 og ljóst að þörfum heimila og fyrirtækja er ekki hægt að mæta með óbreyttri nálgun á endurnýjun og uppfærslu á fyrirliggjandi dreifikerfi. Uppfært dreifikerfi bætir afhendingaröryggi raforku og eflir möguleika á að víðar verði mögulegt að hefja framleiðslu á raforku með smávirkjunum. Styrking dreifikerfis mun einnig styðja við frekari áform um orkuskipti og rafvæðingu samgangna.
    Vinna starfshópsins er vel á veg komin og hefur þar m.a. verið skoðað samspil áforma um þrífösun rafmagns við tekjumörk og gjaldskrár dreifiveitna, aðgerðir kostnaðarmetnar og þarfagreindar, sem og hvaða áhrif þær kunni að hafa á viðskiptavini dreifiveitna. Einföldun gjaldskrármála dreifiveitna hefur einnig verið til skoðunar í starfshópnum. Ráðgert er að starfshópurinn skili lokaskýrslu til ráðherra, með tillögum til úrbóta, fyrir 1. febrúar 2019.
Þess ber jafnframt að geta að í þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018– 2024, sem samþykkt var á Alþingi 11. júní 2018, er í aðgerðaáætlun að finna sérstakt verkefni um þrífösun rafmagns með tillögu að 400 millj. kr. fjármögnun úr byggðaáætlun (sbr. lið B.1 Þrífösun rafmagns). Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið er í samráði við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið um nánari útfærslu og framkvæmd þessa liðar byggðaáætlunar.
    Í því samhengi má nefna að í ágúst síðastliðnum var í ríkisstjórn samþykkt tillaga sem lögð var fram af ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra þess efnis að með vísan til sérstöðu Skaftárhrepps (sem brothættrar byggðar) muni ríkisstjórnin beita sér fyrir því að tryggja fjármagn til að flýta framkvæmdum við endurnýjun raforkudreifikerfis Skaftárhrepps á næstu þremur árum með framlagi sem nemur 35 millj. kr. á ári (samtals 105 millj. kr.). Í verkefninu felst þrífösun allra einfasa lína í Skaftárhreppi á þriggja ára tímabili (í stað 2035). Framlag ríkisins nær yfir svokallað flýtigjald RARIK. Um það er að ræða að flýta verkefnum sem annars yrðu unnin u.þ.b. 10–15 árum seinna. Þessi aðgerð er með beina tengingu í fyrrgreinda þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024 (B.1 Þrífösun rafmagns). Aðgerðin er brýn út frá byggðasjónarmiðum, ferðaþjónustu, orkuskiptum og atvinnutækifærum dreifðari byggða. Líta má á verkefnið sem fyrsta áfanga í átaki við að ljúka þrífösun rafmagns á landsvísu. Einnig hefur í þessu samhengi verið horft til annarra svæða þar sem brýnt er að hraða fyrirliggjandi þrífösunaráformum, svo sem á Mýrum, og þar sem eru samlegðaráhrif vegna ljósleiðaraframkvæmda (það á við bæði um Skaftárhrepp og Mýrar).
    Sem áður segir er sérstakur starfshópur að störfum um þrífösun rafmagns og er heildstæðra tillagna að vænta frá honum innan skamms. Í þessum efnum er m.a. horft til þeirrar ljósleiðaravæðingar sem nú stendur yfir og mögulegra samlegðaráhrifa.