Ferill 557. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 916  —  557. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf árið 2019.

1. Inngangur.
    Á Norðurlandaráðsþingi í Stokkhólmi árið 2019 var Silja Dögg Gunnarsdóttir kjörin forseti Norðurlandaráðs fyrir árið 2020 og Oddný G. Harðardóttir varaforseti. Jafnframt var formennskuáætlun Íslendinga samþykkt en meginþemu hennar eru þrjú: upplýsingaóreiða og falsfréttir, líffræðilegur fjölbreytileiki og tungumálaskilningur milli norrænna þjóða. Á þinginu var einnig samþykkt ný stefna Norðurlandaráðs um samfélagsöryggi sem sérstakur vinnuhópur á vegum forsætisnefndar Norðurlandaráðs mótaði. Oddný G. Harðardóttir átti sæti í þeim hópi. Meiri hluti þingmanna í Norðurlandaráði samþykkti nýja áætlun norrænu ráðherranefndarinnar um fjármögnun fimm norrænna rannsóknastofnana, þar á meðal Norræna eldfjallasetursins í Reykjavík. Norræna ráðherranefndin hafði dregið til baka fyrri áætlun um að fella niður fastar fjárveitingar til stofnananna, einkum vegna andstöðu íslenskra þingmanna og Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, þegar taka átti tillöguna til meðferðar á vorþingi Norðurlandaráðs á Akureyri 2018. Í nýju tillögunni er gert ráð fyrir lengra aðlögunartímabili vegna breytinganna og fleiri úrbótum til að tryggja norrænar tengingar stofnananna.
    Í formennskutíð Íslands í norrænu ráðherranefndinni árið 2020 var mótuð framtíðarsýn fyrir norrænt samstarf til ársins 2030. Í framtíðarsýninni eru þrjár stefnumarkandi áherslur um græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Á árinu 2020 verða mótaðar þverlægar framkvæmdaáætlanir fyrir tímabilið 2021–2024 sem byggjast á áherslunum þremur. Í september árið 2019 báðu samstarfsráðherrar Norðurlanda Norðurlandaráð um að leggja fram tillögur að markmiðum fyrir framkvæmdaáætlanirnar. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs fjallaði um málið í desember og samþykkti m.a. að leggja til skipan ráðherranefndar um samgöngumál, norrænt samstarf um rafvæðingu og hleðslustöðvar við vegi og hafnir, aðgerðir til að auka tungumálaskilning innan Norðurlanda og til varnar lýðræði og gegn upplýsingaóreiðu og tillögur á sviði jafnréttis, menningar og sjálfbærrar þróunar.
    Svíar voru í formennsku í Norðurlandaráði 2019. Jessica Polfjärd, þingkona sænska hægriflokksins, gegndi stöðu forseta Norðurlandaráðs fyrri hluta árs 2019. Í maí náði hún kjöri til Evrópuþingsins og var því flokksbróðir hennar, Hans Wallmark, kjörinn forseti í hennar stað á sumarfundi forsætisnefndar ráðsins í júní.
    Gyða Valtýsdóttir hlaut tónlistarverðlaunin Norðurlandaráðs árið 2019. Mikla athygli vakti þegar sænski umhverfisaðgerðasinninn Greta Thunberg hlaut umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs en afþakkaði þau í mótmælaskyni við aðgerðaleysi stjórnvalda í loftslagsmálum.

2. Almennt um Norðurlandaráð.
    Norðurlandaráð var stofnað árið 1952 og er samstarfsvettvangur þjóðþinga á Norðurlöndum. Álandseyjar, Færeyjar og Grænland taka þátt í samstarfinu. Alþingi hefur átt aðild að ráðinu frá stofnun þess. Norðurlandaráð kemur saman til þingfundar tvisvar á ári og ræðir og ályktar um norræn málefni, á stuttum þingfundi að vori á einum degi og á hefðbundnu þriggja daga þingi að hausti. Auk þess kemur Norðurlandaráð saman til nefndafunda þrisvar á ári. Á vegum Norðurlandaráðs er unnið að margvíslegum norrænum verkefnum sem þingmenn, nefndir, flokkahópar eða landsdeildir ráðsins hafa átt frumkvæði að. Norðurlandaráð hefur tillögu- og umsagnarrétt um fjármagn sem er veitt til norrænnar samvinnu árlega. Norræna ráðherranefndin tekur verulegt tillit til þeirra ábendinga.
    Fulltrúar í Norðurlandaráði eru þingmenn sem eru valdir af norrænu þjóðþingunum í samræmi við tillögur þingflokka. Í ráðinu eiga sæti 87 fulltrúar. Þing Noregs og Svíþjóðar eiga tuttugu fulltrúa, Finnlands átján fulltrúa, Danmerkur sextán fulltrúa, Íslands sjö fulltrúa, Færeyja tvo fulltrúa, Grænlands tvo fulltrúa og Álandseyja tvo fulltrúa. Skipan í sendinefndir þinganna, einnig nefndar landsdeildir, skal endurspegla styrk stjórnmálaflokka á þjóðþingunum. Forseti Norðurlandaráðs kemur frá hverju ríki á fimm ára fresti. Á hefðbundnu þingi Norðurlandaráðs um mánaðamótin október/nóvember er fjallað um fram komnar tillögur og beinir þingið tilmælum til ríkisstjórna landanna eða norrænu ráðherranefndarinnar. Forsætisráðherrar og utanríkisráðherrar Norðurlanda gefa Norðurlandaráðsþinginu skýrslu og samstarfsráðherrar eða fagráðherrar svara fyrirspurnum í sérstökum fyrirspurnatíma. Fjárlög komandi starfsárs eru jafnframt ákveðin á þinginu og skipað er í nefndir og trúnaðarstöður. Á stuttum þingfundi Norðurlandaráðs að vori er sérstök áhersla á ákveðið málefni. Í Norðurlandaráði starfa fimm flokkahópar: jafnaðarmenn, miðjumenn, hægrimenn, norrænt frelsi, og norræn vinstri græn. Flokkahóparnir móta sameiginlega afstöðu til einstakra mála og velja þingmenn í nefndir. Að öðru leyti byggist starf Norðurlandaráðs á landsdeildum aðildarríkjanna.
    Málefnastarf Norðurlandaráðs fór árið 2019 að mestu fram í fjórum fagnefndum auk forsætisnefndar. Á milli þinga stýrir forsætisnefnd starfi ráðsins, vísar tillögum til nefnda eða afgreiðir þær. Forsætisnefnd fer jafnframt með utanríkis- og öryggismál svo og samskipti Norðurlandaráðs við aðrar alþjóðastofnanir. Þá fer eftirlitsnefnd yfir ársreikninga ráðsins og stofnana sem starfa innan Norðurlandasamstarfsins. Loks kemur kjörnefnd saman til að gera tillögu að skipan í nefndir og trúnaðarstöður á vegum Norðurlandaráðs.

Forsætisnefnd.
    Forsætisnefnd Norðurlandaráðs er æðsta ákvörðunarvald milli þingfunda ráðsins og getur tekið ákvarðanir fyrir hönd þess. Hún stýrir og samræmir starf nefnda Norðurlandaráðs, ber ábyrgð á heildrænum pólitískum og stjórnsýslulegum áherslum, utanríkis- og varnarmálum, og gerir framkvæmda- og fjárhagsáætlanir ráðsins. Forsætisnefnd var árið 2019 skipuð forseta, varaforseta og allt að fimmtán fulltrúum sem kosnir eru á þingi Norðurlandaráðs. Forsetinn og varaforsetinn eru frá því landi sem verður gestgjafi hefðbundins þingfundar að hausti á því ári sem þeir sinna starfinu. Öll ríki á Norðurlöndum og allir flokkhópar eiga fulltrúa í forsætisnefnd.
    Forsætisnefndin getur skipað undirnefndir eða vinnuhópa, áheyrnarfulltrúa og eftirlitsaðila um sérstök málefni í afmarkaðan tíma, svo sem fjárlagahóp sem ræðir við norrænu ráðherranefndina um fjárhagsáætlun hennar. Forsætisnefndin ber einnig ábyrgð á samræmingu tengsla við þjóðþing og aðrar svæðisbundnar og alþjóðlegar stofnanir.

Þekkingar- og menningarnefnd.
    Þekkingar- og menningarnefnd Norðurlandaráðs fer með málefni sem snerta menningu, rannsóknir og menntun, grunn- og framhaldsskóla, fullorðinsfræðslu og alþýðufræðslu, þar á meðal mál sem snerta tungumálasamstarf, nýmiðla, færniþróun og nýsköpun á sviði menntamála. Nefndin vinnur einnig að málum sem snerta borgaralegt samfélag og afl og störf sjálfboðaliða. Íþróttir, tungumál, kvikmyndir og fjölmiðlar, almenn og fjölbreytileg list og menning og menning barna og ungmenna eru jafnframt á starfssviði norrænu þekkingar- og menningarnefndarinnar.

Hagvaxtar- og þróunarnefnd.
    Norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin vinnur að málefnum og viðfangsefnum sem snerta vinnumarkað og vinnuumhverfi, atvinnulíf, viðskipti, iðnað, orku, baráttu gegn stjórnsýsluhindrunum, samgöngumál og öryggi í samgöngumálum. Nefndin fjallar einnig um mál sem tengjast fjármála- og atvinnustefnu – þar á meðal rammaskilyrði rannsókna, framleiðslu og viðskipta og í framhaldi af því frjálsa för á mörkuðum og vinnumörkuðum á Norðurlöndum. Byggða- og uppbyggingarstefna, fjarskipti og upplýsingatækni eru einnig á starfssviði norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar.

Sjálfbærninefnd.
    Norræna sjálfbærninefndin vinnur að viðfangsefnum og málum sem snerta umhverfis- og um náttúruvernd, náttúruauðlindir – þar á meðal nýtingu náttúruauðlinda í landbúnaði, sjávarútvegi og skógrækt. Loftslagsmál eru jafnframt mikilvægur hluti af starfi nefndarinnar – þar á meðal afleiðingar loftslagsbreytinga sem einkum má merkja á nyrstu svæðum Norðurlanda. Meðal annarra viðfangsefna nefndarinnar má nefna réttindi neytenda, fiskveiðistjórn, stefnumótun í landbúnaði, matvæli, kjarnorkuöryggi, líffræðilegan fjölbreytileika og sjálfbærni.

Velferðarnefnd.
    Norræna velferðarnefndin leggur áherslu á norræna velferðarlíkanið. Nefndin fæst m.a. við mál sem snerta umönnun barna, ungmenna og aldraðra, fötlun, áfengi, fíkniefni og misnotkun. Einnig er unnið með viðfangsefni sem tengjast jafnrétti, borgaralegum réttindum, lýðræði, mannréttindum og baráttu gegn afbrotum. Samþætting innflytjenda, fólksflutningar og flóttamenn heyra jafnframt undir nefndina og sama er að segja um húsnæðismál og málefni frumbyggja Norðurlanda.

Eftirlitsnefnd.
    Eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs fylgist fyrir hönd þingsins með starfsemi sem fjármögnuð er úr sameiginlegum sjóðum Norðurlandanna. Nefndin hefur einnig umsjón með málefnum sem snerta túlkun samninga um norræna samvinnu, vinnutilhögun Norðurlandaráðs og önnur innri málefni.

Kjörnefnd.
    Kjörnefnd Norðurlandaráðs undirbýr og gerir tillögur að kjöri sem fram fer á þingfundum og aukakosningum í forsætisnefnd.

3. Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
Skipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Aðalmenn í Íslandsdeild Norðurlandaráðs árið 2019 voru: Silja Dögg Gunnarsdóttir formaður, þingflokki Framsóknarflokksins, Oddný G. Harðardóttir varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Steinunn Þóra Árnadóttir, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Vilhjálmur Árnason, þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokki Flokks fólksins, og Anna Kolbrún Árnadóttir, þingflokki Miðflokksins. Varamenn voru Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Brynjar Níelsson, þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Inga Sæland, þingflokki Flokks fólksins, Logi Einarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Willum Þór Þórsson, þingflokki Framsóknarflokksins, og Þorsteinn Sæmundsson, þingflokki Miðflokksins. Helgi Þorsteinsson gegndi stöðu ritara Íslandsdeildar Norðurlandaráðs árið 2019.

Nefndaskipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Í upphafi árs sátu Silja Dögg Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir í forsætisnefnd Norðurlandaráðs, Vilhjálmur Árnason í sjálfbærninefnd, Anna Kolbrún Árnadóttir í þekkingar- og menningarnefnd og Kolbeinn Óttarsson Proppé og Guðmundur Ingi Kristinsson í velferðarnefnd. Guðmundur Ingi sat einnig í eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs. Fyrir Norðurlandaráðsþingið í Stokkhólmi í október færðist Kolbeinn úr velferðarnefnd í sjálfbærninefnd.
    Fulltrúar Íslandsdeildar sátu auk þess á vegum Norðurlandaráðs í stjórnum norrænna stofnana og voru fulltrúar þess út á við. Steinunn Þóra Árnadóttir sat í stjórn Norræna menningarsjóðsins og sótti fund hennar í Illulisat á Grænlandi í maí. Vilhjálmur Árnason átti sæti í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans og sótti fundi hennar í Helsinki 15. febrúar og 24. október. Silja Dögg Gunnarsdóttir var aðalfulltrúi Norðurlandaráðs á fundum þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins (BSPC) fram til ársfundar samtakanna í Ósló í ágúst, sem hún sótti, og eftir það varafulltrúi. Oddný G. Harðardóttir var varafulltrúi Norðurlandaráðs hjá sömu samtökum til ársfundarins í ágúst. Hún sótti fund fastanefndar BSPC í Brussel 21. febrúar. Oddný var einnig skýrslugjafi Norðurlandaráðs á fundum Þingmannanefndarinnar um norðurskautsmál (CPAR) og sótti fundi samtakanna í Ottawa í Kanada 23.–24. maí og í Bodø í Noregi 18.–20. nóvember. Kolbeinn Óttarsson Proppé var fulltrúi Alþingis hjá þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins. Hann sótti fundi fastanefndar samtakanna í Brussel í febrúar og í Berlín 10.–11. nóvember og ársfundinn í Ósló í ágúst. Kolbeinn fór einnig sem fulltrúi sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs á fund á vegum Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni í Montreal 26.–27. nóvember og á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Madríd 10.–12. desember. Vilhjálmur Árnason fór sem fulltrúi sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs á fund um orkumálastefnu ESB 20. mars í Brussel.

Starfsemi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs fundaði tíu sinnum á árinu. Fundað var í janúar, febrúar, mars, apríl (þrisvar), júní, september, október og desember. Til funda deildarinnar var boðið fulltrúum Norðurlandaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, Norræna félagsins, Norðurlandaráðs æskunnar, upplýsingaþjónustunnar Halló Norðurlönd, Norræna hússins og fleiri einstaklingum og samtökum sem tengjast norrænu samstarfi. Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, fundaði með Íslandsdeild Norðurlandaráðs á árinu.

4. Fundir Norðurlandaráðs.
Janúarfundur Norðurlandaráðs í Reykjavík 21.–22. janúar 2019.
    Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundinn Oddný G. Harðardóttir, starfandi formaður, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Steinunn Þóra Árnadóttir, Anna Kolbrún Árnadóttir, Vilhjálmur Árnason og Guðmundur Ingi Kristinsson, auk Helga Þorsteinssonar ritara. Einnig komu á fundina Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. Janúarfundir Norðurlandaráðs voru að þessu sinni haldnir á Grand hótel í Reykjavík.
    Á fundi forsætisnefndar var samþykkt tillaga flokkahóps miðjumanna um að Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokki Flokks fólksins, tæki sæti í velferðarnefnd og eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs.
    Sigurður Ingi Jóhannsson kom á fund forsætisnefndar fyrir hönd norrænu samstarfsráðherranna til að ræða fjárhagsáætlun norræns samstarfs fyrir árið 2020. Hann sagði frá því að ráðgert væri að halda fjárhagsrammanum óbreyttum milli ára, að stefnt væri að því að færa um 30 milljónir danskra króna milli málaflokka og að unnið væri að því að gera fjárhagsáætlunina sveigjanlegri.
    Norræna ráðherranefndin hefur skilgreint þrjú áherslusvið fyrir árið 2020: stafræna þróun, frjálsa för og alþjóðlega markaðssetningu. Sænski þingmaðurinn Jessica Polfjärd, forseti Norðurlandaráðs árið 2019, sagði þá frá megináherslum Norðurlandaráðs varðandi fjárhagsáætlunina, en þær eru að ryðja burt stjórnsýsluhindrunum, vinna gegn lokun höfundarréttarvarins efnis eftir svæðum, málefni sem snerta tungumál og vefinn Norðurlönd í skólanum, stafræna þróun og starfsréttindi. Í umræðum um fjárhagsáætlunina lögðu forsætisnefndarmenn mikla áherslu á stjórnsýsluhindranir. Britt Lundberg, þingmaður frá Álandseyjum og fyrrverandi forseti Norðurlandaráðs, sagðist hafa miklar áhyggjur af þróun mála varðandi frjálsa för milli landanna. Norski þingmaðurinn Martin Kolberg tók undir orð hennar og sagði að stundum stæði norræna ráðherranefndin í veginum þegar Norðurlandaráð reyndi að ryðja burt stjórnsýsluhindrunum.
    Töluverð umræða varð á fundi forsætisnefndar um tillögu flokkahóps norrænna vinstri grænna um að gera starfsemi Norðurlandaráðs kolefnishlutlausa. Ákveðið var að láta skrifstofu Norðurlandaráðs kanna tæknilega þætti og mögulegar lausnir.
    Um þessar mundir er verið að vinna að endurskoðun á fyrirkomulagi verðlauna Norðurlandaráðs. Lilja Alfreðsdóttir kom á fund forsætisnefndar fyrir hönd menntamálaráðherra Norðurlanda, m.a. til að ræða þau mál. Forsætisnefndin hefur haft til meðferðar tillögu flokkahóps miðjumanna um að Norðurlandaráð veiti framvegis sérstök sjónvarpsverðlaun. Tillagan var upprunalega lögð fram árið 2015 að frumkvæði Íslendinga en hefur verið rædd ítrekað síðan á vettvangi Norðurlandaráðs. Lilja sagði að norrænu menntamálaráðherrarnir teldu ekki ástæðu til að fjölga verðlaununum. Forsætisnefndarmenn voru henni sammála, en sumir þeirra nefndu að skoða mætti að afnema önnur verðlaun eða breyta fyrirkomulaginu þannig að sum verðlaunanna yrðu aðeins veitt annað hvert ár.
    Á fundi forsætisnefndarinnar með Lilju Alfreðsdóttur var einnig rætt um fjárframlög til fimm norrænna rannsóknastofnana, þar á meðal Norræna eldfjallasetursins. Norrænu menntamálaráðherrarnir ákváðu í janúar 2018 að fella niður fastar fjárveitingar til stofnananna. Á vorþingi 2018 kom í ljós að andstaða var við þessi áform, einkum í hópi íslenskra þingmanna. Í kjölfarið voru áformin tekin til endurskoðunar. Sérstakur samningamaður, Svíinn Peter Stenlund, var fenginn til að vinna tillögur um fjármögnun og skipulag stofnananna til framtíðar.

Vorþing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn 8.–9. apríl 2019.
    Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu þingið Silja Dögg Gunnarsdóttir formaður, Oddný G. Harðardóttir varaformaður, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Steinunn Þóra Árnadóttir, Anna Kolbrún Árnadóttir og Guðmundur Ingi Kristinsson, auk Helga Þorsteinssonar ritara. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kom einnig á þingið. Vorþing Norðurlandaráðs var að þessu sinni haldið á Marriott-hótelinu í Kaupmannahöfn.
    Á fundi forsætisnefndar Norðurlandaráðs var m.a. samþykkt tillaga sem upprunalega er komin frá flokkahópi miðjumanna þar sem hvatt er til aukins einkaréttarlegs samstarfs milli norrænu landanna. Lagt er til að opnaður verði sameiginlegur gagnabanki með upplýsingum um réttarheimildir og að tekið verði upp að nýju einkaréttarlegt löggjafarsamstarf milli landanna þannig að hægt verði að samræma löggjöf á þeim sviðum þar sem stjórnsýsluhindranir verða til. Rædd var tillaga frá miðflokkahópnum um stofnun norrænna sjónvarpsverðlauna sem upphaflega var lögð fram árið 2015. Hún hefur verið rædd ítrekað á vettvangi Norðurlandaráðs, send til umsagnar og umskrifuð nokkrum sinnum. Meiri hluti forsætisnefndarmanna vildi nú ljúka málsmeðferðinni og fella tillöguna. Fulltrúar miðflokkahópsins gerðu fyrirvara við þá ákvörðun og því var tillagan rædd á ný á Norðurlandaráðsþingi í Stokkhólmi í október. Samþykkt var tillaga frá flokkahópi norrænna vinstri grænna um að draga úr loftslagsáhrifum starfsemi Norðurlandaráðs og gera hana umhverfisvænni. Skrifstofu Norðurlandaráðs hafði verið falið að leita leiða til að ná þessum markmiðum. Samþykkt var tillaga um að kanna möguleika á nánara samstarfi Norðurlandaráðs við skoska þingið, en fulltrúar þess hafa leitað eftir slíkri samvinnu. Ráðgert var að embættismenn frá þinginu heimsæktu skrifstofu Norðurlandaráðs til að fara yfir málin. Samþykkt var að Norðurlandaráð tæki þátt í loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem þá var ráðgert að halda í Síle í desember.
    Paula Lehtomäki, nýr framkvæmdastjóri norrænu ráðherranefndarinnar, kom á fund forsætisnefndar. Hún fjallaði um fjárhagsáætlun norræns samstarfs og um nýja framtíðarsýn fyrir samstarfið sem samstarfsráðherrarnir unnu að undir forustu Íslendinga sem voru í formennsku fyrir norrænu ráðherranefndina árið 2019. Forsætisnefndarmenn sem til máls tóku óskuðu margir eftir að norræna ráðherranefndin hefði aukið samráð við Norðurlandaráð um mótun fjárhagsáætlunar og í öðrum málum. Britt Lundberg, þingmaður frá Álandseyjum og fyrrverandi forseti Norðurlandaráðs, kvartaði jafnframt yfir því ráðherrarnir legðu ekki alltaf nægilega áherslu á norrænt samstarf.
    Í tengslum við vorþingið var haldinn umræðufundur með norrænum frambjóðendum til Evrópuþingsins frá Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi. Þar var rætt um Norðurlönd eftir Brexit, umhverfismál og varnar- og öryggismál. Frambjóðendurnir voru sammála um það að með útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu væru Norðurlöndin að missa náinn og mikilvægan bandamann og til að tryggja að rödd þeirra væri áfram sterk innan ESB þyrftu þau að starfa enn nánar saman.
    Þema þingfundar Norðurlandaráðs var að þessu sinni kynjajafnrétti sem forsenda lýðræðis. Steinunn Þóra Árnadóttir gerði að umtalsefni svonefnda samtvinnun (e. intersectionality) en það er hugtak innan kynjafræði sem tekur til mismunandi þátta sem hafa áhrif á stöðu kvenna í samfélaginu, m.a. fötlunar, efnahagslegrar stöðu og uppruna og svo framvegis, til viðbótar við það sem tengist því beinlínis að þær eru konur. Hún benti á að konur væru ekki einsleitur hópur og því væri ekki til einhver ein leið eða lausn til að ná fram bæði kynjajafnrétti og jafnrétti í víðari skilningi. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði frá ráðstefnu sem halda átti á Íslandi þá um haustið í tengslum við formennsku Íslands í norrænu ráðherranefndinni þar sem m.a. átti að fjalla um metoo-málefni. Líkt og Steinunn Þóra gerði hún að umfjöllunarefni mismunandi stöðu ólíkra hópa kvenna Ofbeldi gegn fötluðum konum gæti t.d. átt aðrar birtingarmyndir en ofbeldi gegn ófötluðum og ofbeldi gegn konum af erlendum uppruna gæti verið samtvinnað kynþáttahyggju og útlendingaandúð. Svandís benti á að mikilvægt væri að í heilbrigðiskerfinu væri unnið markvisst að því að bera kennsl á einkenni ofbeldis til að hægt væri að veita nauðsynlegan stuðning. Silja Dögg Gunnarsdóttir ræddi um kynferðislega áreitni gegn stúlkum á skólaaldri og hugsanleg áhrif hennar á heilbrigði þeirra og sérstaklega geðrænan vanda. Hún vísaði til þess að samkvæmt könnun sem gerð var í Finnlandi segðust 12% drengja og 30% stúlkna á aldrinum 14 til 15 ára hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni undanfarið ár. Hún beindi spurningum til norrænu ráðherranna um leiðir til vinna gegn þessum vanda og möguleika á auknu norrænu samstarfi. Janis Vucans, forseti Eystrasaltsþingsins, sem var gestur á vorþinginu, sagði að Norðurlönd væru Eystrasaltsríkjunum fyrirmynd í jafnréttismálum. Hann sagði að miklar framfarir hefðu orðið á þessu sviði í síðustu árum í Eistlandi, Lettlandi og Litháen, en mörg verkefni væru eftir. Hann nefndi m.a. að um 30% þingmanna í Eistlandi og Lettlandi væru konur og 22% í Litháen.
    Á þinginu voru samþykktar tvær tillögur sem upphaflegu komu frá flokkahópi jafnaðarmanna en breyttust nokkuð í meðförum Norðurlandaráðs. Önnur tillagan gengur út á það að hvetja norrænu ráðherranefndina til að stuðla að því að laða alþjóðleg kvikmyndaverkefni til Norðurlanda, t.d. með því koma á fót norrænni kvikmyndanefnd. Hin snýst um að hrinda af stað norrænu tónlistarverkefni sem nefnist „Spil Nordisk“ til að efla alla greinar norræns tónlistarlífs, m.a. á þann hátt að norrænni tónlist verði gert hærra undir höfði í dagskrá norrænu almannaþjónustustöðvanna. Tvær tillögur frá flokkahópi norrænna vinstri grænna, önnur um að heimila jaðarkynverundarhópum að gefa blóð og hin um að vísa ekki einstaklingum úr landi til landa þar sem öryggi þeirra og réttindum er ógnað, voru felldar.
    Nokkrar nýjar þingmannatillögur voru teknar til fyrstu umræðu á þinginu, þar á meðal tillaga frá flokkahópi miðjumanna um norrænt samstarf gegn heiðurskúgun, tillaga frá flokkahópi jafnaðarmanna um rafræna lyfseðla á Norðurlöndum, tillaga frá flokkahópi hægrimanna um að gera skýra grein fyrir norrænu notagildi í þingmannatillögum frá Norðurlandaráði og tillaga frá norrænum vinstri grænum um að stöðva ættleiðingar frá einræðisríkjum og ótryggum löndum.

Sumarfundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs í Helsingborg í Svíþjóð 25.–27. júní 2019.
    Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundinn Silja Dögg Gunnarsdóttir formaður, Oddný G. Harðardóttir varaformaður og Steinunn Þóra Árnadóttir, auk Helga Þorsteinssonar ritara og Þorbjargar Evu Erlendsdóttur, aðstoðarmanns Steinunnar Þóru. Sumarfundur forsætisnefndar var að þessu sinni haldinn á hótelinu Villa Thalassa í Helsingborg í Svíþjóð.
    Á fundi forsætisnefndarinnar var Hans Wallmark, þingmaður sænska hægriflokksins (Moderaterna), kjörinn nýr forseti Norðurlandaráðs. Hann tók við af flokkssystur sinni, Jessicu Polfjärd, sem sagði af sér embætti eftir að hún náði kjöri á Evrópuþingið í maí.
    Á fundinum var samþykkt tillaga sem upprunalega kom frá flokkahópi jafnaðarmanna um að Norðurlönd yrðu í fararbroddi í því að vinna gegn félagslegri einangrun. Tilmælum var beint til norrænu ráðherranefndarinnar um að leitað yrði leiða til að efla fyrirbyggjandi félagslegar aðgerðir og jafnframt að tillögur sem Árni Páll Árnason lagði fram í stefnumótandi úttekt á norrænu samstarfi í félagsmálum, sem gerð var fyrir norrænu ráðherranefndina, yrðu notaðar til að sporna gegn félagslegri einangrun jaðarsettra barna og ungmenna, fullorðinna, innflytjenda, eldri borgara og fólks með fötlun á Norðurlöndum.
    Tillaga frá flokkahópi jafnaðarmanna um að kanna möguleika á að stofna norræna lýðháskóla í öllum norrænu löndunum var felld. Sú ákvörðun byggðist á umsögnum frá lýðháskólum. Forsvarsmenn þeirra töldu að betra væri að leita annarra leiða til að efla norrænt starf skólanna, t.d. að auðvelda nemendum að fá styrki til að stunda nám í lýðháskólum utan heimalandsins.
    Tillaga frá flokkahópnum norrænt frelsi um að taka upp norrænt merkingarkerfi fyrir halal- og kosherslátrun án deyfingar var jafnframt felld. Flokkahópurinn taldi að með því væri hægt að þjóna þeim neytendum sem vildu helst kjöt sem slátrað væri samkvæmt trúarlegum siðvenjum og sömuleiðis þeim sem alls ekki vildu kaupa kjöt af dýrum sem slátrað væri án deyfingar. Í nefndaráliti sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs um málið kemur fram að ESB hafi gefið út tilskipun árið 2009 sem bannar slátrun án deyfingar. Samkvæmt tilskipuninni mega einstök lönd gefa undanþágu frá þessari reglu af trúarlegum ástæðum. Ekkert norrænu landanna hefur innleitt undanþáguna en það hafa á hinn bóginn flest önnur ESB-lönd gert. Í þeim löndum gilda engar reglur um merkingu halal- og kosherslátrunar og vegna reglna innri markaðarins um frjálsa för varnings er frjálst að flytja kjöt þaðan til Norðurlanda. Sérstakt merkingarkerfi innan Norðurlanda mundi þannig ekki hafa nein áhrif.
    Samþykkt var tillaga um stofnun norrænnar nefndar um siðfræðilega viðurkenningu á klínískum rannsóknum. Tillagan er frá flokkahópi jafnaðarmanna en markmið hennar er að gera Norðurlönd eftirsóknarverðari fyrir slíkar rannsóknir og stuðla að norrænu samstarfi um klínískar fjölsetrarannsóknir með því að einfalda umsóknarferli um þær.
    Forsætisnefnd samþykkti tillögu Svía um þema leiðtogafundar á Norðurlandaráðsþingi en það verður „Hvernig getur norræna samfélagslíkanið þróað og stuðlað að sjálfbærum umskiptum?“ Drög að stefnuskjali um samfélagsöryggi var tekið til umræðu á fundinum en vinnuhópur á vegum forsætisnefndar hefur unnið að málinu frá desember 2018. Drögunum var vel tekið en lagðar voru fram tillögur um ýmsar breytingar og ákveðið að fjalla aftur um skjalið á fundi forsætisnefndarinnar í september. Samþykktar voru nýjar leiðbeiningar um túlkun og þýðingar í tengslum við fundi Norðurlandaráðs en þær styrkja stöðu finnsku og íslensku í störfum ráðsins.
    Að loknum fundi forsætisnefndar hélt hluti þingmannanna, þar á meðal Silja Dögg Gunnarsdóttir og Oddný G. Harðardóttir, áfram til Stokkhólms til að taka þátt í hringborðsumræðum um norræn varnarmál. Þar fluttu erindi Jan-Olof Lind, ráðuneytisstjóri í sænska varnarmálaráðuneytinu, og Tommy Åkesson, framkvæmdastjóri Försvarsberedningen, sem er samstarfsvettvangur sænska þingsins og ríkisstjórnarinnar í varnarmálum. Þeir greindu m.a. frá starfi Nordefco, sem er varnarmálasamstarf Norðurlanda. Lind sagði að norrænt samstarf væri lykilþáttur í varnarmálum á norðurslóðum. Åkesson sagði frá samstarfi Svía og Finna í varnarmálum, sem er mjög náið, en einnig sagði hann að tengslin við Noreg væru mikil á þessu sviði. Åkesson lagði áherslu á samstarfið á vettvangi Evrópusambandsins og sagði að það væri mikilvægasti varnarmálavettvangur Svía. Hann sagði einnig að mikilvægt væri fyrir Svía að Bretar yrðu áfram þátttakendur í evrópsku varnarmálasamstarfi eftir útgöngu þeirra úr Evrópusambandinu. Silja Dögg Gunnarsdóttir sagði að megináherslan í íslenskri utanríkispólitík væri samstarfið við Norðurlönd og að mikilvægt væri að fá aðstoð frá Norðurlöndum á ýmsum sviðum, t.d. í netöryggismálum. Hún sagði frá breyttri stöðu í öryggismálum Íslands vegna aukinnar umferðar Rússa í kringum landið og minntist á þá uppbyggingu sem verið hefur á varnarsvæðinu við Keflavíkurflugvöll.

Septemberfundir Norðurlandaráðs í Helsinki 2.–3. september 2019.
    Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundinn þau Silja Dögg Gunnarsdóttir formaður, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Steinunn Þóra Árnadóttir, Anna Kolbrún Árnadóttir, Vilhjálmur Árnason og Guðmundur Ingi Kristinsson, auk Helga Þorsteinssonar ritara. Septemberfundir Norðurlandaráðs voru að þessu sinni haldnir í finnska þinghúsinu í Helsinki.
    Í tengslum við septemberfundina var haldinn fundur um samstarf Norðurlanda í varnar- og öryggismálum. Meðal ræðumanna voru Antti Kaikkonen, varnarmálaráðherra Finnlands, Ulf Sverdrup, forstöðumaður norsku utanríkismálastofnunarinnar, og Kirsti Narinen, yfirmaður alþjóðatengsla við öndvegissetrið um blandaðar ógnir í Helsinki. Sverdrup fjallaði um nýlega greinargerð sem hann ásamt fleirum tók saman í tilefni af tíu ára afmæli Stoltenberg-skýrslunnar svokölluðu sem Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, gerði fyrir norrænu ráðherranefndina á sínum tíma. Í greinargerðinni var farið yfir hvernig gengið hefði að hrinda í framkvæmd tillögum Stoltenbergs. Sverdrup sagði að margar af tillögunum hefðu orðið að raunveruleika en að jafnframt hefði skýrslan mótað nýja framtíðarsýn og opnað á umræðu um þennan málaflokk í norrænu samstarfi.
    Á fundi forsætisnefndar Norðurlandaráðs í Helsinki var rætt um fjárhagsáætlun norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2020. Norski jafnaðarmaðurinn Martin Kolberg sagði að embættismenn norrænu ráðherranefndarinnar réðu of miklu en Norðurlandaráð of litlu um fjárhagsáætlun norræns samstarfs. Hann sagði að þingmennirnir gætu að hluta til sjálfum sér um kennt því þeir hefðu ekki sýnt þessum málum nægilegan áhuga. Hann sagði að virkja þyrfti fagnefndir Norðurlandaráðs í auknum mæli í þessari vinnu, hverja innan síns fagsviðs. Fleiri þingmenn tóku undir orð Kolbergs. Nokkuð var einnig fjallað um athugasemdir sem danska ríkisendurskoðunin hefur gert við bókhaldskerfi norrænu ráðherranefndarinnar en það er jafnframt notað í bókhaldi Norðurlandaráðs.
    Á fundi forsætisnefndar voru meginþemu formennskuáætlunar Íslands í Norðurlandaráði fyrir árið 2020 kynnt, en þau eru að standa vörð um lýðræði með því að berjast gegn upplýsingaóreiðu og falsfréttum, efling tungumálakunnáttu innan Norðurlanda og að standa vörð um líffræðilegan fjölbreytileika með áherslu á hlutverk ungs fólks og líffræðilegan fjölbreytileika í hafi. Forsætisnefndin lýsti stuðningi við tillögur Íslendinga. Samþykkt voru drög að nýrri stefnu Norðurlandaráðs um samfélagsöryggi. Meðal fulltrúa í vinnuhóp forsætisnefndar sem mótaði stefnuna var Oddný G. Harðardóttir. Tillagan var síðan tekin til lokaumfjöllunar á Norðurlandaráðsþingi í Stokkhólmi í október.
    Ný framtíðarsýn norrænu ráðherranefndarinnar til ársins 2030 um græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd var rædd á fundi forsætisnefndar. Efnislega lýstu þingmenn ánægju með framtíðarsýnina en Hans Wallmark, forseti Norðurlandaráðs, benti á að þar sem Norðurlandaráð hefði ekki fengið að hafa áhrif á mótun stefnunnar bæri það heldur ekki ábyrgð á henni.

Norðurlandaráðsþing í Stokkhólmi 28.–31. október 2019.
    Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundinn þau Silja Dögg Gunnarsdóttir formaður, Oddný G. Harðardóttir varaformaður, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Steinunn Þóra Árnadóttir, Anna Kolbrún Árnadóttir, Vilhjálmur Árnason og Guðmundur Ingi Kristinsson, auk Helga Þorsteinssonar ritara. Einnig komu á þingið Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, Guðjón Brjánsson, formaður Vestnorræna ráðsins, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. Norðurlandaráðsþing var að þessu sinni haldið í þinghúsinu í Stokkhólmi.
    Í lok þingsins var Silja Dögg Gunnarsdóttir kjörin forseti Norðurlandaráðs fyrir árið 2020 og Oddný G. Harðardóttir varaforseti. Í þakkarræðu sinni sagði Silja Dögg frá formennskuáætlun Íslendinga fyrir næsta ár en meginþemu hennar verða þrjú: upplýsingaóreiða og falsfréttir, líffræðilegur fjölbreytileiki og tungumálaskilningur milli norrænna þjóða. Hún þakkaði jafnframt Hans Wallmark, forseta Norðurlandaráðs 2019, og Gunillu Carlsson varaforseta fyrir gott samstarf á árinu.
    Tungumálaskilningur kom til umræðu á fundi forsætisnefndar Norðurlandaráðs áður en þingið hófst. Norðurlandaráð hefur beitt sér fyrir sérstakri fjárveitingu frá norrænu ráðherranefndinni til vefsins Norðurlönd í skólanum (nordeniskolen.org), en það er ókeypis námsgátt sem á að efla skilning barna og ungmenna á Norðurlöndum á málum nágranna sinna. Í tengslum við umræðu um fjárveitinguna lýstu margir forsætisnefndarmanna yfir áhyggjum sínum af því að kunnátta í tungumálum norrænna grannlanda færi minnkandi og að sífellt minni tíma væri varið í að kenna þau í skólum. Ákveðið var að fela skrifstofu Norðurlandaráðs að móta tillögu að rannsóknarverkefni til að kanna stöðu málanna í menntakerfi landanna sem norrænu ráðherranefndinni yrði falið að hrinda í framkvæmd.
    Á fundi forsætisnefndar var jafnframt samþykkt viðbótarfjárveiting frá Norðurlandaráði til verkefnis um þátttöku ungs fólks í þróun alþjóðlegs samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni, en Íslendingar hyggjast leggja sérstaka áherslu á að styðja við framkvæmd þess meðan þeir gegna formennsku í ráðinu.
    Forsætisnefnd samþykkti tillögu flokkahóps norrænna vinstri grænna um að Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingflokki Vinstri grænna, færðist úr norrænu velferðarnefndinni í norrænu sjálfbærninefndina. Vilhjálmur Árnason, þingflokki Sjálfstæðisflokksins, var endurkjörinn til tveggja ára í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans fyrir hönd Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Helgina fyrir Norðurlandaráðsþingið hélt Norðurlandaráð æskunnar að vana sitt þing. Þar voru samþykktar ályktanir um norrænt samstarf um fæðuöryggi, um aukna áherslu á tungumál og menningu norrænu nágrannalandanna í skólum, um einföldun peningamillifærslna milli norrænna landa og margt fleira. Nicholas Kujala frá Finnlandi var kjörinn nýr forseti Norðurlandaráðs æskunnar.
    Mánudaginn 29. október funduðu flokkahópar Norðurlandaráðs og nefndir komu saman fyrir hádegi daginn eftir. Norðurlandaráðsþing hófst síðan eftir hádegi þriðjudaginn 30. október. Fyrst á dagskrá þingsins var svonefndur norrænn leiðtogafundur þar sem forsætisráðherrar Norðurlanda og þingmenn Norðurlandaráðs ræddu hvernig samfélagslíkan Norðurlanda gæti stuðlað að sjálfbærum umskiptum og þróun þeirra. Katrín Jakobsdóttir hóf þá umræðu og sagði að ljóst væri hverjir bæru mestu ábyrgð á því að hrinda í framkvæmd þeim grænu umskiptum sem Norðurlönd þyrftu nú að takast á hendur. Fyrstu þyrftu stjórnmálamenn og fyrirtæki að axla ábyrgð og síðan væri hægt að byrja að ræða ábyrgð einstaklinga.
    Ný framtíðarsýn fyrir norrænt samstarf til ársins 2030 var til umræðu á þinginu. Íslendingar fara með formennsku í norrænu ráðherranefndinni í ár og höfðu því frumkvæði að mótun framtíðarsýnarinnar og forustu um hana. Í henni segir að Norðurlönd eigi á þessu tímabili að stefna að því að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Til að ná því markmiði hafa verið skilgreind þrjú stefnumarkandi áhersluatriði um græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Silja Dögg Gunnarsdóttir var talsmaður forsætisnefndar Norðurlandaráðs um framtíðarsýnina á þinginu. Hún lýsti ánægju með markmiðin þrjú og nefndi sérstaklega að gott væri að sjá hversu mikil áhersla væri lögð á loftslagsmálin. Hún benti þó einnig á atriði sem fara hefðu mátt betur og sagði að í forsætisnefnd Norðurlandaráðs hefðu komið fram athugasemdir við ferlið við gerð framtíðarsýnarinnar. Norðurlandaráð hefði verið upplýst um gang mála en ekki átt kost á að hafa bein áhrif á efni hennar. Þegar verið væri að móta sýn og áherslur til langs tíma í norrænu samstarfi væri eðlilegt að hafa Norðurlandaráð með í ráðum. Hún sagðist vona og óska þess að norræna ráðherranefndin hefði það í huga framvegis.
    Á þinginu var kynnt formennskuáætlun Dana, Færeyinga og Grænlendinga í norrænu ráðherranefndinni árið 2020 en hún tekur mið af framtíðarsýninni fyrir norrænt samstarf. Í Færeyjum verður unnið með framtíðarorkulausnir fyrir einangraðar byggðir og á Grænlandi verður sjónum beint að sjálfbærni og verðmætasköpun í sjávarbyggðum með áherslu á fiskveiðar.
    Samstarfsráðherrar Norðurlanda kynntu greinargerðir um ýmsa málaflokka, m.a. málefni fatlaðs fólks. Guðmundur Ingi Kristinsson var talsmaður velferðarnefndar Norðurlandaráðs um það mál. Hann sagði að greinargerðir af þessu tagi væru góðar ef framkvæmdir fylgdu og enn betri ef þau markmið sem bent væri á að þyrfti að laga væru í lokavinnslu eða lokið. Guðmundur Ingi sagði að ryðja þyrfti úr vegi þeim hindrunum sem að óþörfu útilokuðu fatlað fólk frá vinnu, skóla og virku lífi.
    Utanríkisráðherrar Norðurlanda fluttu á þinginu greinargerðir um utanríkis- og öryggismál. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði frá því að Birni Bjarnasyni, fyrrverandi ráðherra, hefði verið falið að móta tillögur um hvernig mætti þróa samstarf Norðurlanda á þessum sviðum enn frekar. Ráðgert er að tillögurnar liggi fyrir um mitt næsta ár. Áratugur er liðinn síðan Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, tók saman skýrslu um sama efni fyrir utanríkisráðherrana og þótti hún marka ákveðin tímamót í norrænu samstarfi. Síðan þá hafa verið teknar saman skýrslur af sama tagi um ýmis málefni sem snerta samstarfið.
    Í umræðum ráðherranna og þingmanna Norðurlandaráðs kom fram að Norðurlönd stæðu saman að því að fordæma framferði Tyrkja í Sýrlandi. Þegar talið barst að stöðu Katalóníu varð Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, fyrir svörum. Hann var varkár í svari sínu en sagði að mikilvægt væri að mannréttindi væru virt og að ofbeldi væri ekki beitt. Rætt var um stefnu og athafnir Bandaríkjamanna á norðurslóðum. Guðlaugur Þór sagði að fagna bæri áhuga þeirra á þessu svæði og að rækta þyrfti tengslin við Bandaríkin.
    Í tengslum við þingið átti Guðlaugur Þór jafnframt fund með utanríkis- og þróunarmálaráðherrum Norðurlanda og skrifaði undir samkomulag Íslands, Noregs, Danmerkur og Færeyja um skiptingu landgrunns á Ægisdjúpi, en það er suðurhluti þess svæðis sem liggur milli efnahagslögsögu landanna og er í daglegu tali nefnt síldarsmugan. Hann fundaði jafnframt sérstaklega með Jenis av Rana, utanríkisráðherra Færeyja, um framtíð Hoyvíkursamningsins.
    Á þinginu var samþykkt ný stefna Norðurlandaráðs um samfélagsöryggi sem sérstakur vinnuhópur á vegum forsætisnefndar Norðurlandaráðs hafði unnið að undanfarna mánuði. Oddný G. Harðardóttir átti sæti í þeim hópi. Á þinginu sagði hún að margir sérfræðingar og embættismenn hefðu komið á fund Norðurlandaráðs til að fjalla um þessi mál og að allir hefðu þeir talið að mun meira samstarf væri mögulegt og gagnlegt en að hins vegar skorti pólitíska forustu og skýrt umboð. Með skýrslunni væri leitast við að gefa skýr skilaboð til ríkisstjórna Norðurlandanna.
    Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svía, flutti greinargerð fyrir hönd norrænna varnarmálaráðherra á þinginu og fjallaði þar um versnandi stöðu í öryggismálum á nærsvæðum Norðurlanda og um aukið samstarf landanna á vettvangi Nordefco. Steinunn Þóra Árnadóttir gagnrýndi að í máli Hultqvists kvæði við annan tón en í greinargerðum utanríkisráðherranna þar sem hefði verið lögð áhersla á loftslagsmál, netöryggismál og mikilvægi þess að taka þátt í starfi alþjóðlegra stofnana. Stærsta ógnin sem að heiminum steðjaði væru loftslagsbreytingar og ekki væri hægt að takast á við þær með vopnum eða stríðstólum. Hún sagði að fjármagni sem nú færi til vopnakaupa væri betur varið til að aðstoða þær þjóðir sem verst yrðu úti vegna loftslagsbreytinga. Steinunn Þóra hvatti jafnframt til þess að Norðurlönd beittu sér fyrir því að kjarnorkuvopnum yrði útrýmt.
    Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti nýja tillögu norrænu ráðherranefndarinnar um fjármögnun fimm norrænna rannsóknastofnana: Norrænu kjarneðlisfræðistofnunarinnar í Stokkhólmi, Norrænu sjóréttarstofnunarinnar í Ósló, Norrænu stofnunarinnar um Asíurannsóknir í Kaupmannahöfn og Norræna eldfjallasetursins í Reykjavík. Menntamálaráðherrar Norðurlanda ákváðu í janúar 2018 að fella niður fastar fjárveitingar til stofnananna. Á vorþingi Norðurlandaráðs 2018 kom í ljós að andstaða var við þessi áform, einkum í hópi íslenskra þingmanna, en einnig var Lilja efins um að rétt aðferð hefði verið valin. Í kjölfarið beitti hún sér fyrir því að áformin yrðu tekin til endurskoðunar.
    Sérstakur samningamaður, Finninn Peter Stenlund, var fenginn til að vinna tillögur um fjármögnun og skipulag stofnananna til framtíðar og þær lágu til grundvallar nýjum tillögum norrænu ráðherranefndarinnar þar sem lagt var til að fjárveitingar til samstarfsstofnananna yrðu fluttar til Norræna vísindaráðsins (NordForsk) frá og með fjárhagsárinu 2021 og féllu niður í núverandi mynd þremur árum síðar. Þetta aðlögunartímabil er lengra en í fyrri tillögunum. Lilja sagði að frá og með árinu 2024 yrði Norræna vísindaráðinu falið að bjóða upp á stofnanaáætlun sem mundi koma til viðbótar við aðra fjármögnun rannsókna og hæfa starfsemi umræddra samstarfsstofnana. Markmiðið með stofnanaáætluninni yrði að greiða fyrir langtímarannsóknum sem sköpuðu norrænan virðisauka. Flokkahópur jafnaðarmanna, þar á meðal Oddný G. Harðardóttir, lagðist gegn tillögu ráðherranefndarinnar og taldi að réttara væri að halda fjármögnun þessara stofnana óbreyttri, enda hefðu þær skilað góðum árangri hingað til og að ekki mætti veikja tengingu þeirra við norrænt samstarf. Jafnframt lögðu jafnaðarmenn til að athugaðir yrðu möguleikar á að koma á fót norrænni rannsóknastofnun í Finnlandi, en þar er engin sem stendur. Kolbeinn Óttarsson Proppé og Vilhjálmur Árnason tóku til máls undir þessum dagskrárlið og studdu tillögu ráðherranefndarinnar. Vilhjálmur lagði þó áherslu á að stofnunum yrði áfram gert kleift að gegna mikilvægu hlutverki sínu og norrænum tengslum.
    Á þinginu voru samþykktar þrjár þingmannatillögur sem fjallað hafði verið um í þekkingar- og menningarnefnd Norðurlandaráðs: um norræna framkvæmdaáætlun á sviði útivistar, um samnorrænt faggildingarkerfi fyrir hrygg- og liðskekkjufræðinga (osteópata) og um betri skilyrði fyrir hreyfanleika nemenda við lýðháskóla og samstarf lýðháskóla á Norðurlöndum. Anna Kolbrún Árnadóttir var talsmaður flokkahóps miðjumanna um síðastnefndu tillöguna sem miðar að því að auðvelda norrænum lýðháskólum og nemendum að sækja um styrki.
    Samþykkt var tillaga frá flokkahópi miðjumanna um norrænt samstarf gegn heiðurskúgun og tillaga frá flokkahópi jafnaðarmanna um rafræna lyfseðla á Norðurlöndum. Tillaga frá norrænum vinstri grænum um að stöðva ættleiðingar frá einræðisríkjum og ótryggum löndum var á hinn bóginn felld. Í skýringum með síðastnefndu tillögunni segir að sýnt hafi verið fram á ýmsa misbresti og lögbrot í tengslum við ættleiðingar frá Víetnam, Eþíópíu, Indlandi og fleiri löndum. Í skýringum með tillögunni segir: „Vitað er til þess að siðlausum aðferðum hafi verið beitt til að fá börn til ættleiðingar, allt frá þrýstingi og mútum til barnsrána. Ættleiðingarskjöl hafa verið fölsuð og undirskriftir fengnar á fölskum forsendum.“ Meiri hluti velferðarnefndar Norðurlandaráðs komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri norrænt notagildi fólgið í því að vinna með málið á vettvangi Norðurlandaráðs og að því væri nú þegar sinnt í samræmi við löggjöf hvers lands.
    Samþykktar voru fjórar tillögur sem tengjast umhverfismálum og sjálfbærni: um loftslagsvænan byggingariðnað á Norðurlöndum, um að efla norrænar umhverfisfjármögnunarleiðir, um sjálfbæra neyslu og framleiðslu og um Norðurlönd sem forustusvæði á sviði sjálfbærs fiskeldis og bláa hagkerfisins. Kolbeinn Óttarsson Proppé var talsmaður flokkahóps norrænna vinstri grænna í öllum þessum málum. Varðandi tillöguna um eflingu umhverfisfjármögnunarleiða ræddi Kolbeinn hvort ekki mætti ganga enn lengra á þessu sviði og endurhugsa allt fjármögnunarkerfið með tilliti til loftslagssjónarmiða.
    Samþykktar voru fimm tillögur af starfssviði hagvaxtar- og þróunarnefndar Norðurlandaráðs: um virkan norrænan vinnumarkað, um gagnkvæma viðurkenningu á menntun og starfsréttindum á hliðstæðum starfssviðum, um árlega vog sem mælir norræna samþættingu, um ferðaþjónustu á norðurskautssvæðinu, um að tryggja margbreytileika í stjórnum fyrirtækja og um að draga úr losun frá flugvélum.
    Á þinginu fór fram fyrsta umræða um nýjar þingmannatillögur. Flokkahópur miðjumanna kynnti tillögu um afnám klukkubreytinga á Norðurlöndum. Jafnaðarmenn kynntu tillögur um að draga úr koldíoxíði í nýbyggingum, um stofnun norrænnar miðstöðvar um rannsóknarblaðamennsku í Björgvin í Noregi og um örplast í mannslíkamanum.
    Flokkahópur hægrimanna sagði frá tillögum um sameiginlega norræna stefnu í öryggismálum um fimmtu kynslóðar farsímanet, um aukið samstarf norrænna sendiráða við að aðstoða börn og ungmenni sem orðið hafa verið beitt heiðurskúgun við að komast heim, um mat á skilvirkni og lykiltölur fyrir velferðargeirann og frá tillögu um að Norðurlönd sameinist um að taka upp svonefnda Magnitskí-löggjöf um refsiaðgerðir gegn einstaklingum sem framið hafa alvarleg mannréttindabrot eða verið í vitorði með mönnum sem það hafa gert. Flokkahópurinn lagði einnig fram tillögu um að Norðurlönd skoði hvaða lærdóm megi draga af svonefndu New York-löggæslulíkani, en Vilhjálmur Árnason var talsmaður flokkahópsins í því máli. Norrænir vinstri grænir kynntu tillögur um móttöku flóttamanna og hælisleitenda og um aðlögun þeirra, um aðgerðir Norðurlanda gegn hægriöfgum og um náttúrulegar lausnir til að binda og geyma koldíoxíð.
    Á síðasta degi þingsins flutti Michael Tjernström, prófessor við veðurfræðistofnun Stokkhólmsháskóla, erindi um loftslagsmál. Tjernström fór yfir rannsóknir á áhrifum loftslagsbreytinga en sagðist sjálfur telja að alvarlegustu afleiðingarnar tengdust bráðnun jökla og hækkun yfirborðs sjávar. Hann sagði að skortur væri á pólitísku frumkvæði í loftslagsmálum. Stjórnmálamenn ættu ekki að reyna að geta sér til um vilja fólksins heldur leiða samfélagið í rétta átt, ekki vegna þess að það væri vinsælt heldur vegna þess að það væri rétt og ekki vegna þess að það væri auðvelt heldur vegna þess að það væri erfitt.
    Kolbeinn Óttarsson Proppé talaði fyrir hönd sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs og þakkaði Tjernström fyrir ræðuna. Hann sagði að Tjernström hefði komið inn mörg þeirra mála sem sjálfbærninefndin fundaði um á hverjum fundi. Kolbeinn sagði að í loftslagsmálum væri ekki til nein ein töfralausn, það þyrfti að gera allt mögulegt og að menn þyrftu að vera óhræddir við að velta við öllum steinum.
    Í tengslum við þingið funduðu fulltrúar forsætisnefndar Norðurlandaráðs, þar á meðal Silja Dögg Gunnarsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir, með fulltrúum efri og neðri deildar rússneska þingsins og þingmannasamtaka Norðvestur-Rússlands (PANWR). Samtímis funduðu Oddný G. Harðardóttir og fleiri þingmenn í forsætisnefnd Norðurlandaráðs með Guðjóni S. Brjánssyni, formanni Vestnorræna ráðsins, og fleiri fulltrúum þess.

Fundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs í Jevnaker í Noregi 9.–10. desember.
    Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundinn Silja Dögg Gunnarsdóttir formaður, Oddný G. Harðardóttir varaformaður og Steinunn Þóra Árnadóttir, auk Helga Þorsteinssonar ritara og Þorbjargar Evu Erlendsdóttur, aðstoðarmanns Steinunnar Þóru. Desemberfundur forsætisnefndar var að þessu sinni haldinn í bænum Jevnaker, skammt norðan Óslóar.
    Í tengslum við forsætisnefndarfundinn var haldið málþing um samskipti Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna við Kína. Þar fluttu erindi dr. Ulf Sverdrup, forstöðumaður norsku utanríkismálastofnunarinnar, dr. Henrik Stålhane, fræðimaður við sömu stofnun, og Ligita Davidova, forstöðumaður Asíu- og Eyjaálfuskrifstofu lettneska utanríkisráðuneytisins. Stålhane fjallaði um breytta afstöðu Bandaríkjamanna til Kína og sagði að spennu í samskiptum ríkjanna mætti rekja til aukins efnahagslegs styrks Kínverja, tækniframfara þeirra og andlýðræðislegs stjórnkerfis, en einnig til þess að Kínverjar neiti að beygja sig fyrir valdi Bandaríkjamanna og bjóði fram eigið líkan í efnahags- og stjórnmálum sem valkost í samkeppni við vestrænt lýðræði. Stålhane sagði að Kínverjar teldu Evrópu ekki til stórvelda í alþjóðamálum en vegna aukinnar spennu í samskiptum þeirra við Bandaríkjamenn hafi staða Evrópu gagnvart Kína styrkst að undanförnu. Hann sagði að Kínverjar væru andsnúnir auknu samstarfi Evrópuþjóða, en að Evrópuþjóðirnar væru einmitt í auknum mæli að samræma stefnu sína gagnvart Kína. Stålhane sagði að Norðurlöndin, einkum Noregur, Ísland og Finnland, og Eystrasaltsríkin væru í hópi þeirra Evrópuþjóða sem hefðu haft hvað mestan hag af efnahagslegum uppgangi Kínverja. Dr. Ulf Sverdrup sagði frá nýlegri skoðanakönnun á viðhorfum Norðurlandabúa til kínverskra fjárfestinga. Í ljós kom að margir óttast að þær leiði til þess að löndin missi vald yfir auðlindum sínum, en einnig hafa menn áhyggjur af öryggismálum, spillingu, umhverfisáhrifum og vinnuaðstæðum í þessu sambandi. Mikill munur er á afstöðu aldurshópa. Yngra fólkið hefur mestar áhyggjur af umhverfismálum í tengslum við fjárfestingar Kínverja en síður af öryggismálum. Ligita Davidova sagði mikilvægt að Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin stæðu saman um grundvallaratriði sem varða mannréttindi og gildi réttarríkisins og lýðræðisins í samskiptum sínum við Kína. Jafnframt þyrftu þau saman að standa fast á því að hugverkaréttur væri virtur og markaðsaðgangur óhindraður.
    Að loknu málþinginu funduðu Jãnis Vucãns, forseti Eystrasaltsþingsins, og Inese Voika, sem situr í forsætisnefnd þingsins, með forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Vucãns og Voika eru bæði frá Lettlandi en fulltrúar eistneska og litháíska þingsins komust ekki. Þingmennirnir á fundinum í Jevnaker héldu áfram að ræða samskiptin við Kína. Ýmsir nefndu þörfina á auknu eftirliti með umsvifum Kínverja á Norðurlöndum. Einnig var nokkuð rætt um áhrif Rússa, sérstaklega í Eystrasaltsríkjunum. Töluvert var talað um Silkiveginn svokallaða sem Kínverjar eru að vinna að, en einn angi hans eru flutningar á vörum frá Kína sjóleiðina norðan Rússlands og síðan áfram með lest frá Helsinki gegnum Eystrasaltsríkin og Pólland.
    Á fundinum var samstarfsáætlun Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins fyrir árið 2020 samþykkt. Töluverðar umræður urðu um hvort ætti að nefna fyrst öryggismál eða loftslagsmál í áætluninni. Fulltrúar flokkahóps norrænna vinstri grænna í Norðurlandaráði, Steinunn Þóra Árnadóttir og danski þingmaðurinn Christian Juhl, vildu leggja áherslu á loftslagsmálin, en aðrir flokkahópar vildu nefna öryggismálin fyrst. Samþykkt var málamiðlunartillaga þar sem talað er um öryggismálin í víðum skilningi sem einnig tekur til loftslagsmála. Áætlunin tekur einnig til samstarfs á sviðum stafrænnar tækni, gervigreindar, jafnréttis, hringrásarhagkerfis, orkumála og samgangna auk frjálsrar farar. Jãnis Vucãns skrifaði undir samninginn fyrir hönd Eystrasaltsþingsins og Silja Dögg Gunnarsdóttir fyrir hönd Norðurlandaráðs. Silja gegnir embætti forseta Norðurlandaráðs árið 2020.
    Í formennskutíð Íslands í norrænu ráðherranefndinni árið 2020 var mótuð framtíðarsýn fyrir norrænt samstarf til ársins 2030. Í framtíðarsýninni eru þrjár stefnumarkandi áherslur um græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Á árinu 2020 verða mótaðar þverlægar framkvæmdaáætlanir fyrir tímabilið 2021–2024 sem byggjast á áherslunum þremur. Í september sl. báðu samstarfsráðherrar Norðurlanda Norðurlandaráð um að leggja fram tillögur að markmiðum fyrir framkvæmdaáætlanirnar. Fagnefndir Norðurlandaráðs fjölluðu í kjölfarið um málið og sendu fjölda tillagna til forsætisnefndar. Á dagskrá fundar forsætisnefndar í desember var að forgangsraða og ákveða hvaða tillögur ætti að senda áfram til norrænu ráðherranefndarinnar. Miklar umræður urðu um áherslurnar og fór svo að ekki tókst að ljúka málinu á fundinum sjálfum. Skrifstofa Norðurlandaráðs tók saman skjal með tillögum sem byggðust á þeim viðhorfum sem fram höfðu komið og sem ákveðið var að senda til umsagnar og umfjöllunar til þingmanna forsætisnefndar. Norrænir vinstri grænir gerðu þó athugasemd við að í skjalinu væri ekki tekið nægilegt tillit til tillagna fagnefndanna og sérstaklega að umhverfismálum væri ekki gert nægilega hátt undir höfði. Umfjöllunin hélt áfram rafrænt næstu daga og greidd voru atkvæði um einstök mál og breytingartillögur frá flokkahópunum. Niðurstaðan varð að koma ætti eftirfarandi áherslum á framfæri við norrænu ráðherranefndina og var það gert 16. desember sl.:
          Skipan ráðherranefndar um samgöngumál.
          Samstarf um innleiðingu ESB-löggjafar.
          Sameiginlegar lausnir fyrir rafvæðingu og hleðslustöðvar við vegi og hafnir á Norðurlöndum.
          Samræming og innleiðing norrænna stafrænna lausna í opinberri þjónustu fyrir einkaaðila og viðskiptalífið.
          Varanlegt samstarf um hagtölur á landamærasvæðum.
          Örugg, sjálfbær og lýðræðisleg samfélög.
          Upplýsingaóreiða og lýðræði.
          Jafnrétti.
          Menning og sjálfbær þróun.
          Tungumálaskilningur.

5. Þingmannaráðstefna Eystrasaltssvæðisins í Ósló.
    Silja Dögg Gunnarsdóttir, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, sótti ráðstefnuna auk Helga Þorsteinssonar, ritara Íslandsdeildar Norðurlandaráðs. Ársfundur þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins (BSPC) var að þessu sinni haldinn í þinghúsinu í Ósló.
    Rúmlega 180 fulltrúar frá þingum landa, sjálfstjórnarsvæða og héraða og frá ýmsum alþjóðasamtökum sátu fundinn. Yfirskrift hans var „Hrein höf og framtíð starfa. Áskoranir og framtíðarsýn“ (Clean Oceans & Future of working Life. Challenges and Visions). Auk þess var á fundinum fjallað um fólksflutninga og aðlögun innflytjenda og flóttamanna. Dagskráin hófst sunnudaginn 25. ágúst. Fulltrúar Norðurlanda og Norðurlandaráðs héldu fyrst óformlegan undirbúningsfund til að ráða ráðum sínum. Næst fundaði fastanefnd samtakanna og að lokum sérstök nefnd sem vann að drögum að lokaályktun fundarins. Ársfundurinn sjálfur með þátttöku allra fulltrúa hófst mánudaginn 26. ágúst og lauk á þriðjudeginum.
    Jorodd Asphjell, þingmaður norskra jafnaðarmanna, hefur gegnt stöðu forseta þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins frá síðasta ársfundi. Í ávarpi sem hann flutti við móttöku í ráðhúsi Óslóar á sunnudagskvöldið benti hann á að í Ósló hefði náðst mikill árangur í umhverfismálum, enda hefði borgin verið útnefnd Græn höfuðborg Evrópu árið 2019, og sagði að þetta gæti orðið mönnum innblástur á vettvangi BSPC. Hann nefndi sem dæmi að Óslóarfjörður hefði verið hreinsaður, almenningssamgöngur efldar og bílum sem gengju fyrir rafmagni eða lífgasi hefði fjölgað mjög.
    Við upphaf ársfundarins flutti Asphjell á ný ávarp og einnig Tone Wilhelmsen Trøen, forseti norska þingsins, og Audun Halvorsen, undirráðherra í norska utanríkisráðuneytinu. Öll töluðu þau um mikilvægi alþjóðasamstarfs en jafnframt komu fram áhyggjur af vaxandi spennu í alþjóðasamskiptum. Halvorsen talaði um að sum ríki væru nú andsnúin fjölþjóðlegu samstarfi en að Noregur legði mikla áherslu á að standa vörð um það. Asphjell talaði um að alþjóðasamskipti þyrftu að byggjast á gildum réttarríkisins og á virðingu fyrir mannréttindum og reyna þyrfti að draga úr spennu í samskiptum ríkja. Einmitt þessi atriði sem Asphjell nefndi voru í forgrunni í málflutningi og tillögum Norðurlandaþjóðanna og Norðurlandaráðs á ársfundinum. Norðmennirnir þrír lögðu einnig mikla áherslu á málefni hafsins. Halvorsen sagði að nú væri enn mikilvægara en áður að tryggja að jafnvægi ríkti milli verndunar og nýtingar hafsins. Í þessu skyni hefði Erna Solbjerg, forsætisráðherra Noregs, í fyrra myndað hóp forsætisráðherra frá ýmsum löndum til að vinna að sjálfbæru hagkerfi hafsins (High Level Panel for a sustainable Ocean Economy). Hann sagði jafnframt frá alþjóðaráðstefnu um málefni hafsins sem haldin verður í Ósló í október nk. Þetta verður í sjötta sinn sem slík ráðstefna er haldin undir yfirskriftinni „Our Ocean“, en ári áður var hún haldin í Indónesíu og á næsta ári verður hún haldin í eyríkinu Palá í Kyrrahafi.
    Fyrst á dagskrá ársfundarins að opnunarávörpunum loknum var almenn umræða um samstarf við Eystrasaltið í víðum skilningi. Meðal ræðumanna var Nils Muizniek, fyrrum mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins. Muizniek fjallaði um það hvernig þjóðernispópúlistar í Evrópu græfu undan mannréttindum og beittu í þeim tilgangi ýmsum rökum. Þeir segðu t.d. að verið væri að veita ákveðnum hópum of mikil réttindi, t.d. innflytjendum, minnihlutahópum, afbrotamönnum og hryðjuverkamönnum, en ekki væri gætt að hagsmunum hins „þögla meiri hluta“. Jafnframt teldu þeir að „of mikið jafnrétti“ stefndi fjölskyldum og hefðbundnum gildum í hættu. Muizniek sagði að framferði þjóðernispópúlista ógnaði t.d. réttinum til að leita hælis, réttinum til jafnrar meðferðar, jafnrétti kynjanna og réttindum hinsegin fólks. Jafnframt væri grafið undan baráttu gegn heimilisofbeldi og frelsi fjölmiðla. Muizniek nefndi dæmi um ýmis lönd og svæði í Evrópu þar sem mannréttindum hefði farið aftur síðustu ár, og voru í þeim hópi tvö aðildarríki BPSC, þ.e. Rússland og Pólland. Einn af pólsku þingmönnunum á ársfundinum brást hart við og sagði m.a. að fyrri ríkisstjórnir Póllands hefðu hegðað sér með svipuðum hætti en þá hefði enginn sagt neitt. Jafnframt sagði hann að stefna ríkisstjórnar Póllands væri í fullu samræmi við stjórnarskrá landsins og að lýðræði stæði þar í blóma, en að standa þyrfti vörð um gildi landsmanna og verja kaþólsku kirkjuna fyrir árásum. Silja Dögg Gunnarsdóttir tók einnig til máls og þakkaði Muizniek fyrir mikilsvert erindi. Hún benti á að Norðurlandaráð hefði þá stefnu í alþjóðamálum að reyna að stuðla að því að lýðræði, grunngildi réttarríkisins og mannréttindi væri ávallt ofarlega á baugi. Jafnframt legðu Norðurlönd sérstaka áherslu á þau svið þar sem þau væru í fararbroddi og gætu haft áhrif, t.d. réttindi barna, kvenna, kynferðislegra minnihlutahópa, fatlaðra einstaklinga og frumbyggja. Silja sagði á Norðurlöndunum væru menn þeirrar skoðunar að tjáningarfrelsi, lítil spilling, réttlátt og traust réttarkerfi og jafnir möguleikar fyrir alla, óháð kynhneigð og fjölskyldutengslum, væru forsendur fyrir sterku hagkerfi, skilvirku samfélagi og hamingju fólks. Silja hvatti til þess að fundarmenn beittu sér fyrir þessum gildum í verki þannig að þau yrðu ekki bara orðin tóm.
    Dr. Alexander Graef frá Stofnun um friðarrannsóknir og stefnumótun í öryggismálum við Hamborgarháskóla flutti erindi þar sem hann færði rök fyrir því að fælingarmáttur gæti ekki einn sér tryggt frið á Eystrasaltssvæðinu heldur þyrfti að vinna að því að byggja upp traust milli landa. Töluverðar umræður urðu í kjölfarið meðal þingmanna um það hvort herbúnaður Rússa á Kaliníngrad-svæðinu væri ætlaður til varnar eða árása.
    Undir liðnum „Framtíð starfa“ var fjallað um áhrif stafrænnar þróunar, alþjóðavæðingar, lýðfræðilegrar þróunar og fleiri þátta á vinnumarkaðinn á Eystrasaltssvæðinu. Töluvert var rætt um stöðu farandverkamanna frá Póllandi og Eystrasaltsríkjunum sem starfa á Norðurlöndum, í Þýskalandi og víðar. Danski þingmaðurinn Christian Juhl sagði að staða pólskra verkamanna í Danmörku væri vond og að dönsk og pólsk stjórnvöld bæru sameiginlega ábyrgð á því að gera úrbætur.
    Þriðji hluti ársfundarins var helgaður umræðum um hafið. Skýrt kom fram að ástand Eystrasaltsins væri ekki gott. Finnski þingmaðurinn Saara-Sofia Sirén, skýrslugjafi BSPC um ofauðgun sjávar, sagði að dregið hefði úr flæði næringarefna í Eystrasaltið en að róttækra aðgerða væri engu að síður þörf. Hún sagði að loftslagsbreytingarnar mundu gera stöðuna verri. Hún nefndi að hringrásarhagkerfið gæti dregið úr skaðlegum áhrifum til framtíðar en þó ekki bætt þann skaða sem þegar hefði orðið og að úrbætur væru tímafrekar og flóknar og að árangurinn yrði lengi að koma í ljós.
    Fjórða og síðasta þemað sem fjallað var um á ársfundinum voru fólksflutningar og aðlögun innflytjenda. Thomas Martikainen, forstjóri finnsku fólksflutningastofnunarinnar, kynnti væntanlega skýrslu vinnuhóps BSPC um þetta málefni. Hann benti á að á síðustu árum hefðu þúsundir verkefna á sviði aðlögunar innflytjenda verið sett af stað í Evrópu. Í mörgum tilvikum hefðu menn verið að finna upp hjólið á ný vegna þess að þeir hefðu ekki vitað af sams konar verkefnum í öðrum löndum. Betra væri að starfa meira saman og skiptast á upplýsingum. Hann nefndi t.d. að íhuga mætti að samræma móttöku og málsmeðferð flóttamanna í löndum innan og utan Evrópusambandsins og jafnframt mætti gera samkomulag um ákveðnar lágmarkskröfur um aðbúnað barna og ungmenna sem leita hælis. Einnig mætti starfa saman að öflun upplýsinga og því koma upp sameiginlegum gagnagrunni um aðstæður í upprunalöndum flóttamanna.
    Lokaályktun ársfundarins var samþykkt samhljóða. Í henni er hvatt til þess að utanríkis- og forsætisráðherrar aðildarlanda Eystrasaltsráðsins (CBSS) taki á ný upp reglulega fundi og að samstarf annarra ráðuneyta verði eflt. Jafnframt eru löndin hvött til að taka höndum saman í baráttunni gegn misvísandi upplýsingum, hryðjuverkum og öfgastefnu með mannréttindi og gildi réttarríkisins að leiðarljósi. Hvatt er til nánara samstarfs um áskoranir tengdar breytingum á vinnumarkaði sem eru að verða vegna stafrænnar tækni, lýðfræðilegrar þróunar og fleiri þátta og jafnframt til þess að jafnrétti verði aukið á vinnumarkaði og staða kvenna styrkt. Þingmannaráðstefna Eystrasaltssvæðisins vill að samstarf í umhverfismálum verði eflt og að gerður verði lagalega bindandi alþjóðasamningur um meðhöndlun plastúrgangs. Einnig er í ályktuninni hvatt til þess að samstarf um málefni innflytjenda og flóttamanna verði aukið og að kannað verði hvort hægt sé að gera samning um fólksflutninga sem gildi á öllu svæðinu.
    Litháíski þingmaðurinn Valerijus Simulik var kjörinn nýr forseti BSPC. Fráfarandi forseti, Jorodd Asphjell frá Noregi, og sænski þingmaðurinn Pyry Niemi verða varaforsetar. Í ræðu við lok ársfundarins sagði Simulik að í formennskutíð Litháa í samtökunum yrði lögð sérstök áhersla á notkun vísinda og tækni til að efla nýsköpun og hagþróun.

6. Verðlaun Norðurlandaráðs.
    Verðlaun Norðurlandaráðs eru fimm, þ.e. bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun, náttúru- og umhverfisverðlaun, kvikmyndaverðlaun og barna- og unglingabókmenntaverðlaun. Þau eru að upphæð 350 þús. danskar kr.
    Verðlaun ráðsins árið 2019 voru afhent 29. október við hátíðlega athöfn í Stockholms Koncerthus í Stokkhólmi í tengslum við þing Norðurlandaráðs. Afhending verðlaunanna var með þeim hætti að öllum tilnefndum var boðið til athafnarinnar og tilkynnt um verðlaunahafa og verðlaun afhent samtímis.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs hefur verið úthlutað árlega síðan 1962. Þau eru veitt fyrir fagurbókmenntir sem skrifaðar eru á einu af málum Norðurlandanna. Til greina koma skáldsögur, leikrit, ljóða-, smásagna- eða ritgerðasöfn og önnur bókmenntaverk og skulu verðlaunaverkin hafa til að bera mikið listrænt og bókmenntalegt gildi. Markmið verðlaunaveitingarinnar er að auka áhuga Norðurlandabúa á bókmenntum og málum nágrannalandanna og á sameiginlegri menningararfleifð Norðurlanda.
    Bókmenntaverðlaunin 2019 komu í hlut Jonas Eika frá Danmörku fyrir smásagnasafnið Efter solen en hann notaði þakkarræðu sína til að átelja danska forsætisráðherrann Mette Frederiksen, sem var viðstödd athöfnina, fyrir stefnu ríkisstjórnar hennar í málefnum innflytjenda.
    Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Handhafi bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2019 er ungur rithöfundur en smásagnasafn hans Efter Solen kom dómnefndinni á óvart og heillaði hana með hnattrænu sjónarhorni, næmum og myndrænum stíl og getu til að tala inn í pólitískar áskoranir samtímans, án þess þó að lesandanum finnist hann á nokkurn hátt leiddur áfram. Jonas Eika skrifar um veruleika sem lesandinn kannast við, hvort sem sögusviðið er Kaupmannahöfn, Mexíkó eða Nevada – meðal spákaupmanna, heimilislausra drengja eða fólks sem trúir á geimverur. En ljóðrænir töfrar liggja í loftinu. Raunveruleikinn opnar á aðra möguleika, aðrar víddir. Þar bíður okkar eitthvað dásamlegt og fullt vonar sem minnir okkur á að bókmenntirnar eru færar um annað og meira en að spegla það sem við þekkjum nú þegar.“

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs.
    Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1965. Fram til ársins 1988 voru þau afhent annað hvert ár en frá 1990 hafa þau verið veitt á ári hverju, annað árið til tónskálds og hitt árið til tónlistarflytjenda. Tónlistarverðlaununum er ætlað að vekja athygli á tónlistarsköpun og tónlistarflutningi sem telst hafa mikið listrænt gildi.
    Gyða Valtýsdóttir hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2019 fyrir tónlistarflutning með afgerandi rödd, frumlegum hljóðfæraleik og miklum persónutöfrum.
    Rökstuðningur dómnefndar hljóðar svo: „Gyða Valtýsdóttir er menntuð í sígildri tónlist en hefur ekki einskorðað sig við neina tiltekna tónlistarstefnu. Ung að árum var hún einn stofnmeðlima hinnar rómuðu tilraunakenndu rafsveitar Múm. Síðan þá hefur hún verið áberandi sem fjölhæfur flytjandi í flokki þess íslenska tónlistarfólks sem hefur getið sér gott orð á erlendri grund. Gyða er menntuð í sellóleik en síðastliðin ár hefur hún bæði flutt frumsamda tónlist og átt í samstarfi við tónlistarfólk úr ýmsum áttum. Menntunin hefur nýst henni sem grunnur til að fara eigin leiðir og veita áheyrendum hlutdeild í heildrænni, samfelldri tónlistarnálgun með aðdáunarverðum sköpunarkrafti. Gyða hrífur áheyrendur sína með einstökum flutningi sem einkennist af áhrifaríkri tilfinningu fyrir mótun hendinga og fraseringu. Hún hefur mikla sérstöðu sem flytjandi og nærvera hennar á sviði er bæði heillandi og einstök – viðkvæm og óræð en jafnframt kraftmikil. Flutningur hennar er ákaflega persónulegur, samfelldur og framúrskarandi, hvort sem hún leikur á selló, syngur á sinn sérstæða hátt eða leikur á önnur hljóðfæri, og ávallt liggur frumleikinn til grundvallar.
    Gyða flytur tónlist þvert á tónlistargeira og brúar bilin sem aðskilja þá með óvenjulegum hætti, ekki síst með því að líta framhjá því að skörp skil séu á milli mismunandi greina tónlistar. Og hvort sem um er að ræða hennar eigin tónlist eða annarra einkennist flutningurinn af persónulegum frumleika og hugvitssemi.“

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.
    Umhverfisverðlaunum Norðurlandaráðs var komið á fót árið 1995. Verðlaunin eru veitt fyrirtæki, stofnun, samtökum eða einstaklingi sem skilað hefur sérstöku framlagi til náttúru- og umhverfisverndar.
    Sænski umhverfisaðgerðasinninn Greta Thunberg hlaut umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs en afþakkaði þau í mótmælaskyni við aðgerðaleysi stjórnvalda í loftslagsmálum. Fulltrúar frá samtökunum FridaysForFuture voru viðstaddar afhendinguna fyrir hönd Gretu þar sem hún var stödd á ferðalagi vestanhafs.
    Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2019 hlýtur Greta Thunberg fyrir að hafa blásið auknu lífi í umræðuna um loftslags- og umhverfismál á örlagaríkum tímapunkti í veraldarsögunni og orðið milljónum manna um allan heim innblástur til að krefjast veigamikilla aðgerða af hálfu stjórnmálamanna.
    Síðan Greta fór í sitt fyrsta skólaverkfall hefur hún ekki aðeins komið af stað alþjóðlegri loftslagshreyfingu heldur einnig vakið okkur til umhugsunar um neyslumynstur okkar og bent á þörfina fyrir pólitískar aðgerðir til að minnka neyslu á vörum og þjónustu sem útheimtir mikið af jarðefnaeldsneyti og öðrum auðlindum. Með eigin skýra fordæmi hefur Greta vísað fjölda fólks veginn og vakið það til vitundar með aðferðum sem virðast þegar hafa haft áhrif á neyslu almennings og ferðavenjur, alveg í takt við tólfta heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: „Ábyrg neysla og framleiðsla“, sem er einnig þema umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs nú í ár.
    Á skömmum tíma hefur Gretu tekist betur en nokkrum öðrum að auka meðvitund almennings í norrænu löndunum og annars staðar í heiminum um loftslags- og umhverfismál. Af þrautseigju og sannfæringarkrafti hefur hún hvatt heimsbyggðina til að taka mark á rannsóknaniðurstöðum og grípa til aðgerða á grunni staðreynda. Hún hefur þegar látið svo mikið að sér kveða að talað er um hnattræn „Gretu Thunberg-áhrif“.
    Greta hefur bæði náð til leiðtoga og ráðamanna heimsins og barna og ungmenna í norrænu löndunum, Evrópu og víðar. Með því að hvetja stjórnmálamenn til að taka loftslags- og umhverfisvána alvarlega og láta ekki staðar numið við að ræða ný og umhverfisvænni störf hefur hún stuðlað að auknu jafnvægi í stjórnmálaumræðunni.
    Þegar hún mætir andstöðu og fær að heyra frá fullorðnum að ekki taki því að láta sig þessi mál varða, að það sé hvort sem er um seinan, svarar hún: „… maður er aldrei of lítill til að leggja sitt af mörkum.“ Og það hefur hún svo sannarlega sýnt.“

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð veitti kvikmyndaverðlaun í fyrsta sinn á 50 ára afmælisþingi þess árið 2002. Frá 2005 hafa þau verið veitt árlega til handritshöfunda, leikstjóra og framleiðenda, og skipst jafnt milli þeirra. Til þess að hljóta verðlaunin verður viðkomandi að hafa gert kvikmynd sem á rætur í norrænni menningu og hefur til að bera listrænan frumleika og sameinar alla þætti myndarinnar í heilsteyptu verki.
     Dronningen eftir May el-Toukhy, handritshöfund og leikstjóra, Maren Louise Käehne, handritshöfund og framleiðendunum Caroline Blanco og René Eztra, framleiðendur, hlaut kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2019. Í rökstuðningI dómnefndar segir: „Fjallar myndin um miðaldurskrísu? Um stétt? Eða girnd og ástríðu? Gerist aðalpersónan sek um kynferðislega misnotkun, eða er hún ef til vill siðblind? Við eigum því að venjast að kvikmyndir hafi skýra meginhugsun; við vitum nánast alltaf hvort persónur kvikmynda eru góðar eða vondar. Í Dronningen láta leikstjórinn May el-Toukhy og meðhöfundur hennar Maren Louise Käehne okkur áhorfendum það eftir að átta okkur á kjarna og boðskap myndarinnar og dæma um gjörðir aðalpersónunnar Anne, sem gerir einmitt það sem EKKI á að gera – tekur upp ástarsamband við stjúpson sinn. Það einkennilega er hvað áhorfandanum finnst viðeigandi að axla þá ábyrgð. Það er ekki ánægjulegt að kynnast Anne – en það er höfug ánægja fólgin í því að upplifa þéttriðna kvikmynd sem gefur áhorfendum réttu tólin til að átta sig á eigin afstöðu til flókinnar persónu. Og treystir þeim til að geta það. Ekki er annað hægt en að vekja sérstaka athygli á Trine Dyrholm fyrir stórkostlega blæbrigðaríka frammistöðu sem Anne „drottning“, en Dronningen er sannkallað afrek á öllum sviðum – hvort sem um ræðir myndatöku, tónlist, listræna stjórnun, handrit eða annað. Útkoman er kvikmynd þar sem hið allt að því ógerlega virðist létt og fyrirhafnarlítið.

Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs voru veitt í fyrsta skipti árið 2013. Verðlaunin skulu veitt á hverju ári fyrir bókmenntaverk sem er skrifað fyrir börn og ungmenni á einu af tungumálum norrænu landanna. Bókmenntaverkin geta verið í formi ljóða, prósa, leikrits, samspil texta og mynda, eða annað verk sem uppfyllir miklar bókmenntalegar og listrænar kröfur.
    Kristin Roskifte frá Noregi hlaut verðlaunin fyrir verk sem er öðruvísi og einstakt innan sinnar bókmenntagreinar. Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, afhenti verðlaunin.
    Rökstuðningur dómnefndar hljómar svo: „Verðlaunabókin í ár hefur dálítið torræðan titil. Hann vísar öðrum þræði til þess að bókin fellur í flokk barnabóka sem kenna börnum tölustafi og innihalda gjarnan ríkulegar myndskreytingar, en hefur einnig aðra og mikilvægari merkingu: að allir teljist með og hafi vægi; að allt fólk sé einstakt og einhvers virði. Myndum af litríkum persónum fer fjölgandi með hverri síðu. Í fyrstu sjáum við einn strák sem horfir upp til stjarnanna og að lokum þúsund manns sem virða fyrir sér sjaldséða halastjörnu. Þó að teikningarnar séu stílhreinar og persónurnar margar hefur hver þeirra einstaklingsbundin sérkenni sem gera lesandanum kleift að þekkja hana aftur. Ein af annarri birtast persónurnar í ýmiss konar ólíku samhengi og umhverfi, hver með sitt eigið, einstaka líf. Texti bókarinnar er bæði ljóðrænn og kíminn, kveikir forvitni lesandans og styður við túlkun hans á myndskreytingunum. Með Alle sammen teller setur Kristin Roskifte texta og myndir í samhengi sem er öðruvísi og einstakt í flokki barnabóka af þessu tagi. Þessa bók er hægt að lesa margoft og koma stöðugt auga á eitthvað nýtt.“

7. Starfsáætlun og áherslur Norðurlandaráðs árið 2019.
    Íslendingar fara með formennsku í Norðurlandaráði 2020. Silja Dögg Gunnarsdóttir er forseti ráðsins 2020 og Oddný G. Harðardóttir varaforseti.
    Árið 2020 verður vorþing Norðurlandaráðs haldið dagana 30.–31. mars í Helsinki og aðalþingfundur ráðsins verður haldinn 26.–29. október í Reykjavík.
    Helstu áhersluatriði í formennskuáætlun Íslendinga árið 2020 eru baráttan gegn upplýsingaóreiðu og falsfréttum, tungumálaskilningur innan Norðurlanda og líffræðileg fjölbreytni.

Alþingi, 3. febrúar 2020.

Silja Dögg Gunnarsdóttir,
form.
Oddný G. Harðardóttir,
varaform.
Vilhjálmur Árnason.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. Steinunn Þóra Árnadóttir. Guðmundur Ingi Kristinsson.
Anna Kolbrún Árnadóttir.



Fylgiskjal I.

Tilmæli Norðurlandaráðs og ákvarðanir um innri málefni árið 2019.


Tilmæli.
Tilmæli 1/2019 – Fjármögnun Norrænnar kvikmyndanefndar.
Tilmæli 2/2019 – Hrundið verði af stokkunum norrænu tónlistarverkefni – Spil Nordisk.
Tilmæli 3/2019 – Einkaréttarlegt samstarf á Norðurlöndum eflt.
Tilmæli 4/2019 – Áframhaldandi einkaréttarlegt samstarf á Norðurlöndum.
Tilmæli 5/2019 – Norðurlönd verði í fararbroddi við að sporna gegn félagslegri einangrun.
Tilmæli 6/2019 – Samnorræn nefnd um siðfræðilega viðurkenningu á klínískum rannsóknum.
Tilmæli 7/2019 – Samnorræn nefnd um siðfræðilega viðurkenningu á klínískum rannsóknum.
Tilmæli 8/2019 – Fjárhagsáætlun norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2020.
Tilmæli 9/2019 – Fjármögnun norrænu samstarfsstofnananna.
Tilmæli 10/2019 – Samstarfsáætlun norrænu ráðherranefndarinnar um menntun og rannsóknir 2019–2023.
Tilmæli 11/2019 – Norræn framkvæmdaáætlun um sjaldgæfa sjúkdóma.
Tilmæli 12/2019 – Samnorrænt faggildingarkerfi fyrir osteópata.
Tilmæli 13/2019 – Betri skilyrði fyrir hreyfanleika nemenda við lýðháskóla og samstarf lýðháskóla á Norðurlöndum.
Tilmæli 14/2019 – Breytt regluverk um námsstyrki.
Tilmæli 15/2019 – Norrænt samstarf gegn heiðurskúgun.
Tilmæli 16/2019 – Rafrænir lyfseðlar á Norðurlöndum.
Tilmæli 17/2019 – Loftslagsvænn byggingariðnaður á Norðurlöndum.
Tilmæli 18/2019 – Efling hinna norrænu umhverfisfjármögnunarleiða.
Tilmæli 19/2019 – Nefndartillaga um sjálfbæra neyslu og framleiðslu.
Tilmæli 20/2019 – Norðurlöndin sem forustusvæði á sviði sjálfbærs fiskeldis og bláa hagkerfisins.
Tilmæli 21/2019 – Gagnkvæm viðurkenning á menntun og starfsréttindum á hliðstæðum starfssviðum.
Tilmæli 22/2019 – Árleg vog yfir norræna samþættingu.
Tilmæli 23/2019 – Samstarf um ferðaþjónustu á norðurskautssvæðinu.
Tilmæli 24/2019 – Að tryggja margbreytileika í stjórnum fyrirtækja og efla þannig hæfni innan þeirra.
Tilmæli 25/2019 – Minni losun frá flugvélum.

Ákvarðanir um innri málefni.
Innri ákvörðun 1/2019: Stefna Norðurlandaráðs um samfélagsöryggi.
Innri ákvörðun 2/2019: Breytingar á greinum 44, 65 og 83 í starfsreglum Norðurlandaráðs.



Fylgiskjal II.


Norðurlönd sérhvern dag – lýðræði og almennur stuðningur.


    Norrænt samstarf nýtur mikils stuðnings almennings og snertir öll svið mannlífsins sérhvern dag. Við störfum saman á grundvelli sameiginlegrar sögu okkar, menningar og gilda. Árin 2018–2022 vekur sænska þingið athygli á og fagnar hundrað ára lýðræðisafmæli í Svíþjóð. Meðan Svíar gegna formennsku í Norðurlandaráði vill landsdeild Svíþjóðar af þessu tilefni leggja áherslu á þýðingu lýðræðis fyrir velsæld Norðurlanda. Samband norrænu félaganna fagnar einnig aldarafmæli árið 2019 og landsdeildin hyggst því jafnframt leggja áherslu á einstakt samstarf norrænu þjóðanna og undirstöðu þess – hinn almenna stuðning almennings í löndunum. Norrænt samstarf á rætur sínar að rekja til persónulegra tengsla milli landanna. Hefð er fyrir breiðum stuðningi við norræna samþættingu og norrænt samstarf. Norrænt samstarf er t.d. stundað í atvinnulífinu og hjá stéttarfélögum, stjórnmálaflokkum og félagasamtökum og allt er þetta samþætt á norræna vísu.
    Í formennskuáætlun landsdeildar Svíþjóðar fyrir árið 2019 er lýðræði á Norðurlöndum og víðtæku almennu samstarfi gert hátt undir höfði með þeirri áherslu sem lögð er á mál sem eru efst á baugi um þessar mundir og betri árangri skilar ef löndin vinna saman að þeim en hvert fyrir sig, enda hefur það í för með sér norrænt notagildi. Ætlunin er að létta undir með borgurunum í dagsins önn, skiptast á upplýsingum um reynslu af umbótum á ýmsum sviðum samfélagsins og afla samnorrænum gildum stuðnings á alþjóðavettvangi.
    Norðurlönd hafa þörf fyrir víðfeðman norrænan opinberan vettvang þar sem unnt er að skiptast á skoðunum um samnorræn álitaefni og þannig tryggja lýðræðislegan grundvöll undir norrænt samstarf og aukna norræna samþættingu.
    Félagslegt traust, sem einkennir okkar norrænu lönd, er mikilvægt fyrir þátttöku í stjórnmálalífi og almennri lýðræðislegri þróun. Grundvallarreglur lýðræðisins, almennur og jafn kosningaréttur, jafnrétti kynjanna og upplýsingaréttur almennings, urðu m.a. til fyrir tilstuðlan almennra borgara og á grundvelli almennra þjóðfélagsviðhorfa. Landsdeild Svíþjóðar vill nýta fundi, ráðstefnur, þemaþing og loks Norðurlandaráðsþingið í Stokkhólmi á árinu 2019 til að varpa ljósi á hve mikla þýðingu innleiðing lýðræðis hefur haft og sömuleiðis almennur stuðningur sem lýsir sér í þátttöku og aðild borgaranna eða fulltrúa þeirra að öllum þáttum ákvarðanaferlis.
    Til að standa vörð um samfellu og gildi norræns samstarfs hyggjast Svíar hafa hliðsjón af fyrri formennskuáætlunum á meðan þeir fara með formennsku og halda áfram umfjöllun um þau málefni líðandi stundar sem heyra undir ábyrgðarsvið forsætisnefndar og fagnefndanna. Áætlunin á því að rúmast innan núverandi starfsemi og tryggja að norrænt samstarf njóti einnig framvegis viðurkenningar.

Jafnrétti – forsenda lýðræðis.
Lýðræðissjónarmiðið og mikilvægi almenns stuðnings.
    Jafnrétti kynjanna er eitt af grundvallaratriðum lýðræðis og vegur þungt á metunum í norrænu samstarfi. Samfélag sem byggist á jafnrétti er flaggskip Norðurlanda og ein af ástæðum þess hve góðan árangur norræna líkanið hefur borið. Mismunun gagnvart konum á sér þó enn stað á Norðurlöndum. Jafnréttismál þurfa því að vera með helstu áherslumálum Norðurlanda við þróun þeirra á sjálfbæru lýðræði sem einkennist af þátttöku og jöfnum áhrifum.
    Norðurlönd hafa átt með sér gott samstarf um jafnréttismál í meira en 40 ár og jafnrétti skilgreinir löndin okkar. Enn er þó verk að vinna á þessu sviði, t.d. hvað varðar kynbundnar starfsgreinar, ástæðulausan launamun og ofbeldi gegn konum. Þrátt fyrir margra ára baráttu fyrir fullu efnahagslegu jafnrétti njóta konur enn ekki jafnrar aðstöðu og karlar til þátttöku á vinnumarkaðnum, starfslengdar og starfsframa. Staða kvenna af erlendum uppruna krefst sérstakrar athygli. Norrænu löndin standa frammi fyrir hliðstæðum áskorunum varðandi aðlögun og þátttöku. Þörf er á langtímaráðstöfunum á sviði jafnréttismála í mörgum málaflokkum og með þátttöku margra aðila á sveitar- og svæðisstjórnarstigi sem og á landsvísu til að draga úr og vinna gegn jaðarsetningu í samfélaginu. Jafnréttisstarfið þarf ekki síður að vera viðfangsefni drengja og karla eigi að breyta viðmiðum í samfélaginu og staðalmyndum.
    Árið 2019 hefur landsdeild Svíþjóðar hug á að leggja áherslu á skilvirkara jafnréttisstarf í löndunum, að þau læri hvert af öðru og leitist áfram við að hafa áhrif á t.d. launamun, ójöfn valdahlutföll og jaðarsetningu til að gera aukna aðlögun og þátttöku í lýðræðisstarfi mögulega.
          Hvernig á að jafna tækifæri kynjanna til að hafa völd og áhrif (hlutfall í valdastöðum stuðlar ekki ætíð að jafnri skiptingu)?
          Hvað þurfa norræn lönd að gera til að eyða kynbundnum launamun?
          Hvernig má auka atvinnuþátttöku kvenna af erlendum uppruna, draga úr jaðarsetningu og skapa forsendur fyrir aukinni lýðræðislegri þátttöku þeirra?
          Hvað geta löndin lært hvert af öðru? Hvernig fer samspil stjórnmála og borgaralegs samfélags fram? Til hvaða ráðstafana þarf að grípa til að tryggja jafnrétti og lýðræði í samfélaginu?

Stafvæðing og stafræn hæfni – nýjar forsendur lýðræðis.
Lýðræðissjónarmiðið og mikilvægi almenns stuðnings.
    Stafvæðingin hratt af stað mestu samfélagsbreytingum sem orðið hafa frá upphafi iðnvæðingar. Fyrir vikið gjörbreyttust skilyrði, þarfir og aðstæður einstaklinga og samfélagsins, fyrirtækja og opinbera geirans, vinnumarkaðar, menntakerfis og félagasamtaka. Stafræn tækniþróun hefur áhrif á hagvöxt og sjálfbærni, velferð og jöfnuð, öryggi og lýðræði. Hún hefur breytt því hvernig fólk nálgast upplýsingar, hefur samskipti og bregst við hvert öðru og þar af leiðandi breyttust einnig aðstæður til þátttöku í samfélaginu. Í fulltrúalýðræði starfa stjórnmálaflokkar í umboði kjósenda. Norðurlönd munu einnig framvegis hafa þörf fyrir viðfeðman opinberan vettvang þar sem Norðurlandabúar geta skipst á skoðunum um sameiginleg norræn álitaefni. Stafvæðingin eflir tengslin við almenning, hún treystir böndin á milli stjórnmálamanna og kjósenda, ef hún er notuð til að kynnast hugmyndum borgaranna og gefa þeim tækifæri til að taka þátt í að leysa sameiginleg samfélagsmál.
    Stjórnsýslan á Norðurlöndum er framarlega í notkun stafrænnar tækni. Samhliða er verið að þróa hjúkrunar- og umönnunarkerfi á grunni nýrra stafrænna lausna, svo sem rafræna heilbrigðisþjónustu. Allt sem snertir stafræna þróun er ofarlega á baugi og forgangsmál hjá mörgum fagnefndum ráðsins og í formennskuáætlunum Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2018. Stafræn framþróun á vinnumarkaðinum gerir sífellt nýjar kröfur til hæfni starfsfólks. Til að mæta þörfum vinnumarkaðarins í framtíðinni þarf að fræða fólk um notkun stafrænnar tækni en það krefst forustu um stafvæðinguna og tækifæri til símenntunar.
    Landsdeild Svíþjóðar vill að Norðurlandaráð vinni sem fyrr að því á árinu 2019 að frekari uppbygging rafrænnar tækni verði notendavæn og íbúar landanna sitji í fyrirrúmi og tillit verði einnig tekið til þeirra sem kunna ekki að nota hin og þessi stafrænu kerfi. Allir, konur og karlar, stúlkur og drengir, óháð félagslegum bakgrunni, starfsgetu og aldri, eiga að njóta tækifæra til að nýta sér stafrænar upplýsingar og þjónustu hins opinbera og taka jafnan þátt í samfélaginu.
          Hvað þarf til að tryggja getu og tækifæri fólks til að leggja sitt af mörkum til stafvædds samfélags og taka þátt í því?
          Hvernig má auka hvata til að halda áfram að þróa hæfni í notkun stafrænnar tækni og getu til að taka þátt í stafvæddum vinnumarkaði og samfélagi?
          Hvað geta löndin lært hvert af öðru? Hvernig fer samspil stjórnmála og borgaralegs samfélags fram? Til hvaða ráðstafana þarf að grípa til að tryggja lýðræði í samfélaginu?

Stjórnsýsluhindranir.
Lýðræðissjónarmiðið og mikilvægi almenns stuðnings.
    Með því að fyrirbyggja og leysa úr stjórnsýsluhindrunum getur Norðurlandaráð létt fólki lífið. Stjórnsýsluhindranir varða raunhæf og hversdagsleg vandamál. Til að stuðla að frekari samþættingu á Norðurlöndum verður að fækka hindrunum í löndunum og ráða bót á upplýsingaskorti sem torveldar fólki að flytjast búferlum, sækja vinnu, stunda nám eða reka fyrirtæki yfir landamæri. Mál sem varða stjórnsýsluhindranir og koma endurtekið til umfjöllunar eru m.a. rafrænir lyfseðlar, fjarlækningar, tækifæri til að ferðast, nema og vinna á landamærasvæðum, bættar aðstæður í byggingariðnaði, gagnkvæm viðurkenning á starfsréttindum, jafngild menntun, kröfur um starfshæfni og hvernig ryðja megi burt hindrunum fyrir starfsfólk í menningargeiranum.
    Landsdeild Svíþjóðar vill að stjórnsýsluhindranir verði áfram forgangsmál á árinu 2019 og unnið verði gegn því að ný löggjöf í löndunum og upptaka á ESB-tilskipunum leiði af sér nýjar hindranir. Þessu á fyrirbyggjandi löggjafarsamstarf á Norðurlöndum að koma til leiðar sem og samhæfingu við innleiðingu á löggjöf ESB. Samstarfsráðherrar Norðurlanda samþykktu í september 2016 að panta skýrslu sem varpar ljósi á tækifærin fyrir norrænt löggjafarsamstarf í framtíðinni í þeim tilgangi að efla samþættingu landanna. Í lokaskýrslunni segir m.a. að mikilvægt sé að löggjafarsamstarfið njóti pólitísks stuðnings og forgangs. Hér gæti Norðurlandaráð gegnt hlutverki við að forgangsraða sviðum þar sem einkum ætti að viðhafa norrænt samstarf.
          Norðurlandaráð fylgir eftir úttekt ráðherranefndarinnar á norrænu löggjafarsamstarfi.
          Hvernig komum við í veg fyrir að ný löggjöf í löndunum og upptaka ESB-tilskipana hafi nýjar stjórnsýsluhindranir í för með sér?
          Hvað geta löndin lært hvert af öðru? Hvernig fer samspil stjórnmála og borgaralegs samfélags fram? Til hvaða ráðstafana þarf að grípa til að tryggja lýðræði í samfélaginu?

Loftslagsmál – án landamæra og senda lýðræðis og sjálfbærrar þróunar.
    Loftslagsbreytingarnar eru með stærstu áskorunum samtímans og eðli máls samkvæmt virða umhverfismál ekki landamæri. Loftslagið hefur áhrif á fæðuöryggi og hreint vatn, sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og vistkerfa, öryggi fólks, jafnrétti, heilsufar og hagvöxt. Norðurlandaráð hefur löngum látið umhverfis- og loftslagsmál til sín taka og leggur þunga áherslu á sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna og kappkostar að hafa þau sýnileg í starfsemi sinni.
    Árin 2017 og 2018 lét norræna ráðherranefndin vinna stefnumótandi úttekt á norrænu umhverfissamstarfi til að kanna ný sóknarfæri í samstarfi landanna um umhverfis- og loftslagsmál. Samkvæmt skýrslunni eru miklir ónýttir möguleikar á endurnýtingu og endurvinnslu plasts. Lagt er til að norrænu ríkin komi á fót vettvangi til að tryggja sjálfbærni plasts og styrkja hringrásarhagkerfið. Málefni sem varða plast hafa í mörg ár verið ofarlega á pólitískri dagskrá norræns samstarfs. Allir nota plast á hverjum degi. Plastnotkun getur verið byrjunarreitur í norrænu samstarfi um að raungera hringrásarhagkerfi og draga úr nýtingu náttúruauðlinda.
    Stór hluti aukningar á losun gróðurhúsalofttegunda út í gufuhvolfið á sér skýringu í hvernig við vinnum, umbreytum og brennum jarðefnaeldsneyti. Hvarvetna á Norðurlöndum er þörf á að aðlaga flutningageirann í þá veru að jarðefnaeldsneyti heyri sögunni til. Ef illa fer geta loftslagsbreytingarnar haft neikvæð áhrif á aðra þætti umhverfismála. Loftslagsmál, flutningar, loftgæði og heilbrigði eru tengd.
    Landsdeild Svíþjóðar vill að árið 2019 verði lögð áhersla á að fylgja eftir úttekt ráðherranefndarinnar og styðja við framfylgni Norðurlanda á Dagskrá 2030 og Parísarsamningnum. Landsdeildin vill enn fremur að Norðurlandaráð vinni áfram að umhverfis- og loftslagsmálum sem snerta daglegt líf, svo sem að því að draga úr plastúrgangi og örplasti og efla hringrásarhagkerfið. Þessi mál standa öllum nærri í önn hversdagsins, en jafnframt í landsbundnu, norrænu, svæðisbundnu og hnattrænu tilliti.
          Norðurlandaráð fylgir eftir skýrslu ráðherranefndarinnar um ný sóknarfæri í samstarfinu um umhverfis- og loftslagsmál.
          Hvernig geta Norðurlönd miðlað þekkingu og fordæmum sem stuðla að aukinni sjálfbærni í heiminum og hvernig eigum við á Norðurlöndum að vinna saman að því að framfylgja nýju loftslagsmarkmiðunum og Dagskrá 2030?
          Loftslagsmál, flutningar, loftgæði og heilbrigði eru tengd. Hvernig getur ráðið stuðlað að því að flutningageirinn á Norðurlöndum losni alfarið við að nota jarðefnaeldsneyti?
          Hvað geta löndin lært hvert af öðru? Hvernig fer samspil stjórnmála og borgaralegs samfélags fram? Til hvaða ráðstafana þarf að grípa til að tryggja lýðræði í samfélaginu?