Ferill 567. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1381  —  567. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur um ófrjósemisaðgerðir og þungunarrof.


     1.      Hversu oft hafa ófrjósemisaðgerðir verið framkvæmdar á grundvelli 22. gr. laga nr. 25/1975 samkvæmt umsókn sérstaklega skipaðs lögráðamanns?
    
Ráðuneytið aflaði upplýsinga frá embætti landlæknis vegna fyrirspurnarinnar. Þau svör sem ráðuneytinu bárust sýna fjölda umsókna undirritaðar af lögráðamanni sundurliðaðar eftir árum. Ekki er gerður greinarmunur á umsóknum undirrituðum af lögráðamanni skv. 18. gr. II og sérstaklega skipuðum lögráðamanni skv. 22. gr. laganna í eftirfarandi upplýsingum.

Umsókn um ófrjósemisaðgerð undirrituð af lögráðamanni.

Ár Karl Kona Samtals
2000 0
2001 1 1 2
2002 0
2003 1 1
2004 1 1
2005 1 2 3
2006 1 1
2007 1 1
2008 0
2009 0
2010 0
2011 0
2012 0
2013 2 2
2014 2 2
2015 1 1
2016 0
2017 1 1
Samtals 3 12 15

     2.      Hversu oft hefur þungunarrof verið framkvæmt á grundvelli 2. og 3. tölul. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 25/1975 samkvæmt umsókn lögráðamanns?
    Embætti landlæknis gat einungis veitt upplýsingar um hve oft umsókn um þungunarrof hefur verið undirrituð af lögráðamanni. Í eftirfarandi töflu er yfirlit yfir fjölda slíkra umsókna frá árinu 2004.

Umsókn um þungunarrof undirrituð af lögráðamanni.

2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016 2017
16 7 10 28 3 4 17 9 9 16 9 5 9 12

     3.      Hvernig er umsóknarferlið hjá lögráðamanni í framangreindum tilvikum? Er afstaða þeirra einstaklinga sem ætlað er að fari í aðgerðir á þessum grundvelli könnuð sérstaklega, t.d. af hálfu þar til bærra aðila?
    Ef lögráðamaður kemur að umsókn um fóstureyðingu skv. 2. og 3. tölul. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 25/1975 sækir hann um fyrir hönd konunnar á þar til gerðu eyðublaði sem landlæknir gefur út skv. 1. mgr. 13. gr. sömu laga.
    Þegar um ófrjósemisaðgerð er að ræða leggur sérstaklega skipaður lögráðamaður fram skriflega umsókn fyrir hönd viðkomandi á þar til gerðu eyðublaði sem embætti landlæknis annast útgáfu á, sbr. 19. gr. laga nr. 25/1975, en í framkvæmd er undirritun þess einstaklings sem gengst undir ófrjósemisaðgerðina sjálfa nær alltaf einnig til staðar, þrátt fyrir að sérstaklega skipaður lögráðamaður undirriti umsóknina.
    Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala hafa engar ófrjósemisaðgerðir verið gerðar á grundvelli 22. gr. laganna frá árinu 2016. Ein aðgerð var framkvæmd á Sjúkrahúsinu á Akureyri árið 2017. Á árunum 2013–2016 var verklagið þannig að forsjáraðilar einstaklings höfðu samband við Landspítala. Yfirlæknir kvensjúkdómadeildar átti í framhaldinu viðtal við forsjáraðila, og skjólstæðing ef mögulegt var, þar sem ræddir voru mögulegir valkostir, t.d. langtímagetnaðarvarnir, ásamt því að aðilar voru upplýstir um ferli umsóknar. Ef óskað var eftir ófrjósemisaðgerð sóttu félagsráðgjafi og yfirlæknir um hjá sýslumanni að sérstakur lögráðamaður yrði skipaður til að gæta hagsmuna einstaklingsins og viðkomandi sendi í framhaldinu umsókn ásamt greinargerð til kvennadeildar Landspítala. Með vísan til þess hversu viðkvæm mál af þessum toga eru þá var tekin ákvörðun um að vísa öllum málunum til úrskurðarnefndar um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir til umfjöllunar. Þegar ákvörðun lá fyrir um aðgerð var skjólstæðingur kallaður í aðgerð. Ef um stúlku undir 18 ára aldri var að ræða var hún innrituð á Barnaspítala Hringsins. Forsjáraðilar voru í öllum tilvikum viðstaddir.

     4.      Hefur lögræðissviptur einstaklingur tækifæri til að vísa umsókn lögráðamanns um aðgerð til landlæknis, sbr. 28. gr. laga nr. 25/1975?
    Samkvæmt 28. gr. er heimilt að vísa málum þar sem ágreiningur er um framkvæmd aðgerðar til landlæknis og skal hann leggja málið undir úrskurð nefndar. Ákvæði 28. gr. laga nr. 25/1975 útilokar því ekki að lögræðissviptur einstaklingur geti vísað umsókn um aðgerð til landlæknis.

     5.      Hefur heilbrigðisstarfsfólk þurft að beita þvingunum til þess að framkvæma ófrjósemisaðgerð eða þungunarrof?

    Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala eru þvinganir, líkamlegar eða andlegar af hálfu heilbrigðisstarfsfólks, aldrei viðhafðar á kvennadeild Landspítalans hvort sem um er að ræða fullorðinn einstakling, barn eða ungmenni með eða án greindarskerðingar.