Ferill 329. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1481  —  329. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um Menntasjóð námsmanna.

Frá 2. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Margt horfir til mikilla bóta í þessu frumvarpi frá núverandi framkvæmd og í breytingartillögum meiri hlutans. Þar má til að mynda nefna breytingartillögu þess efnis að sett verði á vaxtaþak þar sem kveðið er á um að vextir verðtryggðra lána fari ekki yfir 4% og vextir óverðtryggðra lána ekki yfir 9%. Þó að 2. minni hluti hefði gjarnan kosið að sjá þessar tölur lægri þá er það fagnaðarefni að nefndin skuli hafa fallið frá þeim áformum að velta svo mikilli áhættu yfir á lánþega enda hefði það gengið gegn félagslegu jöfnunarhlutverki sjóðsins.
    Frumvarpið hefði vissulega litið nokkuð öðruvísi út ef það hefði verið samið á forsendum jafnaðarmanna en einn af hornsteinum í stefnu Samfylkingarinnar er að það sé samfélagslegt verkefni og hlutverk sjóða á borð við Menntasjóð námsmanna að tryggja jafnrétti til náms óháð efnahag. Frá stofnun Lánasjóðs íslenskra námsmanna á sjöunda áratug síðustu aldar hefur hann gegnt lykilhlutverki í að gera fólki frá efnaminni heimilum kleift að mennta sig og í raun og veru gjörbreytt íslensku samfélagi. Á seinni árum hefur sjóðurinn hins vegar náð æ verr að gegna þessu hlutverki og nú er svo komið að hærra hlutfall íslenskra námsmanna kýs að vinna með námi en tíðkast í nágrannalöndum okkar. Frumvarpið ræður ekki nægilega vel bót á þessu og tryggir ekki nægilega vel markmiðið um jafnrétti til náms. Þess vegna leggur 2. minni hluti til breytingar í því skyni að tryggja að stuðningurinn sé raunverulega óháður efnahag.
    Þetta frumvarp er bót á kerfi sem tekið var að virka illa og 2. minni hluti fagnar slíkum endurbótum. Þó er ljóst að enn þarf að taka stærri skref í átt að styrktarsjóði námsmanna þar sem styrkur verði hærra hlutfall af stuðningi við námsmenn.

Um 2. gr.
    Ákvæði um framfærslulán og skýringar á ákvörðun fjárhæðar þeirra eru því miður óbreyttar í frumvarpi þessu þrátt fyrir athugasemdir þess efnis, t.d. frá Stúdentaráði Háskóla Íslands. 2. minni hluti leggur því til að við ákvæðið verði bætt skýrum fyrirmælum varðandi upphæð framfærslulána í því skyni að uppfylla markmið frumvarpsins um að öllum námsmönnum skuli gert kleift að framfleyta sér.
    Um mikilvægi slíkrar breytingar vitnar 2. minni hluti til umsagnar SHÍ, þar sem segir: „Stúdentar hafa lengi barist fyrir hærri grunnframfærslu þar sem of lág framfærsla neyðir þá til að vera á vinnumarkaði til að geta framfleytt sér á sama tíma og þeir stunda nám. Það verður til þess að tekjur stúdenta eru yfirleitt hærri en frítekjumark sem sjóðstjórn ákveður. Það leiðir svo til skerðingar á námslánum sem neyðir stúdenta til að vinna meira til að sjá fyrir sér. Þessi vítahringur hefur hingað til vissulega verið á ábyrgð stjórnar. Þar sem engar breytingar eða fyrirmæli koma fram til stjórnar vegna framfærslulána í nýju kerfi er hér tapað færi á að krefja stjórn um endurskoðun þeirra svo stúdentum verði raunverulega gert kleift að framfleyta sér í námi. Því til viðbótar má benda á að frumvarpið boðar ekki neinar efnislegar breytingar á hlutverki eða markmiði sjóðsins svo sjóðstjórn er ekki skylt að breyta framkvæmd sinni til að tryggja aðgengi að námi frekar en gert er með gildandi lögum.“

Um 4. gr.
    Samkvæmt 4. gr. miðast lánsréttur námsmanna við 420 ECTS-einingar. Það viðmið er lægra en það sem var að finna í fyrri frumvarpsdrögum þar sem kveðið var á um að 420 ECTS-einingar væru lágmarkslánsréttur en sjóðstjórn gæti hækkað það viðmið. 2. minni hluti leggur til að ákvæðinu verði breytt til fyrra horfs enda hafi námsmenn lengi kallað eftir hærri lánsrétti.
    Að mati 2. minni hluta er það mjög misráðið að einungis verði hægt að fá lán fyrir 60 ECTS-einingum í doktorsnámi á tímum þegar námsstigið býr við jafn mikið fjársvelti og raun ber vitni. Í því sambandi er rétt að benda á að styrkir til doktorsnáms eru af mjög skornum skammti og telur 2. minni hluti því nauðsynlegt að hægt verði að taka lán fyrir öllum einingum doktorsnáms. Mikil hætta er á að fólk strandi í miðju doktorsverkefni vegna vinnu til að framfleyta sér með námi með þeim afleiðingum að bæði þekking og fjármunir fari forgörðum.

Um 11. gr.
    Menntasjóður námsmanna er félagslegt jöfnunartæki til að tryggja aðgang allra að námi óháð efnahag. Menntun er eitt mikilvægasta úrræði sem völ er á fyrir fólk sem af einhverjum ástæðum er illa statt í lífinu og fýsir að koma á ný undir sig fótunum. Þetta kann að vera fólk sem er eignalítið eða eignalaust, fólk sem hefur ekki sterkt fjárhagslegt bakland eða fólk sem hefur afplánað dóm og hyggur á nýtt upphaf. Fólk sem er í slíkum aðstæðum þarf að hafa rétt til þess að taka námslán til þess að skapa sér sterkari stöðu á vinnumarkaði. Allir eiga að geta sótt sér nám óháð efnahag. 2. minni hluti tekur því undir það sem fram kemur í umsögn BHM um 11. gr. þar sem segir: „í 11. grein frumvarpsins segir að námsmaður sem ekki telst tryggur lánþegi samkvæmt úthlutunarreglum skuli leggja fram ábyrgðir fyrir lántökum sínum. BHM minnir aftur á að í fyrstu grein frumvarpsins segir að markmið laganna sé að tryggja öllum tækifæri til náms óháð efnahag. Vandséð er að 11. grein frumvarpsins samrýmist því markmiði. BHM leggur til að greininni verði breytt þannig að erfið fjárhagsleg staða komi ekki í veg fyrir að námsmaður geti nýtt sér námsaðstoð sjóðsins.“
    Annar minni hluti gerir það jafnframt að tillögu sinni að felldar verði brott málsgreinar þar sem fjallað er um hlutverk ábyrgðarmanna og leggur til að ábyrgðarmannakerfi við töku námslána verði alfarið afnumið.

Um 19. gr.
    Árin eftir námslok geta verið mörgum fjárhagslega þung í skauti, m.a. þegar margir stofna fjölskyldu með tilheyrandi fjárhagsskuldbindingum. Í ljósi þess er það óheppileg breyting að endurgreiðslur námslána hefjist einu ári eftir námslok í stað tveggja ára eins og núverandi fyrirkomulag kveður á um. 2. minni hluti gerir það því að tillögu sinni að ákvæðinu verði breytt til samræmis við núverandi framkvæmd og endurgreiðslur hefjist tveimur árum eftir námslok.

Um 21. gr.
    Nú á tímum er svo komið að fólk þarf að sækja sér endurmenntun á öllum aldri, ýmist til að afla sér meiri þekkingar á því sviði sem það hefur haslað sér völl á eða til þess söðla um vegna þess að fyrri færni og þekking nýtist af einhverjum ástæðum síður á vinnumarkaði. Fólk getur glímt við ýmsar aðstæður á öllum aldri og að mati 2. minni hluta er það ósanngjarnt að tekjutenging námslána sé ekki valkostur eftir ákveðinn aldur. Velji fólk að sækja sér aukna menntun, sama á hvaða aldri það er, ætti það alltaf að eiga kost á því að greiða af sínum námslánum sem nemur hlutfalli af tekjum. 2. minni hluti áréttar í þessu sambandi félagslegt hlutverk sjóðsins og að tekjutenging afborgana námslána er mikilvægt jöfnunarúrræði sem ber að vernda.

Ákvæði til bráðabirgða II.
    Annar minni hluti fagnar þeirri breytingu sem meiri hluti nefndarinnar leggur til á skilyrðum fyrir niðurfellingu ábyrgða sem kveður á um að viðkomandi lántaki sé ekki á vanskilaskrá. Þó vill 2. minni hluti ganga lengra og afnema alveg skilyrði fyrir brottfalli ábyrgðanna, þ.e. einnig skilyrðið um að lán sé í skilum. Hér er um réttlætismál að ræða og ekki síst í þeim tilvikum þegar fólk erfir slíkar ábyrgðir, jafnvel á lánum einstaklinga sem viðkomandi hefur aldrei heyrt getið. Hjá mörgu rosknu fólki má oft lítið út af bregða varðandi fjárhag og slíkar skuldbindingar – sem það hefur ekki sjálft undirgengist og ekki sjálft skrifað upp á ábyrgð fyrir – geta því orðið þungur baggi, með tilheyrandi áhyggjum. Mörg dæmi eru um slík tilvik. Þetta er óréttlátt kerfi og á því verður ekki ráðin bót nema ábyrgðarmannakerfið verði afnumið með öllu, skilyrðislaust.
    Að framangreindu virtu leggur 2. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 19. maí 2020.

Guðmundur Andri Thorsson.