Ferill 907. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 2085  —  907. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Rósu Björk Brynjólfsdóttur um Palestínu.


     1.      Hvers vegna sat Ísland hjá þegar mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun um að fylgja skyldi alþjóðlegum mannúðar- og mannréttindalögum á hernumdu svæðunum í Palestínu og réttað yfir þeim sem brytu þau?
    Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna fundar þrisvar sinnum á ári í föstum þriggja vikna fundalotum, í mars, júní og júlí og í september. Lýtur fyrirspurnin að afstöðu Íslands við afgreiðslu tiltekinnar ályktunar um málefni Palestínu sem lögð var fram í 40. fundalotu mannréttindaráðsins í mars í vetur.
    Alls voru lagðar fram 29 ályktanir í marslotu mannréttindaráðsins og tók Ísland fullan þátt í afgreiðslu þeirra sem fullgildur meðlimur í ráðinu 2018–2019. Fimm þeirra sneru að málefnum Palestínu en hefð hefur skapast fyrir því að ályktanir um málefni Palestínu séu lagðar fram einu sinni á ári í marslotu mannréttindaráðsins. Hér er spurt um afstöðu Íslands að þessu sinni til einnar þeirra, ályktunar sem fjallaði um mikilvægi þess að tryggt yrði að þeir sættu ábyrgð sem gerst hafa brotlegir við alþjóðalög í Palestínu.
    Afstaða Íslands varðandi þessa ályktun var hjáseta, enda vantaði mikið upp á jafnvægi í textanum, einkum er lýtur að ábyrgð Hamas-hryðjuverkasamtakanna, en þau eru raunar ekki nefnd á nafn í ályktuninni. Þessi afstaða Íslands var áréttuð í sérstakri atkvæðaskýringu og jafnframt áréttað að Ísland fordæmdi allt ofbeldi, hvaðan sem það á upptök sín.
    Í umræddri atkvæðaskýringu lýsti Ísland áhyggjum sínum af niðurstöðum skýrslu sérstakrar rannsóknarnefndar vegna aðgerða Ísraelshers vorið 2018 þegar tugir Palestínumanna féllu í aðgerðum hersins á landamærunum að Gaza í kjölfar mótmælaaðgerða þar. Enn fremur var lögð rík áhersla á að ísraelsk stjórnvöld yrðu, þegar öryggissveitir Ísraela bregðast við mótmælum eins og þeim sem urðu á Gaza í maí 2018, að virða þá meginreglu að mótaðgerðir séu í samræmi við tilefnið, sem og að beita ekki banvænu afli í aðgerðum sem beinast gegn óbreyttum borgurum.
    Hins vegar var því jafnframt lýst yfir í atkvæðaskýringunni að íslensk stjórnvöld hefðu viljað að umrædd ályktun léti sig varða ábyrgð allra aðila. Hvergi í ályktuninni væri vikið að ábyrgð Hamas-hryðjuverkasamtakanna sem hvöttu til ofbeldis af hálfu palestínskra þátttakenda í mótmælunum. Þá sagði einnig í atkvæðaskýringunni, sem fulltrúi Íslands flutti, að ályktunin tæki ekki tillit til þess að í skýrslunni, sem áður var vikið að, kemst rannsóknarnefnd Sameinuðu þjóðanna að þeirri niðurstöðu að Hamas, sem fer með stjórn á Gaza, gerði ekkert til að koma í veg fyrir slík tilfelli.
    Hjáseta Íslands í þessari atkvæðagreiðslu var í fullu samræmi við sjónarmið annarra líkt þenkjandi ríkja. Af evrópskum og öðrum vestrænum ríkjum, sem nú sitja í mannréttindaráðinu, greiddi aðeins Spánn atkvæði með ályktuninni. Bretland, Danmörk, Ítalía, Japan, Króatía og Slóvakía sátu hjá eins og Ísland. Austurríki, Ástralía, Búlgaría, Tékkland, Ungverjaland og Úkraína greiddu hins vegar atkvæði gegn henni.


     2.      Samræmist þessi hjáseta ályktun um viðurkenningu Íslands á Palestínu sem sjálfstæðu og fullvalda ríki innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið 1967?
    Hjáseta í atkvæðagreiðslu um umrædda ályktun hefur ekkert með afstöðu Íslands til sjálfsákvörðunarréttar Palestínumanna að gera.
    Eins og áður er sagt voru fimm ályktanir um málefni Palestínu og Ísraels bornar upp í 40. fundalotu mannréttindaráðsins, þar af ein sem tekur sérstaklega til sjálfsákvörðunarréttar Palestínumanna. Ísland greiddi atkvæði með samþykkt þeirrar ályktunar, líkt og jafnan er gert við afgreiðslu sambærilegrar ályktunar á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, enda hefur Ísland viðurkennt sjálfstæði Palestínu.

     3.      Er um stefnubreytingu af hálfu Íslands að ræða þegar kemur að málefnum Palestínu og hernumdu svæðanna?
    Líkt og rakið er í svari við 1. og 2. tölul. fyrirspurnarinnar fól afstaða Íslands til þeirrar ályktunar sem hér er spurt um ekki í sér neina stefnubreytingu af hálfu Íslands þegar kemur að málefnum Palestínu og hernumdu svæðanna.

    Alls fóru fjórar vinnustundir í að taka þetta svar saman.