Ferill 329. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 373  —  329. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um Menntasjóð námsmanna.

Frá mennta- og menningarmálaráðherra.



I. KAFLI

Markmið og lánsréttur.

1. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til náms, án tillits til efnahags og stöðu að öðru leyti, með því að veita námsmönnum fjárhagslega aðstoð í formi námslána og styrkja.

2. gr.

Framfærslulán og skólagjaldalán.

    Námslán samkvæmt lögum þessum skiptast í framfærslulán, skólagjaldalán og eftir atvikum í lán skv. 3. gr. laganna.
    Miða skal við að framfærslulán nægi hverjum námsmanni til að standa straum af almennum framfærslukostnaði á Íslandi meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar námsmanns og búsetu. Mæla skal fyrir um staðaruppbót í úthlutunarreglum.
    Heimilt er að veita námslán vegna skólagjalda til skóla og náms sem er viðurkennt samkvæmt lögum þessum og er skipulagt sem a.m.k. 45 ECTS-eininga nám eða ígildi þeirra á hverju skólaári.
    Nánar skal mælt fyrir um framkvæmd þessa í úthlutunarreglum, þ.m.t. hámark skólagjaldalána, lágmarkssjálfsaflafé námsmanna og takmarkanir miðað við til dæmis sjálfsaflafé og námsframvindu námsmanns.

3. gr.

Önnur lán.

    Menntasjóði námsmanna er heimilt að veita námsmönnum, til viðbótar við lán skv. 2. gr. laganna, og að uppfylltum skilyrðum sem tilgreina skal í úthlutunarreglum, lán vegna:
     1.      búsetu hjá efnalitlum foreldrum,
     2.      maka,
     3.      röskunar á stöðu og högum námsmanns,
     4.      sjúkratrygginga,
     5.      ferðakostnaðar.
    Í úthlutunarreglum skal mæla fyrir um framkvæmd 1. mgr. Heimilt er að skilyrða réttinn til láns samkvæmt þessari grein, meðal annars með því að setja hámark á lánsupphæð, gera kröfu um tiltekna námsframvindu, óska eftir upplýsingum frá námsmönnum, mökum og foreldrum í samræmi við 12. gr. laga þessara eða takmarka upphæð lána vegna tekna foreldra og námsmanns.

4. gr.

Lánsréttur.

    Námsmenn hafa að jafnaði heimild til að taka námslán á hverri önn meðan þeir eru við nám og í réttu hlutfalli við námsframvindu.
    Lánsréttur námsmanns skal vera fyrir 420 ECTS-einingum eða ígildi þeirra. Heimilt er í úthlutunarreglum að skipta lánsrétti milli námsstiga.
    Heimilt er að veita námslán til doktorsnáms fyrir 60 ECTS-einingum.

II. KAFLI

Lánshæft nám.

5. gr.

Háskólanám.

    Námslán eru veitt til náms sem lýkur með prófgráðu á háskólastigi við viðurkennda háskóla á Íslandi.
    Veitt eru námslán til náms á háskólastigi við háskóla erlendis enda séu þeir viðurkenndir af menntamálayfirvöldum landsins og námi ljúki með prófgráðu á háskólastigi.
    Nám sem er skipulagt samhliða vinnu er ekki lánshæft til framfærslu hjá Menntasjóðnum.

6. gr.

Aðfaranám.

    Námslán eru veitt til aðfaranáms fyrir háskólanám sem nemur allt að 60 stöðluðum framhaldsskólaeiningum sé námið skipulagt af viðurkenndum háskóla og samþykkt af ráðherra, óháð því hvort námið fer fram innan háskóla eða innan viðurkennds skóla á framhaldsskólastigi á grundvelli samnings við viðurkenndan háskóla.
    Veitt eru námslán til aðfaranáms erlendis, enda séu skólar þeir sem bjóða upp á námið viðurkenndir af menntamálayfirvöldum landsins.
    Heimilt er að veita námslán vegna tungumálanáms sem telst nauðsynlegur undirbúningur undir lánshæft nám.
    Nám á framhaldsskólastigi sem leiðir til stúdentsprófs er ekki lánshæft hjá Menntasjóðnum.

7. gr.

Starfsnám og viðbótarnám við framhaldsskóla.

    Námslán eru veitt vegna starfsnáms á framhaldsskólastigi og vegna viðbótarnáms við framhaldsskóla, hafi námið hlotið staðfestingu ráðherra samkvæmt lögum um framhaldsskóla og uppfylli að auki eftirfarandi skilyrði:
     1.      námið hafi fengið samþykki frá viðkomandi starfsgreinaráði, ef við á,
     2.      námslok séu á a.m.k. þriðja hæfniþrepi,
     3.      sambærilegt nám sé almennt ekki í boði á háskólastigi hér á landi,
    Skilyrði er að skólinn hafi hlotið viðurkenningu ráðherra til kennslu á framhaldsskólastigi samkvæmt lögum um framhaldsskóla.
    Veita skal námslán til sambærilegs náms erlendis enda sé það viðurkennt af menntamálayfirvöldum landsins. Námslán samkvæmt þessari málsgrein skal að öðru leyti vera háð sömu skilyrðum og eiga við um námslán vegna náms skv. 1. mgr. eins og við á hverju sinni.

III. KAFLI

Réttur til námslána.

8. gr.

Almenn skilyrði.

    Rétt á námsaðstoð eiga þeir sem uppfylla eftirfarandi almenn skilyrði ásamt skilyrðum 9. eða 10. gr. eftir atvikum:
     1.      stunda lánshæft nám, sbr. II. kafla,
     2.      eru fjárráða,
     3.      uppfylla kröfur um lágmarks námsframvindu samkvæmt úthlutunarreglum,
     4.      eru ekki í vanskilum við Menntasjóðinn,
     5.      þiggja ekki námsaðstoð frá öðru ríki vegna lánshæfs náms,
     6.      uppfylla aðrar kröfur sem lög þessi gera til veitingar og endurgreiðslu námsaðstoðar.

9. gr.

Réttur til aðstoðar vegna náms á Íslandi.

    Rétt á námsaðstoð vegna náms á Íslandi á námsmaður sem uppfyllir almenn skilyrði 8. gr. ásamt því að uppfylla eitt eftirtalinna skilyrða:
     1.      er íslenskur ríkisborgari,
     2.      er ríkisborgari Danmerkur, Finnlands, Noregs eða Svíþjóðar,
     3.      er ríkisborgari EES- eða EFTA-ríkis auk þess að vera launþegi eða sjálfstætt starfandi á Íslandi og heldur áfram vinnu hér á landi meðan á námi stendur eða heldur stöðu sinni sem slíkur,
     4.      er aðstandandi ríkisborgara skv. 3. tölul.,
     5.      er ríkisborgari EES- eða EFTA-ríkis og hefur öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar hérlendis,
     6.      er aðstandandi ríkisborgara skv. 5. tölul.,
     7.      er erlendur ríkisborgari og er í hjúskap eða hefur um tveggja ára skeið verið í skráðri sambúð með íslenskum ríkisborgara og hefur átt lögheimili á Íslandi að lágmarki tvö ár af síðastliðnum fimm árum áður en nám hefst,
     8.      hefur dvalarleyfi hér á landi sem flóttamaður,
     9.      hefur ótímabundið dvalarleyfi hér á landi.
    Heimilt er í úthlutunarreglum að mæla nánar fyrir um skilyrði fyrir aðstoð vegna náms á Íslandi, t.d. lágmarksvinnuframlag til að teljast launþegi eða sjálfstætt starfandi skv. 3. tölul. 1. mgr.

10. gr.

Réttur til aðstoðar vegna náms erlendis.

    Rétt á námsaðstoð vegna náms erlendis á námsmaður sem uppfyllir almenn skilyrði 8. gr. og eitthvert skilyrða 1. mgr. 9. gr. ásamt því að uppfylla eftirtalin skilyrði:
     1.      hefur búið á Íslandi í að lágmarki tvö ár af síðastliðnum fimm árum áður en nám hefst,
     2.      hefur sterk tengsl við íslenskt samfélag að mati Menntasjóðsins.
    Við mat á tengslum við íslenskt samfélag skal meðal annars líta til ríkisborgararéttar, tíma sem námsmaður hefur búið eða starfað hér á landi og fjölskyldutengsla á Íslandi.
    Námsmenn sem uppfylla eitt af skilyrðum 3.–6. tölul. 1. mgr. 9. gr. eru undanþegnir skilyrði 1. tölul. 1. mgr. um búsetu á Íslandi vegna náms innan EES- eða EFTA-ríkis.
    Heimilt er í úthlutunarreglum að mæla nánar fyrir um skilyrði fyrir aðstoð vegna náms erlendis, þ.m.t. hvernig skuli meta tengsl við íslenskt samfélag.

IV. KAFLI

Umsókn, upplýsingagjöf og námsframvinda.

11. gr.

Umsókn, samtímagreiðslur og ábyrgðarmenn.

    Námsmaður skal sækja um námslán innan umsóknarfrests sem kveðið er á um í úthlutunarreglum. Í umsókn skal tilgreint hvers konar námslán sótt er um og hvort óskað sé eftir fullu láni samkvæmt úthlutunarreglum eða lægri fjárhæð.
    Námsmenn sem fá námslán úr Menntasjóðnum skulu undirrita skuldabréf við lántöku teljist þeir tryggir lánþegar samkvæmt úthlutunarreglum.
    Þeir sem teljast ekki tryggir lánþegar geta lagt fram ábyrgðir sem Menntasjóðurinn telur viðunandi. Ábyrgðir geta meðal annars verið fasteignaveð, ábyrgðaryfirlýsing fjármálastofnunar eða yfirlýsing ábyrgðarmanns um sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu námsláns með sömu skilmálum og lán lánþega er með, allt að tiltekinni fjárhæð.
    Menntasjóðnum er heimilt að veita námslán allt að hámarksfjárhæð samkvæmt úthlutunarreglum eða að þeirri fjárhæð sem ábyrgð hefur verið veitt fyrir skv. 3. mgr.
    Sjóðstjórn ákveður hvaða skilyrðum ábyrgðarmenn skuli fullnægja. Ábyrgð ábyrgðarmanns, eins eða fleiri, getur fallið niður enda setji námsmaður aðra tryggingu sem stjórn sjóðsins metur fullnægjandi. Ábyrgð ábyrgðarmanns fellur niður við andlát hans enda sé lánþegi í skilum við Menntasjóðinn.
    Lánþegar geta valið um hvort námslán þeirra séu greidd út mánaðarlega eða í lok hverrar annar.

12. gr.

Upplýsingagjöf.

    Umsækjendur um námslán skulu láta fylgja umsókn sinni allar þær upplýsingar sem sjóðstjórn telur máli skipta við ákvörðun um veitingu námsláns, svo sem upplýsingar um nám, tekjur, hjúskaparstöðu og búsetuform.
    Innlendum skólum sem lög þessi taka til er skylt að láta Menntasjóðnum í té nauðsynlega aðstoð við framkvæmd laganna, þar á meðal upplýsingar um framvindu náms lánþega.
    Ríkisskattstjóra er skylt að láta Menntasjóðnum eða innheimtuaðila námslána í té upplýsingar um lánþega sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laga þessara, þar á meðal upplýsingar um tekjur lánþega og tekjur maka og foreldra lánþega þegar við á.
    Menntasjóðurinn skal upplýsa umsækjendur og aðra hlutaðeigandi aðila um heimildir Menntasjóðsins eða innheimtuaðila námslána til vinnslu persónuupplýsinga. Skal þar koma fram frá hverjum aflað er upplýsinga, um hvaða upplýsingar er að ræða og í hvaða tilgangi unnið er með þær. Við meðferð persónuupplýsinga sem aflað er vegna umsóknar um námslán eða umsóknar um frestun endurgreiðslu skv. 24. gr., eða vegna framkvæmdar laganna að öðru leyti, skal Menntasjóðurinn gæta þess að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglur sem settar hafa verið á grundvelli þeirra.

13. gr.

Námsframvinda.

    Lánþegi skal uppfylla kröfur um lágmarks námsframvindu. Í úthlutunarreglum skal mælt fyrir um hvað teljist full námsframvinda og hvað teljist lágmarks námsframvinda til þess að fá námslán. Ekki má gera meiri kröfur í úthlutunarreglum um lágmarks námsframvindu en 73% eða um 44 ECTS-einingar eða ígildi þeirra á ári. Fjárhæð námsláns lækkar í réttu hlutfalli við námsframvindu.
    Veita má undanþágu frá kröfum um lágmarks námsframvindu sé lánþega það vandkvæðum bundið að mati sjóðstjórnar að stunda nám skv. 1. mgr. vegna örorku, lesblindu, sértækra námsörðugleika, alvarlegra veikinda, barneigna eða vegna þess að tímabundið stendur ekki til boða fullt nám samkvæmt skipulagi skóla eða af öðrum sambærilegum ástæðum. Heimilt er í úthlutunarreglum að mæla nánar fyrir um framkvæmd þessa og setja skilyrði meðal annars um lágmarks örorku.

V. KAFLI

Fyrirkomulag námsstyrks.

14. gr.

Niðurfelling á hluta námslána við námslok.

    Lánþegar sem stunda nám sem telst lánshæft skv. II. kafla ávinna sér námsstyrk ljúki þeir prófgráðu á þeim tíma sem skipulag námsins gerir ráð fyrir. Námsstyrkur myndast einungis vegna náms sem er skipulagt í að minnsta kosti tvær annir og 60 ECTS-einingar eða ígildi þeirra.
    Námsstyrkur skal nema 30% niðurfærslu af höfuðstól námslánsins ásamt verðbótum að námi loknu.
    Lánþegar skulu hafa ákveðið svigrúm til seinkunar í námi án þess að réttur þeirra til námsstyrks skv. 1. mgr. skerðist. Svigrúm vegna seinkunar er eftirfarandi:
     1.      Eitt ár umfram þann tíma sem skipulag iðn-, starfs- og aðfaranáms kveður á um.
     2.      Eitt ár umfram þann tíma sem skipulag grunn- og framhaldsnáms kveður á um.
     3.      Sex mánuðir umfram þann tíma sem skipulag diplómanáms kveður á um.
     4.      Tvö ár umfram þann tíma sem skipulag doktorsnáms kveður á um.
    Skilgreindar undanþágur frá kröfum um námsframvindu skv. 2. mgr. 13. gr. teljast ekki til seinkunar samkvæmt þessari grein.

15. gr.

Styrkur vegna framfærslu barna.

    Lánþegi sem þiggur námslán samkvæmt lögum þessum skal fá styrk til framfærslu barns sem nemur einföldum barnalífeyri á mánuði að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
     1.      Lánþegi uppfyllir lágmarks námsframvindukröfur skv. 13. gr. eða fellur undir undanþágur skv. 2. mgr. 13. gr.
     2.      Barn er með lögheimili hjá lánþega eða lánþegi er meðlagsskyldur.
    Styrkur hvers lánþega vegna framfærslu barns er veittur í samræmi við lánsrétt lánþega og eingöngu í þeim mánuðum sem nám er stundað.
    Uppfylli lánþegi ekki kröfur þessarar greinar er sjóðstjórn heimilt að breyta veittum styrk í lán með þeim skilmálum sem mælt er fyrir um í 17. og 20. gr.

VI. KAFLI

Lánakjör, endurgreiðslur námslána, vanskil og fyrningarfrestur.

16. gr.

Almenn lánakjör.

    Námslán skulu vera verðtryggð en safna ekki vöxtum meðan á námi stendur. Vextir reiknast frá námslokum.
    Endurgreiðslur sem falla í gjalddaga eftir að lánþegi andast falla sjálfkrafa niður.
    Lánþegar geta við námslok valið um hvort þeir breyti láni sínu í óverðtryggt lán.
    Sjóðstjórn skilgreinir hvað telja beri námslok samkvæmt lögum þessum og úrskurðar um vafatilfelli. Ákvarðanir sjóðstjórnar eru kæranlegar til málskotsnefndar skv. 33. gr.

17. gr.

Verðtryggð lán.

    Vextir af verðtryggðum lánum skulu vera breytilegir og byggja á vaxtakjörum sem ríkissjóði bjóðast á markaði að viðbættu föstu vaxtaálagi sem tekur mið af væntum afföllum af endurgreiðslu námslána.
    Vaxtaálag skal ákveðið og birt í úthlutunarreglum hvers árs. Sjóðstjórn er heimilt að leita til óháðra aðila sem geri tillögur um vaxtaálag.
    Fari verðtryggðir vextir ásamt föstu vaxtaálagi yfir 4% skal þriggja manna nefnd fara yfir ástæður þess og leggja til við ráðherra mögulegar útfærslur á breytingum. Ráðherra skipar nefndina þannig: einn samkvæmt tilnefningu forsætisráðherra, einn samkvæmt tilnefningu Seðlabanka Íslands og einn án tilnefningar sem skal vera formaður nefndarinnar.

18. gr.

Óverðtryggð lán.

    Vextir af óverðtryggðum lánum skulu vera breytilegir og byggja á vaxtakjörum sem ríkissjóði bjóðast á markaði að viðbættu föstu vaxtaálagi sem tekur mið af væntum afföllum af endurgreiðslu námslána.
    Vaxtaálag skal ákveðið og birt í úthlutunarreglum hvers árs. Sjóðstjórn er heimilt að leita til óháðra aðila sem geri tillögur um vaxtaálag.
    Fari óverðtryggðir vextir ásamt föstu vaxtaálagi yfir 9% skal nefndin skv. 3. mgr. 17. gr. fara yfir ástæður þess og leggja til við ráðherra mögulegar útfærslur á breytingum.

19. gr.

Almennt um endurgreiðslur námslána.

    Endurgreiðslur námslána hefjast einu ári eftir námslok. Námslok samkvæmt þessari grein teljast frá þeim tíma þegar lánþegi hættir að þiggja námslán frá Menntasjóðnum. Stjórn sjóðsins tekur ákvarðanir í vafatilfellum.
    Lánþegi getur sótt um að fresta námslokum skv. 1. mgr. í allt að fjögur ár ef lánþegi heldur áfram lánshæfu námi samkvæmt lögum þessum og þiggur ekki námslán á sama tíma.
    Endurgreiðslur námslána skulu greiddar mánaðarlega fyrsta dag hvers mánaðar. Heimilt er að innheimta í einu lagi á hverjum gjalddaga endurgreiðslur vegna allra sambærilegra skuldabréfa lánþega.
    Lánþega er heimilt að greiða lán hraðar en mælt er fyrir um í lögum þessum án aukins kostnaðar.
    Lánþega ber að greiða kostnað sem hlýst af innheimtu hverrar greiðslu og ofgreiðslu skv. 25. gr.

20. gr.

Endurgreiðslutími námslána háður lántökufjárhæð.

    Endurgreiðslutími námslána er háður lántökufjárhæð en þó skulu námslán almennt vera að fullu greidd á því ári þegar lánþegi nær 65 ára aldri. Endurgreiðslutími skal ákveðinn í úthlutunarreglum.
    Námslán skulu endurgreidd sem jafngreiðslulán með breytilegum vöxtum með mánaðarlegum endurgreiðslum, fyrsta dag hvers mánaðar.
    Hafi námslán ekki verið að fullu greidd á því ári er lánþegi nær 66 ára aldri hefur sjóðstjórn heimild til að gjaldfella lánin.

21. gr.

Tekjutengd endurgreiðsla námslána.

    Lánþegi getur valið að endurgreiða námslán með tekjutengingu séu námslok áður eða á því ári er 35 ára aldri er náð.
    Taki lánþegar fleiri námslán hjá Menntasjóðnum eftir 35 ára aldur eða lýkur námi eftir þann aldur geta þeir valið að skuldbreyta öllum námslánum sínum í samræmi við 20. gr. eða greiða samtímis af þeim öllum.
    Lánstími námsláns er ótilgreindur en greitt skal af námsláni þar til skuldin er að fullu greidd þegar lánþegi velur tekjutengda endurgreiðslu skv. 1. mgr.
    Tekjutengd endurgreiðsla ákvarðast í tvennu lagi. Annars vegar er föst afborgun sem innheimt er mánaðarlega, óháð tekjum, og hins vegar tekjutengd afborgun sem einnig er innheimt mánaðarlega og er háð tekjum síðustu tveggja ára.
    Föst afborgun er 10.000 kr., bundin vísitölu neysluverðs með grunnvísitöluna 470,5 stig. Fasta afborgunin breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölunni frá grunnvísitölu til fyrstu endurgreiðslu og síðan í hlutfalli við breytingar á vísitölunni milli endurgreiðslna. Föst afborgun skal greidd mánaðarlega fyrsta dag hvers mánaðar.
    Mánaðarleg tekjutengd afborgun er 0,3125% af tekjustofni lánþega. Fyrstu átta mánuði endurgreiðsluársins er miðað við tekjustofn lánþega tveimur árum á undan endurgreiðsluári, en síðustu fjóra mánuði endurgreiðsluársins er miðað við tekjustofn lánþega ársins á undan endurgreiðsluári. Tekjutengd afborgun skal greidd mánaðarlega fyrsta dag hvers mánaðar. Frá tekjutengdri afborgun samkvæmt þessari málsgrein dregst föst afborgun skv. 5. mgr.

22. gr.

Tekjur.

    Með tekjustofni í lögum þessum er átt við allar skattskyldar tekjur lánþega og launatekjur sem greiddar eru embættismönnum, fulltrúum og öðrum starfsmönnum sem starfa hjá alþjóðastofnunum eða ríkjasamtökum, samkvæmt lögum um tekjuskatt.
    Velji lánþegi að endurgreiða námslán í samræmi við 21. gr. og lánþegi er ekki skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum og eignum skal lánþegi skila inn staðfestum upplýsingum um tekjur erlendis innan árs frá námslokum og a.m.k. árlega eftir það. Geri lánþegi það ekki eða upplýsingar lánþega eru taldar ósennilegar að mati sjóðstjórnar og ekki unnt að sannreyna tekjustofn er sjóðstjórn heimilt að skuldbreyta láni lánþega á þann hátt að endurgreiðslu sé hagað í samræmi við 20. gr., að undangenginni viðvörun um skuldbreytingu.
    Heimilt er í úthlutunarreglum að mæla nánar fyrir um framkvæmd 2. mgr., meðal annars með því að setja skilyrði um frest til að skila inn gögnum.

23. gr.

Frestun á endurgreiðslu.

    Sjóðstjórn er heimilt að veita frestun á mánaðarlegum endurgreiðslum skv. 20. gr., eða tekjutengdri afborgun skv. 6. mgr. 21. gr., að hluta eða öllu leyti í allt að eitt ár í senn ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum lánþega á endurgreiðslutíma námslána eða á meðan á námstíma stendur, t.d. ef lánþegi veikist alvarlega, verður fyrir slysi sem skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna, eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans.
    Sömu heimild til að veita frestun á tekjutengdri afborgun skv. 6. mgr. 21. gr. hefur sjóðstjórn ef skyndileg og veruleg breyting hefur orðið á högum lánþega þannig að tekjustofn vegna tekna á fyrri árum gefur ekki rétta mynd af fjárhag lánþega á endurgreiðsluárinu.
    Lánþegi sem sækir um frestun samkvæmt þessari grein skal leggja sjóðstjórn til þær upplýsingar er stjórnin telur skipta máli. Umsóknin skal berast Menntasjóðnum eigi síðar en 30 dögum eftir gjalddaga afborgunar. Umsókn um undanþágu skv. 1. og 2. mgr. frestar innheimtu þeirrar afborgunar sem umsóknin snýr að.

24. gr.

Vanskil.

    Verði veruleg vanskil á endurgreiðslu námsláns er sjóðstjórn heimilt að fella allt lánið í gjalddaga.
    Gjaldfallnar endurgreiðslur eru aðfararhæfar án undangengins dóms eða sáttar ef um vanskil er að ræða. Sama gildir um eftirstöðvar skuldar sem felld hefur verið í gjalddaga.

25. gr.

Endurgreiðsla ofgreiddra fjárhæða.

    Ef lánþegi fær afgreitt lán án þess að hafa uppfyllt skilyrði sjóðsins eða fær greitt hærra lán en hann átti rétt á, svo sem vegna vanáætlaðra tekna, fyrirframgreiddra skólagjaldalána eða ef skilyrði um námsframvindu eru ekki uppfyllt, ber að endurgreiða lánið með verðbótum frá útborgunardegi.
    Hafi lánþegi sótt um námslán á næstu námsönn á eftir þeirri sem ofgreiðslan tilheyrði er Menntasjóðnum heimilt að skuldajafna skuld vegna ofgreiðslu við óafgreitt námslán sem lánþegi á von á.
    Sé skuldajöfnun skv. 2. mgr. ekki tæk hefur lánþegi val um að staðgreiða ofgreiðsluna eða samþykkja sérstakt endurgreiðsluskuldabréf sem er óverðtryggt og ber vexti í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands um almenna vexti af óverðtryggðum lánum. Skal greiðslutími að meginreglu til ekki vera lengri en 18 mánuðir.

26. gr.

Fyrningarfrestur.

    Um fyrningarfrest kröfu vegna námslána fer eftir ákvæðum laga um fyrningu kröfuréttinda.
    Ákvæði laga um gjaldþrotaskipti um lengd fyrningarfrests og sérreglur þeirra um slit fyrningar gilda ekki um námslán.

VII. KAFLI

Sértækar aðgerðir.

27. gr.

Sérstök ívilnun námsgreina.

    Ráðherra er heimilt með auglýsingu að ákveða sérstaka tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána vegna tiltekinna námsgreina.
    Skilyrði fyrir ívilnunum skv. 1. mgr. eru að:
     1.      upplýsingar liggi fyrir um viðvarandi skort í starfsstétt eða að skortur sé fyrirsjáanlegur,
     2.      fyrir liggi skýrsla unnin af stjórnvöldum í samráði við hlutaðeigandi atvinnurekendur um mikilvægi þess að bregðast við aðstæðum skv. 1. tölul.,
     3.      ívilnun leiði til þess að þeir sem ljúki prófgráðu í námsgreininni nýti hana til starfa í starfsstétt skv. 1. tölul. og
     4.      fjármagn sé aukið til Menntasjóðsins til að standa undir ívilnuninni.

28. gr.

Sérstök ívilnun vegna námsgreina á sérstökum svæðum.

    Ráðherra er heimilt með auglýsingu að ákveða sérstaka tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána til lánþega sem búsett eru á svæðum skilgreindum í samráði við Byggðastofnun.
    Skilyrði fyrir ívilnunum skv. 1. mgr. eru að:
     1.      fyrir liggi tillaga frá sveitarfélagi eða sveitarfélögum til stjórnvalda um þörf á menntuðu fólki í byggð sinni,
     2.      fyrir liggi skýrsla unnin af Byggðastofnun í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga um mikilvægi þess að bregðast við aðstæðum skv. 1. tölul.,
     3.      lánþegi hafi lokið prófgráðu og sé búsettur á skilgreindu svæði og nýti menntun sína þar að lágmarki í 50% starfshlutfalli í a.m.k. tvö ár og
     4.      fjármagn sé aukið til Menntasjóðsins til að standa undir ívilnuninni.

VIII. KAFLI

Menntasjóður námsmanna. Málskotsnefnd.

29. gr.

Hlutverk og helstu verkefni.

    Hlutverk Menntasjóðs námsmanna er að vera félagslegur jöfnunarsjóður sem veitir námsaðstoð í formi námsstyrkja og námslána.
    Helstu verkefni Menntasjóðsins eru:
     1.      að veita námsmönnum námsstyrki,
     2.      að veita námsmönnum námslán og annast innheimtu þeirra,
     3.      að annast gagnasöfnun varðandi þörf námsmanna á námslánum,
     4.      að afla upplýsinga um námsskipan og námstíma þeirra skóla þar sem lánshæft nám er stundað,
     5.      að hafa eftirlit með árangri og ástundun námsmanna,
     6.      að annast útgáfustarfsemi og aðra kynningu á starfsemi sjóðsins.

30. gr.

Sjóðstjórn.

    Ráðherra skipar sjóðstjórn Menntasjóðsins, þrjá samkvæmt tilnefningu Landssamtaka íslenskra stúdenta, einn samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra framhaldsskólanema, einn samkvæmt tilnefningu Bandalags háskólamanna, einn samkvæmt tilnefningu ráðherra sem fer með fjárreiður ríkisins og fjóra án tilnefningar og skal einn þeirra vera formaður sjóðstjórnar og annar varaformaður.
    Stjórnin skal skipuð til tveggja ára í senn. Skipunartími fulltrúa ráðherra og ráðherra er fer með fjárreiður ríkisins skal þó takmarkaður við embættistíma þeirra ráðherra sem skipuðu þá eða tilnefndu, sitji þeir skemur. Varamenn í stjórn sjóðsins skulu skipaðir með sama hætti og til jafn langs tíma.
    Verði atkvæði jöfn við afgreiðslu mála í stjórn sjóðsins sker atkvæði formanns úr.
    Helstu verkefni sjóðstjórnar Menntasjóðsins eru:
     1.      að móta áherslur í starfi Menntasjóðsins ásamt framkvæmdastjóra,
     2.      að hafa eftirlit með starfsemi og fjárreiðum Menntasjóðsins,
     3.      að gera tillögur til ráðherra að úthlutunarreglum, sbr. 36. gr.,
     4.      að skera úr vafamálum er varða einstaka lánþega og öðrum málum.
    Ákvörðunum sjóðstjórnar varðandi málefni einstakra lánþega, umsækjenda og ábyrgðarmanna má vísa til málskotsnefndar, sbr. 32. gr., innan þriggja mánaða frá tilkynningu um ákvörðun.
    Sjóðstjórn er heimilt að skipa undirnefndir úr hópi stjórnarmanna, meðal annars til að fjalla um einstök mál og gera tillögur fyrir sjóðstjórn.
    Sjóðstjórn er heimilt að fela bankastofnunum, embættum sýslumanna eða embætti ríkisskattstjóra útborgun lána, innheimtu og aðra daglega afgreiðslu.

31. gr.

Framkvæmdastjóri.

    Ráðherra skipar framkvæmdastjóra til fimm ára í senn að fengnum tillögum sjóðstjórnar. Framkvæmdastjóri ræður annað starfsfólk Menntasjóðsins. Framkvæmdastjóri stýrir daglegum rekstri Menntasjóðsins, sér um fjárreiður, reikningsskil og gerð fjárhagsáætlana og ber ábyrgð á að Menntasjóðurinn starfi í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma Menntasjóðsins sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir hans séu nýttir með réttum hætti. Framkvæmdastjóri framfylgir ákvörðunum sjóðstjórnar.

32. gr.

Málskotsnefnd.

    Ráðherra skipar málskotsnefnd þriggja manna og jafnmarga til vara til fjögurra ára í senn og skulu nefndarmenn vera lögfræðingar að mennt. Formaður nefndarinnar og varamaður formanns skulu fullnægja skilyrðum til að hljóta skipun í embætti héraðsdómara.
    Nefndin sker úr um hvort ákvarðanir sjóðstjórnar séu í samræmi við ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæla. Nefndin getur staðfest, breytt eða fellt úr gildi ákvarðanir hennar. Úrskurður nefndarinnar skal vera rökstuddur og verður honum ekki skotið til annarra stjórnvalda. Afl atkvæða ræður niðurstöðu nefndarinnar.
    Að kröfu sjóðstjórnar fyrir hönd Menntasjóðsins getur nefndin frestað réttaráhrifum úrskurðar síns telji hún að hann muni hafa í för með sér veruleg fjárhagsleg áhrif á Menntasjóðinn. Krafa þess efnis skal gerð eigi síðar en 10 dögum frá birtingu úrskurðar. Skal frestun á réttaráhrifum úrskurðar að auki vera bundin því skilyrði að sjóðstjórnin beri málið undir dómstóla innan 30 daga frá frestun og óski þá eftir að það hljóti flýtimeðferð. Frestun réttaráhrifa úrskurðar fellur úr gildi ef mál er ekki höfðað innan 30 daga frestsins. Þegar mál er höfðað vegna úrskurðar málskotsnefndar er henni heimilt að fresta afgreiðslu sambærilegra mála sem til meðferðar eru hjá nefndinni þar til dómur gengur.
    Nefndin hefur heimild til, að fengnu samþykki ráðherra, að ráða nefndinni starfslið eða að fela sjálfstætt starfandi aðila að sjá um skrifstofuhald fyrir nefndina. Ráðherra ákveður þóknun nefndarmanna.
    Um málsmeðferð að öðru leyti fer eftir stjórnsýslulögum.

33. gr.

Þagnarskylda.

    Starfsmenn Menntasjóðsins, stjórnarmenn, verktakar og sérfræðingar sem starfa á vegum sjóðsins eru bundnir þagnarskyldu skv. X. kafla stjórnsýslulaga.

IX. KAFLI

Fjármögnun, rekstur o.fl.

34. gr.

Fjármögnun Menntasjóðsins.

    Menntasjóðnum er heimilt að taka lán frá Endurlánum ríkissjóðs til að fjármagna lán til lánþega. Menntasjóðnum er þó ekki heimilt að taka lán með útgáfu og sölu á skuldabréfum né öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings.
    Menntasjóðnum er heimilt að greiða inn á lán frá Endurlánum ríkissjóðs án viðbótarkostnaðar.
    Menntasjóðurinn fær framlög til umsýslu og reksturs frá ríkinu. Ríkið leggur jafnframt til fjárframlag vegna styrkgreiðslu til framfærslu barna, niðurfellingu á námslánum og ívilnana.
    Sjóðstjórn skal árlega yfirfara og samþykkja fjárhagsáætlanir fyrir sjóðinn á næsta almanaksári með sama hætti og aðrar ríkisstofnanir.
    Ársreikningar Menntasjóðsins skulu samþykktir af sjóðstjórn og endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun. Þeir skulu birtir í Stjórnartíðindum.

35. gr.

Staðgreiðsla og félagsgjöld.

    Námsaðstoð frá Menntasjóðnum er framtalsskyld en telst ekki til skattskyldra tekna við ákvörðun tekjuskatts.
    Menntasjóðnum er skylt að veita reglulega upplýsingar til skattayfirvalda, vegna 14., 15., 27., og 28. gr., en þá í samræmi við 12. gr. laga þessara.
    Sjóðstjórn er heimilt, ef hagsmunasamtök námsmanna óska eftir, að draga félagsgjald frá námsláni enda komi ósk lánþega þar að lútandi fram á umsókn hans um námslán.

36. gr.

Úthlutunarreglur.

    Ráðherra setur úthlutunarreglur um útfærslu og framkvæmd laga þessara, þ.m.t. fjárhæð og úthlutun námslána, sem og kröfur um lágmarks námsframvindu, að fengnum tillögum sjóðstjórnar, eigi síðar en 1. apríl ár hvert. Þær skulu birtar í Stjórnartíðindum.

X. KAFLI

Gildistaka.

37. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda 1. júlí 2020. Á sama tíma falla brott lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

    Lánþegar sem eru í námi sem er lánshæft samkvæmt lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, við það tímamark er lögin koma til framkvæmda skulu halda rétti sínum. Skilyrði er að námslán hafi verið veitt lánþega á tímabilinu 1. janúar 2019 þar til lög þessi koma til framkvæmda. Réttur fellur niður sjö árum eftir gildistöku þessara laga.
    Lánsréttur lánþega samkvæmt eldri lögum dregst frá lánsrétti samkvæmt lögum þessum.

II.

    Ábyrgð ábyrgðarmanns á námslánum teknum í tíð eldri laga skal falla niður við gildistöku laga þessara, enda sé lánþegi í skilum við Lánasjóð íslenskra námsmanna og ekki á vanskilaskrá. Sama gildir um ábyrgðir á námslánum sem eru í óskiptum dánarbúum.
    Ábyrgð ábyrgðarmanns á námslánum teknum í tíð eldri laga fellur niður við andlát hans enda sé lánþegi í skilum við Lánasjóð íslenskra námsmanna.
    Lánþegi þarf í tilvikum 1. og 2. mgr. ekki að fá annan ábyrgðarmann nema lánþegi teljist ekki tryggur samkvæmt úthlutunarreglum.

III.

    Lánþegar sem velja endurgreiðslu skv. 21. gr. laganna og eru jafnframt að endurgreiða námslán samkvæmt eldri lögum geta óskað eftir að haga endurgreiðslu með þeim hætti að þeir endurgreiði fyrst námslán samkvæmt lögum þessum. Á næsta almanaksári eftir að endurgreiðslu samkvæmt lögum þessum lýkur eða á að vera lokið skulu lánþegar hefja endurgreiðslu samkvæmt eldri lögum. Greiðslur samkvæmt eldri lögum frestast því þar til lán samkvæmt lögum þessum eiga að vera fullu greidd. Eldri námslán bera vexti þrátt fyrir frestun á endurgreiðslu samkvæmt þessari grein. Sé ábyrgðarmaður á einhverju námslánanna verður að afla samþykkis hans.

IV.

    Þeir sem skulda námslán við gildistöku laga þessara og taka námslán að nýju geta óskað eftir því að breyta eldri námslánum sínum til samræmis við ákvæði laga þessara um lánakjör og endurgreiðslur. Skilyrði slíkrar skuldbreytingar er að endurgreiðslur námslánanna séu sambærilegar, umsækjandi sé ekki í vanskilum með námslán sín og að slík umsókn berist Menntasjóðnum fyrir 1. desember 2020. Sé ábyrgðarmaður á einhverju námslánanna verður að afla samþykkis hans.
    Ákvæði V. kafla laga þessara taka ekki til námslána sem tekin eru í tíð eldri laga. Nánar skal mæla fyrir um framkvæmd þessa í úthlutunarreglum.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Hinn 20. desember 2018 skipaði mennta- og menningarmálaráðherra starfshóp um lánakjör Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN). Í starfshópinn voru skipuð Björgvin Sighvatsson og Hafsteinn Hafsteinsson, tilnefndir af Seðlabanka Íslands, Haraldur Guðni Eiðsson, tilnefndur af forsætisráðuneytinu, og Agnes Guðjónsdóttir, án tilnefningar, sem jafnframt var formaður starfshópsins. Starfshópurinn lagði til breytingar á íslenska námslánakerfinu miðað við fyrirliggjandi upplýsingar, fagþekkingu sína og í samræmi við helstu áherslur ráðherra. Frumvarpið var samið í mennta- og menningarmálaráðuneyti út frá tillögum starfshópsins og í samráði við hann. Ráðuneytið naut liðsinnis Jóhönnu Sifjar Finnsdóttur, Karenar Ýrar Friðjónsdóttur, Sigmars Arons Ómarssonar og Sigurveigar Þórhallsdóttur, meistaranema í lögfræði við Háskóla Íslands, við að leggja fram tillögur að útfærslum á nokkrum ákvæðum og skrifum við greinargerðina.
    Sérstakt samráð var haft við námsmenn með þeim hætti að forsvarsmenn þeirra í Landssamtökum íslenskra stúdenta fengu reglulega kynningu á framvindu verkefnisins og lögðu fram athugasemdir við útfærslu starfshópsins á nýju námsaðstoðarkerfi.
    Á undanförnum árum hafa verið lögð fram tvö frumvörp til heildarlaga um Lánasjóð íslenskra námsmanna, annars vegar á 141. löggjafarþingi, vorið 2013, og hins vegar á 145. löggjafarþingi, vorið 2016. Við gerð þessa frumvarps voru athugasemdir sem bárust við bæði frumvörpin hafðar til hliðsjónar. Leitast var við að koma til móts við þau sjónarmið.
    Verði frumvarpið að lögum mun það leysa af hólmi lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur starfað í yfir fimmtíu og átta ár. Lög um sjóðinn voru samþykkt á Alþingi hinn 20. mars 1961 en rekja má sögu opinberrar námsaðstoðar á Íslandi aftur til áranna 1911–1912. Margt hefur breyst frá setningu gildandi laga og er athyglisvert að áður hefur ekki liðið svo langur tími milli lagasetninga á þessu sviði. Um hríð hefur legið fyrir að efna þyrfti til heildstæðrar endurskoðunar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna og færa löggjöfina í átt að nútímanum og þess samfélags sem við búum í. Áhættugreiningar og ársskýrslur Lánasjóðsins hafa t.d. undirstrikað þörf fyrir breytingar á starfsemi hans og gildandi lögum. Með frumvarpi þessu er ætlunin að bregðast við þeim breytingum sem hafa átt sér stað í menntakerfinu, ekki síst á háskólastigi, og setja ný lög í takt við nýja tíma og breyttar þarfir námsmanna.
    Áratugum saman hafa íslenskir námsmenn barist fyrir betri kjörum, auknum réttindum námsmanna og jöfnum tækifærum til náms. Á undanförnum árum hafa þeir jafnframt kallað eftir bættu námslánakerfi og auknum fjárhagslegum stuðningi við nám sitt frá íslenska ríkinu. Árið 2018 birtust niðurstöður úr samanburðarkönnun á högum evrópskra háskólanema í 28 ríkjum í Evrópu ( Social and Economic Conditions of Student Life in Europe – Eurostudent VI 2016–2018: Synopsis of Indicators). Var þetta í fyrsta sinn sem Ísland tók þátt í könnuninni sem veitti samanburðarupplýsingar um félagslegar og efnahagslegar aðstæður nemenda í íslenskum háskólum. Samanburðarkannanirnar sýndu fram á að íslenskir námsmenn höfðu almennt miklar fjárhagslegar áhyggjur og mátu fjárhagsstöðu sína slæma. Samkvæmt könnuninni mátu 34% íslenskra háskólanema fjárhagsstöðu sína annað hvort alvarlega eða mjög alvarlega. Þetta hlutfall er talsvert yfir meðaltali í Evrópu þar sem það mældist 26%. Íslenskir námsmenn hafa því almennt meiri fjárhagslegar áhyggjur en aðrir evrópskir námsmenn. Að sama skapi hafa kannanir sem gerðar hafa verið á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (e. Organisation for Economic Co-operation and Development, skammstafað OECD) sýnt fram á að háskólanemar hér á landi eru almennt eldri en gengur og gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Hvergi er jafn lágt hlutfall í yngsta aldurshópnum, þ.e. 24 ára og yngri, og að sama skapi er hvergi jafn hátt hlutfall nema í elstu aldurshópunum, þ.e. 30 ára og eldri.
    Á síðustu árum hafa meðallán lánþega hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna hækkað jafnt og þétt. Helstu ástæður þessa má rekja til þess að námsmenn eru lengur í námi og fara í lengra og dýrara nám með háum skólagjöldum, bæði innanlands og erlendis. Þá hefur meðalaldur lánþega farið hækkandi. Styrkur ríkisins til námsmanna hefur undanfarin ár verið metinn sem 47% af útlánum hvers árs. Felst þessi styrkur í lágum vöxtum námslána samanborið við fjármögnunarkjör Lánasjóðsins auk þess sem námslán falla niður við andlát lánþega. Ef miðað er við heildarlánasafn Lánasjóðsins er þessi stuðningur 37% og birtist hann í afföllum af lánum Lánasjóðsins og niðurgreiddum vöxtum og fer hann hækkandi. Rúmlega helming stuðningsins (22%) má rekja til niðurgreiðslu vaxta af námslánunum og tæpan helming (15%) til þess að námslán greiðast ekki að fullu.
    Frumvarp þetta miðar að því að jafna stuðning og dreifingu á ríkisstyrkjum til lánþega með félagslegum stuðningssjóði og með því að koma á hvatakerfi fyrir námsmenn til þess að klára nám sitt á tilsettum tíma. Frumvarpið hefur í för með sér kerfisbreytingar á núverandi námsaðstoðarkerfi. Með þeim kerfisbreytingum má gera ráð fyrir bættri námsframvindu námsmanna sem mun stuðla að betri nýtingu fjármuna í menntakerfinu og aukinni skilvirki í framtíðinni. Breytingarnar munu meðal annars hafa í för með sér að námsaðstoð ríkisins verði gagnsærri, staða þeirra námsmanna sem þurfa á frekari styrkjum að halda sökum félagslegra aðstæðna verði efld og aukið jafnræði verði meðal lánþega. Þá er í frumvarpi þessu lagt til að tekin verði upp ákvæði um námsstyrki en slík ákvæði var að finna í eldri lögum um námslán allt til setningar núgildandi laga árið 1992. Þessu nýja kerfi mun með þeim hætti svipa meira til norrænna námsstyrkjakerfa.
    Eitt af meginmarkmiðum íslenskra stjórnvalda í menntamálum er sjá til þess að ungmenni landsins njóti góðs aðgengis að menntun óháð efnahag. Liður í þeirri viðleitni er meðal annars að starfrækja lánasjóð fyrir íslenska námsmenn.
    Frumvarpinu er ætlað að tryggja jafnrétti til náms á Íslandi og að hér sé kerfi sem dragi úr aðstöðumun í samfélaginu og tryggi eftir því sem kostur er öllum sem í hlut eiga jafna möguleika og jöfn tækifæri. Þannig á möguleiki á menntun að vera án tillits til landfræðilegra aðstæðna, kyns eða efnahagslegra og félagslegra aðstæðna. Sérstök áhersla verður lögð á að gera öllum námsmönnum kleift að framfleyta sér á meðan þeir leggja stund á nám sem fellur undir lögin. Unnið verður að því að styðja enn betur við ákveðna hópa námsmanna sem reynst hefur erfiðara en öðrum að sækja nám vegna fyrrgreindra aðstæðna. Til þessa hóps heyra meðal annars einstæðir foreldrar, námsmenn með barn á framfæri og námsmenn sem búa utan höfuðborgarsvæðisins og eiga þess ekki kost að sækja nám sitt í heimabyggð. Þá er enn fremur með frumvarpi þessu lagt til að nafni Lánasjóðs íslenskra námsmanna verði breytt í Menntasjóð námsmanna og að hann verði rekinn sem félagslegur jöfnunarsjóður. Með hugtakinu félagslegur jöfnunarsjóður er átt við að hlutverk Menntasjóðsins verði að tryggja þeim sem falla undir lögin jöfn tækifæri til þess að stunda það nám sem er lánshæft samkvæmt lögunum, óháð efnahag eða stöðu að öðru leyti, og þar með jafna stöðu námsmanna. Með frumvarpi þessu er ekki lagt til að stofnaður verði nýr sjóður heldur einungis verið að breyta nafninu á honum til að endurspegla endurbætt námslánakerfi. Eldra lánakerfi verður áfram rekið sem deild innan Menntasjóðsins þar til það rennur sitt skeið.
    Einnig er ætlunin með frumvarpinu að styðja við íslenskt atvinnulíf og efla samkeppnisstöðu þess. Þess vegna er mikilvægt að lög um Menntasjóð námsmanna styðji við áherslur stjórnvalda sem miða að því að draga úr skorti á starfsmönnum í ákveðnum starfsstéttum, t.d. kennurum og heilbrigðisstarfsfólki, en jafnframt að efla list-, tækni-, verk- og starfsnám. Ljóst er að mikill skortur er á fólki með slíka menntun. Frumvarpið styður þannig við áherslur ríkisstjórnarinnar í menntamálum og forgangsröðun hennar, meðal annars með því að tryggja enn betur jafnrétti allra til náms og draga úr skorti á starfsmönnum í ákveðnum starfsstéttum.
    Í frumvarpinu er leitast við að afmarka betur en gert er í lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna hvaða nám er lánshæft. Frumvarpinu er ætla að skýra betur þær reglur sem byggt hefur verið á og renna frekari lagastoðum undir þær.
    Hlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna samkvæmt lögum nr. 21/1992 er að gefa námsmönnum tækifæri til að mennta sig, án tillits til efnahags. Stuðningur ríkisins til námsmanna felst í hagstæðum lánakjörum og afskriftum námslána sem ekki geta fengist endurgreidd. Í fyrstu virðist sem svo að með námsláni frá Lánasjóði íslenskra námsmanna sé nemendum einungis veitt námslán en ekki styrkur. Þó hefur í námslánum frá Lánasjóðnum, allt frá því hann var fyrst stofnaður, verið innifalinn tvenns konar styrkur. Annars vegar styrkur vegna afskrifta á námslánum við andlát lánþega og hins vegar styrkur vegna vaxtamismunar á þeim vöxtum sem Lánasjóðurinn fjármagnar sig á og þeim vöxtum sem hann lánar út á. Styrknum er mjög misskipt á milli námsmanna þar sem stærstur hluti hans fer til þeirra námsmanna sem taka hæstu námslánin og fara seint í nám. Þeir sem hefja nám ungir og taka hóflegri námslán eru líklegri til að greiða þau til baka að fullu og hafa því ekki fengið sama styrk frá ríkinu og þeir sem eldri eru og taka há námslán. Til að varpa ljósi á ójafna dreifingu styrkja frá ríkinu var gerður samanburður á 20% af hæstu lánunum og 20% af lægstu lánunum í áhættuskýrslu Lánasjóðs íslenskra námsmanna árið 2018. Samkvæmt skýrslunni hlýtur sá hópur einstaklinga sem skuldar hvað mest 67% af heildarstyrk ríkisins en aftur á móti sá hópur sem skuldar hvað minnst hlýtur aðeins 0.7% af heildarstyrknum. Af framangreindu er ljóst að það fjármagn og styrkur sem felst í gildandi námslánakerfi dreifist mjög ójafnt til lánþega og falla hæstu styrkirnir einkum til þeirra sem taka hæstu lánin.
    Eins og fyrirkomulagi námslána er háttað í dag er möguleiki fyrir lánþega að skuldsetja sig umfram getu til að þess að endurgreiða námslánin. Afleiðing þess er að lánþegar sem taka hærri námslán fá hlutfallslega hærri afskriftir en þeir sem greiða upp námslánin sín. Eitt af markmiðum frumvarpsins er að breyta þessu fyrirkomulagi og gera dreifingu á framlagi ríkisins til nemenda gagnsærri og þar með jafna stuðning við námsmenn betur en gert er í núverandi námslánakerfi.
    Tölur OECD sýna að hlutfall íslenskra háskólanema sem stunda nám við háskóla erlendis hefur lækkað úr 19% árið 2012 í 13% árið 2016. Þá hefur fjöldi skiptinema frá íslenskum háskólum staðið í stað eða lækkað lítillega á síðustu árum (tölur frá Rannís). Það vekur athygli að flestir íslensku námsmannanna í könnun Eurostudent VI hafa hvorki stundað tímabundið nám erlendis eftir að þeir hófu nám í íslenskum háskóla né ætla sér að gera það. Líkurnar á því að námsmenn stefni á nám erlendis minnka með hækkandi aldri og eru minni hjá þeim sem eiga börn og/eða búa í eigin húsnæði. Aukin fjárhagsleg byrði var algengasta hindrunin sem nefnd var fyrir því að fara utan til náms. Með því að bæta fjárhagsstöðu námsmanna verður fleirum gert kleift að taka hluta námsins erlendis. Íslenskt háskólaumhverfi er lítið og mikilvægt að námsmenn hér á landi haldi áfram að sækja sér menntun utan landsteinanna til að auka fjölbreytni í námi og efla alþjóðleg tengsl.
    Stöðugar breytingar eiga sér stað á íslenskum atvinnumarkaði, bæði hvað varðar starfsframboð og þær kröfur sem gerðar eru til menntunar hverju sinni. Á undanförnum árum hefur það verið ætlunarverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna að styðja betur við áherslur stjórnvalda um að efla atvinnulíf landsins samhliða menntun og breyttum þörfum samfélagsins. Mun Menntasjóðurinn taka við og halda áfram að ýta undir áherslur stjórnvalda. Markmiðið er að skila sem flestum vel menntuðum einstaklingum til samfélagsins og styrkja faglega þróun fólks á vinnumarkaði. Þörf fyrir menntað vinnuafl hefur farið vaxandi, sérstaklega á landsbyggðinni. Að hluta til má rekja það til þess að námsmenn sem búsettir eru á landsbyggðinni þurfa að sækja sér menntun utan heimahaganna og er staðreyndin sú að fæstir snúa heim aftur að námi loknu.
    Hugmyndin með frumvarpi þessu er meðal annars að nýta námslánakerfið sem hvata fyrir fólk til að setjast að í dreifðum byggðum þar sem skortur er á sérfræðimenntuðu fólki. Með því að búa til sérstakan hvata er stuðlað annars vegar að aukinni sérfræðiþekkingu vítt og breitt um landið og fjölgun á framhaldsmenntuðu fólki og hins vegar að aukinni fjölbreytni. Norðmenn hafa tekið upp sams konar hvatakerfi í sinni löggjöf sem beint hefur verið inn á þau svæði þar sem skortur er á sérfræðimenntuðu fólki. Þessi aðferð Norðmanna hefur skilað töluverðum árangri. Frumvarpinu er ætlað að hjálpa til við að tryggja aðgang samfélagsins að menntuðu starfsfólki og að stuðla að jákvæðri þróun byggða með því efla samkeppnishæfni þeirra sem og landsins alls.
    Frumvarp þetta mun stuðla að auknu jafnrétti til náms. Sérstaklega munu aðstæður námsmanna batna að loknu námi með því nýmæli að allt að 30% af námsláni hvers og eins geti breyst í styrk sé námi lokið á tilsettum tíma. Þá mun samþykkt frumvarpsins einnig eyða óvissu og auðvelda túlkun á ýmsum atriðum er varða lánshæfi náms og námslán vegna skólagjalda.
    Með frumvarpinu er brugðist við ýmsum ábendingum bæði opinberra aðila og hagsmunaaðila.
    Að lokum munu lög um Menntasjóð námsmanna mæta betur þörfum núverandi menntakerfis. Kostnað við lagasetninguna verður að setja í samhengi við langtímaáætlun ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að innleitt verði nýtt námsstyrkjakerfi samhliða námslánakerfi. Markmiðið með nýju kerfi er að tryggja hagsmuni námsmanna á Íslandi betur en gert hefur verið. Markmiði þessu skal náð með eftirfarandi hætti:
          Lánþegar sem ljúka prófgráðu innan tilgreinds tíma geti fengið námsstyrk sem nemur 30% niðurfærslu af höfuðstól námsláns þeirra ásamt verðbótum og kemur endurgreiðslan til úthlutunar að loknu námi.
          Námsstyrkur verði veittur vegna framfærslu barna lánþega.
          Heimilt verði að námslán séu greidd út mánaðarlega.
          Lánþegar geta valið við námslok hvort þeir endurgreiði námslán sín með verðtryggðu eða óverðtryggðu skuldabréfi.
          Gert ráð fyrir að afborganir námslána ásamt álagi eigi að geta staðið að fullu undir lánveitingum sem Menntasjóðurinn veitir.
          Meginreglan verði að námslán skulu greidd með mánaðarlegum afborgunum og að fullu endurgreidd á því ári þegar lánþegi nær 65 ára aldri.
          Lánþegar geta valið að endurgreiða námslán með tekjutengdum afborgunum séu námslok þeirra áður eða á því ári er þeir ná 35 ára aldri.
          Heimild til námslána vegna starfsnáms og viðbótarnáms við framhaldsskóla verði betur afmörkuð.
          Lögfest verði heimild til að veita námslán vegna skólagjalda.
          Veitt verði heimild til ráðherra til að ákveða sérstaka tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána vegna tiltekinna námsgreina að uppfylltum skilyrðum.
          Veitt verði heimild til ráðherra til að ákveða sérstaka tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána hjá lánþegum búsettum og starfandi á svæðum skilgreindum í samráði við Byggðastofnun að uppfylltum skilyrðum.
          Námsaðstoð ríkisins verði undanþegin lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Með námsaðstoð er átt við námslán, styrk vegna framfærslu barna, niðurfellingu á hluta námslána við námslok og ýmsar ívilnanir.
          Rekstur Menntasjóðsins verði greiddur af ríkissjóði með hefðbundnum framlögum.
          Ábyrgðir ábyrgðarmanna á námslánum, teknum í tíð eldri laga, falli niður við gildistöku laga þessara enda sé lánþegi í skilum við Lánasjóð íslenskra námsmanna og ekki á vanskilaskrá.
          Ábyrgðir ábyrgðarmanns falli niður við andlát hans enda sé lánþegi í skilum við sjóðina.
    Í frumvarpinu má finna nýmæli sem snýr að styrkjum til lánþega námslána. Almenna beina styrki til lánþega námslána er ekki að finna í núverandi námslánakerfi á Íslandi en slík styrkjakerfi eru hins vegar við lýði á öðrum Norðurlöndum og hefur um langa hríð verið litið til þeirra sem æskilegrar leiðar hér á landi. Í eldri löggjöf á þessi sviði var að finna ákvæði um almenna styrki vegna háskólanáms en þau voru felld niður með lögum nr. 21/1992.
    Það er því ljóst að þó svo að ákvæði um námsstyrki í löggjöf um námslán sé ekki nýtt af nálinni hefur ekki áður verið kveðið á um almenna styrki til lánþega að uppfylltum tilteknum skilyrðum með þessum hætti.
    Styrkjakerfin vegna háskólanáms annars staðar á Norðurlöndum eru ólík. Í frumvarpi þessu er lagt til að námsmenn geti áunnið sér styrki ljúki þeir prófgráðu innan tilgreinds tíma. Fjárhæð námsstyrksins er 30% niðurfærsla af höfuðstól námslánsins ásamt verðbótum að námi loknu. Það er eðlilegt að miða styrkinn við ákveðna prósentutölu í ljósi jafnræðis, án tillits til upphæða námsláns hvers og eins lánþega. Styrkirnir eru því ekki ætlaðir til framfærslu meðan á námi stendur enda falla þeir ekki til fyrr en að námi loknu. Ástæðan fyrir því að þessi leið er farin er sú að hún er langtum einfaldari og skilvirkari og hvetur lánþega til að ljúka námi á tilskyldum tíma en t.d. það styrkjakerfi sem þekkist í Danmörku þar sem styrkirnir eru greiddir út mánaðarlega. Þetta er nauðsynlegt til að ná því markmiði sem styrkirnir eiga meðal annars að stuðla að, þ.e. að sporna við þeirri þróun að námsmenn ílengist að óþörfu í námi. Bætt námsframvinda dregur úr skuldsetningu námsmanna og stuðlar að betri nýtingu fjármuna í menntakerfinu og aukinni skilvirkni. Slíkt svigrúm má nýta til að auka þjónustu við námsmenn og efla gæði kennslu.
    Námsmenn á Íslandi eru líklegri til að hafa fjölskyldu á framfæri en námsmenn í öðrum Evrópuríkjum. Samkvæmt fyrrnefndri samanburðarkönnun á högum háskólanema í 28 ríkjum í Evrópu átti þriðjungur svarenda á Íslandi eitt barn eða fleiri, sem er hæsta hlutfall meðal þátttökuríkjanna, og 41,2% yngstu barna voru yngri en þriggja ára. Í ljósi þessara aðstæðna námsmanna og til að styrkja Menntasjóðinn sem félagslegan jöfnunarsjóð var ákveðið að veita beinan styrk á meðan námi stendur vegna barna lánþega. Um er að ræða nýmæli í löggjöf um námslán og þótt finna megi álíka stuðning við barnafjölskyldur hjá Norðmönnum og Svíum þá er tillagður stuðningur töluvert hærri hér. Markmiðið með styrknum er að jafna stöðu lánþega með börn á framfæri og þeirra sem eru barnlaus.
    Námsmenn hafa allt frá setningu laga nr. 21/1992 barist fyrir því að samtímagreiðslum yrði komið á að nýju. Í frumvarpi þessu er lagt til að heimilt verði að greiða námslán út mánaðarlega. Kostnaður vegna slíks er óverulegur en umsýsla hjá Menntasjóðnum getur aukist vegna innheimtu hjá þeim sem ná ekki tilskyldri námsframvindu og þurfa að greiða ofgreidd námslán til baka. Hins vegar lækkar vaxtakostnaður sem greiddur hefur verið til námsmanna til að standa straum af kostnaði við yfirdráttarlán hjá bönkunum.
    Frumvarp þetta veitir lánþegum mun meira frelsi til að velja hvernig þeir vilja haga sínum lánamálum. Nýmæli er að við námslok geti lánþegar valið um hvort þeir endurgreiði námslán sín með verðtryggðu eða óverðtryggðu skuldabréfi. Vextir reiknast frá námslokum. Lánþegar geta einnig valið hvort þeir endurgreiði námslán sín þannig að endurgreiðslutími þess sé háður lántökufjárhæð eða með tekjutengdum afborgunum verði námslok þeirra fyrr, eða á 35. aldursári. Annars staðar á Norðurlöndum er lögð mikil áhersla á að námsmenn séu meðvitaðir um þá lánaskuldbindingu sem felst í námslánunum með það að markmiði að námsmenn taki einungis þá upphæð að láni sem þeir þurfa yfir námstímann. Markmið þessa frumvarps er hið sama og verða námsmönnum veittar upplýsingar um hver greiðslubyrðin verður af námslánum miðað við uppgefnar forsendur.
    Ólíkt núverandi kerfi er gert ráð fyrir að afborganir námslána ásamt föstu vaxtaálagi standi að fullu undir lánveitingum sem Menntasjóðurinn veitir. Með þessu frumvarpi er lagt til að stuðningur ríkisins verði jafnari og gagnsærri en áður í stað þess að hann felist í niðurfelldum ógreiddum lánum og vaxtamun. Meginreglan verður að endurgreiðslutími námslána verði háður lántökufjárhæð en ekki tekjutengdur eins og nú er. Lánþegar greiði mánaðarlega af námslánum sínum og þau séu að fullu endurgreidd fyrir 65 ára aldur. Með því að gera endurgreiðslutíma námslána háð lántökufjárhæð að meginreglu í frumvarpi þessu er ætlunin að gera aðstoð ríkisins til námsmanna sýnilegri og jafnari og í því felist hvatning til að ljúka námi á sem skemmstum tíma. Til þess að kerfi það sem lagt er til í þessu frumvarpi virki eins og ætlast er til verða endurgreiðslur námslána að standa undir sér og ríkið hætti að niðurgreiða vexti til lánþega eins og er í núverandi kerfi.
    Ný námslán til eldri lánþega hafa aukist verulega hjá Lánasjóðnum. Þar sem endurgreiðslur hafa verið tekjutengdar er augljóst að námslán sem veitt eru lánþegum yfir 60 ára aldri greiðast í litlum mæli til baka. Námslánin eru í raun styrkur ríkisins til þeirra lánþega. Þjóðfélagslegur ábati af því að mennta einstaklinga yfir 60 ára aldri er ekki eins mikill og ef um yngri einstaklinga er að ræða. Menntun einstaklinga felur í sér kostnað fyrir samfélagið, bæði í formi framfærslu á meðan námi stendur og vegna beins kostnaðar við kennslu. Séu einstaklingar þegar komnir á síðari hluta starfsævi sinnar þegar þeir sækja sér menntun má ætla að menntunin skili sér í minna mæli aftur til þjóðfélagsins þar sem færri ár eru eftir af starfsævi þeirra. Annars staðar á Norðurlöndunum hafa lengi verið skilyrði varðandi hámarksaldur vegna veitingar námsaðstoðar en slíkum skilyrðum hefur ekki verið til að dreifa hér á landi. Við ákvörðun um aldurstakmörk var litið til Noregs og Svíþjóðar en í Svíþjóð skerðast námslánamöguleikar við 47 ára aldur og eftir 57 ára aldur á námsmaður engan rétt til námsaðstoðar. Í Noregi skerðast námslánamöguleikar við 45 ára aldur á þann hátt að námsmaður verður að geta greitt námslánið til baka fyrir 65 ára aldur. Því má sjá að þrátt fyrir að lagt sé til aldurshámark á endurgreiðslur námslána í frumvarpi þessu er gengið mun styttra en í Noregi og Svíþjóð.
    Lánþegar greiða breytilega vexti af námslánum sínum sem byggja á vaxtakjörum sem ríkissjóði bjóðast á markaði að viðbættu föstu vaxtaálagi til þess að mæta hugsanlegum útlánatöpum á nýja lánahluta Menntasjóðsins. Með því að hafa vexti breytilega í stað fastra er dregið úr þeirri vaxtaáhættu sem Lánasjóðurinn býr við í dag þar sem útlánavextir Lánasjóðsins endurspegla ekki vaxtakjör vegna skuldbindinga hans. Einnig felur þetta í sér að allir lánþegar á hverjum tímapunkti greiða sömu vexti óháð því hvenær námi lauk. Uppgreiðslur námslána skapa því ekki áhættu fyrir Menntasjóðinn.
    Frá meginreglunni um að endurgreiðslutími námslána skuli vera háður lántökufjárhæð og lánið uppgreitt fyrir 65 ára aldur lánþega er mikilvæg undantekning. Hún heimilar lánþega sem lýkur námi sínu áður eða á því ári sem viðkomandi nær 35 ára aldri að velja milli þess hvort endurgreiðslutími láns sé háður lántökufjárhæð eða með tekjutengdum afborgunum sambærilegum þeim sem eru í núverandi kerfi. Með því að setja aldursskilmála við 35 ára aldur er tryggt eins og hægt er að námslán séu greidd til baka að fullu. Þeir sem hefja nám ungir eru líklegri til að ná að greiða námslán sín til baka að fullu fyrir 65 ára aldur (sjá Áhættuskýrslu stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna, 2018). Eftir því sem lánþegi er eldri verður núvirði nýrra lána sífellt minna. Það er forsenda þess að hægt sé að bjóða upp á tekjutengda endurgreiðslu þannig að það verði Menntasjóðnum ekki til tjóns að skilyrða undanþáguna við 35 ára aldur lánþega.
    Til þess að mögulegt sé að bjóða upp á endurgreiðslu námslána með tekjutengingu verður að setja aldursskilmála og miðað við þær forsendur sem frumvarp þetta er byggt á er gert ráð fyrir að tekjutengingin gagnist fyrst og fremst ungum námsmönnum.
    Í frumvarpinu er farin sú leið að skilgreina sérnám betur í lögum og þá litið til sambærilegrar löggjafar annars staðar á Norðurlöndunum sem og gildandi úthlutunarreglna Lánasjóðsins. Árið 2008 var með lögum um framhaldsskóla sett lagastoð fyrir námi sem skilgreint er í framhaldi af námi á framhaldsskólastigi en fellur þó ekki að skipulagi náms á háskólastigi. Sérhæft nám í framhaldi af starfsnámi er oft nefnt í þessu sambandi. Slíkt nám mundi þannig almennt teljast á æðra hæfnisþrepi en annað sérnám á framhaldsskólastigi en gæti þó ekki talist til háskólanáms.
    Í lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna er ekki minnst á heimild Lánasjóðsins til að lána fyrir skólagjöldum. Þó er ljóst, bæði af reglum og framkvæmd Lánasjóðsins til margra ára, að skólagjaldalán hafa verið veitt og að önnur sjónarmið eiga við um þau en framfærslulán. Nauðsynlegt var talið að skerpa á heimild Menntasjóðsins til að veita skólagjaldalán og þá um leið að setja skilyrði fyrir veitingu þeirra.
    Með frumvarpi þessu er ráðherra lagðar til heimildir til að veita tímabundnar ívilnanir við endurgreiðslur námslána vegna tiltekinna námsgreina og/eða handa lánþegum sem búa og starfa á skilgreindum svæðum. Skilyrði eru sett til að hægt sé að nýta umræddar heimildir og viðbótarfjármagn verður að koma frá ríkissjóði til að standa undir aðgerðunum. Ákveði ráðherra að nýta þessar heimildir koma þær til viðbótar við annan stuðning til lánþega sem finna má í frumvarpinu. Tilgangur heimildanna er að gefa ráðherra tækifæri til þess að bregðast við ástandi þar sem ýmist er fyrirsjáanlegur eða viðvarandi skortur á fólki með tiltekna menntun. Heimildir þessar veita svigrúm til að skapa sérstaka hvata til þess að laða að fólk með tiltekna menntun eða til starfa í tiltekinni starfsgrein og/eða til þess að bregðast við ástandi þar sem skortur er á menntuðum einstaklingum á skilgreindum svæðum. Heimildirnar eru settar að norskri fyrirmynd.
    Sú meginregla gildir á Íslandi að allir styrkir til einstaklinga teljast til skattskyldra tekna, hvernig sem þeirra er aflað. Styrkir eru skattlagðir eins og launatekjur og bera tekjuskatt og útsvar. Fáar undantekningar eru á skattskyldu styrkja en með þessu frumvarpi er lögð til ein slík. Talið er að námsaðstoð sú sem lögð er til með frumvarpinu nái ekki takmarki sínu ef lánþegar þurfa að greiða staðgreiðslu af þeirri aðstoð sem boðuð er. Þar að auki má ætla að umsóknum um námsstyrk eða styrk vegna framfærslu barna fjölgi eitthvað og ef Menntasjóðurinn ætti að halda utan um staðgreiðslustöðu allra umsækjenda um námsaðstoð mundi það auka verulega umsýslu hans.
    Eins og að framan greinir er lagt til að námsaðstoð ríkisins felist fyrst og fremst í niðurfellingu á hluta námslána lánþega og til framfærslu barna þeirra. Forsendur þessa nýja kerfis eru að endurgreiðsla námslána standi undir sér og stuðningur ríkisins felist ekki í niðurgreiðslu vaxta til lánþega eins og nú er. Áfram eru lánakjör námsmanna töluvert hagstæðari en lánakjör sem almennt bjóðast á lánamarkaði til einstaklinga. Gert er ráð fyrir að allur rekstrarkostnaður og veittir styrkir komi með hefðbundnum framlögum ríkisins til Menntasjóðsins en að lánakerfið, þ.m.t. afborganir, vextir útlána og lán frá ríkissjóði, sé fjármagnað með afborgunum af námslánum lánþega.
    Í bráðabirgðaákvæði með frumvarpi þessu er lagt til að ábyrgð ábyrgðarmanns á námslánum sem tekin voru í tíð eldri laga falli niður að uppfylltum ákveðnum skilyrðum ef frumvarpið verður að lögum. Með því er komið til móts við kröfur samfélagsins um að hver lánþegi skuli sjálfur vera ábyrgur fyrir endurgreiðslu eigin námslána og samræma þannig námslán sem veitt eru fyrir og eftir 2009. Þá er tiltekið að ábyrgðir ábyrgðarmanns falli niður við andlát hans enda sé lánþegi í skilum. Með ákvæðinu er átt við að ábyrgðir ábyrgðarmanna sem ekki eru fallnar í gjalddaga skuli falla niður við andlát ábyrgðarmanns. Þessi regla er í samræmi við reglu sem lengi hefur gilt um lánþegann sjálfan, þ.e. að skuldin falli niður við andlát en erfist ekki. Þegar svo stendur á þarf lánþegi ekki að fá annan ábyrgðarmann enda er ekki lengur gerð krafa um ábyrgðarmenn námslána nema í undantekningartilfellum.
    Mikilvægt er að styrkja og viðhalda samkeppni við aðrar þjóðir í íslensku mennta- og námslánakerfi. Því er nauðsynlegt að gæta þess að íslenskir skólar dragist ekki aftur úr í þessum efnum en það gæti leitt til þess að fólk leitaði frekar í menntun og störf erlendis. Verði frumvarp þetta samþykkt verða lög um Menntasjóð námsmanna í samræmi við íslenskt menntakerfi eins og það er nú skipulagt og munu styrkja samkeppnishæfni íslenska menntakerfisins töluvert.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Þær breytingar sem frumvarpið felur í sér eru í samræmi við þær skuldbindingar sem Ísland hefur gengist undir með aðild að EES-samningnum varðandi aðgang EES-ríkisborgara að námsaðstoð á Íslandi.

5. Samráð.
    Helstu hagsmunaaðilar að frumvarpi þessu eru námsmenn, greiðendur námslána, ábyrgðarmenn námslána og Lánasjóður íslenskra námsmanna.
    Með þessu frumvarpi er lagt í þriðju atlöguna að breytingu á námslánakerfinu eins og það hefur verið frá árinu 1992. Við vinnslu allra þriggja frumvarpanna hafa verið stofnaðar nefndir með helstu hagmunaaðilum og til viðbótar verið óskað eftir upplýsingum og athugasemdum frá sem flestum. Þau gögn hafa verið nýtt við gerð þessa frumvarps. Þar að auki hefur verið haft sérstakt samráð við námsmenn sem fengið hafa reglulega kynningu á framvindu málsins.
    Áform um lagasetningu var lagt fyrir ráðuneytisstjórafund til að setja í innra samráð innan Stjórnarráðsins hinn 21. mars 2019. Frumvarpið var sett í opið samráð í samráðsgátt stjórnvalda hinn 10. júlí 2019 og lauk samráðinu hinn 9. ágúst 2019. Alls bárust 36 umsagnir. Fólu þær meðal annars í sér athugasemdir vegna vaxta, ábyrgðarmanna og samtímagreiðslna. Tekið var tillit til athugasemda vegna ábyrgðamanna og samtímagreiðslna á þann hátt að með frumvarpinu er lagt til að ábyrgðir ábyrgðarmanna á námslánum, teknum í tíð eldri laga, falli niður verði frumvarp þetta að lögum enda sé lánþegi í skilum við Lánasjóð íslenskra námsmanna og ekki á vanskilaskrá. Þá er lagt til að lánþegar hafi sjálfir val um hvort þeir fái námslán sín greidd út með samtímagreiðslu eða við lok hverrar annar. Einnig var brugðist við athugasemdum um nafnabreytingu sjóðsins en starfsfólk Lánasjóðsins lögðu til nafnið Menntasjóður námsmanna. Ekki var hægt að bregðast við athugasemdum um vaxtakjör þar sem forsenda þess að lánakerfið gangi upp er sú að kerfið standi undir sér.

6. Mat á áhrifum.
Almennt kostnaðarmat.
    Gert er ráð fyrir að núverandi kerfi verði lagt niður og nýtt lána- og styrkjakerfi tekið í notkun haustið 2020. Lánþegar sem tekið hafa lán samkvæmt lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, geta áfram tekið námslán samkvæmt þeim skilyrðum sem þar koma fram, í sjö ár frá gildistöku þessara laga. Þá er átt við að lánþegar geti áfram fengið námslán með sömu skilmálum og finna mátti í lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992. Gert er ráð fyrir að lánþegum sem áfram þiggja námslán samkvæmt eldri lögum muni fækka ört og útlánakerfi vegna eldri lána leggist af eftir sjö ár. Ekki er lagt til að lánþegar sem velja að vera í eldra kerfi fái þá niðurfellingu á hluta námslána sem boðuð er eða styrk vegna framfærslu barna. Lánþegar sem eru með lokuð skuldabréf í eldra kerfi munu áfram greiða af lánum sínum í samræmi við það. Miðað við góða eiginfjárstöðu LÍN samkvæmt ársreikningi 2018 má ætla að núverandi kerfið verði sjálfbært. Þrátt fyrir það er gert ráð fyrir að sex milljarðar króna af eigin fé sjóðsins verði nýttir í þessa kerfisbreytingu á næstu þremur árum. Sjá nánar í fjármálaáætlun 2020–2024 (bls. 343).
    Felldar verða niður ábyrgðir allra ábyrgðarmanna á námslánum að þeim skilyrðum uppfylltum að námslánið sé í skilum og lánþegi sé ekki á vanskilaskrá. Ábyrgðir ábyrgðarmanna munu falla niður við andlát þeirra enda sé lánþegi í skilum við sjóðinn. Áætlaður kostnaður vegna þessa nemur um 3,1 milljarði króna sem fjármagnaður verður með eigin fé sjóðsins. Ekki liggur fyrir hvort gerðar verða kröfur um að fjárhæðin verði færð strax á afskriftareikning og til lækkunar á eigin fé eða þegar kostnaður fellur til. Árlegar afskriftir verða væntanlega lágar á næstu 25–40 árum. Miðað við sterka stöðu sjóðsins samkvæmt ársreikningi 2018 kallar þetta ekki á aukinn kostnað úr ríkissjóði.
    Ólíkt núverandi kerfi er lagt til að námslán beri breytilega vexti sem byggja á vaxtakjörum sem ríkissjóði bjóðast á markaði auk fasts vaxtaálags til þess að mæta væntum afföllum vegna vanskila eða andláts lánþega. Af þessu leiðir að ekki verður kostnaðarauki fyrir ríkissjóð vegna lánahluta nýja kerfisins. Áfram eru lánakjör námsmanna töluvert hagstæðari en lánakjör sem almennt bjóðast á lánamarkaði til einstaklinga enda byggja grunnvextir á sömu fjármögnunarkjörum og ríkissjóður fær á markaði.
    Gert er ráð fyrir að nýtt styrktarkerfi veiti beina styrki vegna framfærslu barna og 30% niðurfellingu á höfuðstóli námslána að viðbættum verðbótum, þ.m.t. framfærslulánum, húsnæðislánum, skólagjaldalánum og öðrum lánum skv. 3. gr. frumvarpsins, við lok prófgráðu innan skilgreinds tíma.
    Unnið hefur verið kostnaðarmat á styrktarhluta nýs kerfis miðað við fyrrgreindar forsendur þar sem gert er ráð fyrir 7000 lánþegum og 4000 börnum. Þá er gert ráð fyrir að á tímabilinu 2020–2023 fjölgi lánþegum um 2800 og börnum um 400. Á undanförnum árum hefur framlag til LÍN verið um 8,3 milljarðar króna á ári en vegna fækkunar lánþega er áætluð fjárþörf til LÍN 6,7 milljarðar króna miðað við óbreytt kerfi. Ráðgert er að kostnaður nýs styrktarkerfis þróist eins og lýst er í töflu 1:

Tafla 1: Áætlaður kostnaður styrkjakerfis Menntasjóðs námsmanna (upphæðir í millj. kr.).


Ár Framfærsla Skólagjöld Styrkir v. barna Samtals
2020* 1.772 351 667 2.790
2021 3.777 729 1.344 5.850
2022 4.054 784 1.366 6.204
2023 4.332 839 1.388 6.559
2024 4.470 867 1.398 6.735
2025 4.470 867 1.398 6.735
2026 4.470 867 1.398 6.735
2027 4.470 867 1.398 6.735
* Miðað við gildistöku á haustönn 2020

Kostnaður við framkvæmd.
    Rekstrarkostnaður Menntasjóðsins verður greiddur úr ríkissjóði eins og rekstrarkostnaður LÍN. Rekstrarkostnaðurinn samanstendur af hefðbundnum rekstrarkostnaði og greiðslum á vaxtastyrk til lánþega sem fá námslánin greidd eftir á. Með tilkomu Menntasjóðsins er gert ráð fyrir auknum rekstrarkostnaði vegna þeirra kerfisbreytinga sem getið er í frumvarpinu. Er viðbótarkostnaður ríkissjóðs við rekstur Menntasjóðs námsmanna því áætlaður 175 millj. kr., þ.m.t. 25 millj. kr. stofnkostnaður á fyrsta árinu og síðan 150 millj. kr. árlega eftir það.
    Ráðgert er að rekstrarkostnaður Menntasjóðsins þróist eins og lýst er í töflu 2:

Tafla 2: Rekstrarkostnaður Menntasjóðs námsmanna (upphæðir í millj. kr.).


Ár Rekstur Viðbótarkostnaður Samtals
2020 945 175 1.120
2021 973 150 1.123
2022 1.002 150 1.152
2023 1.032 150 1.181
2024 1.063 150 1.213

    Samantekið má áætla að fjárþörf vegna Menntasjóðs námsmanna og Lánasjóðs íslenskra námsmanna verði eins og kemur fram í töflu 3:

Tafla 3: Fjárþörf MSN og LÍN (upphæðir í millj. kr.).


2020 2021 2022 2023 2024
Styrktarhluti* 2.790 5.850 6.204 6.559 6.735
Rekstrarhluti 1.120 1.123 1.152 1.181 1.213
LÍN** 3.245 0 0 0 0
Framlag ríkisins 7.155 6.973 7.356 7.740 7.948
* Miðað er við að loforð um styrk séu gjaldfærð þá þegar.
** Rekstur LÍN fyrri hluta árs 2020.

    Þetta rúmast innan fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar miðað við fyrirliggjandi kostnaðaráætlun. Þó verður áfram gert ráð fyrir að fjárveitingar til Menntasjóðs námsmanna verði endurskoðaðar árlega við vinnslu fjárlaga eins og hingað til.

Jafnréttismat.
    Markmið nýs styrktarkerfis er að stuðningur við lánþega verði jafnari, gagnsærri og sanngjarnari og að jafna stöðu lánþega með börn á framfæri og þeirra sem eru barnlaus.
    Með 30% niðurfærslu höfuðstóls munu heildarlán allra lánþega sem ljúka prófgráðu á tilsettum tíma verða lægri en í núverandi kerfi. Styrkur í stað láns til framfærenda barna mun einnig lækka upphæð heildarláns lánþega sem ætti að hafa jákvæð áhrif á skuldastöðu þeirra sem eru með börn á framfæri.
    Lánþegar hafa með nýju kerfi möguleika á að greiða fastar afborganir sem gerir það að verkum að greiðslubyrði eykst ef tekjur eru lágar en á móti kemur að endurgreiðslutíminn styttist. Áhrif þessa eru að lánþegi greiðir lægri vaxtakostnað og lýkur uppgreiðslu lánsins fyrr. Með þessu kerfi er verið að hvetja námsmenn til að ljúka námi á tilskildum tíma. Þetta er nauðsynlegt til að ná því markmiði sem styrkirnir eiga meðal annars að stuðla að, þ.e. að sporna við þeirri þróun að námsmenn ílengist að óþörfu í námi. Bætt námsframvinda dregur úr skuldsetningu námsmanna og stuðlar að betri nýtingu fjármuna í menntakerfinu og aukinni skilvirkni.
    Möguleiki verður á ívilnunum til að mæta aðstæðum í atvinnulífinu þegar fyrirséður er skortur í ákveðnum starfsstéttum. Sú ívilnun felur í sér að ráðherra getur til viðbótar við 30% niðurfellingu á höfuðstól ákveðið meiri niðurfellingu á höfuðstól námslána lánþega að uppfylltum skilyrðum. Með þessum hætti getur myndast hvati fyrir námsmenn að velja eina námsgrein fram yfir aðra. Er þetta gert að norskri fyrirmynd en þar eiga t.d. þeir sem byrjuðu á kennaranámi haustið 2017 eða seinna möguleika á að fá afskrifað hluta af námslánum sínum ef þeir vinna sem kennarar í a.m.k. þrjú ár af sex fyrstu árunum eftir útskrift. Í frumvarpinu má einnig finna heimildarákvæði fyrir ráðherra til að veita tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána hjá þeim lánþegum sem búa og starfa á svæðum sem skilgreind eru af Byggðastofnun. Telja má að verði frumvarpið samþykkt þá muni það hafa jákvæð áhrif á skilgreind byggðarlög. Ákvæðið ýtir einnig undir og styður við byggðastefnu stjórnvalda á hverjum tíma.
    Konur eru í meiri hluta þeirra sem stunda háskólanám á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands voru konur í háskólanámi 10.847 og karlar 6.054 árið 2017. Frumvarp þetta nær ekki einungis til háskólanema heldur til námsmanna sem stunda t.d. starfsnám, aðfaranám og viðbótarnám við framhaldsskóla. Nákvæmar tölur um kynjasamsetningu þeirra námsmanna liggja ekki fyrir. Hafi launamunur kynjanna ekki verið leiðréttur þá munu konur almennt vera lengur að greiða niður námslán sín velji þær að endurgreiða þau með tekjutengingu. Nýja kerfið leysir ekki kynjavandann en dregur úr honum á ákveðnum sviðum.
    Nýtt styrkjakerfi veitir styrki til lánþega sem eru með börn á framfæri eða eru meðlagsskyldir. Með þeirri aðgerð er meðlagsgreiðendum, sem oftast eru karlar, gert kleift að fá styrk í stað námsláns vegna framfærslu barna og með því verið að ýta undir og styðja við að karlar sem eru með börn á framfæri geti stundað lánshæft nám fremur en í dag. Líkt og að framan greinir má sjá að karlar eru í minni hluta þeirra sem stunda háskólanám í dag. Ísland verður fyrst Norðurlanda til að veita lánþegum styrki vegna meðlagsgreiðslna.
    Til að jafna styrki og forgangsraða styrkveitingu til yngri námsmanna er aðgengi eldri námsmanna takmarkað með skilyrði um að greiða þurfi upp námslán á því ári sem lánþegi nær 65 ára aldri. Líta ber til þess að þjóðfélagslegur ábati af því að mennta einstaklinga yfir 60 ára aldri er minni en ef um yngri einstaklinga er að ræða. Menntun einstaklinga felur í sér kostnað fyrir samfélagið bæði í formi framfærslu á meðan á námi stendur og beins kostnaðar við kennslu.
    Við ákvörðun á aldurstakmörkum var litið til Noregs og Svíþjóðar. Í Svíþjóð minnka námslánamöguleikar við 47 ára aldur og frá 57 ára aldri hefur námsmaður ekki lengur rétt á námsaðstoð. Í Noregi minnka námslánamöguleikar við 45 ára aldur á þann hátt að námsmaður verður að geta greitt námslánið til baka fyrir 65 ára aldur. Námsmenn í Noregi fá ekki námsstyrk eftir 65 ára aldur.
    Þeir sem ljúka námi fyrir eða á því ári er þeir ná 35 ára aldri hafa meira val um fyrirkomulag endurgreiðslna á námslánum. Samkvæmt samanburðarkönnun Eurostudent VI er meðalaldur háskólanema í Evrópu hæstur hér á landi og hér er jafnframt hæsta hlutfall námsmanna yfir þrítugu. Það er bæði ávinningur fyrir námsmenn og samfélagið að námi ljúki fyrr á ævinni. Einstaklingurinn nýtur afraksturs námsins lengur og samfélagslegur ávinningur verður meiri með betri menntun ungs fólks og þeirri hagsæld sem af henni hlýst. Samkvæmt kostnaðarmati stendur tekjutengd endurgreiðsla námslána undir sér við 35 ára aldur lánþega.
    Önnur aldurstakmörkun er í frumvarpinu en hún lýtur að því að námsmenn sem eru yngri en 18 ára hafa ekki heimild til að taka námslán. Ástæða þess er að einstaklingar yngri en 18 ára hafa ekki heimild til að skuldbinda sig til lántöku þar sem þeir eru ekki fjárráða og að á foreldrum þeirra hvílir framfærsluskylda. Væri heimild sett fyrir börn yngri en 18 ára til að skuldsetja sig með lántöku færi það gegn almennum sjónarmiðum um lögræðisaldur.
    Áfram verður möguleiki á undanþágu frá kröfum um lágmarksnámsframvindu sé lánþega það vandkvæðum bundið að mati sjóðstjórnar að stunda nám vegna örorku, lesblindu, annarra sértækra námsörðugleika, alvarlegra veikinda, barneigna eða vegna þess að þeim standi tímabundið ekki til boða fullt nám samkvæmt skipulagi skóla eða af öðrum sambærilegum ástæðum. Þessar undanþágur eru gerðar til að mæta þörfum hvers lánþega á þeim tíma sem viðkomandi stundar nám.
    Einnig er sjóðstjórn áfram heimilt að veita frestun á afborgun að hluta eða öllu leyti í allt að eitt ár í senn ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum lánþega á endurgreiðslutíma námslána eða á meðan námstíma stendur, t.d. ef um alvarleg veikindi er að ræða eða slys er skerðir til muna ráðstöfunarfé þeirra og möguleika til að afla tekna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþegum eða fjölskyldum þeirra. Með frumvarpinu er lögð til breyting á núverandi framkvæmd en einungis er veittur frestur vegna breytinga sem verða á högum lánþega á endurgreiðslutíma námslána eða á meðan námstíma stendur. Í núverandi framkvæmd eru þessi tímamörk ekki til staðar.

Samanburður lánþega hjá Menntasjóð námsmanna og Lánasjóðs íslenskra námsmanna.
    Við eftirfarandi dæmi er settur sá fyrirvari að margar breytur hafa áhrif á lánsfjárhæð, styrktarfjárhæð og greiðslubyrði lána. Eftirfarandi útreikningar miðast við heildartekjur lánþega á mánuði og laun lánþega við 30 ára aldur. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands fylgja laun ákveðinni aldursþróun og er tekið tillit til þessa í útreikningum. Sé lánþegi eldri eða yngri en 30 ára eru mánaðarlaun áætluð eftirfarandi:

Tafla 4: Launa- og aldursþróun – forsendur útreikninga.


Aldur 25 30 35 40 45 50 55
Tekjustuðull 0,83 1 1,17 1,29 1,36 1,37 1,34
Tekjur mv. 30 ára einstakling Áætlaðar tekjur
200 165 200 234 258 272 275 268
310 256 310 363 400 421 426 415
344 286 344 402 444 468 471 461
400 330 400 469 516 544 550 535
450 371 450 527 581 611 618 602
500 413 500 586 646 679 687 669
650 536 650 762 839 883 893 870
Upphæðir í þúsundum króna.

    Fertugur einstaklingur samkvæmt töflu 4 sem fellur undir tekjustuðulinn 400.000 krónur í mánaðarlaun hefur því áætlaðar 516.000 króna mánaðarlaun. Þessi áhrif koma fram í dæmum þar sem fjallað er um tekjutengdar endurgreiðslur LÍN og hjá lánþegum Menntasjóðsins sem eru yngri en 35 ára.
    Þar sem tekjustuðullinn hefur áhrif á þróun launa á afborgunartíma má gera ráð fyrir að í einhverjum tilfellum geti verið um ofmat launa að ræða og því séu greiddar hærri mánaðarlegar greiðslur og endurgreiðslutími því styttri.

Námsstyrkur.
    Lánþegi ávinnur sér námsstyrk ef námi er lokið innan tilskilins tíma. Við námslok fellur þá niður hluti námsláns. Höfuðstóll er myndaður af lánum vegna framfærslu, skólagjöldum, húsnæði og öðru en styrkir vegna framfærslu barna eru ekki hluti af höfuðstólnum.
    Námsstyrkurinn felur í sér 30% niðurfærslu höfuðstóls og eftirfarandi dæmi sýna hversu há fjárhæðin getur verið vegna mismunandi samsetningar lána. Í töflum 5 og 6 er dæmi um 35 ára lánþega með tekjustuðulinn 400.000 krónur á mánuði sem hefur valið tekjutengda afborgun námslána.

Tafla 5: Samanburður höfuðstóls lánþega eftir húsnæði, skólagjöldum og námslengd hjá MSN og LÍN.


Leigulaust Eigin- eða leiguhúsnæði Eigin- eða leiguhúsnæði
Án skólagjalda Skólagjöld Án skólagjalda Skólagjöld Án skólagjald Skólagjöld Án skólagjalda Skólagjöld
Námslengd 3 ár 3 ár 3 ár 3 ár 5 ár 5 ár 8 ár 8 ár
Heildarframfærsla 2.293 4.393 4.990 7.090 8.316 11.816 13.306 18.906
Höfuðstóll LÍN 2.293 4.393 4.990 7.090 8.316 11.816 13.306 18.906
Höfuðstóll MSN 1.605 3.075 3.493 4.963 5.821 8.271 9.314 13.234
Námsstyrkur 668 1.318 1.497 2.127 2.495 3.545 3.992 5.672
Upphæðir í þúsundum króna.

Tafla 6: Samanburður meðalgreiðslna og endurgreiðslutíma lánþega eftir húsnæði, skólagjöldum og námslengd hjá MSN og LÍN.

Leigulaust Eigin- eða leiguhúsnæði Eigin- eða leiguhúsnæði
Án skólagjalda Skólagjöld Án skólagjalda Skólagjöld Án skólagjalda Skólagjöld Án skólagjalda Skólagjöld
Námslengd 3 ár 3 ár 3 ár 3 ár 5 ár 5 ár 8 ár 8 ár
Meðalgreiðslur MSN 19.000 22.000 22.000 22.000 23.000 23.000 23.000 23.000
Meðalgreiðslur LÍN 21.000 23.000 23.000 22.000 22.000 23.000 24.000 23.000
Munur meðalgreiðslna MSN og LÍN -2.000 -1.000 -1.000 0 1.000 0 -1.000 0
Endurgreiðslutími MSN 8 ár 14 ár 16 ár 23 ár 28 ár 48 ár 59 ár 63 ár
Endurgreiðslutími LÍN 10 ár 18 ár 21 ár 30 ár 37 ár 57 ár 62 ár 62 ár
Mismunur endurgreiðslutíma -2 ár -4 ár -5 ár -7 ár -9 ár -9 ár -3 ár 1 ár

Barnastyrkur.
    Greiddur er framfærslustyrkur vegna barna lánþega að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Fjárhæðin miðast við einfaldan barnalífeyri á mánuði í níu mánuði eða 306.000 krónur á ári. Ef námsmaður uppfyllir ekki lágmarks námsframvindukröfur breytist styrkurinn í framfærslulán.
    Í eftirfarandi dæmi um endurgreiðslu á framfærsluláni í töflum 7 og 8 er gert ráð fyrir að lánþegi sé 35 ára og hafi samkvæmt tekjustuðli 310.000 krónur á mánuði.

Tafla 7: Samanburður lánþega í eigin- eða leiguhúsnæði eftir skólagjöldum og fjölda barna hjá MSN og LÍN.


Án skólagjalda Skólagjöld
Námslengd 3 ár 3 ár 3 ár 3 ár 3 ár
Fjöldi barna 1 2 3 1 3
Heildarframfærsla 5.908 6.826 7.744 8.008 9.844
Höfuðstóll LÍN 5.908 6.826 7.744 8.008 9.844
Höfuðstóll MSN 3.393 3.493 3.493 4.963 4.963
Barnastyrkur 918 1.836 2.754 918 2.754
Námsstyrkur 1.497 1.497 1.497 2.127 2.127
Upphæðir í þúsundum króna

Tafla 8: Samanburður lánþega í eigin- eða leiguhúsnæðis eftir skólagjöldum og fjölda barna hjá MSN. og LÍN.


Án skólagjalda Skólagjöld
Námslengd 3 ár 3 ár 3 ár 3 ár 3 ár
Meðalgreiðslur LÍN 18.000 18.000 18.000 17.000 18.000
Meðalgreiðslur hjá MSN 18.000 18.000 18.000 18.000 18.000
Munur meðalgreiðslna MSN og LÍN 0 0 0 1.000 0
Endurgreiðslutími MSN 21 ár 21 ár 21 ár 32 ár 32 ár
Endurgreiðslutími hjá LÍN 33 ár  40 ár  47 ár  49 ár  62 ár
Mismunur á endurgreiðslutíma -12 ár -19 ár -26 ár -17 ár -30 ár

    Hjá LÍN er lánað fyrir framfærslu barna og hefur það áhrif á höfuðstólinn þegar kemur að endurgreiðslu lánanna. Þar sem framfærsla barna hjá Menntasjóðnum verður styrkur, auk námsstyrksins, verður munur á höfuðstólnum hjá LÍN og hjá Menntasjóðinum.

Áhrif aldurs á endurgreiðslu námslána.
    Lánþegi sem lýkur námi á því ári sem hann verður 35 ára eða fyrr getur valið á milli þess að greiða tekjutengdar afborganir eða fastar afborganir. Ef lánþegi lýkur námi á því ári sem hann verður 36 ára þarf hann að greiða fastar afborganir. Afborganir hefjast ári eftir námslok. Gert er ráð fyrir að lánþegi hafi lokið endurgreiðslu námslánsins á því ári sem hann verður 65 ára.
    Fyrirkomulag endurgreiðslu hjá lánþega, sem býr í foreldrahúsum, lýkur þriggja ára háskólaprófi og hefur störf að námi loknu í starfi með 450.000 kr. í mánaðarlaun, er sýnt í töflum 9 og 10:

Tafla 9: Samanburður lánþega hjá MSN og LÍN (upphæðir í þúsundum króna).


Án skólagjalda Með skólagjöldum
Aldur við útskrift 35 ár 45 ár 55 ár 35 ár 45 ár 55 ár
Mánaðarlaun 527 581 611 527 581 611
Heildarframfærsla 2.293 2.293 2.293 4.393 4.393 4.393
Höfuðstóll LÍN 2.293 2.293 2.293 4.393 4.393 4.393
Höfuðstóll MSN 1.605 1.605 1.605 3.075 3.075 3.075
             
Námsstyrkur 688 688 688 1.318 1.318 1.318

Tafla 10: Samanburður meðalgreiðslna og endurgreiðslutíma lánþega hjá MSN og LÍN.


Án skólagjalda Með skólagjöldum
Aldur við útskrift 35 ár 45 ár 55 ár 35 ár 45 ár 55 ár
Meðalgreiðslur hjá MSN 21.000 24.000 24.000 23.000 27.000 32.000
Meðalgreiðslur hjá LÍN 23.000 22.000 20.000 25.000 24.000 20.000
Munur meðalgreiðslna -2.000 2.000 4.000 -2.000 3.000 12.000
Endurgreiðslutími hjá MSN 7 ár 6 ár 6 ár 13 ár 11 ár 9 ár
Endurgreiðslutími hjá LÍN  9 ár  9 ár  10 ár  16 ár  17 ár  21 ár
Munur endurgreiðslutíma (viðm. LÍN) -2 ár -3 ár -4 ár -3 ár -6 ár -12 ár

    Af töflum 9 og 10 má sjá að endurgreiðslutími styttist til muna án þess að greiðslubyrði aukist óhóflega, fyrir utan þann lánþega sem hefur náð 55 ára aldri.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Ákvæðið er breytt frá 1. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, en ekki er um efnisbreytingu að ræða heldur er verið að skerpa á markmiði laganna. Hlutverk Menntasjóðsins er fært undir 29. gr. frumvarpsins.

Um 2. gr.

    Greinin er að mestu leyti samhljóða 3. gr. gildandi laga. Sú breyting sem gerð hefur verið á 1. mgr. ákvæðisins er að námslánum hefur verið skipt í framfærslulán, skólagjaldalán og önnur lán skv. 3. gr. frumvarpsins. Þetta er gert til einföldunar.
    Í 2. mgr. ákvæðisins felst skylda sjóðstjórnar til að ákvarða framfærslulán þannig að það dugi námsmönnum til framfærslu að teknu tilliti til fjölskyldustærðar og búsetu, miðað við almennan framfærslukostnað á Íslandi. Hér er um nýmæli að ræða þar sem lagt er til að framfærsla námsmanna verði almennt sú sama á Íslandi og erlendis. Með fyrri framkvæmd var farið að fordæmi Svíþjóðar við ákvörðun á framfærslu námsmanna erlendis. Nú hefur Svíþjóð breytt sinni framkvæmd með þeim hætti að öll framfærsla sé sú sama þar í landi og erlendis og hefur sú leið einnig verið farin annars staðar á Norðurlöndum.
    Erfitt getur verið að sannreyna hvaða krónutala sé nægjanleg til þess að námsmenn geti framfleytt sér og stundað nám sitt. Þar sem 3. gr. gildandi laga kveður á um að námslán skuli nægja hverjum námsmanni til framfærslu þá er lagt til að bæta inn orðinu „almennur“ fyrir framan orðið „framfærslukostnaður“ til að það sé skýrt að sjóðnum beri ekki skylda til veita lán vegna einstaklingsbundinna útgjalda. Í framkvæmd hefur við útreikning framfærslugrunns verið byggt á grunnviðmiði neysluviðmiða frá félagsmálaráðuneytinu og hann uppreiknaður miðað við hækkun vísitölu neysluverðs frá Hagstofu Íslands á ári hverju. Þá er með staðaruppbót átt við viðbótarlán sem miðast við kostnað vegna nauðsynja (fæði, húsnæði o.fl.) og aðrar sérstakar aðstæður á hverjum stað.
    Í 3. mgr. er fjallað um meginreglu frumvarpsins um skólagjaldalán. Með ECTS-einingum er átt við evrópskt viðurkenningarkerfi fyrir námseiningar (e. European Credit Transfer and Accumulation System). Málsgreinin er ný en í gildandi lögum er hvergi minnst sérstaklega á námslán vegna skólagjalda. Þó er ljóst, bæði af reglum og framkvæmd sjóðsins til margra ára, að skólagjaldalán lúta öðrum sjónarmiðum en framfærslulán. Má þar helst nefna að hámark þeirra hefur lengi verið bundið við tiltekna heildarfjárhæð sem nú er 3.500.000 krónur á Íslandi en fjárhæðirnar eru ólíkar eftir löndum og gefnar upp í gjaldeyri hvers lands fyrir sig. Á hinn bóginn hefur skortur á heimild í lögum til lánveitinga vegna skólagjalda leitt til þess að engar takmarkanir eru á því til hvaða náms er lánað heldur fylgir það almennu lánshæfi vegna framfærsluláns. Þegar lögin voru sett voru einungis opinberir háskólar á Íslandi sem ekki höfðu, og hafa ekki enn, heimild til að innheimta skólagjöld. Lán til skólagjalda voru því fyrst og fremst veitt þeim sem stunduðu nám erlendis og voru mikilvægur þáttur í að veita einstaklingum sem lögin taka til tækifæri til að stunda nám erlendis sem oft á tíðum er mjög dýrt. Þá þykir það mikilvægt fyrir menntunarstig og samkeppnishæfni þjóðarinnar að loka ekki á möguleika námsmanna til að sækja menntun sína til skóla erlendis sem eru viðurkenndir af menntamálayfirvöldum í því landi. Því er heimilt að veita skólagjaldalán vegna náms eins og það er skilgreint í 5., 6. og 7. gr. frumvarpsins. Þá er heimilt að takmarka skólagjaldalán í úthlutunarreglum með sambærilegum reglum og gert er við framfærslulán. Nauðsynlegt þykir að taka það fram þar sem verið er að aðskilja lán vegna framfærslu og skólagjalda í frumvarpi þessu. Ekki er í raun um efnisbreytingu að ræða því samkvæmt núgildandi úthlutunarreglum Lánasjóðsins eru lán vegna skólagjalda takmörkuð að sama leyti og framfærslulán, meðal annars vegna skilyrða um námsframvindu og tekjutengingu. Þessu til viðbótar er veitt heimild til að takmarka skólagjaldalán umfram þær takmarkanir sem gilda um framfærslulán að því er varðar hámark þeirra og lágmarkssjálfsaflafé námsmanns. Með lágmarkssjálfsaflafé er átt við að námsmenn skuli sjálfir greiða tiltekna lágmarksfjárhæð af skólagjöldum án þess að fá fyrir því lán. Slík regla getur bæði verið sem ákveðin krónutala eða sem ákveðið hlutfall af skólagjöldunum. Í úthlutunarreglum Lánasjóðsins hefur lengi verið mælt fyrir um að einungis sé lánað fyrir skólagjöldum umfram ákveðna fjárhæð, sem er nú 75.000 krónur. Er það sama fjárhæð og hámark skrásetningargjalda við opinbera háskóla, sbr. a-lið 2. mgr. 24. gr. laga um opinbera háskóla, nr. 85/2008. Er þessu ákvæði meðal annars ætlað að renna stoðum undir slíka heimild en jafnframt að veita heimild til að námsmenn standi undir tilteknu hlutfalli skólagjalda sjálfir.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að heimilt sé að veita námslán vegna skólagjalda til náms sem er skipulagt sem a.m.k. 45 ECTS-einingar eða ígildi þeirra. Áður var veitt námslán til skólagjalda til náms sem skipulagt var sem 60 ECTS-einingar eða ígildi þeirra en með þessari breytingu þarf námið einungis að vera skipulagt sem 45 ECTS-einingar eða ígildi þeirra. Skilyrðið um að nám skuli hafa verið skipulagt sem a.m.k. 45 ECTS-einingar eða ígildi þeirra hefur verið í úthlutunarreglum frá því í byrjun aldarinnar þegar Háskólinn í Reykjavík byrjaði að kenna „viðskiptafræði með vinnu“. Náminu var dreift á þrjár annir á námsárinu (haust, vor og sumar), var 9 skólaeiningar (svarar til 18 ECTS-eininga í dag) á hverju misseri sem var ekki lánshæfur árangur. Þótt „viðskiptafræði með vinnu“ sé ekki til í dag þá njóta námsmenn í MBA, MPA, á ýmsum námsleiðum við endurmenntunardeildir og öðrum sambærilegum námsleiðum háskólanna góðs af þessari reglu. Hér er því verið að festa í sessi þá undantekningu sem hefur verið í úthlutunarreglum og gera hana að meginreglu.

Um 3. gr.

    Með greininni er skotið lagastoð undir lánaflokka sem Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur lánað til námsmanna í áraraðir. Ekki er gert ráð fyrir breytingu á fyrri framkvæmd hvað þessa lánaflokka varðar. Gert er ráð fyrir að nánari skilyrði fyrir hvern lánaflokk verði sett í úthlutunarreglur.
    Í 1. tölul. 1. mgr. er átt við viðbótarlán til námsmanns sem býr í foreldrahúsum ef tekjur foreldra eða foreldris og sambúðaraðila foreldris, ef því er að skipta, eru undir viðmiðunarmörkum. Slíkt viðbótarlán er veitt námsmönnum vegna húsnæðis eins og þeir væru í leiguhúsnæði eða eigin húsnæði. Viðmiðunarmörk tekna verða sett í úthlutunarreglur en fyrir skólaárið 2019–2020 eru þær kr. 4.070.000 hjá einstæðu foreldri eða kr. 8.140.000 hjá hjónum eða sambúðarfólki.
    Í 2. tölul. 1. mgr. er fjallað um svokallað makalán. Í úthlutunarreglum fyrir skólaárið 2019–2020 er gert ráð fyrir að framfærsla námsmanns í hjúskap eða skráðri sambúð geti hækkað um 50% af grunnframfærslu námsmanns. Tilvik sem hafa hingað til leitt til hækkunar, og ekki er ætlun að breyta þeirri túlkun með frumvarpi þessu, eru meðal annars eftirfarandi:
     1.      Veikindi eða örorka maka samkvæmt læknisvottorði sem sýnir fram á að maki sé óvinnufær með öllu.
     2.      Námsmaður og maki hafa langveikt eða fatlað barn á framfæri sínu og maki starfar ekki utan heimilis vegna umönnunar barnsins. Skilyrði er að barnið hafi lögheimili hjá námsmanni og maka og að læknisvottorði sé framvísað.
     3.      Námsmaður og maki eru búsett erlendis og hafa barn á framfæri sínu og maki á ekki rétt á atvinnuleyfi í námslandinu.
    Ekki er veitt makalán ef maki er sjálfur lánþegi á sömu önn.
    Í 3. tölul. 1. mgr. er átt við aukalán sem samsvarar framfærslu til námsmanns vegna röskunar á stöðu og högum hans. Á þetta t.d. við þegar námsmanni verður, vegna alvarlegra veikinda, örorku sinnar, framfærslu barna sinna eða maka eða af öðrum ástæðum, illmögulegt að stunda nám sitt að fullnýttri lánsheimild. Hafa skal hliðsjón af þeim bótum sem námsmaður fær samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar. Samkvæmt úthlutunarreglum fyrir skólaárið 2019–2020 er heimilt að veita námsmanni sérstakt lán vegna aukaferðar ef námsmaður þarf skyndilega að fara heim vegna alvarlegra veikinda eða andláts nánustu aðstandenda. Nauðsynlegt er að leggja fram nákvæmar upplýsingar um ástæður ferðar ásamt viðeigandi læknis- eða dánarvottorði. Til nánustu aðstandenda skulu t.d. teljast maki, börn og foreldrar námsmanns, systkini námsmanns og börn þeirra. Ef slíkt aukalán er veitt greiðist það út með framfærsluláni. Ekki er gert ráð fyrir breytingu þar á.
    Í 4. tölul. 1. mgr. er heimild til viðbótarláns til námsmanna sem greiða háar sjúkratryggingar. Við mat á hæfilegum kostnaði vegna sjúkratrygginga eru upplýsingar frá íslensku tryggingafélögunum hafðar til hliðsjónar. Í úthlutunarreglum fyrir skólaárið 2019–2020 er mælt fyrir um að veitt lán vegna sjúkratrygginga er einungis fyrir þeim hluta sem er umfram 5% af grunnframfærslu að teknu tilliti til fjölskyldustærðar og búsetu en þó að því hámarki sem kveðið er á um í úthlutunarreglum. Heimilt er að veita aukalán vegna sjúkrakostnaðar erlendis sem námsmaður hefur að hluta til fengið endurgreiddan hjá Sjúkratryggingum Íslands. Við afgreiðslu slíkrar umsóknar skal tekið tillit til þess hvort námsmaður hafi keypt hefðbundnar sjúkratryggingar. Heimilt er að veita lán til greiðslu hefðbundins kostnaðar vegna mæðraskoðunar og ungbarnaeftirlits erlendis ef ljóst er að hvorki tryggingaraðili námsmannsins né viðkomandi sveitarfélag á Íslandi taki þátt í greiðslu kostnaðar. Einnig er heimilt á námstíma að veita lán til greiðslu ferðakostnaðar ef barnshafandi námsmaður eða maki námsmanns erlendis kýs, vegna óhóflegs kostnaðar erlendis, að fæða barn á Íslandi. Óheimilt er að taka tillit til sjúkrakostnaðar sem Sjúkratryggingar Íslands hefur synjað að greiða. Með frumvarpi þessu er ekki gert ráð fyrir breytingu á framangreindri framkvæmd.
    Í 5. tölul. 1. mgr. er heimild til að greiða svokölluð ferðalán út til námsmanna. Lán vegna ferðakostnaðar miðast við ákveðna upphæð sem er mismunandi eftir námslandi og námssvæði. Ferðalán greiðist út með framfærsluláni til þeirra sem hafa uppfyllt skilyrði sjóðsins um lágmarks námsframvindu.
    Ákvæði 2. mgr. fjallar um heimild til að setja reglur um nánari framkvæmd 1. mgr. og er upptalning í ákvæðinu ekki tæmandi.

Um 4. gr.

    Ákvæði 1. mgr. er samhljóða 3. mgr. 6. gr. gildandi laga en þar kemur fram að námsmenn skulu að jafnaði hafa heimild til að taka lán á hverju misseri meðan þeir eru við nám, þó ekki lengur en sem nemur hæfilegum námstíma í þeirri grein og í þeim skóla þar sem nám er stundað.
    Til að styrkja lagastoð og uppfylla þá grundvallarreglu réttarríkisins að reglur skuli vera skýrar, stöðugar og aðgengilegar var ákveðið að skilgreina betur heimildir til að setja í úthlutunarreglur hver sé lánsréttur námsmanna sem falla undir þetta frumvarp. Í ákvæðinu er lagt til að lánsréttur lánþega sé fyrir 420 ECTS-einingum eða ígildi þeirra.
    Miðað við núverandi mat á forsendum frumvarpsins er miðað við að fullt nám sé 60 ECTS-einingar eða ígildi þeirra á hverju skólaári eða a.m.k. 30 ECTS-einingar eða ígildi þeirra á hverju misseri í þeim tilvikum þegar námsskipulagið nær ekki yfir heilt skólaár. Gert er ráð fyrir að námsmenn eigi rétt á láni fyrir 180 ECTS-einingum eða ígildi þeirra í grunnnámi og/eða aðfaranámi, starfsnámi, viðbótarnámi við framhaldsskóla og 120 ECTS-einingum í meistaranámi. Þá eigi hver námsmaður rétt á láni fyrir 120 ECTS-einingum eða ígildi þeirra til viðbótar að eigin vali á grunn- og meistarastigi.
    Í 3. mgr. kemur fram að heimilt sé að veita námslán vegna doktorsnáms fyrir 60 ECTS-einingum og er það í samræmi við núverandi framkvæmd.
    Skipting lánsréttar er ekki útfærð í frumvarpstextanum til að tryggja meiri sveigjanleika í þágu námsmanna fyrir ráðherra í samráði við Menntasjóðinn til að ákveða með hvaða hætti best sé að haga lánsrétti í samræmi við áherslur stjórnvalda á hverjum tíma.

Um 5. gr.

    Í 1. mgr. er mælt fyrir um að námslán séu veitt til náms sem lýkur með prófgráðu á háskólastigi við viðurkenndan háskóla á Íslandi. Er þetta önnur aðferðafræði en finna má í gildandi lögum en þar er lánshæfi náms miðað við þær kröfur sem gerðar eru til undirbúningsmenntunar fyrir viðkomandi nám. Samkvæmt lögunum þurfa kröfurnar að vera sambærilegar við þær sem gerðar eru til undirbúningsmenntunar þeirra sem vilja stunda nám við háskóla hér á landi, með þeirri undantekningu sem kemur fram í 2. málsl. 2. mgr. 1. gr. laganna. Í þessu frumvarpi er lagt til að líta verði til námsins sjálfs við ákvörðun um hvort það teljist lánshæft og þurfa því hvort tveggja skólinn sem slíkur og námsleiðin að vera viðurkennd. Í samræmi við íslenska menntastefnu munu kröfur til háskólanáms taka mið af því sem sett er fram í samningi Evrópuráðsins og UNESCO um viðurkenningu á vitnisburði um æðri menntun á Evrópusvæðinu (Lissabon-samningnum um gagnkvæma viðurkenningu, 1997) og viðauka við hann sem og öðrum alþjóðlegum samningum um viðurkenningu náms á háskólastigi sem Ísland er aðili að.
    Með 2. mgr. er háskólanám erlendis einnig gert lánshæft, svo fremi sem það er viðurkennt af menntamálayfirvöldum landsins og teljist uppfylla þau skilyrði sem að framan er lýst vegna 1. mgr. Er hér ekki um neina efnisbreytingu að ræða frá núverandi framkvæmd þegar metið er hvort nám erlendis er lánshæft.
    Í 3. mgr. er skýrt kveðið á um að nám sem er skipulagt með vinnu sé ekki lánshæft til framfærslu. Hingað til hefur verið veitt lán fyrir skólagjöldum vegna náms með vinnu og þannig vikið frá þeirri meginreglu að lán sé lánshæft ef það er skipulagt sem fullt nám í kennsluskrá skóla eða 60 ECTS-einingar eða ígildi þeirra á hverju skólaári. Með þessu frumvarpi er lögð til breyting á þeirri framkvæmd og nú verða veitt lán fyrir skólagjöldum ef nám er skipulagt sem a.m.k. 45 ECTS-einingar eða ígildi þeirra á hverju skólaári.

Um 6. gr.

    Í 1. mgr. er tilgreint að áfram verði veitt námslán vegna aðfaranáms, allt að 60 framhaldsskólaeiningum, sé námið skipulagt af viðurkenndum háskóla og samþykkt af ráðherra, óháð því hvort námið fer fram innan háskóla eða innan viðurkennds skóla á framhaldsskólastigi á grundvelli samnings við viðurkenndan háskóla. Með stöðluðum framhaldsskólaeiningum er átt við að að baki hverri einingu liggi því sem næst jafnt vinnuframlag námsmanns. Eitt námsár sem mælir alla ársvinnu námsmanns með fullnaðarárangri veitir 60 einingar. Er þá miðað við að árlegur fjöldi vinnudaga námsmanna sé að lágmarki 175 dagar, sbr. 15. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008.
    Ákvæðið er samhljóða 2. mgr. 1. gr. gildandi laga. Aðfaranám og viðurkenning þess sem lánshæft nám hjá Menntasjóðnum gefur ákveðnum hópi einstaklinga aukin tækifæri til að afla sér frekari menntunar. Eitt helsta sjónarmiðið að baki lánshæfi aðfaranáms er að samsetning námsmanna í því námi sé ólík því sem er í hefðbundnu námi á framhaldsskólastigi. Námsmenn eru eldri og koma oftast nær til námsins úr atvinnulífinu. Aðfaranám er skipulagt af háskólum til eins árs og það ásamt starfsreynslu námsmanns myndar brú til náms við viðkomandi háskóla. Slíkir námsmenn eru yfirleitt virkir á vinnumarkaði og líklegir til að hafa fjárhagslegar skuldbindingar. Þess vegna má telja að umræddir námsmenn eigi erfitt með að hætta vinnu og fara í nám sem ekki er lánshæft. Aðfaranám er ekki ígildi stúdentsprófs og veitir einungis aðgang að þeim háskólum sem skipuleggja námið nema háskólar þeir sem bjóða upp á aðfaranám hafi gert samninga um annað.
    Með samþykki ráðherra í frumvarpsgreininni er vísað til 4. mgr. 19. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006, en þar kemur fram að háskólum sé heimilt, að fengnu samþykki ráðuneytisins, að bjóða upp á aðfaranám fyrir einstaklinga sem ekki uppfylla inntökuskilyrði í háskóla.
    Í 2. mgr. má finna nýmæli en með ákvæðinu er verið að taka af allan vafa um að aðfaranám erlendis sé lánshæft.
    Í 3. mgr. er Menntasjóðnum gefin heimild til að veita lán til tungumálanáms ef það er nauðsynlegur undirbúningur fyrir lánshæft nám í landi þar sem annað tungumál en enska og Norðurlandamál (annað en finnska) er talað. Einungis er veitt lán einu sinni til undirbúningsnáms í tungumálum. Áður en lán vegna undirbúningsnáms í tungumálum er afgreitt að fullu þarf að liggja fyrir staðfesting á inngöngu í lánshæft nám á sama tungumálasvæði.
    Í 4. mgr. er skýrt kveðið á um að nám sem leiðir til stúdentsprófs sé ekki lánshæft hjá Menntasjóðnum. Nauðsynlegt þykir að árétta að bóknám til stúdentsprófs er ekki lánshæft.

Um 7. gr.

    Í 7. gr. er að finna nýmæli. Í 2. gr. gildandi laga er sérstaklega veitt heimild til sjóðstjórnar til að lána til sérnáms. Sérnám er ekki frekar útskýrt í lögunum en það hefur verið skilgreint í úthlutunarreglum Lánasjóðsins sem löggilt iðnnám og annað starfsnám á framhaldsskólastigi á Íslandi sem varir í a.m.k. eitt ár og hefur hlotið staðfestingu ráðherra samkvæmt lögum um framhaldsskóla og uppfyllir jafnframt önnur skilyrði.
    Í frumvarpinu er farin sú leið að skilgreina sérnám betur í lögum og þá litið til sambærilegrar löggjafar annars staðar á Norðurlöndum sem og gildandi úthlutunarreglna Lánasjóðsins. Notast er við orðalagið starfsnám á framhaldsskólastigi í stað sérnáms. Talið er að með þeim hætti sé skýrð betur orðanotkun sem hefur valdið misskilningi. Með starfsnámi á framhaldsskólastigi í frumvarpi þessu er átt við nám á framhaldsskólastigi sem hlotið hefur staðfestingu ráðherra samkvæmt lögum um framhaldsskóla og fer að verulegum hluta fram á verklegan hátt. Námsgreinar sem heyra undir starfsgreinaráð eru dæmi um námsgreinar sem falla undir þessa skilgreiningu en einnig listnám sem felur í sér sérhæfingu til ákveðinna starfa.
    Með viðbótarnámi við framhaldsskóla er átt við nám sem er skilgreint í 20. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, en þar er fjallað um nám sem stundað er í framhaldi af skilgreindum námslokum á framhaldsskólastigi. Í slíku námi eru almennt gerð þau inntökuskilyrði að umsækjandi hafi lokið framhaldsskólaprófi eða öðru tilgreindu prófi á framhaldsskólastigi. Með samþykkt laga um framhaldsskóla var lagastoð sett fyrir námi sem skilgreint er í framhaldi af námi á framhaldsskólastigi en fellur þó ekki að skipulagi náms á háskólastigi. Sérhæft nám í framhaldi af starfsnámi er oft nefnt í þessu sambandi. Slíkt nám mundi þannig almennt teljast á æðra hæfnisþrepi en annað sérnám á framhaldsskólastigi en þó gæti það ekki talist til háskólanáms.
    Bæði starfsnám á framhaldsskólastigi og viðbótarnám við framhaldsskóla þurfa að hafa hlotið staðfestingu ráðherra samkvæmt lögum um framhaldsskóla. Er með því átt við staðfestingu ráðherra á viðkomandi námsbrautarlýsingu, sbr. einkum 17., 20. og 23. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008.
    Til viðbótar framangreindu koma fram í 1.–3. tölul. 1. mgr. skilyrði sem námið þarf að uppfylla. Skilyrðin sem finna má í 1. mgr. eru sambærileg við gildandi úthlutunarreglur Lánasjóðsins. Námið þarf að hafa fengið samþykki frá viðkomandi starfsgreinaráði, ef við á. Námslok skulu vera á a.m.k. þriðja hæfnisþrepi og að lokum er það gert að skilyrði að námið sé ekki kennt á háskólastigi hér á landi. Ástæða þessa skilyrðis er í raun þau grunnrök sem liggja að baki því að lánað er í tiltekið framhaldsskólanám, þ.e. að verið sé að veita jöfn tækifæri til bóknáms og starfsnáms. Ekki er lánað til bóknáms í framhaldsskóla en lána skal til bóknáms sé það hluti af starfsnámi samkvæmt þessari grein.
    Í 2. mgr. er skilyrði þess efnis að skólinn hafi hlotið viðurkenningu ráðherra til kennslu á framhaldsskólastigi samkvæmt lögum um framhaldsskóla. Er hér um nýmæli í lögum að ræða en skilyrði þetta hefur verið í úthlutunarreglum Lánasjóðsins í langan tíma. Með viðurkenningu ráðherra til kennslu á framhaldsskólastigi er átt við 12. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008, en þar kemur fram að ráðherra geti veitt skólum viðurkenningu til kennslu á framhaldsskólastigi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
    Í 3. mgr. er kveðið á um lánveitingar til sambærilegs náms erlendis enda sé það viðurkennt af þarlendum menntamálayfirvöldum. Tilgangur ákvæðisins er að mismuna ekki námsmönnum eftir því hvar þeir sækja nám sitt og er það því sambærilegt 2. mgr. 5. gr. og 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Eins og í þeim greinum er erfitt að setja fram skilyrði í íslenskri löggjöf vegna náms erlendis og er því farin sú leið að krefjast sambærilegra skilyrða og vegna starfsnáms og viðbótarnáms við framhaldsskóla hérlendis eins og við getur átt. Það er þó ljóst að sum skilyrði í 1. mgr. greinarinnar geta ekki átt við og verður Menntasjóðurinn þá að líta þeirra meginmarkmiða sem koma fram í málsgreinunum.

Um 8. gr.

    Í 8. gr. frumvarpsins er kveðið á um almenn skilyrði sem allir námsmenn þurfa að uppfylla til að eiga rétt á námsaðstoð samkvæmt frumvarpinu. Nýmæli er að finna í 4. tölul. ákvæðisins en að öðru leyti felur ákvæðið ekki í sér breytingar frá núverandi framkvæmd. Með námsaðstoð er átt við námslán, styrk vegna framfærslu barna, niðurfellingu á hluta námslána við námslok og ýmsar ívilnanir.
    Í 4. tölul. ákvæðisins er að finna það skilyrði fyrir veitingu námsaðstoðar að umsækjandi um námsaðstoð sé ekki í vanskilum við sjóðinn. Í núverandi úthlutunarreglum Lánasjóðsins er að finna skilyrði þess efnis að ekki séu veitt lán til einstaklinga sem eru í vanskilum við sjóðinn. Skilyrðið er í samræmi við almenna framkvæmd á lánamarkaði. Til að auka gagnsæi og skýrleika þótti rétt að telja þetta atriði upp með öðrum almennum skilyrðum námsaðstoðar. Ef sjóðurinn hefur áður þurft að afskrifa lán gagnvart einstaklingi, t.d. vegna gjaldþrots, hefur lán ekki verið veitt aftur til sama einstaklings nema viðkomandi útvegi ábyrgð til tryggingar endurgreiðslu.

Um 9. gr.

    Í 9. gr. er tekið fram hverjir eigi rétt á námsaðstoð vegna náms á Íslandi.
    Í 1. mgr. eru talin upp skilyrði sem námsmenn verða að uppfylla til þess að eiga rétt á námsaðstoð vegna náms á Íslandi. Námsmenn verða að uppfylla almenn skilyrði 8. gr. ásamt einu af skilyrðum 1. mgr. 9. gr.
    Í 1. tölul. er kveðið á um rétt íslenskra ríkisborgara til námsaðstoðar. Með þessu ákvæði er réttur til náms á Íslandi rýmkaður þannig að ekki er lengur krafist, til viðbótar við íslenskan ríkisborgararétt, að umsækjandi um námslán hafi verið við launuð störf í ákveðinn tíma eða búið hér á landi. Íslenskur ríkisborgararéttur dugir einn og sér til að fá námsaðstoð vegna náms hér á landi, að því tilskildu að umsækjandi uppfylli skilyrði 8. gr. frumvarpsins sem og önnur skilyrði frumvarpsins og reglna sem settar eru með stoð í frumvarpinu.
    Í 2. tölul. er tekið upp ákvæði sem hefur verið í úthlutunarreglum Lánasjóðsins í langan tíma. Reglan byggir á samstarfssamningi milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar sem undirritaður var í Helsinki 23. mars 1962. Samningurinn var staðfestur af Íslands hálfu 29. júní og tók gildi 1. júlí 1962. Samningurinn var birtur í C-deild Stjórnartíðinda 14. ágúst 1962. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á samningnum. Hér hefur sérstaka þýðingu samkomulag sem gert var í september 1995 um breytingar á samningnum sem samþykktar voru með þingsályktun 13. desember 1995 og birtar í C-deild Stjórnartíðinda 25. janúar 1999. Með þessum breytingum var tekið upp almennt jafnræðisákvæði í 1. mgr. 2. gr. samningsins. Í ákvæðinu er kveðið á um að við setningu laga og annarra réttarreglna á Norðurlöndunum eigi að gæta jafnræðis milli ríkisborgara viðkomandi lands og annarra norrænna ríkisborgara. Þá er tekið fram í 2. mgr. 2. gr. samningsins að þetta eigi við um þau svið sem samstarfssamningurinn tekur til. Umboðsmaður Alþingis hefur áréttað að samningurinn taki til námslána og réttar manna til þeirra, sbr. álit umboðsmanns Alþingis nr. 3042/2000 og 1805/1996. Skv. 2. tölul. gilda sömu skilyrði um rétt íslenskra og norrænna ríkisborgara til námsaðstoðar hér á landi. Sama leið er farin í 10. gr. þessa frumvarps, en samkvæmt henni eiga íslenskir og norrænir ríkisborgarar rétt á námsaðstoð vegna náms erlendis að uppfylltum sömu skilyrðum. Með þessu er komið til móts við þær þjóðréttarlegu skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist með samþykki og staðfestingu samstarfssamningsins.
    Í 3. tölul. er kveðið á um rétt til námsaðstoðar fyrir ríkisborgara EES- eða EFTA-ríkja sem eru launþegar eða sjálfstætt starfandi hér á landi meðan á námi stendur eða halda stöðu sinni sem slíkir. Með launþega eða sjálfstætt starfandi einstaklingi er átt við skilgreiningu samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Réttindi launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga innan EES og afnám hindrana á frjálsri för þeirra skv. 28. og 31. gr. EES-samningsins eru nánar útfærð í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 492/2011 um frjálsa för launafólks innan Evrópusambandsins sem var lögfest hér á landi með lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 105/2014, og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/38/EB um rétt borgara Evrópusambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna. Í 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 492/2011 er kveðið á um að launþegar og sjálfstætt starfandi einstaklingar skuli njóta sömu félagslegu réttinda og skattaívilnana og innlent launafólk. Skv. 3. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar skulu þeir jafnframt njóta sama réttar og hafa aðgang með sömu skilyrðum og innlent launafólk að þjálfun og skólum er veita starfsmenntun eða endurmenntun. Námsaðstoð hefur í dómaframkvæmd dómstóls Evrópusambandsins verið talin til félagslegra réttinda í þessum skilningi og háskólar til menntastofnana sem veita starfsmenntun, sbr. mál nr. C-542/09, 34. mgr., C-20/12, 38. mgr., og C-238/15, 40. mgr. Í 1. mgr. 24. gr. tilskipunar 2004/38/EB er jafnframt kveðið á um að allir EES-borgarar og aðstandendur þeirra, sem dvelja á grundvelli tilskipunarinnar á yfirráðasvæði gistiaðildarríkis, skuli sæta sömu meðferð og ríkisborgarar þess aðildarríkis innan gildissviðs sáttmálans. Í 2. mgr. 24. gr. tilskipunarinnar er þó tekið fram að þrátt fyrir 1. mgr. beri gistiaðildarríkinu ekki skylda til, áður en réttur til ótímabundinnar dvalar er fenginn, að veita framfærsluaðstoð vegna náms, þ.m.t. vegna starfsnáms, í formi námsstyrkja eða námslána til annarra einstaklinga en launþega, sjálfstætt starfandi einstaklinga, einstaklinga sem halda þeirri stöðu og aðstandenda þeirra. Af þessum reglum leiðir, samkvæmt dómaframkvæmd dómstólsins, að EES-borgarar sem eru launþegar eða sjálfstætt starfandi eða halda þeirri stöðu eiga rétt til námsaðstoðar til jafns við ríkisborgara gistiaðildarríkisins, sbr. mál nr. C-46/12, 51. mgr. Jafnframt hefur dómstóllinn staðfest að framangreindar reglur banni bæði beina og óbeina mismunun, sbr. mál nr. C-542/09, 55. mgr., sérstaklega á grundvelli skilyrða sem auðveldara er fyrir ríkisborgara gistiaðildarríkisins að uppfylla en annarra EES-borgara, sbr. dóm EFTA-dómstólsins í máli nr. E-3/05, 55.–56. mgr.
    Sviss er ekki aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið en hefur á grundvelli tvíhliða samninga gengist undir reglurnar um frjálsa för fólks og því gilda sömu reglur að þessu leyti um svissneska ríkisborgara. Af þeim sökum tekur ákvæðið jöfnum höndum til EES- og EFTA-borgara. Rétt er að taka fram að íslenskir ríkisborgarar geta byggt rétt sinn á ákvæðum frumvarpsins sem EES-borgarar, að uppfylltum öðrum skilyrðum. Til þess að einstaklingur teljist launþegi eða sjálfstætt starfandi í framangreindum skilningi hefur verið viðurkennt í dómaframkvæmd Evrópudómstólsins að til staðar þurfi að vera launþegasamband sem einkennist af því að einstaklingur láti af hendi þjónustu fyrir og undir leiðsögn annars aðila í tiltekin tíma gegn endurgjaldi, sbr. mál nr. C-23/08, 26. mgr., og C-46/12 , 40. mgr . Þá er það einnig viðurkennt að þegar vinnuframlag viðkomandi er virkt og raunverulegt sé um launþega að ræða. Með þessu eru undanskilin þau tilfelli þar sem vinnuframlag er óverulegt og án sjálfstæðs tilgangs. Dómstóllinn hefur jafnframt kveðið á um að mat á vinnuframlagi og launþegasambandi viðkomandi þurfi að vera heildstætt, sbr. mál nr. C-14/09, 26. mgr. Það að einstaklingur sé í hlutastarfi eða vinni sér inn tekjur sem eru undir lágmarksframfærsluviðmiði kemur eitt og sér ekki í veg fyrir að vinnuframlag hans verði metið sem virkt og raunverulegt. Jafnvel þótt launþegi starfi ekki lengur en í 12 eða 10 tíma á viku útilokar það hann ekki frá því að teljast launþegi svo lengi sem um launþegasamband er að ræða þar sem hann lætur af hendi raunverulegt vinnuframlag sem hefur sjálfstæðan tilgang, sbr. mál nr. C-444/93, 18. mgr., og C-213/05, 27. mgr. EES- eða EFTA-borgari sem hættir að vera launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur heldur stöðu sinni sem slíkur við þær aðstæður sem taldar eru upp í 3. mgr. 7. gr. tilskipunar 2004/38/EB, sbr. einnig 3. mgr. 84. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016. Einstaklingur sem heldur stöðu sinni með þeim hætti á sama rétt og launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur skv. 2. mgr. 24. gr. tilskipunarinnar.
    Í 4. tölul. er fjallað um rétt aðstandenda ríkisborgara skv. 3. tölul. til námsaðstoðar. Skv. 2. mgr. 24. gr. tilskipunar 2004/38/EB njóta aðstandendur ríkisborgara EES- eða EFTA-ríkis, sem eru launþegar eða sjálfstætt starfandi eða halda þeirri stöðu sinni, þeirra réttinda sem nánar eru rakin í umfjöllun um 3. tölul. Hugtakið aðstandandi í þessum skilningi er skilgreint í 2. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar, sbr. einnig 2. mgr. 2. gr. laga um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 105/2014. Aðstandandi ríkisborgara EES- eða EFTA-ríkis telst vera maki hans, sambúðarmaki eða samvistarmaki, niðji hans og/eða maka hans ef niðjinn er yngri en 21 árs eða á þeirra framfæri og ættmenni hans eða maka hans, í beinan legg, sem er á framfæri þeirra. Þá er jafnframt kveðið á um rétt barna ríkisborgara EES- eða EFTA-ríkis, sem eru launþegar, til almennrar menntunar, náms á námssamningi og starfsþjálfunarnámskeiðum í því ríki sem foreldri þess starfar í 10. gr. reglugerðar nr. 492/2011, sbr. lög nr. 105/2014. Þann 19. júlí 2006 gaf Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) út rökstutt álit þar sem fram kom að búsetuskilyrði 3. og 4. mgr. 13. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, fyrir aðgangi að námslánum fæli í sér óbeina mismunun gagnvart launþegum og sjálfstætt starfandi einstaklingum og fjölskyldum á framfæri þeirra og teldist þar með brot gegn 2. mgr. 28. gr. og 31. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og 2. mgr. 7. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1612/68 um frelsi launþega til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins. Greininni í lögum nr. 21/1992 var breytt með lögum nr. 89/2008 vegna athugasemda ESA. ESA gerði auk þess athugasemdir með bréfi þann 27. nóvember 2013 þar sem áréttað var að óheimilt væri að setja umræddum launþegum og/eða sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra búsetuskilyrði. Heimilt væri að setja búsetuskilyrði sem hluta af mögulegum skilyrðum sem námsmenn þyrftu að uppfylla en ekki sem eina skilyrðið. ESA þótti þar að auki að orðalagið í reglugerð um Lánasjóð íslenskra námsmanna nr. 478/2011 um barn launþega eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á EES-svæðinu eða maka hans þrengdi rétt til námslána um of. Sökum þess er orðið „aðstandandi“ haft í stað orðanna ,,barn“ og ,,maki“ í þessu frumvarpi.
    Í 5. tölul. er fjallað um rétt ríkisborgara EES- eða EFTA-ríkis, sem hafa öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar hérlendis skv. 87. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, til námsaðstoðar. Skv. 2. mgr. 24. gr. tilskipunar 2004/38/EB ber gistiaðildarríki ekki skylda til, áður en réttur til ótímabundinnar dvalar er fenginn, að veita framfærsluaðstoð vegna náms, þ.m.t. starfsnáms, í formi námsstyrkja eða námslána til annarra einstaklinga en launþega, sjálfstætt starfandi einstaklinga, einstaklinga sem halda þeirri stöðu og aðstandenda þeirra. Aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið ber samkvæmt framangreindu að veita slíka aðstoð til ríkisborgara EES- eða EFTA-ríkis sem hafa öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar í ríkinu. Af þessu leiðir að EES- eða EFTA-launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur sem hættir störfum og viðheldur ekki stöðu sinni sem slíkur á ekki rétt á námsaðstoð ef viðkomandi hefur ekki öðlast rétt til ótímabundinnar dvalar á Íslandi.
    Í 6. tölul. er kveðið á um rétt aðstandenda ríkisborgara skv. 5. tölul. til námsaðstoðar. Réttur þeirra leiðir af 2. mgr. 24. gr. tilskipunar 2004/38/EB. Um skilgreiningu á hugtakinu aðstandandi og skýringu 6. tölul. að öðru leyti vísast til umfjöllunar um 4. tölul.
    Í 7. tölul. er kveðið á um að námsmaður sem er erlendur ríkisborgari og er í hjúskap eða skráðri sambúð með íslenskum ríkisborgara um tveggja ára skeið öðlist rétt til námsaðstoðar þegar viðkomandi hefur átt lögheimili á Íslandi í að lágmarki tvö ár af síðastliðnum fimm árum áður en námið hefst. Með skráðri sambúð er átt við sambúð tveggja einstaklinga sem skráð er í þjóðskrá skv. 3. mgr. 5. gr. laga um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018.
    Í 8. tölul. er kveðið á um það nýmæli að námsmaður sem hefur dvalarleyfi hér á landi sem flóttamaður á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, eigi rétt á námsaðstoð.
    Í 9. tölul. er fjallað um rétt námsmanna sem hafa ótímabundið dvalarleyfi hér á landi skv. 58. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, til námsaðstoðar.
    Í 2. mgr. er að finna heimild til að kveða nánar á um skilyrði fyrir námsaðstoð vegna náms á Íslandi í úthlutunarreglum, t.d. um nánari skilgreiningu á launþega eða sjálfstætt starfandi einstaklingi og aðstandendum þeirra.

Um 10. gr.

    Í 10. gr. er tekið fram hverjir eigi rétt á námsaðstoð vegna náms erlendis, þ.e. utan Íslands.
    Í 1. mgr. eru talin upp skilyrði sem námsmenn verða að uppfylla til að eiga rétt á námsaðstoð vegna náms erlendis. Námsmenn verða að uppfylla almenn skilyrði 8. gr., eitt af skilyrðum 1. mgr. 9. gr. og bæði skilyrðin sem koma fram í 1. mgr. 10. gr., sbr. þó 3. mgr. 10. gr. Þetta felur í sér að allir þeir sem uppfylla skilyrði 1. mgr. 9. gr. til námsaðstoðar á Íslandi eiga rétt á námsaðstoð erlendis að uppfylltum skilyrðum 10. gr. Skilyrðin sem námsmaður þarf að uppfylla eru sambærileg þeim skilyrðum sem finna má á Norðurlöndunum, einkum í Svíþjóð. Þeim er ætlað að auka líkurnar á því að menntun viðkomandi muni skila sér til íslensks samfélags.
    Í 1. tölul. er það gert að skilyrði fyrir rétti til aðstoðar vegna náms erlendis að námsmaður hafi búið á Íslandi að lágmarki tvö ár af síðastliðnum fimm árum áður en nám hefst. Búseta námsmanns þarf ekki að hafa verið samfelld á tímabilinu heldur nægir að samtals hafi hún varað í tvö ár. Tímamarkið sem miða skal við er þegar nám hefst, þ.e. upphaf þess misseris sem sótt er um aðstoð vegna. Námsmaður sem byggir rétt sinn til námsaðstoðar á 3.–6. tölul. 1. mgr. 9. gr. vegna náms innan Evrópska efnahagssvæðisins er þó undanþeginn þessu skilyrði, sbr. 3. mgr.
    Í 2. tölul. er það gert að skilyrði fyrir rétti til aðstoðar vegna náms erlendis að námsmaður hafi sterk tengsl við íslenskt samfélag að mati Menntasjóðs námsmanna. Gert er ráð fyrir því að meta þurfi hverju sinni hvort umsækjandi um námsaðstoð hafi slík tengsl. Samkvæmt dómaframkvæmd dómstóls Evrópusambandsins er heimilt að skilyrða rétt EES-borgara til aðstoðar vegna náms að nemandi hafi ákveðin tengsl við íslenskt samfélag til þess að koma í veg fyrir að innkoma þeirra valdi erfiðleikum í námslánakerfi viðkomandi lands, sbr. mál nr. C-209/09 Bidar og mál nr. C-158/07 Förster. Í tilviki efnahagslega óvirkra EES-borgara getur tími sem námsmaður hefur búið á Íslandi, fjölskyldutengsl eða færni í íslensku verið til marks um hversu sterk tengslin eru við íslenskt samfélag. Hvað varðar einstaklinga sem falla undir 3. og 4. tölulið 1. mgr. 9. gr. frumvarpsins sýnir þátttaka á vinnumarkaði hér á landi fullnægjandi tengsl við íslenskt samfélag, sbr. mál nr. C-542/09.
    Í 2. mgr. eru talin upp atriði sem líta skal til við mat á því hvort námsmaður teljist hafa sterk tengsl við íslenskt samfélag í skilningi 2. tölul. 1. mgr. Við matið skal meðal annars líta til ríkisborgararéttar námsmanns, þess tíma sem námsmaður hefur búið eða starfað á Íslandi og fjölskyldutengsla hans á Íslandi. Atriðin sem talin eru upp í ákvæðinu sem koma til skoðunar við mat á tengslum við íslenskt samfélag eru ekki tæmandi. Sem dæmi myndu tengsl námsmanns við íslenskt samfélag verða talin sterkari eftir því sem viðkomandi hefur búið eða starfað lengur á landinu og eftir því sem fjölskyldutengsl eða færni í íslensku er meiri. Ekki er þó gerð krafa um að námsmaður uppfylli öll framangreind atriði. Þannig getur námsmaður t.d. uppfyllt skilyrðið um sterk tengsl við íslenskt samfélag þó viðkomandi hafi engin fjölskyldutengsl hér á landi, hafi viðkomandi nægileg tengsl að öðru leyti. Um heildstætt mat þarf að vera að ræða í hverju tilviki fyrir sig.
    Samkvæmt 3. mgr. eru námsmenn sem byggja rétt sinn til námsaðstoðar á 3.–6. tölul. 1. mgr. 9. gr. undanþegnir skilyrði 1. tölul. 1. mgr. vegna náms innan Evrópska efnahagssvæðisins. Um er að ræða ríkisborgara EES- eða EFTA-ríkis og aðstandendur þeirra, sbr. umfjöllun um 9. gr. Með ákvæðinu er þess gætt að hreyfanleiki þeirra innan Evrópska efnahagssvæðisins sé ekki takmarkaður um of. Undanþágan tekur eingöngu til náms í EES- eða EFTA-ríki og því þurfa þessir námsmenn að uppfylla skilyrði 1. tölul. 1. mgr. um búsetu á Íslandi vegna náms utan EES- eða EFTA-ríkis. Ákvæðið er sambærilegt þeim reglum sem finna má á Norðurlöndunum, einkum í Svíþjóð.
    Í 4. mgr. er að finna heimild til að kveða nánar á um skilyrði fyrir námsaðstoð vegna náms erlendis í úthlutunarreglum, t.d. um mat á tengslum við íslenskt samfélag.

Um 11. gr.

    Ákvæði 1. mgr. er að mestu samhljóða 2. mgr. 14. gr. gildandi laga en því til viðbótar kemur fram að sækja þurfi um námslán innan umsóknarfrests sem tilgreindur er í úthlutunarreglum.
    Ákvæði 2.–5. mgr. eru samhljóða 5.–7. mgr. 6. gr. gildandi laga. Þar er kveðið á um að í stað undirritunar nýs skuldabréfs fyrir hverja lántöku undirriti lánþegar eitt skuldabréf í upphafi náms og fái lán út á það. Við námslok eru teknar saman þær fjárhæðir sem viðkomandi lánþegi hefur fengið í lán á námstímanum og ritað inn á skuldabréfið. Ekki verður gerð breyting hér á. Með undirritun í frumvarpi þessu er jafnframt átt við rafræna undirritun. Skuldabréf sem lánþegar undirrita við upphaf náms skulu vera verðtryggð og endurgreiðslutími skal vera háður lánsupphæð skv. 20. gr. frumvarpsins. Við námslok velur lánþegi með hvaða hætti endurgreiðslum skuli hagað í samræmi við VI. kafla frumvarpsins. Upplýsi lánþegi Menntasjóðinn ekki um val sitt mun endurgreiðsla miðast við að námslánið sé verðtryggt og endurgreiðslutími háður lánsupphæð skv. 20. gr. frumvarpsins.
    Almennt verður ekki gerð krafa um að lánþegar leggi fram tryggingar í formi ábyrgðar eða fasteignaveðs nema í tilvikum þar sem viðkomandi telst ekki tryggur lánþegi samkvæmt nánari fyrirmælum í úthlutunarreglum, eins og verið hefur. Þetta gæti t.d. átt við þegar lánþegi er á vanskilaskrá eða bú hans hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Í ljósi núverandi framkvæmdar þótti eðlilegast að ábyrgðamenn, skyldi til þess koma, gangist í ábyrgð fyrir lánþega með sömu skilmálum og námslán lánþega er með, allt að tiltekinni fjárhæð. Hafi lánþegi valið tekjutengda afborgun námslána skal áfram miða við tekjur lánþega, skyldi ábyrgðamaður gangast í ábyrgð. Með þessum hætti er ekki nauðsynlegt að gjaldfella allt lánið, skyldi til þess koma, heldur getur ábyrgðarmaður tekið við ábyrgð á greiðslu lánsins með sama hætti og lánþegi hefði ella gert. Þetta fyrirkomulag er í samræmi við þau sjónarmið sem markmið frumvarps þessa byggir á.
    Lög um ábyrgðarmenn, nr. 32/2009, gilda áfram um ábyrgðarmenn námslána. Til viðbótar má finna nýmæli um að ábyrgð ábyrgðarmanns á námslánum falli niður við andlát hans enda sé lánþegi í skilum við Menntasjóðinn. Miðað er við að lánþegi sé í skilum við Menntasjóðinn á því námsláni sem ábyrgðarmaðurinn er í ábyrgð fyrir við dánardag ábyrgðarmanns. Sé lánþegi ekki í skilum við andlát ábyrgðarmanns erfist ábyrgð á þeim hluta námsláns sem er gjaldfallinn við andlátið. Námslán lánþega fellur ekki niður við andlát ábyrgðarmanns. Með þessu er útfærð nánar sú framkvæmd að hver lánþegi sé sjálfur ábyrgur fyrir endurgreiðslum á eigin námslánum, að uppfylltum skilyrðum sjóðstjórnar.
    Með 6. mgr. er lagt til að teknar verði aftur upp samtímagreiðslur en þær voru aflagðar með lögum nr. 21/1992 eins og fram kemur í 3. kafla greinagerðarinnar. Það hefur verið krafa námsmanna að fá námslán sín greidd út mánaðarlega frá setningu laganna. Er er nú brugðist við þeirri kröfu, bæði til þess að gera námsmönnum kleift að mæta raunverulegri framfærslu sinni og færa íslenska framkvæmd til samræmis við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Með þessu stendur lánþegum nú til boða að velja milli þess að fá námslán sín greidd út mánaðarlega eða í lok annar.

Um 12. gr.

    Greinin er að meginstefnu til sambærileg 14. gr. gildandi laga og fjallar um upplýsingagjöf. Orðalagi greinarinnar er breytt til samræmis við sjónarmið laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018. Í greininni eru þær upplýsingar sem skipta máli við ákvörðun um veitingu námsláns tilteknar í dæmaskyni en þær eru t.d. upplýsingar um tekjur, búsetuform, hjúskaparstöðu, fjölda barna og hvort lánþegi er í námi á Íslandi eða í öðru landi. Fjárhæð námslána byggist á reiknaðri framfærsluþörf námsmanna og tekur meðal annars mið af framangreindum þáttum. Upptalningunni er ekki ætlað að vera tæmandi. Ekki er gert ráð fyrir að samþykki hlutaðeigandi þurfi fyrir vinnslu persónuupplýsinga af hálfu Menntasjóðsins.
    Í 2. mgr. er fjallað um upplýsingar frá innlendum skólum. Þær lúta meðal annars að námsframvindu og eru nauðsynlegar til að unnt sé að meta hvort lánþegi uppfylli skilyrði laganna.
    Samkvæmt 3. mgr. er ríkisskattstjóra skylt að láta Menntasjóðnum eða innheimtuaðila námslána í té upplýsingar um tekjur lánþega, innlendar sem erlendar, og eru þær nýttar til þess að ákvarða endanlegar tekjur. Á þetta bæði við þegar ákvarða skal framfærslu lánþega og þegar lánþegi velur tekjutengda afborgun námslána. Um heimild sjóðstjórnar til að fela öðrum aðilum útborgun lána, innheimtu og aðra daglega afgreiðslu er fjallað um í 7. mgr. 30. gr. frumvarpsins.
    Í 4. mgr. er bætt við ákvæði um að Menntasjóðurinn skuli upplýsa umsækjendur og aðra hlutaðeigandi aðila um þær upplýsingar sem hann aflar og að gæta skuli þess að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglur sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Ákvæðið tryggir gagnsæi við vinnslu persónuupplýsinga eins og frekast er unnt. Gert er ráð fyrir að fyrir liggi staðfesting hlutaðeigandi á að þeim sé kunnugt um að vinnsla fari fram þó svo að ekki sé þar um eiginlegt samþykki að ræða, einkum ef vinnsla getur haft íþyngjandi réttaráhrif eða tekur til viðkvæmra einkalífshagsmuna.

Um 13. gr.

    Til að styrkja lagastoð og uppfylla þá grundvallarreglu réttarríkisins að reglur skuli vera skýrar, stöðugar og aðgengilegar var ákveðið að skilgreina betur skilyrðið um námsframvindu í lögunum sjálfum. Lagt er til að áfram verði gerð krafa um að lánþegi uppfylli kröfur um lágmarks námsframvindu. Í ákvæðinu er að finna bann við að setja hærri lágmarks námsframvindukröfu en 73% eða 44 ECTS-einingar eða ígildi þeirra á ári. Þegar lánþegar uppfylla lágmarkskröfu um námsframvindu en ekki fulla námsframvindu samkvæmt skipulagi skóla þá njóta þeir námsláns sem verður skert í réttu hlutfalli við þær námseiningar sem vantar upp á fulla námsframvindu. Nánari ákvæði um námsframvindu verða í úthlutunarreglum á svipaðan hátt og verið hefur.
    Í 2. mgr. ákvæðisins er að finna heimild til að veita undanþágu frá kröfum um lágmarks námsframvindu við tilteknar aðstæður eins og verið hefur í lögum. Er ákvæðið sama efnis og 12. gr. gildandi laga. Var það ákvæði sett með lögum um breyting á lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 67/1997, með þeim rökum að hægt sé að koma til móts við lánþega sem verða fyrir skakkaföllum vegna veikinda eða skipulags skóla.

Um 14. gr.

    Greinin er nýmæli en hér er lagt til að tekið verði upp styrkjakerfi að hluta, samhliða nýju lánakerfi. Almennir styrkir vegna náms eru þekktir annars staðar á Norðurlöndum en styrkjakerfin eru ólík. Í frumvarpi þessu er lagt til að lánþegar geti áunnið sér styrki ljúki þeir náminu á þeim tíma sem skipulag námsins gerir ráð fyrir. Styrkirnir eru því ekki til framfærslu enda falla þeir ekki til fyrr en að námi loknu. Ástæðan fyrir því að þessi leið er farin er sú að hún hefur gefist vel, t.d. í Noregi.
    Við mat á því hvaða nám telst vera lánshæft vísast til umfjöllunar um einstaka greinar II. kafla í frumvarpi þessu. Skilyrði fyrir styrkveitingu er að lánþegi ljúki prófgráðu og útskrifist innan þess tíma sem skipulag náms gerir ráð fyrir, sbr. þó svigrúm til seinkunar og undanþágur frá námsframvindu skv. 3. og 4. mgr. Eru námsmenn með þessu hvattir til að ljúka prófgráðu á tilskildum tíma. Með tímamörkum í ákvæðinu er átt við að skipulag náms geri ráð fyrir að náminu sé almennt hægt að ljúka á ákveðnum árafjölda, enda sé það stundað í samfellu. Tímamarkið miðast við upphaf náms en ekki skráningu í skóla. Eru með þessu tekin af öll tvímæli um hvaða tímamörk eigi að miða upphaf og lok náms við.
    Dæmi má nefna um lánþega sem tekur námslán og hefur grunnnám í líffræði en lýkur ekki gráðu og skráir sig ári seinna í grunnnám í eðlisfræði sem hann lýkur á þremur árum og tekur einnig námslán fyrir. Með þessu er ljóst að lánþeginn lýkur prófgráðu innan þeirra tímamarka sem ákvæðið gerir ráð fyrir og fær hann því námsstyrk vegna þeirra námslána sem hann hefur tekið vegna námsins í eðlisfræði en ekki vegna námslánanna sem hann hefur tekið vegna námsársins í líffræði, enda lýkur hann ekki prófgráðu í því fagi.
    Nefna má dæmi um lánþega sem skráir sig í hjúkrunarfræði, hefur þar nám og tekur námslán á meðan á náminu stendur. Grunnnám til BS-prófs í hjúkrunarfræði er 240 ECTS-einingar sem skipulag námsins gerir ráð fyrir að lokið sé á fjórum árum. Lánþeginn lýkur BS-prófi i hjúkrunarfræði á fjórum árum og ávinnur sér þannig rétt á námsstyrk vegna þeirra námslána sem hann tók. Sami lánþegi ákveður í kjölfarið að skrá sig í ljósmóðurfræði. Lánþeginn tekur námslán fyrir náminu og lýkur þeirri prófgráðu á tveimur og hálfu ári, sem skipulag námsins gerir ráð fyrir að unnt sé að ljúka á tveimur árum. Samkvæmt þessu hefur þessi tiltekni lánþegi lokið tveimur prófgráðum, annarri innan þeirra tímamarka sem skipulag námsins gerir ráð fyrir og hinni hálfu ári umfram það sem skipulag námsins gerir ráð fyrir en innan þeirra marka sem 2. tölul. 3. mgr. gerir ráð fyrir. Með þessu hefur lánþeginn áunnið sér rétt á 30% niðurfærslu á höfuðstól ásamt verðbótum vegna beggja námslánanna.
    Fjárhæð námsstyrksins er skv. 2. mgr. 30% niðurfærsla af höfuðstól námslánsins ásamt verðbótum að námi loknu. Það er eðlilegt að miða styrkinn við ákveðna prósentutölu í ljósi jafnræðis án tillits til upphæðar námsláns hvers og eins lánþega. Lánþegar fá því framangreinda niðurfellingu höfuðstóls og verðbóta óháð því hvort tekin séu námslán allan tímann eða einungis hluta þess.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að lánþegar hafi ákveðið svigrúm til seinkunar í námi án þess að það skerði rétt þeirra til að ávinna sér námsstyrkinn. Í ákvæðinu er skýrt hve löng seinkunin má vera í hverju námi án þess að það skerði réttinn til námsstyrksins. Fari seinkunin hins vegar fram úr þessum tímamörkum á lánþeginn ekki lengur rétt á styrknum. Með þessu er því bæði verið að hvetja lánþega til að ljúka námi innan ákveðins tímaramma en einnig er tekið tillit til óvæntra atvika sem geta komið upp í námi hjá hverjum og einum lánþega, t.d. að viðkomandi nái ekki tilskildum námsframvindukröfum. Er þetta einnig talið nauðsynlegt til að ná því markmiði sem styrkirnir eiga að stuðla að, þ.e. að sporna við því að námsmenn ílengist að óþörfu í námi með þeirri þjóðhagslegu óhagkvæmni sem slíkt hefur í för með sér. Í þessu sambandi má nefna dæmi um tvo lánþega sem báðir eru skráðir í diplómanám og ná hvorugir kröfum um lágmarks námsframvindu eftir fyrstu önn í náminu. Annar þeirra nær hins vegar framvegis kröfunum um námsframvindu og lýkur því prófgráðunni á einu og hálfu ári en hinn lánþeginn nær heldur ekki kröfum um lágmarks námsframvindu á annarri önn og lýkur því diplómaprófgráðunni á tveimur árum frá upphafi náms. Sá lánþegi sem lýkur diplómaprófgráðunni á einu og hálfu ári á rétt á námsstyrknum en ekki lánþeginn sem lýkur prófgráðunni á tveimur árum þar sem hann hefur farið fram yfir leyfileg mörk til seinkunar á diplómanáminu.
    Í 4. mgr. er skýrt kveðið á um það að skilgreindar undanþágur skv. 2. mgr. 13. gr. teljist ekki til seinkunar samkvæmt þessu ákvæði. Með því er horft til þess að lánþegar sem af einhverri ástæðu geta ekki sinnt námi sínu, t.d. vegna barneigna eða veikinda, verði ekki látin gjalda fyrir það.

Um 15. gr.

    Ákvæði þetta er nýmæli. Markmiðið með styrknum er að gera lánþega sem eru með börn á framfæri og þiggja námslán samkvæmt frumvarpi þessu álíka skuldsetta að námi loknu og þeir sem ekki eru með börn á framfæri.
    Upphæð styrksins skal nema einföldum barnalífeyri á mánuði eins og hann er ákveðinn í 6. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007.
    Svo lánþegi eigi rétt á styrk samkvæmt ákvæðinu þurfa ákveðin skilyrði að vera uppfyllt. Þannig þarf lánþegi að uppfylla lágmarks námsframvindukröfur eða falla undir undanþágur frá þeim. Fjárhæð styrksins skerðist ekki í hlutfalli við loknar ECTS-einingar eða ígildi þeirra svo lengi sem lánþegi uppfyllir lágmarks námsframvindukröfur. Að sama skapi fær lánþegi sem hefur fengið undanþágu frá námsframvindukröfunum óskertan styrk.
    Gerð er krafa um að barn sé með lögheimili hjá lánþega eða að lánþegi sé meðlagsskyldur. Við ákvörðun þess hvar barn telst vera með lögheimili skal miða við þá tímasetningu sem lánþegi getur sýnt fram á að lögheimili hafi færst til hans. Sá sem greiðir meðlag með barni getur fengið styrk til framfærslu barns. Hinn meðlagsskyldi skal framvísa staðfestingu frá sýslumanni um að gerður hafi verið samningur um meðlag eða, ef námsmaður er búsettur erlendis, staðfestingu sem jafna má við slíkt. Ísland er eina landið af Norðurlöndunum sem veitir styrk fyrir meðlagsgreiðslum, ef frumvarpið verður að lögum.
    Uppfylli lánþegi ekki þau skilyrði sem koma fram í 11. gr. frumvarpsins er sjóðstjórn heimilt að breyta styrknum í lán líkt og um námslán væri að ræða í samræmi við 17. og 20. gr. frumvarpsins.
    Gert er ráð fyrir að styrkur til framfærslu barns sé í samræmi við lánsrétt lánþega skv. 4. gr. frumvarpsins og úthlutunarreglum.

Um 16. gr.

    Ákvæði 1. mgr. er sama efnis og 2. málsliður 7. gr. gildandi laga en greinin hefur verið umorðuð. Áfram er gert ráð fyrir að námslán beri verðbætur á meðan námstíma stendur en ekki vexti. Vextir reiknast frá námslokum. Útreikningur vaxta og verðbóta miðast við lög um vexti og verðtryggingu og reglur sem settar eru með stoð í þeim.
    Með 2. mgr. er áfram gert ráð fyrir að námslán sem eru í skilum falli niður við andlát lánþega en sá hluti námsláns sem er gjaldfallinn við andlát lánþega falli á dánarbú hans.
    Í 3. mgr. kemur fram að lánþegar geti við námslok sín valið um hvort þeir breyti lánakjörum sínum þannig að þeir endurgreiði námslán sín með skuldabréfi sem er óverðtryggt. Velji lánþegi að breyta ekki lánakjörum haldast almenn lánakjör þannig að námslánið verður verðtryggt lán sem greiðast skal í samræmi við 20. gr. frumvarpsins. Um er að ræða nýmæli þar sem lánþega er veitt frelsi til að velja hvor lánakjörin henti honum betur þegar kemur að endurgreiðslu námslána hans. Fjármögnunarlán sem Menntasjóðurinn tekur eru á verðtryggðum kjörum en velji stór hluti lánþega að taka óverðtryggð lán þá mun jafngildi þeirra skuldbindinga sem Menntasjóðurinn hefur gagnvart ríkissjóði verða breytt úr verðtryggðri skuldbindingu yfir í óverðtryggða. Með þeim hætti er reynt að lágmarka áhættu Menntasjóðsins vegna mögulegs misvægis verðtryggingar á efnahagsreikningi hans.
    Ákvæði 4. mgr. þarfnast ekki skýringar.

Um 17. gr.

    Í 1. mgr. kemur fram að vextir af verðtryggðum lánum skuli vera breytilegir að viðbættu föstu vaxtaálagi sem tekur mið af væntum afföllum af endurgreiðslu námslána. Eins og fram kemur í greinargerð felst í frumvarpi þessu að fyrirkomulagi námsaðstoðar verði breytt í veigamiklum atriðum. Hér er lagt til að námslánin beri breytilega vexti sem byggja á vaxtakjörum sem ríkissjóði bjóðast á markaði auk fasts vaxtaálags til þess að mæta væntum afföllum vegna vanskila eða andláts lánþega. Vextir verðtryggðra námslána skulu miðast hverju sinni við ávöxtunarkröfu þess verðtryggða skuldabréfaflokks ríkissjóðs á skipulögðum verðbréfamarkaði með viðskiptavakt sem styst á til gjalddaga, þó að lágmarki 6 mánuðir. Ávöxtunarkrafa í lok síðasta viðskiptadags hvers mánaðar gildir til útreiknings vaxta verðtryggðra námslána í þar næsta mánuði á eftir.  Til dæmis yrðu vextir vegna endurgreiðslu óverðtryggðra námslána í desember ár hvert ákvarðaðir miðað við síðasta viðskiptadag í október sama ár. Miða á við ávöxtunarkröfu í síðustu viðskiptum þann dag. Hafi engin viðskipti átt sér stað með viðkomandi skuldabréfaflokk þann dag skal miða við hagstæðasta kauptilboð í lok dags. Eðlilegt er að Menntasjóðurinn birti vaxtakjörin ásamt álagi á vef sínum. Áfram eru lánakjör námsmanna töluvert hagstæðari en lánakjör sem almennt bjóðast á lánamarkaði til einstaklinga, enda byggja grunnvextir á sömu fjármögnunarkjörum og ríkissjóður fær á markaði.
    Í 2. mgr. er lagt til að vaxtaálag sé ákveðið í úthlutunarreglum hvers árs. Ástæða þess er að erfitt getur verið að segja til um það með vissu hver afföll af lánum sjóðsins kunna að verða. Miðað við núverandi mat á forsendum frumvarpsins um lánakjör og endurgreiðslufyrirkomulag er gert ráð fyrir að afföll námslána verði um 0,6%–0,8% árlega. Þar sem miðað er við í frumvarpi þessu að lánahluti námslánakerfisins standi undir sér er nauðsynlegt að tiltölulega auðvelt sé að breyta álaginu til að bregðast við aðstæðum hverju sinni, hvort sem er til hækkunar eða lækkunar á vaxtaálagi. Vaxtaálagið skal ákveðið þannig að lánahluti Menntasjóðsins standi að fullu undir lánveitingum sem ríkissjóður veitir til Menntasjóðsins. Taka þarf tillit til allra þátta lánveitingar sjóðsins hvaða nöfnum sem þeir nefnast. Markmiðið er ávallt að lánahluti námslánakerfisins standi að fullu undir sér, þ.e. sé sjálfbær. Gert er ráð fyrir að sjóðstjórn leiti til utanaðkomandi óháðs aðila sem geri tillögur til sjóðstjórnar um vaxtálag sem uppfylli framangreint skilyrði. Dæmi um óháðan aðila getur verið Seðlabanki Íslands.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að leitað skuli leiða til úrbóta fari svo að vextir með föstu vaxtaálagi fari yfir 4%. Tilgangur þessarar málsgreinar svipar til 5. mgr. 7. gr. gildandi laga þar sem fram kemur að vextir af lánum sjóðsins skuli vera breytilegir en þó aldrei hærri en 3% ársvextir af höfuðstól skuldar. Gert er ráð fyrir að viðbrögð samkvæmt þessari grein séu fjármögnuð sérstaklega og komi til viðbótar við það fjárframlag sem ríkissjóður veitir til fjármögnunar á námsaðstoð samkvæmt frumvarpi þessu.

Um 18. gr.

    Greinin er nýmæli en í henni er lagt til að Menntasjóðurinn geti boðið upp á óverðtryggð lán. Að baki því liggja þau sjónarmið að það sé vilji stjórnvalda að auka vægi óverðtryggðra skuldbindinga á lánamarkaði og draga þar með úr óvissu sem verðbólga hefur á greiðslubyrði námslána. Því til viðbótar er það vilji stjórnvalda að bjóða námsmönnum upp á aukið val þegar kemur að ákveða með hvaða hætti þeir skuldbinda sig.
    Í 1. mgr. er fjallað um með hvaða hætti vextir óverðtryggðra námslána skuli ákvarðast. Gert er ráð fyrir að vextir óverðtryggðra námslána skulu miðast hverju sinni við ávöxtunarkröfu þess óverðtryggða skuldabréfaflokks ríkissjóðs á skipulögðum verðbréfamarkaði með viðskiptavakt sem styst á til gjalddaga, þó að lágmarki 6 mánuðir. Ávöxtunarkrafa í lok síðasta viðskiptadags hvers mánaðar gildir til útreiknings vaxta óverðtryggðra námslána í þar næsta mánuði á eftir. Til dæmis yrðu vextir vegna endurgreiðslu óverðtryggðra námslána í desember ár hvert ákvarðaðir miðað við síðasta viðskiptadag í október sama ár. Miða á við ávöxtunarkröfu í síðustu viðskiptum þann dag. Hafi engin viðskipti átt sér stað með viðkomandi skuldabréfaflokk þann dag skal miða við hagstæðustu kaupkröfu í lok dags. Eðlilegt er að Menntasjóðurinn birti vaxtakjörin ásamt álagi á vef sínum.
    Ákvæði 2. og 3. mgr. eru sambærileg 2. og 3. mgr. 17. gr. í frumvarpinu og vísast til umfjöllunar þar.

Um 19. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að endurgreiðsla námslána hefjist einu ári eftir námslok í stað tveggja ára. Annars staðar á Norðurlöndum hefjast endurgreiðslur námslána allt frá því strax eftir námslok og í lengsta falli einu ári eftir námslok. Þá hefur þessi breyting áhrif til lækkunar á greiðslubyrði námslána.
    Í 2. mgr. er nýmæli um að lánþegi geti frestað afborgunum á námslánum í allt að fjögur ár ef lánþegi heldur áfram í lánshæfu námi og þiggur ekki námslán á sama tíma. Ákvæði þetta er sett til að tryggja að lánþegi þurfi ekki að endurgreiða námslán sín á meðan hann er í lánshæfu námi.
    Í 3. mgr. er nýmæli um að námslán verði endurgreidd með mánaðarlegum endurgreiðslum í stað tveggja gjalddaga á ári. Sé um það að ræða að lánþegar greiði af fleiri en einu sambærilegu skuldabréfi og skuldabréfin séu öll með álíka endurgreiðsluákvæði, er til hagræðis heimilað að innheimta megi í einu lagi endurgreiðslur vegna allra skuldabréfa í stað þess að sendir verði margir greiðsluseðlar á hverjum gjalddaga.
    Í 4. mgr. kemur fram að lánþega sé ávallt heimilt að greiða hraðar af láni sínu án aukins kostnaðar og er þetta ákvæði samhljóma 8. mgr. 8. gr. gildandi laga en þar kemur fram að heimilt sé að endurgreiða lán örar en mælt er fyrir í viðkomandi grein laganna.
    Einnig kemur fram í 5. mgr. að lánþega beri á hverjum gjalddaga að greiða kostnað af innheimtu hverrar greiðslu og ofgreiðslu skv. 25. gr. Ofgreiðslu vegna annarra tilvika en tilgreind eru í 25. gr. skal lánþegi ekki bera kostnað af.

Um 20. gr.

    Í 1. mgr. kemur fram sú meginregla að almennt skuli miðað við að endurgreiðslutími námslána verði háður lántökufjárhæð en þó skal endurgreiðslutíminn aldrei vera lengri en svo að lán verði endurgreitt að fullu á því ári sem lánþegi nær 65 ára aldri. Lagt er til að endurgreiðslan verði háð lántökufjárhæð og miðað við núverandi mat á forsendum frumvarpsins um lánakjör og endurgreiðslufyrirkomulag er gert ráð fyrir að endurgreiðslutíminn verði með eftirfarandi hætti:

Upphæð láns Endurgreiðslutími
0–999.999 kr. 5 ár
1.000.000–1.999.999 kr. 7 ár
2.000.000–3.999.999 kr. 10 ár
4.000.000–4.999.999 kr. 15 ár
5.000.000–6.999.999 kr. 20 ár
7.000.000–7.999.999 kr. 22 ár
Hærra en 8.000.000 kr. 25 ár

    Ástæða þess að endurgreiðslutíminn er ekki settur fram í frumvarpstextanum er sú skylda að útfæra þarf hann í úthlutunarreglum svo auðvelt sé að uppfæra hann miðað við aðstæður hverju sinni.
    Með því að gera endurgreiðslu háða lántökufjárhæð að meginreglu í frumvarpi þessu er ætlunin að gera aðstoð ríkisins til námsmanna sýnilegri og jafnari og hvetja þá til að ljúka námi á sem skemmstum tíma. Þess er vænst að þessar breytingar muni leiða til þess að námsmenn leitist við að taka ekki hærri námslán en þörf er á.
    Í Noregi og Svíþjóð er lögð mikil áhersla á að námsmenn séu meðvitaðir um þá lánaskuldbindingu sem felst í námslánunum með það að markmiði að námsmenn taki einungis þá upphæð láns sem þeir þurfa yfir námstímann. Markmið þessa frumvarps er það sama og verða námsmönnum veittar upplýsingar um hver greiðslubyrðin verður af námslánum miðað við uppgefnar forsendur.
    Annars staðar á Norðurlöndum hafa lengi verið skilyrði um hámarksaldur vegna veitingar námsaðstoðar en slíkum skilyrðum hefur ekki verið til að dreifa hér á landi. Málefnaleg sjónarmið liggja að baki því að skilyrða endurgreiðslu námslána við 65 ára aldur. Eins og fram kemur í greinargerð eykst verulega sá styrkur sem felst í námsláni eftir því sem lánþegi er eldri. Þar sem endurgreiðslur námslána hafa verið tengdar við tekjur og falla niður við andlát er ljóst að þau námslán sem hafa verið veitt til einstaklinga yfir sextugt greiðast í mjög litlum mæli til baka og eru í raun að mestu leyti styrkur. Í frumvarpinu er lagt upp með að endurgreiðslum námslána verði ávallt lokið fyrir 65 ára aldur. Hefji einstaklingur nám við 60 ára aldur er ljóst að viðkomandi hefur takmarkaðan tíma til þess að greiða af slíku láni eftir að námi lýkur og áður en lánþegi verður 65 ára.
    Þá ber einnig að líta til þess að þjóðfélagslegur ábati af því að mennta einstaklinga yfir 60 ára aldri er minni en ef um yngri einstaklinga er að ræða. Almennt má líta svo á að starfsævi hvers einstaklings sé um 40–45 ár eftir að námi er lokið, þ.e. frá 25–30 ára aldri til 67–70 ára aldurs. Menntun einstaklinga felur í sér kostnað fyrir samfélagið bæði í formi framfærslu á meðan á námi stendur og svo beins kostnaðar við kennslu. Þá má gera ráð fyrir að menntun haldi áfram í formi áunninnar reynslu eftir að námi er lokið. Séu einstaklingar þegar komnir á síðari hluta starfsævi sinnar þegar þeir sækja sér menntun má ætla að menntunin skili sér í minna mæli aftur til þjóðfélagsins þar sem færri ár eru eftir af starfsævi viðkomandi einstaklings.
    Könnuð var réttarframkvæmd að baki setningu aldurstakmarkana í lögum og sérstaklega skoðaðir dómar Hæstaréttar í málum nr. 124/1993, 198/1993, 86/1997, 87/1997 og 88/1997. Af þeim dómum má ráða að heimilt sé að takmarka námsaðstoð við tiltekinn aldur svo fremi sem málefnaleg sjónarmið liggi þar að baki og aldurstakmörkunin komi fram með skýrum hætti í settum lögum. Ljóst er að framangreind sjónarmið eru málefnaleg og að skýrt er kveðið á um aldurstakmörkun í frumvarpinu og því uppfyllir frumvarpið þau skilyrði sem sett eru fyrir aldurstakmörkunum. Við ákvörðun á aldurstakmörkum var litið til Noregs og Svíþjóðar. Í Svíþjóð skerðast námslánamöguleikar við 47 ára aldur og frá 57 ára aldri hefur námsmaður engan rétt til námsaðstoðar. Í Noregi skerðast námslánamöguleikar við 45 ára aldur á þann hátt að námsmaður verður að geta greitt námslánið til baka fyrir 65 ára aldur. Námsmenn í Noregi fá ekki námsstyrk eftir 65 ára aldur.
    Í 2. mgr. kemur fram að námslán skulu endurgreidd sem jafngreiðslulán (annuitetslán) með breytilegum vöxtum með mánaðarlegum endurgreiðslum. Samkvæmt almennri launaþróun menntaðra einstaklinga á vinnumarkaði hækka launin almennt samhliða því að viðkomandi öðlast aukna starfsreynslu og eru hæst á síðari hluta starfsævinnar. Til að mæta þessu er lagt til að námslán verði með jafngreiðslufyrirkomulagi svo að greiðslubyrði námslána dreifist jafnt yfir endurgreiðslutímann en verði ekki of þung í upphafi. Í frumvarpinu er lagt til að greiðslufyrirkomulagi námslána verði breytt á þann veg að fjárhæð afborgana taki almennt mið af annars vegar höfuðstóli lánsins, en ekki tekjum eins og verið hefur, og hins vegar fjölda endurgreiðsluára þar sem fjöldi þeirra getur ráðist af upphæð lánsins og aldri námsmanns við námslok. Með frumvarpi því sem varð að lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna var stefnt að því að námslán skyldu greiðast upp að fullu með því að afnema fasta tölu endurgreiðsluára. Það markmið hefur ekki náðst. Þá er ljóst að í núverandi kerfi munu lánþegar í vaxandi mæli komast á eftirlaunaár án þess að námslán séu uppgreidd og verða því að greiða námslán af eftirlaunum. Að öllu óbreyttu má vænta þess að ríkisstuðningur vegna námslána á grundvelli laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna muni fara vaxandi.
    Í 3. mgr. kemur fram að hafi námslán ekki verið að fullu greidd á því ári er lánþegi nær 66 ára aldri hefur sjóðstjórn heimild til að gjaldfella námslánið. Með þessu ákvæði er tryggt að markmið frumvarpsins nái fram að ganga og að námslán sem myndu annars falla niður falli ekki á aðra lánþega með hærra vaxtaálagi.

Um 21. gr.

    Nýmæli er að finna í 1. mgr. þar sem kveðið er á um að lánþega sé heimilt að velja að endurgreiða námslán sín með tekjutengingu að þeim skilyrðum uppfylltum að lánþegi ljúki prófgráðu áður eða á því ári er hann nær 35 ára aldri. Með þessu ákvæði er ýtt undir að þeir lánþegar sem vilja endurgreiða námslán sín með tekjutengingu klári nám sitt fyrir 35 ára aldur en eins og að framan greinir, samkvæmt niðurstöðum Eurostudent VI, er meðalaldur háskólanema í Evrópu hæstur hér á landi, þ.e. 29,7 ár á móti 25 árum, og hér er hæsta hlutfall námsmanna yfir þrítugu. Það er bæði ávinningur fyrir námsmenn og samfélagið að námi ljúki snemma á ævinni. Einstaklingurinn nýtur afraksturs námsins lengur og samfélagslegur ávinningur verður meiri með betri menntun ungs fólks og þeirri hagsæld sem af henni hlýst.
    Eins og fram hefur komið er meginreglan samkvæmt frumvarpi þessu að endurgreiðsla námslána verði almennt háð lántökufjárhæð og endurgreidd með mánaðarlegum endurgreiðslum. Í þessu ákvæði má finna undantekningu frá þessari meginreglu en hún er gerð til að koma til móts við sjónarmið sem fram hafa komið um að halda tekjutengingu námslána með einhverju hætti áfram. Endurgreiðslutími skv. 20. gr. á ekki við þegar um er að ræða tekjutengdar afborganir samkvæmt þessu ákvæði. Hér er líka um hvata að ræða fyrir námsmenn að klára nám sitt fyrr en hefur verið og þá hafa þeir meira val um hvernig endurgreiðslum skuli háttað. Nái lánþegar ekki að ljúka námi sínu eða taki þeir annað námslán síðar hafa þeir val um að endurgreiða allar eftirstöðvar námslána sinna miðað við meginreglu frumvarpsins eða greiða samtímis af öllum námslánum sínum en þá með töluvert hærri greiðslubyrði. Ef lánþegar velja að endurgreiða allar eftirstöðvar námslána sinna eftir meginreglu frumvarpsins, sbr. 20. gr., er gert ráð fyrir að eldri námslánum lánþega sé skuldbreytt á þann hátt að öll lánin sameinist í sambærileg lán. Með sambærileg lán er átt við að námslánin séu öll annað hvort verðtryggð eða óverðtryggð og með sama endurgreiðslutíma og föstu álagi. Þetta er eins og fyrr greinir hvati fyrir námsmenn til að ljúka námi sínu sem fyrst. Þetta er jafnframt forsenda þess að hægt sé að bjóða upp á tekjutengda endurgreiðslu þannig að það verði Menntasjóðnum ekki til tjóns því með tekjutengdum afborgunum af námslánum er ekki hægt að sjá hvert greiðsluflæði af útlánum Menntasjóðsins verður.
    Áhættuskýrslur sem gerðar hafa verið fyrir Lánasjóðinn á undanförnum árum benda til þess að stór hluti af námsstyrk ríkisins falli til vegna þess að lánþegar falla frá áður en skuldir þeirra eru að fullu greiddar. Til þess að geta gefið lánþegum val um að endurgreiða námslán sín með tekjutengingu þurfti að tryggja eins vel og mögulegt væri að námslánið yrði endurgreitt að fullu. Við kostnaðarmat á frumvarpinu kom í ljós að lægsti mögulegi aldur til að tekjutengd endurgreiðsla námslána gæti staðið undir sér væri 35 ár. Gert er ráð fyrir að tekjutenging gagnist fyrst og fremst ungum námsmönnum sem eiga eftir að koma sér fyrir í lífinu, meðal annars koma sér upp húsnæði o.s.frv.
    Í 4. mgr. er lögð til breyting frá fyrri framkvæmd. Í stað þess að innheimta árlega fasta afborgun og viðbótargreiðslu er lagt til að greitt sé af námslánum mánaðarlega.
    Þá er í 5. mgr. lögð til sú útfærsla að fasta mánaðarlega afborgunin verði 10.000 kr. og er hún bundin við vísitölu neysluverðs líkt og í gildandi lögum.
    Í 6. mgr. er tekið fram að tekjutengda afborgunin skuli miðast við 0,3125% af tekjustofni lánþega. Ástæða þess að viðmiðinu er skipt upp eftir því hvort um er að ræða fyrstu átta mánuði eða síðustu fjóra mánuði ársins er sú að tekjur samkvæmt skattframtali liggja fyrir um það bil 1. júlí ár hvert hjá ríkisskattstjóra og með því er Menntasjóðnum veitt svigrúm til að ákvarða mánaðarlegar tekjutengdar afborganir lánþega.

Um 22. gr.

    Ákvæðið er einföldun á 1. mgr. 10. gr. gildandi laga og í því er tekið fram að allar skattskyldar tekjur lánþega teljist til tekjustofns sem og skattfrjálsar tekjur þeirra frá alþjóðastofnunum sem alla jafna mynda stofn til skerðingar bóta. Þá er tekin út tilvísun í samsköttunarákvæði laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, til að stuðla að efnahagslegu jafnrétti kynjanna. Lífeyrisgreiðslur, greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins eða aðrar bótagreiðslur og styrkir teljast til skattskyldra tekna nema um sé að ræða skattfrjálsar greiðslur.
    Ákvæði 2. mgr. tekur til þeirra tilvika þegar lánþegi er ekki skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum og eignum og hefur valið að endurgreiða námslán með tekjutengingu í samræmi við 21. gr. frumvarpsins. Þar sem Menntasjóðurinn hefur ekki greiðan aðgang að upplýsingum um þessar tekjur án milligöngu lánþega sjálfs er gerð sú krafa að lánþegi veiti Menntasjóðnum fullnægjandi upplýsingar um erlendar tekjur. Þær upplýsingar þurfa að vera staðfestar og áreiðanlegar svo unnt sé að sannreyna tekjustofn lánþega.
    Ákvæði 2. mgr. er því að meginstefnu til í samræmi við 3. mgr. 10. gr. núgildandi laga. Sú breyting verður þó á að í stað þess að sjóðstjórn sé heimilt að áætla tekjustofn til útreiknings árlegrar viðbótargreiðslu, ef upplýsingar eru taldar ósennilegar, verði sjóðstjórn heimilt að skuldbreyta láni lánþega á þann hátt að það verði endurgreitt sem verðtryggt jafngreiðslulán með breytilegum vöxtum með mánaðarlegum endurgreiðslum, sbr. 2. mgr. 20. gr. Núverandi framkvæmd hjá Lánasjóðnum getur leitt til umtalsvert hærri greiðslubyrði fyrir lánþega en efni hans standa til, þar sem tekjustofn í þeim tilvikum sem greinin tekur til getur verið mjög ríflega áætlaður. Eru því sanngirnissjónarmið sem liggja að baki þessu nýmæli. Ferlið er gert gagnsærra og lánþegar geta þá gengið að því vísu að skili þeir ekki fullnægjandi tekjuupplýsingum að mati sjóðstjórnar verði endurgreiðslu þeirra hagað eftir 20. gr. frumvarpsins. Slík skuldbreyting verður þó ekki gerð nema að undangenginni viðvörun til lánþega. Sú viðvörun tryggir að lánþegi eigi þess kost að bregðast við. Með þessu fyrirkomulagi er verið að bæta endurgreiðslur námslána og um leið gera fyrirkomulag endurgreiðslna gagnsærra, til hagsbóta fyrir lánþega og Menntasjóðinn.
    Með 3. mgr. er áréttað að heimilt sé að setja nánari fyrirmæli um framkvæmd 2. mgr. í úthlutunarreglur, þar á meðal um skilyrði um tímafresti til að skila inn gögnum.

Um 23. gr.

    Ákvæði 1. mgr. er sambærilegt 6. mgr. 8. gr. núgildandi laga og fjallar um frestun á tekjutengdri afborgun eða mánaðarlegri endurgreiðslu. Í ákvæðinu má finna breytingu á fyrri framkvæmd þar sem nú er lagt til að einungis atvik sem eiga sér stað á endurgreiðslutíma námslána eða á meðan námstíma stendur leiði til frestunar. Ekki er hægt að fá frestun á föstu afborguninni skv. 5. mgr. 21. gr. frumvarpsins. Hver umsókn skal metin einstaklingsbundið og er óheimilt að afnema slíkt mat með fortakslausum viðmiðum í úthlutunarreglum. Hvað teljast vera verulegir fjárhagsörðugleikar þarf að meta heildstætt miðað við aðstæður hvers og eins einstaklings sem sækir um frestun. Sem dæmi er sjóðstjórn heimilt að veita frestun ef lánþegi veikist alvarlega, verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna eða ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans.
    Ákvæði 2. mgr. var áður að finna í úthlutunarreglum Lánasjóðsins og rétt þótti að setja lagastoð undir það.
    Í 3. mgr. er bætt við nýmæli um að umsókn um frestun á tekjutengdri afborgun eða mánaðarlegri endurgreiðslu fresti innheimtu á þeim gjalddögum sem sótt er um frestun vegna. Óeðlilegt er að lánþegi sem sækir um frestun á endurgreiðslu námslána vegna verulegra fjárhagsörðugleika þurfi að standa skil á þeirri greiðslu sem umsóknin beinist að. Leiðir það jafnframt til skjótari afgreiðslu Menntasjóðsins á slíkum beiðnum og aukins jafnræðis gagnvart lánþegum.
    Þær upplýsingar sem Menntasjóðurinn getur kallað eftir skv. 3. mgr. lúta að þeim atriðum sem tiltekin eru í greininni. Tilgangurinn að baki öflun gagnanna og vinnslu þeirra er að unnt verði að meta hvort fallast megi á að undanþága sé veitt á grundvelli heimildarinnar. Um vinnslu persónuupplýsinga sem aflað er í þessum tilgangi gilda ákvæði 4. mgr. 12. gr. frumvarpsins sem og ákvæði 33. gr. Er vísað til umfjöllunar um þær greinar.
    Frestun á endurgreiðslum leiðir til lengingar á lánstíma nema þegar ekki er hægt að lengja lánstímans sökum aldurs lánþega en þá skal hækka greiðslubyrði af námslánunum sem nemur frestuninni ásamt vöxtum og eftir atvikum verðbótum.

Um 24. gr.

    Greinin fjallar um vanskil og er samhljóða ákvæðum gildandi laga.
    Í 1. mgr. er áskilið að vanskil á endurgreiðslu námsláns séu veruleg svo Menntasjóðnum sé heimilt að gjaldfella allt lánið. Það er því ekki nóg að lánþegi hafi farið fram úr gjalddaga. Um mat á þessu atriði gilda almennar riftunarreglur þar sem fram þarf að fara heildarmat á aðstæðum.
    Í dómaframkvæmd hefur verið tilhneiging til þess að túlka gjaldfellingarákvæði ekki fortakslaust eftir orðanna hljóðan, a.m.k. þar sem greiðsludráttur hefur verið óverulegur. Byggt hefur verið á nokkrum sjónarmiðum og hefur heildarmat á aðstæðum síðan ráðið niðurstöðu. Það sjónarmið sem vegið hefur hvað þyngst er lengd þess tíma sem greiðsludráttur varir. Þá kann að skipta máli hversu stór hluti skuldar er í vanskilum og hvort vanskil hafi haft í för með sér tjón fyrir kröfuhafa. Einnig er litið til þess hvort vilja eða getu hafi skort hjá skuldara til greiðslu afborgunarinnar eða hvort vanskil megi rekja til mistaka. Í slíkt mat getur blandast mat á því hvort kröfuhafi eða starfsmenn sem hann ber ábyrgð á hafi einnig gert mistök. Að lokum er litið til þess hvort kröfuhafi hafi bundið greiðslu ólögmætum skilyrðum, svo sem greiðslu annarrar kröfu.
    Heimild Lánasjóðsins til að fella allt lán í gjalddaga ef lánþegi hefur vantalið tekjur á skattframtali er felld brott. Er það gert með hliðsjón af því að í slíkum tilvikum hefur ríkisskattstjóri heimild til þess að bæta 25% álagi við vantalda skattstofna, sbr. 108. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, eða beita refsingum skv. 109. gr. sömu laga. Það þykir því nægilega tryggt að stjórnvöld hafi heimild og úrræði til að bregðast við þegar einstaklingar vantelja tekjur sínar á framtali. Þegar kemur að tekjum erlendis þarf að skoða þessa grein í samhengi við 22. gr. þar sem Menntasjóðnum er veitt heimild til að skuldbreyta láni lánþega þegar erlendar tekjur eru vantaldar.
    Ákvæði 2. mgr. er sama efnis og 3. mgr. 9. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Um 25. gr.

    Greinin er nýmæli en áður hefur verið mælt fyrir um endurgreiðslu ofgreiddra fjárhæða í úthlutunarreglum Lánasjóðsins. Rökin fyrir því að lögfesta þetta ákvæði eru aukinn skýrleiki og gagnsæi, ásamt því að tryggja skýra lagastoð fyrir þeim atriðum sem fram koma í úthlutunarreglum.
    Ákvæði 2. mgr. fjallar um skuldajöfnun. Er það gert í því skyni að setja lagastoð undir fyrri framkvæmd. Þá er að finna undantekningu frá meginreglu 4. tölul. 1. mgr. 8. gr. um að umsækjendur skulu ekki vera í vanskilum við Menntasjóðinn.
    Endurgreiðsluskuldabréf skv. 3. mgr. skulu bera vexti sem eru í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands um almenna vexti af óverðtryggðum lánum og leggjast vextirnir á þá fjárhæð sem lánþega ber að endurgreiða.

Um 26. gr.

    Ákvæði 1. mgr. þarfnast ekki skýringa.
    Í 2. mgr. ákvæðisins er lagt til að kröfur samkvæmt námslánaskuldabréfum verði undanþegnar ákvæðum 2. og 3. mgr. 165. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Samkvæmt framangreindum ákvæðum fellur krafa niður tveimur árum eftir gjaldþrotaskipti nema kröfuhafi höfði sérstakt dómsmál og fái fyrningarslit viðurkennd. Kröfur vegna námslána eru annars eðlis en flestar peningakröfur. Einu lánveitingarnar sem jafnast á við námslán með tilliti til mögulegrar lánsfjárhæðar til flestra einstaklinga eru lán til fasteignakaupa. Þegar einstaklingur tekur lán til fasteignakaupa eignast kröfuhafi veð í þeirri fasteign sem viðkomandi kaupir fyrir lánsféð. Ef lánþegi getur ekki greitt af láni sínu getur kröfuhafi gengið að þeirri fasteign sem var andlag lántökunnar. Þegar einstaklingur tekur námslán má segja að tryggingin felist að miklu leyti í menntun viðkomandi einstaklings. Verðgildi menntunar er fyrst og fremst til staðar hjá þeim sem menntunarinnar naut og voru það meginsjónarmið að baki ákvæðum laga þessara og eldri laga um að námslán falli niður við andlát lánþega. Eðli málsins samkvæmt verður menntun tiltekins einstaklings ekki tekin af honum við gjaldþrotaskipti og nýtur einstaklingurinn menntunarinnar áfram eftir gjaldþrotið. Í ljósi framangreinds er lagt til að ákvæði um tveggja ára fyrningu krafna eftir gjaldþrotaskipti, nema viðurkenning fyrningarslita fáist fyrir dómi, eigi ekki við um námslán og Menntasjóðurinn þurfi þannig ekki að höfða dómsmál til viðurkenningar á nýjum fyrningarfresti gagnvart lánþegum sem orðið hafa gjaldþrota.

Um 27. gr.

    Greinin er nýmæli en í henni er mælt fyrir um heimild til ráðherra til að veita tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána vegna tiltekinna námsgreina að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Heimildin er ætluð til þess að gefa ráðherra tækifæri til þess að bregðast við ástandi þar sem skortur er viðvarandi eða fyrirsjáanlegur á fólki með tiltekna menntun með því að skapa sérstakan hvata fyrir fólk til þess að sækja sér þá menntun eða til að starfa í tiltekinni starfsgrein. Er þetta gert að norskri fyrirmynd en þar eiga t.d. þeir sem byrjuðu á kennaranámi haustið 2017 eða síðar möguleika á að fá afskrifaðan hluta af námslánum sínum ef þeir vinna sem kennarar í a.m.k. þrjú ár af sex fyrstu árunum eftir útskrift. Ákveði ráðherra að nýta þessa heimild kemur hún til viðbótar við annan stuðning við lánþega sem finna má í frumvarpinu.
    Til þess að ráðherra geti ákveðið sérstaka tímabundna ívilnun þurfa að liggja fyrir upplýsingar um viðvarandi skort í ákveðinni starfsstétt eða að skortur sé fyrirsjáanlegur. Í kjölfarið er gert ráð fyrir að undirbúin sé skýrsla sem byggi meðal annars á framangreindum upplýsingum. Skal slík skýrsla vera unnin af stjórnvöldum í samráði við hlutaðeigandi atvinnurekendur eða samtök atvinnurekenda. Tilgangur skýrslunnar væri að varpa ljósi á aðstæður og greina þörf á viðbrögðum við skorti eða fyrirsjáanlegum skorti í ákveðinni starfsstétt. Þá er skilyrði að sá sem lýkur eða hefur lokið prófgráðu í viðkomandi námsgrein nýti hana til starfa í þeirri starfsstétt sem skortur er í. Ákveði ráðherra að nýta heimild þessa skal meta kostnað vegna hennar og auka fjármagn til Menntasjóðsins í samræmi við það.

Um 28. gr.

    Greinin er nýmæli en í henni er heimild til ráðherra til að veita tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána hjá lánþegum búsettum á svæðum skilgreindum í samráði við Byggðastofnun, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Heimildin er ætluð til þess að gefa ráðherra tækifæri til að bregðast við ástandi þar sem skortur er á menntuðum einstaklingum á ákveðnum svæðum. Er þetta gert að norskri fyrirmynd en þar eiga t.d. þeir sem byrjuðu á kennaranámi haustið 2017 eða seinna og starfa sem kennarar í Finnmörku eða Norður-Tromsfylki möguleika á að fá afskrifaðan hluta af námslánum sínum ef þeir starfa sem kennarar í 50% starfi samfellt í a.m.k. tólf mánuði. Ákveði ráðherra að nýta þessa heimild kemur hún til viðbótar við annan stuðning til lánþega sem finna má í frumvarpinu.
    Til þess að ráðherra geti ákveðið sérstaka tímabundna ívilnun þarf að liggja fyrir tillaga frá sveitarfélagi eða sveitarfélögum um þörf á menntuðu fólki í byggð sinni. Í kjölfarið er gert ráð fyrir að undirbúin sé skýrsla sem byggi meðal annars á framangreindri tillögu. Skal slík skýrsla vera unnin af Byggðastofnun í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Tilgangur skýrslunnar væri að varpa ljósi á aðstæður og greina þörf á menntuðu fólki í ákveðinni byggð. Þá er skilyrði að lánþegi sem búsettur er á skilgreindu svæði nýti í reynd menntun sína til starfa í a.m.k. 50% starfshlutfalli í viðkomandi byggð í að lágmarki tvö ár. Ákveði ráðherra að nýta heimild þessa skal meta kostnað vegna hennar og auka fjármagn til Menntasjóðsins í samræmi.

Um 29. gr.

    Ákvæðið er breytt frá 1. mgr. 1. gr. gildandi laga en ekki er um efnisbreytingu að ræða. Nafni sjóðsins er breytt úr Lánasjóði íslenskra námsmanna í Menntasjóð námsmanna og verið er að skerpa á hlutverki hans. Með orðunum „félagslegur jöfnunarsjóður“ er átt við að hlutverk Menntasjóðsins sé að tryggja þeim sem falla undir lögin jöfn tækifæri til þess að stunda það nám sem er lánshæft samkvæmt frumvarpinu.
    Í 2. mgr. er kveðið á um helstu verkefni Menntasjóðsins. Ákvæðið á sér að mestu leyti fyrirmynd í 1. mgr. 5. gr. núgildandi laga fyrir utan þau verkefni sem falin eru stjórn Menntasjóðsins sérstaklega skv. 31. gr. frumvarpsins. Verkefni þessi eru að mestu leyti framkvæmdarlegs eðlis, þ.e. verkefni sem sjóðstjórnin þarf ekki að koma beint að nema að litlu leyti eða í undantekningartilvikum.

Um 30. gr.

    Í greininni er í fyrsta lagi kveðið á um skipun sjóðstjórnar Menntasjóðsins. Ákvæði 1.–3. mgr. eru samhljóða 4. gr. gildandi laga að því undanskildu að talað er um að Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) muni tilnefna þrjá fulltrúa í stjórn í stað þess að tilgreina hvert aðildarfélag fyrir sig eins og gert er nú. Félögin þrjú, Samband íslenskra námsmanna erlendis, Bandalag íslenskra sérskólanema og Iðnnemasambandið, eru öll í Landssamtökunum og því talið einfaldara að heildarsamtökin velji sína fulltrúa. Þá er einnig haft aukið samráð við alla nemendur með því að ákveða á vettvangi LÍS hverja eigi að tilnefna til stjórnarsetu. Áfram er gert ráð fyrir að Landssamtök íslenskra stúdenta muni tilnefna félagsmenn sem gæta sérstaklega hagsmuna námsmanna við ríkisháskóla, námsmanna við sérskóla á Íslandi og námsmanna við háskóla erlendis.
    Lögð er til sú breyting að Bandalag háskólamanna tilnefni einn fulltrúa í sjóðstjórn. Með þessu er brugðist við athugasemdum sem komu fram í samráði við hagsmunaaðila um að styrkja þyrfti rödd greiðenda námslána í sjóðstjórn. Í stað þriggja fulltrúa ráðherra er lagt til að þeir verði fjórir. Þá hefur efni 4. mgr. 4. gr. gildandi laga verið fært yfir í sérstaka grein um framkvæmdastjóra sjóðsins, sbr. 31. gr. frumvarpsins.
    Í annan stað má í 4.–6. mgr. greinarinnar finna helstu verkefni sjóðstjórnar sem eru í 5. gr. gildandi laga. Greinin er efnislega samhljóma þeirri grein en tekin hafa verið saman nokkur verkefni og þau felld undir einn lið. Ljóst er að verkefni sjóðstjórnar eru ekki tæmandi talin í þessari grein enda verða fleiri verkefni leidd af öðrum ákvæðum frumvarpsins. Þá er einnig ljóst að í eðli sínu ber sjóðstjórn að meginstefnu til ábyrgð á starfsemi Menntasjóðsins og kann á þeim grundvelli að taka að sér fleiri verkefni en hér eru talin upp.
    Ákvæði 7. og 8. mgr. fjalla um framsal til bankastofnana og að bókhaldi skuli haga samkvæmt leiðbeiningum Fjársýslu ríkisins. Ákvæðin hafa verið í lögum um Lánasjóðinn frá árinu 1982 en þeim hefur ekki verið beitt. Hins vegar hefur verið með þessu frumvarpi opnað fyrir þann möguleika að embætti sýslumanna eða embætti ríkisskattstjóra taki að sér verkefni vegna innheimtu og daglegrar afgreiðslu námslána.

Um 31. gr.

    Greinin er nýmæli. Í lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna eru engin ákvæði um framkvæmdastjóra Lánasjóðsins önnur en 4. mgr. 4. gr. um skipun hans og að hann skuli ráða annað starfsfólk. Þetta skýtur skökku við í ljósi framkvæmdarinnar undanfarin ár og þeirra lagaskyldna sem almennt hvíla á forstöðumönnum ríkisstofnana, einkum 27. og 36. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, og 38. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Í greininni eru talin upp helstu verkefni framkvæmdastjóra Menntasjóðsins miðað við reynslu undanfarinna ára og þær lagaskyldur sem fram koma í áðurnefndum lagaákvæðum. Sem dæmi um breytingu frá gildandi lögum skal framkvæmdastjóri annast gerð fjárhagsáætlana Menntasjóðsins í stað sjóðstjórnar skv. 2. tölul. 1. mgr. 5. gr. laganna.

Um 32. gr.

    Greinin er að mestu samhljóða 5. gr. a í gildandi lögum. Tímafrestur stjórnar til að gera kröfu um frestun réttaráhrifa úrskurða og frestur til að bera mál undir dómstóla hafa ekki verið lengdir. Finna má samvarandi ákvæði í 5. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar. Þegar beiðni um flýtimeðferð er lögð fram er eðli málsins samkvæmt gert ráð fyrir stuttum frestum. Í 123. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, er almenn heimild til flýtimeðferðar þegar brýn þörf er á skjótri úrlausn, enda hafi hún almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni viðkomandi.
    Í 4. mgr. er að finna heimild til málskotsnefndarinnar að ráða starfslið eða að fela sjálfstætt starfandi aðila umsjón með skrifstofuhaldi fyrir nefndina. Heimild þessi var áður í reglugerð um starfsreglur málskotsnefndar, nr. 79/1998.

Um 33. gr.

    Í 14. gr. gildandi laga er að finna almennt ákvæði sem segir að með einstaklingsbundnar upplýsingar skuli farið sem trúnaðarmál. Ákvæði 33. gr. er fært til samræmis við lög um breytingu á stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, með síðari breytingum (tjáningarfrelsi og þagnarskylda), nr. 71/2019, þar sem bætt var við nýjum X. kafla um tjáningarfrelsi, þagnarskyldu o.fl.
    Í ákvæðinu kemur fram að starfsfólk Menntasjóðsins, stjórnarmenn, verktakar og sérfræðingar sem starfa á vegum sjóðsins eru bundin þagnarskyldu skv. X. kafla stjórnsýslulaga. Áfram er gert ráð fyrir að aðgangur almennings að upplýsingum takmarkist af 9. gr. og 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, að því er varðar upplýsingar um fjárhags- og viðskiptamálefni lánþega Menntasjóðsins sem sanngjarnt er og eðlilegt að fari leynt.

Um 34. gr.

    Námsaðstoð ríkisins felst fyrst og fremst samkvæmt frumvarpi þessu í niðurfellingu á hluta námslána lánþega og til framfærslu barna þeirra. Til þess að þetta sé hægt verður lánahluti námslánakerfisins að standa undir sér og ríkið hættir að niðurgreiða vexti til námsmanna eins og er í núverandi kerfi. Gert er ráð fyrir að allur rekstrarkostnaður og veittir styrkir komi með hefðbundnum framlögum ríkisins til Menntasjóðsins en að fjármögnun hans vegna lánakerfisins, þ.m.t. afborganir, vextir útlána og lán frá Endurlánum ríkissjóðs, sé greidd með afborgunum af námslánum lánþega. Menntasjóðnum er ekki heimilt að nota lánsfé til greiðslu rekstrarkostnaðar eða styrkja.
    Í greininni kemur fram hvernig fjármögnun Menntasjóðsins skuli háttað en þar er Menntasjóðnum veitt heimild til að taka lán frá Endurlánum ríkissjóðs. Með frumvarpinu er lögð til sú breyting að Menntasjóðurinn muni eftirleiðis veita námsaðstoð bæði í formi námsstyrkja og námslána en hann veitti aðeins námslán áður. Í eldri lögum var framlag ríkisins ákvarðað sem ákveðið hlutfall af útlánum hvers árs sem tók mið af væntum afföllum vegna hagstæðra vaxtakjara, gjaldþrota, niðurfellingar við andlát og annarra afskrifta. Með nýjum lögum er ljóst að endurhugsa þarf fjármögnun Menntasjóðsins en fjárframlag frá ríkinu mun taka mið af áætlaðri heildarfjárhæð útgreiddra námsstyrkja, ívilnana og styrkja vegna framfærslu barna. Áætlaðar afskriftir og útlánatöp reiknast inn í vaxtaálag samkvæmt 2. mgr. 17. gr. og 2. mgr. 18. gr. frumvarps þessa.
    Ákvæði 2. mgr. er nýmæli og heimilar Menntasjóðnum að greiða inn á lán sín til Endurlána ríkissjóðs án viðbótarkostnaðar fyrir sjóðinn. Með þessum hætti er Menntasjóðnum gefinn möguleiki á því að greiða inn á lán sín ef t.d. endurgreiðslur námslána eru umfram það sem gert er ráð fyrir og koma þá um leið í veg fyrir sjóðasöfnun hjá sjóðnum.
    Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins er áfram gert ráð fyrir að ríkissjóður fjármagni rekstur og umsýslu sjóðsins.
    Í 4. mgr. má finna nýmæli þar sem skyldu sjóðstjórnar til að gera fjárhagsáætlanir hefur verið breytt í skyldu til að yfirfara þær og samþykkja. Er breytingin í samræmi við ákvæði 31. gr. frumvarpsins þar sem framkvæmdastjóra Menntasjóðsins er falið þetta verkefni.
    Ákvæði 5. mgr. er samhljóða 4. mgr. 15. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Um 35. gr.

    1. mgr. er tekið fram að greiðsla námsaðstoðar sé undanþegin lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987. Námsaðstoð samkvæmt ákvæðinu á bæði við um þá styrki og þau lán sem Menntasjóðurinn veitir. Með þessu frumvarpi er lögð til undantekning frá meginreglu laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, en skv. II. kafla þeirra laga teljast til skattskyldra tekna hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær eru. Ef námsaðstoð væri skattlögð þá myndi umrædd styrkveiting ekki ná fram tilgangi sínum um beina styrki til lánþega námslána og það markmið að gera lánþega með börn jafnsetta þeim lánþegum sem ekki eiga börn. Búast má við fjölgun í hópi þeirra sem njóta námsaðstoðar, hvort sem um er að ræða ívilnun, niðurfellingu á hluta af námslánum og/eða styrk vegna framfærslu barna lánþega. Því má telja að ef halda ætti utan um staðgreiðslustöðu allra lánþega um námsaðstoð myndi það auka verulega umsýslu hjá Menntasjóðnum.
    Með 2. mgr. er tryggt að viðeigandi upplýsingum sé skilað reglubundið til skattayfirvalda þannig að hægt sé að færa styrkinn inn á skattframtal lánþega sem skattfrjálsa greiðslu.
    Ákvæði 3. mgr. er samhljóða 16. gr. gildandi laga. Í 16. gr. laga um námslán og námsstyrki, nr. 72/1982, kom fyrst fram heimild fyrir ráðherra að ákveða í reglugerð að námsmenn utan Háskóla Íslands skuli greiða hagsmunasamtökum sínum hliðstætt gjald og Stúdentaráð Háskóla Íslands fengi til sinna nota af innritunargjaldi. Með 16. gr. gildandi laga var ákvæðinu um heimild til að innheimta félagsgjöld hagsmunasamtaka lítillega breytt. Gert er ráð fyrir að sjóðstjórn geti tekið slíka ákvörðun en ekki þurfi reglugerðarákvæði. Enn fremur er það gert að skilyrði að námsmaður óski eftir að greiða viðkomandi félagsgjöld.

Um 36. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um skyldu sjóðstjórnar til að gera tillögur að úthlutunarreglum um útfærslu á lögum þessum og þurfa þær að vera samþykktar af ráðherra. Ákvæðið er samhljóða 3. mgr. 3. gr. gildandi laga en orðalagi breytt þannig að í stað orðanna ,,setja nánari úthlutunarreglur“ er lagt til að sjóðstjórn ,,geri tillögur að úthlutunarreglum“. Tilgangur þessara orðalagsbreytinga er að skerpa á þeirri ábyrgð sem liggur hjá ráðherra en ekki hjá sjóðstjórn. Sett eru fram tímamörk um hvenær reglurnar eigi að vera birtar og er það í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis, m.a. nr. 6109/2010, en hann komst að þeirri niðurstöðu að breytingar á úthlutunarreglum þurfi að kynna fyrir fram með skýrum og glöggum hætti og nægjanlegum fyrirvara þannig að þeir sem málið snerti hafi raunhæft tækifæri til að gera viðeigandi ráðstafanir og bregðast við breyttri framkvæmd.

Um 37. gr.

    Lögin öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda 1. júlí 2020. Gefa verður Menntasjóðnum tækifæri til að undirbúa nýtt kerfi.

Um ákvæði til bráðabirgða.

I.

    Lánþegar sem tekið hafa lán samkvæmt lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, geta lokið því samkvæmt þeim skilyrðum sem þar koma fram innan sjö ára frá gildistöku þessara laga. Þá er átt við að lánþegar geti áfram fengið námslán með sömu skilmálum og finna mátti í lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992.
    Áréttað er að um endurgreiðslur námslána sem veitt voru í tíð eldri laga gilda ákvæði skuldabréfa þeirra og eftir atvikum ákvæði þeirra laga sem giltu um viðkomandi lán.
    Lánsréttur sem þegar hefur verið nýttur samkvæmt eldri lögum dregst frá lánsrétti samkvæmt frumvarpi þessu. Sem dæmi má nefna lánþega sem hefur fengið lánað fyrir 180 ECTS-einingum eða ígildi þeirra samkvæmt lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna á lánsrétt samkvæmt þessu frumvarpi fyrir að lágmarki 240 ECTS-einingum eða ígildi þeirra og 60 ECTS-einingum í doktorsnámi hafi lánþegi ekki nýtt sér þann rétt í eldra kerfi.

II.

    Í ákvæðinu er útfærð nánar sú framkvæmd að hver lánþegi sé sjálfur ábyrgur fyrir endurgreiðslum á eigin námslánum, að uppfylltum skilyrðum sjóðstjórnar. Ábyrgð ábyrgðarmanns á námslánum, teknum í tíð eldri laga, fellur niður við gildistöku frumvarps þessa enda sé lánþegi í skilum við Lánasjóð íslenskra námsmanna og ekki á vanskilaskrá. Miðað er við að lánþegi sé í skilum við Lánasjóðinn á því námsláni sem ábyrgðarmaðurinn er í ábyrgð fyrir við gildistöku laganna. Hafi ábyrgð fallið á ábyrgðarmann fellur ábyrgð hans ekki niður samkvæmt þessu ákvæði. Niðurlag fyrsta málsliðar er til að fyrirbyggja að upp geti komið sú staða að það hjóna sem situr í óskiptu dánarbúi telji sig knúið til þess að skipta upp dánarbúinu til að varna því að ábyrgðin á námslánunum falli á erfingja sína. Um getur verið að ræða erfingja sem eru ekki erfingjar upprunalegs ábyrgðarmanns. Hér er einungis um örfá tilvik að ræða.
    Ákvæði 2. mgr. er í samræmi við meginreglu laganna um að hver lánþegi skuli vera ábyrgur á sínum lánum þannig að ef lánþegi er í skilum við sjóðinn á dánardegi ábyrgðarmanns skal ábyrgðin falla niður. Með ákvæðinu er átt við að ábyrgðir ábyrgðarmanna sem ekki eru fallnar í gjalddaga skuli falla niður við andlát ábyrgðarmanns. Þessi regla er í samræmi við reglu sem lengi hefur gilt um lánþegann sjálfan, þ.e. að skuld hans falli niður við andlát en erfist ekki. Þegar svo stendur á þarf lánþegi ekki að fá annan ábyrgðarmann enda er ekki lengur gerð krafa um ábyrgðarmenn námslána nema í undantekningartilfellum.
    Ákvæði 3. mgr. tilgreinir að lánþegi þurfi ekki að fá annan ábyrgðarmann nema lánþegi teljist ekki tryggur samkvæmt úthlutunarreglum. Teljist lánþegi ekki tryggur lánþegi samkvæmt reglum sjóðsins gilda sömu reglur og um ótrygga lánþega, þ.e. þá þarf að útvega nýja ábyrgð við andlát ábyrgðarmanns. Mikilvægt er að reglur sjóðsins um hverjir teljist tryggir lánþegar taki mið af 29. gr. frumvarpsins sem segir að Menntasjóður námsmanna sé félagslegur jöfnunarsjóður.
    Ákvæði þetta tekur gildi við gildistöku þessa frumvarps og er ekki afturvirkt. Þeir ábyrgðarmenn sem hafa erft ábyrgð á námslánum halda áfram að vera ábyrgðarmenn sé lánþegi ekki í skilum eða á vanskilaskrá. Gert er ráð fyrir því að verði frumvarp þetta að lögum muni Menntasjóðurinn, við gildistöku laganna, senda þeim ábyrgðarmönnum sem eru í ábyrgð á námslánum og lánþegi er í skilum og ekki á vanskilaskrá tilkynningu þess efnis að ábyrgð sé fallin niður. Þeir lánþegar sem búsettir eru erlendis munu þurfa að skila inn fullnægjandi upplýsingum úr vanskilaskrá þess lands til Menntasjóðsins þannig að hægt sé að fella niður ábyrgð ábyrgðarmanns á námslánum þeirra.

III.

    Með ákvæðinu er lagt til að lánþegar geti óskað eftir, séu þeir jafnframt að endurgreiða námslán samkvæmt eldri lögum um sjóðinn, að þeir endurgreiði námslán samkvæmt þessum lögum fyrst. Á næsta almanaksári eftir að endurgreiðslu samkvæmt þessum lögum lýkur eða á að vera lokið skulu lánþegar hefja endurgreiðslu samkvæmt eldri lögum. Þær greiðslur frestast því þar til lán samkvæmt þessum lögum eiga að vera að fullu greidd.
    Ákvæði 2. mgr. kveður á um að sé ábyrgðarmaður á námslánum lánþega þá verði ábyrgðamaður að samþykkja fyrirkomulag endurgreiðslu skv. 1. mgr. Er ákvæði þetta meðal annars í samræmi við dóm Hæstaréttar nr. 492/2017.

IV.

    Um er að ræða nýmæli þess efnis að þeir sem skulda námslán við gildistöku laga þessara og taka námslán að nýju í samræmi við frumvarpið geta óskað eftir því að breyta eldri námslánum sínum til samræmis við ákvæði frumvarpsins um lánakjör og endurgreiðslur. Gert er ráð fyrir að þeir sem eru nýbyrjuð í námi kunni að vilja nýta sér þetta til einföldunar, til að lækka greiðslubyrði í einhverjum tilvikum eða að nýta sér sérstakar ívilnanir samkvæmt frumvarpinu ef til þeirra kemur.
    Ákvæði 2. mgr. kveður á um að sé ábyrgðarmaður á námslánum lánþega þá verði ábyrgðarmaður að samþykkja skuldbreytingu skv. 1. mgr. Er ákvæði þetta meðal annars í samræmi við dóm Hæstaréttar nr. 492/2017.
    Ekki er gert ráð fyrir því að ákvæði V. kafla frumvarpsins séu afturvirk. Ef lánþegi hefur hafið nám fyrir gildistöku frumvarpsins og lánþegi tekur nýtt námslán samkvæmt frumvarpinu tekur nýja lánið gildi frá fyrstu önn í nýju kerfi.