Ferill 635. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1041  —  635. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum (ríki-fyrir-ríki skýrslur).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 91. gr. a laganna:
     a.      Á eftir orðinu „móðurfélag“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: fjölþjóðlegrar.
     b.      3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Skyldan til að skila ríki-fyrir-ríki skýrslu um skattskil gildir ekki um innlent móðurfélag fjölþjóðlegrar heildarsamstæðu ef tekjur heildarsamstæðunnar á síðasta reikningsári samkvæmt samstæðureikningi voru lægri en 750 milljónir evra.
     c.      Á eftir orðunum „teljist ekki vera móðurfélag“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: fjölþjóðlegrar.
     d.      B-liður 2. mgr. orðast svo: heimilisfestarríki hins erlenda móðurfélags hefur gert samning við Ísland þar sem kveðið er á um upplýsingaskipti en ekki er í gildi, við lok reikningsársins, samkomulag milli bærra stjórnvalda sem kveður á um sjálfvirk upplýsingaskipti á ríki-fyrir-ríki skýrslum um skattskil skv. 1. mgr., eða.
     e.      C-liður 2. mgr. orðast svo: ríkisskattstjóri hefur tilkynnt íslenska félaginu að kerfisbrestur sé til staðar í heimilisfestarríki móðurfélags sem leiðir til þess að íslensk skattyfirvöld fá ekki ríki-fyrir-ríki skýrslur.
     f.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Skylda til að skila ríki-fyrir-ríki skýrslu er ekki til staðar þegar staðgöngufélag móðurfélags er skilaskylt í öðru ríki að því gefnu að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:
        1.    Heimilisfestarríki staðgöngufélags móðurfélags gerir sömu kröfur um efni ríki-fyrir-ríki skýrslna og gerðar eru hér á landi.
        2.    Við lok reikningsársins er í gildi samkomulag við bært stjórnvald í heimilisfestarríki staðgöngufélags móðurfélags sem kveður á um sjálfvirk upplýsingaskipti á ríki-fyrir-ríki skýrslum um skattskil skv. 1. mgr.
        3.    Heimilisfestarríki staðgöngufélags móðurfélags hefur ekki tilkynnt ríkisskattstjóra um að kerfisbrestur sé til staðar sem leiðir til þess að íslensk skattyfirvöld fá ekki ríki-fyrir-ríki skýrslur.
        4.    Ríki-fyrir-ríki skýrslu er miðlað til ríkisskattstjóra af bæru stjórnvaldi í heimilisfestarríki staðgöngufélags móðurfélags.
        5.    Samstæðufélag hefur tilkynnt bæru stjórnvaldi í heimilisfestarríki um að það sé staðgöngufélag móðurfélags í samræmi við þarlendar reglur um slíkar tilkynningar.
        6.    Samstæðufélag með heimilisfesti hér á landi skilar upplýsingum til ríkisskattstjóra um auðkenni og skattalega heimilisfesti staðgöngufélags móðurfélags.
     g.      3. mgr. orðast svo:
                  Samstæðufélag fjölþjóðlegrar heildarsamstæðu sem er með skattalega heimilisfesti á Íslandi skal eigi síðar en fyrir lok reikningsárs slíkrar fjölþjóðlegrar heildarsamstæðu tilkynna til ríkisskattstjóra hvort félagið sé móðurfélag heildarsamstæðunnar eða staðgöngufélag móðurfélags.
     h.      4. mgr. orðast svo:
                  Félag, með skattalega heimilisfesti hér á landi sem er hluti af fjölþjóðlegri heildarsamstæðu og er hvorki móðurfélag heildarsamstæðu né staðgöngufélag móðurfélags, skal fyrir lok reikningsárs tilkynna ríkisskattstjóra hvaða félag í samstæðunni skili ríki-fyrir-ríki skýrslu um skattskil og um heimilisfestarríki þess.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda 1. janúar 2020.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 (breytingalög nr. 112/2016), var ákvæði um ríki-fyrir-ríki skýrslur tekið upp í 91. gr. a. laganna. Efni ákvæðisins var byggt á leiðbeiningum OECD en þann 12. maí 2016 undirritaði Ísland samkomulag á vegum OECD um skipti á svokölluðum ríki-fyrir-ríki skýrslum um starfsemi fjölþjóðlegra fyrirtækjasamstæðna. Skýrslunum er ætlað að auðvelda skattyfirvöldum að fá yfirsýn yfir starfsemi fjölþjóðlegra fyrirtækjasamstæðna.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Ákvæði um skil á ríki-fyrir-ríki skýrslum byggja á mikilli samvinnu milli skattyfirvalda þvert á landamæri og er því mikilvægt að regluverk um skil sé samræmt. OECD hefur haft eftirlit með því að reglur þeirra ríkja sem undirritað hafa samkomulag um skipti á ríki-fyrir-ríki skýrslum fullnægi þeim viðmiðum sem sett hafa verið. OECD hefur nú gert athugasemdir við íslensku reglurnar og telur að skerpa þurfi á ákveðnum atriðum, svo sem ákvæðum um fjárhæðarviðmið vegna skila á ríki-fyrir-ríki skýrslum. Þá hefur verið gerð athugasemd við það að ekki séu ákvæði um skilaskyldu svokallaðra staðgöngufélaga móðurfélags.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið felur í sér breytingar á núgildandi ákvæði 91. gr. a tekjuskattslaga um skil á ríki-fyrir-ríki skýrslum um skattskil. Helstu breytingarnar eru þríþættar og snúa að eftirfarandi atriðum:
    Í fyrsta lagi er lagt til að viðmiðunarfjárhæð vegna skilaskyldu innlendra móðurfélaga á ríki-fyrir-ríki skýrslum verði miðuð við evrur en ekki íslenskar krónur. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra eru skilaskyld fyrirtæki að jafnaði ekki gerð upp í íslenskum krónum og því eðlilegt að miða frekar við evrur. Fjárhæðarmörkin eiga einungis við um innlend félög en ef hið skilaskylda samstæðufélag er stofnsett í öðru ríki skal miða við þau fjárhæðarviðmið sem gilda samkvæmt þarlendri löggjöf.
    Í öðru lagi er lögð til breyting á 2. mgr. sem fjallar um það hvenær skylda til að skila ríki-fyrir-ríki skýrslu hvílir á innlendum félögum þrátt fyrir að þau teljist ekki vera fjölþjóðlegar heildarsamstæður. Í samræmi við ábendingar OECD er nú tekið af skarið um það að slík skylda getur verið til staðar þegar ekki er í gildi samkomulag milli bærra stjórnvalda sem kveður á um sjálfvirk upplýsingaskipti á ríki-fyrir-ríki skýrslum um skattskil. Það sama getur átt við ef ríkisskattstjóri hefur tilkynnt íslenska félaginu að kerfisbrestur (e. systemic failure) sé til staðar í heimilisfestarríki móðurfélags sem leiðir til þess að íslensk skattyfirvöld fá ekki ríki-fyrir-ríki skýrslur. Með kerfisbresti er átt við það þegar ríki hefur gert samkomulag við annað ríki um sjálfvirk upplýsingaskipti milli bærra stjórnvalda á ríki-fyrir-ríki skýrslum um skattskil en sjálfvirk upplýsingaskipti fara ekki fram vegna ástæðna sem ekki eru í samræmi við samkomulagið eða til staðar er viðvarandi ástand í ríki þar sem sjálfvirk upplýsingaskipti fara ekki fram á ríki-fyrir-ríki skýrslum.
    Í þriðja lagi er bætt við nýrri málsgrein um svokölluð staðgöngufélög móðurfélaga (e. surrogate parent entity). Með staðgöngufélagi móðurfélags er átt við samstæðufélag innan fjölþjóðlegrar heildarsamstæðu sem hefur verið tilnefnt sem staðgengill móðurfélags innan heildarsamstæðu og ber ábyrgð á að skila ríki-fyrir-ríki skýrslum í heimilisfestarríki þess fyrir hönd heildarsamstæðunnar að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að það stangist á við stjórnarskrá.
    Með frumvarpinu er brugðist við þeim athugasemdum sem OECD hefur gert við núgildandi ákvæði tekjuskattslaga um ríki-fyrir-ríki skýrslur.

5. Samráð.
    Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu en við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við embætti ríkisskattstjóra. Áform um lagasetninguna voru kynnt á vettvangi ráðuneytisstjóra og í opinni samráðsgátt stjórnvalda dagana 11.–25. janúar 2019. Þá voru drög að frumvarpinu kynnt í sömu samráðsgátt dagana 30. janúar til 13. febrúar 2019. Ein umsögn barst frá Samtökum atvinnulífsins þar sem bent er á ósamræmi milli frumvarpsins og gildandi reglugerðar nr. 1166/2016 um skil á ríki-fyrir-ríki skýrslu og auglýsingu ríkisskattstjóra um skil á skýrslum. Til stendur að gefa út nýja reglugerð um skil á ríki-fyrir-ríki skýrslu samhliða frumvarpi þessu.

6. Mat á áhrifum.
    Þær lagabreytingar sem lagðar verða til í frumvarpinu munu ekki hafa teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs samanlagt verði frumvarpið óbreytt að lögum. Þær munu hins vegar leiða til aukins skýrleika og þannig bættra skattskila.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í a- og c-lið er að finna breytingu sem kveður á um að í tilviki móðurfélags samstæðu er átt við móðurfélag fjölþjóðlegrar samstæðu.
    Í b-lið er kveðið á um að skyldan til að skila ríki-fyrir-ríki skýrslu gildi ekki fyrir innlend móðurfélög fjölþjóðlegrar heildarsamstæðu ef tekjur heildarsamstæðunnar samkvæmt samstæðureikningi hafa verið lægri en 750 milljónir evra.
    Í d- og e-lið er fjallað um það hvenær skylda til að skila ríki-fyrir-ríki skýrslu hvílir á innlendum félögum þrátt fyrir að þau teljist ekki vera fjölþjóðlegar heildarsamstæður.
    Í f-lið er fjallað um þau skilyrði sem þurfa að vera til staðar til þess að staðgöngufélag móðurfélags verði skilaskylt í stað móðurfélags heildarsamstæðu.
    Í g- og h-lið er fjallað um tilkynningar um skil á ríki-fyrir-ríki skýrslum.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.