Ferill 703. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1370  —  703. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Ingu Sæland um lúðuveiðar.


     1.      Hve mikið af lúðu hefur árlega borist skráð að landi frá því að lagt var bann við öllum beinum veiðum á lúðu með reglugerð nr. 470/2012?
    Landaður óslægður lúðuafli frá upphafi lúðubanns er sem hér segir:

Ár Tonn
2012 35
2013 39
2014 46
2015 91
2016 119
2017 102
2018 133

     2.      Hverjar voru tíu helstu löndunarhafnir lúðu á árunum frá því að veiðibann tók gildi fram til 2019?
    Tíu helstu löndunarhafnir lúðu á þeim árum sem spurt er um voru: Reykjavík, Vestmannaeyjar, Grundarfjörður, Ísafjörður, Grindavík, Bolungarvík, Hafnarfjörður, Þorlákshöfn, Patreksfjörður og Skagaströnd.

     3.      Hvernig skiptist skráður lúðuafli milli gerða veiðarfæra 2012–2019, sundurliðað eftir árum?
    Upplýsingar um afla fyrir 2019 eru ekki tiltækar, en fyrir árin 2012–2018 er skiptingin líkt og sýnt er í eftirfarandi töflu:

Ár Botnvarpa Dragnót Lína Annað
2012 30 0 2 4
2013 30 1 3 5
2014 32 4 6 4
2015 71 10 0,4 5
2016 107 4 0,3 8
2017 68 16 0 18
2018 114 16 0 3

     4.      Hefur verið gripið til einhverra annarra aðgerða en veiðibanns til að verja lúðustofninn?
    Frá árinu 1997 hefur Hafrannsóknastofnun lagt til að bein sókn í lúðu sé óheimil. Stofnunin hafði bent á að orðið hefði viðkomubrestur í lúðustofninum og að nýliðun væri lítil. Bein sókn á þeim tíma var ekki mikil en á árinu 2008 jókst sókn með haukalóðum verulega. Árið 2010 voru 46% lúðuaflans veidd á haukalóð. Í júní 2010 setti ráðherra á laggirnar starfshóp sem fjalla átti um stöðu lúðustofnsins, tillögur Hafrannsóknastofnunar og hvernig best væri að bregðast við þeim. Í niðurstöðum starfshópsins kom fram að erfitt væri að eiga við lúðuveiðar. Lokanir á ákveðnum svæðum hefðu því takmörkuð áhrif til verndunar stofnsins, en mögulega veruleg áhrif á aðrar veiðar. Einnig komu fram hugmyndir í þeirri skýrslu um að lúðu yrði sleppt, en slíkt gæti verið erfitt í framkvæmd varðandi eftirlit og litlar líkur á að stærri fiskur mundi lifa af slíka meðferð. Starfshópurinn komst að þeirri niðurstöðu að einfaldasta og áhrifaríkasta leiðin til að vernda lúðustofninn væri að banna beina sókn með haukalóðum þar sem það þótti sýnt að helst stórlúða úr hrygningarstofni veiddist með því veiðarfæri. Í samráði við Hafrannsóknastofnun, sem telur lífslíkur lífvænlegrar lúðu sem er sleppt á krókaveiðum umtalsverðar, var ákveðið árið 2012 að ganga lengra og banna allar lúðuveiðar. Auk þess var sjómönnum gert skylt að sleppa lífvænlegri lúðu, sbr. reglugerð nr. 1164/2011, um bann við veiðum á lúðu, og svo núgildandi reglugerð, nr. 470/2012, um veiðar á lúðu. Árið 2013 var svo ákveðið að heimila lúðu í VS-afla þannig að greiðsla upp á 20% fæst fyrir andvirði hennar til útgerðar og sjómanna. Var það hvati til að koma með hana að landi. Ekki hefur verið farið í aðrar aðgerðir til að vernda lúðustofninn og þá vísar Hafrannsóknastofnun enn til þess í ráðgjöf sinni að viðhalda beri núverandi banni við veiðum á lúðu.

     5.      Telja vísindamenn að þess sjáist merki að árangur hafi náðst í endurreisn lúðustofnsins eftir að veiðibann tók gildi 2012?
    Aldursgreindar vísitölur sýna að árgangar 1980–1985 voru stórir í samanburði við aðra árganga. Eftir það varð viðkomubrestur í stofninum og allir árgangar síðan litlir, að undanskildum árganginum frá 1990 (sjá mynd hér á eftir). Allir árgangar eftir 1990 hafa verið langt innan við helmingur af meðalstærð árganga fyrir þann tíma. Þrátt fyrir þetta má sjá að lífmassavísitala lúðu jókst hratt 2012–2015, en lífmassavísitalan er þó lág í sögulegu samhengi. Ástand lúðustofnsins hefur því batnað lítillega eftir að gripið var til aðgerða til verndar stofninum. Hins vegar ber þess að geta að sá hluti lúðustofnsins sem heldur sig uppi á landgrunninu er fyrst og fremst ung og ókynþroska lúða. Lúða verður kynþroska seint eða 9–10 ára og því verða áhrif bannsins lengi að koma fram.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


















     6.      Hvaða aðferðum er beitt til þess að fylgjast með og meta vöxt og viðgang lúðustofnsins?
    Ástand lúðustofnsins er vaktað í stofnmælingu botnfiska bæði að vori og hausti. Stofnmæling fer að mestu fram innan 500 m dýpis, en unglúðan heldur sig mest undir 250 m dýpi. Það er því einkum 3–6 ára lúða sem veiðist við þessar mælingar. Í stofnmælingu botnfiska að hausti er meira um stórlúðu þar sem togað er dýpra. Auk þessara tveggja leiðangra er nýliðun lúðu við landið (magn 2–4 ára lúðu) metin í flatfiskaralli sem hófst 2016. Í þeim leiðöngrum var einnig byrjað að merkja smálúður árið 2018. Sýnataka erfðasýna, með það að markmiði að nota skyldleikaútreikning til að meta stofnstærð lúðu við landið, hófst árið 2017. Sú vinna er mjög kostnaðarsöm, og veltur útkoma verkefnisins á því hvort utanaðkomandi styrkur fáist. Auk þessara verkefna er fylgst með skráningum á slepptum lúðum í afladagbókum og lönduðum lúðuafla.

     7.      Er það skráð í afladagbækur skipa eða með öðrum hætti þegar lúður veiðast og er sleppt aftur í hafið? Ef ekki, hvers vegna er það ekki gert?
    Já, það ber að skrá í afladagbók og er reit fyrir slíka skráningu að finna í rafrænu afladagbókinni frá 2017. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum skrá 27 fiskiskip reglulega lúðu sem þau veiða og sleppa.