Ferill 1002. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 2088  —  1002. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Karli Gauta Hjaltasyni um stjórnvaldssektir og dagsektir.


    Undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið heyra 14 stofnanir. Tvær af þeim stofnunum hafa lögum samkvæmt heimild til að leggja á dagsektir og/eða stjórnvaldssektir, þ.e. Umhverfisstofnun, sem hefur heimild til að leggja á stjórnvaldssektir og dagsektir, og Vatnajökulsþjóðgarður, sem hefur heimild til að leggja á dagsektir. Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga hafa einnig heimild til að leggja á dagsektir samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, og lög um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004. Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga eru hins vegar ekki stofnanir heldur á ábyrgð sveitarfélaga og hefur ráðuneytið ekki upplýsingar um álagningu og innheimtu heilbrigðisnefnda á dagsektum á grundvelli framangreindra laga. Samkvæmt upplýsingum frá Vatnajökulsþjóðgarði beitti stofnunin ekki umræddum heimildum til álagningar dagsekta á því tímabili sem fyrirspurnin lýtur að, þ.e. á árunum 2011–2018. Svar ráðuneytisins við fyrirspurninni byggist því á þeim upplýsingum sem aflað var hjá Umhverfisstofnun og Fjársýslu ríkisins sem sér um álagningu sekta fyrir Umhverfisstofnun. Ákvarðanir Umhverfisstofnunar um greiðslu dagsekta voru teknar á grundvelli laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, efnalaga, nr. 61/2013 og laga um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003.

     1.      Hver var fjöldi ákvarðana um stjórnvaldssektir annars vegar og dagsektir hins vegar í þeim stofnunum sem heyrðu undir ráðherra á árabilinu 2011–2018?
    Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun tók stofnunin enga ákvörðun um stjórnvaldssekt á umræddu tímabili. Svörin við fyrirspurninni veita því eingöngu upplýsingar um ákvarðanir Umhverfisstofnunar um greiðslu dagsekta á árunum 2011–2018. Á þessu tímabili voru teknar 19 ákvarðanir um greiðslu dagsekta af hálfu Umhverfisstofnunar.

     2.      Hversu margir voru þolendur ákvarðananna, skipt í einstaklinga og lögaðila?
    Fjöldi þolenda ákvarðana um greiðslu dagsekta voru 15 og voru þeir allir lögaðilar. Þrisvar voru teknar ákvarðanir um greiðslu dagsekta hjá aðilum sem áður höfðu verið þolendur slíkra ákvarðana. Í einu tilviki voru teknar tvær ákvarðanir um greiðslu dagsekta vegna sama þolanda, þ.e. vegna tveggja starfsstöðva hans.

     3.      Hver var upphæð sektanna í einstökum tilfellum og heildarupphæðir þeirra á hverju ári?
    Sjá upplýsingar í töflu:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     4.      Hversu margar þessara sekta voru innheimtar, hversu margar voru felldar niður eða lokið með öðrum hætti? Hversu mörgum þeirra var skotið til æðra stjórnvalds og hver voru afdrif málsins?
    Ein dagsekt var innheimt að fullu, átta dagsektir voru innheimtar að hluta og tíu dagsektir voru felldar niður eða lokið með öðrum hætti.
    Þremur ákvörðunum var skotið til æðra stjórnvalds. Tvær ákvarðanir um greiðslu dagsekta voru ógildar (sjá mál nr. 74/2015 hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála) og ein ákvörðun um greiðslu dagsektar var staðfest (sjá mál nr. 100/2015 hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála).